Fréttir
  • Sænskir verkfræðinemar

Þrjú lokaverkefni erlendra meistaranema unnin á Íslandi

verkefnin á borðum siglingasviðs Vegagerðarinnar.

9.2.2017

Á sviði hafnar- og strandverkfræði leggur Vegagerðin áherslu á að vera vel tengd við erlent tækniumhverfi. Á síðastliðnu ári voru unnin þrjú lokaverkefni á meistarastigi í verkfræði við þrjá erlenda tækniháskóla þar sem unnið var með verkefni sem eru á borðum siglingasviðs Vegagerðarinnar.  Ávinningurinn af þessu samstarfi er að verkefnin eru unnin undir handleiðslu þekktra prófessora og fagmanna hvert á sínu sviði, þar sem beitt er nýjustu og bestu aðferðum við að skoða þau vandamál sem tekist er á við.

Á fyrri hluta síðastliðins ár unnu tveir sænskir verkfræðinemar við háskólann í Lundi í Svíþjóð að meistaraverkefni sem fjallar um sandflutninga við Landeyjahöfn, hvaða ferli stjórna flutningunum og hvernig eða hvort hægt sé að hafa áhrif á þessi ferli. Verkefnið var unnið undir handleiðslu prófessoranna Magnus Larson og Hans Hanson í samvinnu við siglingasvið Vegagerðarinnar. Meistaraprófsritgerðin kallast „Siltation Problems at the Landeyjahöfn Harbour, Iceland“ unnin af Samuel Brudefors og Peter Pantzar. Meistaraverkefni Brudefors og Pantzar.

Á sama tíma vann danskur verkfræðinemi við tækniháskólann í Danmörku, Technical University of Denmark – DTU, að verkefni þar sem skoðaðar voru hreyfingar gámaflutningaskips við fyrirhugaðan hafnarkant í Sundahöfn, hafnarkant utan Klepps. Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við dönsku straumfræðistöðina DHI undir handleiðslu Erik Damgaard Christensen prófessors við DTU og sérfræðinganna Peter Sloth, Bjarne Jensen og Jens Kirkegaard hjá DHI. Í verkefninu var beitt nýju reiknilíkani frá DHI, MIKE Dynamic Vessel Response Model, þar sem ölduhreyfingar eru yfirfærðar í hreyfingar skips sem bundið er við kant.  Auk skipsformsins er tekið tillit til ólínulegra áhrifa bindinga skipsins og fríholta á hafnarbakkanum.  Meistaraprófsritgerðin kallast „Dynamic Vessel Response Modelling for Port Design and Operation, Case Study for the Port of Reykjavik“ unnin af Hans Christian Bencard Nielsen.  Verkefnið tengist verkefni Vegagerðarinnar sem unnið var fyrir Faxaflóahafnir og gert er grein fyrir í skýrslunni „Öldufar á Sundunum, Öldufarsrannsóknir og mat á viðleguskilyrðum í Sundahöfn“.

Í þriðja og síðasta verkefninu, sem unnið var af grískum verkfræðinema við tækniháskólann í Delft í Hollandi, Delft University of Technology, var Hornafjarðarós skoðaður með líkani sem kallast ASMITA og stendur fyrir Aggregated Scale Morphological Interaction between a Tidal basin and the Adjacent coast.  Líkanið sem er að hluta til reynslulíkan hentar til að skoða strandbreytingar í stórum skala.  Verkefnið sem var unnið undir handleiðslu prófessors Marcel Stive, aðstoðarprófessoranna Tjerk Zitman og J. Storms, auk Sigurðar Sigurðarsonar siglingasviði Vegagerðarinnar, kallast „The impact of isostatic rebound on the long-termevolution of Hornafjordur inlet“.  Stefnt er að áframhaldandi samstarfi við Marcel Stive og að í næsta áfanga verði sjónum beint að jafnvægisdýpi á Grynnslunum.


Meistaraverkefni Brudefors og Pantzar. 

Dynamic Vessel Response Modelling for Port Design and Operation, Case Study for the Port of Reykjavik

Öldufar á Sundunum, Öldufarsrannsóknir og mat á viðleguskilyrðum í Sundahöfn

The impact of isostatic rebound on the long-termevolution of Hornafjordur inlet