Fréttir
  • Forsíða vefsins

Nýr vefur Vegagerðarinnar var opnaður þann 24. maí síðastliðinn

30.5.2006

Kannanir sem gerðar hafa verið hjá viðskiptavinum Vegagerðarinnar sýna að þeir nota vefinn mikið til að afla sér upplýsinga, og líklegt að það komi enn til með aukast með bættri tölvuþekkingu og bættum tækjabúnaði hjá notendum.

Viðskiptavinir Vegagerðarinnar, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki eiga að geta sparað sér tíma í viðskiptum við Vegagerðina með því að geta aflað upplýsinga í gegnum vefinn. Vefurinn verður þannig valkostur við hlið textavarps og síma og er kynningarvettvangur fyrir þjónustu Vegagerðarinnar og þau verkefni sem hún sinnir.

Í nýjum vef er gengið út frá því að vefurinn sé skipulagður út frá málefnum og verkefnum og einstakir notendahópar hafðir til hliðsjónar. Skipta má viðskiptavinum Vegagerðarinnar upp í eftirfarandi notenda- eða markhópa (röðin er í stafrófsröð, ekki eftir mikilvægisröð)

  • Almennir vegfarendur
  • Áhugafólk um vegakerfið og framkvæmdir
  • Erlendir vegfarendur / ferðamenn
  • Fjölmiðlar
  • Flutningsaðilar
  • Námsmenn
  • Opinberir aðilar
  • Rannsóknaraðilar
  • Starfsfólk Vegagerðarinnar
  • Verktakar og ráðgjafar

Allar upplýsingar sem Vegagerðin setur fram á vef sínum eiga að taka mið af þörfum eins eða fleiri af þessum notendahópum.

Stór hluti efnis gamla vefsins hefur verið fluttur yfir og sumt endurgert eða endurskrifað. Þar sem vefurinn er mjög efnismikill og birtir upplýsingar úr ýmsum gagnasöfnum Vegagerðarinnar er við því að búast að fastagestir á eldri vef stofnunarinnar, auk nýrra notenda, hafi skoðanir á nýja vefnum. Vegagerðinn óskar því eftir hvers kyns athugasemdum og ábendingum notenda, sem senda má á póstfangið vefur@vegagerdin.is