Fréttir
  • Héðinsfjarðargöng - Yfirlitsmynd frá Siglufirði

Samningur um gerð Héðinsfjarðarganga

20.5.2006

Laugardaginn 20. maí 2006 var undirritaður, um borð í bátnum Tý, í Síldarminjasafninu á Siglufirði verksamningur milli Vegagerðarinnar og fyrirtækjanna Metrostav a.s., Tékklandi og Háfells ehf. Reykjavík um gerð Héðinsfjarðarganga.

Samningurinn var undirritaður af Jóni Rögnvaldssyni vegamálastjóra fyrir hönd Vegagerðarinnar og staðfestur af Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra. Fyrir hönd Metrostav a.s. undirrituðu samninginn þeir Jiri Belohlav aðalforstjóri og Zdenek Sinovski fjármálastjóri og fyrir hönd Háfells ehf., Eiður Haraldsson framkvæmdastjóri.

Viðstaddir undirskriftina voru að talið er 400 íbúar Ólafsfjarðar og Siglufjarðar auka annarra gesta, þar á meðal ráðherrar og þingmenn.

Verksamningurinn er að upphæð 5.739.412.688 kr, og er í krónum stærsti einstaki verksamningur sem Vegagerðinn hefur gert til þessa. Samkvæmt samningnum mun verktaki hefjast handa við undirbúning verksins og gert er ráð fyrir að jarðgangagröftur hefjist fyrri hluta september, bæði í Siglufirði og Ólafsfirði. Verklok eru í desember 2009.

Héðinsfjarðargöng - kort
Í október 2005 var auglýst forval verktaka um gerð Héðinsfjarðarganga og buðust sex verktakafyrirtæki og verktakasamsteypur til að gera tilboð í verkið. Öll voru þau metin hæf til þess.

Fimm aðilar skiluðu inn tilboðum í verkið og voru þau opnuð þriðjudaginn 21 mars 2006.

Sameiginlegt tilboð Metrostav a.s. og Háfells ehf. reyndist lægsta og jafnframt hagstæðasta tilboðið að mati Vegagerðarinnar.

Í janúar 2006 var auglýst útboð á eftirliti með gerð Héðinsfjarðarganga og hefur þegar verið samið við ráðgjafafyrirtækið Geotek ehf. um þann hluta. Upphæð verksamnings er 362.250.000.

Héðinsfjarðargöng eru tvenn jarðgöng um 3,7 km löng milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar og um 6,9 km löng milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar Við alla gangaenda eru steyptir vegskálar og er heildarlengd þeirra um 450 m. Breidd ganganna er 8,6 m. Lengd nýrra vega í Siglufirði, Héðinsfirði og Ólafsfirði er um 3,2 km og auk þess verður byggð brú á Héðinsfjarðará.