Fréttir
  • Umferð um vetur á höfuðborgarsvæðinu
  • Umferðin eftir mánuðum (með spá út 2016)
  • Umferðin eftir vikudögum
  • Umferðin með spá út árið

Mikil umferðaraukning á höfuðborgarsvæðinu

umferðin í janúar jókst um tæp 5 prósent

8.2.2016

Ekkert lát er á aukningu á umferð. Hún jókst um 4,8 prósent á höfuðborgarsvæðinu í janúar. Þótt það sé nokkuð minni aukning en á Hringveginum í sama mánuði skýrist það að hluta til a.m.k. af því að janúar árið 2015 var þá umferðarmesti janúarmánuður síðan mælingar sem þessar hófust. Þannig að nýliðinn janúar er sá umferðarmesti í sögunni á höfuðborgarsvæðinu.

Umferð milli mánaða 2015 og 2016
Umferð jókst um 4,8% í janúar milli áranna 2016 og 2015. Þar sem janúar á síðasta ári var sá umferðarmesti þar til nú,  var slegið nýtt met í janúarumferð um mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu. Eftir að teljarar á Hringvegi höfðu verið skoðaðir, fyrir sama tímabil, kemur þessi aukning nú ekki á óvart. Mest jókst umferðin á Vesturlandsvegi/Ártúnsbrekku eða um 6,1% en minnst um snið á Hafnarfjarðarvegi, sunnan Kópavogslækjar eða um 2,4%.

Umferð eftir vikudögum
Umferð eykst á mánudögum, fimmtudögum, laugardögum og sunnudögum en stendur svo til í stað á þriðjudögum en dróst saman á miðvikudögum og föstudögum. Umferðarmestu vikudagar mánaðarins voru fimmtudagar.  Umferðaminnstu vikudagur mánaðarins voru sunnudagar.

Horfur út árið 2016
Umferðin innan höfuðborgarsvæðisins er stöðugri en úti á Hringvegi þ.a.l. þarf minna úrtak umferðartalna til að segja til um þróunina út árið með ásættanlegri nákvæmni. Miðað við janúarumferð segir reiknilíkan Vegagerðarinnar að umferð geti aukist um rúm 3% á þessu ári á höfuðborgarsvæðinu. Benda má á að ef þessi spá gengi eftir yrði hún í fullu samræmi við hagvaxtaspá Seðlabanka Íslands.

Talnaefni.

Athugið: Um grófrýndar umferðartölur er um að ræða sem gætu tekið einhverjum breytingum síðar.