Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið

Mikil aukning á umferð á höfuðborgarsvæðinu í apríl

Aukningin er um tæp þrjú prósent

5.5.2015

Aukningin á umferðinni á höfuðborgarsvæðinu í apríl er mjög mikil miðað við aprílmánuði yfirleitt. Umferðin jókst um tæp þrjú prósent. Þetta er annar umferðarmesti aprílmánuðurinn, aðeins apríl 2008 er umferðarmeiri. Nú stefnir í að í ár aukist umferðin á svæðinu um ríflega tvö prósent.

Milli mánaða 2014 og 2015
Umferð jókst talsvert milli aprílmánaða 2015 og 2014 eða um tæp 3%. Þessi aukning er nánast þrisvar sinnum meiri en meðaltalsaukning aprílmánaða frá árinu 2005. Aukning varð í öllum mælisniðum en mest jókst umferð um Reykjanesbraut við Dalveg eða um 4%.  Um er að ræða annan umferðarmesta apríl mánuð frá upphafi mælinga innan höfuðborgarsvæðisins. Aðeins apríl mánuður 2008 var stærri.

Frá áramótum 2014 og 2015
Frá áramótum hefur umferðin um höfuðborgarsvæðið aukist um 1,4% miðað við sama tímabil á síðasta ári, ef marka má þessi þrjú mælisnið Vegagerðarinnar. Þessi aukning telst ekki mikil þar sem hún er sú næst minnsta eftir að umferð tók að aukast á ný  eftir hrun. 

Horfur út árið 2015
Eftir nýliðinn aprílmánuð stefnir í að umferðin aukist um 2,1% hegði hún sér í samræmi við það sem hún hefur gert undanfarin ár. Verði þetta raunin teldist það hófleg aukning.

Vikudagsumferð 2014 og 2015
Það sem af er ári eykst umferðin alla virka daga, miðað við árið á undan, en dregst saman um helgar líkt og á Hringvegi. Umferð eykst hlutfallslega mest á miðvikudögum, eins og á Hringvegi, eða um 4,2% en dregst mest saman um laugardaga eða um 2,7%.  Hluti þessa samdráttar um helgar innan höfuðborgarsvæðisins gæti hæglega verið að smita út á Hringveginn. Hvert prósentustig í breytingu á umferð innan höfuðborgarinnar sem smitar út á Hringveginn vegur mjög þungt, vegna þess að umferðin er mun minni á Hringvegi.   

Umferðin eftir vikudögum

Talnaefni











Ath. Um grófrýndar tölur er að ræða, sem gætu tekið breytingum við endanlega yfirferð í byrjun næsta árs.