Fréttir
  • Áhrif höfuðborgarsvæðisins

Lokaskýrsla um áhrif höfuðborgarsvæðisins og ferðavenjur

14.12.2006

Komin er út lokaskýrsla um rannsóknarverkefnið ,,Áhrif höfuðborgarsvæðisins og helstu þéttbýlisstaða.” Ráðgjafarfyrirtækið Land-ráð sf. undir stjórn Bjarna Reynarssonar hefur unnið fimm skýrslur um málið fyrir samgönguyfirvöld en markmið rannsóknarinnar er að afla glöggra upplýsinga um ferðavenjur innanlands fyrir stefnumótun í samgöngumálum.

Í könnuninni nú var lögð áhersla á að fá nákvæmari greiningu á ferðum landsbyggðarfólks til höfuðborgarsvæðisins með fleiri könnunarstöðum en í fyrri könnunum, sumarferðir 2004 og vetrarferðir 2004-2005. Í þeim könnunum var unnið með þrjá landsbyggðarkjarna, Ísafjörð, Akureyri og Egilsstaði, auk þriggja jaðarbyggða höfuðborgarsvæðsins, Akraness, Selfoss/Árborgar og Reykjanesbæjar.

Úrtakið nú var stærra en í fyrri könnunum, 2.500 manns í stað 2.000 og könnunarstaðir voru 16 í stað 6 áður. Lögð var áhersla á að greina hvernig ferðavenjur breytast með aukinni fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og eftir því hvort fólk býr á svokölluðum aksturs- eða flugsvæðum. Aksturssvæði eru þau sem liggja næst höfuðborgarsvæðinu, í innan við þriggja klukkustunda akstursfjarlægð.

Meðal helstu niðurstaðna í þessari síðustu könnun er að hlutfall þeirra sem vinna utan búsetusvæðis fer vaxandi, sérstaklega í byggðarlögum nærri höfuðborgarsvæðinu. Þannig vinna nú 14% svarenda utan búsetusvæðis en voru 9% árið 2005. Einnig fer tíðni ferða út fyrir sveitarfélag hraðvaxandi. Algengustu erindi út fyrir byggðarlag eru heimsóknir til vina og ættingja eða 52%, verslun 31%, ferðir vegna vinnu 27% og læknisheimsóknir 11%.

Svarendur á landsvæðum þar sem ekki er lágvöruverðsverslun fóru oftar til Reykjavíkur til að versla en ætla mætti eftir fjarlægð frá borginni. Sama á við um læknisþjónustu þar sem ekki eru stór sjúkrahús í héraði. Um 86% Vestmannaeyinga sögðust yfirleitt nota Herjólf þegar þeir færu til lands. Þá leist 47% þeirra á ferju til nýrrar hafnar við Bakka sem framtíðarkost í samgöngumálum en 29% vildu hraðskreiðari ferju til Þorlákshafnar.

Í lokin segir skýrsluhöfundur að mikilvægt sé að fylgja eftir þessum rannsóknum á ferðavenjum landsmanna með því að gera reglulegar kannanir á völdum þáttum. Megi nýta það til að meta hvort þróun ferðavenja og notkun samgöngukerfisins sé í samræmi við helstu markmið við helstu stefnumið samgönguáætlunar hverju sinni.

Skýrslur um verkefnið "Áhrif höfuðborgarsvæðisins og helstu þéttbýlisstaða" má finna á vef samgönguáætlunar.