Fréttir
  • Brúarmynd

Stórátak í vegagerð, flýtingin fyrir 6,5 milljarða króna

Aðstoðarvegamálastjóri skrifar að gefnu tilefni

13.7.2007

Nokkurt fár hefur orðið vegna ummæla undirritaðs, sem fram komu í morgunfréttum Útvarpsins fimmtudaginn 12. júlí sl. Tilefnið var ákvörðun ríkisstjórnarinnar um flýtingu vegaframkvæmda og fyrirspurn fréttamanns hvort Vegagerðin gæti tryggt það, að þessi verk yrðu unnin á áætluðum tíma.

Að hætti hins varkára embættismanns svaraði undirritaður því til, að í sjálfu sér væri ekki hægt að tryggja það. Ástæðan væri sú, að Vegagerðin þarf að treysta mjög á aðkeypta þjónustu við undirbúning verka, umhverfismat og hönnun, og ræðst því nokkuð að atvinnuástandi almennt hversu góðan aðgang Vegagerðin hefur að þessu vinnuafli.

Mikið álag hefur verið á ráðgjafastofum á undanförnum árum og hefur af þeim sökum undirbúningur verka stundum dregist lengur en Vegagerðin hefði kosið. Nú virðast hins vegar vera teikn á lofti um að draga sé úr þenslunni og væntum við vegagerðarmenn því þess að unnt verði að sinna okkur í auknum mæli.

Tilraunir hafa verið gerðar til þess, einkum í fyrirsögnum fjölmiðla, að túlka framangreind ummæli svo, að samgönguráðherra og ríkisstjórnin hafi verið að lofa framkvæmdum sem ekki sé unnt að standa við. Því fer fjarri. Allar upplýsingar og forsendur, sem ríkisstjórnin byggði ákvörðun sína á, svo sem um mögulegan upphafstíma framkvæmda, verklengd og verklok, komu frá Vegagerðinni.

Að sjálfsögðu hefur Vegagerðin fulla trú á því, að þær áætlanir, sem hún setti þar fram standist, m.a. að unnt verði að bjóða út a.m.k. helming framkvæmdanna innan hálfs árs, þótt varnagli sé sleginn.

Hið merka við ákvörðun samgönguráðherra og ríkisstjórnarinnar er, að framkvæmdir sem vinna átti á öðru og þriðja tímabili samgönguáætlunar, þ.e. á árunum 2011 til 2018 verða nú unnin og þeim væntanlega lokið á fyrsta tímabili, þ.e. árin 2007 til 2010 að undanteknum jarðgangaframkvæmdunum, sem fyrirhugað er að ljúka 2012. Hvort dragist í einhverjar vikur eða mánuði að ýta verki úr vör skiptir ekki máli í þessu samhengi. Það sem skiptir máli er, að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar, ásamt því fjármagni sem fyrir er á samgönguáætlun, leiðir til þess, að meiri framkvæmdir verða í vegagerð á þessu áætlunartímabili en dæmi eru um og stórt skref stigið í þá átt, að færa vegakerfið á öllu Íslandi í nútímalegra horf.

Gunnar Gunnarsson,
aðstoðarvegamálastjóri.