Fréttir
  • Trjáklippingar við Breiðholtsbraut
  • Trjáklippingar við Breiðholtsbraut

Veitti ekki leyfi en vísaði á Reykjavíkurborg

Trén sem ÍR felldi ekki á forræði Vegagerðarinnar

6.5.2015

Vegna misskilnings sem virðist vera uppi um aðkomu Vegagerðarinnar að fellingu trjáa við Breiðholtsbraut á milli vegar og auglýsingaskiltis íþróttafélagsins ÍR er rétt að taka fram að Vegagerðin gerði ekki athugasemdir vegna þess en vísaði til þess að sá tiltekni trjágróður væri á vegum Reykjavíkurborgar.

Þann 22. September 2014 barst ekki ósk heldur frekar tilkynning frá ÍR um að „flettiskilti sem er í eigu ÍR [væri] komið í hvarf á bak við trjágreinar. Samkvæmt upplýsingum eru trén á yfirráðasvæði Vegagerðarinnar,“ segir í tilkynningunni, og bætt við: „ÍR hefur í hyggju að klippa greinarnar ofan af trjám niður og lækka þannig trjágróðurinn að hann skyggi ekki á flettiskiltið. Mun ÍR gera það á sinn kostnað og í samráð við garðyrkjufræðing varðandi aðferð og tímasetningar.“

Síðasta setning bréfs ÍR hljómar ekki sem ósk um leyfi heldur er beðið um formleg andmæli: „Berist ekki formleg andmæli frá Vegagerðinni innan 15 daga frá dagsetningu þessa bréfs lítur ÍR svo á að þessi aðgerð verði látin afskiptalaus.“

Vegagerðin svaraði þann 30. september 2014 svohljóðandi: „Vegagerðin gerir ekki athugasemdir við þetta en trjágróður meðfram þjóðvegum er almennt ekki á hennar vegum. Í þessu tilviki er það Reykjavíkurborg.“

Þannig setti Vegagerðin sig ekki upp á móti því að trén yrðu lækkuð og greinar klipptar en vísar til þess að það sé á forræði Reykjavíkurborgar. Þannig að ekki er hægt að líta á þetta svar sem svo að Vegagerðin hafi heimilað þetta, ekki einu sinni að Vegagerðin hafi heimilað það fyrir sitt leyti, heldur einungis að Vegagerðin myndi ekki setja sig á móti því sem Reykjavíkurborg heimilaði varðandi þetta mál.

Vegagerðin hefur því hvorki heimilað þetta né afturkallað heimild til þess.