Fréttir
  • H-dagurinn 50 ára
  • H-dagurinn 50 ára
  • H-dagurinn 50 ára
  • H-dagurinn 50 ára: Valgarð Briem á réttri akrein
  • H-dagurinn 50 ára: Kári Jónasson, Valgarð Briem, Amanda Lind Davíðsdóttir, Þórólfur Árnason og Einar Magnús Magnússon
  • H-dagurinn 50 ára: Sigurður Ingi Jóhannsson
  • H-dagurinn 50 ára

H-dagurinn 50 ára

hálf öld liðin frá því að hægri umferð var tekin upp á Íslandi

31.5.2018

Haldið var upp á hálfar aldar afmæli hægri umferðar á Íslandi í dag með því að endurtaka leikinn þegar fyrsti bíllinn ók af vinstri akrein yfir á þá hægri. Það var gert fyrir framan Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu 4 fyrir 50 árum og aftur í dag á sama bíl og með sama ökumanni. Valgarð Briem ók bílnum í dag rétt einsog fyrir 50 árum.

Fjallað var um þessa breytingu fyrir 10 árum og var haldin sýning hjá Vegagerðinni af því tilefni. Sjá frétt um það hér .

Þessi breyting heppnaðist mjög vel fyrir 50 árum og einsog bæði Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu bentu á í ávörpum sínum þá fækkaði umferðarslysum mikið í kjölfar þessara breytinga. Miðað var við að ekki yrði aukning slysa sem margir óttuðust að yrði, en með samstilltu átaki og góðri kynningu þá varð raunin fækkun slysa.

Það var svo Valgarð Briem sem fyrstur ók af vinstri akrein yfir á þá hægri fyrir framan Skúlagötu 4 sem þá hýsti Ríkisútvarpið og þótti við hæfi að nýta bæði þá staðreynd og eins væri hægt að ná myndum að ofan. Valgarð var formaður framkvæmdanefndar hægri umferðar sem annaðist bæði allan undirbúning og framkvæmd með aðstoð til að mynda Vegagerðarinnar enda þurfti að breyta samgöngumannvirkjum auk allra skiltanna sem þurfti að aðlaga. 

Valgarð endurtók svo leikinn í dag á sama bíl og fyrir 50 árum. En fylgdi honum nánast sjálfakandi Tesla en undir stýri þar sat Amand Lind Davíðsdóttir sem starfar hjá Samgöngustofu en er nýkomin með ökuskírteini. Einnig fylgdu hjól í kjölfarið enda hafa samgöngur breyst mikið á hálfri öld. 

Áhugi fjölmiðla var rétt einsog fyrir hálfri öld mikill og skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að umferðaröryggi, nú einsog þá.