Fréttir
  • Rannsóknarnefnd umferðarslysa

Skýrsla Rannsóknarnefndar umferðarslysa 2005

12.6.2006

Vegna banaslyss sem varð á Upphéraðsvegi í fyrrasumar beinir Rannsóknarnefndin þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að umferðaröryggi fái meira vægi í framtíðinni í samgöngumatsferli vegna stórframkvæmda. Rökstyður nefndin ábendingu sína í umfjöllun um tildrög slyssins auk þess sem nefndin gerir aðrar tillögur í öryggisátt er varða þungaflutninga. Meginorsök slyssins er þó sú að ökumaður ók of hratt á röngum vegarhelmingi í beygju.

Í fyrra fórust 19 manns í 16 umferðarslysum og hlutust 6 banaslys af ölvunarakstri, þar af tvö sem stöfuðu af samspili áfengis og ólöglegra vímuefna. Rannsóknarnefndin álítur að í tveimur tilvikum hefði það getað haft áhrif ef nærstaddir hefðu tilkynnt lögreglu um ölvunarakstur. Rannsóknarnefndin beinir því til Umferðarstofu að hvetja fólk til þess að gera lögreglunni viðvart ef það hefur ástæðu til að ætla að ölvaður maður ætli að aka bifreið. Hið sama gildir ef ökumenn eru undir áhrifum ólöglegra lyfja.

Útafakstur var algengasta tegund slysa, 60%, en framanákeyrslur komu þar á eftir. Algengustu orskakir banaslysa í umferðinni árið 2005 voru ölvunarakstur, hraðakstur og að bílbelti var ekki notað.