Fréttir
  • Brotljósastaur

Ljósastaurar og vegrið

umferðaröryggismál í forgangi

6.11.2007

Umferðaröryggismál eru í forgangi hjá Vegagerðinni og er af mörgu að taka í vegakerfinu, þess vegna þarf líka að forgangsraða þeim verkefnum.

Vegna fréttar í Ríkisútvarpinu í dag um ljósastaura og vegrið er rétt að benda á eftirfarandi:

Hjá Vegagerðinni hafa menn gert sér grein fyrir stöðu ljósastauranna á Reykjanesbraut og Vesturlandsvegi sem menn á vegum EuroRapverkefnisins hafa gert athugasemdir við. Frá því í sumar hefur verið í gangi vinna við að yfirfara ástandið. Hersla á boltum í svoköll­uð­­um brotstaurum reyndist ekki rétt og hefur það verið lagfært víða og unnið er að því að ljúka þeirri vinnu. Flestir staurarnir á Reykjanesbrautinni voru settir upp árið 1996 og þá eftir gildandi staðli, amerískum, þeir voru árekstrarprófaðir. Nýr Evrópustaðall var tekinn í notkun hér á landi árið 2000.

Íslenskur framleiðandi fékk leyfi til að framleiða ljósastaura eftir sömu teikningu og bandaríska fyrirtækið notaði við hönnun stauranna á Reykjanesbrautinni og núna er vinna í gangi milli framleiðandans og breskra aðila um að tryggja að staurarnir standist hinn nýja Evrópustaðal með árekstrarprófun.

Rétt er í þessu sambandi að benda á að allar hindranir við vegi skapa hættu og meginreglan ætti að vera sú að setja ekki upp lýsingu með þessum hætti nema í þéttbýli þar sem ökuhraði er minni.

Í ljósi þessa alls hefur Vegagerðin einnig hafið vinnu við að skilgreina og semja leiðbeiningar um hvernig staura megi nota, hvaða vottun þeir þurfi að hafa og svo framvegis. Mismunandi er hvernig staura er rétt að nota og fer það eftir umferðar­hraðanum og hvort um veg fari einnig gangandi, hjólandi eða ríðandi vegfarendur. Til dæmis má ekki nota brotstaura í þeim tilvikum. Einnig hefur verið ákveðið að gera það að skilyrði við útboð eða kaup á brot- eða krumpuljósastaurum að þeir séu vottaðir og uppfylli þar af leiðandi evrópska framleiðslustaðla.

Varðandi vegrið á Þjórsárbrú og Borgarfjarðarbrú þá voru þau sett upp samkvæmt þágildandi reglum um vegrið á brúm. Borgarfjarðarbrúin var tekin í notkun árið 1980 og Þjórsárbrúin 2003. Nýr íslenskur staðall var settur árið 2006 þar sem kröfur um vegrið á brúm eru hertar í samræmi við kröfur sem gerðar eru annarsstaðar á Norðurlöndum.