Fréttir
  • Kynning á nýrri tækni í langferðabifreiðum:  Hlífar Þorsteinsson
  • GPM_3162-Minni
  • GPM_3162-Minni
  • Kynning á nýrri tækni í langferðabifreiðum:  Hlífar Þorsteinsson
  • Kynning á nýrri tækni í langferðabifreiðum:  Hlífar Þorsteinsson

Framtíðin bankar á dyrnar

ráðstefna um bíla, fólk og framtíðina

10.11.2016

Þróun nýrrar tækni í bílum er hröð þessa daga. Venjulegir ökumenn eru nú þegar farnir að kannast við viðvaranir þegar farið er yfir málaða línu á milli akreina, eða ef ekið er nálægt hindrun á bílastæði. Ökumenn þekkja líka tækni þar sem bifreiðin fylgir hraða umferðarinnar sjálfkrafa o.s.frv. Slík tækni er líka komin í langferðabifreiðar þar sem m.a. sæti ökumanns titrar ef honum láist að gefa stefnuljós við akreinaskipti. Allt stefnir þetta í átt að auknu öryggi í umferðinni og að lokum til sjálfkeyrandi bíla.

Um þessa framtíð verður fjallað á ráðstefnunni Bílar, fólk og framtíðin sem haldin verður í Hörpu 17. nóvember. Til að kynna ráðstefnuna var fyrr í vikunni farið í stutta ferð á nýrri rútu sem búin er miklu af þessum nýjasta búnaði. Nefna má radar sem aðvarar ökumann um aðvífandi hættu, rútan er með akreinalesara, stefnuljósahvata, búnað sem lækkar hraða sjálfkrafa og tekur völdin af ökumanni undir vissum kringumstæðum, hún er með sjálfvirkum fylgdarbúnaði og einnig með fullkomnum mengunarvarnarbúnaði. Það síðasttalda er ekki bara krafa framtíðarinnar heldur samtímans.

Búnaðurinn í langferðabifreiðinni er þannig að hann les línurnar á veginum. Ef ökumaður ætlar að skipta um akrein og gefur ekki stefnuljós verður línan rauð fyrir framan hann á skjá í mælaborðinu og hann fær óþægilegan titring í sætið sitt, þeim megin sem hann er að beygja. Hvetur þetta hann þannig ótvírætt til þess að nota stefnuljósin. Ef ökumaður fer hratt í beygju eða tekur krappa beygju á nokkrum hraða grípur bíllinn inn í og minnkar hraðann og gæti þannig hugsanlega forðað slysi.

Á ráðstefnunni verður fjallað um sjálfvirkni bíla, umferðaröryggi, þróun vegakerfis og samhliða því ýmsa félagslega og efnahagslega þætti með tilliti til íslenskra aðstæðna.

Fjallað verður um tækninýjungar í nútíð og framtíð og hvernig við getum sem best brugðist við þeim miklu breytingum sem framundan eru. Ætlunin er að svara ýmsum spurningum t.d. varðandi sjálfkeyrandi bíla, persónuvernd og hlutverk ökumanns framtíðarinnar. Þetta er í fyrsta skipti sem tekið er á heildstæðan hátt á bílgreininni, umhverfi hennar, umferðaröryggi, lagasetningu, innviðum og öðru sem málaflokkinn snertir. Fram koma innlendir og erlendir fyrirlesarar, sem eru meðal þeirra fremstu á sínu sviði innan greinarinnar. Þar má m.a. nefna Jean Todt forseta FIA og sendiherra Sameinuðu þjóðanna í umferðaröryggismálum sem mun fjalla um umferðaröryggi framtíðarinnar, Gunnar Haraldsson hagfræðing sem fjallar um möguleg efnahagsleg áhrif þessarar þróunar, Andreas Egense, frá dönsku vegagerðinni, Hrein Haraldsson vegamálastjóra og Tom Palmaerts framtíðarrýni (e. trendwatcher).