1903

Þjóðólfur, 20. mars 1903, 55. árg., aukablað nr. 2, forsíða:

Gistihús á Lækjarbotnum.
Fyrir alla ferðamenn, er Hellisheiðarveginn fara suður og sunnan – en það mun vera langfjölfarnasti vegur á landinu – er Kolviðarhóll nauðsynlegur áfanga- og gististaður, eins og allir vita. Án gistihúss þar, væri illfært eða ófært á vetrardag þessa leið, og þótt ekki sé nema 10-20 ár síðan viðunanlegur gististaður varð á Hólnum, og menn yrðu áður að sætta sig við lítinn, ónýtan og óbyggðan sæluhúskofa, þá var það í sjálfu sér óhæfilegt fyrirkomulag. En þá voru það mest lausgangandi menn, er þennan veg fóru á vetrum, því að vetrarferðir með áburðarhesta, voru þá mjög fátíðar, en nú mjög almennar síðan gistihús kom á Hólinn. Og þess má einnig geta, að ferðamenn láta mjög vel yfir öllum viðtökum hjá ábúandanum hr. Guðna Þorbergssyni, sem hefur áunnið sér almenna hylli og með miklum ötulleik og dugnaði staðið mæta vel í hinni erfiðu og ónæðissömu stöðu sinni, því að það er ekki á allra færi, að veita gistihúsinu þar forstöðu, jafnmikið umstang sem því er samfara, jafnhliða því að fullnægja öllum sanngjörnum kröfum ferðamanna. En með því að vetrarferðir með hesta austan yfir fjall hingað suður eru svo mjög farnar að aukast, hafa menn fundið til þess betur og betur, að brýn þörf væri á öðru gistihúsi nær Reykjavík, en Kolviðarhóll er, því að vegalengdin milli þessara staða er um 30-40 kílómetrar eða 6-8 kl.tíma ferð með lest á sumardag, og á vetrardag að jafnaði miklu meira, en hvergi á þeirri leið neinn gistingarstaður fyrir ferðamenn, nema lítilsháttar í Árbæ rétt fyrir ofan Elliðaárnar, og má þó geta nærri, að bóndinn þar getur ekki nema af mjög skornum skammti veitt ferðamönnum þann greiða, er þeir þarfnast, allra síst að því er húsrúm eða húsaskjól snertir fyrir menn og skepnur, enda liggur engin skylda á honum til þess. Á Lækjarbotnum, hér um bil miðja vegu millum Kolviðarhóls og Reykjavíkur, hafa nokkrir ferðamenn reyndar getað fengið gistingu, en húsrúm er þar bæði lítið, illt og óþægilegt, svo að bóndinn þar getur ekki, hversu feginn sem hann vildi, fullnægt neinum þeim kröfum, er til gistihúss verður að gera. Kvartanir ferðamanna um vöntun gistihúss milli Kolviðarhóls og Reykjavíkur verða því dag frá degi háværari. Það virðist því bera brýna nauðsyn til, að á þessu verði bót ráðin sem allra fyrst, með því að reisa allviðunanlegt gistihús á Lækjarbotnum eða öllu heldur við Hólmsá nálægt brúnni, svo að þeir sem Mosfellsheiði fara gætu einnig haft not þess, er þeir gætu síður haft, ef það væri heima á Lækjarbotnum, með því að það væri of mikið úr leið fyrir þá. Gistihús þetta ætti landsjóður að reisa með einhverjum styrk sýslujóðanna í Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum. Þykir sennilegt, að sýslunefndir þessar hreyfi málinu til undirbúnings undir næsta alþingi, því að eftir undirtektum og tillögum sýslunefndanna fer það mikið, hvernig þingið mundi taka í það. Þetta er nauðsynjamál, sem fyrnefnd sýslufélög ættu að hrinda áleiðis, því að taki þau vel í málið er ólíklegt, að þingið snerist illa við jafn sanngjarnri og réttmætri beiðni. Það er varið fé úr landsjóði til ýmiskonar meiri óþarfa en þess, að veita hlýindi, hvíld og þægindi köldum og þreyttum ferðamönnum, er í ófærð og vetrarhörkum verða að brjótast sér til bjargar langa, erfiða og hættulega leið yfir fjöll og firnindi.


Þjóðólfur, 20. mars 1903, 55. árg., aukablað nr. 2, forsíða:

Gistihús á Lækjarbotnum.
Fyrir alla ferðamenn, er Hellisheiðarveginn fara suður og sunnan – en það mun vera langfjölfarnasti vegur á landinu – er Kolviðarhóll nauðsynlegur áfanga- og gististaður, eins og allir vita. Án gistihúss þar, væri illfært eða ófært á vetrardag þessa leið, og þótt ekki sé nema 10-20 ár síðan viðunanlegur gististaður varð á Hólnum, og menn yrðu áður að sætta sig við lítinn, ónýtan og óbyggðan sæluhúskofa, þá var það í sjálfu sér óhæfilegt fyrirkomulag. En þá voru það mest lausgangandi menn, er þennan veg fóru á vetrum, því að vetrarferðir með áburðarhesta, voru þá mjög fátíðar, en nú mjög almennar síðan gistihús kom á Hólinn. Og þess má einnig geta, að ferðamenn láta mjög vel yfir öllum viðtökum hjá ábúandanum hr. Guðna Þorbergssyni, sem hefur áunnið sér almenna hylli og með miklum ötulleik og dugnaði staðið mæta vel í hinni erfiðu og ónæðissömu stöðu sinni, því að það er ekki á allra færi, að veita gistihúsinu þar forstöðu, jafnmikið umstang sem því er samfara, jafnhliða því að fullnægja öllum sanngjörnum kröfum ferðamanna. En með því að vetrarferðir með hesta austan yfir fjall hingað suður eru svo mjög farnar að aukast, hafa menn fundið til þess betur og betur, að brýn þörf væri á öðru gistihúsi nær Reykjavík, en Kolviðarhóll er, því að vegalengdin milli þessara staða er um 30-40 kílómetrar eða 6-8 kl.tíma ferð með lest á sumardag, og á vetrardag að jafnaði miklu meira, en hvergi á þeirri leið neinn gistingarstaður fyrir ferðamenn, nema lítilsháttar í Árbæ rétt fyrir ofan Elliðaárnar, og má þó geta nærri, að bóndinn þar getur ekki nema af mjög skornum skammti veitt ferðamönnum þann greiða, er þeir þarfnast, allra síst að því er húsrúm eða húsaskjól snertir fyrir menn og skepnur, enda liggur engin skylda á honum til þess. Á Lækjarbotnum, hér um bil miðja vegu millum Kolviðarhóls og Reykjavíkur, hafa nokkrir ferðamenn reyndar getað fengið gistingu, en húsrúm er þar bæði lítið, illt og óþægilegt, svo að bóndinn þar getur ekki, hversu feginn sem hann vildi, fullnægt neinum þeim kröfum, er til gistihúss verður að gera. Kvartanir ferðamanna um vöntun gistihúss milli Kolviðarhóls og Reykjavíkur verða því dag frá degi háværari. Það virðist því bera brýna nauðsyn til, að á þessu verði bót ráðin sem allra fyrst, með því að reisa allviðunanlegt gistihús á Lækjarbotnum eða öllu heldur við Hólmsá nálægt brúnni, svo að þeir sem Mosfellsheiði fara gætu einnig haft not þess, er þeir gætu síður haft, ef það væri heima á Lækjarbotnum, með því að það væri of mikið úr leið fyrir þá. Gistihús þetta ætti landsjóður að reisa með einhverjum styrk sýslujóðanna í Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum. Þykir sennilegt, að sýslunefndir þessar hreyfi málinu til undirbúnings undir næsta alþingi, því að eftir undirtektum og tillögum sýslunefndanna fer það mikið, hvernig þingið mundi taka í það. Þetta er nauðsynjamál, sem fyrnefnd sýslufélög ættu að hrinda áleiðis, því að taki þau vel í málið er ólíklegt, að þingið snerist illa við jafn sanngjarnri og réttmætri beiðni. Það er varið fé úr landsjóði til ýmiskonar meiri óþarfa en þess, að veita hlýindi, hvíld og þægindi köldum og þreyttum ferðamönnum, er í ófærð og vetrarhörkum verða að brjótast sér til bjargar langa, erfiða og hættulega leið yfir fjöll og firnindi.