1906

Ísafold, 10. október 1906, 33.árg., 66. tbl., forsíða:

Samgöngumál.
Járnbraut. Höfn.
Nú, þegar hugmyndin um járnbraut hér á landi hefir hlotið þann þroska, að landsstjórnin er búin að láta verkfræðing skoða járnbrautarstæði frá Reykjavík til Árnessýslu, þá virðist ástæða til að fara að ræða málið frá ýmsum hliðum.
Það er góðra gjalda vert, er stjórn styður framfarafyrirtæki þjóðarinnar, og skylda hennar er að gera það; en mikill er vandinn og stór ábyrgðin, að meta rétt, hvað þarfast er og fullkomnast. Hins vegar væri hún minna en matvinnungur, ef hún kynni ekki að sníða stakkinn eftir vexti þjóðarinnar eða mæti meir hið ónauðsynlegra óhaganlegra eða úrelta, en brýnni þarfir og betri framkvæmdir.
Flutningsþörf.
Flutningsþörfin hefir aukist mjög mikið á síðustu árum hér sunnanlands, svo þörfin hefir nú loks knúð bændur nokkuð almennt til að nota vagna (kerrur) á flutningabrautunum, og auk þess æðivíða yfir vegleysur, færar og ófærar. Vagnarnir létta mikið flutninginn og auka vörumagnið sem flutt verður, en þeir fullnægja ekki þörfinni nema fá ár, þótt allir noti þá og ýmsir eigi 2, 3 eða 4 vagna. Smávagnarnir eru of mannfrekir í fólksfæðinni, og ferhjólaðir vagnar verða ekki notaðir á vegleysunum, eru líka of dýrir fyrir bændur almennt. Mörg heimili þurfa nú að flytja frá verslunarstöðunum því nær eins mörg vagnhlöss og marga þurfti hestburði fyrir 20 árum, og flutningsþörfin mun enn aukast, að líkindum örara en áður.
Varla er von á góðri afkomu meðan dugandi karlmenn og einyrkjar verða að vera í ferðalögum mestallt vorið, auk haustferða, vetrarferða og ferðanna, sem bændur neyðast til að fara á miðjum slætti, dögum saman.
Ferðalög og flutningar nema hundruðum króna á meðalheimili, og telja má þennan kostnað í hundruðum þúsunda fyrir sýslurnar báðar, Árness og Rangárvalla. Er því auðséð, að enn má kosta nokkru til að liðka samgöngurnar.
Einnig má líta á hitt. Reykjavík þarf nú orðið meira en bændur geta flutt eða framleitt verður kring um hana af mjólkurmat, kjötmeti, heyi o. fl., og slíkar þarfir vaxa meir og meir, bæði fyrir kaupendur og seljendur, sérstaklega um sláttinn og á vetrum.
Efnaðir menn í Reykjavík og þeir, sem lifa eins og auðmenn, gera æ stærri kröfur til fæðisins, vilja hafa nýtt og gott kindakjöt árið um kring, nýja mjólk, nýtt smjör, nýtt skyr o. s. frv.
Bændur hefðu mestan hag af því, ef þeir gætu ávalt fullnægt þörf kaupendanna á óskum þeirra. Nú er þetta ókleift, því næstu sveitir hafa hálfu minna af slíku en þörfin krefur. Og þó dregið sé strik yfir alla erfiðleikana og kostnaðinn við flutningana úr fjarlægum sveitum, þá er bændum ekki unnt að taka sláttinn til ferðalaga meir en nú er gert, og oft verða fjallvegir ófærir á vetrum.
Járnbrautin og snjórinn.
Hvað mundi nú járnbraut greiða fyrir bændum hér austan fjalls og íbúum Reykjavíkur? Bætt gæti hún úr samgönguleysinu um sláttinn og mikið létt undir flutninga vor og haust; en hætt er við að hún kæmi að litlum notum, eða jafnvel alls engum á vetrum - þegar ófært er með kerrurnar.
Litlar sýnast líkur til þess, að járnbraut yrði notuð frá því á haustin í októbermán eða nóv og allt til vors í maí eða júní, því hún yrði lögð um Mosfellsheiði. Allan þennan tíma er meira eða minna af flutningabrautinni hulið snjó í flestum árum, og snjórinn verður svo djúpur, að mörgum fetum nemur - á löngum köflum, jafnvel eftir smá bylgusu. Ég vil geta þess til dæmis, að um lokin síðustu, 11. maí, var flutningabrautin á Hellisheiði hulin snjó algjörlega á nálægt 8 rasta (4-5 þús. fðm.) svæði, en stórir skaflar yfir henni hér og þar allt frá Kömbum niður undir Lækjarbotna (um 25 rastir). Mátti sjá það á vörðum, að víða voru 3-6 fet niður að brautinni, og jafnvel meira á stöku stað. Þetta er ekki eins dæmi, þótt oftar sé snjórinn orðinn minni um lokin.
Mosfellsheiði er vitanlega lægri en Hellisheiði og hlánar því heldur fyr af henni. En lengi eru þar þó skaflar, og svo mikið snjóar þar á vetrum, að ótrúlegt má virðast, ef snjóplógur fyrir vögnum kæmi að nokkru liði, nema í litlum snjó eða logndrífu.
Eyjaloftið með blotum og frosti á víxl, regni, slyddu og frostbyl á sömu klukkustundinni, mun reynast óþjálla fyrir járnbrautarvagna á íslenskum fjallvegum en staðviðrin, þurrara loftið og kaldara, á fjöllum stóru landanna.
Þó blíðviðri sé niðri í byggðinni nálægt sjónum, er sjaldan hægt að vera ugglaus um, að ekki sé snjór eða bylur á fjallvegum, eða komi þar þegar minnst varir 8 mánuði (okt-maí) á hverju ári.
Verið getur, að sumir vilji láta gera skýli yfir brautina, eins og sumstaðar tíðkast á fjöllum erlendis, svo að ekki þurfi að moka og allt af megi ferðast. En hve mikið mundi það kosta og hve langan veg þyrfti yfir að byggja? Líklega mikið af leiðinni úr Mosfellsdal austur að Ingólfsfjalli, því Grafningurinn er ávalt talinn >mikil snjókista<.
Svo gott og gagnlegt sem það væri, ef mögulegt væri að kosta til járnbrautar á þessum stað, þá er ég samt mjög hræddur um, að hún gæti ekki losað bændur við vetrarferðirnar vondu og hættulegu, og að Reykvíkingar hefðu enga hjálp af henni, þó þeir yrðu mötustuttir á miðjum vetri.
Höfn.
Eru þá engin ráð til þess að gera samgöngur greiðar héðan að austan til Reykjavíkur bæði sumar og vetur?
Þessi spurning krefst þess, að góðir menn svari henni, og létti ekki fyr en bestu svörin verða framkvæmd verklega. Meta verður, hvað framkvæmanlegt er fyrir kostnaðar sakir, hvað nægt geti fyrst um sinn, hvað best svarar kostnaði, og hvað næst fer markmiði.
Fyrir mínum eyrum hljómar þetta svar:
Höfn á Eyrarbakka eða Stokkseyri og járnbrautarspottar þaðan um þéttbýlustu, láglendu sveitirnar.
Væri gerð brúkleg höfn á Eyrarbakka eða Stokkseyri og fenginn gufubátur, hraðskreiður og vel útbúinn, mætti flytja fólk, fénað og alls konar vöru milli Árnessýslu og Reykjavíkur, ekki að eins daglega allt sumarið, heldur og allan veturinn því nær daglega eða svo oft sem þörf krefði og ástæður leyfðu. Kæmu svo jafnframt járnbrautarspottar, sem með daglegri yfirferð yrðu líklega oftast færir fyrir snjó, Þó ekki væri nema að Ölfusárbrú og Þjórsárbrú fyrst um sinn. Þá gætu margir sparað sér vorferðalög, með því að skreppa fyrir endann á Reykjanesfjallgarðinum á vetrum þegar best hentaði. Hestarnir gætu hvílt sig heima á meðan eða þar sem best gengi að fóðra þá. Heldur yrði þá hægara og kostaði færri dagsverk að flytja heim fiskætið af Suðurnesjum og alls konar vörur frá Reykjavík.
Hjá höfninni kæmi smám saman nokkuð stór kaupstaður, samgöngur yrðu greiðari við útlönd og allar hafnir landsins. Útlend vara lækkaði í verði, því skipaleiga og uppskipun m. m. yrði ódýrara. Nýr markaður opnaðist í kaupstaðnum fyrir afurðir búanna, og ekki þyrfti að krækja til Reykjavíkur með smjörið frá rjómabúunum. Ekki þyrfti að óttast, að nýi kaupstaðurinn drægi frá Reykjavík, því framleiðslan af landinu ykist eins ört, eða örara en kaupstaðirnir. Samkeppni ómöguleg.
Þegar grasið, fénaðurinn og fólkið eykst og margfaldast í Flóanum, þá yrði gufubáturinn eða bátarnir ekki látnir fljóta lengi tómir.
Með nýjum býlum og hverfum koma ný mjólkurbú og skyrgerð; mætti selja skyrið til útlanda, ef illa seldist í Rvík. (Sbr. Andv. XXX,-186. Þar er efni í ritgerð. - Áfum er sumstaðar helt niður og undanrenna stundum gefin skepnum. Gæti þó kannske gefið meiri peninga en smjörið - væri ný tekjugrein - stórfé. Landsbúnaðarfélagið verður að rannsaka þetta og hrinda í rétt horf).
Rjómabúin gætu alið svín og kálfa, en einstakir bændur hefðu kindur á eldi. Þetta allt mætti selja á vetrum jafnt sumrum eftir þörfinni.
Hafnarstæðið.
Milli Ölfusár og Baugstaðar er hraunbrún mikil í sjónum skammt frá landi, nokkur hundruð faðma, þar sem lengst er. Brún þessi er öll eða mestöll í kafi, nema þegar fjara er mikil; þá sést mikið af henni upp úr. Þegar aldan kemur af opnu hafi, fellur hún hvítfyssandi inn af hraunbrúninni. Fossfallið er nefnt brimgarður. Brúnin kann líka stundum að vera nefnd brimgarður, og það er hún, sem ég nefni svo hér á eftir. Fyrir innan brimgarðinn er skerjaklasi; eru sum skerin hærri en brimgarðurinn og djúp lón á milli þeirra. Sumstaðar eru skörð í brimgarðinn, þau nefnast sund. Þau eru svo þröng og grunn, að sjór fellur þvert yfir þau þegar brim er mikið; þá eru þau ófær öllum skipum, jafnt stórum og smáum.
Oft eru þó lög á sundunum, þegar brim er lítið, þó boðar afli á báðar hendur. Í flæðarmáli eru sumstaðar klappir, en sandmalarvík í milli. Þar er aldrei brim eða brotsjór hættulegir, nema í ofsastormi við haflæga átt. Þegar jafnframt er hásjóað eða mikið flóð.
Lónin sum ná frá flæðarmáli út undir bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri og hefir verið notast við þetta fyrir útræði og innsigling á verslunarstaðina, þó að eins fyrir opna róðrarbáta og lítil vöruskip. Vöruskipin eru fest við skör á legunni, meðan verið er að tæma þau og hlaða. Á Eyrarbakka eru hafðar festar milli skerja þvert yfir lónið; þar má tylla 4 skipum í einu sínu við hverja þverfesti, og geta þau öll snúið eftir veðurstöðu eins og vindhani, án þess að rekast á sker eða hvert á annað. - Áður voru skipin fest í báða stafna, og var þeim þá hætt við að slitna upp í miklum veðrum. -
Skipalegan er stærri á Eyrarbakka en Stokkseyri og auk þess fjær briminu og nær landi. Milli hennar og brimgarðsins eru langar og breiðar klappir, sem koma upp úr þegar lágsjóað er.
Á þessar klappir væri líklega gott að steinlíma öflugan garð eða ávalan grjóthrygg, og sömuleiðis hlaða fyrir vestan skipaleguna til varnar í suðvestanroki og fyrir ísrek frá Ölfusá. Grjót ætti að taka úr skeri, sem nú er milli tveggja þröngra sunda, svo að þar kæmi eitt gott sund, og einnig úr smáskefjum og klettasnefjum, sem helst eru til baga, best rýmkuðu höfnina og bættu innsiglinguna.
Væri þetta gert, yrði sundið fært að líkindum jafnt og útsjórinn, og skipum á höfninni yrði engin hætta búin í ofviðrum af neinni átt.
Hér er ekki nauðsyn á stórri höfn, en örugg þarf hún að verða. Höfundur náttúrunnar hefir gert svo mikið af hafnarvirkjum á þessum stöðum, að ekki vantar nema dálitla viðbót. Undirstaðan er góð og óbilug, þótt hækka þurfi öldubrjótinn, rýma nokkuð til og gera góða uppskipunarbryggju úr steini.
Reynt hefir verið með góðum árangri að dýpka sund á Stokkseyri. Er þó völt von, að svo lítið fé (16 þús. kr.) til slíkra hluta geti einu sinni svarað kostnaði. Slík stórvirki á ekki að byrja fyr en nota má til þeirra svo mikið fé, sem brýnasta þörfin krefur. Vér Íslendingar erum of fátækir til að vera að káka við mörg hálfverk í einu, og ættum líka að vera farnir að hrekkjast á því. - Tíu þúsund kr. geta horfið algjörlega í undirbúningskostnað, þó ekki þurfi nema nokkra tugi þús. kr. til að fullgera verkið.
Kostnaðurinn.
Hvar best er að gera höfnina, hvernig það verði gert, og hve mikið það kosti, er auðvitað ekki unnt að fullyrða nema með nákvæmri rannsókn góðra sérfræðinga, hafnfræðinga og ef til vill kafara.
Hugsanlegt er þó, að gera mætti notandi höfn á þessu svæði, steinbryggju og hentugt lítið gufuskip fyrir mikið minna fé en járnbraut kostaði frá Reykjavík að eins austur í byggð í Árnessýslu.
Hvort kæmi þá að meiri notum fyrir bændur og borgara?
Þó svo reyndist nú ekki , að höfn o. s. frv. yrði ódýrari en járnbraut milli byggða, jafnvel þótt höfnin yrði dýrari, þá má gæta þess, að kostnaðurinn allur til járnbrautar í óbyggðum, bæði lagningarkostnaður og viðhald, hlyti að enda á landsjóði einum. Ekki er líklegt að nokkur sjóður annar, félög eða auðmenn vildu leggja fé í slíka braut, sem auðsjáanlega yrði notuð svo lítið fyrst um sinn, að ekki svaraði flutningskostnaði, hvað þá heldur vöxtum af stofnkostnaði. Aftur á móti dreifðist kostnaðurinn til hafnar á marga vegna víðtækari og almennari nota, en einkum þó vegna hagsmuna fyrir einstaka menn og félög.
Landeigendur, kaupmenn og sveitarfélög á Eyrarbakka og Stokkseyri verða keppinautar um höfnina, og ættu þeir að hljóta happið, sem best bjóða að öðru jöfnu.
Stór fjártillög frá þeim, er hefðu mestan hag af verkinu, er besta ráðið til að hrinda því áfram og útrýma tvídrægni.
Landssjóður ætti að kosta rannsókn og áætlanir til undirbúnings, og auðvitað yrði hann að leggja mest fé til svo mikils framfarafyrirtækis, en sýslusjóðir í 3-4 sýslum ættu líka að hjálpa til, og ef til vill kæmi styrkur úr fleiri stöðum.
Þó að ég nefndi gufubát með hafnarkostnaðinum, þá tel ég ekki nauðsynlegt að kaupa hann í byrjun eða veita fé til þess. Mætti að líkindum leigja skip til milliferða fyrst um sinn. Hitt getur verið , að landssjóður þyrfti nokkuð að styrkja milliferðirnar fyrstu árin, líkt og aðrar strandferðir. Síðar ættu þessar ferðir að bera sig vel sjálfar án nokkurs styrks. Þegar samlagsverslun bænda hefir náð að festa rætur, ættu slíkar milliferðir að komast undir þeirra yfirráð, svo að engin einokum gæti komist að.


Ísafold, 10. október 1906, 33.árg., 66. tbl., forsíða:

Samgöngumál.
Járnbraut. Höfn.
Nú, þegar hugmyndin um járnbraut hér á landi hefir hlotið þann þroska, að landsstjórnin er búin að láta verkfræðing skoða járnbrautarstæði frá Reykjavík til Árnessýslu, þá virðist ástæða til að fara að ræða málið frá ýmsum hliðum.
Það er góðra gjalda vert, er stjórn styður framfarafyrirtæki þjóðarinnar, og skylda hennar er að gera það; en mikill er vandinn og stór ábyrgðin, að meta rétt, hvað þarfast er og fullkomnast. Hins vegar væri hún minna en matvinnungur, ef hún kynni ekki að sníða stakkinn eftir vexti þjóðarinnar eða mæti meir hið ónauðsynlegra óhaganlegra eða úrelta, en brýnni þarfir og betri framkvæmdir.
Flutningsþörf.
Flutningsþörfin hefir aukist mjög mikið á síðustu árum hér sunnanlands, svo þörfin hefir nú loks knúð bændur nokkuð almennt til að nota vagna (kerrur) á flutningabrautunum, og auk þess æðivíða yfir vegleysur, færar og ófærar. Vagnarnir létta mikið flutninginn og auka vörumagnið sem flutt verður, en þeir fullnægja ekki þörfinni nema fá ár, þótt allir noti þá og ýmsir eigi 2, 3 eða 4 vagna. Smávagnarnir eru of mannfrekir í fólksfæðinni, og ferhjólaðir vagnar verða ekki notaðir á vegleysunum, eru líka of dýrir fyrir bændur almennt. Mörg heimili þurfa nú að flytja frá verslunarstöðunum því nær eins mörg vagnhlöss og marga þurfti hestburði fyrir 20 árum, og flutningsþörfin mun enn aukast, að líkindum örara en áður.
Varla er von á góðri afkomu meðan dugandi karlmenn og einyrkjar verða að vera í ferðalögum mestallt vorið, auk haustferða, vetrarferða og ferðanna, sem bændur neyðast til að fara á miðjum slætti, dögum saman.
Ferðalög og flutningar nema hundruðum króna á meðalheimili, og telja má þennan kostnað í hundruðum þúsunda fyrir sýslurnar báðar, Árness og Rangárvalla. Er því auðséð, að enn má kosta nokkru til að liðka samgöngurnar.
Einnig má líta á hitt. Reykjavík þarf nú orðið meira en bændur geta flutt eða framleitt verður kring um hana af mjólkurmat, kjötmeti, heyi o. fl., og slíkar þarfir vaxa meir og meir, bæði fyrir kaupendur og seljendur, sérstaklega um sláttinn og á vetrum.
Efnaðir menn í Reykjavík og þeir, sem lifa eins og auðmenn, gera æ stærri kröfur til fæðisins, vilja hafa nýtt og gott kindakjöt árið um kring, nýja mjólk, nýtt smjör, nýtt skyr o. s. frv.
Bændur hefðu mestan hag af því, ef þeir gætu ávalt fullnægt þörf kaupendanna á óskum þeirra. Nú er þetta ókleift, því næstu sveitir hafa hálfu minna af slíku en þörfin krefur. Og þó dregið sé strik yfir alla erfiðleikana og kostnaðinn við flutningana úr fjarlægum sveitum, þá er bændum ekki unnt að taka sláttinn til ferðalaga meir en nú er gert, og oft verða fjallvegir ófærir á vetrum.
Járnbrautin og snjórinn.
Hvað mundi nú járnbraut greiða fyrir bændum hér austan fjalls og íbúum Reykjavíkur? Bætt gæti hún úr samgönguleysinu um sláttinn og mikið létt undir flutninga vor og haust; en hætt er við að hún kæmi að litlum notum, eða jafnvel alls engum á vetrum - þegar ófært er með kerrurnar.
Litlar sýnast líkur til þess, að járnbraut yrði notuð frá því á haustin í októbermán eða nóv og allt til vors í maí eða júní, því hún yrði lögð um Mosfellsheiði. Allan þennan tíma er meira eða minna af flutningabrautinni hulið snjó í flestum árum, og snjórinn verður svo djúpur, að mörgum fetum nemur - á löngum köflum, jafnvel eftir smá bylgusu. Ég vil geta þess til dæmis, að um lokin síðustu, 11. maí, var flutningabrautin á Hellisheiði hulin snjó algjörlega á nálægt 8 rasta (4-5 þús. fðm.) svæði, en stórir skaflar yfir henni hér og þar allt frá Kömbum niður undir Lækjarbotna (um 25 rastir). Mátti sjá það á vörðum, að víða voru 3-6 fet niður að brautinni, og jafnvel meira á stöku stað. Þetta er ekki eins dæmi, þótt oftar sé snjórinn orðinn minni um lokin.
Mosfellsheiði er vitanlega lægri en Hellisheiði og hlánar því heldur fyr af henni. En lengi eru þar þó skaflar, og svo mikið snjóar þar á vetrum, að ótrúlegt má virðast, ef snjóplógur fyrir vögnum kæmi að nokkru liði, nema í litlum snjó eða logndrífu.
Eyjaloftið með blotum og frosti á víxl, regni, slyddu og frostbyl á sömu klukkustundinni, mun reynast óþjálla fyrir járnbrautarvagna á íslenskum fjallvegum en staðviðrin, þurrara loftið og kaldara, á fjöllum stóru landanna.
Þó blíðviðri sé niðri í byggðinni nálægt sjónum, er sjaldan hægt að vera ugglaus um, að ekki sé snjór eða bylur á fjallvegum, eða komi þar þegar minnst varir 8 mánuði (okt-maí) á hverju ári.
Verið getur, að sumir vilji láta gera skýli yfir brautina, eins og sumstaðar tíðkast á fjöllum erlendis, svo að ekki þurfi að moka og allt af megi ferðast. En hve mikið mundi það kosta og hve langan veg þyrfti yfir að byggja? Líklega mikið af leiðinni úr Mosfellsdal austur að Ingólfsfjalli, því Grafningurinn er ávalt talinn >mikil snjókista<.
Svo gott og gagnlegt sem það væri, ef mögulegt væri að kosta til járnbrautar á þessum stað, þá er ég samt mjög hræddur um, að hún gæti ekki losað bændur við vetrarferðirnar vondu og hættulegu, og að Reykvíkingar hefðu enga hjálp af henni, þó þeir yrðu mötustuttir á miðjum vetri.
Höfn.
Eru þá engin ráð til þess að gera samgöngur greiðar héðan að austan til Reykjavíkur bæði sumar og vetur?
Þessi spurning krefst þess, að góðir menn svari henni, og létti ekki fyr en bestu svörin verða framkvæmd verklega. Meta verður, hvað framkvæmanlegt er fyrir kostnaðar sakir, hvað nægt geti fyrst um sinn, hvað best svarar kostnaði, og hvað næst fer markmiði.
Fyrir mínum eyrum hljómar þetta svar:
Höfn á Eyrarbakka eða Stokkseyri og járnbrautarspottar þaðan um þéttbýlustu, láglendu sveitirnar.
Væri gerð brúkleg höfn á Eyrarbakka eða Stokkseyri og fenginn gufubátur, hraðskreiður og vel útbúinn, mætti flytja fólk, fénað og alls konar vöru milli Árnessýslu og Reykjavíkur, ekki að eins daglega allt sumarið, heldur og allan veturinn því nær daglega eða svo oft sem þörf krefði og ástæður leyfðu. Kæmu svo jafnframt járnbrautarspottar, sem með daglegri yfirferð yrðu líklega oftast færir fyrir snjó, Þó ekki væri nema að Ölfusárbrú og Þjórsárbrú fyrst um sinn. Þá gætu margir sparað sér vorferðalög, með því að skreppa fyrir endann á Reykjanesfjallgarðinum á vetrum þegar best hentaði. Hestarnir gætu hvílt sig heima á meðan eða þar sem best gengi að fóðra þá. Heldur yrði þá hægara og kostaði færri dagsverk að flytja heim fiskætið af Suðurnesjum og alls konar vörur frá Reykjavík.
Hjá höfninni kæmi smám saman nokkuð stór kaupstaður, samgöngur yrðu greiðari við útlönd og allar hafnir landsins. Útlend vara lækkaði í verði, því skipaleiga og uppskipun m. m. yrði ódýrara. Nýr markaður opnaðist í kaupstaðnum fyrir afurðir búanna, og ekki þyrfti að krækja til Reykjavíkur með smjörið frá rjómabúunum. Ekki þyrfti að óttast, að nýi kaupstaðurinn drægi frá Reykjavík, því framleiðslan af landinu ykist eins ört, eða örara en kaupstaðirnir. Samkeppni ómöguleg.
Þegar grasið, fénaðurinn og fólkið eykst og margfaldast í Flóanum, þá yrði gufubáturinn eða bátarnir ekki látnir fljóta lengi tómir.
Með nýjum býlum og hverfum koma ný mjólkurbú og skyrgerð; mætti selja skyrið til útlanda, ef illa seldist í Rvík. (Sbr. Andv. XXX,-186. Þar er efni í ritgerð. - Áfum er sumstaðar helt niður og undanrenna stundum gefin skepnum. Gæti þó kannske gefið meiri peninga en smjörið - væri ný tekjugrein - stórfé. Landsbúnaðarfélagið verður að rannsaka þetta og hrinda í rétt horf).
Rjómabúin gætu alið svín og kálfa, en einstakir bændur hefðu kindur á eldi. Þetta allt mætti selja á vetrum jafnt sumrum eftir þörfinni.
Hafnarstæðið.
Milli Ölfusár og Baugstaðar er hraunbrún mikil í sjónum skammt frá landi, nokkur hundruð faðma, þar sem lengst er. Brún þessi er öll eða mestöll í kafi, nema þegar fjara er mikil; þá sést mikið af henni upp úr. Þegar aldan kemur af opnu hafi, fellur hún hvítfyssandi inn af hraunbrúninni. Fossfallið er nefnt brimgarður. Brúnin kann líka stundum að vera nefnd brimgarður, og það er hún, sem ég nefni svo hér á eftir. Fyrir innan brimgarðinn er skerjaklasi; eru sum skerin hærri en brimgarðurinn og djúp lón á milli þeirra. Sumstaðar eru skörð í brimgarðinn, þau nefnast sund. Þau eru svo þröng og grunn, að sjór fellur þvert yfir þau þegar brim er mikið; þá eru þau ófær öllum skipum, jafnt stórum og smáum.
Oft eru þó lög á sundunum, þegar brim er lítið, þó boðar afli á báðar hendur. Í flæðarmáli eru sumstaðar klappir, en sandmalarvík í milli. Þar er aldrei brim eða brotsjór hættulegir, nema í ofsastormi við haflæga átt. Þegar jafnframt er hásjóað eða mikið flóð.
Lónin sum ná frá flæðarmáli út undir bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri og hefir verið notast við þetta fyrir útræði og innsigling á verslunarstaðina, þó að eins fyrir opna róðrarbáta og lítil vöruskip. Vöruskipin eru fest við skör á legunni, meðan verið er að tæma þau og hlaða. Á Eyrarbakka eru hafðar festar milli skerja þvert yfir lónið; þar má tylla 4 skipum í einu sínu við hverja þverfesti, og geta þau öll snúið eftir veðurstöðu eins og vindhani, án þess að rekast á sker eða hvert á annað. - Áður voru skipin fest í báða stafna, og var þeim þá hætt við að slitna upp í miklum veðrum. -
Skipalegan er stærri á Eyrarbakka en Stokkseyri og auk þess fjær briminu og nær landi. Milli hennar og brimgarðsins eru langar og breiðar klappir, sem koma upp úr þegar lágsjóað er.
Á þessar klappir væri líklega gott að steinlíma öflugan garð eða ávalan grjóthrygg, og sömuleiðis hlaða fyrir vestan skipaleguna til varnar í suðvestanroki og fyrir ísrek frá Ölfusá. Grjót ætti að taka úr skeri, sem nú er milli tveggja þröngra sunda, svo að þar kæmi eitt gott sund, og einnig úr smáskefjum og klettasnefjum, sem helst eru til baga, best rýmkuðu höfnina og bættu innsiglinguna.
Væri þetta gert, yrði sundið fært að líkindum jafnt og útsjórinn, og skipum á höfninni yrði engin hætta búin í ofviðrum af neinni átt.
Hér er ekki nauðsyn á stórri höfn, en örugg þarf hún að verða. Höfundur náttúrunnar hefir gert svo mikið af hafnarvirkjum á þessum stöðum, að ekki vantar nema dálitla viðbót. Undirstaðan er góð og óbilug, þótt hækka þurfi öldubrjótinn, rýma nokkuð til og gera góða uppskipunarbryggju úr steini.
Reynt hefir verið með góðum árangri að dýpka sund á Stokkseyri. Er þó völt von, að svo lítið fé (16 þús. kr.) til slíkra hluta geti einu sinni svarað kostnaði. Slík stórvirki á ekki að byrja fyr en nota má til þeirra svo mikið fé, sem brýnasta þörfin krefur. Vér Íslendingar erum of fátækir til að vera að káka við mörg hálfverk í einu, og ættum líka að vera farnir að hrekkjast á því. - Tíu þúsund kr. geta horfið algjörlega í undirbúningskostnað, þó ekki þurfi nema nokkra tugi þús. kr. til að fullgera verkið.
Kostnaðurinn.
Hvar best er að gera höfnina, hvernig það verði gert, og hve mikið það kosti, er auðvitað ekki unnt að fullyrða nema með nákvæmri rannsókn góðra sérfræðinga, hafnfræðinga og ef til vill kafara.
Hugsanlegt er þó, að gera mætti notandi höfn á þessu svæði, steinbryggju og hentugt lítið gufuskip fyrir mikið minna fé en járnbraut kostaði frá Reykjavík að eins austur í byggð í Árnessýslu.
Hvort kæmi þá að meiri notum fyrir bændur og borgara?
Þó svo reyndist nú ekki , að höfn o. s. frv. yrði ódýrari en járnbraut milli byggða, jafnvel þótt höfnin yrði dýrari, þá má gæta þess, að kostnaðurinn allur til járnbrautar í óbyggðum, bæði lagningarkostnaður og viðhald, hlyti að enda á landsjóði einum. Ekki er líklegt að nokkur sjóður annar, félög eða auðmenn vildu leggja fé í slíka braut, sem auðsjáanlega yrði notuð svo lítið fyrst um sinn, að ekki svaraði flutningskostnaði, hvað þá heldur vöxtum af stofnkostnaði. Aftur á móti dreifðist kostnaðurinn til hafnar á marga vegna víðtækari og almennari nota, en einkum þó vegna hagsmuna fyrir einstaka menn og félög.
Landeigendur, kaupmenn og sveitarfélög á Eyrarbakka og Stokkseyri verða keppinautar um höfnina, og ættu þeir að hljóta happið, sem best bjóða að öðru jöfnu.
Stór fjártillög frá þeim, er hefðu mestan hag af verkinu, er besta ráðið til að hrinda því áfram og útrýma tvídrægni.
Landssjóður ætti að kosta rannsókn og áætlanir til undirbúnings, og auðvitað yrði hann að leggja mest fé til svo mikils framfarafyrirtækis, en sýslusjóðir í 3-4 sýslum ættu líka að hjálpa til, og ef til vill kæmi styrkur úr fleiri stöðum.
Þó að ég nefndi gufubát með hafnarkostnaðinum, þá tel ég ekki nauðsynlegt að kaupa hann í byrjun eða veita fé til þess. Mætti að líkindum leigja skip til milliferða fyrst um sinn. Hitt getur verið , að landssjóður þyrfti nokkuð að styrkja milliferðirnar fyrstu árin, líkt og aðrar strandferðir. Síðar ættu þessar ferðir að bera sig vel sjálfar án nokkurs styrks. Þegar samlagsverslun bænda hefir náð að festa rætur, ættu slíkar milliferðir að komast undir þeirra yfirráð, svo að engin einokum gæti komist að.