Fréttir
  • Sundabraut göng

Drög að tillögu um matsáætlun vegna Sundabrautar

-- athugasemdafrestur almennings til 10 ágúst

5.7.2007

Á ný er hafið mat á umhverfisáhrifum fyrir 1. áfanga Sundabrauytar vegna nýrra valkosta. Um er að ræða jarðgöng sem fyrirhugað er að liggi frá Laugarnesi í vestri að Gufunesi í austri með því að þvera Elliðaárvog annarsvegar og hinsvegar breytingar á Eyjalausn sem er á leið III.

Gangamunni jarðganga að vestanverðu liggur nokkuð vestar en í fyrri huygmyndum eða á landfyllingu vestan við Kirkjusand/Laugarnes og gangamunninn að austanverðu er nær Geldinganesi en áður var gert ráð fyrir. Breytingin á Eyjalausn felur í sér að nú er gert ráð fyrir því að vegurinn liggi á fyllingum vestan og utan við Gufuneshöfða en í fyrri hugmyndum var gert ráð fyrir jarðgöngum í gegnum höfðann.

Heildarkostnaður við Sundagöng er áætlaður um 16 milljarðar króna en sambærilegur kostnaður við Eyjalausn á leið III er 12 milljarðar króna. Þá er áætlað að ráðast í framkvæmdir við 1. áfanga að loknu matsferlinu en framkvæmd ásamt undirbúningi tekur um 4 til 5 ár.

Í drögum að tillögu að matsáætlun sem hér liggur fyrir er fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdasvæði lýst og fjallað um umfang og áherslur umhverfismatsins. Fjallað er um þá umhverfisþætti sem teknir verða fyrir í matinu. Í frummatsskýrslu verða áhrif á eftirfarandi þætti metin: hafstrauma, laxfiska, landslag og sjónræna þætti, útivist, fornleifar, náttúruminjar, hljóðvist, loftgæði, samgöngur og umhverfisáhrif á framkvæmdatíma. Í matsáætlun er tilgreint hvaða gögn eru fyrir hendi sem nýtt verða við mat á umhverfisáhrifum og hvaða rannsóknir er fyrirhugað að ráðast í vegna matsins.

Drög að tillögu að matsáætlun eru kynnt almenningi og hagsmunaaðilum auk þeirra fagstofnana sem hafa lögbundið hlutverk við matsferlið. Drögin eru nú birt til kynningar fyrir almenning frá 2. júlí, 2007 til 10. ágúst, 2007. Á þessu tímabili gefst almenningi tækifæri til að senda athugasemdir við tillöguna. Að auglýsingatíma loknum verða drögin, ásamt athugasemdum almennings, send Skipulagsstofnun til umfjöllunar.

Drög að tillögu að matsáætlun, Sundabraut 1. áfangi: Sundagöng og Eyjalausn

Viðauki I, kort af kostunum

Viðauki II, minnisblöð sérfræðinga


Athugasemdir
við drög að tillögu að matsáætlun skal merkja 1. áfangi Sundabrautar og senda til:

Helgu J. Bjarnadóttur
Línuhönnun hf. verkfræðistofa
Suðurlandsbraut 4A
108 Reykjavík

Netfang: umhverfismat@lh.is