Fréttir
  • Í Grímsey föstudag

Fyrsta ferð Grímseyjarferjunnar Sæfara

Ferðin gekk vonum framar

11.4.2008

Nýi Sæfari fór sína fyrstu ferð til Grímseyjar frá Dalvík á föstudag kl 10:30

Ferðin gekk framar vonum þrátt fyrir skítabrælu, norðaustan og 3,8 m ölduhæð. Sæfari hinn nýi var þrjá tíma og fjórðung betur á leiðinni en skipstjórinn Sigurjón Herbertsson taldi að gamli Sæfari hefði verið fjóra til fjóra og hálfan tíma í ferðinni. Skipið lét mjög vel í ferðinni og tóku Grímseyingar vel á móti því á byrggjunni með fánum, lúðrablæstri og tilbúnu hlaðborði. Grímseyingar vænta þess að hin nýja ferja geri þeim kleift að styrkja ferðamannaþjónustuna í Grímsey

Hið nýja skip er 39,6 m langt og 10,0 m breitt, það getur flutt 108 farþega og 160 tonn af farmi. Sæfari er búinn tveimur 1400 hestafla vélum (2800 hestöfl alls) og gengur nýja ferjan hraðar en gamli Sæfari. Siglingatími styttist a. m. k. um hálftíma. Aðstaða til farþegaflutninga batnar til muna með nýju skipi og er ferjan búinn tveimur farþegasölum, öðrum með “flugvélarsætum” en hinn salurinn er þannig að sest er niður við borð. Sjónvarp er hægt að sjá í báðum sölum.

Sæfari var upphaflega smíðaður árið 1992 en keyptur hingað til lands í desember árið 2005 og fóru fram verulegar endurbætur á skipinu. Byggð var ný lest, efri lest, þannig að farmlestar eru nú tvær. Settur var upp öflugur lúgubúnaður til að opna neðri lestina, sem og tvennar dyr aftur á dekkið úr efri lestinni, á hlið skipsins og aftur úr skipinu. Byrðingur skipsins hefur verið styrktur og lekastöðugleiki tryggður eftir reglum Evrópusambandsins, Siglingastofnunar og flokkunarfélags skipsins. Perustefni var sett á skipið. Þá hefur aðstaða áhafnar verið bætt verulega, sett hefur verið upp aðstaða fyrir skipstjóra aftan við brú, eldhús við neðri farþegasal og matsalur fyrir áhöfnina. Aðgengi hreyfihamlaðara hefur verið bætt sem og salernisaðstaða. Viðgerðir og endurbætur fóru að mestu fram hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar í Hafnarfirði en einnig hjá Slippnum Akureyri.

Kostnaður við kaup, viðgerðir og endurbætur nemur rúmum 530 milljónum króna og skiptist þannig:

Kaupverð 103,6

Undirbúningur, hönnun, eftirlit og önnur sérfræðiþjónusta 60,8

Verkkaup 283,6

Varahlutir þ.m.t. lúgubúnaður 71,8

Öryggisbúnaður, rekstur, ýmislegt 12,4

Samtals 532,2 millj. kr

Grimsey29

Grimsey32

Grimsey35

Grimsey45

Grimsey48

Grimsey33