Fréttir
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga, ráðherra sprengir
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga Barböruhátíð verktak
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga Barböruhátíð verktak
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga - Hreinn Haraldsson og Gísli Eiríksson
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga - Hreinn Haraldsson og Jón Gunnarsson
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga - nýr borvagn
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga
  • Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga - Ales Gothard frá Metrostav
  • Dýrafjarðargöng-yfirlit

Hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga

hátíðleg stund með hvelli, heimamenn ánægðir

15.9.2017

Jón Gunnarsson samgönguráðherra sprengdi í gær, 14. september, hátíðarsprengingu Dýrafjarðarganga með aðstoð Hreins Haraldssonar vegamálastjóra. Eru þá framkvæmdir komnar á fullt og verður sprengt næstu misseri. Unnið hefur verið að undirbúningi þess að koma gangagreftrinum af stað síðustu mánuði. Verktakarnir Suðurverk og Metrostav frá Tékklandi vinna verkið.

Þegar Jón Gunnarsson þrýsti á hnappinn sem kom sprengingunni af stað varð honum að orði að nú rynnu ekki eingöngu öll vötn til Dýrafjarðar heldur líka fullt af peningum. Enda kosta göng mikið fé, samningar við verktaka hljóða upp á um 9 milljarða króna og heildarkostnaður verður þó nokkuð meiri en það.

Það tekur líka langan tíma að koma verkefni sem þessu af stað og nefndi Hreinn Haraldsson vegamálastjóri að eitt að hans fyrstu verkum hjá Vegagerðinni hafi verið að kanna aðstæður fyrir Dýrafjarðargöng og hvar best væri að fara, það hefði verið árið 1981 eða fyrir 36 árum. Þrjú ár tekur að klára verkið og því líða 39 ár frá því hann kannaði aðstæður á svæðinu. Þannig gætu sum verk tekið heila kynslóð. Hreinn nefndi einnig að 14. september væri örlagarík dagsetning í samgöngumálum Vestfjarða, því Vestfjarðagöngin hefðu verið vígð 14. sept. 1996 og verið Eiði-Þverá á sunnanverðum Vestfjörðum hefði verið opnað formlega þann dag 2015 og hugsanlega yrðu svo Dýrafjarðargöng opnuð 14. september 2020.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra nefndi það í sínu ávarpi að nú væri mikill uppgangur á svæðinu, þetta verk væri langþráður áfangi og fólk væri aftur farið að brosa. Sem væri mikið fagnaðarefni. Gísli Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar nefndi að biðin eftir þessari framkvæmd hefði verið löng en nú væri verkið hafið og af fullum heilindum, hann nefndi einnig vegaframkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum og sagði það ekki ganga að fólk væri látið mæta afgangi og kallaði eftir lagasetningu vegna vegagerðar í Gufudalssveit.  

Ales Gothard talaði fyrir hönd verktaka en hann fer fyrir verkefnum Metrostav á Norðurlöndum og hefur unnið hér á landi áður en Metrostav hefur unnið hvorttveggja við Héðinsfjarðargöng og Norðfjarðargöng. Hann sagði að þegar þessu verki yrði lokið hefði Metrostav grafið 23 km af göngum á Íslandi og hann hét því að ljúka verkinu á réttum tíma.

Grafið verður úr Arnarfirði langleiðina og afgangurinn síðan Dýrafjarðarmegin. Metrostav flutti hingað nýjan borvagn til verksins sem sjá má á einni af myndunum. 

Um framkvæmdina.

Dyrafjardargong-yfirlit