Fréttir
  • Frá fundi Samgönguráðs 21. nóv.

Stefnumótun í samgöngum

fjórði fundur Samgönguráðs

22.11.2007

Fjórði fundur Samgönguráðs um stefnumótun í samgöngum var haldinn 21. nóvember og fjallaði um samgöngur og umhverfi. Að Samgönguráði standa Vegagerðin, Siglingastofnun Íslands, Flugmálastjórn Íslands og samgönguráðuneytið.

Matthildur Bára Stefánsdóttir deildarstjóri hjá Vegagerðinni fjallaði um það hvað gert er hjá Vegagerðinni til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda og mengun. En tvennt kemur til, annarsvegar áhrif á umferðina en til dæmis leiða styttri vegalengdir til minni útblásturs og hinsvegar notkun Vegagerðarinnar á mengandi efnum sem reynt er að draga úr eftir megni. Nefna má hugmyndir um að nota repju í stað terpentínu þegar lögð er klæðing á veg.

Jón Bernódusson skrifstofustjóri hjá Siglingamálastofnun talaði um möguleika á að nota repju til að koma í stað olíu á skip. Hann benti á að með því að rækta repju hér á landi, mætti núllstilla útblástur gróðurhúsalofttegunda skipaflotans því ræktunin myndi binda jafnmikið af koltvísýringi og flotinn myndi brenna. Rækta þyrfti á svæði sem er 30 sinnum 30 kílómetrar að stærð.

Sveinn V. Ólafsson verkfræðingur hjá Flugmálastjórn talaði um nýja reglur í Evrópu sem kveða á um mikla minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda í fluginu, nái þær fram að ganga. Í Evrópuráðinu hefur verið samþykkt að árið 2011 eigi útblástur flugflotans að vera 10 prósentum en í viðmiðunarárum 2004-2006. Þetta taldi Sveinn afar erfitt því gífurleg aukning hefði orðið í fluginu frá þessu tímabili og fyrirsjáanleg enn meiri aukning þannig að í raun væru menn að tala um tugprósenta minnkun sem erfitt yrði á ná fram á nánast engum tíma.