Fréttir
  • Við Hringveginn í Melasveit. Frá vinstri: Arve Nyborg frá norsku vegagerðinni, Bryndís Friðriksdóttir frá Línuhönnun, Auður Þóra Árnadóttir frá Vegagerðinni og Per Engeset frá norsku vegagerðinni.

Sjálfvirkt hraðaeftirlit á þjóðvegum

Undirbúningur að aukningu sjálfvirks hraðaeftirlits með myndavélum

15.6.2006

Umferðaröryggisáætlun stjórnvalda er hluti samgönguáætlunar. Sérstakur samráðshópur sér um að útfæra áætlunina og halda utan um framkvæmd hennar. Fulltrúi samgönguráðuneytisins er formaður hópsins en auk hans eiga fulltrúar Umferðarstofu, Vegagerðarinnar og Ríkislögreglustjóra sæti í honum.

Í framkvæmdaáætlun umferðaröryggisáætlunar fyrir tímabilið 2005-2008 er lögð mikil áhersla á að draga úr hraðakstri. Hefðbundið lögreglueftirlit á þjóðvegum hefur verið aukið til muna en nú er verið að undirbúa aukningu sjálfvirks hraðaeftirlits með myndavélum. Í marsmánuði fóru fulltrúar úr samráðshópnum í heimsókn til vegagerðarinnar og lögreglunnar í Noregi í þeim tilgangi að kynna sér hvernig sjálfvirku hraðaeftirliti er háttað þar í landi. Í framhaldi af þeirri heimsókn var ákveðið að nota samskonar búnað við sjálfvirkt hraðaeftirlit hér á landi og Norðmenn nota. Vegagerðin mun koma til með að setja búnaðinn niður, sjá um viðhald hans og tryggja að gögn frá myndavélunum berist til lögreglu. Vegagerðin sér jafnframt um val á þeim stöðum þar sem kassarnir verða settir og eru upplýsingar um slysastaði lagðar til grundvallar. Verkfræðistofan Línuhönnun aðstoðar Vegagerðina í þessu verkefni.

Í fyrsta áfanga er stefnt að því að setja hraðamyndavélar á Hringveg 1 á milli Hvalfjarðarganga og Borgarness. Dagana 13. og 14. júní sl. komu þeir Per Engeset og Arve Nyborg frá norsku vegagerðinni í Lillestrøm í heimsókn til Vegagerðarinnar í tengslum við þetta verkefni. Þeir sátu fundi með fulltrúum frá Vegagerðinni, Umferðarstofu, Línuhönnun og Ríkislögreglustjóra en fóru jafnframt í skoðunarferð út í mörkina til að meta aðstæður á þeim stöðum sem valdir hafa verið.Í þeirri ferð var svæðisskrifstofa Vegagerðarinnar í Borgarnesi heimsótt. Einnig heimsóttu þeir verktakafyrirtækið Kurl ehf. sem setur nema í vegi fyrir Vegagerðina.

Þrjár deildir Vegagerðarinnar taka þátt í þessu verkefni þ.e. umferðardeild, þjónustudeild og upplýsingatæknideild. Næstu skref eru þau að búnaðinum verður komið fyrir á einum stað og tryggt að hann virki eins og til er ætlast áður en lengra verður haldið. Þeir Per Engeset og Arve Nyborg munu koma aftur fljótlega og aðstoða við niðursetninguna.