1904

Tenging í allt blaðaefni ársins 1904

Þjóðólfur, 1. janúar 1904, 56. árg., 1. tbl., bls. 2:
Í þessari frásögn P.Z. um ferð sína um Dala- og Strandasýslur kemur hann inn á leiðina yfir Trékyllisheiði en þar segir hann veginn góðan og all vandaðan.

Víkursveit.
Þegar farið er norður í Víkursveit liggur leiðin yfir Trékyllisheiði. Heiðin fremur há (1.530 fet) og illviðrasöm, einkum norðan til. Þegar norður er farið má fara niður að þremur bæjum í Reykjarfirðinum. Aðalvegurinn liggur að kaupstaðnum Kúvíkum, eða Reykjarfirði, sem hann vanalega er kallaður, er hann lengstur. Styst er að fara niður Kjós, og er undarlegt, að sýsluvegurinn skuli ekki liggja þangað, því bæði er það styttra, og svo er vegur þar að mun ódýrari. Yfir heiðina er fremur góður vegur og allvel vandaður, en víða eru þó vörðurnar fallnar. Úr Reykjarfirðinum liggur sýsluvegur yfir Göngumannaskörð að Árnesi. Flesta er fara þá leið mun furða, að það er sýsluvegur, því ekki lítur út fyrir, að sú leið hafi verið rudd í lengri tíma. Að sunnanverðu eru allar götur fullar af grjóti, og á einni smábrú, sem þar er, eru göt. Að gera það góðan veg getur ekki verið mjög dýrt.


Þjóðólfur, 24. janúar 1904, 56. árg., 4. tbl., bls. 14:
Í frásögn P.Z. af ferð hans um Dala-og Strandasýslur segir hann m.a. frá veginum eftir endilöngum Bæjarhreppi.

Bæjarhreppur.
Eftir endilöngum Bæjarhrepp liggur landsjóðsvegur; menn skyldu því ætla að vegurinn sé góður. Svo er og; en eigi mun það vera landsjóð að þakka, heldur miklu fremur sveitinni, og því, að vegurinn er orðinn fyrir skömmu landsjóðsvegur! Að minnsta kosti freistast menn til þess að líta svo á málið, þegar þeir fara yfir Kolbeinsstaðaháls og hitta upphleypta brú, sem er ófær nema fyrir fuglinn fljúgandi, en var ágætur vegur, er landsjóður tók við henni. Svo mikið er víst, að brýn nauðsyn er að gera við brúna, og stórfé kostar það ekki, því hún er stutt; en auðvitað er gamla brúin orðin gerónýt, vegna þess hve hún hefur verið trössuð.
Áður en vegurinn varð landsjóðsvegur, byggði sveitin brú yfir á, er Laxá heitir. Sú brú fauk. Þá byggði hún aðra brú, og tók lán til brúargerðarinnar. Hvílir enn nokkuð af láninu á sveitinni. Í sumar var fyrir þinginu uppgjöf á láninu, og finnst mér öll sanngirni mæli með uppgjöfinni. Vegurinn er nú orðinn landsjóðsvegur, og því rétt að landsjóður taki við honum eins og hann er, og skuldinni líka, og svo er það ekki nema sanngjarnt, að veita uppgjöfina sem heiðurslaun til sveitarinnar fyrir dugnað hennar í brúarmálinu. Auk þess má og gæta að því, að Strandasýsla fær ekki mikið fé til vegabóta. Þessi leið út Bæjarhrepp og inn Bitru, er eini landsjóðsvegurinn, sem er til í sýslunni, og að honum hefur víst lítið verið gert, síðan landsjóður tók við honum.


Þjóðólfur, 29. janúar 1904, 56. árg., 5. tbl., bls. 18:
Hér er birt bréf úr Grímsnesi um Sogsbrúarmálið o.fl. ásamt löngu svari ritstjóra þar sem hann fagnar því að Grímsnesingar skuli nú fúsir að hækka tillag sitt til brúargerðarinnar.

Sogsbrúarmálið o. fl.
Úr Grímsnesi er Þjóðólfi skrifað 7. þ.m.
Fundur var haldinn hér á þingstað hreppsins 5. þ.m., til að ræða um Sogsbrúarmálið o. fl.; fundurinn byrjaði með því að kosinn var fundarstjóri og skrifari, því næst las skrifari upp skjal og lýsti gangi Sogsbrúarmálsins að nokkru leyti frá byrjun, og skýrði málið sérstaklega eins og það nú horfir við, sýndi fram á nauðsyn brúarinnar í sambandi við hin væntanlegu rjómabú o. fl., hvatti til að halda málinu áfram og hækka tilboðið frá hreppsins hálfu, úr 2,500 kr. upp í allt að 5000 krónur, og sýndi reikningslega fram á hvaða kostnað það hefði í för með sér, fyrir hvern einstakan bónda, að jöfnuði, í hreppnum, í 28 ár, og komst að þeirri niðurstöðu, að jafnaðartalan á hvern búanda yrði lægri árlega, en hver meðalbóndi, sem verður að flytja alla sína aðdrætti yfir Sogið eða Hvítá, þarf að borga árlega í ferjutolla.
Að því búnu hófust umræður um málið og urðu þær nokkuð langar af þeirri ástæðu, að þar kom fram apturhalds- og andmælaröddin sama, sem fyr hefur látið til sín heyra í þessu máli. Umræður enduðu með því, að lesin var upp tillaga í þessa átt: að Grímsnesingar lofa að leggja frá sínum hreppi til brúargerðar á Sogið hjá Alvirðu allt að 5 þús. krónur og skora jafnframt á sýslunefnd Árnessýslu, að veita úr sýslusjóði allt að 7 þús. kr. til sama fyrirtækis, og gera sem bráðast allar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru málinu til framkvæmda, sem allra fyrst. Var svo gengið til atkvæða um tillöguna, og hún samþykkt með 35 atkv. gegn 3 atkv.
Þess má þakksamlega geta, í sambandi við þetta mál til heiðurs þeim P. Nielsen verslunarstjóra á Eyrarbakka og Ólafi kaupmanni Árnasyni á Stokkseyri, að þeir hafa báðir þegar lofað að taka þátt í fyrirtækinu með fjárframlögum, og væri óskandi að fleiri vildu feta í þeirra spor.
Af ofanritaðri skýrslu má sjá, að mál þetta er á góðum vegi, hjá Grímsnesingum, og að þeir vilja eitthvað í sölurnar leggja, til þess að fá nauðsynlega samgöngubót – brú á Sogið – þar sem þeir hafa nú lofað að hækka um helming tillage sitt, sem áður var þó allríflegt. Hafa Grímsnesingar sýnt mikla samheldni og mikinn dugnað í þessu máli, svo að það er enginn efi á, að þeir halda málinu áfram til fullkomins sigurs, enda hefur sá hreppur löngum verið talinn hinn allra framtakssamasti og afkastamesti til allra framfara í sýslunni, og skipaður mörgum einbeittum dugnaðar- og áhugamönnum. Er óhugsandi, að sýslunefndin láti þá skömm eftir sig liggja, að standa nú ekki við hið fyrra tilboð sitt, um 5000 kr. tillag til Sogsbrúarinnar, þá er landsjóður hefur hlaupið svo vel undir bagga, að leggja til 2/3 hluta brúarkostnaðarins. Að minnsta kosti verður Árnesinguum ekki boðið það í annað sinn, ef þeir hafna því nú, og yfirleitt mun sýslan ekki geta gert sér miklar vonir um fjárframlög úr landsjóði til nauðsynlegra fyrirtækja þar eystra, ef hún vill ekkert styðja þau fyrirtæki, sem alþingi hefur lagt fé til. Það er við svo ramman reip að draga í þinginu um fjárframlög til þessarar sýslu, að sýslunefndin má ekki gera óvinunum þann greiða, að gera sig um of drembna, og heimta annaðhvort allt eða ekkert. Menn gangast lítt upp við slík >compliment< og afleiðingin verður sú, að sýslan fær ekkert, því að þá vitna þingmenn í , að hún vilji sjálf ekkert af mörkum leggja til framfarafyrirtækja innan sýslu. Þær ákúrur hafa ekki svo sjaldan hvinið um eyru okkar, þingmanna hennar, og er því tími til, að sýslunefndin geri slíkt bull að markleysu einni, enda mun svo verða að því er Sogsbrúna snertir, því að hitt væri stór flónska, að synja um allan styrk til hennar, úr því að einn hreppur og landsjóður hafa boðið fram 2/3 fjárins. Að vísu er oss kunnugt um, að sýslunefndarmaðurinn úr Grímsneshreppi, uppgjafakarl úr Laugardal, er einn af stækustu óvinum þessa máls, og mun gera allt sem hann getur til þess að spilla fyrir því í nefndinni, eins og hann hefur hvað eftir annað reynt til að gera í blöðunum, en sú er bótin, að sá velæruverðugi herra hefur engin áhrif, hvorki í sýslunefndinni né í sínum hreppi, svo að það er jafnvel vinningur fyrir hvert mál, að hann sé á móti því, heldur en með því. Þetta er alkunnugt þar eystra, og munu hreppsbúar hans að minnsta kosti kannast við það. Það er lítill efi á, að það er þetta sama göfugmenni, sem var að akneytast í >Ísafold< nokkru fyrir jólin út af Sogsbrúarmálinu o. fl. En það heimskuþvögl var auðvitað ekki svaravert, því að maðurinn er hvorki svo mikils metinn heima í héraði né annarstaðar, að menn taki raus hans til greina að neinu leyti. Honum hentar best að tala við sjálfan sig. Þar talar hann við jafnoka sinn í skynsemi sem hann annars mun sjaldan hitta.
Ritstj.


Austri, 17. febrúar 1904, 14.árg., 5. tbl., bls. 19:
Nú hefur það síðasta komið til landsins af efninu í Lagarfljótsbrúna.

Lagarfljótsbrúin.
Með "Mjölni" síðast kom nú upp til Reyðarfjarðar það sem á vantaði af brúarefninu. Eins og kunnugt er, hefir stórkaupmaður Thór E. Thulinius tekið að sér að koma efninu öllu upp að brúar stæðinu. Umboðsmaður Tuliniusar, herra Jón Arnesen hefir þegar látið Reyðfirðinga aka öllu efninu upp á Fagradal, alla leið norður yfir skriðurnar, og mun það þá komið yfir erfiðasta hluta vegarins.
Herra Arnesen ætlar að fá Héraðsmenn til þess að aka brúarefninu það sem eftir er af leiðinni alla leið að brúarstæðinu. Er það vel ráðið, því Héraðsmenn eiga mikið hægra með að flytja efnið þaðan sem það nú er komið, heldur en Reyðfirðingar.
Vér erum vissir um, að Héraðsmenn taka þessu tilboði Arnesens feginshendi. Fyrst og fremst vegna þess, að hér er um mikla atvinnu að gjöra fyrir þá, þar sem efnið mun verða um 300 æki, eftir því sem Arnesen tjáði oss. Og svo munu Héraðsmenn sjá það, að með þessu flýta þeir fyrir því að brúin komist upp, því ef Héraðsmönnum ekki semst um flutninginn við Arnesen, þá mun mjög líklegt að brúin komist ekki á næsta sumar; því samkvæmt samningi sínum við stjórnina er Tulinius ekki skyldur til að koma brúarefninu upp að brúarstæðinu í ár. Hann er aðeins skyldur til að flytja það "svo fljótt sem kringumstæður leyfa."
Þetta ættu Héraðsmenn að athuga.


Norðurland, 26. mars 1904, 3. árg., 26. tbl., bls. 102:
Sýslufundur Eyfirðinga tók fyrir fjölmörg samgöngumál.

Sýslufundur Eyfirðinga 15.-19. mars. (Ágrip)
Dragferja.
Öngulstaðahreppi veitt leyfi til að borga 10 kr. úr hreppsjóði til dragferjunnar á Stokkahlaðahyl.
Viðauki samþykktur við reglugjörð fyrir lögferjur í sýslunni: dragferjan gerð að lögferju, ferjutollar ákveðnir og samþykkt, að sýsluvegasjóður greiði ferjumanni árlega 15 kr. til viðhalds ferjunni, enda sé hún þá ætíð í góðu lagi.
Samgöngu- og atvinnumál.
Bréf hafði komið til sýslunefndarinnar frá stjórnarráði Íslands, þar sem það æskir eftir tillögum sýslunefndarinnar um helstu áhugamál sýslunnar í atvinnu og samgöngumálum. Til þess að íhuga þetta mál var kosin sérstök nefnd: Magnús Sigurðsson, Stefán Stefánsson kennari, Sigurður Jónasson, Páll Briem og Friðrik Kristjánsson. Nefndinni var sérstaklega falið að taka til íhugunar eftirfarandi mál:
1. Póstvegur úr Kræklingahlíð, er liggi sem næst Hörgárbrúnni og um Öxnadal. Vegurinn sé gjörður akfær og gistihús reist í Bakkaseli.
2. Brú á Eyjafjarðará á póstleiðina.
3. Framhald flutningabrautarinnar inn fjörðinn að Saurbæ.
4. Gufubátur á Eyjafirði.
5. Brú á Svarfaðardalsá á aukapóstleið.
6. Ræktunarfélagið og í sambandi við það búnaðarskóli í nánd við gróðrarstöð félagsins.
7. Þilskipaábyrgðarsjóður.
8. Skipakví til vetrarlægis fyrir þilskip.
9. Íshús.
10. Ullarverksmiðja.
11. Veiting Glerár fram af Akureyrarbrekkum.
12. Tígulsteinsgjörð og steinsteypuverksmiðja.
Sýsluvegur.
Beiðnir um viðgjörð á vegum höfðu komið úr flestum hreppum sýslunnar.
Samþ., að vegarspottinn frá Hörgárbrú á væntanlegum póstvegi á Moldhaugahálsi verði sýsluvegur, að vegarstæðið verði ákveðið og byrjað á veginum á næsta sumri.
Þar sem nýir sýsluvegir eru lagðir, skulu þeir gjörðir akfærir, ef því verður við komið.
Oddvita falið að taka allt að 600 kr. lán handa sýsluvegasjóði, og samþ., að 30 kr. séu teknar til hans af hreppsfé Hrafnagilshrepps þ. á.
Tekjur sjóðsins áætlaðar kr. 1380, sem skal varið þannig: Til Hörgárbrúar kr. 500. Til Öngulstaðahrepps 55. Til brúar á Skjóldalsá 25. til Glæsibæjarhrepps 150. Til Skriðuhrepps 75. Til Arnarhrepps 175. Til Svarfaðardalshrepps 175. Til Þóroddstaðahrepps 75. til dragferju 15. til viðhalds og viðgjörða á sýsluvegum 135.


Norðurland, 2. apríl 1904, 3. árg., 27. tbl., bls. 106:
Sýslufundur Skagfirðinga tók m.a. fyrir ýmiss samgöngumál.

Sýslufundur Skagfirðinga 1.-7. mars. (Ágrip)
Kláfdráttur.
Samþykkt að eftirláta kláfdrættinum á Héraðsvötnum hjá Flatatungu, án endurgjalds, vírstreng, er sýslan á.
Brýr.
Tveir smiðir lýstu bréflega yfir því áliti, að brúin á Kolbeinsdalsá sé hættulaus yfirferðar með lítilli viðgerð.
50 kr. veittar til endurbyggingar brúar á Svartá hjá Reykjum.
Frestað að gera fullnaðarákvæði út af beiðni um 500 kr. styrk til brúargjörðar á Fossá, en æskt eftir lýsingu brúarstæðis og áætlun um kostnað.
Brúarsjóðsgjald ákveðið næsta ár 20 aurar á hvert lausafjárhundrað og hvern verkfæran mann í sýslunni.
Sýsluvegur.
Ákveðið upp á væntanlegt samþykki amtsráðs, að sýsluvegur í Fljótum verði lagður frá Dritvík um Haganesvík að Fjótárbrú. - Samþ. að veita allt að 800 kr. til vegagerðar í Fljótum. - Hallgr. Þorsteinsson ráðinn verkstjóri við vegagjörð í Fljótum. - Samþ. að taka 2000 kr. lán til 10 ára og 1000 kr. bráðabirgðalán til að framkvæma á næsta sumri vegagjörð þá á leiðinni frá Hofsós að Ökrum, sem veittar eru 2000 kr. til í núgildandi fjárlögum.
Kláfdráttur á Jökulsá.
Samþ. að veita 100 kr. styrk til kláfdráttar á Jökulsá.
Atvinnu- og Samgöngumál.
Bréf hafði komið til sýslunefndar frá stjórnarráði Íslands, þar sem það æskir eftir umsögn hennar um, hver almenn fyrirtæki í atvinnu- og samgöngumálum séu talin nauðsynlegust í sýslunni. Eftir að nefnd (Ó. br., Jósef Bj., Rögnv. Bj., Jón Jónsson og Hallgr. Thorlacius) hafði starfað í málinu og álit hennar hafði verið rætt á ýmsa vegu, voru samþykktar tillögur, ítarlega rökstuddar, um 8 framfaramál sýslunnar:
1. Vatnsveitingar á eylendinu í Skagafirði. Að landstjórnin í samráði við Búnaðarfélag Íslands hlutist til um að fenginn verði hingað til lands um lengri eða skemmri tíma æfður landbúnaðarverkfræðingur (helst frá Svíþjóð), og að honum verði meðal annars falið á hendi að rannsaka nákvæmlega öll skilyrði fyrir því, að eylendið í Skagafirði verði tekið til algerðrar ræktunar með vatnsveitingum.
2. Hólaskóli. Að landstjórnin hlutist til um, að fjártillag til skólans úr landsjóði verði hækkað, svo að það nemi að minnsta kosti 2/3 af þeirri upphæð, sem skólanum er árlega veitt af opinberu fé.
3. Flutningabraut. Að fjárveiting til flutningabrautar inn Skagafjörð verði tekin í næsta fjárlagafrumvarp.
4. Brú á vesturós Héraðsvatna. Að til hennar verði veittur úr landssjóði styrkur, er nemi ¾ af kostnaðinum eða 25.000 kr.
5. Brú á Héraðsvötn á póstleið. Að lagafrv. um hana verði lagt fyrir næsta þing.
Gönguskarðsárbrú.
Samþykki veitt til, að hreppsnefnd Sauðárhrepps taki 600 kr. lán til brúarlagningar á Gönguskarðsá, og hreppsnefndinni heimilað að lengja minni brúarpartinn til að tryggja brúna betur fyrir hættum af ruðningi árinnar í leysingum.


Norðurland, 16. apríl 1904, 3. árg., 29. tbl., bls. 114:
Á sýslufundi Suður-Þingeyinga voru gerðar ýmsar samþykktir um samgöngumál.

Sýslufundur Suður-Þingeyinga 27. febr.-4. mars. (Ágrip)
Akbraut.
Um akbrautargerð frá Húsavík upp Reykjadal var þetta samþykkt:
Þrátt fyrir það, að sýslunefndin hefir tvisvar áður samþykkt og sent áleiðis til landstjórnarinnar alvarlegar áskoranir um, að þetta heita áhuga og nauðsynja mál allra héraðsbúa næði fram að ganga sem allra fyrst, hefir máli þessu þó alls ekkert verið sinnt af stjórn og þingi, og eru það mikil vonbrigði fyrir héraðsbúa. En þar sem nefndinni hins vegar verður alltaf ljósari hin ákaflega mikla þörf og þýðing þessa akvegar fyrir sýslubúa, auk fjölda margra annara, þá felur hún oddvita sínum að flytja þetta mál enn á ný við landstjórnina í því skyni að hún leggi það fyrir næsta alþing. Að öðru leyti skírskotar sýslunefndin til álits síns og röksemda á aðalfundi 1901, er hún ætlast til, að oddviti láti fylgja áskorun sinni til landstjórnarinnar.
Þjóðvegir í sýslunni.
Um fjárframlög úr landsjóði til þjóðvega í sýslunni var þetta samþykkt:
Sýslunefndin álítur bráðnauðsynlegt að hið allra fyrsta verði, auk sjálfsagðra smærri viðgerða, gert rækilega við þjóðveginn beggjamegin við Skjálfandafljótsbrú, þar með brúarsporðana báða, og lokið við veginn yfir Fljótsheiði. Nefndin felur því oddvita sínum að bera fram við landstjórnina, gegn um amtið, beiðni um, að þegar á næsta sumri, eða að minnsta kosti sumarið 1905, verði veitt af fé því, sem á gildandi fárlögum er ætlað til þjóðvega í Norðuramtinu, rífleg fjárhæð til þessara vegagerða, og styður nefndin þessa beiðni meðal annars við það, að ráða má af nefndaráliti fjárlaganefndar neðri deildar á síðasta þingi, að nefndin hefir ætlast til, að nokkuð af þeirri fjárhæð, sem hún lagði til að veitt yrði á fjárlögunum til þjóðvega í Norðuramtinu, gengi til þjóðvegarins í Þingeyjarsýslu, sem hún segir að sé mjög vanræktur, og er eigi ofsögum af því sagt.
Vegur yfir Gönguskarð.
Í tilefni af erindi frá Geirfinni Tr. Friðfinnssyni hreppstjóra um að sýslunefndin hlutist til um að fé verði veitt til fjallvegarins yfir Gönguskarð, var samþykkt: Sýslunefndin hefir þegar áður (1898) lýst yfir, að hún teldi nauðsynlegt, að fjallvegur þessi verði varðaður, og felur því oddvita sínum að sækja enn um fjárstyrk í því skyni.
Vegabætur.
Til vegabóta voru þessar fjárhæðir áætlaðar: til sýsluvegar um Húsavíkurþorp að 1/3 kr. 115; til sýsluvegar út frá Húsavík að 2/3 allt að kr. 350; til sýsluv. í Grýtubakkahr. inn Svalbarðsströnd 2/3 kr. 200; til sýsluv. í sama hrepp viðgerðir í Gerðum að 2/3 kr. 50; til sýsluv. inn Svalbarðsströnd að ½ kr. 150; til sýsluv. um Faxafall að 2/3 kr. 50; til brúar á Húsabakkakíl að 2/3 kr. 30; til sýsluv. í Hálshr., eftirveiting kr. 6,17; til viðgerðar á Þorvaldsstaðaárbrú allt að kr. 50.


Þjóðólfur, 22. apríl 1904, 56. árg., 17. tbl., bls. 66:
Hér segir Þjóðólfur frá sýslunefndarfundi Árnesinga. Eru þar m.a. lögð fram ýmiss skjöl varðandi væntanlega brú yfir Sogið hjá Alviðru.

Skýrsla frá sýslufundi Árnessýslu.
Sýslunefnd Árnesinga hélt aðalfund sinn á Eyrarbakka, dagana 12.-16. þ.m. að báðum dögum meðtöldum, 79 málefni komu til umræðu, og er hér vikið að því helsta:
10. Framlögð allmörg skjöl viðvíkjandi hinni væntanlegu brú yfir Sogið hjá Alviðru. Þar með fylgdi vandaður uppdráttur af brúnni eftir verkfræðing Sigurð Thoroddsen. Eftir nokkuð snarpar umræður var brúarmálið, ásamt vegamáli sýslunnar sett í nefnd, og fjallaði sama nefndin um bæði málin. Álit nefndarinnar var að mestu samþykkt óbreytt.
Er álitið með fæstum orðum þannig:
1. Sýslufél. tekur að sér ábyrgð á allt að 5000 kr. láni til brúargerðar á Sogið hjá Alviðru. Grímsneshreppi leyft til sama fyrirtækis 5000 kr. lántaka, jafnskjótt og hreppsnefndin þar hefur komið sér saman um afborgunarskilyrðin, með því að það er samkomulagsatriði, að Laugardalsmenn borgi dálítið lægra, vegna minni afnota af brúnni, fyrst um sinn. Þessi bæði lán tekin og leyfð nú þegar, eða svo fljótt, sem ástæður leyfa, því annars búist við, að fjárveiting sú, er veitt er í þessu skyni á síðasta þingi, kynni að tapast, og málinu fyrir það frestað um óákveðinn tíma.
2. Þegar nægilegt fé fæst annarsstaðar frá, t.d. landsjóði, tekur sýslufélagið ábyrgð á allt að 8000 kr. láni til vegagerðar frá Flatholti hjá Bitru, upp Skeið, inn að Stóru-Laxá með álmu norður bakkana að Iðuferjustað. Þegar kom fram loforð frá 3 viðkomandi hreppum nálægt 6000 kr. Þetta fyrirtæki bíður náttúrlega eftir undirtektum næstkomandi Alþingis, og vonast viðkomendur þá eftir þeim góðum og greiðum, því langt er frá, að vegamál sýslunnar séu komin í viðunanlegt horf ennþá.
11. Beiðni kom frá ferjubóndanum í Óseyrarnesi um, að mega hækka ferjutolla lítið eitt. Það var samþykkt, að ferjutollar yrðu framvegis þannig: 25 aura fyrir hvern lausgangandi mann um vertíð, 30 aura þess utan.


Ísafold, 11. maí 1904, 16.árg., 29. tbl., bls. 116:
Á sýslunefndarfundi Árnessýslu voru samgöngumálin efst á baugi.

Sýslufundur Árnesinga. Árnessýslu 18/4 1904.
Hér hófst sýslunefndarfundur 1. þ.m. og var honum lokið 16. þ.m.
Helstu fundarmál voru:
Samgöngumál voru efst á baugi, eins og vant er.
Má fyrst minnast á áfangastaðamálið.
Eggert í Laugardælum leyfði að taka upp áfangastað í sínu landi fyrst um sinn, fyrir 40 kr. árgjald. Nefndin gekk að því.
Þörf þótti vegna aukinnar umferðar, að bæta við áfangastaðina á Torfeyri, og voru veittar til þess 15 kr.
Gamlir áfangastaðir fengu auðvitað ekkert. Og þar eð utanhéraðsmenn nota áfangastaðina meira en mestur hluti sýslubúa, þótti ráðandi til, að jafnaðarsjóður borgaði þóknunina.
En til þess þarf lagabreytingu.
Uppsýslan hefir mikinn áhuga á að fá veg frá Flatholti hjá Bitru upp að Laxá (og þyrfti lengra), og svo álmu að Iðuferjustað, sem ekki yrði dýr. Það eru 5 rjómabú, sem eiga án efa velferð sína undir því, að þessi vegur fáist. Enda bjóðast sveitirnar að leggja fram til þess frá sér 5-6000 kr., eftir því sem þær framast geta. Nú lofaði sýslan 8000 kr. úr sýslusjóði, og erum vér nú vongóðir um, að alþingi veiti það sem á vantar úr landssjóði. Þennan veg taldi sýslunefndin líka á undan, öllu öðru í svari sínu til landsstjórnarinnar, er spurði hana um áhugamál þau til framfara, sem nú væri ríkust með sýslubúum. Og það var eflaust rétt. Á engu ríður meira nú.
Grímsnesingar báðu um 5000 kr. til Sogsbrúar og fengu þær veittar, mót 5000 kr. úr landssjóði og 5000 kr. úr Grímsneshreppi.
Um leið er áformað að skipta Grímsneshreppi í 2 hreppa og beri sá meira af skuldinni, sem nær er brúnni og notar hana meira.
Vegur upp að Sogsbrú og frá henni upp Grímsnesið var meðal þeirra mála, sem í svarinu til landsstjórnarinnar voru tekin fram svo sem nauðsynleg framtíðarmál - Ekki er hægt að hafa allt fyrir sér í einu.
Önnur smærri samgöngumál nenni ég ekki að telja.
Það urðu ekki stórir skammtar, þá er farið var að útbýta vegafénu til sýsluveganna. Fjárhæðin var að eins 1,857 kr. 59 a., og það með því, að hækka vegagjaldið um 25 a. á mann, því verkfærir fækka óðum. - Frá þessari fjárhæð voru fyrst dregnar skuldir til landssjóðs og einstakra manna. Gekk til þess meira en helmingurinn. Má nærri geta, hve vel öllu hinu víðlenda sýsluveganeti verður borgið með tæpum 300 kr. að bjargast við. Engin sýsla á landinu mun eiga eins erfitt í þessu efni og Árnessýsla - En í staðinn mun hún geta tekið hvað mestum búnaðarframförum.


Austri, 14. maí 1904, 14.árg., 15. tbl., forsíða:
Sýslufundur Skagfirðinga svarar ráðherra hver séu áhugamál sýslubúa, sem snerti samgöngur og atvinnumál.

Sýslufundur Skagfirðinga.
Sýslufundur var haldinn hér fyrstu daga marsmánaðar.
Á meðan á Sýslufundinum stóð kom bréf frá ráðherranum til sýslunefndarinnar, þar sem hann leggur fyrir sýslunefndina að kunngjöra sér hver séu áhugamál sýslubúa, sem snerti samgöngur og atvinnumál.
Mál þau er sýslunefndin nefndi sem hin mestu áhugamál voru:
1. Að breyta láglendi Skagafjarðar sem allra fyrst í ræktað graslendi (flæðiengi). Óskaði hún eftir að fenginn væri sérfræðingur í vatnsveitingum frá útlöndum til þess að gjöra áætlun yfir verkið og kostnað við það. Einnig óskaði hún eftir, að sami maður rannsakaði botninn í Héraðsvötnum, til þess að vita, hvort flatbotnaður mótorbátur gæti ekki gengið eftir þeim. Einnig vildi hún láta sama mann rannsaka hvort hætta væri á skemmdum af Héraðsvötnum, og á hvern hátt best væri að fyrirbyggja þær.
2. Að höfnin á Sauðárkróki sé bætt með bryggju og öldubrjót.
3. Að Héraðsvötnin verði brúuð, bæði á póstleiðinni (undan Ökrum) og eins á vesturósnum (vestan við Hegranesið).
4. Að akbraut verði lögð fram Skagafjörð vestanverðan.
5. Að bættar verði skipagöngur til Skagafjaðrar í janúar og febrúar.

Ísafold, 21. maí 1904, 16.árg., 32. tbl., bls. 126:
Hér skrifa þeir Kjartan Helgason prófastur í Hvammi og Torfi Bjarnason skólastjóri í Ólafsdal langa grein um Laxárbrúarmálið svonefnda.

Um Laxárbrúarmálið o. fl. eftir Kjartan Helgason próf. í Hvammi og Torfa Bjarnason skólastj. í Ólafsdal.
Skýrsla um fund Vesturamtsráðsins 25. júlí f. á. er prentuð í Stjórnartíð. 1903 B. deild bls. 190-208. Sýslureikningarnir úr Dalasýslu eru þar fyrirferðarmestir. Þeir höfðu legið fyrir fundinum þrefaldir í roðinu fyrir árin 1900, 1901 og 1902, með allmiklum athugasemdum; sérstaklega hafði reikningurinn yfir kostnað við Laxárbrúna valdið miklum glundroða. Um hann og fleira, sem snertir reikninga Dalasýslu, hafði verið þjarkað nærri heilt ár við amtmanninn. Amtmaður þurfti því að gefa fundinum skýrslu til þess að greiða úr þessari reikninga flækju. Og hann gerði það líka á sinn hátt. Skýrsla hans er tekin upp í fundargerðirnar. Þar er sagt frá umkvörtunum þeim, sem komið hafa frá nokkrum sýslunefndarmönnum í Dalasýslu, yfir reikningsfærslu sýslumanns þeirra. En frá því er sagt á þann hátt, að ókunnugir menn hljóta að fá alveg ranga hugmynd um málið, ef þeir lesa fundarskýrsluna eina og trúa henni. Við neyðumst því til að bæta þar við nokkrum athugasemdum, sérstaklega vegna amtsráðsfundarmannana, sem nauðsynlega þurfa að þekkja meira en aðra hlið málsins.

I.
Fyrsta kæran (18. júlí 1902) út af reikningafærslu sýslumannsins kom til af því, að hann hafði gert sýslusjóði reikning fyrir 13 krónum fyrir hverja tunnu af sementi því, sem fór í Laxárbrúarstöplana og keypt var hjá versluninni í Búðardal. En verslunarstjórinn skýrði frá því, að verðið hefði verið 11 kr. Sýslumaður gerði amtmanni (og >Þjóðólfi<) grein fyrir því, hvernig á þessari skekkju stæði: Verslunin hafði fyrst gefið sýslumanni reikning fyrir sementinu á 13 kr. (reikningsverði), en veitt svo afslátt eða uppbót á eftir (gegn peningaborgun). Frá þessu hefir amtmaður skýrt amtsráðinu, og er svo að heyra sem honum þyki ákæran hafa verið óþörf og finni ekkert athugavert við aðferð sýslumannsins að því er sementskaupin snertir. Sýslumaður blandar reikningum sýslunnar saman við sinn eigin reikning, pantar í sameiningu sement til Laxárbrúarinnar og fjósbyggingar heima hjá sér, setur svo á brúarreikninginn það af sementinu, sem dýrast reynist, lætur sýslunefndina ekkert vita um þann afslátt, sem hann fékk, á sementsverðinu, fyrr en hann hefir verið kærður. Sementið er keypt árið 1900. Þó að sýslumaður hefði ekki það árið fengið að vita um afsláttinn, var honum þó tilkynnt bréflega af verslunarstjóranum, hve mikla uppbót hann fengi, áður en hann samdi sýslureikninginn fyrir 1901, svo að þar hefði mátt taka uppbótina til greina, ef bréfið hefir komist til skila. En þó að það hefði glatast, þá hafði þó sýslumaður fengið viðskiptareikning sinn frá versluninni fyrir árið 1901 - þar sem uppbótin er tilfærð - áður en hann hélt aðalfund sýslunefndarinnar 1902. Sá fundur neitaði að samþykkja sýslureikninginn 1901 vegna útgjaldanna til Laxárbrúarinnar. Þá hefði sannarlega legið beint við, að sýslumaður skýrði frá uppbótinni, svo að hún yrði tekin til greina í áætlun um tekjur og gjöld næsta árs; það hefði verið hrapalleg gleymska af honum, að muna ekki eftir því þá, þegar hann var að reyna að fá sýslunefndina til að samþykkja reikningana, en henni ofbuðu útgjöldin. Og enn þá brýnna tilefni hafði hann til að muna það skömmu síðar - á aukafundi sýslunefndarinnar, því að þann fund kallaði sýslumaður saman eingöngu til þess að tala um Laxárbrúna, og sýna fram á, að hann þyrfti meira fé til hennar. Sýslunefndin veitti þá eftir beiðni hans 700 kr. í viðbót til brúarinnar. Sú fjárveiting hefði ef til vill orðið einu hundraði minni, ef þá hefði ekki enn gleymst að skýra frá uppbótinni, eða hinu sanna verði sementsins. Sýslumaður rumskaði ekki, fyr en amtsmaður fór að ýta við honum út af kærunni.
Í kærunni er þess getið, að sýslumaður hafi tekið verðið á hverri sementstunnu 14 kr., í reikningi þeim yfir brúarkostnaðinn, er hann sendi landshöfðingja til þess að fá útborgaðan landssjóðsstyrkinn, sem ekki mátti vera meir en 1/3 af öllum brúarkostnaðinum. Amtmaður segir að þessi reikningur sé >eigi neinn reikningur, , heldur öllu fremur áætlun< og ber landshöfðingja fyrir því, að það hefði engin áhrif haft á útborgun styrksins, hvort verð sementsins væri talið 11 eða 14 kr. Skjalið sem amtmaður vill ekki kalla reikning heldur áætlun, er á þessa leið:

Reikningur yfir kostnað við brúargerð á Laxá.
1. 64 tn. af sementi á 14 kr. kr. 896 00
2. Vinna við brúarstöplana sumarið 1900 - 1425 37
3. Vinna við brúarstöplana sumarið 1901 . - 540 00
(340 00)
4. Viður í brýrnar - 1280 00
(1100 00)
5. Járn 425 00
6. Smíði 300 00
7. Flutningur á efni að brúarstæðinu 80 00
(50 00)
8. Að fletta trjám í gólf brúnna 54 00
5000 37
Þessi upphæð er að öllu borguð,
Við þetta bætist:
1. 1 tré 22 feta langt e kr. 25 00
2. Flutningur á viðum - 35 00
3. Fyrir járni sem skemmdist e. - 25 00
4. Fyrir að endursmíða það, sem brotnaði, og koma brúnni á, e. - 200 00
285 00
Skrifstofu Dalasýslu 4. des 1901.
Björn Bjarnarson.
>Þessi upphæð er að öllu borguð<, segir sýslumaður í reikningi þessum, en amtmaður segir: það er áætlun, og gefur með því í skyn, að ekkert geri til, þó að krítað sé liðugt. Satt er það, að viðbótin - 4 síðustu liðirnir - er áætlun, og hefir enginn fett fingur út í hana. En 8 fyrstu liðirnir, að upphæð kr. 5000 37, er reikningur - rangur reikningur. Verðið er of hátt á sumu, og við einn liðinn er bætt kostnaði, sem brúnni kom ekki við. Of langt mál yrði að sýna fram á það hér, hve mikið er ofreiknað, enda gætum við það ekki nákvæmlega; en það getum við fullvissað amtmanninn um, að ef allt, sem ofreiknað er, væri dregið frá, þá yrði ekki eftir 5100 kr.; en það þurfti upphæðin að vera til þess að allur landssjóðsstyrkurinn (1700 kr.) fengist.

Í bréfi til amtsins, dags. 19. ág. 1902, gerir sýslumaður grein fyrir því, hvers vegna hann telji verðið á sementinu svona hátt, 14 kr. á tunnu, 1 krónu hærra en hann telur það í sýslureikningunum. Hann segir að því valdi pakkhúsleiga o. fl. Og á sýslunefndarfundi 1903 sýndi hann til sannindamerkis kvittun fyrir pakkhúsleigu árin 1900 og 1901, að upphæð 30 kr. Sumum sýslunefndarmönnunum þótti þetta tortryggilegt, því að þeir vissu, að sementið hafði ekki í hús komið, tóku því afskrift af kvittuninni, sendu hana þeim manni, er kvittunina hafði gefið, og beiddu hann um skýringu. Kvittunin, sem sýslumaður sýndi var þannig:
Björn sýslumaður Bjarnarson hefir greitt mér í pakkhúsleigu fyrir árið 1900 20 - tuttugu - kr. og fyrir árið 1901 10 - tíu - krónur.
Reykjavík 8. ág. 1902.
Guttormur Jónsson.

En skýringin, sem við fengum, var þannig:
Ég, undirskrifaður, votta hér með að gefnu tilefni, að það sem sýslumaður Björn Bjarnarson á Sauðafelli borgaði mér í pakkhúsleigu fyrir árin 1900 og 1901 og ég kvittaði fyrir í Reykjavík 8. ágúst 1902, var ekki fyrir geymslu á sementi því, er brúkað var til Laxárbrúarinnar, heldur fyrir geymslu á ýmsum öðrum vörum, og að ekkert af sementinu var geymt í húsi því, er ég hafði umráð yfir, nema ef vera skyldi 3 eða 4 tunnur síðara árið.
p. t. Reykjavík 2. júlí 1903.
Guttormur Jónsson.
Á síðasta sýslunefndarfundi lagði sýslumaður fram reikning yfir kostnað við Laxárbrúna frá upphafi, en þá var pakkhúsleigukvittunin horfin úr fylgiskjölunum, og engin pakkhúsleiga talin til brúarkostnaðar.

II.
Fyrstu kærunni út af sýslureikningunum 1900 svaraði amtmaður 15. sept. 1902, og gat þess í svari sínu, að >álit< manna um; að hitt eða þetta hafi verið of dýrt sett, geti ekki framar komið til greina, þar sem reikningarnir væru samþykktir af amtsráði og sýslunefnd. Nokkrir (5) sýslunefndarmenn skrifuðu þá amtmanni aftur og færðu gild rök fyrir því, að nauðsynlegt væri að endurskoða sýslureikningana 1900 að nýju. Amtmaður lét þá undan, og sendi einum nefndarmanninum reikningana með þeim ummælum, að þeir skyldu lagðir fram á næsta sýslufundi til rannsóknar, en ekki opnaðir fyr. Eftir nokkra rekistefnu leyfði þó amtmaður loks, að reikningarnir væru endurskoðaðir á venjulegan hátt af hinum kosna endurskoðanda sýslureikninganna.
Helstu aðfinnslurnar út af reikningunum fyrir árið 1900 voru fjórar, og hefir amtmaður skýrt frá þeim á amtsráðsfundinum, sagt álit sitt um þær og að nokkru leyti haldið uppi vörn fyrir reikningshaldara. Við skulum nú minnast á, þessar aðfinningar og afsakanir, hverja fyrir sig.
Í fyrsta lagi er fundið að því, að reikningarnir voru ekki löglega endurskoðaðir. Sýslumaður hafði sjálfur valið sér endurskoðanda, annan en þann sem sýslunefndin hafði kosið. Amtmaður afsakar það með því, að >sérstaklegar kringumstæður hefðu verið fyrir hendi<. En ekki getur hann um, hverjar þær voru. Kunnugir menn hér vestra þekkja þær ekki, nema ef vera skyldu þær, að sýslumanni hafi í þetta sinn verið >sérstaklega< óþægilegt, að fá sýslureikningana rækilega endurskoðaða. Frjálslyndi er það óneitanlega af amtmanninum gagnvart sýslumanni, að taka ekki hart á því, þó að hann brjóti lögin og velji sér sjálfur endurskoðanda; en óþægilegar afleiðingar getur það haft fyrir sýsluna, því að erfitt er fyrir sýslunefndina á fundum - í litlum húsakynnum og á mjög takmörkuðum tíma - að endurskoða reikninga, rækilega, einkum þegar þeir eru jafn illa úr garði gjörðir og venja er um sýslureikninga Dalasýslu. Auðséð var það í vetur sem leið, að sýslumaður Dalamanna þekkir frjálslyndi yfirmanna sinna, og kann að nota sér það. Amtsráðið skipaði svo fyrir á síðasta fundi, að sýslumaður skyldi semja reikning yfir allan kostnað við Laxárbrúna í einu lagi og senda hann endurskoðanda fyrir 1. febrúar í vetur. Svona ófrjálslegri skipun gat sýslumaður ekki verið að hlýða, heldur lagði hann Laxárbrúarreikninginn óendurskoðaðan fyrir sýslufundinn í vor - sjálfsagt í von um sama frjálslyndið sér til handa sem að undanförnu. - Geta má nærri, hvernig sýslunefnd og hreppsnefndum gengur að fá þennan sýslumann til að gegna skyldu sinni, þegar amtsráðinu með aðstoð amtmanns gengur það ekki betur en þetta.
Annað kæruatriðið var það, að Dalasýslu eru taldar til útgjalda árið 1900 200 kr. til skóla í Búðardal. Sýslunefndin hafði heitið þessum styrk til þess að hvetja til skólastofnunar, en varla hefir hún ætlast til, að fénu yrði eytt fyr en einhver skóli væri stofnaður. Nú var enginn skóli til í sýslunni árið 1900 og ekki fyr en haustið 1901. Þá var farið fram á það við sýslumann, að hann léti þetta fé af hendi rakna til skólans; en hann neitaði því (skriflega). Í amtsráðsfundargjörðunum stendur, að amtmaður hafi >löngu áður en kæran kom fram gjört ráðstafanir til þess að komast fyrir um< hvernig á þessu stæði. Já, amtmaður skrifaði sýslumanni 18. mars 1902 og heimtaði skilagrein fyrir þessum 200 kr., beið svo eftir svari til 13. sept. skrifaði þá aftur og bað um svar, en fékk enga áheyrn. Frá þessu hefir amtmaður sagt okkur sjálfur í embættisbréfi 28. okt. 1902 og er þá að ráðgera að skrifa sýslumanni í þriðja sinn um skólapeningana. Eftir alla rekistefnuna komu peningarnir í ljós. Haustið 1902 fékk Búðardalsskólinn áhöld. Sýslumaður hafði keypt þau þá um sumarið fyrir sýslusjóðstillagið, sem hann hafði trúlega geymt í vasa sínum í 2 ár. Ekki lætur amtmaður þess getið í fundarskýrslu sinni, hvað sýslumaður hafi haft sér til afsökunar í þessu efni, og við skulum þá gjöra honum það til geðs, að þegja um það líka.
Í þriðja lagi var sýslumaðurinn kærður fyrir það, að hann telur 55 tn. af sementi til kostnaðar við Laxárbrúna 1900, en brúkaði ekki nema 51 tn. Amtmaður segir í fundarskýrslunni; >Um sementsnotkunina 1900 segjast kærendurnir hafa skilríki í höndunum, en þau eru enn ekki fram komin. Sýslumaður lýsir því aftur á móti yfir, að sá maður sem álitið hafi, að aðeins hafi verið notuð 51 tn., geti eigi sagt neitt um þetta með vissu<. Skilríkin, sem við höfðum í höndum, þegar við skrifuðum amtmanni um þetta, var dagbók verkstjórans. Það er satt, að við höfum ekki farið fram á það. Við héldum líka, að sú skylda hvíldi á reikningshaldara, að sanna, hve miklu hann hefði eytt, en að tæpast sé heimtandi af sýslunefndinni að hún sanni, hve miklu hann hafi ekki eytt. - Fullkomin sönnun verður það ef til vill ekki talin, sem verkstjórinn segir um þetta; en það er þó eina sönnunin, sem til er, fyrir því, hve mikið af sementi fór í brúarstöplana. Sýslumaður segir, að verkstjórinn geti ekkert um það vitað. Vera má að hann hafi ekki átt að vita neitt um það; en hann gat ekki komist hjá því að vita það, af því að hann hafði umsjón með því, hvað hver verkmaður vann á hverjum degi, og var svo blálega reglusamur, að halda skrá yfir það og týna henni ekki. Hann vissi því nákvæmlega, hvenær sement var flutt að brúarstæðinu og hve mikið í hvert sinn. Hver skyldi annars hafa átt að vita um þetta fremur en umsjónarmaðurinn? Sýslumaður lýsti því yfir á sýslufundi í fyrra, að sjálfur hefði hann ekkert getað um það vitað - því hann var ekki allt af viðstaddur - en hann hafði látið reikna það út. Brúarstólparnir voru nefnilega byggðir í samlögum við Sauðafellsfjósið, og sýslumaður kveðst hafa látið reikna út, hve mikið sement hefði þurft í það eftir teningsmáli veggjanna. Afganginn reiknaði hann svo Laxárbrúnni. Hvort meira sé að byggja á þessum útreikningi en skýrslu umsjónarmannsins, um það verður amtsráðið að dæma.
Í fjórða lagi var kært yfir því, að sýslumaður hefir sett í brúarreikninginn kostnað við vegagerð, sem engin heimild var til að kosta af sýslusjóði né landssjóði. Vegagerð þessi fór fram á sama tíma sem brúarstöplahleðslan og undir umsjón sama manns. Sá maður segir, að sýslumaður hafi sagt sér að slengja allri vinnunni saman. En umsjónarmanni þótti þó viðkunnanlegra, að liða kostnaðinn í sundur, og gjörði það nákvæmlega. Sundurliðaða skýrslu hans um það, hve mikilli vinnu var varið til vegarins, höfum við sent amtmanni 15. apríl f. á. Þetta mál útskýrir amtmaður fyrir amtsráðinu á þessa leið; >Sýslumaður hefir fært rök fyrir því, að hún (vegagjörðin) var nauðsynleg í bráð við brúargjörðina, enda liggur í augum uppi, að vegur verður að liggja að brúnni<. Að vegargjörðin hafi verið >nauðsynleg við brúargjörðina< er víst svo að skilja, að eftir veginum hafi þurft að flytja efni til brúarinnar. En við höfum skýrt amtmanni frá því - þótt hann láti þess ógetið -, að ekki eitt pund af brúarefninu hafi verið flutt um veginn fyrir sunnan Laxá, en kostnaður við þann veg er þó talinn með brúarkostnaðinum. Ef til vill hefir sýslumaður sagt honum annað. En að óreyndu getur amtmaður varla talið sjálfsagt, að við ljúgum, en sýslumaður segi satt. >Það liggur í augum uppi, að vegur verður að liggja að brúnni<, segir amtmaður. Látum svo vera. En liggur hitt eins í augum uppi, að sýslusjóður einn kosti þann veg og að sýslumaður einn ákveði, hvar og hvernig hann skuli lagður, hve langur hann skuli vera o.s. frv., en að sýslunefndin hafi ekki atkvæðisrétt um það; hún sé bara skyldug til að samþykkja þau útgjöld, sem sýslumanni þóknast að demba á sýslusjóð. Það hefir verið aðal regla hér í sýslu, að veita ekki fé úr sýsluvegasjóði né sýslusjóði til vegagerða, nema með því skilyrði að hlutaðeigandi sveitir legðu fram einhvern hluta kostnaðarins. Undantekning frá þeirri reglu eru framlögin til vegarins úr kaupstaðnum áleiðis að Sauðafelli. Mikið af þeim vegi hefir sýslumaður látið gera án þess að biðja fyrirfram um fé til þess, en fengið svo sýslunefndina á eftir til þess að samþykkja útgjöldin, þegar þau eru komin inn í sýslureikninginn. Og þegar sýslunefndin hefir ekki reynst nógu leiðitöm og neitað að samþykkja útgjaldaliði sem þannig eru til komnir, þá er reynt að fá amtsráðið til að hlaupa undir bagga og samþykkja reikningana þvert ofan í mótmæli sýslunefndar. Þetta kom fyrir á síðasta amtsráðsfundi, sbr. úrskurðinn um athugasemdir endurskoðanda við sýsluvegasjóðsreikning Dalasýslu 1902, 6. gr. - Ekki trúum við öðru en að fleiri sýslum en Dalasýslu þætti hart, ef amtsráðið færi að láta gjöra vegabætur á sýslunnar kostnað, hvað sem sýslunefndin segði. Við erum þó ekki að áfellast amtsráðið í heild sinni fyrir þennan úrskurð í fyrra, teljum víst, að fundinum hafi verið viltar sjónir með röngum eða ónákvæmum skýrslum um málavöxtu.

III.
Þá er eftir að minnast á eitt atriði í fundargjörð amtsráðsins, þar sem okkur virðist sannleikanum hallað til muna. Það er skýrsla amtmanns um ágreining milli sýslunefndar og sýslumanna Dalasýslu út af því, að árið 1901 hafa heimildarlaust verið greiddar úr sýslusjóði 189 kr (Upphæðin var gjörsamlega ólesanleg í textanum.) 18 au. til brúargjörðarinnar á Laxá. Sýslunefndin neitar að samþykkja þetta, en amtmaður heldur því fram, að hún sé skyldug til þess, sýslufélagið sé >skuldbundið gagnvart landssjóði til þess að byggja brúna<, sýslunefndin í Dalasýslu hafi að eins gleymt að veita þetta fé á fundi sínum 17. júní 1901; og ennfremur segir hann; >Hér er spursmál um fjárbrúkun til þess verks, sem sýslunefndin hefir samþykkt að skyldi framkvæmt<. Þessar röksemdir amtmannsins eru hreinn og beinn tilbúningur. Sýslunefndin hefir aldrei ákveðið, að brúin skyldi byggð, heldur að eins veitt ríflegan styrk til hennar. Sýslufélagið hefir enga skuldbindingu tekið á sig gagnvart landssjóði; sýslunefndin ekki einu sinni beðið alþingi um styrk til brúarinnar. Reyndar hefir amtmaður sagt okkur - í bréfi 19. ág. f. á. - að fyrir alþingi 1899 hafi legið bónarbréf frá sýslunefnd Dalasýslu um styrk til brúar á Laxá. En sé þetta satt, - þá er það bónarbréf falsað. Laxárbrúarmálið kom ekki til tals í sýslunefndinni fyr en eftir það að alþingi hafði heitið styrknum. Árið 1900 veitti sýslunefndin 1700 kr. styrk til brúarinnar, en lét sér óviðkomandi, hvernig það sem til vantaði, yrði útvegað. Meira en þessar 1700 kr. ætlaði nefndin ekki að veita, og enginn fór heldur fram á það árin 1900 og 1901. En hér þykist amtmaður vita betur, þykist vita, hvað sýslunefndarmennirnir vestur í Dalasýslu hugsuðu, betur en þeir sjálfir, þeir hafi ætlað að veita fé, til Laxárbrúarinnar 17. júní 1901 en gleymt því.
Hve mikið amtsráðið kann að byggja á öðrum eins staðhæfingum og þeim, sem hér eru tilfærðar eftir amtmanni, vitum við ekki; en það er von okkar að það byggi væntanlegan úrskurð sinn í Laxárbrúarmálinu á einhverju, sem haldbetra er.


Austri, 27. maí 1904, 14.árg., 16. tbl., bls. 60:
Hér er því mótmælt að slælega hafi verið staðið að flutningi á efni til Lagarfljótsbrúarinnar.

Leiðrétting.
Með því að mér hefir borist til eyrna, að sýslunefnd Norður-Múlasýslu hafi á fundi í vor látið bóka atriði í fundargjörðina viðvíkjandi flutningi á efni til Lagarfljótsbrúarinnar, sem ég hefi staðið fyrir, samkvæmt hverju menn skyldu ætla, að unnið hefði verið að því verki sljólega og það því orðið dýrara en þörf var á, - skal ég leyfa mér að mælast til, að þér herra ritstjóri, birtið í yðar heiðraða blaði, að slík umsögn er í alla staði ósönn, og finnst mér það miður sæmandi fyrir sýslunefnd Norðurmúlasýslu, ef hún hefir hlaupið eftir lausu slúðri í þessu efni; og skal ég aðeins í þetta sinn benda á, að bestu menn Héraðsins, sem hingað til hafa verið þekktir sem heiðarlegir menn, hafa lagt krafta sína í þetta verk, og mun ég, ef þörf gjörist, geta sannað, að þeir ekki hafi dregið af sér.
Síðar mun ég ef þörf gjörist víkja betur að þessu máli.
Eskifirði 21. maí 1904. Virðingarfyllst
pr. pr. Carl D. Tulinius´ Efterfl.
Jón C. F. Anrensen


Ísafold, 28. maí 1904, 16.árg., 34. tbl., bls. 134:
Aðalsýslufundur Rangárvallasýslu fjallaði m.a. um ýmiss samgöngumál.

Sýslufundur Rangæinga.
Aðalsýslufundur Rangárvallasýslu var haldinn á Stórólfshvoli 5. til 7. apríl. Auk venjulegra reikningsmála koma þessi mál þar til umræðu.
10. Lögð var niður lögferja á Sandhólaferju.
14. Samkvæmt málaleitan landsstjórnarinnar lét nefndin uppi, að þessi framfaramál teldi hún mestu skipta fyrir sýsluna:
Brýr á Rangá hvorutveggja. Framhald þjóðvegarins að Þverá. Gufubátaferðir milli Vestmannaeyja og Rangársands. Framhald á umbótum á Stokkseyrarhöfn og að Stokkseyri verði viðkomustaður - ólæsilegt orð - gufuskipa og strandbátanna. Mótorvagnaferðir eftir akveginum og talsími fram með þeim á sínum tíma.
18. Veittar 50 kr. til að halda uppi ferju á Þverá hjá Fróðholtshjáleigu.
19. Samþykkt þessi áætlun fyrir sýsluvegasjóð: Tekjur 1050 kr. Gjöld: til sýsluvegar í Austur-Eyjafjallahreppi 100 kr., í Vestur-Eyjafjallahr. 300 kr., í Austur-Landeyjahr. 50 kr., í Hvolhreppi 200 kr., í Rangárvallahr. 80 kr., í Landmannahr. 100 kr. og í Holtahreppi 100 kr.; óviss útgjöld 120 kr.
20. Sýslusjóðsáætlun. Tekjur: niðurjöfnun 4700 kr., aðrar tekjur 810 kr.; samtals 5510 kr. Gjöld: sýslunefndarkostnaður 280 kr., ritföng hreppstjóra 50, yfirsetukonulaun 700, jafnaðarsjóðsgjald 1,30, hundalækningar 25, brúargæsla (þjórsá) 300, vextir og afborgun af jarðskjálftaláni 800, vextir og afborgun af Ölfusárbrúarláni 230, umsjón á skógi og mel 60, óviss útgjöld (mest skuldagreiðsla) 800, eftirstöðvar 585. Samtals 5510.


Norðurland, 4. júní 1904, 3. árg., 36. tbl., bls. 143:
Unnið er að lagningu þjóðvegarins út frá Akureyri og er vonast til að vegurinn nái út að Glerá á þessu sumri.

Vegarlagning.
Undir stjórn Páls Jónssonar kennara hefir nú verið unnið að lagning þjóðvegarins út frá Akureyri hátt á 2. viku. Til hans hafa verið veittar þetta ár 5000 kr. Þar af þarf eitthvað á 2. þús. til brúargjörðar á Glerá. 25-30 manna hafa unnið að verkinu. Ekki er vonlaust um, að vegurinn kunni að komast út að Glerá á þessu sumri; er fráleitt kemst hann lengra. Á þessum kafla er óvenjulega örðugt að leggja veg vegna þess, hvernig landslagi er háttað. Brúin á að komast á ána á þessu sumri, hvort sem vegurinn kemst svo langa leið eða ekki.


Þjóðólfur, 7. júní 1904, 56. árg., 24. tbl., forsíða:
Hér skrifar J. Havsteen um grein Torfa Ólafssonar og Sr. Kjartans Helgasonar í Ísafold um Laxárbrúarmálið og kærur þeirra yfir Birni Bjarnasyni sýslumanni.

Um Laxárbrúarmál
Torfa skólastjóra Bjarnasonar í Ólafsdal
og prófastsins séra Kjartans Helgasonar í Hvammi.
Hún virðist fremur gagnslaus, grein nefndra manna í >Ísafold<, 32. blaði 21. þ.m., um Laxárbrúarmálið, sem aðallega er fólgið í kærum þeirra til mín yfir sýslumanni Birni Bjarnarsyni á Sauðafelli og kröfu þeirra um, að eg fyrirskipaði sakamálsrannsókn gegn honum út af framkvæmdum hans við bygging brúar yfir Laxá í Dölum.
Fyrst er það, að sýslumaðurinn var endurkosinn í fyrra sem alþingismaður Dalasýslu, og tekinn fram fyrir þann mann, sem þeir K. H. og T. B. vildu hafa fyrir alþingismann. Og nú á sýslufundinum 23. – 26. mars þ. á., var sýslumaðurinn endurkosinn sem amtsráðsmaður Dalasýslu, en sjálfur Torfi varð að lúta í lægra haldi.
Greinin, sem fer nokkuð nálægt meiðyrðalöggjöfinni, er blátt áfram sprottin af gremju yfir því, að yfirlýsing amtsráðsins í Vesturamtinu um kærur þeirra var á þessa leið: >Nefnd sú, sem kosin hafði verið til þess að láta uppi álit sitt um kærur séra Kjartans prófasts Helgasonar og fleiri sýslunefndarmanna í Dalasýslu yfir framkvæmdum sýslumannsins og reikningsfærslu út af Laxárbrúnni á árunum 1900 og 1901, lýsti yfir því áliti sínu, sem amtsráðið samþykkti, að frekara væri ekki að gera, en úrskurðað hefði verið af forseta<. Úrskurður forseta var vitanlega ekki eftir höfði kærendanna.
Nú svífast þeir Torfi skólastjóri og prófastur ekki þess, að láta það í veðri vaka, að eg hafi gefið amtsráðinu rangar skýrslur, og að amtsráðsfundinum hafi verið villtar sjónir með röngum eða ónákvæmum skýrslum um málavöxtu. Það er í fyrsta skipti, að það er borið upp á mig, eftir að hafa haft amtmannsembætti á hendi í nærfellt 24 ár, að eg hafi farið svo að ráði mínu, sem T.B. og K. H. segja. Skólastjóri Torfi Bjarnason er nú að kveðja mig, þegar að því er komið, að eg fari frá embætti mínu, og þakka mér fyrir það, að eg hef reynt til að hlaupa undir bagga með honum og orðið honum oftar en einu sinni að liði, þegar honum lá á. Í skýrslu um fund Vesturamtsins 25. – 26. júlí f. á., (Stjórnartíðndi 1903 B. bls. 191), er sagt frá því, að eg hafi lagt fram öll þau bréf, sem spunnist höfðu út af kæru fyrnefndra tveggja manna; eg lagði yfir höfuð allt það fram, sem gat upplýst þetta mál, og í nefnd þeirri, sem amtsráðið kaus til þess að rannsaka málið, sátu séra Þorvaldur Jakobsson í Sauðlauksdal, séra Sigurður Stefánsson í Vigur og Snæbjörn hreppstjóri Kristjánsson í Hergilsey. Eg er viss um, að þeir hafa gert það samviskusamlega.
Það er ekki meining mín, að fara nú að karpa við þá K. H. og T. B. út af Láxárbrúarmálinu, og læt eg mér nægja, að biðja góða menn, sem sjá Ísafoldargreinina og sem þekkja mig, að lesa skýrsluna um fund amtsráðsins í Vesturamtinu, 25. – 26. júlí f. á. (Stjórnartíðindi 1903 B. bls. 190-195 og 206-208). Eg vil aðeins minnast hér á fáein atriði í greininni, sem eru næsta einkennileg, og sem lýsa vel málstað kærendanna, sem ekki hafa annað á boðstólum en eintómar sakargiftir, en engar sannanir.
Eins og tekið er fram í amtsráðsfundarskýrslunni, sá prófasturinn, sem fyrst kærði þetta mál einn, í júlí 1902, hjá mér vottorð sýslunefndarmanns Ólafs Jóhannessonar í Stóraskógi á einu fylgiskjalinu með brúarreikningum fyrir 1900, um að verðið á sementi (42 tunnum) frá Búðardalsversluninni væri í reikningi verslunarinnar til sýslumanns tilfært með 13 kr. fyrir tunnuna, en samt segir prófastur í kæru sinni, dagsettri 18, júlí 1902, að sementið hafi verið mest allt keypt hjá verslunina og að tunnan hafi kostað 11 kr.
Á öðrum stað er sagt á þessa leið, að það sé óneitanlega frjálslyndi af amtmanninum gagnvart sýslumanni, að taka ekki hart á því, þótt hann brjóti lögin og velji sér sjálfur endurskoðara. Eg ætla að biðja þá K. H. og T. B. að láta mig dæma um það, hvort sýslumaður hafi drýgt >lagabrot< með þessu. Að þessir menn ekki þekkja hegningarlögin, má annars sjá á því, að þeir vildu endilega að eg fyrirskipaði sakamálarannsókn gegn sýslumanni, sem eg vissi að var sýkn saka (sbr. 131. gr. hegningarlaganna); eg hef ekki getað fundið í nefndum lögum það lagabrot, sem þeir K. H. og T. B. eru að fárast um hér.
Þar næst er sagt, að amtsráðið hafi skipað svo fyrir á síðasta fundi sínum, að sýslumaður skyldi semja reikning yfir allan kostnað við Laxárbrúna í einu lagi. Þetta er ekki satt, heldur lagði amtsráðið sýslumanni fyrir, að semja lokareikninginn, því reikningar yfir brúarkostnaðinn á árunum 1900 og 1901 eru fyrir löngu samdir, og hvað meira er, endurskoðaðir af T. B. sjálfum. Þeir bíða síns úrskurðar, sem eigi mun verða lagður á þessa 3 brúarreikninga fyr en á árinu 1905, vegna þess, að endurskoðari T.B. lýsti því yfir á sýslunefndarfundinum 23.-26. mars þ.á., að hann eigi hefði fundið ástæðu til að endurskoða reikninginn fyr en útkljáð væri um það, hvort greiða skyldi úr sýslusjóði þá upphæð (1159 kr. 18 a.), sem lagðar höfðu verið til brúarinnar á árinu 1901. Á þetta féllst svo sýslunefndin, eða meiri hluti hennar, en eftir er að vita, hvernig amtsráðið tekur í þetta. Þótt endurskoðari T. B. eigi hafi fengið lokareikninginn fyr en á sjálfum sýslunefndarfundinum, sem nú er skýrt frá, þá get eg ekki séð, að það hefði verið ofverkið hans, að endurskoða þennan reikning á sjálfum fundinum. Bæði á amtsráðsfundum og öðrum fundum eru stærri reikningar endurskoðaðir, heldur en lokareikningur Laxárbrúarinnar.
Þeir K. H. og T. B. segja svo frá, að þegar sýslunefndin hafi eigi reynst nógu leiðitöm og neitað að samþykkja útgjaldaliði í sýslureikningunum, sem séu þannig tilkomnir, að sýslumaður hafi lagt fram fé til vegagerða að sýslunefndinni forspurðri, þá sé reynt að fá amtsráðið til að hlaupa undir bagga og samþykkja reikningana þvert ofan í mótmæli sýslunefndar. Sem dæmi upp á þetta er tilfærður úrskurður amtsráðsins um athugasemd endurskoðanda við sýsluvegareikning Dalasýslu fyrir 1902 (6. gr.). Hér var um nauðsynlega vegagerð að ræða, sem ekki mátti fresta, og úrskurður amtsráðsins var á þá leið, að það skyldi við svo búið standa, og tók amtsráðið það um leið fram, að sýslumanni hefði verið skylt, að gera að þeim torfærum, sem spursmál var um. K. H. og T. B. gera það nú heyrum kunnugt, að þeir vilji að torfærur og skemmdir á vegum eigi að liggja afskiptalausar á meðan sýslunefndin ekki hefur veitt fé til þess að bæta úr þeim. Ekki er nú vakurt þótt riðið sé. Vitanlega var það mjög leiðinlegt, að athugasemd T. B. skyldi fá þessa útreið hjá amtsráðinu.
Svo koma loks svigurmæli um, að eg hafi hallað sannleikanum til muna í skýrslu minni til amtsráðsins um hina meintu heimildarlausu greiðslu á 1159 kr. 18 a. úr sýslusjóði 1901 til brúarinnar. Eg hef lagt fram allar skýrslur, sem til eru um þetta atriði; og hverju hef eg getað skrökvað hér? Þeir K. H. og T. B. kalla það ósannindi af mér, að eg hef þá skoðun um þetta mál, að þessi greiðsla sé ekki heimildarlaus. Fyr má nú vera. Jafnhliða þessu fara þeir K. H. og T. B. að verða skemmtilegir. Þeir segja, að sýslunefndin hafi aldrei ákveðið, að brúin skyldi byggð, heldur að eins veitt ríflegan styrk til hennar. Eftir þessu er þá sýslunefndin að veita fé til þeirra fyrirtækja, sem ekki eiga að framkvæmast! Það sætir furðu, að skynsamir menn skuli koma opinberlega fram með slíkar staðhæfingar. Sýslunefndin hefur einu sinni veitt fé til brúarinnar, og hefur þar að auki fengið styrk til hennar úr landssjóði. Þeim K. H: og T. B. er illa við þennan landsjóðsstyrk , og gefa í skyn, að eg ef til vill hafi farið með ósannindi, þá er eg skýrði þeim frá því í bréfi, dagsettu 19. ágúst f. á., hvað gerst hafði á alþingi 1899 í þessu tilliti. Þetta leyfa þeir sér að bera á borð fyrir almenning, þótt eg í nefndu bréfi mínu hafi tilgreint þann stað í Alþingistíðindunum 1899, þar sem skýrt er frá styrktarbeiðninni (Alþingistíðindi 1899, B. 579-580), og jafnvel tilfært orð þáverandi alþingismanns Dalasýslu, séra Jens Pálssonar í Görðum í þessu tilliti. Hann komst að orði á þessa leið: >Beiðni frá sýslunefnd Dalasýslu um styrk til þessarar brúar (nefnil. Laxárbrúarinnar) ásamt fylgiskjölum barst mér fyrst í hendur undir 2. umræðu fjárlaganna, og var þá þegar lögð fram á lestrarsalnum< o.s. frv. Þessi orð hafa þeir K. H. og T. B. haft fyrir sér, þegar þeir segja í Ísafoldargreininni: >En sé þetta satt (það sem eg hafði sagt þeim í bréfinu, dagsettu 19. ágúst) þá er það bónarbréf falsað< Að þeir stöðugt drótta að mér, að eg leggi fram rangar skýrslur og fari með ósannindi, ætti eg ekki að kippa mér upp við, sér í lagi að því leyti sem T. B. á í hlut, þegar þeir drótta því að Jens Pálssyni í Görðum, að hann hafi flutt falsað bónarbréf inn á alþingi og fengið styrk upp á það handa kjördæmi sínu.
Það gagn hef eg haft af greininni í >Ísafold<, að eg hef nú lært að þekkja skólastjóra Torfa Bjarnason í Ólafssdal.
Reykjavík 28. maí 1904.
I. Havsteen.


Ísafold, 8. júní 1904, 16.árg., 37. tbl., forsíða:
Ísafold segir það nú líklegt að hafin verði opinber rannsókn gegn sýslumanni Dalasýslu út af reikningsfærslu hans í Laxárbrúarmálinu.

Opinber rannsókn gegn Dalavaldsmanni.
Nú er loks þar komið, að líklega verður hafin opinber rannsókn gegn Dalavaldsmanninum út af reikningsfærslu hans í Laxárbrúarmálinu.
Að minnsta kosti fóru þeir fram á það einhuga, amtsráðsmennirnir allir, nema reikningshaldarinn sjálfur. En amtmaður maldaði í móinn eftir mætti. Síra Sigurður Stefánsson í Vigur hafði orð fyrir þeim, amtsráðsmönnum, og fór allhörðum orðum um háttalag sýslumanns, sem von var, um óhlýðni hans og lítilsvirðingu við fyrirskipanir amtsráðsins. En mjög var amtmaður þar andræðinn.
Einhvern svo nefndan >lokareikning< um brúargjörðina hafði sýslumaður nú komið með. En hann hafði óhlýðnast alveg fyrirmælum amtsráðsins í fyrra um að senda slíkan reikning endurskoðanda sýslureikninganna í Dalasýslu, og hafði því sýslunefndin þar vísað honum frá sér, er sýslumaður lagði hann fram óendurskoðaðan undir lok sýslufundar í vetur.
Amtsráðið stóð því uppi alveg ráðalaust með að úrskurða reikninginn að þessu sinni. Það lagði loks fyrir sýslumann enn af nýju að senda reikninginn endurskoðanda hið bráðasta, svo að hann hefði nægan tíma til að endurskoða hann. Síðan skyldi reikningurinn lagður fyrir sýslunefndina á aukafundi, er halda skyldi í sumar í ágústmánuði.
Allir amtsráðsmenn, nema Dalasýslum., voru ennfremur á því, að nauðsyn bæri til þar að auka að láta hefja opinbera rannsókn gegn sýslumanni út af þessu máli; og komu fram tvær tillögur um, hvernig orða skyldi áskorun til amtmanns um það, önnur frá síra Sigurði í Vigur, en hin (síðari) frá síra Sigurði prófasti í Flatey.
Síra Sigurður í Vigur lagði til, að amtsráðið skoraði á forseta sinn, að láta hefja opinbera rannsókn gegn sýslumanni, sér í lagi út af því.
að hann hefði óhlýðnast skipun amtsráðsins í fyrra um að semja og láta endurskoða lokareikning Láxárbrúarinnar,
að hann hefði gert sýslufélaginu reikning fyrir pakkhúsleigu af sementi, sem aldrei hafði komið í það hús, er um var að ræða,
að hann hefði reiknað til brúarkostnaðar 55 tunnur af sementi, en eigi notað nema 51 tn., og
að hann hefði skýrt amtsráðinu rangt frá um vegagerð þá, sem hann taldi með á Laxárbrúarreikningnum ranglega.
Hin tillagan, breytingartillaga við þetta, frá síra Sigurði í Flatey, sem var borin undir atkvæði (sjaldan eða aldrei þessu vant) og auðvitað á undan aðaltillögunni, hlaut mikinn meiri hluta atkvæða, svo að aðaltillagan, sem sumum líkaði betur, var því aldrei upp borin.
Hin samþykkta tillaga er svo látandi:
>Þar er sýslumaður hefir eigi fullnægt þeim úrskurði amtsráðsins frá fyrra ári, að semja og senda lokareikning Laxárbrúarinnar á tilsettum tíma, 1. febr. og auk þess hafa komið fram opinberlega nýjar kærur undirskrifaðar af 2 sýslunefndarmönnum í Dalasýslu út af reikningsfærslu sýslumanns í þessu brúarmáli, þá skorar amtsráðið á forseta að láta rannsaka allar framkvæmdir og reikningsfærslu sýslumanns í þessu brúarmáli.
Nú er eftir að vita, hvað úr þessu verður. Hvort amtmaður þarf nú að sýna skörungsskap sinn á því, að virða vettugi þessa eindregnu áskorun amtsráðisins. Eða þá að valinn verður til að framkvæma rannsóknina einhver handónýtur maður og rannsóknin fyrir það sama sem ógerð, þótt myndast sé við hana að nafninu til.


Þjóðólfur, 10. júní 1904, 56. árg., 25. tbl., bls. 98:
P.Z. segir í ferðasögu sinni m.a. frá vegum yfir Sælungsdalstunguheiði og eftir Svínadal.

För um Dala- og Strandasýslur haustið 1903
Eftir P. Z.
Hvammssveit.
Úr Hvammssveit liggja tvær leiðir yfir í Saurbæinn. Önnur er yfir Sælingsdalstunguheiði en hinn eftir Svínadal, þar sem Kjartan Ólafsson var drepinn. Steinninn, er hann barðist við , sést nú hvergi, en steinhrúgur eru þar á einum stað, þar sem líklegt er, að steinninn hafi verið, og líta þær út eins og stór steinn, er hefur klofnað sundur af áhrifum lofts og lagar. Annars er Hafragil, þar sem þeir Bolli voru, vel lagað til fyrirsáturs, því eigi sjást þeir sem eru í gilinu, fyrr en yfir er komið, eins og vegurinn hefur þá legið. Nú liggur hann eigi yfir gilið, heldur er farið yfir Leysingjastaðaá hjá gilinu, og riðin hlíðin út hinumegin. Eftir dal þessum liggur póstvegurinn, en litlu láni hefur vegur sá átt að fagna, og eigi hefur verið varið stórfé til þess að gera við hann, enda sjást þess ljós merki, þó ekki sé á öðru en því, að 11 sinnum er farið yfir Leysingjastaðaá á klukkutíma ferð, auk þess sem nokkrum sinnum er farið yfir sprænu þá, er rennur niður í Saurbæinn, og á einum stað riðið eftir ánni. Þetta sífellda vatnslark er fremur þreytandi, auk þess er það getur komið sér opt illa, því Leysingjastaðaá getur verið ófær, sérstaklega á neðsta vaðinu, Jónsvað er það kallað.


Þjóðólfur, 17. júní 1904, 56. árg., 26. tbl., bls. 102:
Í ferðfrásögn P.Z. er m.a. minnst á veginn í Laxárdal.

För um Dala- og Strandasýslur haustið 1903
Eftir P. Z.
Laxárdalur
Síðasta alþingi samþykkti að veita 1000 kr. styrk til þess að leggja akveg fram Laxárdalinn. Úr Laxárdalnum fremst liggur örstuttur og lágur fjallvegur niður í Bæjarhrepp í Strandasýslu, og er að norðanverðu komið niður að bænum Borðeyri. Yfir sjálfa heiðina er búið að leggja akveg, og að norðan er akvegur allt niður í Borðeyrarkaupstað. Aftur er nær því hrein vegleysa niður Laxárdalinn. Mér líst svo á, að akvegur yfir Laxárdalinn væri til ómetanlegs hags fyrir Norðlendinga í ísárum, enda hefur það opt borið við, að Riis kaupmaður á Borðeyri hefur látið setja vörur sínar á land í Búðardal og að Húnvetningar og jafnvel Skagfirðingar hafa farið þangað að sækja vörur. Það er svo mikið styttra fyrir þá að sækja þangað vörur sínar, en að sækja þær í Borgarnes, þegar svo árar, að þeir geta eigi fengið þær nyrðra. Það munar mikið fyrir bóndann um hverja dagleiðina, er hann verður að bæta við sig, þegar hann fer í slíkar ferðir, því opt er það, að hestar eru eigi í sem bestu standi, þegar illa árar. Hver dagleið er þá dýr, auk þess sem hún er erfið. Að fá góðan veg niður Laxárdalinn, og gufubát á Breiðaflóa, væri því til stórhags fyrir Norðlendinga, einkum þó Húnvetninga. En bátur á að koma á Breiðaflóa sem allra fyrst, enda er vonandi að svo verði, þar sem fé hefur verið veitt til hans af alþingi, og áhugi er mikill á því þar vestra. Breiðfirðingar og aðrir, mega þakka Lárusi H. Bjarnasyni sýslum. Fyrir vasklega framgöngu hans í því máli.


Norðurland, 25. júní 1904, 3. árg., 39. tbl., bls. 155:
Hér er athyglisverð frétt um nýjungu í vegagerð, að Sigurður skólastjóri Sigurðsson hafi látið gera veg á allt annan hátt en sést hafi áður hér á landi, hann notaði nefnilega hestafl og verkfæri.

Ódýr vegarlagning.
Sigurður skólastjóri Sigurðsson hefir látið gera veg á allt annan hátt en sést hefir áður hér á landi. Vegurinn liggur frá neðri tilraunastöðinni við Akureyri upp í efri tilraunastöðina inn við Kjarnaland. Hann liggur skáhalt upp brekku, yfir gil, skorninga, holt og mýrar, er þriggja álna breiður, akfær, 230 faðma langur og hefir kostað 32 kr. Faðmurinn kostar því tæpa 14 aura.
Til þess að fá veginn svona ódýran, hefir Sigurður skólastjóri notað hestaflið og verkfæri þau, sem Ræktunarfélag Norðurlands hefir keypt, plóga og moldrekur.


Ísafold, 29. júní 1904, 16.árg., 43. tbl., bls. 171:
Magnús Þorsteinsson skrifar hér um póstleiðina meðfram Esju og er hissa á að vegurinn skuli ekki vera betur ruddur og bættur.

Póstleiðin meðfram Esju.
Sunnudaginn var lá leið mín fram á Kjalarnes til messu á Brautarholti, og minntist ég þá, er ég reið frá Kollafirði, orðtækisins; >glöggt er gests auga<.
Ég leitaðist við að hafa augun hjá mér.
Það sem mér varð starsýnst á, var vegurinn, og í undrun út af honum hugsaði ég, svona er þá póstvegurinn hér rétt undir handajaðri hinnar vaxandi Reykjavíkur. Alveg verð ég hissa og er á því, að vegur þessi skuli ekki vera betur ruddur og bættur heldur en er, þess er þó brýn og bráð þörf, sumstaðar þar meðfram Esju verður ekki sagt að þverfótandi sé fyrir stóru og smáu grjóti, og hættulegar holur eru þar fyrir hestafætur. Vil ég með þessu láta vera nóg sagt til þess, að ómynd sú og héraðsminkun, sem á er í greindu efni, verði hið allrafyrsta athuguð og lagfærð af réttum hlutaðeigendum.
St. í Reykjavík 28. júní 1904.
Magnús Þorsteinsson.


Norðurland, 2. júlí 1904, 3. árg., 40. tbl., bls. 158:
Amtsráð Vesturamtsins hefur heimtað opinbera rannsókn gegn sýslumanninum í Dalasýslu vegna brúarmálsins svokallaða.

Opinbera rannsókn
gegn sýslumanni í Dalasýslu, Birni Bjarnarsyni, hefir amtsráð Vesturamtsins heimtað með eftirfarandi samþykkt, er gerð var í einu hljóði, að sýslumanni Dalamanna undanskildum:
Þar eð sýslumaður hefir eigi fullnægt þeim úrskurði amtsráðsins frá fyrra ári, að semja og senda lokareikning Laxárbrúarinnar á tilsettum tíma, 1. febr., og auk þess hafa komið fram opinberlega nýjar kærur undirskrifaðar af tveimur sýslunefndarmönnum í Dalasýslu út af reikningsfærslu sýslumanns í þessu brúarmáli, þá skorar amtsráðið á forseta að láta rannsaka allar framkvæmdir í reikningsfærslu sýslumanns í þessu brúarmáli.

Ísafold, 14. júlí 1904, 16.árg., 47. tbl., bls. 187:
Hér er til gamans birt grein Ísafoldar um nýtt samgöngutæki, reiðhjól, en notkun þess breiðist út og er mælt að hálf tylft kvenna eigi sér reiðhjól hér í bæ.

Reiðhjólin.
Þau eru orðin furðu algeng hér í bæ, það fullyrða sumir, að þau skipti hundruðum. Ungir og gamlir, karlar og konur fara hér á hjólum nú orðið alveg eins og í stórborgum erlendis. Færra kvenfólk þó að tiltölu en þar gerist, að svo komnu. Og færri rosknir menn sjálfsagt líka. Mest eru það unglingspiltar. Einnig nokkrir smásveinar. Það eru bæði lærðir menn og leikir, stúdentar og kandídatar, þar með einnig stöku embættismenn, og búðarmenn, iðnaðarmenn o. fl.
Hálf tylft kvenna er mælt að eigi sér reiðhjól hér í bæ og að dálítið fleiri kunni þær á þau. Það eru allt ungar stúlkur, heldri stúlkur, sem kallað er. Meira er ekki um að vera þar. Þetta er mjög svo nýlega tilkomið. Það er nú fyrst að verða tíska hér, að kvenfólk fari á hjólum.
Vel væri það gert málsins vegna, að hjólamenn og konur vendu sig af hinum herfilegu dönskuslettu-bögumælum, er hér tíðkast enn um þessa nýung, hjólaferð og allt það sem þar að lýtur.
Sukkull heita reiðhjólin hjá þeim, og að sukla eða fara á hjólum, og hjólamaður suklari.
Fyrr má nú vera óskapnaður.
Fyrr má nú vera misþyrming á tungu vorri.
Það er eins og orðhagur hjólamaður einn hefir bent Ísafold á, að enginn hlutur er einfaldari og jafnframt sjálfsagðari en hvernig þetta á að orða á íslensku allt saman, og það á bestu íslensku, alveg vafningalausri og tilgerðarlausri. Þar getur ekki heitið að þurfi að halda á neinum nýgerving.
Það er mikill kostur, því oft takast þeir misjafnlega.
Hér hafa tíðkaðar verið lengi tvær íþróttir, sem eru bæði mjög skyldar og mjög líkar hjólaferðum. Það er skautaferð og skíðaferð. Galdurinn er þá allur sá, að hafa allt hið sama orðalag um þessa nýju list og hinar, þ.e. að sínu leyti.
Þá verður alveg eins vel viðeigandi og sjálfsagt að segja að fara á hjólum eins og að fara á skautum eða skíðum; hjólamaður eins sjálfsagður og skautamaður eða skíðamaður; reiðhjól eða hjól að eins í fleirtölu, eins vel viðeigandi og skíði eða skautar, sem er haft hvorttveggja eingöngu í fleirtölu, þegar talað er um ferðalag með þeim áhöldum.
Venja sig á að hafa orðið reiðhjól eða hjól ekki í eintölu, heldur í fleirtölu jafnan, er talað er um það ferðatól, er alveg eins og um skíði og skauta. Hjólin (reiðhjólin) eru og tvö, eins og skautar og skíði eru tvö. Það má ekki og á ekki að skipta sér af því, þó að algenga útlenda heitið á reiðhjólunum sé eintölu-orð (Cycle). Engin minnsta nauðsyn að vera að apa það eftir.
Hjólin mín, segir þá hjólamaðurinn, en ekki hjólið mitt, alveg eins og skautamaðurinn segir skautarnir mínir og skíðamaðurinn skíðin mín, en ekki skautinn minn eða skíðið mitt, nema hann eigi beint við annan skautann eða annað skíðið.
Þegar hjólamenn og aðrir eru búnir að venja sig á hin réttu heiti, sem hér hefir verið bent á, kunna þeir allir jafnilla við að segja hjólhestur, (sem margir gera nú og er auðvitað skárra þó en sukkull), eins og t. d. ef tekið væri upp að segja skíðishestur fyrir skíði. Hins þarf ekki að geta, að þá mundi enginn maður fást til að taka sér í munn annað eins afskræmi og sukkull, suklari og að sukla.


Þjóðólfur, 22. júlí 1904, 56. árg., 32. tbl., bls. 126:
Í ferðasögu P.Z. frá Dala- og Strandasýslum er m.a. getið um veginn frá Búðardal og fram undir Fellsenda.

För um Dala- og Strandasýslur haustið 1903 Eftir P. Z.
Miðdalir.
Þegar riðið er suður öxl þá, er aðskilur Laxárdal og Miðdalina, blasir við manni ofurlítið undirlendi. Undirlendi þetta, er liggur við suðausturhorn Hvammsfjarðar er myndað af Haukadalsá, Miðá og Hörðudalsá. Alla leið frá Búðardal og fram undir Fellsenda er góður upphleyptur vegur. Að vegur sá hefur komist á, mun vera að þakka dugnaði hr. sýslum. Björns að Sauðafelli. Þó vegur þessi sé í alla staði eins góður eins og landsjóðsvegirnir, þá hefur hann þó verið mikið ódýrari en þeir. Mun það ekki eiga lítinn þátt að, að styrkur til hans mun vera veittur svo og svo mikill fyrir hverja alin. Vert væri að taka þá aðferð upp við styrki þá, er landsjóður veitir til vegagerðar, en síðan ætti að láta virða vegalagninguna á eftir og aðgæta, hvort hún fullnægði öðrum skilyrðum. Það er margreynt, að þegar sveitarfélög eiga að leggja vegina, þá verða þeir ódýrari en landsjóðsvegirnir. Til grundvallar fyrir því liggur auðvitað það, að þau geta betur haft eftirlit með vegagerðinni.


Norðurland, 30. júlí 1904, 3. árg., 44. tbl., bls. 174:
Sýslunefnd Suður-Þingeyinga svarar fyrirspurn stjórnarráðsins um það, hver almenn framfarafyrirtæki í atvinnu- og samgöngumálum séu talin nauðsynlegust í héraðinu.

Framfaramál Þingeyinga.
Sýslunefnd Suður-Þingeyinga hefir í vor svarað á þann hátt, er hér fer á eftir, fyrirspurn stjórnarráðsins um það, hver almenn framfarafyrirtæki í atvinnu- og samgöngumálum séu talin nauðsynlegust í héraðinu:
a. Samgöngumál.
Viðvíkjandi samgöngum í héraðinu telur sýslunefndin einkum nauðsynlegt að í nánustu framtíð, eða þegar á næsta fjárhagstímabili, séu þessar umbætur gerðar á þeim:
1. Rífleg fjárhæð sé veitt til akbrautar þeirrar, sem á gildandi vegalögum er ákveðið að leggja skuli frá Húsavík upp Reykjadal.
2. Þjóðvegurinn frá Eyjafirði að Reykjahlíð sé sem fyrst endurbættur og gerður akfær, að væntanlegu brúarstæði á Fnjóksá, þaðan norður um Ljósavatnsskarð að brúnum yfir Skjálfandafljót og frá þeim yfir Fljótsheiði að akbrautinni hjá Einarsstöðum í Reykjadal. Af þessum vegarkafla leggur nefndin mesta áherslu á viðgerð Vaðlaheiðar og kringum brýrnar á Skjálfandafljóti.
Í sambandi við þetta telur nefndin mjög nauðsynlegt að fljótlega sé lagður akfær vegur af þjóðveginum á vesturbrún Vaðlaheiðar að kauptúninu Svalbarðseyri, og þessi vegarspotti jafnframt gerður að þjóðvegi. Þessu atriði til stuðnings tekur nefndin það fram, að verslun Þingeyinga og aðsókn til Svalbarðseyrar er orðin mjög mikil og fer árlega vaxandi, en nú sem stendur eru hinar mestu vegleysur þangað að fara.
3. Eins og áður fyrri er það einhuga álit sýslunefndarinnar og héraðsbúa, að brúa þurfi Fnjóská á þjóðveginum, og telur nefndin æskilegt, að á næstu fjárlögum verði veitt nægilegt fé til þessarar brúargerðar.
4. Nefndin telur það hafa allmikla þýðingu fyrir þetta hérað, sökum margs konar sambanda við Akureyrarbæ, að brú sé gerð á Eyjafjarðará, svo neðarlega sem unnt er. En þar sem nefndin telur sjálfsagt, að sú brú verði mjög dýr, og geri auk þess lykkju á leið margra, hyggur hún að til álita geti komið, að komið sé á duglegri eimferju yfir Akureyrarpoll, er þá komi í stað brúar á Eyjafjarðará.
5. Ef þingið framvegis veitir styrk úr landssjóði til sýsluvegagerða, hyggur nefndin að sem fyrst ætti að leggja fé fram til þess, að sýsluvegurinn frá Grenivík upp Dalsmynni til Ljósavatnsskarðs verði gerður akfær.


Austri, 17. sept. 1904, 14.árg., 28. tbl., forsíða:
Sigurður Thoroddsen verkfræðingur lýsir hér nýju Lagarfljótsbrúnni fyrir lesendum Austra.

Lýsing á Lagarfljótsbrúnni.
Herra Ingeniör Sig. Thoroddsen hefir, eftir beiðni vorri, góðfúslega látið oss í té eftirfarandi lýsingu á Lagarfljótsbrúnni:
"Brúin er byggð á staurum þannig, að með 16 álna millibili eru reknir niður í botninn 2 - sumstaðar 3 - staurar, sem mynda tréstöpla undir brúna, alls eru í henni 29 þannig lagaðir stöplar, en til endanna eru hlaðnir 2 rúmlega 5 álna háir sementeraðir steinstöplar; ofan á stöplana eru lagðir járnbitar eftir endilangri brúnni - tveir í breiddinni -; þvert yfir bitana liggja þvertré með 2 feta millibili og á þessi þvertré er plánkagólfið neglt, til beggja handa er 3 feta hátt handrið úr járni. - Lengd allrar brúarinnar er um 480 álnir, en frá báðum steinstöplum ganga upp á land háir vegaspottar (5-6 álna háir þar sem þeir eru hæstir), að norðanverðu um 70 álna langur kafli, að mestu hlaðinn úr grjóti, en að austanverðu alltað því 300 álna langur vegur, hlaðinn úr sniddu mestmegnis og grjóti raðað utaná kantana. Hæð brúarinnar frá gólfi til vatns, eins og það getur orðið allra lægst, er um 6 álnir; en frá hæstu vatnsstöðu, sem menn þekkja dæmi til, og uppundir járnbitana, er um 1 1/2 fet.
Botninn er mjög linur og blautur - mestmegnis jökulleðja, hefir sumstaðar orðið að reka staurana 40-50 fet niður í botninn til þess að þeir yrðu nægilega fastir.
28 ísbrjótar úr tré eiga að vera uppaf tréstöplunum öllum, nema þeim austasta.
Það er nú verið að hlaða steinstöplana og leggja vegakaflana, gólfið er ekki lagt enn í fullri breidd og handrið aðeins komið öðru megin, en búist er við að fullgjöra það sem eftir er svo - fyrir lok septembermánaðar - að hægt verði að nota brúna til umferðar í vetur. - Ísbrjótarnir verða að bíða næsta sumars flestir, það er nú verið að koma hinum fyrstu fyrir, en það verða varla fleiri búnir í sumar en 4-5 af 28.
Brúin á að geta borið 80 pd. á hverju ferhyrningsfeti af flatarmáli gólfsins. Þar sem sú breidd brúarinnar er 8 fet og lengd ca. 960 fet, getur öll brúin borið 614,400 punda þunga eða rúm 307 ton."
*
Vér erum Ingeniörnum mjög þakklátir fyrir að hafa gefið Austra undanfarandi lýsingu á brúnni, sem kemur þá úr áreiðanlegustu átt. - Er oss kunnugt um, að herra Thoroddsen hefir verið mjög þarfur Íslandi við brúarbygginguna og haldið duglega fram rétti landsins gagnvart þeim, er tekið hafa að sér brúarsmíðina, og auðvitað vilja sleppa sem ódýrast frá henni.
Ritstjórinn.


Norðurland, 1. okt 1904, 4. árg., 1. tbl., bls. 2:
Sigurður Thoroddsen verkfræðingur lýsir Lagarfljótsbrúnni en hún er nú nýopnuð til umferðar.

Lagarfljótsbrúin
var opnuð til umferðar 21. f. mán. Verkfræðingur Sigurður Thoroddsen lýsir brúnni á þessa leið.
Brúin er byggð á staurum þannig, að með 16 álna millibili eru reknir niður í botninn 2 - sumstaðar 3 - staurar, sem mynda tréstöpla undir brúna, alls eru í henni 29 þannig lagaðir stöplar, en til endanna eru hlaðnir 2 rúmlega 5 álna háir sementeraðir steinstöplar; ofan á stöplana eru lagðir járnbitar eftir endilangri brúnni - tveir í breiddinni -; þvert yfir bitana liggja þvertré með 2 feta millibili og á þessi þvertré er plankagólfið neglt; til beggja handa er 3 feta hátt handriði úr járni. - Lengd allrar brúarinnar er um 480 álnir, en frá báðum steinstöplum ganga upp á land háir vegaspottar (5-6 álna háir þar sem þeir eru hæstir), að norðanverðu um 70 álna langur kafli, að mestu hlaðinn úr grjóti, en að austanverðu allt að því 300 álna langur vegur, hlaðinn úr sniddu mestmegnis og grjóti raðað utan á kantana. Hæð brúarinnar frá gólfi til vatns, eins og það getur orðið allra lægst, er um 6 álnir; en frá hæstu vatnsstöðu, sem menn þekkja dæmi til, og uppundir járnbitana, er um hálft annað fet.
Botninn er mjög linur og blautur - mestmegnis jökulleðja, hefir sumstaðar orðið að reka staurana 40-50 fet niður í botninn til þess að þeir yrðu nægilega fastir.
28 ísbrjótar úr tré eiga að vera uppaf tréstöplunum öllum, nema þeim austasta.
Það er nú verið að hlaða steinstöplana og leggja vegakaflana, gólfið er ekki lagt enn í fullri breidd og handrið að eins komið öðru megin, en búist er við að fullgera það sem eftir er svo - fyrir lok septembermánaðar - að hægt verði að nota brúna til umferðar í vetur. - Ísbrjótarnir verða að bíða næsta sumars flestir, það er nú verið að koma hinum fyrstu fyrir, en það verða varla fleiri búnir í sumar en 4-5 af 28.
Brúin á að geta borið 80 pd. á hverju ferhyrningsfeti af flatarmáli gólfsins. Þar sem nú breidd brúarinnar er 8 fet og lengd ca. 960 fet, getur öll brúin borið 614,400 punda þunga eða rúm 307 ton.


Ísafold, 15. okt 1904, 16.árg., 68. tbl., forsíða:
Ritstjóri Ísafoldar skrifar hér enn eina greinina framgangsleysi amtmanns í brúarmálinu svokallaða sem fjallar um meintar sakir Dalasýslumanns.

Drengileg undanbrögð
Dalavaldsmaður og amtsráðið
Eftir margra missera vafninga og vífilengjur komst svo langt í sumar, að amtsráðið í vesturamtinu skoraði á forseta sinn, amtmanninn, að láta rannsaka alla reikningsfærslu og framkvæmdir sýslumannsins í Dalasýslu í svo nefndu brúarmáli, er þá voru nýlega fram komnar kærur út af frá 2 sýslunefndarmönnum, auk þess sem sýslumaður hafði óhlýðnast þar að lútandi úrskurði amtsráðsins frá í fyrra.
Fæstir munu hafa búist við, að amtmaður mundi leggjast þessa áskorun undir höfuð, þó að Ísafold léti í ljósi nokkurn efa um það, um leið og hún birti áskorunarályktun amtsráðsins (8. júní), með svo feldum orðum:
Nú er eftir að vita, hvað úr þessu verður. Hvort amtmaður þarf nú að sýna skörungsskap sinn á því, að virða vettugi þessa eindregnu áskorun amtsráðsins. Eða þá að valinn verður til að framkvæma rannsóknina einhver handónýtur maður og, rannsóknin fyrir það sama sem ógerð, þótt myndast sé við hana að nafninu til.
Síðan þetta eru nú liðnir rúmir 4 mánuðir og heyrist ekki getið um að sýndur sé neinn litur á slíkri rannsókn, hvorki af almennilegum manni, né handónýtum, fyrir siða sakir.
En annað hefir gert verið.
Hið kærða yfirvald hefir verið látið fara í mál við ritstjóra Ísafoldar út af umtali hennar um kæruna, sem amtsráðið vildi láta gera að opinberu rannsóknarefni.
Ísafold hafði rifjað upp lauslega (28. maí) kæruatriðin gegn Dalavaldsmanninum, eins og þau voru framsett í grein þeirra síra Kjartans prófasts í Hvammi og Torfa skólastjóra í Ólafsdal (21. s. m.).
Þar var því spáð um leið, að gerð mundi alúðar- og atorkumikil tilraun til að hefna sín á þeim síra Kjartani eða Ísafold fyrir að hafa hreyft þessu máli svona afdráttarlaust, - hefna sín með málsókn.
Það er eins og þeir hafi feilað sér við að láta spádóminn rætast undir eins. Þeir láta líða hálft missiri eða svo, og höfða þá mál einmitt gegn Ísafold.
Það er ekkert átt við rannsóknina, sem amtsráðið heimtaði. Það gat farið alla vega fyrir valdsmanninum og alþingismanninum, ef það hefði verið gert, og gert almennilega.
Og það er ekkert átt við að lögsækja þá sem kært höfðu. Þeir voru líklegastir til að geta sannað allt sem í kærunni stendur. Og hvar stóð valdsmaðurinn þá. Hvað varð þá úr flokksverndinni, skilyrði fyrir óbilugu flokksfylgi á þingi?
Hitt er talið helst reynandi, að láta manninn myndast við að lögsækja blaðið, sem kærunni hélt á lofti. Það mundi eiga hægast með sönnunargögn, í fjarska, og hafandi naumast efni á að kosta til jafnvel stórfé, t. d. með vitnaleiðslu fyrir setudómara, er það yrði að kosta. Þann veg kynni að mega klekkja á því, og láta svo heita frammi fyrir almenningi, ef sönnun brysti þótt ekki væri nema í einhverju smáatriði, og einhverri sekt yrði klínt á blaðið þess vegna að þarna hefði maðurinn hreinsað sig. Þar væri svo sem ekkert athugavert. Þar með væri sýnt og sannað, að embættinu þjónaði hann með veg og sóma, árvekni og samviskusemi.
Er það svo sem ekki snjallræði!
Eru ekki líkur til, að með því lagi venjist blöð alveg af að vera nokkurn skapaðan hlut að minnast nokkurn tíma á ávirðingar embættismanna, stórar eða smáar? Getur ekki úr því orðið sama sem vátrygging þeim til handa fyrir öllu grandi, hvernig sem þeir svo haga sér? Ef embættismenn gætu leikið sér að hvaða óhæfu sem er, ef þeir þyrftu aldrei annað að óttast, en að blaðamenn þeir, er dirfðust að minnast á vítavert atferli þeirra, gætu fært fullar sönnur á mál sitt, hversu illt afstöðu sem þeir ættu þar. Þeir þyrftu aldrei að óttast neina rannsókn, eina líklega ráðið til að komast fyrir sannleikann til fullrar hlítar.
Því fylgdu og önnur hlunnindi, sem ekki væri minna í varið, - þau, að alþýða þyrði loks ekki annað en taka með þögn og þolinmæði öllum illum búsifjum í hennar garð af valdmanna hálfu, er því er að skipta.
Víst væri gaman að lifa þá!


Norðurland, 15. okt. 1904, 4. árg., 3. tbl., forsíða:
Hér svarar sýslunefnd Eyfirðinga spurningum ráðuneytisins um helstu framfaramál sýslunnar. Meðal þeirra eru fjölmörg samgöngumál.

Framfaramál Eyfirðinga.
Á fundi sýslunefndar Eyfirðinga, síðastliðið ár, kaus sýslunefndin 5 manna nefnd, til þess að semja fyrir hennar hönd tillögu til stjórnarráðsins um helstu áhugamál sýslunnar í atvinnu og samgöngumálum. Nefndinni var sérstaklega falið að taka til íhugunar eftirfarandi mál:
1. Póstvegur út Kræklingahlíð, er liggi sem næst Hörgárbúnni og um Öxnadal. Vegurinn sé gerður akfær og gistihús reist í Bakkaseli.
2 Brú á Eyjafjarðará á póstleiðinni.
3. Framhald flutningabrautarinnar inn fjörðinn að Saurbæ.
4. Gufubátur á Eyjafirði.
5. Brú á Svarfaðardalsá á aukapóstleið.
6. Ræktunarfélagið og í sambandi við það búnaðarskóli í nánd við gróðrarstöð félagsins.
7. Þilskipaábyrgðarsjóður.
8. Skipakví til vetrarlægis fyrir þilskip.
9. Íshús.
10. Ullarverksmiðja.
11. Veiting Glerár fram af Akureyrarbrekkum.
12. Tígulsteinsgerð og steinsteypuverksmiðja.
Í nefndina voru kosnir: Magnús Sigurðsson kaupmaður á Grund, Stefán Stefánsson kennari, Sigurður Jónasson sýslunefndarmaður á Bakka, Páll Briem amtmaður og Friðrik Kristjánsson kaupmaður.
Nefndin hefir fyrir nokkru lokið starfi sínu og er svar hennar á þessa leið:
Eins og kunnugt er liggur Akureyri við botninn á Eyjafirði, sem er einhver lengsti og fiskisælastur fjörður á landinu. Inn frá Akureyri gengur Eyjafjarðardalurinn og rennur eftir honum, mikið vatnsfall, Eyjafjarðará, en austanvert við Eyjafjörð liggur Vaðlaheiði, einn af hæstu fjallgörðum á landinu, sem póstvegur liggur yfir. Út frá Akureyri liggur mikið land, og skerast upp í fjallgarðinn vestan megin Eyjafjarðar miklir dalir, svo sem Öxnadalur, sem póstvegurinn liggur um, Hörgárdalur og Svarfaðardalur, en utar eru Ólafsfjörður og Siglufjörður. Siglufjörður er einhver besta höfn á landinu og sama er að segja um Eyjafjarðarbotninn við Akureyri. Eyjafjarðarkaupstaður er annar stærsti kaupstaðurinn. Þar eru nú um 1600 manns, en auk þess dvelja þar iðulega 2-400 manns.
Þessir menn hafa sest að á Akureyri, af því að frá náttúrunnar hendi eru skilyrðin þar að mörgu leyti mjög góð. Eins og áður er sagt, er Eyjafjörður einhver fiskisælastur fjörður á landinu og svo eru sveitirnar við fjörðinn einhverjar hinu bestu landbúnaðarsveitir. Frá náttúrunnar hendi er Eyjafjörður ríkulega útbúinn, en að því er snertir almanna ráðstafanir til þess að nota sér auð þann, sem falinn er í skauti náttúrunnar, þá eru þær mjög litlar og óverulegar og er því hin mesta nauðsyn á að farið sé að rétta atvinnuvegunum hjálparhönd.
Það sem þá fyrst og fremst er spurning um, er að geta farið á sem kostnaðar minnstan og greiðastan hátt úr einum stað í annan og komið afurðum landsins á markaðinn og flutt þaðan nauðsynjavörur. En í þessu efni hafa almennar ráðstafanir verið mjög litlar. Það helsta, sem gert hefir verið frá landstjórnarinnar hálfu, er að láta gera akveg frá Akureyri um 2 mílur inn Eyjafjarðardalinn að Grund, að styrkja brúarbyggingu á Hörgá, að byrja á vegi nú í sumar frá Akureyri út yfir Glerá, að veita fé til gistihúss í Bakkaseli og að leggja fé til að gera þjóðveginn í Öxnadal um Akureyri greiðfæran.
Það liggur í hlutarins eðli að meira þarf að gera og það mjög bráðlega.
Í raun réttri þarf að gera allan þjóðveginn akfæran. Það þarf að stefna að því, að geta komist um landið á hraðskreiðum vögnum, mótorvögnum, en fyrst þarf að gera akveg og brúa ár í allra fjölbyggðustu héruðum landsins. Þess vegna er það hin mesta nauðsyn að halda áfram veginum út frá Akureyri fram hjá Hörgárbrú áleiðis til Öxnadals. Fyrri en sá vegur kemur getur búnaður í Kræklingahlíð og úthluta Hörgárdals varla blómgast að mun. Sérstaklega mundi vegur þessi greiða mjög fyrir flutningum frá og til rjómabús þess, sem afráðið er að koma á fót næsta vor í nánd við Hörgárbú og að því leyti styðja að eflingu þess og arðsemi. En reynslan er þegar fengin fyrir því hér á landi að góð rjómabú bæta hag sveitabænda að miklum mun.
Þá er hin mesta nauðsyn á að brúa Eyjafjarðará. Þessi á er ófær nema á ferju á vorin og langt fram á sumar og meðan hún er óbrúuð, geta bændur austan árinnar eigi notað vagna til flutninga, sem þó er margfalt kostnaðarminna en að flytja á reiðingshestum. Auk þess verður fé á haustin fyrir miklum hrakningum í ánni, þegar það er rekið til slátrunar á Akureyri eða til útflutnings.
Akbrautin inn Eyjafjörð þarf að halda áfram inn að Saurbæ. Bændur þurfa að fá akfæra vegi, og hér er um fjölbyggt hérað að ræða, sem mundi hafa hin mestu not af akvegi. Akbrautin nær nú að Grund, en frá Grund að Saurbæ eru 4012 faðmar; á þessari leið eru tvær þverár, sem mundi mega brúa fyrir 1.500 kr. og að öðru leyti má ætla að eigi þyrfti til að gera veginn meira en 10.500 kr. eða alls til þessa vegar um 12.000 kr.
Vegurinn frá Akureyri framhjá Hörgárbrú að Laugalandi á Þelamörk mun kosta um 20.000 kr. og þaðan að Bægisá um 10.000 kr.
Eyjafjarðará er á póstleiðinni um 30 faðma á breidd, en að öllum líkindum má setja stöpla í ána.
Í Svarfaðardal er hin mesta nauðsyn á að brúa Svarfaðardalsá á aukapóstleið. Á þessi rennur eftir dalnum og er hún mesti farar- og flutningstálmi.


Ísafold, 22. okt. 1904, 16.árg., 69. tbl., forsíða:
Hér er nýju Lagarfljótsbrúnni lýst nokkuð nákvæmlega.

Lagarfljótsbrúin.
Við hana var lokið nokkurn veginn í f. m., loksins, og hún opnuð til umferðar 21. f. mán.
Það er langlengsta brúin á landinu, 480 álnir. Ölfusárbrúin er 180 álnir alls (þó að eins 120 yfir sjálfa ána), og Þjórsárbrúin hér um bil eins, - hafið yfir sjálfa ána þar 128 álnir.
Brúarendarnir liggja á rúmlega 5 álna háum steinstöplum límdum.
Frá þeim liggja langir upphlaðnir vegarspottar niður á jafnsléttu, 5-6 álna háir mest, 70 álna langur sá að norðanverðu við fljótið, og hinn eigi skemmri en 300 álnir. Nyrðri vegarspottinn er hlaðinn úr grjóti að mestu, en hinn úr sniddu.
Undir brúna eru 6 álnir frá lægsta vatnsborði, en 18 þml. að eins frá því, sem fljótið verður mest í vatnavöxtum.
Brúin er 4 álnir á breidd, eins og brúin á Ölfusá. Breiddin á Þjórsárbrúnni er 5½ alin.
Þetta er fastabrú, en ekki hengibrú, eins og þær á Þjórsá og Ölfusá, og undir henni 29 tréstólpar með 16 álna millibili. Í hverjum tréstólpi eru 2-3 staurar, sem reknir eru niður í fljótsbotninn, eigi skemur en 20-25 álnir sumstaðar; svo er mikil leðjan í botninum, mest jökulleðja.
Ofan á þessa stólpa eru lagðir járnbitar eftir endilangri brúnni, 2 í breiddina, og þar ofan á þvertré með 1 álnar millibili; á þau þvertré er sjálft gólfið lagt, úr plönkum.
Handrið úr járni eiga að vera með fram brúnni beggja vegna, 1½ álnar há.
Ekki var komið upp nema annað handriðið, er brúin var opnuð til umferðar, og gólfið ekki lagt í fullri breidd, enda hvorki steinstöplarnir við brúarendana fullgerðir né vegarkaflarnir upp frá þeim.
Til hlífðar tréstólpunum í ísreki eiga að vera ísbrjótar svo nefndir upp frá þeim, 28 að tölu. En þeir koma fæstir fyr en að sumri, hvernig sem á því stendur; að eins 4-5 búist við að komið verði fyrir í haust.
Þá má landssjóður biðja um góðan vetur. Ella við búið, að ísrek fari með brúna þá þegar vegar allra veraldar. En því má hann illa við, slík ógrynni fjár sem brú þessi hefir þegar kostað, fyrir hin og þessi óhöpp, eða þá handvömm brúarsmiðanna meðfram.


Norðurland, 19. nóv 1904, 4. árg., 8. tbl., bls. 30:
Mörg að helstu framfaramálum Húnvetninga lúta að samgöngumálum.

Framfaramál Húnvetninga.
Tillögur sýslunefndar til landsstjórnarinnar.
Blönduóssbryggja.
Eins og kunnugt er, var fyrir allmörgum árum byggð bryggja af landssjóðs- og sýslufé nokkuru fyrir utan ána Blöndu. Bryggja þessi hefir komið alloft að notum, þegar eigi hefir verið hægt að lenda annarsstaðar hér fyrir brimi, en þó hafa notin eigi verið fullnægjandi, þar sem bryggjan er eigi nógu löng til þess hægt sé að lenda við hana um fjöru, þegar illt er í sjóinn og svo einnig þess vegna, að hún liggur nokkurn veg frá kauptúninu og slæmur vegur að henni.
Til þess því að bryggjan á Blönduósi gæti orðið fullnægjandi eða öruggur lendingarstaður og yfir höfuð komið að góðu gagni fyrir kauptúnið og héruð þau, er að því liggja, virtist sýslunefndinni nauðsynlegt að lengja hana að miklum mun og síðan leggja veg frá henni til kauptúnsins Blönduóss, sem óefað um langan aldur hlýtur að verða aðalkaupstaður sýslunnar, og því afarnauðsynlegt, að hann sé ekki hafður útundan, að því er skipaferðir snertir, en það mun hann verða meðan engin trygg lending er nálægt honum.
Flutningabraut vestur Húnavatnssýslu.
Flutningabraut er, með lögum 13. apríl 1894, ákveðin af Blönduósi vestur Húnavatnssýslu og væntir sýslunefndin að sýslan verði ekki útundan að því er lagningu slíkrar brautar snertir og er það því nauðsynlegra að fá góða vegi - helst akvegi - úr nefndu kauptúni og vestur sýsluna, þar sem ætla má, að bráðlega verði sett á stofn rjómabú í Vatnsdal. Sérstaklega skal það tekið fram, að þar sem stefna hinnar væntanlegu flutningabrautar og þjóðvegarins mun falla saman, væri til mikilla bóta og nauðsynlegt að ár þær, Laxá, Skriðuvað, Gljúfurá o. fl., er á veginum eru, yrðu brúaðar sem allra fyrst. - Þá álítur sýslunefndin einnig æskilegt, að vegur væri lagður af flutningabrautinni fyrir vestan Sporð til Hvammstanga, með því kauptún þetta er í talsverðri framför og sækir þangað yfirborð af mönnum í Víðidal og Vesturhópi.
Póstvegur um Langadal.
Í hitt eð fyrra var byrjað á því að leggja póstveginn í gegn um Langadal. Er vegur sá ekki langt kominn, en óhjákvæmilegt að honum sé sem fyrst lokið fram að Geitaskarði, með því stefnu hans var breytt, svo nú endar hann í vegleysu, en ekki hægt að nota hinn gamla veg, hvorki vetur né vor.
Vegur fram Miðfjörð.
Með því Miðfjörður er allfjölmennt hérað, sem búast má við að eigi góða framtíð fyrir höndum, að því er búnað snertir, þykir sýslunefndinni nauðsynlegt að vegur yrði lagður af flutningabrautinni fram Miðfjörðinn.
Svifferja á Blöndu.
Eins og kunnugt er, er brúin á Blöndu útundir sjó, en slæm eða engin vöð á þeirri á þaðan og fram til fjalla. Væri það því hin besta samgöngubót fyrir fremri hluta Húnavatnssýslu, ef svifferju yrði komið á hjá Tungunesi. Er það því ósk sýslunefndarinnar að verkfræðingur landsins yrði látinn skoða téð svifferjustæði og ef honum þætti tiltækilegt að koma ferjunni á, að styrkur fengist til þess af opinberu fé.


Þjóðólfur, 2. desember 1904, 56. árg., 51. tbl., bls. 202:
Úr Norður-Þingeyjarsýslu eru sagðar fréttir af brúargerð á Jökulsá í Axarfirði.

Úr Norður-Þingeyjarsýslu (Axarfirði) er ritað 18. okt:
“Nú fara Jökulstöplakarlar til Húsavíkur í dag; hættu vinnu í gær, en búnir að miklu leyti með stöplana fjóra, tvo hvoru megin, og brúarsporð alveg að austan, og mikið af þeim að vestan, þó vantar líklega um 200 tunnur af steinlími. Mjög vel hefur starf þetta gengið, síðan Steinþór steinsmiður Björnsson Mývetningur tók við allri stjórn, og hefur hann sérstakt lag, sem fáum er lagið á stjórn og aga, svo að allir stöplamenn elskuðu hann og virtu, og verkið gekk greiðlega úr hendi allan tímann. En allt gekk áður í handaskolum hjá Jónasi nokkrum Jónssyni Rangæing, svo að hann varð að hætta allri stjórn um miðjan júlímánuð, en þá vildi til happs, að Steinþór steinsmiður kom og tók við öllu. 29. ágúst komst allt efni í brúna hér að Araósi á Staðarreka í Axarfirði með s/s Mjölni (skipstj. Endresen) og tókst ágætlega með uppskipun þann dag, alla nóttina eftir og fram um dagmál 30., og var mikið lægni og dugnaði Steinþórs Björnssonar að þakka, því að þegar um hádegi gerði ófært brim við alla Reka, og hélst það um hálfan mánuð þar eftir, og eins var á undan. Tókst þessi uppskipun, eins og annað við þessa brúargerð, frábærlega vel, því hvergi er eins hægt að koma brúarefninu frá í vetur í ækjum og einmitt þarna í Araósi. Var brúarefnið alls 600 smálestir (tons) er á Rekann kom, og eiga Axfirðingar að aka því öllu í vetur upp í Ferjuhraun hjá brúarstæðinu”.




Tenging í allt blaðaefni ársins 1904

Þjóðólfur, 1. janúar 1904, 56. árg., 1. tbl., bls. 2:
Í þessari frásögn P.Z. um ferð sína um Dala- og Strandasýslur kemur hann inn á leiðina yfir Trékyllisheiði en þar segir hann veginn góðan og all vandaðan.

Víkursveit.
Þegar farið er norður í Víkursveit liggur leiðin yfir Trékyllisheiði. Heiðin fremur há (1.530 fet) og illviðrasöm, einkum norðan til. Þegar norður er farið má fara niður að þremur bæjum í Reykjarfirðinum. Aðalvegurinn liggur að kaupstaðnum Kúvíkum, eða Reykjarfirði, sem hann vanalega er kallaður, er hann lengstur. Styst er að fara niður Kjós, og er undarlegt, að sýsluvegurinn skuli ekki liggja þangað, því bæði er það styttra, og svo er vegur þar að mun ódýrari. Yfir heiðina er fremur góður vegur og allvel vandaður, en víða eru þó vörðurnar fallnar. Úr Reykjarfirðinum liggur sýsluvegur yfir Göngumannaskörð að Árnesi. Flesta er fara þá leið mun furða, að það er sýsluvegur, því ekki lítur út fyrir, að sú leið hafi verið rudd í lengri tíma. Að sunnanverðu eru allar götur fullar af grjóti, og á einni smábrú, sem þar er, eru göt. Að gera það góðan veg getur ekki verið mjög dýrt.


Þjóðólfur, 24. janúar 1904, 56. árg., 4. tbl., bls. 14:
Í frásögn P.Z. af ferð hans um Dala-og Strandasýslur segir hann m.a. frá veginum eftir endilöngum Bæjarhreppi.

Bæjarhreppur.
Eftir endilöngum Bæjarhrepp liggur landsjóðsvegur; menn skyldu því ætla að vegurinn sé góður. Svo er og; en eigi mun það vera landsjóð að þakka, heldur miklu fremur sveitinni, og því, að vegurinn er orðinn fyrir skömmu landsjóðsvegur! Að minnsta kosti freistast menn til þess að líta svo á málið, þegar þeir fara yfir Kolbeinsstaðaháls og hitta upphleypta brú, sem er ófær nema fyrir fuglinn fljúgandi, en var ágætur vegur, er landsjóður tók við henni. Svo mikið er víst, að brýn nauðsyn er að gera við brúna, og stórfé kostar það ekki, því hún er stutt; en auðvitað er gamla brúin orðin gerónýt, vegna þess hve hún hefur verið trössuð.
Áður en vegurinn varð landsjóðsvegur, byggði sveitin brú yfir á, er Laxá heitir. Sú brú fauk. Þá byggði hún aðra brú, og tók lán til brúargerðarinnar. Hvílir enn nokkuð af láninu á sveitinni. Í sumar var fyrir þinginu uppgjöf á láninu, og finnst mér öll sanngirni mæli með uppgjöfinni. Vegurinn er nú orðinn landsjóðsvegur, og því rétt að landsjóður taki við honum eins og hann er, og skuldinni líka, og svo er það ekki nema sanngjarnt, að veita uppgjöfina sem heiðurslaun til sveitarinnar fyrir dugnað hennar í brúarmálinu. Auk þess má og gæta að því, að Strandasýsla fær ekki mikið fé til vegabóta. Þessi leið út Bæjarhrepp og inn Bitru, er eini landsjóðsvegurinn, sem er til í sýslunni, og að honum hefur víst lítið verið gert, síðan landsjóður tók við honum.


Þjóðólfur, 29. janúar 1904, 56. árg., 5. tbl., bls. 18:
Hér er birt bréf úr Grímsnesi um Sogsbrúarmálið o.fl. ásamt löngu svari ritstjóra þar sem hann fagnar því að Grímsnesingar skuli nú fúsir að hækka tillag sitt til brúargerðarinnar.

Sogsbrúarmálið o. fl.
Úr Grímsnesi er Þjóðólfi skrifað 7. þ.m.
Fundur var haldinn hér á þingstað hreppsins 5. þ.m., til að ræða um Sogsbrúarmálið o. fl.; fundurinn byrjaði með því að kosinn var fundarstjóri og skrifari, því næst las skrifari upp skjal og lýsti gangi Sogsbrúarmálsins að nokkru leyti frá byrjun, og skýrði málið sérstaklega eins og það nú horfir við, sýndi fram á nauðsyn brúarinnar í sambandi við hin væntanlegu rjómabú o. fl., hvatti til að halda málinu áfram og hækka tilboðið frá hreppsins hálfu, úr 2,500 kr. upp í allt að 5000 krónur, og sýndi reikningslega fram á hvaða kostnað það hefði í för með sér, fyrir hvern einstakan bónda, að jöfnuði, í hreppnum, í 28 ár, og komst að þeirri niðurstöðu, að jafnaðartalan á hvern búanda yrði lægri árlega, en hver meðalbóndi, sem verður að flytja alla sína aðdrætti yfir Sogið eða Hvítá, þarf að borga árlega í ferjutolla.
Að því búnu hófust umræður um málið og urðu þær nokkuð langar af þeirri ástæðu, að þar kom fram apturhalds- og andmælaröddin sama, sem fyr hefur látið til sín heyra í þessu máli. Umræður enduðu með því, að lesin var upp tillaga í þessa átt: að Grímsnesingar lofa að leggja frá sínum hreppi til brúargerðar á Sogið hjá Alvirðu allt að 5 þús. krónur og skora jafnframt á sýslunefnd Árnessýslu, að veita úr sýslusjóði allt að 7 þús. kr. til sama fyrirtækis, og gera sem bráðast allar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru málinu til framkvæmda, sem allra fyrst. Var svo gengið til atkvæða um tillöguna, og hún samþykkt með 35 atkv. gegn 3 atkv.
Þess má þakksamlega geta, í sambandi við þetta mál til heiðurs þeim P. Nielsen verslunarstjóra á Eyrarbakka og Ólafi kaupmanni Árnasyni á Stokkseyri, að þeir hafa báðir þegar lofað að taka þátt í fyrirtækinu með fjárframlögum, og væri óskandi að fleiri vildu feta í þeirra spor.
Af ofanritaðri skýrslu má sjá, að mál þetta er á góðum vegi, hjá Grímsnesingum, og að þeir vilja eitthvað í sölurnar leggja, til þess að fá nauðsynlega samgöngubót – brú á Sogið – þar sem þeir hafa nú lofað að hækka um helming tillage sitt, sem áður var þó allríflegt. Hafa Grímsnesingar sýnt mikla samheldni og mikinn dugnað í þessu máli, svo að það er enginn efi á, að þeir halda málinu áfram til fullkomins sigurs, enda hefur sá hreppur löngum verið talinn hinn allra framtakssamasti og afkastamesti til allra framfara í sýslunni, og skipaður mörgum einbeittum dugnaðar- og áhugamönnum. Er óhugsandi, að sýslunefndin láti þá skömm eftir sig liggja, að standa nú ekki við hið fyrra tilboð sitt, um 5000 kr. tillag til Sogsbrúarinnar, þá er landsjóður hefur hlaupið svo vel undir bagga, að leggja til 2/3 hluta brúarkostnaðarins. Að minnsta kosti verður Árnesinguum ekki boðið það í annað sinn, ef þeir hafna því nú, og yfirleitt mun sýslan ekki geta gert sér miklar vonir um fjárframlög úr landsjóði til nauðsynlegra fyrirtækja þar eystra, ef hún vill ekkert styðja þau fyrirtæki, sem alþingi hefur lagt fé til. Það er við svo ramman reip að draga í þinginu um fjárframlög til þessarar sýslu, að sýslunefndin má ekki gera óvinunum þann greiða, að gera sig um of drembna, og heimta annaðhvort allt eða ekkert. Menn gangast lítt upp við slík >compliment< og afleiðingin verður sú, að sýslan fær ekkert, því að þá vitna þingmenn í , að hún vilji sjálf ekkert af mörkum leggja til framfarafyrirtækja innan sýslu. Þær ákúrur hafa ekki svo sjaldan hvinið um eyru okkar, þingmanna hennar, og er því tími til, að sýslunefndin geri slíkt bull að markleysu einni, enda mun svo verða að því er Sogsbrúna snertir, því að hitt væri stór flónska, að synja um allan styrk til hennar, úr því að einn hreppur og landsjóður hafa boðið fram 2/3 fjárins. Að vísu er oss kunnugt um, að sýslunefndarmaðurinn úr Grímsneshreppi, uppgjafakarl úr Laugardal, er einn af stækustu óvinum þessa máls, og mun gera allt sem hann getur til þess að spilla fyrir því í nefndinni, eins og hann hefur hvað eftir annað reynt til að gera í blöðunum, en sú er bótin, að sá velæruverðugi herra hefur engin áhrif, hvorki í sýslunefndinni né í sínum hreppi, svo að það er jafnvel vinningur fyrir hvert mál, að hann sé á móti því, heldur en með því. Þetta er alkunnugt þar eystra, og munu hreppsbúar hans að minnsta kosti kannast við það. Það er lítill efi á, að það er þetta sama göfugmenni, sem var að akneytast í >Ísafold< nokkru fyrir jólin út af Sogsbrúarmálinu o. fl. En það heimskuþvögl var auðvitað ekki svaravert, því að maðurinn er hvorki svo mikils metinn heima í héraði né annarstaðar, að menn taki raus hans til greina að neinu leyti. Honum hentar best að tala við sjálfan sig. Þar talar hann við jafnoka sinn í skynsemi sem hann annars mun sjaldan hitta.
Ritstj.


Austri, 17. febrúar 1904, 14.árg., 5. tbl., bls. 19:
Nú hefur það síðasta komið til landsins af efninu í Lagarfljótsbrúna.

Lagarfljótsbrúin.
Með "Mjölni" síðast kom nú upp til Reyðarfjarðar það sem á vantaði af brúarefninu. Eins og kunnugt er, hefir stórkaupmaður Thór E. Thulinius tekið að sér að koma efninu öllu upp að brúar stæðinu. Umboðsmaður Tuliniusar, herra Jón Arnesen hefir þegar látið Reyðfirðinga aka öllu efninu upp á Fagradal, alla leið norður yfir skriðurnar, og mun það þá komið yfir erfiðasta hluta vegarins.
Herra Arnesen ætlar að fá Héraðsmenn til þess að aka brúarefninu það sem eftir er af leiðinni alla leið að brúarstæðinu. Er það vel ráðið, því Héraðsmenn eiga mikið hægra með að flytja efnið þaðan sem það nú er komið, heldur en Reyðfirðingar.
Vér erum vissir um, að Héraðsmenn taka þessu tilboði Arnesens feginshendi. Fyrst og fremst vegna þess, að hér er um mikla atvinnu að gjöra fyrir þá, þar sem efnið mun verða um 300 æki, eftir því sem Arnesen tjáði oss. Og svo munu Héraðsmenn sjá það, að með þessu flýta þeir fyrir því að brúin komist upp, því ef Héraðsmönnum ekki semst um flutninginn við Arnesen, þá mun mjög líklegt að brúin komist ekki á næsta sumar; því samkvæmt samningi sínum við stjórnina er Tulinius ekki skyldur til að koma brúarefninu upp að brúarstæðinu í ár. Hann er aðeins skyldur til að flytja það "svo fljótt sem kringumstæður leyfa."
Þetta ættu Héraðsmenn að athuga.


Norðurland, 26. mars 1904, 3. árg., 26. tbl., bls. 102:
Sýslufundur Eyfirðinga tók fyrir fjölmörg samgöngumál.

Sýslufundur Eyfirðinga 15.-19. mars. (Ágrip)
Dragferja.
Öngulstaðahreppi veitt leyfi til að borga 10 kr. úr hreppsjóði til dragferjunnar á Stokkahlaðahyl.
Viðauki samþykktur við reglugjörð fyrir lögferjur í sýslunni: dragferjan gerð að lögferju, ferjutollar ákveðnir og samþykkt, að sýsluvegasjóður greiði ferjumanni árlega 15 kr. til viðhalds ferjunni, enda sé hún þá ætíð í góðu lagi.
Samgöngu- og atvinnumál.
Bréf hafði komið til sýslunefndarinnar frá stjórnarráði Íslands, þar sem það æskir eftir tillögum sýslunefndarinnar um helstu áhugamál sýslunnar í atvinnu og samgöngumálum. Til þess að íhuga þetta mál var kosin sérstök nefnd: Magnús Sigurðsson, Stefán Stefánsson kennari, Sigurður Jónasson, Páll Briem og Friðrik Kristjánsson. Nefndinni var sérstaklega falið að taka til íhugunar eftirfarandi mál:
1. Póstvegur úr Kræklingahlíð, er liggi sem næst Hörgárbrúnni og um Öxnadal. Vegurinn sé gjörður akfær og gistihús reist í Bakkaseli.
2. Brú á Eyjafjarðará á póstleiðina.
3. Framhald flutningabrautarinnar inn fjörðinn að Saurbæ.
4. Gufubátur á Eyjafirði.
5. Brú á Svarfaðardalsá á aukapóstleið.
6. Ræktunarfélagið og í sambandi við það búnaðarskóli í nánd við gróðrarstöð félagsins.
7. Þilskipaábyrgðarsjóður.
8. Skipakví til vetrarlægis fyrir þilskip.
9. Íshús.
10. Ullarverksmiðja.
11. Veiting Glerár fram af Akureyrarbrekkum.
12. Tígulsteinsgjörð og steinsteypuverksmiðja.
Sýsluvegur.
Beiðnir um viðgjörð á vegum höfðu komið úr flestum hreppum sýslunnar.
Samþ., að vegarspottinn frá Hörgárbrú á væntanlegum póstvegi á Moldhaugahálsi verði sýsluvegur, að vegarstæðið verði ákveðið og byrjað á veginum á næsta sumri.
Þar sem nýir sýsluvegir eru lagðir, skulu þeir gjörðir akfærir, ef því verður við komið.
Oddvita falið að taka allt að 600 kr. lán handa sýsluvegasjóði, og samþ., að 30 kr. séu teknar til hans af hreppsfé Hrafnagilshrepps þ. á.
Tekjur sjóðsins áætlaðar kr. 1380, sem skal varið þannig: Til Hörgárbrúar kr. 500. Til Öngulstaðahrepps 55. Til brúar á Skjóldalsá 25. til Glæsibæjarhrepps 150. Til Skriðuhrepps 75. Til Arnarhrepps 175. Til Svarfaðardalshrepps 175. Til Þóroddstaðahrepps 75. til dragferju 15. til viðhalds og viðgjörða á sýsluvegum 135.


Norðurland, 2. apríl 1904, 3. árg., 27. tbl., bls. 106:
Sýslufundur Skagfirðinga tók m.a. fyrir ýmiss samgöngumál.

Sýslufundur Skagfirðinga 1.-7. mars. (Ágrip)
Kláfdráttur.
Samþykkt að eftirláta kláfdrættinum á Héraðsvötnum hjá Flatatungu, án endurgjalds, vírstreng, er sýslan á.
Brýr.
Tveir smiðir lýstu bréflega yfir því áliti, að brúin á Kolbeinsdalsá sé hættulaus yfirferðar með lítilli viðgerð.
50 kr. veittar til endurbyggingar brúar á Svartá hjá Reykjum.
Frestað að gera fullnaðarákvæði út af beiðni um 500 kr. styrk til brúargjörðar á Fossá, en æskt eftir lýsingu brúarstæðis og áætlun um kostnað.
Brúarsjóðsgjald ákveðið næsta ár 20 aurar á hvert lausafjárhundrað og hvern verkfæran mann í sýslunni.
Sýsluvegur.
Ákveðið upp á væntanlegt samþykki amtsráðs, að sýsluvegur í Fljótum verði lagður frá Dritvík um Haganesvík að Fjótárbrú. - Samþ. að veita allt að 800 kr. til vegagerðar í Fljótum. - Hallgr. Þorsteinsson ráðinn verkstjóri við vegagjörð í Fljótum. - Samþ. að taka 2000 kr. lán til 10 ára og 1000 kr. bráðabirgðalán til að framkvæma á næsta sumri vegagjörð þá á leiðinni frá Hofsós að Ökrum, sem veittar eru 2000 kr. til í núgildandi fjárlögum.
Kláfdráttur á Jökulsá.
Samþ. að veita 100 kr. styrk til kláfdráttar á Jökulsá.
Atvinnu- og Samgöngumál.
Bréf hafði komið til sýslunefndar frá stjórnarráði Íslands, þar sem það æskir eftir umsögn hennar um, hver almenn fyrirtæki í atvinnu- og samgöngumálum séu talin nauðsynlegust í sýslunni. Eftir að nefnd (Ó. br., Jósef Bj., Rögnv. Bj., Jón Jónsson og Hallgr. Thorlacius) hafði starfað í málinu og álit hennar hafði verið rætt á ýmsa vegu, voru samþykktar tillögur, ítarlega rökstuddar, um 8 framfaramál sýslunnar:
1. Vatnsveitingar á eylendinu í Skagafirði. Að landstjórnin í samráði við Búnaðarfélag Íslands hlutist til um að fenginn verði hingað til lands um lengri eða skemmri tíma æfður landbúnaðarverkfræðingur (helst frá Svíþjóð), og að honum verði meðal annars falið á hendi að rannsaka nákvæmlega öll skilyrði fyrir því, að eylendið í Skagafirði verði tekið til algerðrar ræktunar með vatnsveitingum.
2. Hólaskóli. Að landstjórnin hlutist til um, að fjártillag til skólans úr landsjóði verði hækkað, svo að það nemi að minnsta kosti 2/3 af þeirri upphæð, sem skólanum er árlega veitt af opinberu fé.
3. Flutningabraut. Að fjárveiting til flutningabrautar inn Skagafjörð verði tekin í næsta fjárlagafrumvarp.
4. Brú á vesturós Héraðsvatna. Að til hennar verði veittur úr landssjóði styrkur, er nemi ¾ af kostnaðinum eða 25.000 kr.
5. Brú á Héraðsvötn á póstleið. Að lagafrv. um hana verði lagt fyrir næsta þing.
Gönguskarðsárbrú.
Samþykki veitt til, að hreppsnefnd Sauðárhrepps taki 600 kr. lán til brúarlagningar á Gönguskarðsá, og hreppsnefndinni heimilað að lengja minni brúarpartinn til að tryggja brúna betur fyrir hættum af ruðningi árinnar í leysingum.


Norðurland, 16. apríl 1904, 3. árg., 29. tbl., bls. 114:
Á sýslufundi Suður-Þingeyinga voru gerðar ýmsar samþykktir um samgöngumál.

Sýslufundur Suður-Þingeyinga 27. febr.-4. mars. (Ágrip)
Akbraut.
Um akbrautargerð frá Húsavík upp Reykjadal var þetta samþykkt:
Þrátt fyrir það, að sýslunefndin hefir tvisvar áður samþykkt og sent áleiðis til landstjórnarinnar alvarlegar áskoranir um, að þetta heita áhuga og nauðsynja mál allra héraðsbúa næði fram að ganga sem allra fyrst, hefir máli þessu þó alls ekkert verið sinnt af stjórn og þingi, og eru það mikil vonbrigði fyrir héraðsbúa. En þar sem nefndinni hins vegar verður alltaf ljósari hin ákaflega mikla þörf og þýðing þessa akvegar fyrir sýslubúa, auk fjölda margra annara, þá felur hún oddvita sínum að flytja þetta mál enn á ný við landstjórnina í því skyni að hún leggi það fyrir næsta alþing. Að öðru leyti skírskotar sýslunefndin til álits síns og röksemda á aðalfundi 1901, er hún ætlast til, að oddviti láti fylgja áskorun sinni til landstjórnarinnar.
Þjóðvegir í sýslunni.
Um fjárframlög úr landsjóði til þjóðvega í sýslunni var þetta samþykkt:
Sýslunefndin álítur bráðnauðsynlegt að hið allra fyrsta verði, auk sjálfsagðra smærri viðgerða, gert rækilega við þjóðveginn beggjamegin við Skjálfandafljótsbrú, þar með brúarsporðana báða, og lokið við veginn yfir Fljótsheiði. Nefndin felur því oddvita sínum að bera fram við landstjórnina, gegn um amtið, beiðni um, að þegar á næsta sumri, eða að minnsta kosti sumarið 1905, verði veitt af fé því, sem á gildandi fárlögum er ætlað til þjóðvega í Norðuramtinu, rífleg fjárhæð til þessara vegagerða, og styður nefndin þessa beiðni meðal annars við það, að ráða má af nefndaráliti fjárlaganefndar neðri deildar á síðasta þingi, að nefndin hefir ætlast til, að nokkuð af þeirri fjárhæð, sem hún lagði til að veitt yrði á fjárlögunum til þjóðvega í Norðuramtinu, gengi til þjóðvegarins í Þingeyjarsýslu, sem hún segir að sé mjög vanræktur, og er eigi ofsögum af því sagt.
Vegur yfir Gönguskarð.
Í tilefni af erindi frá Geirfinni Tr. Friðfinnssyni hreppstjóra um að sýslunefndin hlutist til um að fé verði veitt til fjallvegarins yfir Gönguskarð, var samþykkt: Sýslunefndin hefir þegar áður (1898) lýst yfir, að hún teldi nauðsynlegt, að fjallvegur þessi verði varðaður, og felur því oddvita sínum að sækja enn um fjárstyrk í því skyni.
Vegabætur.
Til vegabóta voru þessar fjárhæðir áætlaðar: til sýsluvegar um Húsavíkurþorp að 1/3 kr. 115; til sýsluvegar út frá Húsavík að 2/3 allt að kr. 350; til sýsluv. í Grýtubakkahr. inn Svalbarðsströnd 2/3 kr. 200; til sýsluv. í sama hrepp viðgerðir í Gerðum að 2/3 kr. 50; til sýsluv. inn Svalbarðsströnd að ½ kr. 150; til sýsluv. um Faxafall að 2/3 kr. 50; til brúar á Húsabakkakíl að 2/3 kr. 30; til sýsluv. í Hálshr., eftirveiting kr. 6,17; til viðgerðar á Þorvaldsstaðaárbrú allt að kr. 50.


Þjóðólfur, 22. apríl 1904, 56. árg., 17. tbl., bls. 66:
Hér segir Þjóðólfur frá sýslunefndarfundi Árnesinga. Eru þar m.a. lögð fram ýmiss skjöl varðandi væntanlega brú yfir Sogið hjá Alviðru.

Skýrsla frá sýslufundi Árnessýslu.
Sýslunefnd Árnesinga hélt aðalfund sinn á Eyrarbakka, dagana 12.-16. þ.m. að báðum dögum meðtöldum, 79 málefni komu til umræðu, og er hér vikið að því helsta:
10. Framlögð allmörg skjöl viðvíkjandi hinni væntanlegu brú yfir Sogið hjá Alviðru. Þar með fylgdi vandaður uppdráttur af brúnni eftir verkfræðing Sigurð Thoroddsen. Eftir nokkuð snarpar umræður var brúarmálið, ásamt vegamáli sýslunnar sett í nefnd, og fjallaði sama nefndin um bæði málin. Álit nefndarinnar var að mestu samþykkt óbreytt.
Er álitið með fæstum orðum þannig:
1. Sýslufél. tekur að sér ábyrgð á allt að 5000 kr. láni til brúargerðar á Sogið hjá Alviðru. Grímsneshreppi leyft til sama fyrirtækis 5000 kr. lántaka, jafnskjótt og hreppsnefndin þar hefur komið sér saman um afborgunarskilyrðin, með því að það er samkomulagsatriði, að Laugardalsmenn borgi dálítið lægra, vegna minni afnota af brúnni, fyrst um sinn. Þessi bæði lán tekin og leyfð nú þegar, eða svo fljótt, sem ástæður leyfa, því annars búist við, að fjárveiting sú, er veitt er í þessu skyni á síðasta þingi, kynni að tapast, og málinu fyrir það frestað um óákveðinn tíma.
2. Þegar nægilegt fé fæst annarsstaðar frá, t.d. landsjóði, tekur sýslufélagið ábyrgð á allt að 8000 kr. láni til vegagerðar frá Flatholti hjá Bitru, upp Skeið, inn að Stóru-Laxá með álmu norður bakkana að Iðuferjustað. Þegar kom fram loforð frá 3 viðkomandi hreppum nálægt 6000 kr. Þetta fyrirtæki bíður náttúrlega eftir undirtektum næstkomandi Alþingis, og vonast viðkomendur þá eftir þeim góðum og greiðum, því langt er frá, að vegamál sýslunnar séu komin í viðunanlegt horf ennþá.
11. Beiðni kom frá ferjubóndanum í Óseyrarnesi um, að mega hækka ferjutolla lítið eitt. Það var samþykkt, að ferjutollar yrðu framvegis þannig: 25 aura fyrir hvern lausgangandi mann um vertíð, 30 aura þess utan.


Ísafold, 11. maí 1904, 16.árg., 29. tbl., bls. 116:
Á sýslunefndarfundi Árnessýslu voru samgöngumálin efst á baugi.

Sýslufundur Árnesinga. Árnessýslu 18/4 1904.
Hér hófst sýslunefndarfundur 1. þ.m. og var honum lokið 16. þ.m.
Helstu fundarmál voru:
Samgöngumál voru efst á baugi, eins og vant er.
Má fyrst minnast á áfangastaðamálið.
Eggert í Laugardælum leyfði að taka upp áfangastað í sínu landi fyrst um sinn, fyrir 40 kr. árgjald. Nefndin gekk að því.
Þörf þótti vegna aukinnar umferðar, að bæta við áfangastaðina á Torfeyri, og voru veittar til þess 15 kr.
Gamlir áfangastaðir fengu auðvitað ekkert. Og þar eð utanhéraðsmenn nota áfangastaðina meira en mestur hluti sýslubúa, þótti ráðandi til, að jafnaðarsjóður borgaði þóknunina.
En til þess þarf lagabreytingu.
Uppsýslan hefir mikinn áhuga á að fá veg frá Flatholti hjá Bitru upp að Laxá (og þyrfti lengra), og svo álmu að Iðuferjustað, sem ekki yrði dýr. Það eru 5 rjómabú, sem eiga án efa velferð sína undir því, að þessi vegur fáist. Enda bjóðast sveitirnar að leggja fram til þess frá sér 5-6000 kr., eftir því sem þær framast geta. Nú lofaði sýslan 8000 kr. úr sýslusjóði, og erum vér nú vongóðir um, að alþingi veiti það sem á vantar úr landssjóði. Þennan veg taldi sýslunefndin líka á undan, öllu öðru í svari sínu til landsstjórnarinnar, er spurði hana um áhugamál þau til framfara, sem nú væri ríkust með sýslubúum. Og það var eflaust rétt. Á engu ríður meira nú.
Grímsnesingar báðu um 5000 kr. til Sogsbrúar og fengu þær veittar, mót 5000 kr. úr landssjóði og 5000 kr. úr Grímsneshreppi.
Um leið er áformað að skipta Grímsneshreppi í 2 hreppa og beri sá meira af skuldinni, sem nær er brúnni og notar hana meira.
Vegur upp að Sogsbrú og frá henni upp Grímsnesið var meðal þeirra mála, sem í svarinu til landsstjórnarinnar voru tekin fram svo sem nauðsynleg framtíðarmál - Ekki er hægt að hafa allt fyrir sér í einu.
Önnur smærri samgöngumál nenni ég ekki að telja.
Það urðu ekki stórir skammtar, þá er farið var að útbýta vegafénu til sýsluveganna. Fjárhæðin var að eins 1,857 kr. 59 a., og það með því, að hækka vegagjaldið um 25 a. á mann, því verkfærir fækka óðum. - Frá þessari fjárhæð voru fyrst dregnar skuldir til landssjóðs og einstakra manna. Gekk til þess meira en helmingurinn. Má nærri geta, hve vel öllu hinu víðlenda sýsluveganeti verður borgið með tæpum 300 kr. að bjargast við. Engin sýsla á landinu mun eiga eins erfitt í þessu efni og Árnessýsla - En í staðinn mun hún geta tekið hvað mestum búnaðarframförum.


Austri, 14. maí 1904, 14.árg., 15. tbl., forsíða:
Sýslufundur Skagfirðinga svarar ráðherra hver séu áhugamál sýslubúa, sem snerti samgöngur og atvinnumál.

Sýslufundur Skagfirðinga.
Sýslufundur var haldinn hér fyrstu daga marsmánaðar.
Á meðan á Sýslufundinum stóð kom bréf frá ráðherranum til sýslunefndarinnar, þar sem hann leggur fyrir sýslunefndina að kunngjöra sér hver séu áhugamál sýslubúa, sem snerti samgöngur og atvinnumál.
Mál þau er sýslunefndin nefndi sem hin mestu áhugamál voru:
1. Að breyta láglendi Skagafjarðar sem allra fyrst í ræktað graslendi (flæðiengi). Óskaði hún eftir að fenginn væri sérfræðingur í vatnsveitingum frá útlöndum til þess að gjöra áætlun yfir verkið og kostnað við það. Einnig óskaði hún eftir, að sami maður rannsakaði botninn í Héraðsvötnum, til þess að vita, hvort flatbotnaður mótorbátur gæti ekki gengið eftir þeim. Einnig vildi hún láta sama mann rannsaka hvort hætta væri á skemmdum af Héraðsvötnum, og á hvern hátt best væri að fyrirbyggja þær.
2. Að höfnin á Sauðárkróki sé bætt með bryggju og öldubrjót.
3. Að Héraðsvötnin verði brúuð, bæði á póstleiðinni (undan Ökrum) og eins á vesturósnum (vestan við Hegranesið).
4. Að akbraut verði lögð fram Skagafjörð vestanverðan.
5. Að bættar verði skipagöngur til Skagafjaðrar í janúar og febrúar.

Ísafold, 21. maí 1904, 16.árg., 32. tbl., bls. 126:
Hér skrifa þeir Kjartan Helgason prófastur í Hvammi og Torfi Bjarnason skólastjóri í Ólafsdal langa grein um Laxárbrúarmálið svonefnda.

Um Laxárbrúarmálið o. fl. eftir Kjartan Helgason próf. í Hvammi og Torfa Bjarnason skólastj. í Ólafsdal.
Skýrsla um fund Vesturamtsráðsins 25. júlí f. á. er prentuð í Stjórnartíð. 1903 B. deild bls. 190-208. Sýslureikningarnir úr Dalasýslu eru þar fyrirferðarmestir. Þeir höfðu legið fyrir fundinum þrefaldir í roðinu fyrir árin 1900, 1901 og 1902, með allmiklum athugasemdum; sérstaklega hafði reikningurinn yfir kostnað við Laxárbrúna valdið miklum glundroða. Um hann og fleira, sem snertir reikninga Dalasýslu, hafði verið þjarkað nærri heilt ár við amtmanninn. Amtmaður þurfti því að gefa fundinum skýrslu til þess að greiða úr þessari reikninga flækju. Og hann gerði það líka á sinn hátt. Skýrsla hans er tekin upp í fundargerðirnar. Þar er sagt frá umkvörtunum þeim, sem komið hafa frá nokkrum sýslunefndarmönnum í Dalasýslu, yfir reikningsfærslu sýslumanns þeirra. En frá því er sagt á þann hátt, að ókunnugir menn hljóta að fá alveg ranga hugmynd um málið, ef þeir lesa fundarskýrsluna eina og trúa henni. Við neyðumst því til að bæta þar við nokkrum athugasemdum, sérstaklega vegna amtsráðsfundarmannana, sem nauðsynlega þurfa að þekkja meira en aðra hlið málsins.

I.
Fyrsta kæran (18. júlí 1902) út af reikningafærslu sýslumannsins kom til af því, að hann hafði gert sýslusjóði reikning fyrir 13 krónum fyrir hverja tunnu af sementi því, sem fór í Laxárbrúarstöplana og keypt var hjá versluninni í Búðardal. En verslunarstjórinn skýrði frá því, að verðið hefði verið 11 kr. Sýslumaður gerði amtmanni (og >Þjóðólfi<) grein fyrir því, hvernig á þessari skekkju stæði: Verslunin hafði fyrst gefið sýslumanni reikning fyrir sementinu á 13 kr. (reikningsverði), en veitt svo afslátt eða uppbót á eftir (gegn peningaborgun). Frá þessu hefir amtmaður skýrt amtsráðinu, og er svo að heyra sem honum þyki ákæran hafa verið óþörf og finni ekkert athugavert við aðferð sýslumannsins að því er sementskaupin snertir. Sýslumaður blandar reikningum sýslunnar saman við sinn eigin reikning, pantar í sameiningu sement til Laxárbrúarinnar og fjósbyggingar heima hjá sér, setur svo á brúarreikninginn það af sementinu, sem dýrast reynist, lætur sýslunefndina ekkert vita um þann afslátt, sem hann fékk, á sementsverðinu, fyrr en hann hefir verið kærður. Sementið er keypt árið 1900. Þó að sýslumaður hefði ekki það árið fengið að vita um afsláttinn, var honum þó tilkynnt bréflega af verslunarstjóranum, hve mikla uppbót hann fengi, áður en hann samdi sýslureikninginn fyrir 1901, svo að þar hefði mátt taka uppbótina til greina, ef bréfið hefir komist til skila. En þó að það hefði glatast, þá hafði þó sýslumaður fengið viðskiptareikning sinn frá versluninni fyrir árið 1901 - þar sem uppbótin er tilfærð - áður en hann hélt aðalfund sýslunefndarinnar 1902. Sá fundur neitaði að samþykkja sýslureikninginn 1901 vegna útgjaldanna til Laxárbrúarinnar. Þá hefði sannarlega legið beint við, að sýslumaður skýrði frá uppbótinni, svo að hún yrði tekin til greina í áætlun um tekjur og gjöld næsta árs; það hefði verið hrapalleg gleymska af honum, að muna ekki eftir því þá, þegar hann var að reyna að fá sýslunefndina til að samþykkja reikningana, en henni ofbuðu útgjöldin. Og enn þá brýnna tilefni hafði hann til að muna það skömmu síðar - á aukafundi sýslunefndarinnar, því að þann fund kallaði sýslumaður saman eingöngu til þess að tala um Laxárbrúna, og sýna fram á, að hann þyrfti meira fé til hennar. Sýslunefndin veitti þá eftir beiðni hans 700 kr. í viðbót til brúarinnar. Sú fjárveiting hefði ef til vill orðið einu hundraði minni, ef þá hefði ekki enn gleymst að skýra frá uppbótinni, eða hinu sanna verði sementsins. Sýslumaður rumskaði ekki, fyr en amtsmaður fór að ýta við honum út af kærunni.
Í kærunni er þess getið, að sýslumaður hafi tekið verðið á hverri sementstunnu 14 kr., í reikningi þeim yfir brúarkostnaðinn, er hann sendi landshöfðingja til þess að fá útborgaðan landssjóðsstyrkinn, sem ekki mátti vera meir en 1/3 af öllum brúarkostnaðinum. Amtmaður segir að þessi reikningur sé >eigi neinn reikningur, , heldur öllu fremur áætlun< og ber landshöfðingja fyrir því, að það hefði engin áhrif haft á útborgun styrksins, hvort verð sementsins væri talið 11 eða 14 kr. Skjalið sem amtmaður vill ekki kalla reikning heldur áætlun, er á þessa leið:

Reikningur yfir kostnað við brúargerð á Laxá.
1. 64 tn. af sementi á 14 kr. kr. 896 00
2. Vinna við brúarstöplana sumarið 1900 - 1425 37
3. Vinna við brúarstöplana sumarið 1901 . - 540 00
(340 00)
4. Viður í brýrnar - 1280 00
(1100 00)
5. Járn 425 00
6. Smíði 300 00
7. Flutningur á efni að brúarstæðinu 80 00
(50 00)
8. Að fletta trjám í gólf brúnna 54 00
5000 37
Þessi upphæð er að öllu borguð,
Við þetta bætist:
1. 1 tré 22 feta langt e kr. 25 00
2. Flutningur á viðum - 35 00
3. Fyrir járni sem skemmdist e. - 25 00
4. Fyrir að endursmíða það, sem brotnaði, og koma brúnni á, e. - 200 00
285 00
Skrifstofu Dalasýslu 4. des 1901.
Björn Bjarnarson.
>Þessi upphæð er að öllu borguð<, segir sýslumaður í reikningi þessum, en amtmaður segir: það er áætlun, og gefur með því í skyn, að ekkert geri til, þó að krítað sé liðugt. Satt er það, að viðbótin - 4 síðustu liðirnir - er áætlun, og hefir enginn fett fingur út í hana. En 8 fyrstu liðirnir, að upphæð kr. 5000 37, er reikningur - rangur reikningur. Verðið er of hátt á sumu, og við einn liðinn er bætt kostnaði, sem brúnni kom ekki við. Of langt mál yrði að sýna fram á það hér, hve mikið er ofreiknað, enda gætum við það ekki nákvæmlega; en það getum við fullvissað amtmanninn um, að ef allt, sem ofreiknað er, væri dregið frá, þá yrði ekki eftir 5100 kr.; en það þurfti upphæðin að vera til þess að allur landssjóðsstyrkurinn (1700 kr.) fengist.

Í bréfi til amtsins, dags. 19. ág. 1902, gerir sýslumaður grein fyrir því, hvers vegna hann telji verðið á sementinu svona hátt, 14 kr. á tunnu, 1 krónu hærra en hann telur það í sýslureikningunum. Hann segir að því valdi pakkhúsleiga o. fl. Og á sýslunefndarfundi 1903 sýndi hann til sannindamerkis kvittun fyrir pakkhúsleigu árin 1900 og 1901, að upphæð 30 kr. Sumum sýslunefndarmönnunum þótti þetta tortryggilegt, því að þeir vissu, að sementið hafði ekki í hús komið, tóku því afskrift af kvittuninni, sendu hana þeim manni, er kvittunina hafði gefið, og beiddu hann um skýringu. Kvittunin, sem sýslumaður sýndi var þannig:
Björn sýslumaður Bjarnarson hefir greitt mér í pakkhúsleigu fyrir árið 1900 20 - tuttugu - kr. og fyrir árið 1901 10 - tíu - krónur.
Reykjavík 8. ág. 1902.
Guttormur Jónsson.

En skýringin, sem við fengum, var þannig:
Ég, undirskrifaður, votta hér með að gefnu tilefni, að það sem sýslumaður Björn Bjarnarson á Sauðafelli borgaði mér í pakkhúsleigu fyrir árin 1900 og 1901 og ég kvittaði fyrir í Reykjavík 8. ágúst 1902, var ekki fyrir geymslu á sementi því, er brúkað var til Laxárbrúarinnar, heldur fyrir geymslu á ýmsum öðrum vörum, og að ekkert af sementinu var geymt í húsi því, er ég hafði umráð yfir, nema ef vera skyldi 3 eða 4 tunnur síðara árið.
p. t. Reykjavík 2. júlí 1903.
Guttormur Jónsson.
Á síðasta sýslunefndarfundi lagði sýslumaður fram reikning yfir kostnað við Laxárbrúna frá upphafi, en þá var pakkhúsleigukvittunin horfin úr fylgiskjölunum, og engin pakkhúsleiga talin til brúarkostnaðar.

II.
Fyrstu kærunni út af sýslureikningunum 1900 svaraði amtmaður 15. sept. 1902, og gat þess í svari sínu, að >álit< manna um; að hitt eða þetta hafi verið of dýrt sett, geti ekki framar komið til greina, þar sem reikningarnir væru samþykktir af amtsráði og sýslunefnd. Nokkrir (5) sýslunefndarmenn skrifuðu þá amtmanni aftur og færðu gild rök fyrir því, að nauðsynlegt væri að endurskoða sýslureikningana 1900 að nýju. Amtmaður lét þá undan, og sendi einum nefndarmanninum reikningana með þeim ummælum, að þeir skyldu lagðir fram á næsta sýslufundi til rannsóknar, en ekki opnaðir fyr. Eftir nokkra rekistefnu leyfði þó amtmaður loks, að reikningarnir væru endurskoðaðir á venjulegan hátt af hinum kosna endurskoðanda sýslureikninganna.
Helstu aðfinnslurnar út af reikningunum fyrir árið 1900 voru fjórar, og hefir amtmaður skýrt frá þeim á amtsráðsfundinum, sagt álit sitt um þær og að nokkru leyti haldið uppi vörn fyrir reikningshaldara. Við skulum nú minnast á, þessar aðfinningar og afsakanir, hverja fyrir sig.
Í fyrsta lagi er fundið að því, að reikningarnir voru ekki löglega endurskoðaðir. Sýslumaður hafði sjálfur valið sér endurskoðanda, annan en þann sem sýslunefndin hafði kosið. Amtmaður afsakar það með því, að >sérstaklegar kringumstæður hefðu verið fyrir hendi<. En ekki getur hann um, hverjar þær voru. Kunnugir menn hér vestra þekkja þær ekki, nema ef vera skyldu þær, að sýslumanni hafi í þetta sinn verið >sérstaklega< óþægilegt, að fá sýslureikningana rækilega endurskoðaða. Frjálslyndi er það óneitanlega af amtmanninum gagnvart sýslumanni, að taka ekki hart á því, þó að hann brjóti lögin og velji sér sjálfur endurskoðanda; en óþægilegar afleiðingar getur það haft fyrir sýsluna, því að erfitt er fyrir sýslunefndina á fundum - í litlum húsakynnum og á mjög takmörkuðum tíma - að endurskoða reikninga, rækilega, einkum þegar þeir eru jafn illa úr garði gjörðir og venja er um sýslureikninga Dalasýslu. Auðséð var það í vetur sem leið, að sýslumaður Dalamanna þekkir frjálslyndi yfirmanna sinna, og kann að nota sér það. Amtsráðið skipaði svo fyrir á síðasta fundi, að sýslumaður skyldi semja reikning yfir allan kostnað við Laxárbrúna í einu lagi og senda hann endurskoðanda fyrir 1. febrúar í vetur. Svona ófrjálslegri skipun gat sýslumaður ekki verið að hlýða, heldur lagði hann Laxárbrúarreikninginn óendurskoðaðan fyrir sýslufundinn í vor - sjálfsagt í von um sama frjálslyndið sér til handa sem að undanförnu. - Geta má nærri, hvernig sýslunefnd og hreppsnefndum gengur að fá þennan sýslumann til að gegna skyldu sinni, þegar amtsráðinu með aðstoð amtmanns gengur það ekki betur en þetta.
Annað kæruatriðið var það, að Dalasýslu eru taldar til útgjalda árið 1900 200 kr. til skóla í Búðardal. Sýslunefndin hafði heitið þessum styrk til þess að hvetja til skólastofnunar, en varla hefir hún ætlast til, að fénu yrði eytt fyr en einhver skóli væri stofnaður. Nú var enginn skóli til í sýslunni árið 1900 og ekki fyr en haustið 1901. Þá var farið fram á það við sýslumann, að hann léti þetta fé af hendi rakna til skólans; en hann neitaði því (skriflega). Í amtsráðsfundargjörðunum stendur, að amtmaður hafi >löngu áður en kæran kom fram gjört ráðstafanir til þess að komast fyrir um< hvernig á þessu stæði. Já, amtmaður skrifaði sýslumanni 18. mars 1902 og heimtaði skilagrein fyrir þessum 200 kr., beið svo eftir svari til 13. sept. skrifaði þá aftur og bað um svar, en fékk enga áheyrn. Frá þessu hefir amtmaður sagt okkur sjálfur í embættisbréfi 28. okt. 1902 og er þá að ráðgera að skrifa sýslumanni í þriðja sinn um skólapeningana. Eftir alla rekistefnuna komu peningarnir í ljós. Haustið 1902 fékk Búðardalsskólinn áhöld. Sýslumaður hafði keypt þau þá um sumarið fyrir sýslusjóðstillagið, sem hann hafði trúlega geymt í vasa sínum í 2 ár. Ekki lætur amtmaður þess getið í fundarskýrslu sinni, hvað sýslumaður hafi haft sér til afsökunar í þessu efni, og við skulum þá gjöra honum það til geðs, að þegja um það líka.
Í þriðja lagi var sýslumaðurinn kærður fyrir það, að hann telur 55 tn. af sementi til kostnaðar við Laxárbrúna 1900, en brúkaði ekki nema 51 tn. Amtmaður segir í fundarskýrslunni; >Um sementsnotkunina 1900 segjast kærendurnir hafa skilríki í höndunum, en þau eru enn ekki fram komin. Sýslumaður lýsir því aftur á móti yfir, að sá maður sem álitið hafi, að aðeins hafi verið notuð 51 tn., geti eigi sagt neitt um þetta með vissu<. Skilríkin, sem við höfðum í höndum, þegar við skrifuðum amtmanni um þetta, var dagbók verkstjórans. Það er satt, að við höfum ekki farið fram á það. Við héldum líka, að sú skylda hvíldi á reikningshaldara, að sanna, hve miklu hann hefði eytt, en að tæpast sé heimtandi af sýslunefndinni að hún sanni, hve miklu hann hafi ekki eytt. - Fullkomin sönnun verður það ef til vill ekki talin, sem verkstjórinn segir um þetta; en það er þó eina sönnunin, sem til er, fyrir því, hve mikið af sementi fór í brúarstöplana. Sýslumaður segir, að verkstjórinn geti ekkert um það vitað. Vera má að hann hafi ekki átt að vita neitt um það; en hann gat ekki komist hjá því að vita það, af því að hann hafði umsjón með því, hvað hver verkmaður vann á hverjum degi, og var svo blálega reglusamur, að halda skrá yfir það og týna henni ekki. Hann vissi því nákvæmlega, hvenær sement var flutt að brúarstæðinu og hve mikið í hvert sinn. Hver skyldi annars hafa átt að vita um þetta fremur en umsjónarmaðurinn? Sýslumaður lýsti því yfir á sýslufundi í fyrra, að sjálfur hefði hann ekkert getað um það vitað - því hann var ekki allt af viðstaddur - en hann hafði látið reikna það út. Brúarstólparnir voru nefnilega byggðir í samlögum við Sauðafellsfjósið, og sýslumaður kveðst hafa látið reikna út, hve mikið sement hefði þurft í það eftir teningsmáli veggjanna. Afganginn reiknaði hann svo Laxárbrúnni. Hvort meira sé að byggja á þessum útreikningi en skýrslu umsjónarmannsins, um það verður amtsráðið að dæma.
Í fjórða lagi var kært yfir því, að sýslumaður hefir sett í brúarreikninginn kostnað við vegagerð, sem engin heimild var til að kosta af sýslusjóði né landssjóði. Vegagerð þessi fór fram á sama tíma sem brúarstöplahleðslan og undir umsjón sama manns. Sá maður segir, að sýslumaður hafi sagt sér að slengja allri vinnunni saman. En umsjónarmanni þótti þó viðkunnanlegra, að liða kostnaðinn í sundur, og gjörði það nákvæmlega. Sundurliðaða skýrslu hans um það, hve mikilli vinnu var varið til vegarins, höfum við sent amtmanni 15. apríl f. á. Þetta mál útskýrir amtmaður fyrir amtsráðinu á þessa leið; >Sýslumaður hefir fært rök fyrir því, að hún (vegagjörðin) var nauðsynleg í bráð við brúargjörðina, enda liggur í augum uppi, að vegur verður að liggja að brúnni<. Að vegargjörðin hafi verið >nauðsynleg við brúargjörðina< er víst svo að skilja, að eftir veginum hafi þurft að flytja efni til brúarinnar. En við höfum skýrt amtmanni frá því - þótt hann láti þess ógetið -, að ekki eitt pund af brúarefninu hafi verið flutt um veginn fyrir sunnan Laxá, en kostnaður við þann veg er þó talinn með brúarkostnaðinum. Ef til vill hefir sýslumaður sagt honum annað. En að óreyndu getur amtmaður varla talið sjálfsagt, að við ljúgum, en sýslumaður segi satt. >Það liggur í augum uppi, að vegur verður að liggja að brúnni<, segir amtmaður. Látum svo vera. En liggur hitt eins í augum uppi, að sýslusjóður einn kosti þann veg og að sýslumaður einn ákveði, hvar og hvernig hann skuli lagður, hve langur hann skuli vera o.s. frv., en að sýslunefndin hafi ekki atkvæðisrétt um það; hún sé bara skyldug til að samþykkja þau útgjöld, sem sýslumanni þóknast að demba á sýslusjóð. Það hefir verið aðal regla hér í sýslu, að veita ekki fé úr sýsluvegasjóði né sýslusjóði til vegagerða, nema með því skilyrði að hlutaðeigandi sveitir legðu fram einhvern hluta kostnaðarins. Undantekning frá þeirri reglu eru framlögin til vegarins úr kaupstaðnum áleiðis að Sauðafelli. Mikið af þeim vegi hefir sýslumaður látið gera án þess að biðja fyrirfram um fé til þess, en fengið svo sýslunefndina á eftir til þess að samþykkja útgjöldin, þegar þau eru komin inn í sýslureikninginn. Og þegar sýslunefndin hefir ekki reynst nógu leiðitöm og neitað að samþykkja útgjaldaliði sem þannig eru til komnir, þá er reynt að fá amtsráðið til að hlaupa undir bagga og samþykkja reikningana þvert ofan í mótmæli sýslunefndar. Þetta kom fyrir á síðasta amtsráðsfundi, sbr. úrskurðinn um athugasemdir endurskoðanda við sýsluvegasjóðsreikning Dalasýslu 1902, 6. gr. - Ekki trúum við öðru en að fleiri sýslum en Dalasýslu þætti hart, ef amtsráðið færi að láta gjöra vegabætur á sýslunnar kostnað, hvað sem sýslunefndin segði. Við erum þó ekki að áfellast amtsráðið í heild sinni fyrir þennan úrskurð í fyrra, teljum víst, að fundinum hafi verið viltar sjónir með röngum eða ónákvæmum skýrslum um málavöxtu.

III.
Þá er eftir að minnast á eitt atriði í fundargjörð amtsráðsins, þar sem okkur virðist sannleikanum hallað til muna. Það er skýrsla amtmanns um ágreining milli sýslunefndar og sýslumanna Dalasýslu út af því, að árið 1901 hafa heimildarlaust verið greiddar úr sýslusjóði 189 kr (Upphæðin var gjörsamlega ólesanleg í textanum.) 18 au. til brúargjörðarinnar á Laxá. Sýslunefndin neitar að samþykkja þetta, en amtmaður heldur því fram, að hún sé skyldug til þess, sýslufélagið sé >skuldbundið gagnvart landssjóði til þess að byggja brúna<, sýslunefndin í Dalasýslu hafi að eins gleymt að veita þetta fé á fundi sínum 17. júní 1901; og ennfremur segir hann; >Hér er spursmál um fjárbrúkun til þess verks, sem sýslunefndin hefir samþykkt að skyldi framkvæmt<. Þessar röksemdir amtmannsins eru hreinn og beinn tilbúningur. Sýslunefndin hefir aldrei ákveðið, að brúin skyldi byggð, heldur að eins veitt ríflegan styrk til hennar. Sýslufélagið hefir enga skuldbindingu tekið á sig gagnvart landssjóði; sýslunefndin ekki einu sinni beðið alþingi um styrk til brúarinnar. Reyndar hefir amtmaður sagt okkur - í bréfi 19. ág. f. á. - að fyrir alþingi 1899 hafi legið bónarbréf frá sýslunefnd Dalasýslu um styrk til brúar á Laxá. En sé þetta satt, - þá er það bónarbréf falsað. Laxárbrúarmálið kom ekki til tals í sýslunefndinni fyr en eftir það að alþingi hafði heitið styrknum. Árið 1900 veitti sýslunefndin 1700 kr. styrk til brúarinnar, en lét sér óviðkomandi, hvernig það sem til vantaði, yrði útvegað. Meira en þessar 1700 kr. ætlaði nefndin ekki að veita, og enginn fór heldur fram á það árin 1900 og 1901. En hér þykist amtmaður vita betur, þykist vita, hvað sýslunefndarmennirnir vestur í Dalasýslu hugsuðu, betur en þeir sjálfir, þeir hafi ætlað að veita fé, til Laxárbrúarinnar 17. júní 1901 en gleymt því.
Hve mikið amtsráðið kann að byggja á öðrum eins staðhæfingum og þeim, sem hér eru tilfærðar eftir amtmanni, vitum við ekki; en það er von okkar að það byggi væntanlegan úrskurð sinn í Laxárbrúarmálinu á einhverju, sem haldbetra er.


Austri, 27. maí 1904, 14.árg., 16. tbl., bls. 60:
Hér er því mótmælt að slælega hafi verið staðið að flutningi á efni til Lagarfljótsbrúarinnar.

Leiðrétting.
Með því að mér hefir borist til eyrna, að sýslunefnd Norður-Múlasýslu hafi á fundi í vor látið bóka atriði í fundargjörðina viðvíkjandi flutningi á efni til Lagarfljótsbrúarinnar, sem ég hefi staðið fyrir, samkvæmt hverju menn skyldu ætla, að unnið hefði verið að því verki sljólega og það því orðið dýrara en þörf var á, - skal ég leyfa mér að mælast til, að þér herra ritstjóri, birtið í yðar heiðraða blaði, að slík umsögn er í alla staði ósönn, og finnst mér það miður sæmandi fyrir sýslunefnd Norðurmúlasýslu, ef hún hefir hlaupið eftir lausu slúðri í þessu efni; og skal ég aðeins í þetta sinn benda á, að bestu menn Héraðsins, sem hingað til hafa verið þekktir sem heiðarlegir menn, hafa lagt krafta sína í þetta verk, og mun ég, ef þörf gjörist, geta sannað, að þeir ekki hafi dregið af sér.
Síðar mun ég ef þörf gjörist víkja betur að þessu máli.
Eskifirði 21. maí 1904. Virðingarfyllst
pr. pr. Carl D. Tulinius´ Efterfl.
Jón C. F. Anrensen


Ísafold, 28. maí 1904, 16.árg., 34. tbl., bls. 134:
Aðalsýslufundur Rangárvallasýslu fjallaði m.a. um ýmiss samgöngumál.

Sýslufundur Rangæinga.
Aðalsýslufundur Rangárvallasýslu var haldinn á Stórólfshvoli 5. til 7. apríl. Auk venjulegra reikningsmála koma þessi mál þar til umræðu.
10. Lögð var niður lögferja á Sandhólaferju.
14. Samkvæmt málaleitan landsstjórnarinnar lét nefndin uppi, að þessi framfaramál teldi hún mestu skipta fyrir sýsluna:
Brýr á Rangá hvorutveggja. Framhald þjóðvegarins að Þverá. Gufubátaferðir milli Vestmannaeyja og Rangársands. Framhald á umbótum á Stokkseyrarhöfn og að Stokkseyri verði viðkomustaður - ólæsilegt orð - gufuskipa og strandbátanna. Mótorvagnaferðir eftir akveginum og talsími fram með þeim á sínum tíma.
18. Veittar 50 kr. til að halda uppi ferju á Þverá hjá Fróðholtshjáleigu.
19. Samþykkt þessi áætlun fyrir sýsluvegasjóð: Tekjur 1050 kr. Gjöld: til sýsluvegar í Austur-Eyjafjallahreppi 100 kr., í Vestur-Eyjafjallahr. 300 kr., í Austur-Landeyjahr. 50 kr., í Hvolhreppi 200 kr., í Rangárvallahr. 80 kr., í Landmannahr. 100 kr. og í Holtahreppi 100 kr.; óviss útgjöld 120 kr.
20. Sýslusjóðsáætlun. Tekjur: niðurjöfnun 4700 kr., aðrar tekjur 810 kr.; samtals 5510 kr. Gjöld: sýslunefndarkostnaður 280 kr., ritföng hreppstjóra 50, yfirsetukonulaun 700, jafnaðarsjóðsgjald 1,30, hundalækningar 25, brúargæsla (þjórsá) 300, vextir og afborgun af jarðskjálftaláni 800, vextir og afborgun af Ölfusárbrúarláni 230, umsjón á skógi og mel 60, óviss útgjöld (mest skuldagreiðsla) 800, eftirstöðvar 585. Samtals 5510.


Norðurland, 4. júní 1904, 3. árg., 36. tbl., bls. 143:
Unnið er að lagningu þjóðvegarins út frá Akureyri og er vonast til að vegurinn nái út að Glerá á þessu sumri.

Vegarlagning.
Undir stjórn Páls Jónssonar kennara hefir nú verið unnið að lagning þjóðvegarins út frá Akureyri hátt á 2. viku. Til hans hafa verið veittar þetta ár 5000 kr. Þar af þarf eitthvað á 2. þús. til brúargjörðar á Glerá. 25-30 manna hafa unnið að verkinu. Ekki er vonlaust um, að vegurinn kunni að komast út að Glerá á þessu sumri; er fráleitt kemst hann lengra. Á þessum kafla er óvenjulega örðugt að leggja veg vegna þess, hvernig landslagi er háttað. Brúin á að komast á ána á þessu sumri, hvort sem vegurinn kemst svo langa leið eða ekki.


Þjóðólfur, 7. júní 1904, 56. árg., 24. tbl., forsíða:
Hér skrifar J. Havsteen um grein Torfa Ólafssonar og Sr. Kjartans Helgasonar í Ísafold um Laxárbrúarmálið og kærur þeirra yfir Birni Bjarnasyni sýslumanni.

Um Laxárbrúarmál
Torfa skólastjóra Bjarnasonar í Ólafsdal
og prófastsins séra Kjartans Helgasonar í Hvammi.
Hún virðist fremur gagnslaus, grein nefndra manna í >Ísafold<, 32. blaði 21. þ.m., um Laxárbrúarmálið, sem aðallega er fólgið í kærum þeirra til mín yfir sýslumanni Birni Bjarnarsyni á Sauðafelli og kröfu þeirra um, að eg fyrirskipaði sakamálsrannsókn gegn honum út af framkvæmdum hans við bygging brúar yfir Laxá í Dölum.
Fyrst er það, að sýslumaðurinn var endurkosinn í fyrra sem alþingismaður Dalasýslu, og tekinn fram fyrir þann mann, sem þeir K. H. og T. B. vildu hafa fyrir alþingismann. Og nú á sýslufundinum 23. – 26. mars þ. á., var sýslumaðurinn endurkosinn sem amtsráðsmaður Dalasýslu, en sjálfur Torfi varð að lúta í lægra haldi.
Greinin, sem fer nokkuð nálægt meiðyrðalöggjöfinni, er blátt áfram sprottin af gremju yfir því, að yfirlýsing amtsráðsins í Vesturamtinu um kærur þeirra var á þessa leið: >Nefnd sú, sem kosin hafði verið til þess að láta uppi álit sitt um kærur séra Kjartans prófasts Helgasonar og fleiri sýslunefndarmanna í Dalasýslu yfir framkvæmdum sýslumannsins og reikningsfærslu út af Laxárbrúnni á árunum 1900 og 1901, lýsti yfir því áliti sínu, sem amtsráðið samþykkti, að frekara væri ekki að gera, en úrskurðað hefði verið af forseta<. Úrskurður forseta var vitanlega ekki eftir höfði kærendanna.
Nú svífast þeir Torfi skólastjóri og prófastur ekki þess, að láta það í veðri vaka, að eg hafi gefið amtsráðinu rangar skýrslur, og að amtsráðsfundinum hafi verið villtar sjónir með röngum eða ónákvæmum skýrslum um málavöxtu. Það er í fyrsta skipti, að það er borið upp á mig, eftir að hafa haft amtmannsembætti á hendi í nærfellt 24 ár, að eg hafi farið svo að ráði mínu, sem T.B. og K. H. segja. Skólastjóri Torfi Bjarnason er nú að kveðja mig, þegar að því er komið, að eg fari frá embætti mínu, og þakka mér fyrir það, að eg hef reynt til að hlaupa undir bagga með honum og orðið honum oftar en einu sinni að liði, þegar honum lá á. Í skýrslu um fund Vesturamtsins 25. – 26. júlí f. á., (Stjórnartíðndi 1903 B. bls. 191), er sagt frá því, að eg hafi lagt fram öll þau bréf, sem spunnist höfðu út af kæru fyrnefndra tveggja manna; eg lagði yfir höfuð allt það fram, sem gat upplýst þetta mál, og í nefnd þeirri, sem amtsráðið kaus til þess að rannsaka málið, sátu séra Þorvaldur Jakobsson í Sauðlauksdal, séra Sigurður Stefánsson í Vigur og Snæbjörn hreppstjóri Kristjánsson í Hergilsey. Eg er viss um, að þeir hafa gert það samviskusamlega.
Það er ekki meining mín, að fara nú að karpa við þá K. H. og T. B. út af Láxárbrúarmálinu, og læt eg mér nægja, að biðja góða menn, sem sjá Ísafoldargreinina og sem þekkja mig, að lesa skýrsluna um fund amtsráðsins í Vesturamtinu, 25. – 26. júlí f. á. (Stjórnartíðindi 1903 B. bls. 190-195 og 206-208). Eg vil aðeins minnast hér á fáein atriði í greininni, sem eru næsta einkennileg, og sem lýsa vel málstað kærendanna, sem ekki hafa annað á boðstólum en eintómar sakargiftir, en engar sannanir.
Eins og tekið er fram í amtsráðsfundarskýrslunni, sá prófasturinn, sem fyrst kærði þetta mál einn, í júlí 1902, hjá mér vottorð sýslunefndarmanns Ólafs Jóhannessonar í Stóraskógi á einu fylgiskjalinu með brúarreikningum fyrir 1900, um að verðið á sementi (42 tunnum) frá Búðardalsversluninni væri í reikningi verslunarinnar til sýslumanns tilfært með 13 kr. fyrir tunnuna, en samt segir prófastur í kæru sinni, dagsettri 18, júlí 1902, að sementið hafi verið mest allt keypt hjá verslunina og að tunnan hafi kostað 11 kr.
Á öðrum stað er sagt á þessa leið, að það sé óneitanlega frjálslyndi af amtmanninum gagnvart sýslumanni, að taka ekki hart á því, þótt hann brjóti lögin og velji sér sjálfur endurskoðara. Eg ætla að biðja þá K. H. og T. B. að láta mig dæma um það, hvort sýslumaður hafi drýgt >lagabrot< með þessu. Að þessir menn ekki þekkja hegningarlögin, má annars sjá á því, að þeir vildu endilega að eg fyrirskipaði sakamálarannsókn gegn sýslumanni, sem eg vissi að var sýkn saka (sbr. 131. gr. hegningarlaganna); eg hef ekki getað fundið í nefndum lögum það lagabrot, sem þeir K. H. og T. B. eru að fárast um hér.
Þar næst er sagt, að amtsráðið hafi skipað svo fyrir á síðasta fundi sínum, að sýslumaður skyldi semja reikning yfir allan kostnað við Laxárbrúna í einu lagi. Þetta er ekki satt, heldur lagði amtsráðið sýslumanni fyrir, að semja lokareikninginn, því reikningar yfir brúarkostnaðinn á árunum 1900 og 1901 eru fyrir löngu samdir, og hvað meira er, endurskoðaðir af T. B. sjálfum. Þeir bíða síns úrskurðar, sem eigi mun verða lagður á þessa 3 brúarreikninga fyr en á árinu 1905, vegna þess, að endurskoðari T.B. lýsti því yfir á sýslunefndarfundinum 23.-26. mars þ.á., að hann eigi hefði fundið ástæðu til að endurskoða reikninginn fyr en útkljáð væri um það, hvort greiða skyldi úr sýslusjóði þá upphæð (1159 kr. 18 a.), sem lagðar höfðu verið til brúarinnar á árinu 1901. Á þetta féllst svo sýslunefndin, eða meiri hluti hennar, en eftir er að vita, hvernig amtsráðið tekur í þetta. Þótt endurskoðari T. B. eigi hafi fengið lokareikninginn fyr en á sjálfum sýslunefndarfundinum, sem nú er skýrt frá, þá get eg ekki séð, að það hefði verið ofverkið hans, að endurskoða þennan reikning á sjálfum fundinum. Bæði á amtsráðsfundum og öðrum fundum eru stærri reikningar endurskoðaðir, heldur en lokareikningur Laxárbrúarinnar.
Þeir K. H. og T. B. segja svo frá, að þegar sýslunefndin hafi eigi reynst nógu leiðitöm og neitað að samþykkja útgjaldaliði í sýslureikningunum, sem séu þannig tilkomnir, að sýslumaður hafi lagt fram fé til vegagerða að sýslunefndinni forspurðri, þá sé reynt að fá amtsráðið til að hlaupa undir bagga og samþykkja reikningana þvert ofan í mótmæli sýslunefndar. Sem dæmi upp á þetta er tilfærður úrskurður amtsráðsins um athugasemd endurskoðanda við sýsluvegareikning Dalasýslu fyrir 1902 (6. gr.). Hér var um nauðsynlega vegagerð að ræða, sem ekki mátti fresta, og úrskurður amtsráðsins var á þá leið, að það skyldi við svo búið standa, og tók amtsráðið það um leið fram, að sýslumanni hefði verið skylt, að gera að þeim torfærum, sem spursmál var um. K. H. og T. B. gera það nú heyrum kunnugt, að þeir vilji að torfærur og skemmdir á vegum eigi að liggja afskiptalausar á meðan sýslunefndin ekki hefur veitt fé til þess að bæta úr þeim. Ekki er nú vakurt þótt riðið sé. Vitanlega var það mjög leiðinlegt, að athugasemd T. B. skyldi fá þessa útreið hjá amtsráðinu.
Svo koma loks svigurmæli um, að eg hafi hallað sannleikanum til muna í skýrslu minni til amtsráðsins um hina meintu heimildarlausu greiðslu á 1159 kr. 18 a. úr sýslusjóði 1901 til brúarinnar. Eg hef lagt fram allar skýrslur, sem til eru um þetta atriði; og hverju hef eg getað skrökvað hér? Þeir K. H. og T. B. kalla það ósannindi af mér, að eg hef þá skoðun um þetta mál, að þessi greiðsla sé ekki heimildarlaus. Fyr má nú vera. Jafnhliða þessu fara þeir K. H. og T. B. að verða skemmtilegir. Þeir segja, að sýslunefndin hafi aldrei ákveðið, að brúin skyldi byggð, heldur að eins veitt ríflegan styrk til hennar. Eftir þessu er þá sýslunefndin að veita fé til þeirra fyrirtækja, sem ekki eiga að framkvæmast! Það sætir furðu, að skynsamir menn skuli koma opinberlega fram með slíkar staðhæfingar. Sýslunefndin hefur einu sinni veitt fé til brúarinnar, og hefur þar að auki fengið styrk til hennar úr landssjóði. Þeim K. H: og T. B. er illa við þennan landsjóðsstyrk , og gefa í skyn, að eg ef til vill hafi farið með ósannindi, þá er eg skýrði þeim frá því í bréfi, dagsettu 19. ágúst f. á., hvað gerst hafði á alþingi 1899 í þessu tilliti. Þetta leyfa þeir sér að bera á borð fyrir almenning, þótt eg í nefndu bréfi mínu hafi tilgreint þann stað í Alþingistíðindunum 1899, þar sem skýrt er frá styrktarbeiðninni (Alþingistíðindi 1899, B. 579-580), og jafnvel tilfært orð þáverandi alþingismanns Dalasýslu, séra Jens Pálssonar í Görðum í þessu tilliti. Hann komst að orði á þessa leið: >Beiðni frá sýslunefnd Dalasýslu um styrk til þessarar brúar (nefnil. Laxárbrúarinnar) ásamt fylgiskjölum barst mér fyrst í hendur undir 2. umræðu fjárlaganna, og var þá þegar lögð fram á lestrarsalnum< o.s. frv. Þessi orð hafa þeir K. H. og T. B. haft fyrir sér, þegar þeir segja í Ísafoldargreininni: >En sé þetta satt (það sem eg hafði sagt þeim í bréfinu, dagsettu 19. ágúst) þá er það bónarbréf falsað< Að þeir stöðugt drótta að mér, að eg leggi fram rangar skýrslur og fari með ósannindi, ætti eg ekki að kippa mér upp við, sér í lagi að því leyti sem T. B. á í hlut, þegar þeir drótta því að Jens Pálssyni í Görðum, að hann hafi flutt falsað bónarbréf inn á alþingi og fengið styrk upp á það handa kjördæmi sínu.
Það gagn hef eg haft af greininni í >Ísafold<, að eg hef nú lært að þekkja skólastjóra Torfa Bjarnason í Ólafssdal.
Reykjavík 28. maí 1904.
I. Havsteen.


Ísafold, 8. júní 1904, 16.árg., 37. tbl., forsíða:
Ísafold segir það nú líklegt að hafin verði opinber rannsókn gegn sýslumanni Dalasýslu út af reikningsfærslu hans í Laxárbrúarmálinu.

Opinber rannsókn gegn Dalavaldsmanni.
Nú er loks þar komið, að líklega verður hafin opinber rannsókn gegn Dalavaldsmanninum út af reikningsfærslu hans í Laxárbrúarmálinu.
Að minnsta kosti fóru þeir fram á það einhuga, amtsráðsmennirnir allir, nema reikningshaldarinn sjálfur. En amtmaður maldaði í móinn eftir mætti. Síra Sigurður Stefánsson í Vigur hafði orð fyrir þeim, amtsráðsmönnum, og fór allhörðum orðum um háttalag sýslumanns, sem von var, um óhlýðni hans og lítilsvirðingu við fyrirskipanir amtsráðsins. En mjög var amtmaður þar andræðinn.
Einhvern svo nefndan >lokareikning< um brúargjörðina hafði sýslumaður nú komið með. En hann hafði óhlýðnast alveg fyrirmælum amtsráðsins í fyrra um að senda slíkan reikning endurskoðanda sýslureikninganna í Dalasýslu, og hafði því sýslunefndin þar vísað honum frá sér, er sýslumaður lagði hann fram óendurskoðaðan undir lok sýslufundar í vetur.
Amtsráðið stóð því uppi alveg ráðalaust með að úrskurða reikninginn að þessu sinni. Það lagði loks fyrir sýslumann enn af nýju að senda reikninginn endurskoðanda hið bráðasta, svo að hann hefði nægan tíma til að endurskoða hann. Síðan skyldi reikningurinn lagður fyrir sýslunefndina á aukafundi, er halda skyldi í sumar í ágústmánuði.
Allir amtsráðsmenn, nema Dalasýslum., voru ennfremur á því, að nauðsyn bæri til þar að auka að láta hefja opinbera rannsókn gegn sýslumanni út af þessu máli; og komu fram tvær tillögur um, hvernig orða skyldi áskorun til amtmanns um það, önnur frá síra Sigurði í Vigur, en hin (síðari) frá síra Sigurði prófasti í Flatey.
Síra Sigurður í Vigur lagði til, að amtsráðið skoraði á forseta sinn, að láta hefja opinbera rannsókn gegn sýslumanni, sér í lagi út af því.
að hann hefði óhlýðnast skipun amtsráðsins í fyrra um að semja og láta endurskoða lokareikning Láxárbrúarinnar,
að hann hefði gert sýslufélaginu reikning fyrir pakkhúsleigu af sementi, sem aldrei hafði komið í það hús, er um var að ræða,
að hann hefði reiknað til brúarkostnaðar 55 tunnur af sementi, en eigi notað nema 51 tn., og
að hann hefði skýrt amtsráðinu rangt frá um vegagerð þá, sem hann taldi með á Laxárbrúarreikningnum ranglega.
Hin tillagan, breytingartillaga við þetta, frá síra Sigurði í Flatey, sem var borin undir atkvæði (sjaldan eða aldrei þessu vant) og auðvitað á undan aðaltillögunni, hlaut mikinn meiri hluta atkvæða, svo að aðaltillagan, sem sumum líkaði betur, var því aldrei upp borin.
Hin samþykkta tillaga er svo látandi:
>Þar er sýslumaður hefir eigi fullnægt þeim úrskurði amtsráðsins frá fyrra ári, að semja og senda lokareikning Laxárbrúarinnar á tilsettum tíma, 1. febr. og auk þess hafa komið fram opinberlega nýjar kærur undirskrifaðar af 2 sýslunefndarmönnum í Dalasýslu út af reikningsfærslu sýslumanns í þessu brúarmáli, þá skorar amtsráðið á forseta að láta rannsaka allar framkvæmdir og reikningsfærslu sýslumanns í þessu brúarmáli.
Nú er eftir að vita, hvað úr þessu verður. Hvort amtmaður þarf nú að sýna skörungsskap sinn á því, að virða vettugi þessa eindregnu áskorun amtsráðisins. Eða þá að valinn verður til að framkvæma rannsóknina einhver handónýtur maður og rannsóknin fyrir það sama sem ógerð, þótt myndast sé við hana að nafninu til.


Þjóðólfur, 10. júní 1904, 56. árg., 25. tbl., bls. 98:
P.Z. segir í ferðasögu sinni m.a. frá vegum yfir Sælungsdalstunguheiði og eftir Svínadal.

För um Dala- og Strandasýslur haustið 1903
Eftir P. Z.
Hvammssveit.
Úr Hvammssveit liggja tvær leiðir yfir í Saurbæinn. Önnur er yfir Sælingsdalstunguheiði en hinn eftir Svínadal, þar sem Kjartan Ólafsson var drepinn. Steinninn, er hann barðist við , sést nú hvergi, en steinhrúgur eru þar á einum stað, þar sem líklegt er, að steinninn hafi verið, og líta þær út eins og stór steinn, er hefur klofnað sundur af áhrifum lofts og lagar. Annars er Hafragil, þar sem þeir Bolli voru, vel lagað til fyrirsáturs, því eigi sjást þeir sem eru í gilinu, fyrr en yfir er komið, eins og vegurinn hefur þá legið. Nú liggur hann eigi yfir gilið, heldur er farið yfir Leysingjastaðaá hjá gilinu, og riðin hlíðin út hinumegin. Eftir dal þessum liggur póstvegurinn, en litlu láni hefur vegur sá átt að fagna, og eigi hefur verið varið stórfé til þess að gera við hann, enda sjást þess ljós merki, þó ekki sé á öðru en því, að 11 sinnum er farið yfir Leysingjastaðaá á klukkutíma ferð, auk þess sem nokkrum sinnum er farið yfir sprænu þá, er rennur niður í Saurbæinn, og á einum stað riðið eftir ánni. Þetta sífellda vatnslark er fremur þreytandi, auk þess er það getur komið sér opt illa, því Leysingjastaðaá getur verið ófær, sérstaklega á neðsta vaðinu, Jónsvað er það kallað.


Þjóðólfur, 17. júní 1904, 56. árg., 26. tbl., bls. 102:
Í ferðfrásögn P.Z. er m.a. minnst á veginn í Laxárdal.

För um Dala- og Strandasýslur haustið 1903
Eftir P. Z.
Laxárdalur
Síðasta alþingi samþykkti að veita 1000 kr. styrk til þess að leggja akveg fram Laxárdalinn. Úr Laxárdalnum fremst liggur örstuttur og lágur fjallvegur niður í Bæjarhrepp í Strandasýslu, og er að norðanverðu komið niður að bænum Borðeyri. Yfir sjálfa heiðina er búið að leggja akveg, og að norðan er akvegur allt niður í Borðeyrarkaupstað. Aftur er nær því hrein vegleysa niður Laxárdalinn. Mér líst svo á, að akvegur yfir Laxárdalinn væri til ómetanlegs hags fyrir Norðlendinga í ísárum, enda hefur það opt borið við, að Riis kaupmaður á Borðeyri hefur látið setja vörur sínar á land í Búðardal og að Húnvetningar og jafnvel Skagfirðingar hafa farið þangað að sækja vörur. Það er svo mikið styttra fyrir þá að sækja þangað vörur sínar, en að sækja þær í Borgarnes, þegar svo árar, að þeir geta eigi fengið þær nyrðra. Það munar mikið fyrir bóndann um hverja dagleiðina, er hann verður að bæta við sig, þegar hann fer í slíkar ferðir, því opt er það, að hestar eru eigi í sem bestu standi, þegar illa árar. Hver dagleið er þá dýr, auk þess sem hún er erfið. Að fá góðan veg niður Laxárdalinn, og gufubát á Breiðaflóa, væri því til stórhags fyrir Norðlendinga, einkum þó Húnvetninga. En bátur á að koma á Breiðaflóa sem allra fyrst, enda er vonandi að svo verði, þar sem fé hefur verið veitt til hans af alþingi, og áhugi er mikill á því þar vestra. Breiðfirðingar og aðrir, mega þakka Lárusi H. Bjarnasyni sýslum. Fyrir vasklega framgöngu hans í því máli.


Norðurland, 25. júní 1904, 3. árg., 39. tbl., bls. 155:
Hér er athyglisverð frétt um nýjungu í vegagerð, að Sigurður skólastjóri Sigurðsson hafi látið gera veg á allt annan hátt en sést hafi áður hér á landi, hann notaði nefnilega hestafl og verkfæri.

Ódýr vegarlagning.
Sigurður skólastjóri Sigurðsson hefir látið gera veg á allt annan hátt en sést hefir áður hér á landi. Vegurinn liggur frá neðri tilraunastöðinni við Akureyri upp í efri tilraunastöðina inn við Kjarnaland. Hann liggur skáhalt upp brekku, yfir gil, skorninga, holt og mýrar, er þriggja álna breiður, akfær, 230 faðma langur og hefir kostað 32 kr. Faðmurinn kostar því tæpa 14 aura.
Til þess að fá veginn svona ódýran, hefir Sigurður skólastjóri notað hestaflið og verkfæri þau, sem Ræktunarfélag Norðurlands hefir keypt, plóga og moldrekur.


Ísafold, 29. júní 1904, 16.árg., 43. tbl., bls. 171:
Magnús Þorsteinsson skrifar hér um póstleiðina meðfram Esju og er hissa á að vegurinn skuli ekki vera betur ruddur og bættur.

Póstleiðin meðfram Esju.
Sunnudaginn var lá leið mín fram á Kjalarnes til messu á Brautarholti, og minntist ég þá, er ég reið frá Kollafirði, orðtækisins; >glöggt er gests auga<.
Ég leitaðist við að hafa augun hjá mér.
Það sem mér varð starsýnst á, var vegurinn, og í undrun út af honum hugsaði ég, svona er þá póstvegurinn hér rétt undir handajaðri hinnar vaxandi Reykjavíkur. Alveg verð ég hissa og er á því, að vegur þessi skuli ekki vera betur ruddur og bættur heldur en er, þess er þó brýn og bráð þörf, sumstaðar þar meðfram Esju verður ekki sagt að þverfótandi sé fyrir stóru og smáu grjóti, og hættulegar holur eru þar fyrir hestafætur. Vil ég með þessu láta vera nóg sagt til þess, að ómynd sú og héraðsminkun, sem á er í greindu efni, verði hið allrafyrsta athuguð og lagfærð af réttum hlutaðeigendum.
St. í Reykjavík 28. júní 1904.
Magnús Þorsteinsson.


Norðurland, 2. júlí 1904, 3. árg., 40. tbl., bls. 158:
Amtsráð Vesturamtsins hefur heimtað opinbera rannsókn gegn sýslumanninum í Dalasýslu vegna brúarmálsins svokallaða.

Opinbera rannsókn
gegn sýslumanni í Dalasýslu, Birni Bjarnarsyni, hefir amtsráð Vesturamtsins heimtað með eftirfarandi samþykkt, er gerð var í einu hljóði, að sýslumanni Dalamanna undanskildum:
Þar eð sýslumaður hefir eigi fullnægt þeim úrskurði amtsráðsins frá fyrra ári, að semja og senda lokareikning Laxárbrúarinnar á tilsettum tíma, 1. febr., og auk þess hafa komið fram opinberlega nýjar kærur undirskrifaðar af tveimur sýslunefndarmönnum í Dalasýslu út af reikningsfærslu sýslumanns í þessu brúarmáli, þá skorar amtsráðið á forseta að láta rannsaka allar framkvæmdir í reikningsfærslu sýslumanns í þessu brúarmáli.

Ísafold, 14. júlí 1904, 16.árg., 47. tbl., bls. 187:
Hér er til gamans birt grein Ísafoldar um nýtt samgöngutæki, reiðhjól, en notkun þess breiðist út og er mælt að hálf tylft kvenna eigi sér reiðhjól hér í bæ.

Reiðhjólin.
Þau eru orðin furðu algeng hér í bæ, það fullyrða sumir, að þau skipti hundruðum. Ungir og gamlir, karlar og konur fara hér á hjólum nú orðið alveg eins og í stórborgum erlendis. Færra kvenfólk þó að tiltölu en þar gerist, að svo komnu. Og færri rosknir menn sjálfsagt líka. Mest eru það unglingspiltar. Einnig nokkrir smásveinar. Það eru bæði lærðir menn og leikir, stúdentar og kandídatar, þar með einnig stöku embættismenn, og búðarmenn, iðnaðarmenn o. fl.
Hálf tylft kvenna er mælt að eigi sér reiðhjól hér í bæ og að dálítið fleiri kunni þær á þau. Það eru allt ungar stúlkur, heldri stúlkur, sem kallað er. Meira er ekki um að vera þar. Þetta er mjög svo nýlega tilkomið. Það er nú fyrst að verða tíska hér, að kvenfólk fari á hjólum.
Vel væri það gert málsins vegna, að hjólamenn og konur vendu sig af hinum herfilegu dönskuslettu-bögumælum, er hér tíðkast enn um þessa nýung, hjólaferð og allt það sem þar að lýtur.
Sukkull heita reiðhjólin hjá þeim, og að sukla eða fara á hjólum, og hjólamaður suklari.
Fyrr má nú vera óskapnaður.
Fyrr má nú vera misþyrming á tungu vorri.
Það er eins og orðhagur hjólamaður einn hefir bent Ísafold á, að enginn hlutur er einfaldari og jafnframt sjálfsagðari en hvernig þetta á að orða á íslensku allt saman, og það á bestu íslensku, alveg vafningalausri og tilgerðarlausri. Þar getur ekki heitið að þurfi að halda á neinum nýgerving.
Það er mikill kostur, því oft takast þeir misjafnlega.
Hér hafa tíðkaðar verið lengi tvær íþróttir, sem eru bæði mjög skyldar og mjög líkar hjólaferðum. Það er skautaferð og skíðaferð. Galdurinn er þá allur sá, að hafa allt hið sama orðalag um þessa nýju list og hinar, þ.e. að sínu leyti.
Þá verður alveg eins vel viðeigandi og sjálfsagt að segja að fara á hjólum eins og að fara á skautum eða skíðum; hjólamaður eins sjálfsagður og skautamaður eða skíðamaður; reiðhjól eða hjól að eins í fleirtölu, eins vel viðeigandi og skíði eða skautar, sem er haft hvorttveggja eingöngu í fleirtölu, þegar talað er um ferðalag með þeim áhöldum.
Venja sig á að hafa orðið reiðhjól eða hjól ekki í eintölu, heldur í fleirtölu jafnan, er talað er um það ferðatól, er alveg eins og um skíði og skauta. Hjólin (reiðhjólin) eru og tvö, eins og skautar og skíði eru tvö. Það má ekki og á ekki að skipta sér af því, þó að algenga útlenda heitið á reiðhjólunum sé eintölu-orð (Cycle). Engin minnsta nauðsyn að vera að apa það eftir.
Hjólin mín, segir þá hjólamaðurinn, en ekki hjólið mitt, alveg eins og skautamaðurinn segir skautarnir mínir og skíðamaðurinn skíðin mín, en ekki skautinn minn eða skíðið mitt, nema hann eigi beint við annan skautann eða annað skíðið.
Þegar hjólamenn og aðrir eru búnir að venja sig á hin réttu heiti, sem hér hefir verið bent á, kunna þeir allir jafnilla við að segja hjólhestur, (sem margir gera nú og er auðvitað skárra þó en sukkull), eins og t. d. ef tekið væri upp að segja skíðishestur fyrir skíði. Hins þarf ekki að geta, að þá mundi enginn maður fást til að taka sér í munn annað eins afskræmi og sukkull, suklari og að sukla.


Þjóðólfur, 22. júlí 1904, 56. árg., 32. tbl., bls. 126:
Í ferðasögu P.Z. frá Dala- og Strandasýslum er m.a. getið um veginn frá Búðardal og fram undir Fellsenda.

För um Dala- og Strandasýslur haustið 1903 Eftir P. Z.
Miðdalir.
Þegar riðið er suður öxl þá, er aðskilur Laxárdal og Miðdalina, blasir við manni ofurlítið undirlendi. Undirlendi þetta, er liggur við suðausturhorn Hvammsfjarðar er myndað af Haukadalsá, Miðá og Hörðudalsá. Alla leið frá Búðardal og fram undir Fellsenda er góður upphleyptur vegur. Að vegur sá hefur komist á, mun vera að þakka dugnaði hr. sýslum. Björns að Sauðafelli. Þó vegur þessi sé í alla staði eins góður eins og landsjóðsvegirnir, þá hefur hann þó verið mikið ódýrari en þeir. Mun það ekki eiga lítinn þátt að, að styrkur til hans mun vera veittur svo og svo mikill fyrir hverja alin. Vert væri að taka þá aðferð upp við styrki þá, er landsjóður veitir til vegagerðar, en síðan ætti að láta virða vegalagninguna á eftir og aðgæta, hvort hún fullnægði öðrum skilyrðum. Það er margreynt, að þegar sveitarfélög eiga að leggja vegina, þá verða þeir ódýrari en landsjóðsvegirnir. Til grundvallar fyrir því liggur auðvitað það, að þau geta betur haft eftirlit með vegagerðinni.


Norðurland, 30. júlí 1904, 3. árg., 44. tbl., bls. 174:
Sýslunefnd Suður-Þingeyinga svarar fyrirspurn stjórnarráðsins um það, hver almenn framfarafyrirtæki í atvinnu- og samgöngumálum séu talin nauðsynlegust í héraðinu.

Framfaramál Þingeyinga.
Sýslunefnd Suður-Þingeyinga hefir í vor svarað á þann hátt, er hér fer á eftir, fyrirspurn stjórnarráðsins um það, hver almenn framfarafyrirtæki í atvinnu- og samgöngumálum séu talin nauðsynlegust í héraðinu:
a. Samgöngumál.
Viðvíkjandi samgöngum í héraðinu telur sýslunefndin einkum nauðsynlegt að í nánustu framtíð, eða þegar á næsta fjárhagstímabili, séu þessar umbætur gerðar á þeim:
1. Rífleg fjárhæð sé veitt til akbrautar þeirrar, sem á gildandi vegalögum er ákveðið að leggja skuli frá Húsavík upp Reykjadal.
2. Þjóðvegurinn frá Eyjafirði að Reykjahlíð sé sem fyrst endurbættur og gerður akfær, að væntanlegu brúarstæði á Fnjóksá, þaðan norður um Ljósavatnsskarð að brúnum yfir Skjálfandafljót og frá þeim yfir Fljótsheiði að akbrautinni hjá Einarsstöðum í Reykjadal. Af þessum vegarkafla leggur nefndin mesta áherslu á viðgerð Vaðlaheiðar og kringum brýrnar á Skjálfandafljóti.
Í sambandi við þetta telur nefndin mjög nauðsynlegt að fljótlega sé lagður akfær vegur af þjóðveginum á vesturbrún Vaðlaheiðar að kauptúninu Svalbarðseyri, og þessi vegarspotti jafnframt gerður að þjóðvegi. Þessu atriði til stuðnings tekur nefndin það fram, að verslun Þingeyinga og aðsókn til Svalbarðseyrar er orðin mjög mikil og fer árlega vaxandi, en nú sem stendur eru hinar mestu vegleysur þangað að fara.
3. Eins og áður fyrri er það einhuga álit sýslunefndarinnar og héraðsbúa, að brúa þurfi Fnjóská á þjóðveginum, og telur nefndin æskilegt, að á næstu fjárlögum verði veitt nægilegt fé til þessarar brúargerðar.
4. Nefndin telur það hafa allmikla þýðingu fyrir þetta hérað, sökum margs konar sambanda við Akureyrarbæ, að brú sé gerð á Eyjafjarðará, svo neðarlega sem unnt er. En þar sem nefndin telur sjálfsagt, að sú brú verði mjög dýr, og geri auk þess lykkju á leið margra, hyggur hún að til álita geti komið, að komið sé á duglegri eimferju yfir Akureyrarpoll, er þá komi í stað brúar á Eyjafjarðará.
5. Ef þingið framvegis veitir styrk úr landssjóði til sýsluvegagerða, hyggur nefndin að sem fyrst ætti að leggja fé fram til þess, að sýsluvegurinn frá Grenivík upp Dalsmynni til Ljósavatnsskarðs verði gerður akfær.


Austri, 17. sept. 1904, 14.árg., 28. tbl., forsíða:
Sigurður Thoroddsen verkfræðingur lýsir hér nýju Lagarfljótsbrúnni fyrir lesendum Austra.

Lýsing á Lagarfljótsbrúnni.
Herra Ingeniör Sig. Thoroddsen hefir, eftir beiðni vorri, góðfúslega látið oss í té eftirfarandi lýsingu á Lagarfljótsbrúnni:
"Brúin er byggð á staurum þannig, að með 16 álna millibili eru reknir niður í botninn 2 - sumstaðar 3 - staurar, sem mynda tréstöpla undir brúna, alls eru í henni 29 þannig lagaðir stöplar, en til endanna eru hlaðnir 2 rúmlega 5 álna háir sementeraðir steinstöplar; ofan á stöplana eru lagðir járnbitar eftir endilangri brúnni - tveir í breiddinni -; þvert yfir bitana liggja þvertré með 2 feta millibili og á þessi þvertré er plánkagólfið neglt, til beggja handa er 3 feta hátt handrið úr járni. - Lengd allrar brúarinnar er um 480 álnir, en frá báðum steinstöplum ganga upp á land háir vegaspottar (5-6 álna háir þar sem þeir eru hæstir), að norðanverðu um 70 álna langur kafli, að mestu hlaðinn úr grjóti, en að austanverðu alltað því 300 álna langur vegur, hlaðinn úr sniddu mestmegnis og grjóti raðað utaná kantana. Hæð brúarinnar frá gólfi til vatns, eins og það getur orðið allra lægst, er um 6 álnir; en frá hæstu vatnsstöðu, sem menn þekkja dæmi til, og uppundir járnbitana, er um 1 1/2 fet.
Botninn er mjög linur og blautur - mestmegnis jökulleðja, hefir sumstaðar orðið að reka staurana 40-50 fet niður í botninn til þess að þeir yrðu nægilega fastir.
28 ísbrjótar úr tré eiga að vera uppaf tréstöplunum öllum, nema þeim austasta.
Það er nú verið að hlaða steinstöplana og leggja vegakaflana, gólfið er ekki lagt enn í fullri breidd og handrið aðeins komið öðru megin, en búist er við að fullgjöra það sem eftir er svo - fyrir lok septembermánaðar - að hægt verði að nota brúna til umferðar í vetur. - Ísbrjótarnir verða að bíða næsta sumars flestir, það er nú verið að koma hinum fyrstu fyrir, en það verða varla fleiri búnir í sumar en 4-5 af 28.
Brúin á að geta borið 80 pd. á hverju ferhyrningsfeti af flatarmáli gólfsins. Þar sem sú breidd brúarinnar er 8 fet og lengd ca. 960 fet, getur öll brúin borið 614,400 punda þunga eða rúm 307 ton."
*
Vér erum Ingeniörnum mjög þakklátir fyrir að hafa gefið Austra undanfarandi lýsingu á brúnni, sem kemur þá úr áreiðanlegustu átt. - Er oss kunnugt um, að herra Thoroddsen hefir verið mjög þarfur Íslandi við brúarbygginguna og haldið duglega fram rétti landsins gagnvart þeim, er tekið hafa að sér brúarsmíðina, og auðvitað vilja sleppa sem ódýrast frá henni.
Ritstjórinn.


Norðurland, 1. okt 1904, 4. árg., 1. tbl., bls. 2:
Sigurður Thoroddsen verkfræðingur lýsir Lagarfljótsbrúnni en hún er nú nýopnuð til umferðar.

Lagarfljótsbrúin
var opnuð til umferðar 21. f. mán. Verkfræðingur Sigurður Thoroddsen lýsir brúnni á þessa leið.
Brúin er byggð á staurum þannig, að með 16 álna millibili eru reknir niður í botninn 2 - sumstaðar 3 - staurar, sem mynda tréstöpla undir brúna, alls eru í henni 29 þannig lagaðir stöplar, en til endanna eru hlaðnir 2 rúmlega 5 álna háir sementeraðir steinstöplar; ofan á stöplana eru lagðir járnbitar eftir endilangri brúnni - tveir í breiddinni -; þvert yfir bitana liggja þvertré með 2 feta millibili og á þessi þvertré er plankagólfið neglt; til beggja handa er 3 feta hátt handriði úr járni. - Lengd allrar brúarinnar er um 480 álnir, en frá báðum steinstöplum ganga upp á land háir vegaspottar (5-6 álna háir þar sem þeir eru hæstir), að norðanverðu um 70 álna langur kafli, að mestu hlaðinn úr grjóti, en að austanverðu allt að því 300 álna langur vegur, hlaðinn úr sniddu mestmegnis og grjóti raðað utan á kantana. Hæð brúarinnar frá gólfi til vatns, eins og það getur orðið allra lægst, er um 6 álnir; en frá hæstu vatnsstöðu, sem menn þekkja dæmi til, og uppundir járnbitana, er um hálft annað fet.
Botninn er mjög linur og blautur - mestmegnis jökulleðja, hefir sumstaðar orðið að reka staurana 40-50 fet niður í botninn til þess að þeir yrðu nægilega fastir.
28 ísbrjótar úr tré eiga að vera uppaf tréstöplunum öllum, nema þeim austasta.
Það er nú verið að hlaða steinstöplana og leggja vegakaflana, gólfið er ekki lagt enn í fullri breidd og handrið að eins komið öðru megin, en búist er við að fullgera það sem eftir er svo - fyrir lok septembermánaðar - að hægt verði að nota brúna til umferðar í vetur. - Ísbrjótarnir verða að bíða næsta sumars flestir, það er nú verið að koma hinum fyrstu fyrir, en það verða varla fleiri búnir í sumar en 4-5 af 28.
Brúin á að geta borið 80 pd. á hverju ferhyrningsfeti af flatarmáli gólfsins. Þar sem nú breidd brúarinnar er 8 fet og lengd ca. 960 fet, getur öll brúin borið 614,400 punda þunga eða rúm 307 ton.


Ísafold, 15. okt 1904, 16.árg., 68. tbl., forsíða:
Ritstjóri Ísafoldar skrifar hér enn eina greinina framgangsleysi amtmanns í brúarmálinu svokallaða sem fjallar um meintar sakir Dalasýslumanns.

Drengileg undanbrögð
Dalavaldsmaður og amtsráðið
Eftir margra missera vafninga og vífilengjur komst svo langt í sumar, að amtsráðið í vesturamtinu skoraði á forseta sinn, amtmanninn, að láta rannsaka alla reikningsfærslu og framkvæmdir sýslumannsins í Dalasýslu í svo nefndu brúarmáli, er þá voru nýlega fram komnar kærur út af frá 2 sýslunefndarmönnum, auk þess sem sýslumaður hafði óhlýðnast þar að lútandi úrskurði amtsráðsins frá í fyrra.
Fæstir munu hafa búist við, að amtmaður mundi leggjast þessa áskorun undir höfuð, þó að Ísafold léti í ljósi nokkurn efa um það, um leið og hún birti áskorunarályktun amtsráðsins (8. júní), með svo feldum orðum:
Nú er eftir að vita, hvað úr þessu verður. Hvort amtmaður þarf nú að sýna skörungsskap sinn á því, að virða vettugi þessa eindregnu áskorun amtsráðsins. Eða þá að valinn verður til að framkvæma rannsóknina einhver handónýtur maður og, rannsóknin fyrir það sama sem ógerð, þótt myndast sé við hana að nafninu til.
Síðan þetta eru nú liðnir rúmir 4 mánuðir og heyrist ekki getið um að sýndur sé neinn litur á slíkri rannsókn, hvorki af almennilegum manni, né handónýtum, fyrir siða sakir.
En annað hefir gert verið.
Hið kærða yfirvald hefir verið látið fara í mál við ritstjóra Ísafoldar út af umtali hennar um kæruna, sem amtsráðið vildi láta gera að opinberu rannsóknarefni.
Ísafold hafði rifjað upp lauslega (28. maí) kæruatriðin gegn Dalavaldsmanninum, eins og þau voru framsett í grein þeirra síra Kjartans prófasts í Hvammi og Torfa skólastjóra í Ólafsdal (21. s. m.).
Þar var því spáð um leið, að gerð mundi alúðar- og atorkumikil tilraun til að hefna sín á þeim síra Kjartani eða Ísafold fyrir að hafa hreyft þessu máli svona afdráttarlaust, - hefna sín með málsókn.
Það er eins og þeir hafi feilað sér við að láta spádóminn rætast undir eins. Þeir láta líða hálft missiri eða svo, og höfða þá mál einmitt gegn Ísafold.
Það er ekkert átt við rannsóknina, sem amtsráðið heimtaði. Það gat farið alla vega fyrir valdsmanninum og alþingismanninum, ef það hefði verið gert, og gert almennilega.
Og það er ekkert átt við að lögsækja þá sem kært höfðu. Þeir voru líklegastir til að geta sannað allt sem í kærunni stendur. Og hvar stóð valdsmaðurinn þá. Hvað varð þá úr flokksverndinni, skilyrði fyrir óbilugu flokksfylgi á þingi?
Hitt er talið helst reynandi, að láta manninn myndast við að lögsækja blaðið, sem kærunni hélt á lofti. Það mundi eiga hægast með sönnunargögn, í fjarska, og hafandi naumast efni á að kosta til jafnvel stórfé, t. d. með vitnaleiðslu fyrir setudómara, er það yrði að kosta. Þann veg kynni að mega klekkja á því, og láta svo heita frammi fyrir almenningi, ef sönnun brysti þótt ekki væri nema í einhverju smáatriði, og einhverri sekt yrði klínt á blaðið þess vegna að þarna hefði maðurinn hreinsað sig. Þar væri svo sem ekkert athugavert. Þar með væri sýnt og sannað, að embættinu þjónaði hann með veg og sóma, árvekni og samviskusemi.
Er það svo sem ekki snjallræði!
Eru ekki líkur til, að með því lagi venjist blöð alveg af að vera nokkurn skapaðan hlut að minnast nokkurn tíma á ávirðingar embættismanna, stórar eða smáar? Getur ekki úr því orðið sama sem vátrygging þeim til handa fyrir öllu grandi, hvernig sem þeir svo haga sér? Ef embættismenn gætu leikið sér að hvaða óhæfu sem er, ef þeir þyrftu aldrei annað að óttast, en að blaðamenn þeir, er dirfðust að minnast á vítavert atferli þeirra, gætu fært fullar sönnur á mál sitt, hversu illt afstöðu sem þeir ættu þar. Þeir þyrftu aldrei að óttast neina rannsókn, eina líklega ráðið til að komast fyrir sannleikann til fullrar hlítar.
Því fylgdu og önnur hlunnindi, sem ekki væri minna í varið, - þau, að alþýða þyrði loks ekki annað en taka með þögn og þolinmæði öllum illum búsifjum í hennar garð af valdmanna hálfu, er því er að skipta.
Víst væri gaman að lifa þá!


Norðurland, 15. okt. 1904, 4. árg., 3. tbl., forsíða:
Hér svarar sýslunefnd Eyfirðinga spurningum ráðuneytisins um helstu framfaramál sýslunnar. Meðal þeirra eru fjölmörg samgöngumál.

Framfaramál Eyfirðinga.
Á fundi sýslunefndar Eyfirðinga, síðastliðið ár, kaus sýslunefndin 5 manna nefnd, til þess að semja fyrir hennar hönd tillögu til stjórnarráðsins um helstu áhugamál sýslunnar í atvinnu og samgöngumálum. Nefndinni var sérstaklega falið að taka til íhugunar eftirfarandi mál:
1. Póstvegur út Kræklingahlíð, er liggi sem næst Hörgárbúnni og um Öxnadal. Vegurinn sé gerður akfær og gistihús reist í Bakkaseli.
2 Brú á Eyjafjarðará á póstleiðinni.
3. Framhald flutningabrautarinnar inn fjörðinn að Saurbæ.
4. Gufubátur á Eyjafirði.
5. Brú á Svarfaðardalsá á aukapóstleið.
6. Ræktunarfélagið og í sambandi við það búnaðarskóli í nánd við gróðrarstöð félagsins.
7. Þilskipaábyrgðarsjóður.
8. Skipakví til vetrarlægis fyrir þilskip.
9. Íshús.
10. Ullarverksmiðja.
11. Veiting Glerár fram af Akureyrarbrekkum.
12. Tígulsteinsgerð og steinsteypuverksmiðja.
Í nefndina voru kosnir: Magnús Sigurðsson kaupmaður á Grund, Stefán Stefánsson kennari, Sigurður Jónasson sýslunefndarmaður á Bakka, Páll Briem amtmaður og Friðrik Kristjánsson kaupmaður.
Nefndin hefir fyrir nokkru lokið starfi sínu og er svar hennar á þessa leið:
Eins og kunnugt er liggur Akureyri við botninn á Eyjafirði, sem er einhver lengsti og fiskisælastur fjörður á landinu. Inn frá Akureyri gengur Eyjafjarðardalurinn og rennur eftir honum, mikið vatnsfall, Eyjafjarðará, en austanvert við Eyjafjörð liggur Vaðlaheiði, einn af hæstu fjallgörðum á landinu, sem póstvegur liggur yfir. Út frá Akureyri liggur mikið land, og skerast upp í fjallgarðinn vestan megin Eyjafjarðar miklir dalir, svo sem Öxnadalur, sem póstvegurinn liggur um, Hörgárdalur og Svarfaðardalur, en utar eru Ólafsfjörður og Siglufjörður. Siglufjörður er einhver besta höfn á landinu og sama er að segja um Eyjafjarðarbotninn við Akureyri. Eyjafjarðarkaupstaður er annar stærsti kaupstaðurinn. Þar eru nú um 1600 manns, en auk þess dvelja þar iðulega 2-400 manns.
Þessir menn hafa sest að á Akureyri, af því að frá náttúrunnar hendi eru skilyrðin þar að mörgu leyti mjög góð. Eins og áður er sagt, er Eyjafjörður einhver fiskisælastur fjörður á landinu og svo eru sveitirnar við fjörðinn einhverjar hinu bestu landbúnaðarsveitir. Frá náttúrunnar hendi er Eyjafjörður ríkulega útbúinn, en að því er snertir almanna ráðstafanir til þess að nota sér auð þann, sem falinn er í skauti náttúrunnar, þá eru þær mjög litlar og óverulegar og er því hin mesta nauðsyn á að farið sé að rétta atvinnuvegunum hjálparhönd.
Það sem þá fyrst og fremst er spurning um, er að geta farið á sem kostnaðar minnstan og greiðastan hátt úr einum stað í annan og komið afurðum landsins á markaðinn og flutt þaðan nauðsynjavörur. En í þessu efni hafa almennar ráðstafanir verið mjög litlar. Það helsta, sem gert hefir verið frá landstjórnarinnar hálfu, er að láta gera akveg frá Akureyri um 2 mílur inn Eyjafjarðardalinn að Grund, að styrkja brúarbyggingu á Hörgá, að byrja á vegi nú í sumar frá Akureyri út yfir Glerá, að veita fé til gistihúss í Bakkaseli og að leggja fé til að gera þjóðveginn í Öxnadal um Akureyri greiðfæran.
Það liggur í hlutarins eðli að meira þarf að gera og það mjög bráðlega.
Í raun réttri þarf að gera allan þjóðveginn akfæran. Það þarf að stefna að því, að geta komist um landið á hraðskreiðum vögnum, mótorvögnum, en fyrst þarf að gera akveg og brúa ár í allra fjölbyggðustu héruðum landsins. Þess vegna er það hin mesta nauðsyn að halda áfram veginum út frá Akureyri fram hjá Hörgárbrú áleiðis til Öxnadals. Fyrri en sá vegur kemur getur búnaður í Kræklingahlíð og úthluta Hörgárdals varla blómgast að mun. Sérstaklega mundi vegur þessi greiða mjög fyrir flutningum frá og til rjómabús þess, sem afráðið er að koma á fót næsta vor í nánd við Hörgárbú og að því leyti styðja að eflingu þess og arðsemi. En reynslan er þegar fengin fyrir því hér á landi að góð rjómabú bæta hag sveitabænda að miklum mun.
Þá er hin mesta nauðsyn á að brúa Eyjafjarðará. Þessi á er ófær nema á ferju á vorin og langt fram á sumar og meðan hún er óbrúuð, geta bændur austan árinnar eigi notað vagna til flutninga, sem þó er margfalt kostnaðarminna en að flytja á reiðingshestum. Auk þess verður fé á haustin fyrir miklum hrakningum í ánni, þegar það er rekið til slátrunar á Akureyri eða til útflutnings.
Akbrautin inn Eyjafjörð þarf að halda áfram inn að Saurbæ. Bændur þurfa að fá akfæra vegi, og hér er um fjölbyggt hérað að ræða, sem mundi hafa hin mestu not af akvegi. Akbrautin nær nú að Grund, en frá Grund að Saurbæ eru 4012 faðmar; á þessari leið eru tvær þverár, sem mundi mega brúa fyrir 1.500 kr. og að öðru leyti má ætla að eigi þyrfti til að gera veginn meira en 10.500 kr. eða alls til þessa vegar um 12.000 kr.
Vegurinn frá Akureyri framhjá Hörgárbrú að Laugalandi á Þelamörk mun kosta um 20.000 kr. og þaðan að Bægisá um 10.000 kr.
Eyjafjarðará er á póstleiðinni um 30 faðma á breidd, en að öllum líkindum má setja stöpla í ána.
Í Svarfaðardal er hin mesta nauðsyn á að brúa Svarfaðardalsá á aukapóstleið. Á þessi rennur eftir dalnum og er hún mesti farar- og flutningstálmi.


Ísafold, 22. okt. 1904, 16.árg., 69. tbl., forsíða:
Hér er nýju Lagarfljótsbrúnni lýst nokkuð nákvæmlega.

Lagarfljótsbrúin.
Við hana var lokið nokkurn veginn í f. m., loksins, og hún opnuð til umferðar 21. f. mán.
Það er langlengsta brúin á landinu, 480 álnir. Ölfusárbrúin er 180 álnir alls (þó að eins 120 yfir sjálfa ána), og Þjórsárbrúin hér um bil eins, - hafið yfir sjálfa ána þar 128 álnir.
Brúarendarnir liggja á rúmlega 5 álna háum steinstöplum límdum.
Frá þeim liggja langir upphlaðnir vegarspottar niður á jafnsléttu, 5-6 álna háir mest, 70 álna langur sá að norðanverðu við fljótið, og hinn eigi skemmri en 300 álnir. Nyrðri vegarspottinn er hlaðinn úr grjóti að mestu, en hinn úr sniddu.
Undir brúna eru 6 álnir frá lægsta vatnsborði, en 18 þml. að eins frá því, sem fljótið verður mest í vatnavöxtum.
Brúin er 4 álnir á breidd, eins og brúin á Ölfusá. Breiddin á Þjórsárbrúnni er 5½ alin.
Þetta er fastabrú, en ekki hengibrú, eins og þær á Þjórsá og Ölfusá, og undir henni 29 tréstólpar með 16 álna millibili. Í hverjum tréstólpi eru 2-3 staurar, sem reknir eru niður í fljótsbotninn, eigi skemur en 20-25 álnir sumstaðar; svo er mikil leðjan í botninum, mest jökulleðja.
Ofan á þessa stólpa eru lagðir járnbitar eftir endilangri brúnni, 2 í breiddina, og þar ofan á þvertré með 1 álnar millibili; á þau þvertré er sjálft gólfið lagt, úr plönkum.
Handrið úr járni eiga að vera með fram brúnni beggja vegna, 1½ álnar há.
Ekki var komið upp nema annað handriðið, er brúin var opnuð til umferðar, og gólfið ekki lagt í fullri breidd, enda hvorki steinstöplarnir við brúarendana fullgerðir né vegarkaflarnir upp frá þeim.
Til hlífðar tréstólpunum í ísreki eiga að vera ísbrjótar svo nefndir upp frá þeim, 28 að tölu. En þeir koma fæstir fyr en að sumri, hvernig sem á því stendur; að eins 4-5 búist við að komið verði fyrir í haust.
Þá má landssjóður biðja um góðan vetur. Ella við búið, að ísrek fari með brúna þá þegar vegar allra veraldar. En því má hann illa við, slík ógrynni fjár sem brú þessi hefir þegar kostað, fyrir hin og þessi óhöpp, eða þá handvömm brúarsmiðanna meðfram.


Norðurland, 19. nóv 1904, 4. árg., 8. tbl., bls. 30:
Mörg að helstu framfaramálum Húnvetninga lúta að samgöngumálum.

Framfaramál Húnvetninga.
Tillögur sýslunefndar til landsstjórnarinnar.
Blönduóssbryggja.
Eins og kunnugt er, var fyrir allmörgum árum byggð bryggja af landssjóðs- og sýslufé nokkuru fyrir utan ána Blöndu. Bryggja þessi hefir komið alloft að notum, þegar eigi hefir verið hægt að lenda annarsstaðar hér fyrir brimi, en þó hafa notin eigi verið fullnægjandi, þar sem bryggjan er eigi nógu löng til þess hægt sé að lenda við hana um fjöru, þegar illt er í sjóinn og svo einnig þess vegna, að hún liggur nokkurn veg frá kauptúninu og slæmur vegur að henni.
Til þess því að bryggjan á Blönduósi gæti orðið fullnægjandi eða öruggur lendingarstaður og yfir höfuð komið að góðu gagni fyrir kauptúnið og héruð þau, er að því liggja, virtist sýslunefndinni nauðsynlegt að lengja hana að miklum mun og síðan leggja veg frá henni til kauptúnsins Blönduóss, sem óefað um langan aldur hlýtur að verða aðalkaupstaður sýslunnar, og því afarnauðsynlegt, að hann sé ekki hafður útundan, að því er skipaferðir snertir, en það mun hann verða meðan engin trygg lending er nálægt honum.
Flutningabraut vestur Húnavatnssýslu.
Flutningabraut er, með lögum 13. apríl 1894, ákveðin af Blönduósi vestur Húnavatnssýslu og væntir sýslunefndin að sýslan verði ekki útundan að því er lagningu slíkrar brautar snertir og er það því nauðsynlegra að fá góða vegi - helst akvegi - úr nefndu kauptúni og vestur sýsluna, þar sem ætla má, að bráðlega verði sett á stofn rjómabú í Vatnsdal. Sérstaklega skal það tekið fram, að þar sem stefna hinnar væntanlegu flutningabrautar og þjóðvegarins mun falla saman, væri til mikilla bóta og nauðsynlegt að ár þær, Laxá, Skriðuvað, Gljúfurá o. fl., er á veginum eru, yrðu brúaðar sem allra fyrst. - Þá álítur sýslunefndin einnig æskilegt, að vegur væri lagður af flutningabrautinni fyrir vestan Sporð til Hvammstanga, með því kauptún þetta er í talsverðri framför og sækir þangað yfirborð af mönnum í Víðidal og Vesturhópi.
Póstvegur um Langadal.
Í hitt eð fyrra var byrjað á því að leggja póstveginn í gegn um Langadal. Er vegur sá ekki langt kominn, en óhjákvæmilegt að honum sé sem fyrst lokið fram að Geitaskarði, með því stefnu hans var breytt, svo nú endar hann í vegleysu, en ekki hægt að nota hinn gamla veg, hvorki vetur né vor.
Vegur fram Miðfjörð.
Með því Miðfjörður er allfjölmennt hérað, sem búast má við að eigi góða framtíð fyrir höndum, að því er búnað snertir, þykir sýslunefndinni nauðsynlegt að vegur yrði lagður af flutningabrautinni fram Miðfjörðinn.
Svifferja á Blöndu.
Eins og kunnugt er, er brúin á Blöndu útundir sjó, en slæm eða engin vöð á þeirri á þaðan og fram til fjalla. Væri það því hin besta samgöngubót fyrir fremri hluta Húnavatnssýslu, ef svifferju yrði komið á hjá Tungunesi. Er það því ósk sýslunefndarinnar að verkfræðingur landsins yrði látinn skoða téð svifferjustæði og ef honum þætti tiltækilegt að koma ferjunni á, að styrkur fengist til þess af opinberu fé.


Þjóðólfur, 2. desember 1904, 56. árg., 51. tbl., bls. 202:
Úr Norður-Þingeyjarsýslu eru sagðar fréttir af brúargerð á Jökulsá í Axarfirði.

Úr Norður-Þingeyjarsýslu (Axarfirði) er ritað 18. okt:
“Nú fara Jökulstöplakarlar til Húsavíkur í dag; hættu vinnu í gær, en búnir að miklu leyti með stöplana fjóra, tvo hvoru megin, og brúarsporð alveg að austan, og mikið af þeim að vestan, þó vantar líklega um 200 tunnur af steinlími. Mjög vel hefur starf þetta gengið, síðan Steinþór steinsmiður Björnsson Mývetningur tók við allri stjórn, og hefur hann sérstakt lag, sem fáum er lagið á stjórn og aga, svo að allir stöplamenn elskuðu hann og virtu, og verkið gekk greiðlega úr hendi allan tímann. En allt gekk áður í handaskolum hjá Jónasi nokkrum Jónssyni Rangæing, svo að hann varð að hætta allri stjórn um miðjan júlímánuð, en þá vildi til happs, að Steinþór steinsmiður kom og tók við öllu. 29. ágúst komst allt efni í brúna hér að Araósi á Staðarreka í Axarfirði með s/s Mjölni (skipstj. Endresen) og tókst ágætlega með uppskipun þann dag, alla nóttina eftir og fram um dagmál 30., og var mikið lægni og dugnaði Steinþórs Björnssonar að þakka, því að þegar um hádegi gerði ófært brim við alla Reka, og hélst það um hálfan mánuð þar eftir, og eins var á undan. Tókst þessi uppskipun, eins og annað við þessa brúargerð, frábærlega vel, því hvergi er eins hægt að koma brúarefninu frá í vetur í ækjum og einmitt þarna í Araósi. Var brúarefnið alls 600 smálestir (tons) er á Rekann kom, og eiga Axfirðingar að aka því öllu í vetur upp í Ferjuhraun hjá brúarstæðinu”.