1903

Ísafold, 19. ágúst 1903, 30. árg., 54. tbl., bls. 213:

Lagarfljótsbrúin.
Af því að hugsanlegt er, að einhver, sem ekki þekkir til, kynni að leggja trúnað á orð Tryggva Gunnarssonar, þau er hann bar fram á þingi nýlega, er rætt var um Lagarfljótsbrúna, álít eg réttara að svara þeim nokkru.
Hann sagði meðal annars, að það hefði alls ekki þurft að hætta við brúarsmíðina sumarið 1901, það hefði mátt halda áfram með því efni, sem til var, og skeyta staurana saman, svo að þeir hefðu orðið nógu langir. Það er undarlegt, að maðurinn skuli hafa þrek og dirfsku til þess að halda slíku fram, þegar hvað eftir annað er búið að sýna honum fram á, að slíkt var ómögulegt og margbúið að reka ofan í hann þessa hans staðhæfingu; það virðist vera meira af vilja en mætti gert af bankastjóranum, þeim einlæga vilja, að reyna til þess að gera mig tortryggilegan í augum þingmanna og almennings, hugsandi sem svo, að einhverjir trúi þó, ef bara er staglast nógu oft á því sama.
Eg skrifaði þinginu í fyrra um Lagarfljótsbrúarmálið, og sýndi fram á, að ómögulegt var annað en láta hætta vinnunni sumarið 1901; Það þurfti – sökum þess, hve fljótsbotninn var blautur og mjúkur – að reka staurana miklu lengra niður en hinn norski ingeniör hafði gert ráð fyrir, þess vegna þurftu staurarnir annaðhvort að vera miklu lengri eða það þurfti að skeyta þá saman, svo að þeir yrði nógu langir, en til þessa þurfti að nota heilmikið af galvaníseruðum járnplötum og boltum, af vissri þykkt og lengd, en það var auðvitað ekki til á staðnum, því að menn höfðu ekki búist við að skeyta þyrfti saman staurana. Slíkar plötur hefðu aðeins getað fengist frá útlöndum og eigi getað komið að brúarstæðinu fyr en undir haust í fyrsta lagi.
Þingið í fyrra féllst og á það, að óhjákvæmilegt hefði verið að stöðva verkið þegar svona stóð á, svo að Tryggvi stendur sjálfsagt einn upp með það af þingmönnum, að hægt hefði verið að halda áfram verkinu, eins og hann líka stendur einn uppi með það, að heppilegra sé að hafa brúna á Steinsvaði en Einhleypingi, enda heldur hann hvorttveggja fram einungis af ástæðum, sem þeir, er þekkja hugarþel hans til mín, munu ráða í.
Eins og mörgum nú orðið mun kunnugt, liggur aðalorsökin til þess að svo skrykkjótt hefir gengið með Lagarfljótsbrúna, í undirbúningi málsins, rannsókn brúarstæðisins; hinn norski ingeniör gerði ráð fyrir að botninn væri fastari en hann reyndist vera, og hann hélt að fljótið yrði ekki svo mikið í vöxtum, eins og það í raun og veru gat orðið, - þess vegna var í fyrra, eftir uppástungu minni, ákveðið að reka staurana mikið lengra niður í botninn, ennfremur að hækka brúna talsvert og lengja hana um c. 80 álnir.
Að öðru leyti vil eg benda þeim, er vildu kynna sér þetta mál, á þingskjölin frá í fyrra, og sérstaklega á bréf mitt til Alþingi dags. 15. ág. 1902 (sjá alþingistíðindi 1902, þingskjöl 3. hefti, þingskjal nr. 161).
Reykjavík 17. ág. 1903.
Sig. Thoroddsen.


Ísafold, 19. ágúst 1903, 30. árg., 54. tbl., bls. 213:

Lagarfljótsbrúin.
Af því að hugsanlegt er, að einhver, sem ekki þekkir til, kynni að leggja trúnað á orð Tryggva Gunnarssonar, þau er hann bar fram á þingi nýlega, er rætt var um Lagarfljótsbrúna, álít eg réttara að svara þeim nokkru.
Hann sagði meðal annars, að það hefði alls ekki þurft að hætta við brúarsmíðina sumarið 1901, það hefði mátt halda áfram með því efni, sem til var, og skeyta staurana saman, svo að þeir hefðu orðið nógu langir. Það er undarlegt, að maðurinn skuli hafa þrek og dirfsku til þess að halda slíku fram, þegar hvað eftir annað er búið að sýna honum fram á, að slíkt var ómögulegt og margbúið að reka ofan í hann þessa hans staðhæfingu; það virðist vera meira af vilja en mætti gert af bankastjóranum, þeim einlæga vilja, að reyna til þess að gera mig tortryggilegan í augum þingmanna og almennings, hugsandi sem svo, að einhverjir trúi þó, ef bara er staglast nógu oft á því sama.
Eg skrifaði þinginu í fyrra um Lagarfljótsbrúarmálið, og sýndi fram á, að ómögulegt var annað en láta hætta vinnunni sumarið 1901; Það þurfti – sökum þess, hve fljótsbotninn var blautur og mjúkur – að reka staurana miklu lengra niður en hinn norski ingeniör hafði gert ráð fyrir, þess vegna þurftu staurarnir annaðhvort að vera miklu lengri eða það þurfti að skeyta þá saman, svo að þeir yrði nógu langir, en til þessa þurfti að nota heilmikið af galvaníseruðum járnplötum og boltum, af vissri þykkt og lengd, en það var auðvitað ekki til á staðnum, því að menn höfðu ekki búist við að skeyta þyrfti saman staurana. Slíkar plötur hefðu aðeins getað fengist frá útlöndum og eigi getað komið að brúarstæðinu fyr en undir haust í fyrsta lagi.
Þingið í fyrra féllst og á það, að óhjákvæmilegt hefði verið að stöðva verkið þegar svona stóð á, svo að Tryggvi stendur sjálfsagt einn upp með það af þingmönnum, að hægt hefði verið að halda áfram verkinu, eins og hann líka stendur einn uppi með það, að heppilegra sé að hafa brúna á Steinsvaði en Einhleypingi, enda heldur hann hvorttveggja fram einungis af ástæðum, sem þeir, er þekkja hugarþel hans til mín, munu ráða í.
Eins og mörgum nú orðið mun kunnugt, liggur aðalorsökin til þess að svo skrykkjótt hefir gengið með Lagarfljótsbrúna, í undirbúningi málsins, rannsókn brúarstæðisins; hinn norski ingeniör gerði ráð fyrir að botninn væri fastari en hann reyndist vera, og hann hélt að fljótið yrði ekki svo mikið í vöxtum, eins og það í raun og veru gat orðið, - þess vegna var í fyrra, eftir uppástungu minni, ákveðið að reka staurana mikið lengra niður í botninn, ennfremur að hækka brúna talsvert og lengja hana um c. 80 álnir.
Að öðru leyti vil eg benda þeim, er vildu kynna sér þetta mál, á þingskjölin frá í fyrra, og sérstaklega á bréf mitt til Alþingi dags. 15. ág. 1902 (sjá alþingistíðindi 1902, þingskjöl 3. hefti, þingskjal nr. 161).
Reykjavík 17. ág. 1903.
Sig. Thoroddsen.