Fréttir
  • Sundabraut 2. áfangi, valkostir

Skipulagsstofnun fellst á tillögu Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar að matsáætlun vegna 2. áfanga Sundabrautar

Sundabraut frá Gufunesi að tengingu við Vesturlandsveg í Reykjavík

27.9.2007

Skipulagsstofnun fellst á tillögu Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar að matsáætlun vegna 2. áfanga Sundabrautar.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar

Í umsögnum Reykjavíkurborgar, Byggðastofnunar, veiðimálastjórnar Landbúnaðarstofnunar, Siglingastofnunar Íslands og Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar eru ekki gerðar athugasemdir við efni tillögu að matsáætlun.

Í samræmi við 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun farið yfir framlagða tillögu Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar að matsáætlun ásamt þeim umsögnum og athugasemdum sem borist hafa stofnuninni.

Skipulagsstofnun fellst á tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun með þeim viðbótum sem koma fram í bréfi dags. 11. september 2007 og með eftirfarandi athugasemdum. Umhverfismat áætlana. Í kafla 1.6 er fjallað um umhverfismat áætlana. Þar kemur fram að valkostur 3, jarðgöng undir Eiðsvík gæti talist stefnumarkandi breyting á svæðis - og aðalskipulagi. Ef það verður niðurstaðan telur Skipulagsstofnun að valkostur 2 teljist jafnframt sem sambærileg stefnumarkandi breyting og því myndu báðir valkostir kalla á umhverfismat á breytingum áætlana. Þessu þarf að greina frá í frummatsskýrslu.

Skipulagsstofnun mælist til þess að í frummatsskýrslu verði umfjöllun um umhverfismat áætlana felld undir kafla um fyrirliggjandi skipulagsáætlanir og efni kaflana tengt saman eftir því sem við á, með því fæst betri yfirsýn yfir stöðu mála á skipulagsstigi. Framkvæmdasvæði og kostir. Í kafla 2 í tillögu að matsáætlun er fjallað um framkvæmdina, valkosti og lausnir.

Í athugasemdum Ástu Þorleifsdóttur, Náttúruvaktarinnar og Varmársamtakanna er farið fram á að sá kostur verði metinn í frummatsskýrslu að Sundabraut verði lögð í jarðgöng frá mislægum gatnamótum í Gufunesi yfir í Gunnunes/Álfsnes. Fyrirhuguð íbúabyggð í Geldinganesi verði tengd Gufunesi/Sundabraut með brú yfir Eiðisvík. Skipulagsstofnun telur að í frummatsskýrslu skuli gerð grein fyrir því hvers vegna ofangreindur kostur kemur ekki til álita. Þá telur stofnunin að gera þurfi á sambærilegan hátt grein fyrir lausn um brýr alla leið (kafli 5.2.3) og gerð er fyrir aðrar lausnir (kaflar 5.2.1 og 5.2.2) sem ekki eru lagðar fram til mats á umhverfisáhrifum.

Greina þarf frá bæði kostum og göllum lausnarinnar ásamt því að greina frá heildarkostnaði framkvæmdarinnar með brúarútfærslum á leiðunum þremur í samanburði við aðra kosti.

Þá telur stofnunin að framkvæmdaraðilar þurfi að rökstyðja betur hvers vegna umrædd leið var ekki lögð fram til mats á umhverfisáhrifum, þar sem útfærsla hennar getur verið ódýrari en valkostur 3, sem er lagður fram til matsins.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar