Fréttir
  • Hornafjarðarfljót

Fallist á sjónarmið Vegagerðarinnar varðandi lagningu Hringvegar um Hornafjarðafljót

15.5.2007

Umhverfisráðuneytið hefur þann 11. maí fellt úr gildi þann þátt ákvörðunar Skipulagsstofnunar sem snýr að öðrum veglínum en þeim sem Vegagerðin hafði lagt fram. Vegagerðin lagði fram hugmynd að þremur veglínum sem sjá má hér á korti á síðunni.

Þann 5. desember síðastliðinn tók Skipulagsstofnun þá ákvörðun um matsáætlun Vegagerðarinnar að einnig þyrfti að meta umhverfisáhrif á öðrum leiðum, annars vegar svokölluðum núllkosti, sem er að fara sömu veglínu og nú er til staðar, og hinsvegar leiðum 4a, 4b, 5a og 5b. Þær leiðir eru samkvæmt hugmyndum landeigenda á svæðinu.

Þessa ákvörðun kærði Vegagerðin til Umhverfisráðuneytisins 5. janúar 2007.

Skipulagsstofnun hafði að vissu marki til viðmiðunar í ákvörðun sinni úrskurð umhverfisráðherra um Gjábakkaveg. Nú hefur ráðherra úrskurðað að nýju um þann veg, úrskurðurinn birtist hinn 10. maí. Þessi úrskurður nú er í samræmi við þann úrskurð.

Vegagerðin benti á það að valkostirnir þrír tækju mið af meginmarkmiðum framkvæmdarinnar. Þau eru að bæta vegsamgöngur á svæðinu, með því meðal annars að stytta Hringveginn um 11 km, auka umferðaröryggi, draga úr slysahættu og tryggja góðar samgöngur. Einnig er lögð á það áhersla í samgönguáætlun að stytta vegalengdir á þjóðvegakerfinu. Talið er að fækka megi slysum um 65 prósent með því að færa veginn.

Skipulagsstofnun ítrekaði í umsögn um kæruna þá skoðun stofnunarinnar að þegar fjallað sé um matsskyldar vegaframkvæmdir eigi í frummatsskýrslu að fjalla um endurbyggingu núverandi vega þannig að tryggt sé að sá kostur sé alltaf fyrir hendi þegar um er að ræða vegagerð á viðkvæmum svæðum.

Umhverfisráðuneytið fellst ekki á þörf þess að meta leiðir 4 og 5 fyrst og fremst af þeirri ástæðu að Vegagerðin hefur forræði á því hvaða kosti hann telji að uppfylli markmið framkvæmdar hverju sinni, sem þá beri að skoða í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Um þetta hafi ráðuneytið úrskurðað áður.

Varðandi núllkostinn telur Vegagerðin í ljósi fyrri úrskurða ráðuneytisins að því aðeins beri að meta umhverfisáhrif endurbyggingar núverandi vegar að ekki sé útilokað að sá kostur geti uppfyllt meginmarkmiðin með framkvæmdinni. Stytting Hringvegar og verulega bætt umferðaröryggi eru ófrávíkjanleg meginmarkmið með þessari framkvæmd. Ráðuenytið felst á það með Vegagerðinni að ekki þurfi að fara fram mat á núllkostinum þótt meta þurfi slíkt í hverju tilviki fyrir sig.

Úrskurðarorðin eru því þau að fallist er á kröfu Vegagerðarinnar og þeir hlutar ákvörðunar Skipulagsstofnunar sem snýr að mati á leiðum 4 og 5 og núllkosti felldir úr gildi.

Vegagerðin reiknar með að ljúka við matsáætlun vegna leiða 1, 2 og 3 í næsta mánuði.

Hringvegur um Hornafjarðarfljót

Hringvegur um Hornafjarðarfljót