1901

Tenging í allt blaðaefni ársins 1901

Austri, 19. janúar, 1901, 11. árg., 2. tbl., bls. 6:
Í fréttabréfi úr Eyjafirði er sagt frá nýju akbrautinni og Hörgárbrúnni.

Úr Eyjafirði 18. des. 1900.

Eyfirðingar hafa nú fengið akbrautina alla leið frá Akureyri inn að Stokkahlöðum, enda munu nú gengin til hennar fullar 26 þúsundir króna, og er þó vegurinn ekki langur, en góður er hann yfirferðar og regluleg sveitarprýði. – Hörgárbrúin varð ekki fullgerð í haust, eins og ætlast var til sökum sífellds vaxtar í Hörgá, er orsakaðist af stöðugum rigningum suður á fjöllum. En nú er brúin komin svo langt á leið, að búist er við að hún fullgerð í júní næsta sumar. Mun margur verða brúnni feginn. því oft er Hörgá ill yfirferðar og hættuleg og hefur oft orðið mönnum og skepnum að bana.


Austri, 31. janúar, 1901, 11. árg., 4. tbl., bls. 12:
Hér birtist svar til skoðunarmanna sýsluvega Breiðdalshrepps, en upphaf þessara bréfaskipta er að finna í frétt af störfum sýslunefndar sem birtist í Austra í 24. tbl. 1900.

Svar til skoðunarmanna sýsluvega Breiðdalshrepps.
í nr. 31 Austra 1900 stendur “áskorun” frá mönnum þeim í Breiðdalshreppi, er sýslunefnd Suður-Múlasýslu fól að gera álit á sýsluveginn þar. Þessir menn skora á nefndina “að færa opinberlega ástæður” fyrir þeim ummælum sínum, að þeir “hafi algerlega misskilið hlutverk sitt” (Sbr. niðurlag fundargerðar nefndarinnar, nr. 24 Austra s.á.)
Þessi ummæli nefndarinnar verða ekki tekin aftur af mér. Hinar opinberu ástæður, sem þessir menn krefjast standa skrifaðar eftir þá sjálfa í álitsgerð þeirra yfir veginn, og á þeim byggði nefndin ummæli sín, þegar hún bar saman álitsgerðir úr öðrum hreppum sýslunnar. Að fara opinberlega að auglýsa þessar ástæður tel ég óþarfa, og ekki gott fyrir mennina sjálfa né heldur skemmtun fyrir almenning að lesa þær.
Það virðist eins og það hafi móðgað mennina jafn mikið, að oddviti sýslunefndarinnar borgaði þeim “ummælalaust”. Ástæður fyrir því eru þær, að oddvitinn, Axel sýslumaður, er háttprúður og kurteis maður, að hann mundi síst fara að ávíta mennina um leið og hann borgaði þeim, enda var það gert eftir tillögu nefndarinnar, sem áleit réttara að viðhafa ekki smámunasemi í þessu efni, þótt álitsgerðin yfir veginn væri ekki vel af hendi leyst.
Þetta keyri, að mönnunum hafi verið borgað ummælalaust, sem átti að vera á sýslunefndina, hittir þá sjálfa.
Eiðum 14. jan. 1901.
Í sýslunefnd Suður-Múlasýslu
Jónas Eiríksson


Austri, 23. febrúar 1901, 11. árg., 7 tbl., bls. 20:
Hér birtist fréttabréf frá Eskifirði þar sem talað er m.a. um Fagradalsveginn og Austra hrósað fyrir einarðlega afstöðu með veginum.

Fréttabréf frá Eskifirði.
Eskifirði, 8. febr. 1901.
Kæri Austri!
Héðan er fátt í fréttum að skrifa. Gamla öldin skildi við okkur með blíðu og það sem af er nýju öldinni hefur að einstöku frostdögum sýnt sama viðmótið.
Hér á Eskifirði var 2. janúar haldin aldamótahátíð og tóku þátt í henni c. 80 manns, var þar snætt og síðan dansað og sungið, en ræður haldnar bæði yfir borðum og eftir. Talað var fyrir gömlu öldinni og mörgu öðru, og getur þú ímyndað þér að Fagradal ekki hafi verið gleymt, sem hins einasta vegastæðis milli Fjarða og Héraðs, sem af náttúrunnar hendi væri hentugt, þar sem hann er upp úr snjó þrisvar sinnum eins lengi og nokkur önnur leið milli Fjarða og Héraðs á Austurlandi, og að auk liggur til miðpunkts Héraðsins frá stærsta, fólksflesta og langfiskisælasta firði austanlands, Reyðarfirði, hvað ritsíminn óefað kemur á land, ef hann eigi verður lagður beint til Reykjavíkur.
Guðmundur Hávarðsson kom hér um helgina og lét hann vel af akstrinum með brúarefnið og segir Fagradal alveg sem byggð.
Um daginn kom maður ofan Fagradal og annar Þórdalsheiði ofan í Reyðarfjörð sama dag, var þá dalurinn allur auður eins og á sumardag, en heiðin sem þó er miklu lægri en Eskifjarðarheiði, svo ég tali ekki um hæstu leiðina, Fjarðarheiði, og var þá nærri ófær vegna snjóþyngsla. Ég hefði hugsað mér að þessar fréttir gætu “interesserað” lesendur Austra, því þær sýna, að meðmæli Austra með Fagradal ekki eru gripin úr lausu lofti, en eru byggð á góðum rökum og átt þú, kæri Austri, góða þökk fyrir hve einarðlega þú hefur tekið málstað Fagradals, sannleikans vegna, gegn hreppapólitík Garðarsgagnsins.


Austri, 23. febrúar 1901, 11. árg., 7 tbl., bls. 20:
Fyrirhugaður vegur frá Héraði til Fjarða er eðlilega mikið áhugamál Austfirðinga en talsvert er deilt um hvort heppilegra sé að fara Fjarðarheiði eða Fagradal.

Til Bjarka-Harðar.
9. tölublað Bjarka, þ.á. flytur greinarstúf með fyrirsögninni: “Sjávargata Fljótsdalshéraðs” eftir höfund þann, er “Hörður” nefnist.
Bjarka-“Hörður” þessi þvær hendur sínar ekki sjaldnar en tvisvar, fyrir þá sök að hann skrifi af sannfæringu. Eins og að þeir er áður hafa skrifað um mál þetta, hafi ekki skrifað af sannfæringu, og svo að honum skuli þykja þörf að skyra frá þessu um sjálfan sig; að láta sér detta í hug, að bera þetta á borð fyrir lesendurnar, láta ekki ástæður þær, er hann hefur að færa fyrir málinu nægja! Þó er þessi sannfæring ekki svo djörf, að hún þori að birta hið sanna heiti íbúðar sinnar.
Mál þetta – akbraut til Héraðs – er svo umfangsmikið, að það gengur fífldirfsku næst, að ætla sér að leiða saman tvo andstæða flokka, til einnar og sömu skoðunar, með örstuttri grein, sem þá er svo blá á görnum af ástæðum, sem þessi er, eða kringilegum ástæðum eins og t.d. þeirri; “þess hærra sem brautin liggur eða meira áveðurs, því síður skeflir á hana.” Hvað á höf. hér við? Hærra yfir sjávarflöt, eða þræða hæstu hryggi og hlaða jafnt við dældir?
Bjarka-“Herði” þessum hefur máske aldrei veist það að sjá, að oft er það, að snjór fellur á fjöll, en á sama tíma rignir í byggð. Hæðarmunur á Fjarðarheiði og Fagradal er svo fjarska mikill, að það er mjög oft, að á heiðinni fellur snjór, þá regn fellur á sama tíma í dalnum. Og þá mætti fræða hann um það, að góður þeyr getur verið í dalnum, þá lítið eða ekkert þiðnar á heiðinni, sem stafar af hæðarmuninum yfir sjávarflöt. Enda hefur dalurinn í vetur verið sjólaus, en á Fjarðarheiði eru flestar vörðunar í kafi af snjó.
Vegfróður þykir mér Bjarka-“Hörður” vera að honum skuli kunnugt, að ódýrri verði braut til Seyðisfjarðar en Reyðarfjarðar. Það er þá eftir hans þekkingu, auðveldara að leggja veg þar sem yfir hvert hamrabeltið er að fara eftir annað, en um mjög mishæða lítið land, þar sem efni vegarins er allsstaðar við hendina.
Þá reiknast höf. að 1912 verði akbraut um Fagradal fullgerð, en því reiknar hann ekki eftir sömu reglu hvenær hún yrði fullgerð á Fjarðarheiði? Villti það ekki nógu mikið?
Ókunnugt er mér um það, að Norðmýlingar flestir vilji akbraut um Fjarðarheiði. Það er víst flestum kunnugt er til þekkja, að það er einungis kappsmál Seyðisfjarðarborgar. Héraðsmenn láta sig skipta hverja leið akbrautin liggur. Þeir ætla það vegfræðinganna, að segja hvar hún skuli lögð. Ég óttast ekkert í þessu máli, annað en það, að ófyrirleitnum og óhlutvöndum mönnum takast að hafa áhrif á vegfræðinganna til hins verra. Þessar blaðagreinar meira til að villa, en færa til sanns vegar, og það frá jafn nærsýnum náunga sem þessum Bjarka-“Herði”, er auðsjáanlega gengur út frá því, að Héraðsmenn venji eins komur sínar til sjávarins, eftir það að akbraut er lögð til Héraðs, sem hingað til. Það getur hann verið viss um að ekki verður, því þó ekki væri nema það, þá er ódýrara fyrir fáa en marga, að annast um flutning til Héraðs og mætti eins og er, og myndi verða, innan fárra ára, ef akbraut kæmi ekki.
Jafnskjótt og akbraut er lögð myndast kauptún við Lagarfljótsbrúna og þangað sækja flestir Hérðasbúar nauðsynjar sínar, svo þeir mundu fara á mis við þá miklu menningu, er þeir hefðu af að kynnast Seyðisfjarðarborgarbúum, sem höf. telur svo þýðingarmikla.
Loks vil ég benda Bjarka-“Herði” á það, að í máli þessu þarf ekki svo mjög að byggja á þeim grundvelli, að einhverjir verði að líða, nei, því fer fjarri. Allar hinar framsýnni, er til þess máls þekkja, hafa þá trú, að Fljótsdalshérað, Reyðarfjörður og Seyðisfjörður blómgist hver á sinn hátt, sé þeirra framsókn ekki heft af andlegum brekkusniglum; og af því Bjarka-“Hörð” hefur víst ekki einu sinni órað fyrir þeirri blómgun Seyðisfjarðar, sem mörgum hinum framsýnni dylst ekki, þá er ekki úr vegi að geta þess við hann, að Seyðisfjörður er þannig af guði gerður, að hann á, á sinni hátt, end fegursta framtíð, af þessum þrem byggðarlögum, en hans lán býr í honum sjálfum.
Um fleira vil ég ekki fræða, þennan Bjarka-“Hörð”, og mun heldur ekki mæla til hans síðar og geld honum líku líkt hvað nafn mitt snertir.
Ritað á Heitdag Eyfirðinga 1901.
Fjallabúi.


Fjallkonan, 26. apríl, 1901, 18. árg., 16. tbl., bls. 2:
Frétt um sýslufund Árnesinga en þar voru vegamál fyrst á dagskrá.

Sýslufundur Árnesinga.
Þar voru þessi helst mál:
Samgöngumál. Ítrekuð beiðni um fé til Sogsbrúar, og heitið framlögum viðlíka og fyrr eða meiri. Beðið um að landssjóður taki að sér brúargæsluna, en til vara að brúarlánið, það eftir er, verði gefið eftir. (Sýslubúar vilja nefnilega stofna brúa- og vegasjóð hjá sér af þessu fé. Gæti það orðið mesta gagn fyrir héraðið og léttir fyrir landssjóð á sínum tíma). Beðið um umbætur verstu kaflanna á veginum milli Þingvalla og Geysis. Beðið um 400 kr. til Grindaskarðsvegar, og svo mælst til að sýslunefnd Gullbringusýslu láti bæta veginn þaðan til Hafnarfjarðar. Verkfærir menn í sýslunni voru nú aðeins 1370; (í fyrra 1401). Vegafé skuldlaust 723 kr., sem hrekkur skammt til allra vegaþarfa í sýslunni.


Ísafold, 27. apríl, 1901, 28. árg., 25. tbl., bls. 98:
Í fréttabréfi frá Suður-Múlasýslu segir m.a. frá því að nú sé efnið í Lagarfljótsbrú komið upp að Egilsstöðum. Þykir flutningurinn frá Reyðarfirði mikið þrekvirki enda um stór stykki að ræða sem flutt voru um vegleysu.

Suðurmúlasýslu, 2. apríl.
Nú er lokið flutningnum á Lagarfljótsbrúarefninu upp að Egilsstöðum. það var konsúll C.D. Tuliníus á Eskifirði, sem tók það að sér í fyrra, í von um, að geta ekið því á hjarni eftir Fagradal. En svo gerði veturinn honum þann grikk, að pretta hann um hjarnið. Eigi að síður hefur karl haft það af, sem hann tók að sér, og er satt að segja meira en lítið þrekvirki. – Meðal annars 50 járnbitar 15 álnir á lengd og 1500 pd. að þyngd og mörg stórtré, sum 24 álnir. Þetta hefur allt orðið að draga á auðn og á vegaleysu að miklu leyti. En brekka engin eða sama sem engin. Það er kosturinn á Fagradal. – Engin tiltök hefðu verið að koma þessum báknum yfir heiðarnar. Þar var samt hjarn í vetur, þrátt fyrir veðurblíðuna alla. Og engum skynbærum manni, sem þekkir Héraðsflóa, hefði dottið í hug, að koma því á land þar, fyrir opnu hafi, nema ef til vill á afar löngum tíma, ef þar sé svo ládautt, að koma hefði mátt járnunum frá skipi á flota, og svo hefði engu mátt muna við lendinguna; jafnvel við Reyðarfjarðarbotn í blíðalogni var það mjög erfitt.


Þjóðólfur, 30. apríl, 1901, 53. árg., 21. tbl., bls. 82:
Á sýslufundi Árnesinga 1901 komu brúarmál nokkuð til umræðu.

Skýrsla frá sýslufundi Árnesinga 1901.
16. Borin upp tillaga frá sýslunefndarmanni Grímsneshrepps, er fór fram á, að gæslulaun væru tekin af báðum brúnum á Ölfusá og Þjórsá, og þær látnar eiga sig að öðru en því, að landsjóður kostaði viðhaldið. Eftir 50-60 ár mætti grípa til launa Ölfusárbrúarvarðarins, er ætlast var til að geymd væru á vöxtum, og byggja þá nýja brú, ef með þyrfti; ekkert á það minnst þótt brúin bilaði fyrr. – Hugmynd þessi, svo hyggileg sem hún kann að vera, þótti nokkuð draslkennd og ekki vel löguð til að spara fé sýslunnar, ef svo skildi fyrir koma, að einkum Árnessýsla ein yrði að byggja vandaðri brú síðar og mikið dýrari; var því tillaga þessi ekki borin undir atkvæði.
17. Sökum hinna sívaxandi útgjalda í sýslunni til vega og hafnagerða o.fl. var þingmönnum falið að flytja frumvarp til laga á næsta þingi, að lántaka sýslunnar til Ölfusárbrúar byggingarinnar mætti falla niður, og landssjóður ætti einn brúna, sem aðrar brýr á aðalpóstleiðum.
18. Þingmönnum sýslunnar falið að flytja frumvarp til laga á næsta þingi, þess efnis, að landssjóður annist brúargæslu brúnna, og hún þá heldur aukin.


Fjallkonan, 1. maí, 1901, 18. árg., 17. tbl., bls. 2:
Þessi frétt sannar að umferðarhávaði er ekki glænýtt vandamál.

Bæjarplága
sannkölluð eru hin mörgu akfæri, sem dregin eru um göturnar hér með svo megnu ískri og óhljóðum, að furðu gegnir. Auðvitað ætlar enginn, að hlutaðeigandi muni taka nokkurt tillit til þess, hvaða óþægindi þessi ískurtól gera, einkum þeim er fást við andlega vinnu, að ég nefni ekki sjúkt fólk, en þeir ættu að hugleiða, hvílíkt ógagn þeir gera sjálfum sé með þessu hirðuleysi, þar sem hjólásar endast margfalt lengur en ella, séu þeir smurðir við og við.
Þ.
* * *
Ritstj. blaðs þessa minntist á þetta efni fyrir nokkrum árum við einn helsta lækninn hér, og kvað hann það engu gagna, að vera að fást um annað eins. Þeir sem væru svo taugaveiklaðir, að þeir þyldu ekki skarkalann og ískrið hér á götunum, væru ekki á vetur setjandi. – Annarsstaðar mun mönnum samt ekki standa á sama, hvort akstur á strætum gerir hávaða eða ekki, og veit ég ekki betur en lögð sé mikil stund á það með fleiru við strætalagningar, að hafa þess konar efni í þær.
En veganefndin hér hefur alltaf sínar ástæður, ef menn hér hafa dirfst að kvarta um eitthvað við hana.


Ísafold, 4. og 8. maí, 1901, 28. árg., 27. og 28. tbl., forsíður:
Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur skrifar hér um fyrirkomulag á vegastjórn landsins og finnst það m.a. óeðlilegt að verkfræðingur hafi ekkert vald yfir verkstjórum.

Vegamálin.
Verkfræðingur landsins lætur uppi sínar skoðanir.
Hvernig vegamálum er nú háttað.
Ísafold hefur vakið máls á því fyrir nokkrum mánuðum, að brýn nauðsyn sé á að koma vegamálum vorum í nýtt horf, að því er að stjórn og eftirliti lýtur. Nú höfum vér átt tal við verkfræðing landsins, hr. Sigurð Thoroddsen. Og vér birtum hér skoðanir hans, eins og þær komu fram í samræðu við Ísafold.
Í utanför sinni hinni síðustu hefur hann lagt þessar skoðanir sínar fyrir ráðuneytið íslenska. En einskis varð hann vísari um, hvern árangur það mundi hafa, með því að ráðuneytið þurfti eðlilega að bera sig saman við landshöfðingja, áður en nokkru yrði til lykta ráðið.
Það er aðallega fyrirkomulagið á vegastjórninni, sem nauðsyn er á að tekið sé til rækilegrar íhugunar á næsta þingi, - sagði verkfræðingurinn. Eins og Ísafold hefur áður tekið fram, er ekki við því að búast, að það fyrirkomulag, sem gat verið gott, þegar aðeins fáum þús. kr. var varið til vegagerða, sé jafn hentugt nú, þegar allt að 100 þús. kr. eru veittar til þeirra umbóta.
Nú er fyrirkomulaginu svo háttað að verkfræðingur landsins og fjöldi verkstjóra standa undir landshöfðingja. Landshöfðingi setur verkstjóra yfir vegagerðir hér og þar úti um landið; þeim er falið að ráða verkamenn til vinnunar, ákveða kaup þeirra og greiða þeim kaupið. Ennfremur eru þeir látnir ráða allri vegagerðinni, hvar og hvernig vegina skuli leggja; í því efni eru þeir einráðir.
Þar á móti er verkfræðingur landsins sendur út um land til þess að mæla vegi og (ólæsileg 2-3 orð) þeim lýtur , svo á hann og að (ólæsilegt orð) hin vandasamari fyrirtæki, aðallega brúargerðir. En verkstjórar standa alls ekki undir honum; þeir skipa að miklu leyti honum jafn háan sess andspænis landshöfðingja; þurfa alls ekki að leita ráða til hans, að því er vegalagningar snertir, og snúa sér til landshöfðingja eins, þegar þeir eru í vafa um eitthvað viðvíkjandi vegagerðinni.
Vegagerðirnar eru því ekki undir handleiðslu neins manns með iðnfræðilegri (tekniskri) menntun. Til þess hefur þó íslenska ráðuneytið ætlast, þegar það setti inn í fjárlagafrumvarpið 1893 sérstaka fjárhæð til verkfræðings “til að standa fyrir vegagerðum” hér á landi. Enda segir ráðuneytið í athugasemdum við þann gjaldalið: “Eftir að vegagerðum hefur þokað svo fram og jafn miklu fé varið til þeirra, eins og nú er komið, mun vera orðin full þörf á því, bæði vegna vegasmíðisins sjálfs og til þess, að fénu verði varið sem best, að vegagerðir allar verði lagðar undir stöðuga umsjón verkfróðs manns”.
Eins og nú er ástatt, verður ekki sagt að verkfræðingur “standi fyrir vegagerðum”. eða að vegagerðir allar séu “lagðar undir stöðuga umsjón” hans. Það verður því ekki með öðru móti en því, að verkfræðingur hafi fullt vald yfir verkstjórunum og öllum framkvæmdum, að því er vegagerð snertir. Nú er verkfræðingurinn skoðaður sem nokkurs konar ráðunautur landshöfðingja og sér aðeins um þau verk, er landshöfðingi felur honum á hendur.
Þetta fyrirkomulag er að mörgu leyti óhentugt. Fyrir bragðið verður svo mikill skortur á fyrirhyggju og festu í vegagerðum: Hver verkstjóri vinnur í sínu horni, öllum óháður, og leggur vegina eins og honum best líkar, því umsjónin með vinnu þeirra er lítil sem engin. Ekki er ólíklegt að landssjóður verði fyrir allmiklu tjóni fyrir það, að vegirnir eru lagðir skakkt og óhentuglega. Afleiðingin af sjálfræði versktjóra verður og sú, að reynsla fæst ekki fyrir nýjum vegagerðaraðferðum, reynslan yfirleitt öll á dreifingu; en það er einmitt mjög nauðsynlegt í öllum löndum, að vegastjórinn útvegi sér reynslu fyrir því, hvað best hentar hverju landi í það og það skiptið, því að sérhvert land hefur sín frábrigði í því sem öðru. Yfirleitt getur ekki nein heild orðið í vegalagningunni fyrr en öll vegastjórn er lögð undir yfirráð manns með iðnfræðilega menntun.
Mörg eru dæmi þess hér, að vegagerð hefur verið ráðlausleg og fé þann veg á glæ kastað. Hér og þar hafa verið lagðir stuttir vegakaflar, án þess að hugsað hafi verið um, hvort þeir gætu orðið partar af akbraut, sem eftir vegalögunum á að leggja. Svo verða kaflanir ónýtir, þegar farið er að leggja brautina alla. Sumstaðar hafa vegir verið lagðir að vöðum á ám langt frá brúastæðum, svo verður að breyta veginum að ánum á löngum köflum, þegar brýr eiga að koma á þær.
Svo hefur það og sannast við rannsókn gegn einum verkstjóranum, að umsjón með verkstjórum, að því snertir meðferð þeirra á vegfénum, er ekki nægilegt, með því fyrirkomulagi, sem nú er á vegastjórninni. Þess er ekki heldur nein von. Landshöfðingi hefur eðlilega hvorki tíma né tækifæri til þess, að hafa nægilegt eftirlit í því efni.
Sem dæmi um þær misfellur, er eiga sér stað, minntist verkfræðingurinn á það, hvernig hestar væru fengnar til vegagerðarinnar. Verkstjóranum sjálfum er leyft að leigja landssjóði hesta. Fyrir bragðið hafa þeir sérstaka freisting til þess að halda hestaleigunni sem hæstri, að minnsta kosti vel skiljanlegt, að þeir klífi ekki þrítugan hamarinn til þess að fá hesta sem ódýrasta. Sumir verkstjórar hafa nú 7-8 hesta, sem þeir leigja landssjóði á sumrum.
Það er tilgangslaust að hafa nokkurn verkfræðing, ef hann á ekki að vera æðstur maður í vegamálum – auðvitað að undanskildum landshöfðingja, sem er hans sjálfsagður yfirboðari. Nú er það stundum fremur tekið til greina, sem verkstjórar segja, heldur en það, sem hann vill vera láta. Slíkt hlýtur að hnekkja starfi verkfræðings gagnvart verkstjórum og almenningi, og rýra álit hans. Hvering er við því að búast, að hann geti haft nokkurt vald eða ráða yfir verkstjórum, þegar þeir sjá, að þeir þurfa ekki að fara eftir hans ráðum? Þeir þurfa ekki annað en snúa sér til landshöfðingja og reyna að fá hann á sitt mál, í stað þess, sem er sjálfsagður hlutur í öllum menntuðum heimi, að verkstjórar, sem eiga iðnfræðilega menntun hafa fengið, standa beinlínis undir verkfræðingi og eru ráðnir af honum. Verkfræðingurinn á svo að sjálfsögðu að koma með sínar tillögur til landshöfðingja.
Ekki er það heldur óskiljanlegt, að verkfræðingur nái ekki að njóta síns til fulls með því fyrirkomulagi, sem nú er. Hann kveinkar sér ef til vill oft við, að koma fram með tillögur og ráðleggingar, þegar hann sér, að ekki er eftir þeim farið, og hann hefur ekki vald til að koma þeim í framkvæmd – getur jafnvel búist við, að verkstjórar verði spurðir um, hvort ráðlegt muni og hyggilegt, að fara að hans ráðum.
___________________

Hvernig vegamálunum ætti að vera fyrir komið.
Til þess að koma vegamálunum í betra horf, væri auðvitað besta að setja á stofn sérstaka vegamálaskrifstofu, eins og tíðkast í öllum öðrum löndum, með einum eða tveimur iðnfræðilega menntuðum aðstoðarmönnum og slíkri skrifstofu hlýtur að verða komið upp. Svo framarlega, sem landið á nokkurra sæmilega framtíð fyrir höndum, hlýtur mönnum að skiljast nauðsynlegt á henni. Allar þjóðir hafa smátt og smátt komist á það skoðun, að vel lagðir vegir séu þeim óhjákvæmilegt þroska- og framfaraskilyrði, og því fer fjarri, að þeim peningum yrði á glæ kastað, sem til þess yrði varið, að menn, sem því eru vaxtir, hefðu betra eftirlit með lagning vega og með ferð vegafárinu. Miklu fremur ætti það að vera margfaldur gróði fyrir landið.
Í Noregi er vegamálastjórninni svo fyrir komið, að einn vegameistari (Vejdirektörs) er settur yfir alla vegagerð ríkisins. Hann stendur beint undir mannvirkja-ráðuneytinu og hefur skrifstofu í Kristjaníu. Þar eru auk hans 5 verkfræðingar (ingeniörer) og nokkrir skrifarar, úti um landið, eru alls 51 verkfræðingar undir vegameistara, svo að verkfræðingar, sem að eins fást við vegagerðir og vegamál og launaðir eru af ríkinu, eru 57. Nú eru Norðmenn um 2 milljónir, svo einn vegaverkfræðingur kemur á hverja 35 þús. landsmanna. Eftir því ættum vér að hafa að minnsta kosti 2 verkfræðinga til vegagerðar. En svo er þess gætandi, hve miklu strjálbyggðara þetta land er en Noregur og hve miklu erfiðari ferðalögin eru hér. Hlutfallið verður þá allt annað, ef flatarmálið er lagt til grundvallar. Noregur er um 6000 ferh.mílur, og hefur því allt að því einn verkfræðing á hverja 100 ferh.mílur. Eftir því ættu að vera á Íslandi 18 verkfræðingar við vegagerðir. Vitanlega næði það engri átt. En ekki er sú tilgáta ósennileg, að eftir ein 30-40 ár verði kominn einn verkfræðingur í hvern landsfjórðung, og að þessir 4 verkfræðingar standi undir vegameistara, sem hefði skrifstofu sína í Reykjavík.
Yrði nú skrifstofa sett á stofn hér, með t.d. einum iðnfræðilega menntuðum aðstoðarmanni og einum skrifara, þá ætti fyrirkomulagið að vera á þann veg, að öll vegamál, er að einhverju leyti kæmi landssjóði við, væru send vegameistara, sem veitti skrifstofunni forstöðu. Hann ætti svo að láta undirbúa málin, fá umsagnir hlutaðeigenda, láta mæla vegarstæði o.s.frv., og senda svo tillögur sínar til landshöfðingja. Vegameistari ætti auðvitað að ráða verkstjóra, sjá um allar framkvæmdir á vegagerðum og öðru, er að þeim lýtur, og bera ábyrgð á. Hann gerði verkstjórum starf þeirra, ljóst og gæi þeim fyrirskipanir um, hvernig ætti að leggja vegina. Þá ætti að aldrei að geta komið fyrir, að menn færu að deilda um vegastefnur um það leyti, sem byrja ætti á vegunum; slíkt ætti að vera svo vel undirbúið að rætt, að fullráðið væri hvar vegina ætti að leggja áður en tekið er til starfa við vegagerðina. En einn aðalagnúinn á því fyrirkomulagi, sem nú er, er einmitt sá, að málin eru ekki nægilega undirbúin og rædd af réttum hlutaðeigendum.
Þá ætti heldur ekki að vera neitt bætt við óráðvandilegri meðferð vegafjársins af hendi verkstjóranna. Vegamálaskrifstofan yrði að hafa gott eftirlit með mannaráðningum ekki síður en, öðru og fjárgreiðslum öllum, og láta gera sem greinilegust eyðublöð fyrir útborganir. Vel virðist og til fallið, að skrifstofan ávísaði sýslumönnum í þeirri sýslu, þar sem vegavinnan færi fram, fjárhæðir til útborgunar verkstjórunum, eftir því sem þeir þyrftu á að halda. Þá mætti komast hjá því, að þeir hefðu mikla peninga undir höndum í einu. Verkstjórar gætu komið til sýslumanna einu sinni eða tvisvar í mánuði, sýnt þeim þá reikninga, sem þeir þyrftu að borga, og fengið peninga til þess. Svo ættu þeir að sýna sýslumanni reikningana kvittaða, þegar þeir kæmu næst.
Af kostnaðaratriðinu er það að segja, að auðvitað yrði þetta kostnaðarauki í orði kveðnu; en í raun og veru yrði það sjálfsagt ágóði fyrir landið. Kostnaðaraukinn mundi nema um 4.000 kr. á ári, ef aðstoðarmaður með iðnfræðilegri menntun yrði skipaður, þ.e. 2.500 kr. handa aðstoðarmanni og 1.500 kr. til skrifstofuhalds. Yrði þar á móti enginn aðstoðarmaður skipaður, en vegamálaskrifstofa samt stofnuð, mundi þurfa til hennar um 1.500 kr. árlega og annar væri kostnaðaraukinn þá ekki.


Fjallkonan, 7. maí, 1901, 18. árg., 18. tbl., bls. 3:
Það hefur að sjálfsögðu þótt nokkuð fréttnæmt að frétt birtist í erlendu blaði af íslenskum vegaframkvæmdum.

Lagarfljótsbrúin og Fagradalsvegur.
Bational-tíðindin dönsku segja frá Lagarfljótsbrúarmálinu og Fagradalsveginum, sem hér fer á eftir:
Það hefur verið sagt, að ekki gæti verið akvegur um Fagradal, en nú er það sannað af reynslunni. Það var byrjað að flytja brúarefnið í ágúst 1900 og lokið við það 20. mars í vor. Hafa þannig verið flutt 200 tonn af stórviðum og stálbjálkum yfir 30 feta löngum og 1400 pund á þyngd. Vegalengdin er 6 mílur. Verslunarstjóri Tuliniusar á Eskifirði Jón Arnesen stóð fyrir flutningunum. Í apríl átti að senda hingað menn frá Danmörku til þess að fara að vinna að brúargerðinni.
Gert er ráð fyrir að brúin verði algerð þetta ár og verður þá byrjað á Fagradalsveginum.


Þjóðólfur, 17. maí, 1901, 53. árg., 24. tbl., forsíða:
Á þingmálafundi Árnesinga voru gerðar nokkrar samþykktir varðandi vegamál.

Þingmálafundir Árnesinga.
_
3. Samgöngumál. a) Brú á Sogið. Fundurinn skorar á Alþingi, að veita fé úr landssjóði til brúargerðar á Soginu samkvæmt tillögu sýslunefndar. Jafnframt lýsti fundurinn megnri óánægju sinni yfir því, að engin skýrsla liggi enn fyrir frá verkfræðingi landsins um kostnað við brúna, þrátt fyrir ítrekaðar bænir héraðsbúa og skorar á verkfræðing, að láta uppi álit sitt hér að lútandi svo tímanlega, að áætlunin verði lögð fyrir næsta þing. Samþ. í einu hljóði.
b) Fundurinn skorar á Alþingi, að hlutast til um, að betra eftirlit verði haft á því, hvernig fé því er varið, sem lagt er til vegagerða og endurbóta á vegum. Samþ. í einu hljóði.
c) Fundurinn lýsti yfir því, að hann teldi sýslunni algjörlega ofvaxið að taka að sér viðhald á landssjóðsvegum í sýslunni.
d) Fundurinn skorar á þingið, að gefa upp lánið til brúnna á Þjórsá og Ölfusá og landssjóður taki að sér umsjón þeirra.
e) Fundurinn skorar á Alþingi, að akvegur verði lagður sem fyrst frá Kögunarhól að Ölfusárbrúnni.


Ísafold, 19. maí, 1901, 28. árg., 31. tbl., forsíða:
Á þingmálafundum Árnesinga var samþykktur vænn óskalisti um samgöngumál.

Þingmálafundir Árnesinga.
_ Þar næst var um samgöngumál samþykkt, að biðja um fé úr landssjóði til brúar á Sogið; að haft verði betra eftirlit með brúkun vegafjár; að sýslan telji sér ofvaxið viðhald á landsjóðsvegum í sýslunni; að gefin séu upp lánin til brúnna á Þjórsá og Ölfusá; að lagður verði sem fyrst akvegur frá Köguðarhól að Ölfusárbrúnni; að greitt verði fyrir samgöngum á sjó samkvæmt tillögum sýslunefnda.


Þjóðólfur, 4. júní, 1901, 53. árg., 27. tbl., bls. 107:
Ölfusingur skrifar hér um veginn með Ingólfsfjalli og finnst hann hafa verið lagður á óheppilegum stað.

Vegurinn með Ingólfsfjalli.
Vegurinn frá Kögunarhól austur með Ingólfsfjalli og niður að Ölfusárbrú, hefur verið lagður á afar óþægilegum stað; fyrst með byrjun hefur hann haft óþarfa kostnað í för með sér, sem leiðir af því, að á honum er stór bugða, sem alls ekki þurfti að vera, ef hann hefði legið neðar; svo kemur hinn óbeini kostnaður: þegar hlána tekur úr fjallinu á vorin, koma skriður og vatnsflóð ofan úr því, sem vinnur veginum meira og minna tjóni á hverju ári, svo í hann falla stór skörð og ofaníburður ést úr, enda hefur þurft að ryðja hann á þessu svæði endilöngu á hverju vori og oft að endurbæta á annan hátt á því stóra kafla, svo þetta hér að framan talið hefur æði mikinn kostnað í för með sér, sem getur með tímanum dregið út drjúga peninga, ef ekki er aðgert hið bráðasta.
Því er nú bráðnauðsynlegt að breyta vegastefnu þessari; afleggja þennan gamla veg með fjallinu, en taka upp annan nýjan spölkorn neðar, nefnilega beina línu úr hinu svokallaða Fossnesi, hér skammt fyrir utan brúna, sunnanhallt við Laugahólana, norðantil við Þórustaði, og í efri endann á Kögunarhól, þar ætti hann svo að koma á gamla veginn aftur.
Þessi stefna er miklu styttri, munar að lengdinni til allt að þriðjungi; vegurinn á þessu svæði stæði miklu betur; þó halli yrði töluverður á aðra hlið hans, þá ættu rennur að vera þess þéttari; ofaníburður held ég sé á þessu svæði góður. Sérstaklega þyrfti eina brú á þessu svæði, sem brú gæti kallast, það er á gilið fyrir ofan og austan Árbæ, það getur orðið nokkuð mikið stundum á veturna.
Mörgum, sem eftir veginum hafa farið út með fjallinu, hefur þótt það æði kynlegt, að hann skyldi ekki við byrjun vera lagður þessa síðargreindu stefnu; hafa sumir í því efni kennt því um, að það hafi verið ábúendunum á Árbæ að kenna, en ef svo hefur verið, þá lýsir það miður viðkunnanlegum hugsunarhætti, en slík sérplægni held ég stæði ekki í veginum nú. – Eftir því sem ég hef lauslega frétt, var máli þessu hreyft á þingmálafundinum að Selfossi 14. þ.m. (eða einum af þessum þremur, því mikils þótti Árnesingum við þurfa). Þar var ég ekki, sökum þess, að ég var á ferð, eins og margir aðrir góðir menn (en sýslunefndin í samráði við annan þingmanninn hagaði því svo viturlega að halda fundina um þann óheppilegasta tíma, sem orðið gat). Samt hef ég heyrt, að fundurinn hafi skorað á þingið að fá veg sem fyrst yfir þetta svæði, og vonumst vér til svo góðs af 1. þingmanni okkar og öðrum skynsömum þingmönnum, að þeir taki þetta mál til alvarlegrar íhugunar á næsta þingi, því það er áhugamál margra ferðamanna og betri manna hér í Árnessýslu, og það ætti að vera áhugamál þjóðarfulltrúanna fyrir landsjóðs hönd, því ef sama kákið helst áfram við þennan gamla veg, og ekki fenginn nýr í hans stað, þá verður landssjóður að blæða marga peninga fyrir einn.
Ritað 15. maí 1901.
Ölfusingur.


Þjóðólfur, 7. júní 1901, 53. árg., 28. tbl., bls. 110:
Sæluhúsið á Kolviðarhóli gengdi lengi mikilvægu hlutverki í samgöngumálum Sunnlendinga. Í þessari grein er rakin saga sæluhússins sem er mjög áhugaverð.

Draugakofinn gamli á Norðurvöllum til forna
og Sæluhúsið á Kolviðarhóli nú
I.
Því verður með engu móti neitað, að óviðjafnanlegur mundur er á því að vera á ferð nú austan yfir Hellisheiði, eða fyrir og um 1830. Í þá daga þóttist ekki fært að fara suður yfir “heiði” á vetrum, nema mestu ferðagörpum; fóru þeir þá helst lausagangandi, eða riðu 2-3 saman, völdu mjög færð og veður, og helst að vel stæði á með tunglsbirtu. Helstu ferðamenn í þá daga eða nokkru síðar voru Sigurður Hinriksson á Hjalla í Ölfusi, og úr Flóa eða austan yfir Ölfusá, Þorsteinn bóndi Jónsson á Björk, síðar á Moshól; fór hann þá aðallega með 1-2 hesta í taumi fyrir Thorgrímsen heitinn kaupmann á Eyrarbakka. Nokkru áður var það Jón Símonarson bóni í Óseyrarnesi, sem mikið orð hafði á sér fyrir suðurferðir á vetrum, enda var hann hraustmenni hið mesta, en samt sem áður er í frásögum fært, að hann hafði legið úti samtals 11 nætur sína í hvert skipti; í 3 nætur lá hann úti með Nikulási bónda í Stokkseyrarseli – bar þá Jón 8 fjórðunga, en Nikulás 5. Þessar nætur héldu þeir í grjótkofanum á fjallinu. – Ferðir þessar fór hann fyrir Lambertsen kaupmann á Eyrarbakka. Þegar þetta var, var ekkert skýli fyrir ferðamenn á leiðinni milli Vorsabæjar í Ölfusi og Helliskots (nú Elliðakot) í Mosfellssveit. Eins og geta má nærri, var jafnlöng leið á fjallvegi eða um 35 km afarhættuleg, ef ill veður kom upp á . Vitanlega voru vörðunar á Hellisheiði til vegavísis yfir hana, en þegar niður fyrir hana kom gránaði gamanið, því þá var það Húsmúlinn, sem farið var með, og þaðan stefnt á Lyklafell – en á milli múlans og fellsins er langur vegur og misjafn.
Brátt fór það að koma í ljós, að óhjákvæmilegt var að byggja eitthvað skýli milli byggða sem hægt væri að leita sér hælis í, ef út af bæri með veður o.fl. Því var það fyrir dugnað Gísla Eyjólfssonar bónda á Kröggólfsstöðum í Ölfusi, að ráðist var í að byggja dálítinn húskofa við tjörn eina á Norðurvöllunum; eru rústir þær undan Húsmúlatánni; þarna þótti vel til haga komið, og svo var þarna vatn nærri, enda kofinn á miðri leið hér um bil. Við kofa þennan, þótt lítilfjörlegur þætti, lágu ferðamenn á haustum, eða þegar þeir urðu naumt fyrir á vetrum. Legurúmið í kofa þessum var upphækkaður moldarbálkur í öðrum enda, tyrfður þó, – í hinum endanum gátu 3-4 hestar staðið inni.
Ekki verður þess dulist, að þjóðtrú manna á þeim tímum var svo háttað, að í meira lagi þótti bera á reimleikum í kofa þessum, og það jafnvel þó fleiri væru saman; svo mjög bar á því upp á síðkastið, að enginn eirði, eða að minnsta kosti fáir, sem lögðu út í að sofa þar af; þetta spillti mjög fyrir, að kofinn kæmi að tilætluðum notum, sem mikil voru þó.
Nálægt 1842 var það aðallega séra Jón Matthíasson í Arnarbæli og bændurnir Sæmundur Steindórsson í Auðsholti í Ölfusi og Jón bóndi Jónsson á Elliðavatni, sem gengust fyrir, að skýli fyrir ferðamenn yrði reist á Kolviðarhóli, er þótt fyrir marga hluta sakir hentugt húsnæði. Undir byggingu hins fyrsta sæluhúss þar flýtti það mjög fyrir, að nokkru áður urðu úti vestan við heiðina 2 menn austan úr Hvolssókn í Rangárvallasýslu; fóru þeir suður um vetur og var annar þeirra að fá sér giftingarleyfi; – út af fráfalli þeirra höfðu spunnist ýmsar umræður.
Hið nýja sæluhús var byggt úr timbri að mestu, efri hluti veggja úr timbri og sömuleiðis þak; loft var í húsinu og lítill 4 rúðu gluggi á framstafni, innar við gluggann var stór rúmstæði með meldýnu í. Flet þetta rúmaði 4-6 menn; 1 borð lítið var þar og gangur upp á loftið var í innri enda og hleri yfir stigagati. – Fremur lagðist sá orðrómur á, að ekki yrði öllum svefnsamt þar um nætur, og mun sú trú hafa fylgt húsi þessu svo lengi sem það stóð þar; eru til ýmsar sagnir um það. Húsið var 5 álna breitt, 9 á lengd og 3 álnir undir loft. Helst voru það Ölfusingar, sem efni lögðu til hússins, enda nokkrir menn syðra. Því fylgdi mjög stór meldýna, sem ætluð var yfir botninn í rúmfletinu, 2 skóflur og 1 fata og vandlega hafði verið frá öllu gengið. Brátt kom í ljós, þó skýli þetta væri hið mesta ferðabót, og oft hreinasta lífakker manna og hesta, að þrælsnátttúra misviturra þorpara og óknyttaseggja lét skýli þetta ekki vera í friði; meldýnan var smáskorin í sundur og síðast algerlega tekin, skóflurnar teknar eða faldar, hurðin brotin af hjörunum og margt fleira óþokkastrikið var gert við hús þetta. Vitanlega var reynt til af ýmsum sómamönnum sýslunnar að halda húsinu í sem bestu standi, og kvað kaupmaður G. Thorgrímsen á Eyrarbakka hafa látið sér mjög annt um, að allar viðgerðir á húsinu væru sem bestar.
Nú leið og beið, ferðamenn svömluðu með lestir sínar yfir gamla Svínahraun, án þess að neinar umbættur væru gerðar á húsinu á Kolviðarhóli eða veginum í Svínahrauni. Það ber víst öllum saman um, að verri og ógeðslegri veg en veginn yfir hraunið var ekki hægt að fá, einkanlega, ef eitthvað var að veðri.

Draugakofinn gamli á Norðurvöllum til forna
og Sæluhúsið á Kolviðarhóli nú
II.
Árið 1876 var steinhús á Kolviðarhóli reist; það var byggt upp af samskotum úr Árnes- og Rangárvallasýslum, og eitthvað létu Gullbringusýslubúar af hendi rakna til þessa fyrirtækis. Fyrir framkvæmdum á þessu stóðu þeir G. Thorgrímsen á Eyrarbakka, Magnús Stephensen yfirdómari, nú landshöfðingi, og sér Jens Pálsson, nú prestur að Görðum. Hús þetta er að stærð 10X10. Bæta átti það úr ýmsum óþægindum, sem áður voru, og gerði það enda; innréttað var það niðri þannig, að það var þiljað sundur í kross, en upp í tvennt. Strax sáu menn eftir bygginguna á húsinu, að ófært var að hafa það íbúðarlaust, því óðar var allt lauslegt, ofnar og hurðir brotið og bramlað. – Húsið var því auglýst til leigu veturinn 1877, og þá um voru flutti þangað sem fyrsti ábúandinn á Kolviðarhóli, Ebenezer Guðmundsson gullsmiður á Eyrarbakka; bjó þar í hálft annað ár; átti hann þarna við ýmsa örðugleika að stríða, vegleysur á báðar hendur, og enga styrk fékk hann af almannafé, sem honum mun þó upphaflega hafa verið lofað. Geta má þess og, að til örðugleika mátti telja, að þá varð að sækja vatn upp í Sleggjubeinsdal, mun sú vegalengd nema 7-800 faðma. Þá var það að ráðist var í að grafa brunn þann, sem enn er fyrir norðan “Hólinn” en eitthvað var veitt af fé til þess frá því opinbera. Íbúðin á Kolviðarhóli varð enn á borðstólum 1879 og um vorið 1880 fluttist Ólafur Árnason bókbindari af Eyrarbakka þangað, og dvaldi hann þar með mestu herkjum í tvö ár; fékk hann þó nokkurn opinberan styrk; t.d. ókeypis kol og steinolíu. Eftir för Ólafs af “Hólnum”, stóð húsið í nokkra mánuði autt; leit þá helst út fyrir, að það mundi ekki ganga út til íbúðar, sem þó ekki varð, því vorið 1883 flutti þangað búferlum Jón Jónsson bóndi á Stærribæ í Grímsnesi. Einhvern opinberar styrk vildi hann fá til að laga þar til o.fl., en hvernig sem það nú var, þóttust stjórnendur “Hólsins” komast inn á eitthvert aðgengilegra tilboð frá trésmið Sigurbirni Guðleifssyni á Lækjarbotnum, er varð til þess, að Jóni á Kolviðarhól var sagt upp íbúðinni í húsinu; flutti Sigurbjörn því þangað 1884, en Jón byggði bæ handa sér nokkru neðar í brekkunni. – Með því að Jón varð strax vinsæll meðal ferðamanna og naut meir hylli þeirra en sambýlismaður hans, og Sigurbirni geðjast lítt “Hóls-vistin” flutti hann þá burtu aftur eftir 13 mánaðar veru. Fékk Jón þá á ný bygginguna fyrir húsinu, fór hann þegar að laga þar til og byggja upp. Hann reif niður bæ sinn og flutti þangað, sem gamla sæluhúsið stóð, en úr því byggði hann aftur hesthús, er tók 12 hesta; annað hesthús byggði hann árið eftir, það rúmaði 10 hesta. Hjall, smiðju og heyhlöðu reisti hann líka, og tók hlaðan um 100 hesta; dálítinn´ túnblett girti hann af og byrjaði að rækta hann. Þegar svona var komið þótti Kolviðarhóll gamli vera búinn að taka allmiklum stakkaskiptum til bóta. Umferð á þessum tíma fór mjög vaxandi, því þá koma vegirnir aðallega til sögunnar. – Kolviðarhólshjónunum þótt mjög vel takast að gera gesti sína ánægða, enda þótt við marga örðugleika væri að búa. Í sambandi við hýsingu þá, sem nú var komin þarna, má geta þess, að bæði fékkst nokkuð til hennar úr sýslusjóði Árnessýslu og sömuleiðis úr jafnarsjóði suður-amtsins, er keypti bæ Jóns o.fl., er það vorið 1895 afhenti landsstjórninni, og taldi henni skylt, að standa straum af húsinu ásamt með veginum. Styrkveitingar þessar mæltust vel fyrir , og þóttu koma niður á réttum stað. –

Draugakofinn gamli á Norðurvöllum til forna
og Sæluhúsið á Kolviðarhóli nú
III.
(Síðasti kafli)

Árið 1893 tók hinn núverandi sæluhúsvörður Guðni Þorbergsson, tengdasonur Jóns Jónssonar fyrirrennara sín, Kolviðarhól, og um haustið 1892 fékk hann sér, samkvæmt lögum um rétt til að taka upp nýbýli 24/1 1776, útmælt, allmikið land, er liggur í spildu kringum húsmúlann sunnan og vestan, en að austan upp í Reykjafell og norður fyrir Sleggjubeinsdal. Engjablettinn við húsmúlann hefur Guðni afgirt að mestu með 400 faðma lögnum grjótgarði og 7-800 faðma löngum skurði, sem bæði er notaður sem áveituskurður og varnarskurður, skurðir þessir eru að meðaltali 9 fet á breidd og ull 2 á dýpt. Túnstæði allmikið er þegar búið að afgirða með 3-420 faðma löngum garði, og er þegar búið að slétta í því fulla 250 faðma; af landi þessu fær nú ábúandinn um 270 hesta. Þetta mega nú heita allmiklar umbætur á landi, sem ekkert gaf af sér áður, þá varð að afla heyjanna upp á fjalli á hinum svo nefndu Skarðsmýrum. Þó heyskaparhorfur séu þannig nú, þarf mjög mikið að kaupa að af heyjum, því fénaður er þarna furðu mikill, eins og erfitt er þó með hann. Í sumar voru þar 8 nautgripir og 13 áburðarhross, og nálægt helmingi af hvoru mun hafa verið á heyjum þarna í vetur, hitt í fóðrum. Um 15-20 manns hefur Guðni nú á búi sínu, má það mikið heita, 2 vagna hefur hann fengið sér til léttis við flutninga. – úr því minnst hefur verið á byggingar fyrirrennara Guðna, er rétt að taka hans verk með líka. Eins og áður er ávikið tók landshöfðingi fyrir hönd landssjóðs við húsinu 1895 og frá þeim tíma hafa tillögur hans lagt góða hönd í bagga með byggingu og viðhaldi á húsunum á Kolviðarhóli, fyrst með því, að láta byggja skúr við vesturenda steinhússins og koma hann í stað gamla bæjarins, enda og með því að leggja til járn á þak á eitthvað af hesthúsunum o.fl. en þó síðast og ekki síst, fyrir það, að ráðist var í að byggja upp nýtt og allvel vandað timburhús járnvarið 10X10 á stærð, við steinhúsið gamla, sem allt er gliðnað og af göflum gengið, og var enginn manna íbúð með seinasta þó í því væri búið. Nýja húsið er innréttað hátt og lágt og vel gengið frá flestu; kjallari er undir því öllu, þiljaður í 4 hólf, grjótið í kjallaranum og aðra vinnu við hana lagði Guðni til, gegn því að mega hafa þar búslóð sína. Gamla steinhúsið keypti hann eftir mati, fyrir nálægt 350 kr., eru þar nú smíðaklefi, snæðingaherbergi fyrir almenning, svefnklefar o.fl. Í nýja húsinu eru 2 svefnherbergi, 1-2 í skúrnum. Í húsinu er og lagleg gestastofa, nú mun vera til góð sængurrúm fyrir 12 manns, og önnur ringari fyrir 16, þessa gestatölu er hægt að hýsa án þess að hreyft sé við heimilisfólkinu. Hesthús og fjós eru nú undir einu þaki, hesthúsunum skipt ísundur; þau taka nú til samans um 30 hesta, en fjósið um 10 nautgripi. Hlöður eru stækkaðar svo, að nú taka þær um 4-500 hesta.
Mikið er það ánægjulegt nú orði að líta heim eða koma heima á fjallabýli þetta, og sjá allar þær umbætur, er þarna hafa orðið á tiltölulega fáum árum, eins er það ekki síður gleðilegt íhugunarefni fyrir aðkomumenn, að Kolviðarhólshjónin yngri ekki síður en hin njóta mjög almennrar vinsældar, bæði hjá æðri sem lægri. Allt hreinlæti og umgengni bæði út og inni virðist í góðu lagi og vel við hæfi alla almennings.
Af öllu því sem nú hefur verið minnst á, sést að bráðnauðsynlegt var að húsgisting á þessum fjölfarna stað yrði viðunanleg, útlendingar eru farnir að gista þarna og fer straumur þeirra sívaxandi. Má því nærri geta, hvert gleðiefni það hefði verið fyrir Hólbúann áður að þurfa að hola þeim niður innan um misjafnlega fyrir kallað lestarmenn, ekki hefði það orðið til að sýna betri hliðina á fjárveitingarvaldinu, að þurfa að segja að þetta væri eina byggða sæluhúsið á landinu, sem það ætti hlut í, en sem betur fer sýnist nú komin sæmileg tillög frá þess hendi. Framfari þessar, sem þannig hafa orðið á Kolviðarhóls ábúðinni eru vafalaust ekki hvað síst því að þakka, að nýbýlisréttur og útmæling fékkst á landinu. Stríðlaust átti það samt ekki að ganga, því Ölfusingar spyrntu allmargir á móti nýbýlisrétti Guðna, og töldu það rýra afréttarland sitt, en sem betur fór létu þeir undna síga – enda munu menn þeir, er mest stóðu á móti, hafa álitið land þetta fremur eiga að nafninu, en að notin væru ein mikil af því. – Á stöðvum þessum var vitanlega griðland stóðhrossa sunnan frá sjó, og áfangastaður ferðamann hesta – allt þetta virðist komast jafnvel af eftir sem áður. – Þó allt þetta hafi nú fallið, eins og það átti að vera eða því sem næst, er þó eitt, sem angrar Kolviðahólsbúann, sem aðra mæta menn, er út í slíkt bugar, það er hin leiðinlega hverfsins náttúra hinna og annarra ómerkilegra flökkudýra í mannsmynd, sem oft og einatt eru að hafa í frammi hinar og þessar brellur við húsið, eða áhöld húsbúans, að ógleymdum þeim mikilsháttar bresti, að grípa þar ýmislegt, sem heimilinu tilheyrir. Sem betur fer eiga hér næsta fáir hlut að máli, en þetta ætti alls ekki að koma fyrir nú orðið. – Þess er líka mikillega óskandi, að sæluhús á fjallvegum, sem ætluð eru almenningi til skýlis, ættu betri meðförum að sæta en hús þetta á Kolviðarhóli átti fyrst. Samt dettur manni í hug, sem sér Vatnasæluhúsið og sæluhúsið á Mosfellsheiði nú, að nokkuð eigi þeir einstaklingar í land til góða siðgæðis og menningar, sem spillt hafa þaki og veggjum þeirra, einkum því fyrr nefnda; þetta þarf bráðlega að lagast, ef þjóðin á ekki að fá vansa af háttarlagi aumingja þessara. – Þó piltar þessir geti dulist og sloppið hjá lagarefsingu, þá er þó til önnur hefnd, hefnd, sem kemur oft fram af ófyrirsjáanlegum atvikum; gæti því svo farið að einhverjir fordjörfungaröndum þessum verði að leita sér skjóls í húsum þessum eða annar staðar; er kynni þá að minna þá óþægilega á, brotna glugga eða hjaralausu hurðina. – Alls þessa eru dæmi, og er hverjum manni óskaði að varast þau. –
Ritað í apríl 1901 S. J.


Austri, 8. júní, 1901, 11. árg., 21. tbl., forsíða:
Enn er deilt um hvort Fjarðarheiði eða Fagridalur sé heppilegri fyrir akbrautina frá Fljótsdalshéraði til sjávar og hér svarar Jón Bergsson grein í Bjarka (9. tbl.).

Sjávargata Fljótsdalshéraðs
Í 9. tbl. “Bjarka” þ.á. ritar einhver Skuggasveinn, er nefnir sig Hörð, grein með yfirskriftinni “Sjávargata Fljótsdalshérað”.
Það lýtur út fyrir að Hörður þessi ætli sér að slá smiðshöggin á að úrskurða hvar akbraut skuli liggja frá Héraði til sjávar, þar sem hann þykist fær um, vegna afstöðu bústaðar síns, að dæma hlutdrægnilaust um málið, og er svo glöggskyggn, að hann þarf ekkert stækkunargler, svo vegfróður, að hann getur reiknað allan kostnað upp á krónu, svo gagnkunnugur fjallvegunum, að hann þekkir alla kosti og ókosti, og svo úrræðagóður, að þegar fokið er í öll skjól, þá hamast hann með snjóplógnum.
Hörður byrjar á að lýsa mjög fagurlega nauðsyn á vegasambandi frá sveitum til sjávar, og hve lýsandi og lamandi áhrif strjálbýli og vegleysur hafi á allan okkar framfaraviðleitni, og verður sá sannleikur aldrei nógsamlega útmálaður. Megum við Héraðsbúar vera þakklátir öllum, sem setja sig inn í erfiðleika þá, sem við höfum við að búa hvað aðflutninga snertir og vilja stuðla að því að úr þeim sé bætt, en óþökk ættum við að gjalda hverjum þeim, sem vill gjörast “Þrándur” í götu og hefta allar framkvæmdir í því máli.
Hörður tekur það fram að eigi hafi sjaldnar verið minnst á vegastæði þetta, en vegastæði, sem flestir geti orðið ásáttir um sé ófundið enn, þrátt fyrir það þó vegalögin frá 13. apríl 94 taki af öll tvímæli í því efni og ákveði að braut skuli leggja um Fagradal til Reyðarfjarðar. En hverjir hafa mest þráttað um þetta vegastæði? Eru það ekki einmitt þeir, sem minnst kemur þetta mál við nefnil. Fjarðamenn? Sem af mesta kappi berjast fyrir að akbraut verði lög hver til síns fjarðar af þeirri eigingjörnu ástæðu að ná til viðskipta okkar Héraðsbúa, án tillits til þess hvað okkur kemur að mestu notum, sem vegurinn er gerður fyrir.
Ég þykist eins og Hörður vera nokkuð kunnugur báðum fjallvegunum, Fagradal og Fjarðarheiði, án þess nokkurn tíma að hafa skoðað þá í stækkunargleri, mér hefur gefist tækifæri að kynnast þeim á annan hátt, og getur mér aldrei blandast hugur, um að það sé Fagridalur, en enginn annar fjallvegur, sem geti komið til greina sem akbrautarstæði fyrir okkur Héraðsbúa, þrátt fyrir það þó hann sé talsvert lengri en Fjarðarheiði, og þrátt fyrir það, þó ég hefði margfalt heldur kosið Fjarðarheiði, hefðu sömu skilyrði verið fyrir því, að hún gæti komið okkur að fullum notum, en því miður er ekki því að fagna. Án þess að ég ætli mér að leggja dóm á það hvor vegurinn yrði dýrari, þá get ég ekki betur séð en að nægilegt efni sé í veg á Fagradal, að ofníburð mætti víðast fá góðan og eftir dalnum sjálfum mjög þægilegt að gera veg, því mikið af dalnum eru harðvellis-grundir, sem einmitt sýna og sanna, að það er ekki mikið um aurskriður á honum. Það, sem sérstaklega mælir með Fagradal sem akbrautarstæði, er, að hann rennur svo fljótt á vorin, getur verið alrunninn þegar Fjarðarheiði er bráðófær, sem oft kemur fyrir að er fram í júlí. En það er í maí og júní sem við þyrftum að flytja að okkur vörurnar til þess að missa ekki dýrmætasta tíma ársins, heyskapartímann, til flutninganna, þótt við höfum mátt sætta okkur við það hingað til. Þá er annað atriði, sem máske hefur mesta þýðingu, að Fagridalur er svo brattlítill, að merkjanlegur bratti yrði ekki nema á örstuttum vegi, en aftur á móti yrði svo langdreginn bratti á Fjarðarheiði, að engir hestar entust til að draga upp á móti brekku líklega allt að því að máske fullkomlega 3 klst. meira en helmingurinn af þeim þunga, sem hægt er að aka á sléttum vegi, eða vegi með mjög stuttum bratta. Það er því sannfæring mín að hver hestur gæti dregið allt að því helmingi meiri þunga yfir Fagradal en Fjarðarheiði og þegar öllu væri á botninn hvolft ekki á lengir tíma, því vegurinn yrði þeim mun óerfiðari sem hann yrði lengri.
Aðal-ókostir Fjarðarheiða eru langdregin bratti, svo snjóþyngsli, og hvað seint leysir snjó af henni á vorin, svo við gætum að öllu jafnaði ekki notað hana nema um háheyskapartímann, nema hlaðinn væri svo hár vegur, að hann næði upp úr öllum vanalegum snjó, og til þess þyrfti hann að vera fjarska hár, því komið hefur fyrir, að nokkrar vörðunar, sem eru þó 4-6 al. á hæð, hafa verið í kafi í miðjum júní. Hörður gerir mjög lítið úr brattanum, segir að það þurfi nokkrar sneiðingar beggja vegna. Maður gæti næstum ímyndað sér, að eftir þessari lýsingu, að hann hefði aldrei farið yfir Fjarðarheiði, eða þá alls ekki athugað brattanum á henni, því það dylst víst engum manni, að til þess að fá þar hæfilega brattalítinn veg þyrftu ótal sneiðingar. Hann álítur viðhaldskostnað lítinn. En hvernig hefur sá vegur staðið sig sem gerður hefur verið á heiðinni? Hann hefur víst ekki farið yfir Gúlinn milli Stafanna í fyrra sumar – þar var þó einu sinni góður vegur – og hann hefur heldur ekki tekið eftir hvernig þær vegabætur hafa haldið sér, sem gerðar hafa verið á norðurbrúninni. Hann segir oft snjógrunnt á vetrum á Fjarðarheiði, og lestarferðir algengar vetur og sumar yfir hana. Það er auðvitað satt, að lestarferðir eru algengar yfir heiðina á sumrin, en sjaldnar á vetrum fyrr en hjarn kemur á útmánuðum, og er það þó oft neyðarúrræði, og menn og skepnur hafa oft komist þar í hann krappann. Hefði Hörður verið lestamaður á Héraði og haft nokkra tilfinningu fyrir meðferðinni á skepnunum, er mér grunsamt um að lýsing hefði verið á annan veg en að snjógrunnt væri að jafnaði á heiðinni.
En þá kastar fyrst tólfunum þegar Hörður segir: að sú mótbára sé ekki mikilsvirði, þó snjó leysi seinna af Fjarðarheiði en Fagradal, því ef brautin geti ekki orðið fær nema í alauðu, þá sé líklega réttat að hugsa ekkert um hana. Hvað þýðir að byggja braut, hafði það enga þýðingu að hún sé upp úr snjónum? Er þá nokkuð verra að aka á snjó sem engin braut er undir? Svo segir Hörður; “brautin hlýtur einmitt að vera fær bæði vetur og sumar nema í aftöku snjóum”. Ég þekki ekki enn þann vetur, sem brautin myndi ekki vera mest öll undir snjó allan vegurinn nema hún væri nær því jafn há vörðunum og sumsstaðar hærri.
Og ennfremur segir Hörður: lítill snjór sakar ekkert, leggi driftir að mun á brautina, þarf að ryðja hana með snjóplóg áður flutningskerrur farar um. Ég tek það aftur fram, að það lítur út fyrir að Hörður sé mjög ókunnugur Fjarðarheiði á vetrardag. Honum skilst ekki að þar geti lagt nema driftir, sem auðvelt sé að sópa burt með snjóplógi hvenær sem vera skal. En hverjir eiga svo að sópa? Á hver að sópa fyrir sig, eða ætlar Hörður að sópa fyrir alla? Ef hver ætti að sópa eða ryðja fyrir sig, er ég hræddur um að sú kaupstaðarferð gæti orðið nokkuð dýr, og þó Hörður vildi gera það er hætt við að hann gerði það ekki oft fyrri ekki neitt. Ég hygg hann þyrfti að vera vel haldinn af þeirri atvinnu. Aðferð Norðmanna með sleða ofan á hjólgrindum sleppi ég að minnast á, því ég hygg hún eigi jafnlangt í land hjá okkur eins og snjóplógurinn, sérstaklega upp á háfjöllum.
Ef akbraut kæmist á, álít ég að menn ættu sem minnst að brúka vetrarferðir yfir fjöllin, því þær hafa verið og munu verða hættulegar og hafa kostað margt mannslíf auk hrakninga og erfiðis fyrir menn og hesta.
Þá er sumt ótalið sem mest mælir með braut fyrir Fjarðarheiði hjá Herði: “Seyðisfjörður, stærsti og besti kaupstaður austanlands, þar er sjúkrahús, lyfjabúð, bókasafn Austuramtsins, 2 prentsmiðjur, pöntunarfélag og álitlegur markaður fyrir afurðir uppsveitamanna o.s.frv.” Þetta er nú reyndar allt mikið í munni, ef það gæti haft nokkur áhrif á aðflutninga okkar Héraðsmanna eða létt undir þá, en það getur mér ekki skilist. Pöntunarfélagið eigum við Héraðsmann og getum flutt það hvert sem við viljum, en fyrir meðvitundina um, að hitt allt sem upptalið er sé á Seyðisfirði – og enda þótt maður bætti dýraverndunarfélaginu við – vildi ég ekki leggja svo mikið í sölurnar, að kafa ófærð og snjó, ef kostur væri á öðrum betra vegil
Eins og ég hef tekið fram, er það Fagridalur einn, sem getur komið okkur að fullum notum með akbraut, en aldri Fjarðarheiði; hún gæti ekki orðið okkur að hálfum notum af þeim ástæðum sem ég hef tekið fram.
Að Noðurmýlingar séu á móti akbraut yfir Fagradal, því mótmæli ég – þeir sem annars nokkra akbraut vilja hafa. – Ég hef talað við svo marga málsmetandi menn, sem alveg eru á sömu skoðun og ég í því máli.
Ritað í maí 1902
Jón Bergsson


Austri, 8. júní, 1901, 11. árg., 21. tbl., forsíða:
Hér er kvartað yfir því að Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur vilji helst enga hafa í vinnu nema Sunnlendinga og sé það fyrirkomulag óhafandi bæði fyrir landssjóð og Austlendinga.

Vegavinna
Það hefur verið unnið töluvert að vegum hér á Austurlandi undanfarin ári, og hafa það verið mest Sunnlendingar, er unnið hafa að vegagerðinni; þó hafa nokkrir Austlendingar hingað til fengið þar vinnu, þar til í ár, að vegabótastjórarnir hafa neitað flestum Austfirðingum um vinnu og það þó þeir hefðu verið með þeim áður, og reynst vel og vegabótastjórarnir bera það fyrir að, vegfræðingur landsins, Sigurður Thoroddsen, vilji helst enga hafa í vinnunni nema Sunnlendinga.
Þetta fyrirkomulag virðist oss óhafandi, bæði fyrir landsjóð og oss Austlendinga.
Landssjóður tapar á því, að launa mönnunum miklu lengur að sunnan, og svo mun hann borga eitthvað af ferðakostnaðinum.
En vér Austlendingar virðumst að standa næstir atvinnunni í okkar eigin landsfjórðungi. Það væri fróðlegt að reyna það, hvernig Sunnlendingar tækju því, ef teknir væru menn nær eingöngu héðan að austan til þess að vinna að vegabótum hjá þeim. Og vér fáum ekki séð, að Sunnlendingum beri nokkur forgangsréttur til vegabótavinnu í öðrum landsfjórðungum. Og svo er nauðsynlegt að aðrir venjist og læri þá vinnu en Sunnlendingar einir, svo að kunnátta sú geti komið öðrum landsmönnum að notum við vegalagningu á sýslu- og hreppavegum.
Sýslunefnd Norður-Múlasýslu lagði í vetur töluvert fé til vegagerða hér í fjörðunum, er Bjarni gullsmiður Sigurðsson hefur tekið að sér að láta vinna, og mun hann vel kjörinn til þess starfa, enda hefur hann undanfarin ár unnið að vegagerðum með Magnúsi Vigfússyni. En til allrar óhamingju hafði eigi verið séð fyrir að hafa til nein vegabótaverkfæri, svo hætt er við að vinnan geti varla gengið eins greitt og hefðu þau verið í góðu lagi. Er það sorglegt hugsunarleysi af þeim, sem um það áttu að sjá í tæka tíð.


Þjóðólfur, 14. júní, 1901, 53. árg., 29. tbl., bls. 114:
Sigurður Thoroddsen svarar hér gagnrýni þingmálafundar Árnesinga og útskýrir hvers vegna ekki hafi verið gerðar nákvæmar áætlanir um brú á Sogið.

Brú á Sogið.
Í Þjóðólfi, 24. tölublaði þ.á., er skýrt frá því að á þingmálafundi Árnesinga, sem nýlega var haldinn á Selfossi, hafi meðal annars verið samþykkt áskorun til Alþingis “um að veita fé úr landssjóði til brúargerðar á Soginu, samkvæmt tillögu sýslunefndar. Jafnframt lýsti fundurinn megnri óánægju sinni yfir því, að engin skýrsla liggi enn fyrir frá verkfræðingi landsins um kostnað við brúna, þrátt fyrir ítrekaðar bænir héraðsbúa og skorar á verkfræðing að láta uppi álit sitt hér að lútandi svo tímanlega, að áætlunin verði lögð fyrir næsta þing”.
Þar eð ég verð að álíta, að fundarmenn hefðu ekki samþykkt slíka óánægju yfirlýsingu, ef þeir hefðu kynnt sér nægilega þetta mál, sem þeir voru að fjalla um – og getur maður ekki með sanngirni krafist þess af opinberum fundi, áður en hann fer að ráðast á einstaka menn? – verð ég að skýra þeim frá málavöxtum.
Samkvæmt áskorun landshöfðingja fór ég síðasta þingsumar – í ágúst – austur að skoða brúarstæði á Ytri-Rangá og Soginu; ég mældi bæði brúarstæðin og sendi landshöfðingja eftir nokkra daga teikningu og kostnaðaráætlun af brú yfir Rangá, en gat þess jafnframt í bréfi mínu, að ég hefði mælt brúarstæði á Soginu hjá Alviðri, og myndi eftir lauslega áætlun, hengibrú (ca. 60 álnir á lengd) þar kosta um 15.000 kr., en ég áliti að umferðin þar væri eigi svo mikil, að forsvaranlegt væri að leggja út í svo mikinn kostnað til brúargerðar, einkanlega þar sem brúarstæðið væri svo hentugur staður fyrir dragferju, því að þar legði fljótið mjög sjaldan og mætti því notast við ferjuna mestan hluta árs; þessi dragferja áleit ég að myndi nægja fyrst um sinn, þangað til umferðin yrði svo mikil, að þörf þætti á brú; dragferjan myndi kosta svo lítið, 2-3000 kr. eftir útbúnaði og gæðum, að sýslunni myndi ei ofvaxið að koma henni á.
Ég hafði mjög nauman tíma þá – hafði brugðið mér snöggvast til þessara mælinga frá Örnólfsdalsbrúnni, sem ég var þá að koma á – og þess vegna sendi ég ekki teikningu né sundurliðaða áætlun yfir brúna, enda áleit ég, að það myndi ei vera til mikils að koma með fjárbeiðni til þingsins, þegar mín tillaga hlaut að vera sú, að ekki yrði sett brú á Sogið fyrst um sinn.
Síðan hef ég ei heyrt neitt um þetta mál og hef ei fengið neina áskorun frá landshöfðingja um það, að koma með sundurliðaða áætlun, svo ég hef staðið í þeirri meiningu, að sýslubúar væru hættir við brúarhugmyndina og væru farnir að undirbúa dragferju.
Auðvitað skipti ég mér ekkert af þessari fundarsamþykkt undir þessu ókurteisisformi, en ekki veit ég, hvað ég hefði gert, ef þeir hefðu “privat” snúið sér til mín. – Nú verða þeir, ef þeir vilja halda þessu máli áfram, að snúa sér til landshöfðingja og það er þá undir því komið, hvort honum finnst ástæða til þess að gerð verði sundurliðuð áætlun yfir brúargerðina.
Möðruvöllum 29. maí 1901.
Sig. Thoroddsen.
* * *
Athgr. Það var í sjálfu sér gott að fá þessa skilagrein frá verkfræðingnum. Af henni sést, að ekki hefur verið gerð enn nein sundurliðuð áætlun um brúargerð þessa á Soginu eða um kostnaðinn við brú þessa, og hafa þó Árnesingar oftar en einu sinni farið þess á leit. Brúarinnar er full þörf á þessum stað, því að 2 fjölmennustu hreppar sýslunnar, sem inniluktir eru af óbrúaðir sundvötnum, Grímsnes- og Biskupstungnahreppar, mundu almennt nota brú þessa, bæði niður á Eyrarbakka og hingað til Reykjavíkur. Að vísu væri dragferja betri en ekki í bráð, en úr því að fyrr eða síðar verður óhjákvæmilegt að byggja hengibrú þarna yfir Sogið, virðist lítil ástæða að káka við dragferju fyrst, enda munu sýslubúar heldur vilja vinna til að bíða um stund, til að fá þar reglulega hengibrú, heldur en að fara að kosta þar dragferju til bráðabirgða. Hitt er annað mál, hvað þeir neyðast til að gera, ef þingið vill ekkert sinna réttmætum óskum þeirra og enginn verkfræðingur fæst til að semja áætlun um kostnaðinn, eða verður látinn gera það, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur héraðsbúa. Vonandi skýrir landshöfðingi frá því á þingi, hvers vegna þetta hefur farist fyrir til þessa.
Ritstj.


Þjóðólfur, 23. júní, 1901, 53. árg., 37. tbl., bls. 147:
Frumvarp á Alþingi um Brúargerð á Jökulsá í Axarfirði.

Alþingi.
_
Brúargerð á Jökulsá í Axarfirði frá Pétri Jónssyni (að verja til hennar allt að 50.000 kr. úr landssjóði).


Þjóðólfur, 28. júní, 1901, 53. árg., 32. tbl., bls. 124:
Á þingmálafundum í Borgarfjarðarsýslu var ályktað um vegamál.

Þingmálafundir í Borgarfjarðarsýslu.
_
8. Að veitt sé fé til að halda áfram vegagerðinni frá Akranesi upp eftir héraðinu og Laxá brúuð.
9. Að veitt sé fé til brúar á Grímsá á aðalpóstleið (hjá Fossatúni).
10. Óskað bóta á veginum yfir Uxahryggi (milli Borgarfj. og Árness).

Þjóðólfur, 9. júlí, 1901, 53. árg., 34. tbl., bls. 134:
Hér er sagt frá vígslu hinnar nýju hengibrúar yfir Hörgá, sem þykir hið mesta mannvirki og hefur verið á fjórða ár í byggingu.

Hörgár-brúin.
Hinn 22. júní var ný hengibrú úr járni, yfir Hörgá á Staðarhyl, fyrir framan og neðan Möðruvelli, vígð. Til brúar þessarar veitti þingið 1897 7.500 krónur móti því, að sýslubúar legðu annað eins fram, og hefur brú þessi þannig verið á fjórða ár í smíðum, sem orsakast af ýmsum óhöppum, sem fyrir hafa komið, enda hefur hún orðið talsvert dýrari en ráð var fyrir gert, undir 19.000 kr. Brúin er 78 álnir á lengd og 4 ál. á breidd og að öðru leyti mjög svipuð öðrum járn-hengibrúm, sem komnar eru upp. Sigurður Thoroddsen hefur verið aðalverkstjóri við hana og undir honum Páll barnakennari Jónsson á Akureyri, sem er mjög verkhygginn maður. Af hálfu sýslunefndarinnar í Eyjafjarðarsýslu hafa þeir Stefán kennari Stefánsson á Möðruvöllum og Klemens sýslumaður Jónsson haft aðalframkvæmdina.
Vígsludagurinn varð fyrst ákveðinn 3 dögum á undan, og aldamótahátíð Þingeyinga var haldinn á Ljósavatni daginn áður, og dró þetta hvorttveggja úr aðsókn, og mættu þó á 6. hundrað manns við vígsluna. Klemens sýslumaður Jónsson hélt aðaræðuna, og því næst hélt Stefán kennari Stefánsson ræðu fyrir verkamönnunum. Fleiri ræður voru haldnar á eftir og kvæði sungin, og fór allt mjög vel og reglulega fram.
Eyfirðingum þykir þetta góð samgöngubót, enda hafa þeir lagt mikið gjald á sig til að koma brúnni upp. Nú vantar aðeins veg að henni, en þar sem póstvegurinn, sem liggur um Möðruvelli, er bæði ófullkominn og afarkrókóttur, þá vænta þeir, að nýr vegur verði bráðlega lagður frá Akureyri beint frá Kræklingahlíð að brúnni og þaðan fram að Þelamörk, eins og leið liggur nú vestur yfir heiði.
S.


Þjóðólfur, 9. júlí, 1901, 53. árg., 34. tbl., bls. 134:
Á þingmálafundi Sunnmýlinga voru vegamál talin þau mikilvægustu.

Þingmálafundur Sunnmýlinga.
_
Eftirfarandi tillögur voru ræddar og samþykktar:
. Samgöngumál:
. Fundurinn skorar á báða þingm. sína að gera allt, sem í þeirra valdi stendur til, að fé verði lagt úr landsjóði á þessu þingi til akbrautarlagningar um Fagradal, sem fundurinn skoðar eitt fyrsta lífs- og framfaraskilyrði Fljótsdalshéraðs. Akbraut yfir Fjarðarheiði er fundurinn algert mótfallinn og vill heldur bíða betri tíma í akbrautarmálinu, en að lagt verði fé til akbrautar yfir hana.
. Fundurinn skorar á þingið að hlutast til um, að Selfljótsós verði mældur upp til uppsiglingar fyrir strandbátana.
. Fundurinn skorar á þingið, að breyta vegalögunum í þá átt, að þeim hluta sýsluvegagjaldsins, sem lagður er til póstvega, verði hér eftir ráðstafað af sýslunefnd.
. Fundurinn skorar á þingið, að veita fé til brúargerðar á Grímsá, að minnsta kosti til jafns við sýslufélög.


Þjóðólfur, 12., 19. júlí og 3. ágúst, 1901, 53. árg., 35., 36. og 39. tbl.:
Hér skrifar Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur langa grein um sakamálarannsóknina gegn Einari Finnssyni vegaverkstjóra, en Sigurður varð einmitt til að hleypa því máli af stað.

Sakamálsrannsóknin gegn Einari Finnssyni.
Ég hef lengi ætlað mér að skýra almenningi frá sakamálarannsókn þeirri, er hafin var gegn Einari Finnssyni útaf kæri minni gegn honum 16. desemb. 1899, en mér hefur satt að segja þótt það mál allt svo ljótt og leiðinlegt, að ég hef kynokað mér við að vera að hreyfa við því, en hinsvegar hef ég ekki getað varðið það fyrir samvisku minni að láta kæfa slíkt mál niður eða drepa það með þögninni, og þar sem ég nú nýlega hef stigið hið fyrsta spor í þá áttina að leiða þetta mál fram í ljósið, með því í vetur, þegar ég var í Kaupmannahöfn, að skýra íslenska ráðuneytinu – bæði munnlega og skriflega – frá því og meðferð þess, álít ég tíma til kominn að láta einnig almenning fá nokkra hugmynd um það. – Þetta sem ég hér segi verður því að miklu leyti samhljóða bréfi mínu til ráðuneytisins. –
Í desembermánuði 1899 fékk ég vitneskju um það, að nefndur verkstjóri hefði borgað mörgum verkamönnum, við vegamönnum í Holtunum og Svínahrauni sumarið 1899, minna kaup en stóð á kaupskránum, tveir af verkamönnum (Ólafur Oddsson og Guðmundur Magnússon) sögðu mér, að það væri í almæli meðal verkamanna, að margir þeirra væru “gerðir út” af verkstjóra, bróður hans Högna og mági hans Ólafi Péturssyni, þannig að þeir fengju minna kaup útborgað en stæð á kaupskránum – er landsjóður borgaði eftir – og mismuninum, ágóðanum stingju svo þessir þrír menn í sinn eigin vasa; Ólafur Oddsson var sjálfur einn í þeirra tölu, er minna kaup fengu en á stóð, hann fékk að eins 2 kr. á dag – eins og hann var ráðinn upp á, en stóð á kaupskránum með 2,80 kr.; mismuninn fékk hann þó útborgaðan hjá E. F., er hann kvartaði um þetta á landshöfðingjaskrifstofunni. –
Nú fór ég að rannsaka kaupskránar, sem ég hafði undir höndum og spyrja um dagsverkatölu verkamanna, og varð þá var við, að margir verkamannanna stóðu með fleiri dagsverk á skránum, en þeir í raun og veru höfðu unnið og fengið borgun fyrir; ennfremur var altalað, að einn verkamaður (Sig. Daníelsson), sem hafði leigt landssjóð til vegavinnunar 14 hesta um sumarið, hafði að eins fengið 35 kr. fyrir hvern hest, en eftir kvittuðum reikningunum átti hann að hafa fengið um 65 kr. fyrir hestinn (það verður um 400 kr. munur á þessum eina pósti).
Ég kærði á E.F. skriflega fyrir bæjarfógetanum fyrir sviksamlega meðferð á vegafénu “sér og sínu skyldfólki í hag” og fyrir fölsun á vegareikningunum og færði sem ástæðu fyrir grun mínum frásagnir hinna tveggja áðurnefndu verkamanna, meðala annars skýrði ég frá því, að annar þeirra (G.M.) stæði fast á því, að hann hefði aðeins unnið í 92 daga, en á kaupskránum, sem ég afhenti bæjarfógeta, stóð 121 dagsverk, ennfremur, að bæði þessi vitni mín sögðu að dagsverkatalan, kaupgjaldið og peningaupphæðin, hefðu staðið skrifuð með blýanti á skránum, þegar þeir kvittuðu, enda sást það greinilega á þeim, að skrifað hafði verið með blýandi fyrst, en svo viskað út og skrifað með feitu letri ofan í. – Ég nefndi einnig frásögn vottana um það, að margir af hestunum sérstaklega þessir 14, sem áður voru nefndir og svo eitthvað af hestum verkstjórans hefðu verið svo margir og illa útlítandi, að varla hefði verið hægt að brúka þá framan af. –
Þetta virðast mér nu vera fremur þung ákæra og ég gat ekki hugsað mér annað en verkstjórinn yrði strax tekinn fastur, þar sem hann var kærður fyrir svo stórkostleg fársvik og svo sterkur grunur lá á honum, enda eru mörg dæmi til þess, að menn hafa verið settir í gæsluvarðhald fyrir minni sakir, já, það er óhætt að segja, að slíkt sé einsdæmi, ef menn ekki eru teknir fastir í líkum tilfellum; það hlýtur og að vera hverjum manni skiljanlegt, að illt muni vera að rannsaka svona lagað mál, ef ákærði hefur fullt frelsi og leyfi til þess að vera sig saman við þau vitni, sem yfirheyrð eru eða kunna að verða; ég hef heyrt marga lögfræðinga segja, að það væri yfir höfuð að tala ómögulegt að rannsaka þannig löguð mál til hlítar, nema gæsluvarðhald væri viðhaft.
Og sérstaklega var ástæða til varðhalds í þessu máli, þar sem svo á stóð, að rannsóknin varð að mestu leyti – eða því nær eingöngu – að byggjast á yfirheyrslu verkamanna þeirra, er höfðu verið í vegavinnu hjá ákærða og hann hafði gefið atvinnu; þetta voru því allt hans undirmenn; verkstjórinn hefur voðalegt vald yfir þeim; þeir eru honum alveg háðir með tilliti til vegavinnu framvegis; þeir hugsa sem svo, sérstaklega þegar hann er ei tekinn fastur, að þetta sé ekki svo hættulegt fyrir hann, það verði ef til vill ekkert úr þessu máli og hann verði verkstjóri áfram eða þá að minnsta kosti hans hægri hönd við vegagerðirnar, mágur hans Ól. Pétursson – sem og varð – og þá er skiljanlegt, að þeir hugsi sig tvisvar sinnum um, áður en þeir fara að bera nokkuð gegn honum; að minnst kosti er það sterk freisting yfir þá að þegja um mest af því, sem þeir vita. – Einnig virtist í þessu tilfelli sérstök ástæða til húsrannsóknar til þess að sjá uppteiknaðir, reikningsskjöl og – bækur verkstjóra, hvort það stæði heima við kaupskránar; en til þess þurfti auðvitað gæsluvarðhald. –
En bæjarfógeta hefur virst þetta nokkuð á annan veg; honum virtist engin ástæða til gæsluvarðhalds; mönnum úti í frá þótti þetta því undarlegra, sem menn þekktu ekki bæjarfógetann að því, að hann væri sérlega smeikur við að taka menn fasta; menn mundu, að það var ekki svo ýkjalangt síðan, að hann hafði látið taka Sig. Júl. Jóhannesson fastan – á götunni – og gera strax húsrannsókn hjá honum; og hvað hafði svo Sig. Júl. Jóh. gert? Hann hafði verið beðinn fyrir að senda 2-300 kr. upp á Mýrar, en þeir peningar voru ekki komnir til skila og einhverjar vöflur á honum með það, hvernig hann hefði sent þá. Við skulum bera þetta tvennt saman. E. F. er grunaður sterklega um stórkostlega fjársvik og fölsun á vegareikningum; Sig. J. um, ef till vill, að hafa brúkað peninga, sem hann átti að senda. Vitnin, sem þarf að yfirheyra í fyrra málinu, eru mjög svo háð ákærða; í seinna málinu þarf engan að yfirheyra, nema ákærða sjálfan og, ef til vill, 1 eða 2 aðra, sem ákærði getur genginn áhrif haft á. – Í fyrra málinu sýnist afarnauðsynlegt, til þess að komast að sannleikanum, að rannsaka skjöl og reikninga verkstjóra, í seinna málinu er ef til vill nokkur þörf á því, en þó ekki nálægt því eins brýnt og í hinu; samt er Sig. J. strax tekinn fastur og gerð húsrannsókn hjá honum, en Einar F. látinn ganga frí og frjáls, svo að hann hefði vel getað notað tækifærið til þess að hafa áhrif á og rugla vitnin með leyfilegu og óleyfilegu móti. – Er þetta réttvísi? Það skilja fáir. –
Vikutíma eða svo, eftir kæru mína, fór ég til fógeta til þess að spyrja um það, hvort nokkuð hefði komið fram í prófunum – þau voru leynileg – sem studdi grun minn, en bæjarfógeti virtist fremur verja verkstjóra og sagði, að það liti út fyrir að vera aðeins vond reikningsfærsla hjá manninum og óaðgæsla, hann væri auðsjáanlega enginn reikningsmaður, og varaði mig jafnvel við því að fara of freklega út í þetta mál, því að það gæti litið út eins og ég væri að ofsækja manninn af tómu hatri. –
Þegar ég nú sá, að þessir fyrstu kærupunktar, sem ég áleit að myndu vera nægilegir til þess að málið yrði ítarlega rannsakað, ekki hrifu, og það leit út fyrir, að rannsóknardómarinn aðeins tæki fyrir þau atriði sem ég hafði bent á, en reyndi ekki að grennslast eftir meiru, fór ég að rannsaka kaupskrárnar betur og fann margt fleira áhugavert, sem ég tilkynnti bæjarfógeta, og sem ég vil ekki þreyta menn með því að telja upp hér, – en það hafði lítið upp á sig. –
Loks sá ég mig knúin til um veturinn að takast ferð á hendur austur í Holt, þar sem margir af verkamönnum áttu heima, til þess að safna fleiri gögnum og upplýsingum í málinu, þegar ég sá að bæjarfógeti gerði engar ráðstafanir til þess að þessir menn yrðu yfirheyrðir. – Þar kom hið sama í ljós; margir verkamannanna höfðu fengið minna kaup en á stóð á kaupskránum, aðrir sögðust hafa unnið færri daga en skrárnar tiltöku. – Þegar ég kom aftur til Reykjavíkur og hafði fyrir rétti skýrt frá þessum nýju upplýsingum, fékk bæjarfógeti skipun frá amtmanni um að láta hlutaðeigandi sýslumenn yfirheyra þessa verkamenn. – En þá bregður svo undarlega við, að um sama leyti og sýslumennirnir fá tilmæli um það að yfirheyra vitnin fær verkstjórinn leyfi til að fara austur í Árnes- og Rangárvallasýslur – og leyfi hlýtur hann að hafa fengið, því að bæjarfógeti var búinn að segja honum fyrir rétti, að hann mætti ekki fara úr bænum án leyfis – og verkstjórinn er kominn austur að Rangá deginum áður en sýslumaður Rangvellinga fær bréfið frá fógeta; verkstjórinn hefði því vel getað verið búinn að hafa tal af öllum verkamönnunum þar eystra, áður en nokkur próf byrjuðu, og almenningur hlaut að skilja það svo, að meining með ferðalagi verkstjórans væri að tala dálítið við vitnin fyrst. –
Sigurður Thoroddsen.
Sakamálsrannsóknin gegn
Einari Finnssyni
II.
Þegar meðferð málsins var þannig og rannsókn þess svona léleg, getur maður vel hugsað sér, að það hafi ekki sannast sérlega mikið. – Þegar vinnudagarnir vor of margir á kaupskránum eða peningaupphæðin þar ekki var hin sama og verkamennirnir höfðu fengið útborgað, þá var það eins óaðgæsla og vangá frá verkstjórans hálfu og reikningsfærsla hans – sögðu menn – var mjög léleg og ruglingsleg. –
Nokkrir verkamanna, sem voru grunaðir um að hafa fengið minna kaup en stóð á kaupskránum, sögðu fyrir rétti, að þeir hefðu fengið allt, sem þeir hefðu átt að fá; þannig sagði eitt vitnið (Sig. Ámundsson), sem grunaður var um að hafa fengið aðeins 2 kr. í kaup hjá verkstjóra, að hann hefði fengi 3 kr. á dag, eins og stóð á skránum; annar verkamaður (B. Bj.) bar reyndar fyrir rétti, að Sig. Ám. hefði sagt sér, að hann hefði fengið aðeins 2 kr., en Sig. Ásm. sagðist ekki reka minni til þess; 2 önnur vitni (Ól. Odds. og G. Magn.) sóru það, að bróðir verkstjóra (Högni) hefði sagt sér, að Sig. Ám. hefði aðeins fengið 2 kr. í kaup, en Högni sagðist ei muna það; loks sór Ól. Oddss., að verkstjóri sjálfur hefði sagt sér, að Sig. Ám. fengi aðeins 2 kr., en verkstjóri sagði það ósatt, aðhann hefði talað slíkt. – Þessi mismunandi framburður var nokkuð undarlegur og svo var að sjá, sem einhver þessara 6 hlyti að segja ósatt fyrir rétti, en bæjarfógeti lét nægja þetta og fór ekki að rekast meira í því; ekki skiptir hann sér heldur mikið af því, þótt eitt vitnið (B. Bj.) segði, að það hefði heyrt annan verkamann (Ögmund á Hurðarbaki) segja, að Sig. Ám. hefði aðeins 2 kr. á dag; bæjarfógetinn var ekki að hafa fyrir því að láta yfirheyra Ögmund um slíkt, þótt það virðast hafa verið áríðandi til þess að reyna að komast fyrir sannleikann.
Ennfremur sagði maðurinn með 14 hestana (Sig. Dan.), að hann hefði fengið 65 kr. fyrir hvern hest, en hann varð að játa það, að hann hefði sagt mörgum áður, að hann fengi aðeins 35 kr. fyrir hestinn, en það hafði hann aðeins sagt til þess að bændur þar í sýslu ekki skyldu öfunda sig of mjög af sínu happi. – Annars eru þau eitthvað einkennileg viðskiptin þeirra, verkstjórans og Sig. Dan.; verkstjóranum hefur auðsjáanlega litist vel á þann mann; auk þess sem hann fær hjá honum þessa 14 hesta í vinnuna, felur hann honum að ráða 4 menn til hennar, en allir þessir 4 menn fengu aðeins 2 kr. í kaup (eða minna), en stóðu með 2,75-2,80 kr. á skránum. Verkstjóri segir, að Sig. Dan. og annar verkamaður – sem varð veikur – hafi haft ágóðann af þessum mönnum, nema af einum manninum, þar tók verkstjórinn sjálfur gróðann, og fyrir þetta eina atriði var hann dæmdur af undirdómaranum í 14 daga einfalt fangelsi og málskostnað. –
Þrátt fyrir hina lélegu rannsókn sannaðist það þó um fleiri, að þeir höfðu fengið minna kaup en stóð á kaupskránum, en þá var það annað hvort bróðir verkstjórans (H.F.) eða mágur (Ól. Pj.), sem höfðu haft gott af því. – Þar að auki höfðu náttúrlega verkstjórinn, mágur hans og bræður vinnumenn sína í vegavinnunni með háu kaup. –
Sem dæmi þess, hve ósparir þeir hafa verið á fé landsins, mágarnir E. F og Ól. Pj., má nefna vetrarvinnuna við grjótflutning að Steinslækjarbrúnni í Holtunum; það var veturinn 1898 frá okt. til des. – Verkstjórinn átti að sjá um þetta starf og hann setti til þess 4 menn, mág sinn Ól. Pj. með kaupið 4,20 á dag, bróður sinn Högna með 3,70 á dag, vinnmann bróður síns annars með 2,80 og fjórða mann, Jónas Jónsson með 2,75: þetta varð landsjóður að borga fyrir utan verkstjóri sjálfum 4,50 á dag; þetta virtust nokkuð hádaglaun um háveturinn við svo vandalausa vinnu, því að auðvitað hefur verið hægt að fá nóga menn fyrir 2 kr. á dag og einn með 2,50-3,00 til þess að hafa eftirliti með verkinu, enda gerði ég athugasemd við þetta til landshöfðingja, þegar ég sá reikninginn en E. F. svaraði engu nema ósvífnisorðum um mig. – Þetta svar sá ég fyrst nýlega, einungis af tilviljun, – og við það var látið sitja og reikningurinn ávísaður. – En svo uppgötvast það seinna, að 4. maðurinn Jónas Jónsson, sem átti að hafa 2,75 á dag, fékk í raun og veru aðeins 1 kr. um daginn; Ól. Pét., sem nú er orðinn eftirmaður Einars sem verkstjóri, hefur ráðið manninn fyrir þetta og svo stungið mismuninum í sinn eigin vasa, og auðvitað vissi E. F. vel um þá ráðningu, því að hann borgaði honum nokkuð af þessu kaupi, svo að líklega hafa þeir eitthvað verið saman um þetta. –
Sig. Thoroddsen
Sakamálsrannsóknin gegn
Einari Finnssyni
III.
(Síðasti kafli)
Þótt koma mætti með ótal dæmi, er köstuðu nokkuð einkennilegu ljósi fyrir rannsóknina við undirréttinn í þessu máli, vil ég að þessu sinni láta mér nægja að koma með tvö:
Annað er þannig; Einn verkamaðurinn (Guðm. M.) hafði unnið í rétta 92 daga, en á kaupskránum stóð hann með 121 dagsverk. Það voru tvær kaupskrár fyrir allt sumarið, nefnilega 1 kaupskrá fyrir vinnuna í Holtunum og þar stóð G.M. með 88 dagsverk, og ein kaupskrá fyrir vinnuna í Svínahrauni og þar stóð hann með 33 dagsverk, til samans 121 dagsv., það var þannig 29 dagsverkum of mikið hjá G. M. – Verkstjórinn segir nú, að það sé ritvilla 88 dagsverk, það hafi átt að standa 58, og G. M. hafi hlotið að vinna aðeins 91 dagsverk en ekki 92, því að þá kemur það rétt út; 58+33=91.

Dags-
Nöfn: v.tala á dag verður Kvittun
Guðm. Magnúss 88,00 2,60 228,80 G. Magnúss
(58) (2,60) (150,80)

Verkstjóri segist nefnilega fyrst hafa skrifað kaupskárnar með blýanti, bæði dagsverkatölu, daglaun og kaupgjalds upphæðina, og verkamenn hafi kvittað á skrána ritaða með blýanti. – Þá hefur eftir því staðið á skránni 150 kr. 80, eins og verkamaðurinn (G. M.) fékk útborgað; – en svo segir verkstjóri, að í ógáti hafi skrifast 88 í stað 58, þegar ritað var ofan í blýantsskriftina með bleki; þetta tekur dómarinn fyrir góða og gilda vöru, en ekki dettur honum í hug að spyrja, hvernig jafnframt því að 58 breytast í 88, 150,80 fara í ógáti að breytast í 288,80, því að það sýnist næsta undarlegt.
Hitt dæmið er þannig; Einn verkamaður (Grímur Ásgr.) stóð á Svínahrauns-kaupskránni með 41 dagsverk, en það komst upp, að hann hefur alls eigi unnið þar eitt dagsverk og hefur auðvitað heldur eigi fengið neina borgun fyrir vinnu þar. — Verkstjóri getur eigi borið annað fyrir sig, en að hann sé ófullkominn í reikningsfærslu, og hann getur eigi gefið aðra skýringu á þessu en þá, að hann hafi í ógáti og hugsunarleysi “fært inn dagsverk og kaup hjá Grími, eins og hjá manninum næst fyrir ofan” á kaupskránni. Bæjarfógeta virðist þessi skýring ekki ósennileg, þar á móti sýnist yfirréttinum þessi viðbára næsta ólíkleg, enda er ómögulegt að hugsa sér annað, en að verkstjóri, þegar hann færir inn dagsverkin í kaupskránar, skrifi þau upp úr einhverjum blöðum eða bók, en ekki bara í blindni; svo hefur Grímur, og sá sem næst er á undan, alls eigi sama kaup; Grímur hafði 2,75 en hinn 2,80 um daginn; hvers vegna skrifaði hann þá ekki í ógáti 2,80 hjá Grími, úr því hann skrifaði sömu dagsverkatöluna hjá hinum? –
Það er hálf undarlegt að heyra alltaf þá viðbáru, að E. F. sé ekki svo fullkominn í reikningsfærslu sem skyldi, en svo er samt mest að athuga við síðasta ársreikninga hans, en miklu færri vitleysur í fyrri ára reikningum. Það er því svo að sjá sem þessi verkstjóri sé ólíkur öðrum mönnum í því, að honum getur ekki farið fram við æfinguna, nei, honum hrífer aftur og verður því verri og verri í reikningsfærslu, sem hann fær meiri æfingu og reynslu í einni
Einnig er það hálfundarlegt, þegar ákærði segir, að hann hafi skrifað vinnudaga verkamannana upp á laus blöð – sem hann svo samdi kaupskrárnar eftir – og hann sé búinn að glata, því að fyrst og fremst er enginn sá verkstjóri til – það ég veit – svo aumur, að hann ekki skrifi vinnudagana í bækur eða strikaðar kompur, og svo veit ég það, að E. F. pantaði fyrir landsjóð árið 1894 frá Noregi 4 prentaðar daglaunabækur í sterku leðurbandi – eins og þær tíðkast við vegagerðirnar í Noregi – og af þessum bókum fékk hann eina og 3 aðrir verkstjórar hinar; nú eru þessi 3 verkstjórar ekki enn búnir að skrifa út sínar bækur, og svo veit ég það, að E.F. hefur nýlega pantað frá Noregi daglaunabók fyrir annan verkstjóra, svo að hann hefur átt góðan aðgang að því að útvega sér bók, ef hann hefur verið búinn með hina; og svo er það hálfótrúlegt, að hann skuli byrja á því að skrifa vinnudagana inn í bók og gera það í nokkur ár, en hætta því svo skyndilega og fara að skrifa á laus blöð, sem hann kastar svo í burtu, eða því skyldi hann gera það? –
Ekki hefur bæjarfógeti grennslast mikið eftir þessu atriði, hann virðist taka allt trúanlegt sem E. F. segir. –
Eins og menn vita dæmdi yfirrétturinn í þessu máli 7. nóv. f. á og komst að sömu niðurstöðu, hvað hegninguna snertir, en gat þess jafnframt, að málið væri fyrir undirrétti eigi rannsakað svo vel sem skyldi, en hann vildi þó eigi vísa málinu heim aftur vegna þess, að hann hélt að ný rannsókn, svo seint, yrði árangurslaus. –
Til hæstaréttar var málinu eigi áfrýjað. –
Talsvert meira mætti segja um þetta mál, en það getur beðið betri tíma. –
Mörðuvöllum í Hörgárdal 18. júní 1901
Sig. Thoroddsen.


Þjóðólfur, 12. júlí, 1901, 53. árg., 35. tbl., bls. 140:
Snæfellingar hafa áhuga á því að haldið verði áfram vegalagningunni frá Borgarnesi í Stykkishólm.

Á þingmálafundi Snæfellinga – samþykktar ályktanir.
_
7. Samgöngumál: “Fundurinn skorar á Alþingi að leggja fram nokkurt fé á næsta fjárhagstímabili hingað í sýslu til framhalds veginum úr Borgarnesi til Stykkishólms_


Þjóðólfur, 19. júlí, 1901, 53. árg., 36. tbl., forsíða:
Lagt er fram frumvarp á Alþingi um brúargerð á Ytri-Rangá.

Alþingi.
_
Brúargerð á Ytri-Rangá (25.000 kr. úr landssjóði gegn 7.000 kr. tillagi úr sýslusjóði) frá þingmönnum Rangæinga.


Ísafold, 20. júlí, 1901, 28. árg., 49. tbl., bls 195:
Hér svarar Magnús Torfason þingmaður kollega sínum og ritstjóra Þjóðólfs, en þessir þingmenn Sunnlendinga virðast hafa orðið ósáttir á þingi um frumvarp þess efnis að kostnaði við brýrnar á Ölfusá og Þjórsá skyldi létt af Sunnlendingum og fært á landssjóð.

Brúarmálin og eftirgjöf láns.
Að níða náungann.
Ritstjóra Þjóðólfs hefur í dag þóknast að kasta að mér fáeinum orðum, eins og oftar.
Sakir kjósenda minna og þess annars, að framkoma hans í þessu máli er mun óheppilegri en búist var við, jafnvel af honum, tel ég mér skylt að svara ritstjóranum fáeinum orðum, enda þótt ég hingað til hef gengið fram hjá hnútum blaðsins í minn garð með algerri fyrirlitningu.
Samkvæmt áskorun úr Árnes- og Rangárvallasýslum bárum vér þingmenn þeirra upp frumvarp um að létta kostnaði við gæslu Ölfus og Þjórsárbrúa af sýslunum og leggja hann á landssjóð. Nefnd var kosin í málið og öðlaðist ritstjórinn ekki þá virðingu að komast í hana. Þetta sárnaði honum í meira lagi, og til þess að svala reiði sinni lýsir hann því við framhald 1. umræðu yfir, að hann geti vel fallið frá þessu frumvarpi, sem hafði að geyma þá kröfuna, er helst hafði fylgi í þingdeildinni. Rétt á eftir veltir hann sér með þeim fítonsanda yfir þingmann Rvíkinga, að það – eins og einn orðheppinn þingmaður komst að orði – talaði á honum hver tuska, fyrir þá ofurmeinhægu athugasemd, að hann (Tr.G.) gæti ekki gefið þessu frumvarpi atkvæði sitt, en vildi í þess stað styðja verkleg framfarafyrirtæki Árnesinga.
Mér gat ekki annað en sárnað þessi framkoma þingmannsins, gat þess með hægð, að mig hefði furðað á, að hann skyldi hlaupa undan merkjum í fyrsta áhugamáli kjósenda sinna, um leið og ég benti á, að við misjöfnu hefði mátt búast við af honum, þar sem hans fyrsta verk á þingi hefði verið að berjast fyrir launahækkun eins sýslumanns, þvert ofan í allt talið í Þjóðólfi um þá hálaunuðu.
Úr því ég á annað borð tók mér penna í hönd, virðist mér rétt að geta þess til leiðbeiningar fyrir kjósendur ritstjórans, að það er nú komið á daginn, að ræður hans í þessu máli verða allt öðruvísi í þingtíðindum en í þingsalnum, og er því lítið mark á þeim að taka.
Það er alls ekki meining mín með þessum orðum að kasta rýrð á 1. þingmann Árnesinga og er mér ljúft að viðurkenna að hann gerir allt fyrir kjördæmi sitt, sem hann með sinni skynsemi orkar; en vinsamleg bending mín er það til hans, að annaðhvort er fyrir hann að hafa sig minna frammi, eða fara að eins og góðu börnin og spyrja hana mömmu sína um, hvað hann eigi að segja.
18. júlí 1901
Magnús Torfason


Ísafold, 24. júlí, 1901, 28. árg., 50. tbl., forsíða:
Sigurður Thoroddsen verkfræðingur hefur látið hætta við lagningu Lagarfljótsbrúarinnar þar eð staurarnir í undirstöður reyndust allir of stuttir.

Lagarfljótsbrúin.
Sigurður Thoroddsen verkfræðingur hefur látið hætta við lagningu hennar. Staurarnir reyndust allir of stuttir, þurftu að rekast miklu lengra niður en Barth, norski verkfræðingurinn, hafði sagt fyrir um, og lengd þeirra ekki svo mikil, að unnt sé að reka þá nógu langt. Búið var að reka niður um helming þeirra og allt það verk verður sjálfsagt ónýtt og staurarnir með. Auk þess eru áhöldin, sem notuð eru, ekki svo að unnt sé að reka niður með þeim nógu langa staura. Enn fremur höfðu smiðirnir verið í einhverjum vafa um, hvar ætti að leggja brúna og kenna það ónákvæmum uppdráttum Barths. Smiðirnir voru komnir til Eskifjarðar, þegar síðast fréttist, áleiðis til Kaupmannahafnar.


Ísafold, 24. júlí, 1901, 28. árg., 50. tbl., bls 198:
Framkvæmdum hefur verið hætt þetta sumar við svifferjuna á Lagarfljóti hjá Steinsvaði þar eð ekki reyndist nóg grjót við hendina.

Svifferjan
á Lagarfljóti hjá Steinsvaði, sem landssjóður lætur gera, er í jafn góðum höndum sem Lagarfljótsbrúin, enda hefur sama félag í Khöfn tekið hana að sér. Við hana hefur líka orðið að hætta á þessu sumri. Treyst hafði verið á, að þar væri nóg grjót við hendina, en svo var ekki, nema þá að steinninn sé steyptur, sem þykir of dýrt, og illkleift eða ókleift að flytja að grjót nema í akfæri á vetrum.


Ísafold, 24. júlí, 1901, 28. árg., 50. tbl., bls. 199:
Hér er sagt frá nýrri brú á Brúará sem svo sannarlega væri tímabær, því gamla brúin (ef brú skyldi kalla) var orðin 40-50 ára gömul og stórhættuleg.

Brúará brúuð.
Ný brú er nú lögð á Brúará í Biskupstungum á Steinbogagljúfrinu, svo sem 50 föðmum fyrir neðan gömlu brúna, ef brú skyldi kalla (á sprungunni í miðri ánni).
Brú þessa hina nýju, sem er úr tré, hefur smíðað hr. kaupm. H. Helgason í Reykjavík, og flutt hana austur og lagt hana á ána. Hún er vel traust og öll járnvarin, 25 álna löng og 4 1/2 al. á breidd, en 9 álna hæð frá henni niður að vatni.
Yfir hana fór nýlega 14 hesta lest alklyfjuð, og var ekkert lát á.
Brúin er gerð á landssjóðs kostnað, með því að vegurinn milli Þingvalla og Geysis er landssjóðsvegur.
Kostnaðarreikningur ófullger enn. Hann verður mikill að tiltölu, vegna afar örðugs flutnings. Sumstaðar urðu menn að bera máttarviðina; hestum varð eigi við komið. Um hesta varð og að skipta 4 sinnum á klukkustund, þar sem örðugast var yfirferðar; annars hefðu þeir ekkert enst.
Gamla brúin litla yfir hraunsprunguna í miðjum árfarveginum er þar með úr sögunni. Þar var tími til kominn. Það var sveitin, Biskupstungnahreppur, er hana hafði smíða látið. Hún var orðin 30-40 ára, og farin að fúna, þótt í vatni lægi nær alla tíð. Handrið var eftir henni beggja vegna til skamms tíma, en nú horfið fyrir nokkrum árum og því ærið glæfralegt að fara hana, er áin var mikil og alldjúpt var á brúnni. Enda hrapaði í fyrra hestur út af henni alklyfjaður niður í gljúfrið og hefur ekkert af honum sést síðan.


Ísafold, 31. júlí, 1901, 28. árg., 52. tbl., bls 207:
Hér er merkileg frétt um nefndarálit fjárlaganefndar Alþingis hvað varðar vegamál, en þar er bæði að finna yfirlit um hvernig vegafé hafi skipst milli sýsla undanfarin 10 ár, svo og tillögur fyrir næsta fjárhagstímabil (2 ár).

Landsvegabætur.
Fjárlaganefndin hefur samið og sett í nefndarálit sitt eftirfarandi fróðlega skýrslu um, hvernig varið hefur verið vegafé landsins (til flutningabrauta, þjóðvega og fjallvega) um síðustu 10 ár undanfarin eftir sýslum, þ.e. hvað komið hefur á hverja sýslu:
Sýslur: Kr.
Árness 193.800
Gullbringu- og Kjósar 96.160
Mýra 65.200
Eyjafjarðar 50.600
Húnavatns 38.700
Dala 36.900
Rangárvalla 33.900
Skagafjarðar 32.100
Borgarfjarðar 31.000
Norður-Múla 30.500
Skaftafells 20.130
Suður-Múla 16.100
Stranda 12.800
Suður-Þingeyjar 10.300
Barðastrandar 6.900
Snæfellsnes 2.000
Norður-Þingeyjar 1.100
Ísafjarðar 700

Auk þess eru hér ótaldar ýmsar fjárveitingar til brúa, er veittar hafa verið með sérstökum lögum – segir nefndin.
Fjárlagaálit neðri deildar er nú nýprentað, lengra en dæmi munu til áður.
Hér munu talin nokkur meiri háttar atriði úr því.
Flutningarbrautir. Nefndin segir ókleift að eiga neitt við nýjar flutningabrautir á næsta fjárhagstímabili; leggur aðeins til að lokið sé við eyfirsku brautina (12-14.000 kr); hitt, um 12.000 hvort árið gangi til viðhalds á eldri akbrautum.
Þjóðvegir. Þær 100.000 kr., sem til þeirra eru ætlaðar á fjárhagstímabilinu leggur nefndin til að skiptist þannig:
Til framhalds Borgarnesveginum, frá Urriðaá að Hítará, 25.000 kr.
Til brúar á Skaftá 7.000, gegn því að sýslan leggi til það er á vantar.
Til vegagerðar á Hrútafjarðarhálsi og Miðfjarðarhálsi 12.000 kr.
Þá gangi 10.000 kr. til viðhalds og vegabóta í suðuramtinu og vesturamtinu; 20.000 til vegabóta í Múlasýslum (þar af 8-10.000 á Fjarðarheiði).
Viðhald vega. Nefndin segir, að viðhaldskostnaður við flutningabrautir og þjóðvegi sé orðinn svo gífurlegur, að brátt virðist að því reka, að allt það fé, sem landssjóði er fært að leggja fram til vegabóta á hverju fjárhagstímabili, gangi eingöngu til viðhalds, svo að engu verði varið til nýrra vegagerða. Er því verið að hugsa um að leggja viðhaldið á sýslurnar, með nýjum lögum, enda eðlilegt, segir hún, að þau héruðin, þar sem mestu er varið af fé landssjóðs til vegabóta, leggi að tiltölu meira fram til viðhalds á vegum sínum.
Sýsluvegir. Nefndin vill bæta inn í nýjum gjaldalið, “tillagi til sýsluvega rúmlega 15.000 um fjárhagstímabilið, og ánafnar þar af 5.000 til Breiðadalsheiðar gegn jafnmiklu frá sýslubúum, og annað eins og með sömu skilyrðum til Hellisheiðar m.m. í N-Múlasýslu; þá eiga Skagfirðingar að fá 300 kr. hvort árið til dragferjuhalds á Héraðsvötnum, í (ólæsilegt orð) þess, hve ötulir þeir hafa verið að koma upp brúm í sínu héraði og lagt á sig hátt gjald til samgöngubóta, 12 aura nú á hvert lausafjárhundrað og hvern verkfæran mann.
Til að brúa ósinn í Bolungarvík leggur nefndin með 2.000 kr. fjárveitingu gegn jafnmiklu frá héraðsbúum.
Hörgárbrúin kostaði 4.000 kr. meira en til stóð, eða 19.000 kr., vegna ýmissa óhappa, og vill nefndin hlaupa þar undir bagga með 2.500 kr.


Fjallkonan, 2. ágúst, 1901, 18. árg., 30. tbl., forsíða:
Hér segir Fjallkonan frá tillögum fjárveitinganefndar. Þess skal getið að í fljótu bragði virðist þeim ekki bera alveg saman við fréttir annarra blaða.

Tillögur fjárlaganefndarinnar.
_
Nefndin vill að þeim 4.000 kr., sem gert er ráð fyrir að veita á fjárhagstímabilinu til flutningabrauta, sé varið svo miklu sem þarf af 28.000 kr. fyrra árið til flutningabrautar í Eyjafirði, en hinu til viðhalds á eldri flutningabrautum.
Þeim 100.000 kr., sem áætlaðar eru til þjóðvega á fjárhagstímabilinu, vill nefndin verja þannig:
Til þess að halda áfram veginum vestur Mýrar frá Urriðaá til Hítarár 25.000 kr. , til brúargerðar á Skaftá, gegn því að sýslan leggi til það sem á vantar 7.000 kr., til vegagerðar á Hrútafjarðar- og Miðfjarðarhálsi 12.000 kr., til viðhalds og vegabóta í Suður- og Vesturamtinu 16.000 kr., til vegabóta í Norðuramtinu 20.000 kr., til vegabóta í Múlasýslunum (þar af 8-10.000 kr. til vegagerðar á Fjarðarheiði) 20.000 kr.
_
Til vegagerðar á Breiðdalsheiði vestra og Hellisheiði eystra skal af tillagi til sýsluvega varið 2.500 kr. til hvorrar heiðar á ári gegn jafnmiklum styrk frá hlutaðeigandi héruðum, 300 kr. ársstyrkur til viðhalds dragferju á Héraðsvötnum og 2.500 kr. viðbótarstyrkur til Hörgárbrúar (áður veittar 7.500 kr.).
Enn fremur vill nefndin veita af sama fé 2.000 kr. til brúar á Ósinn í Bolungarvík.


Ísafold, 3. ágúst, 1901, 28. árg., 53. tbl., forsíða:
Í eldhúsdagsumræðum á þingi er deilt á stjórnvöld m.a. fyrir vegabótamálin.

“Eldhúsdagurinn”.
Aðfinnslur við stjórnina.
_ Valtýr Guðmundsson (frmsm): Eftirlitsleysið er mikið af landsstjórnarinnar hálfu. Í gær kom það fram í umræðunni um holdsveikraspítalann, að þar hefur óþarflega miklu fé verið eytt. Sama er að segja um vegabótamálið. Stjórnin undirbýr það ekki nægilega undir hvert þing, og það leiðir til mikilla aukafjárveitinga. Nýlega hefur verið fyrir dómstólunum mál gegn einum vegabótaverkstjóra, sem sýnir áþreifanlega, að þörf er á nákvæmara eftirliti, t.d. að hærra er borgað fyrir vinnu hesta o.s.frv. en þörf er á. Ræðum. brýnir fastlega fyrir landsstjórninni að skerpa eftirlitið í þeirri grein.
_ Landshöfðingi:_ Um vegabótamálin er það að segja, að lengi má sjá á eftir, að ekki hafi allt verið sem best fyrirhugað. Áætlanir verður að gera tveim árum fyrirfram og á þeim tíma geta komið nýjar þarfir, sem ekki verða fyrir séðar. Um mál það, sem fyrir dómstólunum hefur verið, er það að segja, að af dóminum geta menn sannfærst um, að ekki var nema í einstökum tilfellum of mikið borgað; stundum var borgað of lítið, svo landssjóður hefur ekki orðið fyrir miklum halla. Þess konar misfellur sjást ekki, fyrr en endurskoðun fer fram. En hún er líka næg trygging fyrir, að landssjóði verði ekki fært annað til útgjalda en rétt er.
_ Einar Jónsson: Fréttir hafa borist af því, að hætta hafi orðið við lagningu Lagarfljótsbrúarinnar og svifferjunnar á Lagarfljóti. Biður landsh. um skýrslur og samninga um þessi fyrirtæki.
Landshöfðingi getur ekki orðið við þeim tilmælum með því að skjölin væru eystra hjá verkfræðingi landsins.
Skúli Thoroddsen: _ Eitt atriði í ræðu landshöfðingja var vegabótamál landsins. Megn óánægja er út af því með þjóðinni, ríkur grunur um mjög miklar misfellur. Móti einum verkstjóra hefur verið höfðað sakamál. Landsyfirréttur sá sig knúðan að lýsa yfir því, að rannsóknardómarinn hefði farið svo að ráði sínu, að frekari eftirgrennslan sé gagnslaus. Landssjóður hefur um mörg ár verið látinn borga meira fyrir ýmislegt, sem til vegabóta þarf, en hæfilegt er. Þetta er svo alvarlegt, að í málið hefði átt að skipa konungl. rannsóknardómara, en í stað þess hefur allt verið gert til að þagga málið niður, af því að það er hneykslismál fyrir landsstjórnina. Von er að þjóðina taki sárt, ef illa er farið með vegabótaféð, jafn mikið og hún leggur þar á sig.


Þjóðólfur, 3. ágúst, 1901, 53. árg., 39. tbl., bls. 155:
Efri deild Alþingis skipar nefnd til að íhuga samgöngumál landsins.

Alþingi.
Samgöngumál. Nefnd var skipuð í e.d. til að íhuga samgöngumál landsins: Sigurður Jensson, Guðjón Guðlaugsson og Ólafur Ólafsson.


Ísafold, 28. ágúst, 1901, 28. árg., 60. tbl., bls 239:
Í þessari frétt er sagt frá fjárlögunum fyrir tímabilið 1902 – 1903 hvað varðar vegamál.

Fjárlögin.
Rúm 1 1/2 millj. eru tekjurnar áætlaðar um næsta fjárhagstímabil, árin 1902 og 1903, í fjárlögum þeim er hið nýafstaðna þing hefur samþykkt og afgreitt. En útgjöld rúmlega 130 þús. kr. meiri. Sá halli gengur á viðlagasjóð.
Hér verða taldar ýmsar fjárveitingar, nýjar, eða þá svo merkilegar, að almenningi þykir fróðleikur í.
Flutningabrautir. Til þeirra, akvega samkvæmt vegalögum frá 1894, eru ætlaðar alls 48 þús. kr. um fjárhagstímabilið, og því fé skipt þannig niður:
fram Eyjafjörð 12 þús.
um Fagradal 6 þús.
upp Borgarfjörð 6 þús.
til viðhalds flutningsbrauta 24 þús.
Þjóðvegir. Þá eru ætlaðar til þjóðvega, annarra en flutningabrauta, samtals 92 þús. kr., er skiptast þannig:
a) framhald Mýrarvegarins frá Urriðaá að Hítará 20 þús.
b) vegur við Stykkishólm 5 þús.
c) vegagerð á Hrútafjarðarhálsi 10 þús.
d) vegagerð á Fjarðarheiði (N-Múl) 6 þús.
e) vegagerð á Mýrum í Austurskaftafs. 3 þús.
f) vegagerð í Hrútafirði 2 þús.
g) brú á Skaftá (gegn 1000 kr. frá sýslunni) 7 þús.
h) vegabætur og vegaviðhald í N-múlasýslu 4 þús., S-múla 4 þús., í N-amti 18 þús., í Suður og Vesturamti 13 þús., samtals 39 þús.
Annað vegafé. Þar eru ætlaðar til fjallvega, er landssjóður kostar að öllu leyti 10 þús. kr. alls, og styrkur veittur til sýsluvega, rúm 15 þús. alls, þar á meðal til Breiðadalsheiðar 5 þús. (gegn 2 1/2 þús. frá sýslunum), til Brekknaheiðar í N-múl. 5 þús (gegn 2 1/2 þús. frá sýslunni), til dragferjuhalds á Héraðsvötnum 600 kr. (300 hvort árið), viðbótarstyrkur til brúargerðar á Hörgá 2 1/2 þús., til að brúa ósinn í Bolungarvík 2 þús. gegn jafnmiklu frá héraðsmönnum.


Þjóðólfur, 30. ágúst, 1901, 53. árg., 34. tbl., bls. 170:
Hér eru taldar nokkrar nýjar fjárveitingar á fjárlögum 1902-1903.

Fjárlögin 1902-1903.
_
Til flutningabrauta alls 48.000 kr., þar af 12.000 kr. til flutningabrautar í Eyjafirði, 6000 kr. til flutningabrautar á Fagradal, 6000 kr. til flutningabrautar upp Borgarfjörð, og 24.000 kr. til viðhalds flutningabrautar.
92.000 kr. til þjóðvega, er þannig skiptist niður: 2.000 kr. til þess að halda áfram veginum vestur Mýrar frá Urriðaá að Hítará, 7.000 kr. til brúargerðar á Skaftá gegn því að sýslan leggi til 1.000 kr., 10.000 kr. til vegagerðar á Hrútafjarðarhálsi, 6.000 kr. til vegagerðar á Fjarðarheiði í Múlasýslu, 3.000 kr. til vegagerðar á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu, 5.000 kr. til vegagerðar við Stykkishólm, 2.000 kr. til vegagerðar í Hrútafirði, 4.000 kr. til vegabóta og viðhalds í Suður-Múlasýslu, 18.000 kr. til vegagerðar og viðhalds í Norðuramtinu, 13.000 kr. til vegabóta og viðhalds í Suður og Vesturamtinu.
Til sýsluvega alls 15.100 kr. þar af 5.000 kr. til vegagerðar á Breiðadalsheiði frá Seljalandsósi í Skutilsfirði að Neðri-Breiðadal í Önundarfirði gegn því að sýslufélögin leggi til 2.500 kr., er skiptist niður á bæði árin, 5.000 kr. til vegagerðar á sýsluveginum frá Fossvöllum norður á Brekknaheiði í Norður-Múlasýslu, gegn því að sýslufélagið leggi til 3.500 kr., er skiptist niður á bæði árin, 300 kr. hvert ár til dragferjuhalds á Héraðsvötnum í Skagafirði, 2.500 kr. viðbótarstyrkur til brúargerðar yfir Ósinn í Bolungarvík.

Fjallkonan, 8. september, 1901, 18. árg., 33. tbl., bls. 3:
Hér segir frá Fjárlögunum 1902-1903. Ólíkt öðrum blöðum, setur Fjallkonan út á fjárveitingar til flutningabrauta.

Fjárlögin 1902-1903.
_
Til flutningabrauta eru áætlaðar 48.000 kr. og gegnir það furðu, að þingið skuli fleygja út stórfé í þessar flutningabrautir, sem eru að kalla ekkert notaðar og óvíst er að sumar verði nokkurntíma að verulegu gagni, því ef farið yrði að nota náttúruöflin í stað hestaflsins, mundu sumar þessar brautir verða lagðar öðruvísi. Eyfirðingum eru ætlaðar 19 þús. Fagradal 6.000, Borgfirðingum (ólæsileg nokkur orð).
Þjóðvegum eru ætlaðar 92.000 kr. (Mýravegurinn 20 þús., vegur við Stykkishólm 5 þús., vegur á Hrútafjarðarhálsi 10 þús., á Fjarðarheiði 6 þús., í Hornafirði 3 þús., ennfremur í N-Múlasýslu 4 þús., S-Múlasýslu 4 þús., í N-amti 18 þús., í Suður- og Vesturamti 13 þús., til brúar á Skaftá (sýslan leggi til 1.000) 7 þús., alls 39 þús.
Til fjallvega 10 þús. og til sýsluvega 15 þús. Þar af til Breiðdalsheiðar (vestra) 5 þús. (sýslurnar leggi til 2 1/2 þús.) til vegar úr Jökulsárhlíð (N-M) norður á Brekknaheiði 5 þús. (sýslan leggi til 2 1/2 þús.) til dragferju á Héraðsvötnum 600, til brúarinnar á Hörgá 2 1/2 þús., til brúar yfir Bolungarvíkurós 2 þús., héraðsmenn leggi jafnt til.

Fjallkonan, 8. september, 1901, 18. árg., 33. tbl., bls. 2:
Hér er sagt frá nokkrum frumvörpum um vegamál sem voru felld eða óútrædd.

Lög frá Alþingi.
Fallið hafa þessi lagafrumvörp frá þingmönnum:
8. Frv. um viðhald og gæslu brúnna á Ölfusá og Þjórsá.
12. Frv. um helmings uppgjöf lánsins til brúargerðar á Ölfusá.
15. Frv. um brúargerð á Jökulsá í Öxarfirði.
Óútrædd frumvörp:
5. Frv. um fjölgun þjóðvega.
7. Frv. um brúargerð á Ytri-Rangá.


Austri, 23. september 1901, 11. árg., 35. tbl., forsíða:
Hér skrifar séra Magnús Bl. Jónsson í Vallarnesi langt svar við frétt í Bjarka um þingmálafund að Höfða og vegbrautarmálið. Er enn og aftur verið að bera saman Fagradal og Fjarðarheiði.

Fagridalur, – Akbraut – Æsing
eftir séra Magnús Bl. Jónsson í Vallarnesi
Í 24. tbl. “Bjarka” 25. júní þ.á er flutt fregn af þingmálafundi að Höfða í vor, og honum gefin sú aðaleinkunn, að allt hafi gengið þar öfugt við það, sem við hefði mátt búast að við það, sem Bjarki álítur æskilegt vera. Ég ætla ekki að deila um þetta við Bjarka, því að ég lái ekki honum, fremur en öðrum þó hann haldi fram Sinni skoðun á almennum málum, meðan það aðeins er gert með hógværð og stillingu og með virðingu fyrir sannfæringu annarra manna, sem aðra kunna að hafa. – Þess vegna hef ég og þagað við fregn þessari og einkunn þeirri sem blaðið gefur fundinum, ef ekki hefði, eftir að sagt er að fundurinn vilji fá akbraut á Fagradal en ekki á Fjarðarheiði, verið bætt við þessari athugasemd: “Akbrautarsamþykktin nær engri átt. Þar sem annað eins er samþykkt nú, eftir að nákvæmar mælingar hafa farið fram á báðum fjallvegunum, þar ræður æsingin ein, en öll skynsemi og umhugsun er þar rekin á afrétt.” – Við þessari athugasemd kann ég ekki við að þegja, sérstaklega fyrir það, að “Bjarki” og máske fleiri, kynnu að skilja þögnina svo, að fundarmenn frá Höfða hefðu engu hér til að svara.
Það væri auðvelt að vinna skoðunum sínum sigur, ef ekki þyrfti meira til en að lýsa því yfir, að æsing ein, en hvorki skynsemi né umhugsun réði hjá andmælendum sínum. Og í þessu máli vill svo til, að málinu um lagningu akbrautar um Fagradal hefur fyrri verið hreyft á þingmálafundi að Höfða en í vor. Sumarið 1893 var þar skorað á þingmenn Suður-Múlasýslu að koma því til leiðar á þingi það sumar að akbraut yrði lögleidd á Fagradal. Tókust þeir þetta á hendur og fluttu málið á þingi og fyrir það er flutningsbraut lögtekin á Fagradal með veglögnum frá 13. apríl 1894. Í þetta skipti gat þó víst ekki æsingin ein ráðið á þingmálafundinum á Höfða, þar sem engin rödd hafði heyrst til þess tíma um nokkurn akveg til Héraðs, og þá eigi heldur yfir Fjarðarheiði. Ósk þessari réði eingöngu þörf Héraðsins til þess að losna við hinn erfiða og dýra lestaflutning sumar og vetur. Síðan liggur akbrautarmálið niðri í 6 ár, eða þangað til 1899, að farið er að hreyfa því hér í sýslu, fyrst í viðræðum manna, að akbrautarlögin ein nægi eigi, heldur þurfi sem fyrst að fá fé til framkvæmda, til að leggja akbrautina. Þá – og þá fyrst – fara að heyrast raddir af Seyðisfirði um Fjarðarheiði. Og síðan hefur þessu Fjarðarheiðarmáli verið haldi fram með æ meira kappi og stutt með mögulegum og ómögulegum rökum og í sumum blaðagreinum með fjarstæðum og lokleysum, (talað um sjóplóga og því um líkt). Þetta nægir til að sýna að akbraut á Fagradal var fyrir löngu eigi aðeins hugsuð af oss Héraðsmönnum, heldur og lögleidd, áður en Seyðfirðinga dreymi fyrir nokkurri akbraut. – Þeir taka upp hugmynda til láns og fara svo að keppa við okkur um vegarstæðið. – Ef annars nokkru staðar er að tala um æsing í þessu máli, þá hygg ég að þetta nægi til að sýna hvar hún á heima.
Þó ætla ég ekki að nefna það æsing heldur eins konar dugnað í barátunni fyrir tilverunni, þetta hversu Seyðisfjörður er leikinn í að henda á lofti og reyna að verða fyrri til að hagnýta fyrir sig hugmyndir annarra manna. Sem dæmi um það er spítalamálið (hafið á Eskifirði) akbrautarmálið (hafið á Héraði) og nú síðast klæðaverksmiðjumálið (hafi á Eyjafirði). Og hvernig gengið hefur verið að þessum málum; sýnir, að mennirnir eru bæði dugnaðar og kappsemin og hafa þar á ofan, líklega oftast nær, skynsemina í heimahögum, – sem raunar allt saman – út af fyrir sig – getur verið allrar virðingar vert.
Það á alls ekkert skylt við æsing að vér Héraðsmenn viljum hafa akbrautina, þar sem hún þegar er ákveðin, á Fagradal. Það er byggt á þeirri sannfæringu vorri frá fyrstu, að dalur þessi sé hið eina akvegarstæði milli Héraðs og sjávar, sem að notum geti komið, og þessi sannfæring styðst við staðlega (locala) þekkingu vetur og sumar. Oss dettur ekki í hug að rengja verkfræðinginn, eða halda, að ekki megi leggja akveg á Fjarðarheiði. Það má líklega mjög víða, ef það eitt er tekið til greina. En Héraðsmönnum er ekki um það að gera að fá einhvern akveg, heldur akveg, sem getur fullnægt þeim þörfum vorum, sem hafa komið oss út í þetta akbrautarmál. – Það, sem vér aftur byggjum á full not akbrautar um Fagradal, en lítil eða engin um Fjarðarheiði, er þetta aðallega:
. Tíminn sem aka má eftir auðum vegi um Fagradal er minnst 2/5 lengir og því miklu meiri trygging fyrir að nægilegt vörumagn verði flutt yfir sumarið.
. Vegurinn er brattalaus nema stuttur spölur, þar af leiðir, að allt það þriðjungi meira má flytja á hverjum vagni með sama útbúnaði, og flutningur þar af leiðandi, þriðjungi ódýrari. Þetta hefur sérlega mikla þýðingu, af því að hið eina sem hætt er við að gæti staðið í vegi fyrir notkun akbrautar, er að almenningur sæi í flutningskostnaðinn, og þá því fremur sem hann væri hærri.
. Á Fagradal er alls staðar graslendi og það óþrotlegt og gott, meðfram veginum, svo að alls staðar má hafa skiptistöðvar, og á hestum hvar sem vill, en Fjarðarheiði er ekki annað en hraun og hrjóstur, sannkölluð eyðimörk.
Þeir sem upphaflega hrundu akbrautarmálinu af staða, hafa aldrei hugsað sér, að akbraut yrði notuð að vetri til, og því ekki gert ráð fyrir að nota þyrfti snjóplóga og önnur slík áhöld. Aftur er eðlilegt að formælendur Fjarðarheiðar finni þörf á slíku þar sem óhugsanlegt er, að hinn skammi tími, sem vegur þar er auður, gæti fullnægt flutningaþörfinni, nema með allt of stórkostlegum útbúnaði (fjölda vagna og hesta, sem svo hefðu allt of stutta atvinnu, til að bera sig, með hæfilegu flutningsgjaldi). En þegar 4-6 álna háar vörður eru venjulega á kafi í sjó á Fjarðarheiði fram á sumar, sem þó eru hlaðnar á hæstu holtinu, þá er annað hvort; að akbrautin yrði að vera vel upphleypt í dýpstu dældum, eða þá að snjóplógurinn þyrfti að rista djúpt.
Ástæðan fyrir því, að þingmálafundurinn á Höfða vildi ekki þiggja akbrautina yfir Fjarðarheiði, ef hún fengist ekki á Fagradal, heldur láta málið bíða betri tíða, voru:
. að akbrautin á Fjarðarheiði kæmi ekki að notum fyrir snjódýpt, fyrir of stuttan notkunartíma árlega á brautinni og fyrir erfiðari akstur og of hátt flutningsgjald;
. að þegar akbraut væri komin á Fjarðarheiði og reynsla sýndi, að hún væri ekki notuð til vagnflutnings, enda þótt orsakir þess væri ekki aðeins hinar fyrrgreindu, – þá mundi verða langt að bíða þess, að önnur akbraut yrði lög við hliðina á henni yfir Fagradal.
Fundurinn taldi nauðsynlegt, að annað sporið í þessu máli yrði rétt stigið, en ekki öfugt.
Hverja ástæðu höfum vér nú, Héraðsmenn, til að æskja akbrautar? Þessu er að nokkru leyti svarað í upphafi greinar þessara. Lestaflutningurinn hefði 3 aðalókosti:
. að hann fer illa bæði með menn og hesta, sér í lagi vetrarferðirnar, yfir einn hinn versta fjallveg hér austanlands.
. að hann er afardýr, bæði fyrir það að hestahald er hér dýrt, og það, hve langur tími gengur til hans, mest um aðal bjargræðistímann, vorið og sumarið.
. að bændur mega ekki missa þann vinnukraft sem í flutningana gengur og hljóta oft þeirra vegna að vanrækja nauðsynjastörf. Getur sá óbeini skaði oft orðið miklu meiri en hinn beini kostnaður
Og þó er þetta ekki aðalástæðan til að æskja akbrautar til Héraðs. Aðalástæðan er sú, að við þurfum að fá vörur fluttar til Héraðsins, sem nú er ekki hugsanlegt að verði fluttar, fyrir vantandi vinnukraft, hesta og manna, enda ókleyfan kostnað með slíkum flutningsgöngum sem nú tíðkast. Lífsskilyrði Héraðsins í framtíðinni er aukin og bætt jarðrækt, bæði töðu og matjurta, en til þess þarf áburð. Eini vegurinn til að auka hann er að fá annað eldsneyti en áburðinn (sauðataðið), en það getur ekki orðið á annan veg en að fá akbraut frá sjó til Héraðs, svo flutt verði kol til eldsneytis. Þetta er þýðingarmeira atriði en kannski virðist í fljótu bragði. Ég tel sama að brenna áburði og að brenna töðu, og hún er sannarlega dýr eldiviður.
Það er aðgætandi, að hér lifa menn eingöngu á landbúnaði, og þess vega er grasræktin aðalfóturinn undir lífi og velmegun allra alþýðu hér. – Önnur varan er timbur. Það er óséð, hversu mjög hinn erfiði og dýri lestaflutningur á timbri stendur fyrir verulegum húsabótum hér á Héraði og hver áhrif það hefur aftur á heilsu og vellíðan manna.
Hér um má segja, að úr þessum þörfum sé bætt með akveg, eins og þó hann liggi á þessum staðnum sem hinum, en því neitum við, sem eigum að njóta vegarins og nota hann. Við Héraðsmenn getum alls eigi látið oss í léttu rúmi liggja hvort hann liggur þar, sem hann kemur að fullum notum eða sáralitlum eða alls engum. Ef við fáum ekki veginn, þar sem við höfum hans not, þá er oss engin þága í að peningum landssjóðs sé varið í gagnlausan veg og þannig kastað í sjóinn. Við eru þver á móti andstæðir því, bæði sem gjaldendur og meðeigendur landssjóðs, að fé hans sé kastað burtu í ónytju fyrirtæki.
En hvað getur Seyðfirðingum gengið til að vilja eyðileggja þetta nauðsynjamál Héraðsins? Líklega sannfæring um, að vegur sé betur á kominn á Fjarðarheiði en Fagradal. – Það er að minnsta kosti ólíklegt að það séu einungis viðskiptin við Héraðið, sem þeir sú að halda í. til þess er þetta allt of mikið velferðarmál fyrir Héraðið að kaupstaðarpólitík ætti að komast þar að. Héraðið mun og enn vera allmiklum mun mannfleira en Seyðisfjörður, og því hörð aðgöngu sú kenning, að Héraðið eigi aðeins að vera til fyrir Seyðisfjörð. Að minnst kosti dettur mér ekki í hug að ætlast til, að Seyðisfjörður, enda þótt minni sé, ætti aðeins að vera til, til þess að þjóna þörf Héraðsins.
Og hverjir hafa nú eðlilegastan atkvæðisrétt um það, hvar akbrautin eigi að liggja? Svar: Þeir sem hún er lögð fyrir. Sé hún lögð fyrir Seyðisfjörð, þá er sjálfsaft að leggja hana þar sem hún álítur sig hafa hennar best not. Sé hún lögð fyrir Hérað, á þess atkvæði á sama hátt að gilda. En fyrir hvern eða hverja verður hún lögð ef til kemur? Svar: Fyrir þá sem flutningarnir hafa hvílt á. Og þá mun koma upp hlutur Héraðsmanna, því ég veit ekki til að Seyðisfjörður hafi neitt haft af því að segja, hvað það er, að ná öllum lífsnauðsynjum sínum yfir Fjarðarheiði.
Ég skal ótilkvaddur játa það, að mér og líklega flestum Héraðsmönnum væri eins kært, eða jafnvel kærara, að Fagridalur hefði legið til Seyðisfjarðar, vegna þess að viðskiptabönd Héraðsins liggja nú flest þangað. En hinu neita ég, að þetta eigi geti ráðið því, hvar akbrautin liggi. Ég efast ekki um, að einhver þiggi Héraðsverslunina, þó hann eigi að leggja vörurnar upp á Reyðarfirði, og ég vil jafnvel halda, að sumir hinna ötulu kaupmanna á Seyðisfirði mundu ekki horfa í að byggja þar skúr yfir vörurnar til Héraðsins, þegar farið yrði að bjóða upp verslun, sem næmi 11/2-2 hundr. þúsunda. – En hvað sem því liði, þá er það hin besta meðmæling með Héraðsversluninni, hversu sárt Seyðisfiðri er um hana. Aðrir kaupmenn mundu ímynda sér að eitthvað væri í það varið, er Seyðfirðingar halda svo fast í.
Annars liggur hinn fyrirhugaði Fagradalsvegur að góðir höfn og það er aðalskilyrðið. Það hefur sjaldan staðið á því, að fá einhvern til að versla, þar sem vörumagnið er fyrir.
Ég hef í þessum línum sett skoðanir mínar fram sem gildandi fyrir allt Héraðið. Að vísu hefur heyrst að sumir á Úthéraði hafi mælt með akbraut yfir Fjarðarheiði, en ég veit ekki hvernig því víkur við, ef satt er. Eigi akbraut að koma að notum hljóta vörur Héraðsins að afhendast frá upplagshúsi við annan hvorn enda Lagarfjótsbrúarinnar (meðan ekki kemur föst verslun þar), hvort sem nú kaupmaðurinn annast flutninginn eða Héraðið semdi um hann við sérstakan mann eða menn. Og mér er óskiljanlegt, að verra sé að taka vörur sínar þar, þó þær hafi komið eftir akbraut um Fagradal, en um Fjarðarheiði. Ég hef annars sjálfur heyrt þá skoðun hjá einum manni á Úthéraði, að akbraut, hvort sem væri yfir Fagradal eða Fjarðarheiði, væri eigi fyrir Úthérað. En á meðan ekki fæst uppsigling á Selfljótsós, sem ég, vegna Úthéraðsmanna vildi óska að sem fyrst yrði (því ekki erum við Upp-héraðsmann bættari, þó Úthéraðið sé í sömu fordæmingunni með aðflutning sem við), þá sé ég ekki betur en að þeim væri stór hagur að akbraut. Þá gætu þeir á vetrum flutt mesta eða alla þungavöru sína frá brúnni og heim í hlöð sína á sleðum, eftir akbraut þerri sem frost og snjór leggja á hverjum vetri um allt Úthérað. Og ólíkt væri það því, að brjótast með hesta í færu og ófæru yfir Vestdalsheiði um hávetur, eins og nú á sér stað.
Þetta er nú orðið lengra mál en ég vildi, og þó margt síður útfært og ógreinilegra en orðið hefði, ef ég hefði ekki óttast rúmleysi í blaðinu. En mér þótti réttar að sýna almenningi, að það hefði ekki verið æsingin eintóm, heldur dálítil um hugsun með fram, sem réði ályktun þingmálafundarins á Höfða í akvegarmálinu í vor.
Ég hefði svarað athugasemd Bjarka fyrr, en fékk, því miður, ekki þetta 24. tölublað fyrr en í gærkvöldi.
14. ágúst 1901
Þessi vel rökstudda ritgerð er tekin hér í Austra eftir beiðni höfundarins, svo hún verði alþýðu kunn, þar eð Austri hefur margfalt fleiri kaupendur en Bjarki, enda hefur hún þeirri sömu skoðun fram og ritstjóri Austra hefur oft látið í ljós hér í blaðinu.
Ritstj.


Ísafold, 5. október, 1901, 28. árg., 66. tbl., bls 262:
Í fréttabréfi frá Eskifirði er lýst ótta við að efnið í Lagarfljótsbrúna lendi í fljótinu í vetur.
Fréttabréf úr Suður-Múlasýslu (Eskif.) 28. sept.

_ Illt þykir mönnum að vita hvernig komið er með Lagarfljótsbrúna, og eru menn hræddir um, að stólparnir og járnin kunni að lenda í fljótinu í vetur, ef nokkuð reynir á af ís eða straumi, með því að staurarnir standa ósamtengdir í fljótinu með járnunum ofan á; og hart að vita landsins fé vera þannig komið.


Ísafold, 9. nóvember, 1901, 28. árg., 72. tbl., bls 287:
Tryggvi Gunnarsson reiddist þegar hann var ekki endurkosinn í veganefnd Reykjavíkur.

Veganefndin.
Bæjarstjórn Reykjavíkur kaus í fyrradag nýja veganefnd (sbr. síðasta fund). Hún endurkaus þá Sigurð Thoroddsen og Guðmund Björnsson; 3. maður í nefndinni varð Magnús Benjamínsson, í stað Tr. Gunnarssonar áður, er ekkert atkvæði fékk nú. Því reiddist hann svo, að hann kvaðst segja sig “hér með” úr bæjarstjórninni (sem var lögleysa) og rauk af fundi.


Ísafold, 28. desember, 1901, 28. árg., 81. tbl., forsíða:
Í fréttabréfi úr Dölum birtist m.a. gagnrýni á sýslumann Dalamanna fyrir sum afskipti hans af vegamálum og sérstaklega brúargerð. Virðist hann hafa verið fremur framkvæmdasamur en kannski ekki að sama skapi góður brúarsmiður.

Úr Dölum vestan.
_ Sumarið 1899 sótti sýslumaður um styrk úr landssjóði til brúargerðar á Laxá í Laxárdal á sýsluvegi, án þess að honum hafði verið falið það á hendur á sýslufundi. Veitti Alþingi til þess 1700 kr. á móti 2/3 frá sýslunni. Næsta vor fór hann fram á, að sýslunefndin veitti fé til brúarinnar, og samþykkti hún þá að veita 1700 kr. úr sýslusjóði, en hitt átti að fást á annan hátt (með samskotum etc.). Svo er sagt, að aldrei væri þessi fjárveiting borin undir atkvæði á sýslufundinum og engin ályktun var gerð um framkvæmd verksins, en sýslumaður fann sér skylt að taka að sér umsjón þess. Lét hann í fyrra byrja á að hlaða brúarstöplana, en eigi var því lokið fyrr en í haust, eftir að frost voru komin. Efnið í sjálfa brúna kom snemma síðastliðið sumar, og lá síðan ósnert í Búðardal til hausts. Væntu menn að sýslumaður léti byrja á brúarsmíðinni, er hann kom heim af þingi, en eigi varð af því. Var fyrst byrjað á verkinu, er vika var liðin af nóvember. Yfirsmiður við brúna var Vilhjálmur Ingvarsson frá Bæ í Hrútafirði og hafði hann með sér 2 menn að norðan, en sýslumaður átti að leggja til aðra 2 smiði, samkvæmt skriflegum samningi, er gerður var um verkið, en þeir menn komu aldrei. Tíð var fyrst hagstæð, meðan á brúarsmíðinni stóð; gerði frost svo hörð, að ís lagði á Laxá. En er svo langt var komið verkinu, að búið var að reisa smíðapalla milli stólpanna, til að standa á, og renna máttarviðunum eftir, og búið að koma stærstu trjánum út á pallana og langt komið að festa þá saman, þá brá til þíðu og braut þá áin pallana, en brúin féll í ána og brotnaði, svo hætta varð við verkið; verður nú Laxá brúarlaus í vetur.
Sumir kenna nú hirðuleysi sýslumanns um, að svona fór; þykir sem honum hefði eigi verið vorkunn að láta smíða brúna fyrr, eða að minnsta kosti hraða smíðinni meir en gert var, eftir að byrjað var, og á meðan góð var tíð. Óhætt er að fullyrða, að ekki hefði svona farið, hefði hann staðið við samninginn að sínu leyti og lagt til 2 smiði; brúin þá komin á, áður en áin ruddi sig. Er nú hætt við, að nokkur kurr verði út af þessu, eigi síður en út af brúargerðinni á Tungu í Miðdölum, sem sýslumaður hefur líka staðið fyrir. Sú brú er á þjóðvegi og kostuð að nokkru úr landssjóði. Til að smíða brúna fékk hann mann, sem óvanur var brúarsmíðum, og gerði hann hana eftir fyrirsögn sýslumanns sjálfs. Nú eru rúm 3 ár síðan byrjað var á brúarstöplunum og meira en 2 ár síðan byrjað var á trésmíðinni, en þó er henni eigi lokið enn, en einn máttarviður í brúnni brotinn, svo naumast mun hættulaust að fara um hana með hesta.
Hvort nokkur ber ábyrgð á því, hvernig komið er, er mér ókunnugt um, en hitt veit ég, að sagt er, að sýslumaður sé búinn að fá fé það, er veitt var til brúarinnar, landssjóðsféð jafnvel líka; en ekki veit ég, hvort satt er.
Vegagerð hefur sýslumaður látið byrja á í haust suður frá Búðardal, og (ólæsileg tvö orð) á annað hundrað faðma langur (ólæsileg nokkur orð) þó aldrei mölborinn og má því heita ófær orðinn. En það þykir markverðast við vegabætur þessar, að til þeirra kvað ekki vera veitt neitt fé úr sýslusjóði eða annarsstaðar af opinberu fé, og eru þær því líklega gerðar á kostnað sýslumanns. Það mun ósatt vera, að kostnaðurinn við veginn fyrir sunnan Laxá hafi staðið á sýslusjóðsreikningum síðastliðið vor. Sá reikningur var aldrei fenginn í hendur endurskoðanda sýslusjóðsreikninganna til yfirlits, heldur fékk sýslumaður annan sýslunefndarmann til að endurskoða hann og bar reikninginn að sögn aldrei undir atkvæði á sýslufundi, og ekki komst hann í hendur amtsráðsins á amtráðsfundinum. Um veginn suður frá Búðardal hefur sýslumaður að vísu sagt (sjálfsagt í gamni) að hann ætlaði að telja hann með á Laxárbrúarreikningnum, því brúin sjálf mundi ekki kosta 5.100 kr., og yrði hann því að grípa til þessa ráðs, til að ná í 1700 kr. úr landssjóði, en hitt er þó trúlegra, að hann annaðhvort borgi kostnaðinn sjálfur, eða reyni að fá hann borinn upp á annan hátt og með betri ráðum.
Hvort sem sýslumaður á það nú skilið eða ekki, þá er það þó víst, að margur nöldrar ofan í barm sér yfir öllu þessu; en hærra kemst það heldur ekki. Menn vita að eftirlitið heyrir yfirboðurum til; en svo eru þeir þagmælskir og umburðarlyndir, að ekki er hætt við að hátt sé kallað um það, þótt smábrestir sjáist á embættisfærslunni stöku sinnum, svo sem að sýslumaðurinn gleymi að halda manntalsþing á tilsettum degi og komi fyrst einum degi síðar og safni þá að sér nokkrum mönnum til að votta, að þing hafi verið sett, eins og altalað er að gerst hafi vorið 1900 í Saurbæjarhreppi. En vorkunn er Suðurdalamönnum, þótt þeir vilji ekki una við neitt minna en búsettan ráðgjafa til að líta eftir í landinu, og fylgi því Birgi sýslumanni við kosninguna í vor komandi, ef það er satt, að þeir séu fulltrúa um, að enginn óski heitara eftir búsettum ráðgjafa og betra eftirliti en hann. Prestur þeirra kvað líka vera mjög fylgjandi sýslumanni til kosninga (eftir sögn sýslum. sjálfs), en hlýtur fyrir skop og ákúrur hjá honum á bak. – Laun heimsins eru vanþakklæti.
Búðadal, 3.des. 1901
Jón Jónasson


Fjallkonan, 30. desember, 1901, 18. árg., 51. tbl., forsíða:
Hér spáir ritstjóri blaðsins í mögulegar breytingar á farartækjum hér á landi og nefnir “mótorvagna” sem álitlegan kost. Þá hugleiðir hann einnig stöðu samgöngumála og hvernig ætti að haga þeim með tilliti til framtíðarinnar.

Samgöngufæri framtíðarinnar o.fl.
Blaðið Norðurl. bendir á það, að öll líkindi séu til, að járnbrautir muni aldrei tíðkast á Íslandi, heldur “mótorvagnar” þeir sem eru að verða algengir víða um lönd og getið hefur verið í þessu blaði fyrir nokkru. Þeir fara á sléttum vegi og þurfa engar járnbrautir. Þeir geta farið með all hröðum járnbrautahraða og geta farið upp meiri bratta en járnbrautavagnar. Og þá er það ekki minnstur kosturinn, að þeir verða miklu ódýrari. Það væri hér líklega ódýrast að hreyfivélin (“mótorinn”) væri hreyfður með steinolíu, eins og Norðurl. getur til.
Það þykir vert að vekja athygli landsmanna á þessu samgöngufæri, sem enginn efi er á að Íslendingum er ekki um megn að nota.
Stjórn og þing ætti að gera sem allra fyrst tilraunir í þá átt. Þó menn kunni að segja að hér séu nógar samgöngur, getur það ekki verið rétt álit. Það er að vísu svo, að samgöngurnar á sjó kringum strendur landsins eru nú tíðari; að þær eru miklu meiri en vöruflutningsþörfin heimtar, af því vöruflutningurinn til og frá landinu fer beina leið frá útlöndum á hinar ýmsu hafnir. En þetta er mjög óhaganlegt og dýrt fyrir verslunina; aðal vörustöðin á að vera í Reykjavík, og þangað ætti vörurnar að vera fluttar beint frá framleiðslulöndunum, en ekki eins og nú tíðkast mest megnis frá Kaupmannahöfn og svo nokkuð frá Englandi og Noregi. – Þetta er vonandi að lagist smám saman, og ef til vill vonum bráðara, ef betur færi að líta út með hafnargerð í Reykjavík t.d. við Skerjafjörð. – Mannflutningurinn kringum landið hefur stöðugt verið að aukast með fjölgun skipaferðanna, en nokkur breyting kynni að verða á því, ef meira jafnvægi kæmist á milli landbúnaðar og sjávarútgerðar og sveitavinnu og kaupstaðavinnu.
Þegar á þetta er litið, getum vér álitið, að samgöngurnar kringum landið séu nokkurn veginn nægilegar.
Þar á móti verður ekki sagt, að samgöngurnar við útlönd séu nægar, þar sem höfuðstaðurinn sjálfur verður að vera án reglulegra samgangna fulla tvo mánuði af árinu og mun slíkt ekki eiga sér stað í nokkru siðuðu landi. – Færeyingar hafa miklu betri samgöngur við útlönd en við, og eru þó mjög óánægðir með þær, en við þolum það orðalaust að vera útilokaðir frá heiminum svo að segja hálfan veturinn.
Samgöngurnar innanlands eru af alltaf örðugar eins og eðlilegt er, þar sem vegalengdir og strjálbyggð er svo mikil sem hér, og vegagerðir víða enn skammt á veg komnar, þó ekki hafi vantað að þingið hafi reynt að bæta úr því með sífelldum lagasetningum, sem gerðar hafa verið af vanhyggju og stöðugt hefur orðið að breyta. Með þessu ráðlagi hefur verið eytt tugum þúsunda á tugi þúsunda ofan til lítils gagns. Mesta meinið hefur verið, að við höfum ekki haft menn sem hafi haft vit eða þekkingu á að velja vegastefnurnar, og þó einstakir hyggnir menn hafi verið til, sem hafi séð betur en aðrir, hefur tillögum þeirra venjulega ekki verið sinnt (sbr. Mosfellsheiðarveginn o.fl.). Þingið hefur ekki átt kost á leiðbeiningum verkfróðra manna, og hafi stjórnin verið beðin um þess konar leiðbeiningar, hefur það kostað ærið fé. – Sýnist nú vera mál til komið, að farið sé að hugsa meira um ýmislegt verklegt nám heldur en að ala stöðugt upp á kostnað landsins fjölda af lögfræðingum, (ólæsilegt orð) og málfræðingum, sem landið hefur ekkert með að gera. Vér ættum ekki að vera að ala þá upp fyrir Dani eins og nú er farið að tíðkast. – Vér þurfum fyllilega að halda á öllum vorum mönnum sjálfir, en – vér kunnum ekki að ala þá upp. – Þingið vill ekki styrkja menn til að læra verklegt nám erlendis; það kom greinilega í ljós í sumar, þegar tveir efnilegir menn sóttu um lítilsháttar styrk til þess konar náms. Þeir voru báðir komnir nokkuð á veg í því, og höfðu fengið góð meðmæli, en þingið vildi ekki sinna þeim.
Við förum nú að hafa nóg af vegfræðingum, en ekki mun þó vanþörf á, að þeir sem ráða eiga vegalagningum reyndu að rýna dálítið fram í tímann, og hefðu það t.d. í huga, hvar líkindi væru fyrir mikilli framleiðslu, eða hvar helst væri útlit fyrir, að iðnaður gæti komið upp o.s.frv. og svo ætti líka að taka tillit til þess að samgöngufæri vor hljóta að breytast áður en langt um líður, og mundi sérstaklega verða tillit til þeirra samgöngufæra, sem nefnd eru í byrjun þessarar greinar.


Fjallkonan, 30. desember, 1901, 18. árg., 51. tbl., forsíða:
Hér segir frá mælingu Erlendar Zakaríassonar vegaverkstjóri á fyrirhuguðum vegi milli Mýra og Stykkishólms, og geta áhugasamir séð að hve miklu leyti þessar aldargamla mæling verkstjórans eigi við um veginn eins og hann er í dag.

Stykkishólmsvegurinn.
Hr. Erlendur Zakaríasson vegfræðingur hefur nú í haust mælt veg þann sem leggja á milli Mýra og Stykkishólms, þ.e. framhald af Mýraveginum, sem lagður hefur verið undanfarin ár og gert er rað fyrir að halda áfram á næsta sumri, og Stykkishólmsvegurinn, sem alþingismaður Snæfellinga barðist fyrir á síðasta þingi.
Vegur þessi verður ærið kostnaðarsamur eftir mælingum og áætlunum vegfræðingsins. Hann gerir áætlun um að vegurinn frá Stykkishólmi og suður yfir Kerlingarskarð að Hjarðarfelli muni kosta hér um bil 13 1/2 þús. kr. Þaðan gerir hann ráð fyrir að vegurinn liggi yfir Hjarðarfellsflóa og að Laxá fyrir ofan Stóruþúfu, þaðan að Svínhól, um Hofmannaflöt, yfir Haffjarðará og Eldborgarhraun að Görðum og kostar 31 1/2 þús. kr. Þaðan vill hann leggja veginn suður hjá Barnaborgarhrauni og yfir Hítará hjá Brúarfossi; þaðan að Álftá, rétt fyrir norðan bæinn Álftá, svo að ánni Veitu fyrir neðan Álftartungu, og ofan með Urriðaá að vaðinu á henni, þar sem Mýravegurinn, sem í fyrra var lagður, kemur að henni að sunnanverðu. Þessi vegur gerir hann ráð um að kosti með brú á Hítará og Veitu 43 þús. kr. Eftir þessari áætlun þá kostar þessi vesturhluti vegarins (frá Urriðaá að Stykkishólmi) 88 þús. kr.
Þeir sem búa á Mýrunum neðanverðum vilja fá veginn lagðan aðra leið milli Barnaborgarhrauns og Urriðaár. Þeir vilja láta leggja hann niður að Krossholti og að Hítará hjá Skiphyl.
En vegfræðingurinn telur þá vegarstefnu ótæka vegna þess, að vegurinn yrði með því móti talsvert lengri og miklu dýrari, og viðhaldskostnaður þar á ofan miklu meiri. “Byggðin er að vísu þéttust með sjónum; en þeir sem þar búa nota mest sjóleiðina til vöruflutninga”.
Þennan veg er ráðgert að leggja að sumri að einhverju leyti.




Tenging í allt blaðaefni ársins 1901

Austri, 19. janúar, 1901, 11. árg., 2. tbl., bls. 6:
Í fréttabréfi úr Eyjafirði er sagt frá nýju akbrautinni og Hörgárbrúnni.

Úr Eyjafirði 18. des. 1900.

Eyfirðingar hafa nú fengið akbrautina alla leið frá Akureyri inn að Stokkahlöðum, enda munu nú gengin til hennar fullar 26 þúsundir króna, og er þó vegurinn ekki langur, en góður er hann yfirferðar og regluleg sveitarprýði. – Hörgárbrúin varð ekki fullgerð í haust, eins og ætlast var til sökum sífellds vaxtar í Hörgá, er orsakaðist af stöðugum rigningum suður á fjöllum. En nú er brúin komin svo langt á leið, að búist er við að hún fullgerð í júní næsta sumar. Mun margur verða brúnni feginn. því oft er Hörgá ill yfirferðar og hættuleg og hefur oft orðið mönnum og skepnum að bana.


Austri, 31. janúar, 1901, 11. árg., 4. tbl., bls. 12:
Hér birtist svar til skoðunarmanna sýsluvega Breiðdalshrepps, en upphaf þessara bréfaskipta er að finna í frétt af störfum sýslunefndar sem birtist í Austra í 24. tbl. 1900.

Svar til skoðunarmanna sýsluvega Breiðdalshrepps.
í nr. 31 Austra 1900 stendur “áskorun” frá mönnum þeim í Breiðdalshreppi, er sýslunefnd Suður-Múlasýslu fól að gera álit á sýsluveginn þar. Þessir menn skora á nefndina “að færa opinberlega ástæður” fyrir þeim ummælum sínum, að þeir “hafi algerlega misskilið hlutverk sitt” (Sbr. niðurlag fundargerðar nefndarinnar, nr. 24 Austra s.á.)
Þessi ummæli nefndarinnar verða ekki tekin aftur af mér. Hinar opinberu ástæður, sem þessir menn krefjast standa skrifaðar eftir þá sjálfa í álitsgerð þeirra yfir veginn, og á þeim byggði nefndin ummæli sín, þegar hún bar saman álitsgerðir úr öðrum hreppum sýslunnar. Að fara opinberlega að auglýsa þessar ástæður tel ég óþarfa, og ekki gott fyrir mennina sjálfa né heldur skemmtun fyrir almenning að lesa þær.
Það virðist eins og það hafi móðgað mennina jafn mikið, að oddviti sýslunefndarinnar borgaði þeim “ummælalaust”. Ástæður fyrir því eru þær, að oddvitinn, Axel sýslumaður, er háttprúður og kurteis maður, að hann mundi síst fara að ávíta mennina um leið og hann borgaði þeim, enda var það gert eftir tillögu nefndarinnar, sem áleit réttara að viðhafa ekki smámunasemi í þessu efni, þótt álitsgerðin yfir veginn væri ekki vel af hendi leyst.
Þetta keyri, að mönnunum hafi verið borgað ummælalaust, sem átti að vera á sýslunefndina, hittir þá sjálfa.
Eiðum 14. jan. 1901.
Í sýslunefnd Suður-Múlasýslu
Jónas Eiríksson


Austri, 23. febrúar 1901, 11. árg., 7 tbl., bls. 20:
Hér birtist fréttabréf frá Eskifirði þar sem talað er m.a. um Fagradalsveginn og Austra hrósað fyrir einarðlega afstöðu með veginum.

Fréttabréf frá Eskifirði.
Eskifirði, 8. febr. 1901.
Kæri Austri!
Héðan er fátt í fréttum að skrifa. Gamla öldin skildi við okkur með blíðu og það sem af er nýju öldinni hefur að einstöku frostdögum sýnt sama viðmótið.
Hér á Eskifirði var 2. janúar haldin aldamótahátíð og tóku þátt í henni c. 80 manns, var þar snætt og síðan dansað og sungið, en ræður haldnar bæði yfir borðum og eftir. Talað var fyrir gömlu öldinni og mörgu öðru, og getur þú ímyndað þér að Fagradal ekki hafi verið gleymt, sem hins einasta vegastæðis milli Fjarða og Héraðs, sem af náttúrunnar hendi væri hentugt, þar sem hann er upp úr snjó þrisvar sinnum eins lengi og nokkur önnur leið milli Fjarða og Héraðs á Austurlandi, og að auk liggur til miðpunkts Héraðsins frá stærsta, fólksflesta og langfiskisælasta firði austanlands, Reyðarfirði, hvað ritsíminn óefað kemur á land, ef hann eigi verður lagður beint til Reykjavíkur.
Guðmundur Hávarðsson kom hér um helgina og lét hann vel af akstrinum með brúarefnið og segir Fagradal alveg sem byggð.
Um daginn kom maður ofan Fagradal og annar Þórdalsheiði ofan í Reyðarfjörð sama dag, var þá dalurinn allur auður eins og á sumardag, en heiðin sem þó er miklu lægri en Eskifjarðarheiði, svo ég tali ekki um hæstu leiðina, Fjarðarheiði, og var þá nærri ófær vegna snjóþyngsla. Ég hefði hugsað mér að þessar fréttir gætu “interesserað” lesendur Austra, því þær sýna, að meðmæli Austra með Fagradal ekki eru gripin úr lausu lofti, en eru byggð á góðum rökum og átt þú, kæri Austri, góða þökk fyrir hve einarðlega þú hefur tekið málstað Fagradals, sannleikans vegna, gegn hreppapólitík Garðarsgagnsins.


Austri, 23. febrúar 1901, 11. árg., 7 tbl., bls. 20:
Fyrirhugaður vegur frá Héraði til Fjarða er eðlilega mikið áhugamál Austfirðinga en talsvert er deilt um hvort heppilegra sé að fara Fjarðarheiði eða Fagradal.

Til Bjarka-Harðar.
9. tölublað Bjarka, þ.á. flytur greinarstúf með fyrirsögninni: “Sjávargata Fljótsdalshéraðs” eftir höfund þann, er “Hörður” nefnist.
Bjarka-“Hörður” þessi þvær hendur sínar ekki sjaldnar en tvisvar, fyrir þá sök að hann skrifi af sannfæringu. Eins og að þeir er áður hafa skrifað um mál þetta, hafi ekki skrifað af sannfæringu, og svo að honum skuli þykja þörf að skyra frá þessu um sjálfan sig; að láta sér detta í hug, að bera þetta á borð fyrir lesendurnar, láta ekki ástæður þær, er hann hefur að færa fyrir málinu nægja! Þó er þessi sannfæring ekki svo djörf, að hún þori að birta hið sanna heiti íbúðar sinnar.
Mál þetta – akbraut til Héraðs – er svo umfangsmikið, að það gengur fífldirfsku næst, að ætla sér að leiða saman tvo andstæða flokka, til einnar og sömu skoðunar, með örstuttri grein, sem þá er svo blá á görnum af ástæðum, sem þessi er, eða kringilegum ástæðum eins og t.d. þeirri; “þess hærra sem brautin liggur eða meira áveðurs, því síður skeflir á hana.” Hvað á höf. hér við? Hærra yfir sjávarflöt, eða þræða hæstu hryggi og hlaða jafnt við dældir?
Bjarka-“Herði” þessum hefur máske aldrei veist það að sjá, að oft er það, að snjór fellur á fjöll, en á sama tíma rignir í byggð. Hæðarmunur á Fjarðarheiði og Fagradal er svo fjarska mikill, að það er mjög oft, að á heiðinni fellur snjór, þá regn fellur á sama tíma í dalnum. Og þá mætti fræða hann um það, að góður þeyr getur verið í dalnum, þá lítið eða ekkert þiðnar á heiðinni, sem stafar af hæðarmuninum yfir sjávarflöt. Enda hefur dalurinn í vetur verið sjólaus, en á Fjarðarheiði eru flestar vörðunar í kafi af snjó.
Vegfróður þykir mér Bjarka-“Hörður” vera að honum skuli kunnugt, að ódýrri verði braut til Seyðisfjarðar en Reyðarfjarðar. Það er þá eftir hans þekkingu, auðveldara að leggja veg þar sem yfir hvert hamrabeltið er að fara eftir annað, en um mjög mishæða lítið land, þar sem efni vegarins er allsstaðar við hendina.
Þá reiknast höf. að 1912 verði akbraut um Fagradal fullgerð, en því reiknar hann ekki eftir sömu reglu hvenær hún yrði fullgerð á Fjarðarheiði? Villti það ekki nógu mikið?
Ókunnugt er mér um það, að Norðmýlingar flestir vilji akbraut um Fjarðarheiði. Það er víst flestum kunnugt er til þekkja, að það er einungis kappsmál Seyðisfjarðarborgar. Héraðsmenn láta sig skipta hverja leið akbrautin liggur. Þeir ætla það vegfræðinganna, að segja hvar hún skuli lögð. Ég óttast ekkert í þessu máli, annað en það, að ófyrirleitnum og óhlutvöndum mönnum takast að hafa áhrif á vegfræðinganna til hins verra. Þessar blaðagreinar meira til að villa, en færa til sanns vegar, og það frá jafn nærsýnum náunga sem þessum Bjarka-“Herði”, er auðsjáanlega gengur út frá því, að Héraðsmenn venji eins komur sínar til sjávarins, eftir það að akbraut er lögð til Héraðs, sem hingað til. Það getur hann verið viss um að ekki verður, því þó ekki væri nema það, þá er ódýrara fyrir fáa en marga, að annast um flutning til Héraðs og mætti eins og er, og myndi verða, innan fárra ára, ef akbraut kæmi ekki.
Jafnskjótt og akbraut er lögð myndast kauptún við Lagarfljótsbrúna og þangað sækja flestir Hérðasbúar nauðsynjar sínar, svo þeir mundu fara á mis við þá miklu menningu, er þeir hefðu af að kynnast Seyðisfjarðarborgarbúum, sem höf. telur svo þýðingarmikla.
Loks vil ég benda Bjarka-“Herði” á það, að í máli þessu þarf ekki svo mjög að byggja á þeim grundvelli, að einhverjir verði að líða, nei, því fer fjarri. Allar hinar framsýnni, er til þess máls þekkja, hafa þá trú, að Fljótsdalshérað, Reyðarfjörður og Seyðisfjörður blómgist hver á sinn hátt, sé þeirra framsókn ekki heft af andlegum brekkusniglum; og af því Bjarka-“Hörð” hefur víst ekki einu sinni órað fyrir þeirri blómgun Seyðisfjarðar, sem mörgum hinum framsýnni dylst ekki, þá er ekki úr vegi að geta þess við hann, að Seyðisfjörður er þannig af guði gerður, að hann á, á sinni hátt, end fegursta framtíð, af þessum þrem byggðarlögum, en hans lán býr í honum sjálfum.
Um fleira vil ég ekki fræða, þennan Bjarka-“Hörð”, og mun heldur ekki mæla til hans síðar og geld honum líku líkt hvað nafn mitt snertir.
Ritað á Heitdag Eyfirðinga 1901.
Fjallabúi.


Fjallkonan, 26. apríl, 1901, 18. árg., 16. tbl., bls. 2:
Frétt um sýslufund Árnesinga en þar voru vegamál fyrst á dagskrá.

Sýslufundur Árnesinga.
Þar voru þessi helst mál:
Samgöngumál. Ítrekuð beiðni um fé til Sogsbrúar, og heitið framlögum viðlíka og fyrr eða meiri. Beðið um að landssjóður taki að sér brúargæsluna, en til vara að brúarlánið, það eftir er, verði gefið eftir. (Sýslubúar vilja nefnilega stofna brúa- og vegasjóð hjá sér af þessu fé. Gæti það orðið mesta gagn fyrir héraðið og léttir fyrir landssjóð á sínum tíma). Beðið um umbætur verstu kaflanna á veginum milli Þingvalla og Geysis. Beðið um 400 kr. til Grindaskarðsvegar, og svo mælst til að sýslunefnd Gullbringusýslu láti bæta veginn þaðan til Hafnarfjarðar. Verkfærir menn í sýslunni voru nú aðeins 1370; (í fyrra 1401). Vegafé skuldlaust 723 kr., sem hrekkur skammt til allra vegaþarfa í sýslunni.


Ísafold, 27. apríl, 1901, 28. árg., 25. tbl., bls. 98:
Í fréttabréfi frá Suður-Múlasýslu segir m.a. frá því að nú sé efnið í Lagarfljótsbrú komið upp að Egilsstöðum. Þykir flutningurinn frá Reyðarfirði mikið þrekvirki enda um stór stykki að ræða sem flutt voru um vegleysu.

Suðurmúlasýslu, 2. apríl.
Nú er lokið flutningnum á Lagarfljótsbrúarefninu upp að Egilsstöðum. það var konsúll C.D. Tuliníus á Eskifirði, sem tók það að sér í fyrra, í von um, að geta ekið því á hjarni eftir Fagradal. En svo gerði veturinn honum þann grikk, að pretta hann um hjarnið. Eigi að síður hefur karl haft það af, sem hann tók að sér, og er satt að segja meira en lítið þrekvirki. – Meðal annars 50 járnbitar 15 álnir á lengd og 1500 pd. að þyngd og mörg stórtré, sum 24 álnir. Þetta hefur allt orðið að draga á auðn og á vegaleysu að miklu leyti. En brekka engin eða sama sem engin. Það er kosturinn á Fagradal. – Engin tiltök hefðu verið að koma þessum báknum yfir heiðarnar. Þar var samt hjarn í vetur, þrátt fyrir veðurblíðuna alla. Og engum skynbærum manni, sem þekkir Héraðsflóa, hefði dottið í hug, að koma því á land þar, fyrir opnu hafi, nema ef til vill á afar löngum tíma, ef þar sé svo ládautt, að koma hefði mátt járnunum frá skipi á flota, og svo hefði engu mátt muna við lendinguna; jafnvel við Reyðarfjarðarbotn í blíðalogni var það mjög erfitt.


Þjóðólfur, 30. apríl, 1901, 53. árg., 21. tbl., bls. 82:
Á sýslufundi Árnesinga 1901 komu brúarmál nokkuð til umræðu.

Skýrsla frá sýslufundi Árnesinga 1901.
16. Borin upp tillaga frá sýslunefndarmanni Grímsneshrepps, er fór fram á, að gæslulaun væru tekin af báðum brúnum á Ölfusá og Þjórsá, og þær látnar eiga sig að öðru en því, að landsjóður kostaði viðhaldið. Eftir 50-60 ár mætti grípa til launa Ölfusárbrúarvarðarins, er ætlast var til að geymd væru á vöxtum, og byggja þá nýja brú, ef með þyrfti; ekkert á það minnst þótt brúin bilaði fyrr. – Hugmynd þessi, svo hyggileg sem hún kann að vera, þótti nokkuð draslkennd og ekki vel löguð til að spara fé sýslunnar, ef svo skildi fyrir koma, að einkum Árnessýsla ein yrði að byggja vandaðri brú síðar og mikið dýrari; var því tillaga þessi ekki borin undir atkvæði.
17. Sökum hinna sívaxandi útgjalda í sýslunni til vega og hafnagerða o.fl. var þingmönnum falið að flytja frumvarp til laga á næsta þingi, að lántaka sýslunnar til Ölfusárbrúar byggingarinnar mætti falla niður, og landssjóður ætti einn brúna, sem aðrar brýr á aðalpóstleiðum.
18. Þingmönnum sýslunnar falið að flytja frumvarp til laga á næsta þingi, þess efnis, að landssjóður annist brúargæslu brúnna, og hún þá heldur aukin.


Fjallkonan, 1. maí, 1901, 18. árg., 17. tbl., bls. 2:
Þessi frétt sannar að umferðarhávaði er ekki glænýtt vandamál.

Bæjarplága
sannkölluð eru hin mörgu akfæri, sem dregin eru um göturnar hér með svo megnu ískri og óhljóðum, að furðu gegnir. Auðvitað ætlar enginn, að hlutaðeigandi muni taka nokkurt tillit til þess, hvaða óþægindi þessi ískurtól gera, einkum þeim er fást við andlega vinnu, að ég nefni ekki sjúkt fólk, en þeir ættu að hugleiða, hvílíkt ógagn þeir gera sjálfum sé með þessu hirðuleysi, þar sem hjólásar endast margfalt lengur en ella, séu þeir smurðir við og við.
Þ.
* * *
Ritstj. blaðs þessa minntist á þetta efni fyrir nokkrum árum við einn helsta lækninn hér, og kvað hann það engu gagna, að vera að fást um annað eins. Þeir sem væru svo taugaveiklaðir, að þeir þyldu ekki skarkalann og ískrið hér á götunum, væru ekki á vetur setjandi. – Annarsstaðar mun mönnum samt ekki standa á sama, hvort akstur á strætum gerir hávaða eða ekki, og veit ég ekki betur en lögð sé mikil stund á það með fleiru við strætalagningar, að hafa þess konar efni í þær.
En veganefndin hér hefur alltaf sínar ástæður, ef menn hér hafa dirfst að kvarta um eitthvað við hana.


Ísafold, 4. og 8. maí, 1901, 28. árg., 27. og 28. tbl., forsíður:
Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur skrifar hér um fyrirkomulag á vegastjórn landsins og finnst það m.a. óeðlilegt að verkfræðingur hafi ekkert vald yfir verkstjórum.

Vegamálin.
Verkfræðingur landsins lætur uppi sínar skoðanir.
Hvernig vegamálum er nú háttað.
Ísafold hefur vakið máls á því fyrir nokkrum mánuðum, að brýn nauðsyn sé á að koma vegamálum vorum í nýtt horf, að því er að stjórn og eftirliti lýtur. Nú höfum vér átt tal við verkfræðing landsins, hr. Sigurð Thoroddsen. Og vér birtum hér skoðanir hans, eins og þær komu fram í samræðu við Ísafold.
Í utanför sinni hinni síðustu hefur hann lagt þessar skoðanir sínar fyrir ráðuneytið íslenska. En einskis varð hann vísari um, hvern árangur það mundi hafa, með því að ráðuneytið þurfti eðlilega að bera sig saman við landshöfðingja, áður en nokkru yrði til lykta ráðið.
Það er aðallega fyrirkomulagið á vegastjórninni, sem nauðsyn er á að tekið sé til rækilegrar íhugunar á næsta þingi, - sagði verkfræðingurinn. Eins og Ísafold hefur áður tekið fram, er ekki við því að búast, að það fyrirkomulag, sem gat verið gott, þegar aðeins fáum þús. kr. var varið til vegagerða, sé jafn hentugt nú, þegar allt að 100 þús. kr. eru veittar til þeirra umbóta.
Nú er fyrirkomulaginu svo háttað að verkfræðingur landsins og fjöldi verkstjóra standa undir landshöfðingja. Landshöfðingi setur verkstjóra yfir vegagerðir hér og þar úti um landið; þeim er falið að ráða verkamenn til vinnunar, ákveða kaup þeirra og greiða þeim kaupið. Ennfremur eru þeir látnir ráða allri vegagerðinni, hvar og hvernig vegina skuli leggja; í því efni eru þeir einráðir.
Þar á móti er verkfræðingur landsins sendur út um land til þess að mæla vegi og (ólæsileg 2-3 orð) þeim lýtur , svo á hann og að (ólæsilegt orð) hin vandasamari fyrirtæki, aðallega brúargerðir. En verkstjórar standa alls ekki undir honum; þeir skipa að miklu leyti honum jafn háan sess andspænis landshöfðingja; þurfa alls ekki að leita ráða til hans, að því er vegalagningar snertir, og snúa sér til landshöfðingja eins, þegar þeir eru í vafa um eitthvað viðvíkjandi vegagerðinni.
Vegagerðirnar eru því ekki undir handleiðslu neins manns með iðnfræðilegri (tekniskri) menntun. Til þess hefur þó íslenska ráðuneytið ætlast, þegar það setti inn í fjárlagafrumvarpið 1893 sérstaka fjárhæð til verkfræðings “til að standa fyrir vegagerðum” hér á landi. Enda segir ráðuneytið í athugasemdum við þann gjaldalið: “Eftir að vegagerðum hefur þokað svo fram og jafn miklu fé varið til þeirra, eins og nú er komið, mun vera orðin full þörf á því, bæði vegna vegasmíðisins sjálfs og til þess, að fénu verði varið sem best, að vegagerðir allar verði lagðar undir stöðuga umsjón verkfróðs manns”.
Eins og nú er ástatt, verður ekki sagt að verkfræðingur “standi fyrir vegagerðum”. eða að vegagerðir allar séu “lagðar undir stöðuga umsjón” hans. Það verður því ekki með öðru móti en því, að verkfræðingur hafi fullt vald yfir verkstjórunum og öllum framkvæmdum, að því er vegagerð snertir. Nú er verkfræðingurinn skoðaður sem nokkurs konar ráðunautur landshöfðingja og sér aðeins um þau verk, er landshöfðingi felur honum á hendur.
Þetta fyrirkomulag er að mörgu leyti óhentugt. Fyrir bragðið verður svo mikill skortur á fyrirhyggju og festu í vegagerðum: Hver verkstjóri vinnur í sínu horni, öllum óháður, og leggur vegina eins og honum best líkar, því umsjónin með vinnu þeirra er lítil sem engin. Ekki er ólíklegt að landssjóður verði fyrir allmiklu tjóni fyrir það, að vegirnir eru lagðir skakkt og óhentuglega. Afleiðingin af sjálfræði versktjóra verður og sú, að reynsla fæst ekki fyrir nýjum vegagerðaraðferðum, reynslan yfirleitt öll á dreifingu; en það er einmitt mjög nauðsynlegt í öllum löndum, að vegastjórinn útvegi sér reynslu fyrir því, hvað best hentar hverju landi í það og það skiptið, því að sérhvert land hefur sín frábrigði í því sem öðru. Yfirleitt getur ekki nein heild orðið í vegalagningunni fyrr en öll vegastjórn er lögð undir yfirráð manns með iðnfræðilega menntun.
Mörg eru dæmi þess hér, að vegagerð hefur verið ráðlausleg og fé þann veg á glæ kastað. Hér og þar hafa verið lagðir stuttir vegakaflar, án þess að hugsað hafi verið um, hvort þeir gætu orðið partar af akbraut, sem eftir vegalögunum á að leggja. Svo verða kaflanir ónýtir, þegar farið er að leggja brautina alla. Sumstaðar hafa vegir verið lagðir að vöðum á ám langt frá brúastæðum, svo verður að breyta veginum að ánum á löngum köflum, þegar brýr eiga að koma á þær.
Svo hefur það og sannast við rannsókn gegn einum verkstjóranum, að umsjón með verkstjórum, að því snertir meðferð þeirra á vegfénum, er ekki nægilegt, með því fyrirkomulagi, sem nú er á vegastjórninni. Þess er ekki heldur nein von. Landshöfðingi hefur eðlilega hvorki tíma né tækifæri til þess, að hafa nægilegt eftirlit í því efni.
Sem dæmi um þær misfellur, er eiga sér stað, minntist verkfræðingurinn á það, hvernig hestar væru fengnar til vegagerðarinnar. Verkstjóranum sjálfum er leyft að leigja landssjóði hesta. Fyrir bragðið hafa þeir sérstaka freisting til þess að halda hestaleigunni sem hæstri, að minnsta kosti vel skiljanlegt, að þeir klífi ekki þrítugan hamarinn til þess að fá hesta sem ódýrasta. Sumir verkstjórar hafa nú 7-8 hesta, sem þeir leigja landssjóði á sumrum.
Það er tilgangslaust að hafa nokkurn verkfræðing, ef hann á ekki að vera æðstur maður í vegamálum – auðvitað að undanskildum landshöfðingja, sem er hans sjálfsagður yfirboðari. Nú er það stundum fremur tekið til greina, sem verkstjórar segja, heldur en það, sem hann vill vera láta. Slíkt hlýtur að hnekkja starfi verkfræðings gagnvart verkstjórum og almenningi, og rýra álit hans. Hvering er við því að búast, að hann geti haft nokkurt vald eða ráða yfir verkstjórum, þegar þeir sjá, að þeir þurfa ekki að fara eftir hans ráðum? Þeir þurfa ekki annað en snúa sér til landshöfðingja og reyna að fá hann á sitt mál, í stað þess, sem er sjálfsagður hlutur í öllum menntuðum heimi, að verkstjórar, sem eiga iðnfræðilega menntun hafa fengið, standa beinlínis undir verkfræðingi og eru ráðnir af honum. Verkfræðingurinn á svo að sjálfsögðu að koma með sínar tillögur til landshöfðingja.
Ekki er það heldur óskiljanlegt, að verkfræðingur nái ekki að njóta síns til fulls með því fyrirkomulagi, sem nú er. Hann kveinkar sér ef til vill oft við, að koma fram með tillögur og ráðleggingar, þegar hann sér, að ekki er eftir þeim farið, og hann hefur ekki vald til að koma þeim í framkvæmd – getur jafnvel búist við, að verkstjórar verði spurðir um, hvort ráðlegt muni og hyggilegt, að fara að hans ráðum.
___________________

Hvernig vegamálunum ætti að vera fyrir komið.
Til þess að koma vegamálunum í betra horf, væri auðvitað besta að setja á stofn sérstaka vegamálaskrifstofu, eins og tíðkast í öllum öðrum löndum, með einum eða tveimur iðnfræðilega menntuðum aðstoðarmönnum og slíkri skrifstofu hlýtur að verða komið upp. Svo framarlega, sem landið á nokkurra sæmilega framtíð fyrir höndum, hlýtur mönnum að skiljast nauðsynlegt á henni. Allar þjóðir hafa smátt og smátt komist á það skoðun, að vel lagðir vegir séu þeim óhjákvæmilegt þroska- og framfaraskilyrði, og því fer fjarri, að þeim peningum yrði á glæ kastað, sem til þess yrði varið, að menn, sem því eru vaxtir, hefðu betra eftirlit með lagning vega og með ferð vegafárinu. Miklu fremur ætti það að vera margfaldur gróði fyrir landið.
Í Noregi er vegamálastjórninni svo fyrir komið, að einn vegameistari (Vejdirektörs) er settur yfir alla vegagerð ríkisins. Hann stendur beint undir mannvirkja-ráðuneytinu og hefur skrifstofu í Kristjaníu. Þar eru auk hans 5 verkfræðingar (ingeniörer) og nokkrir skrifarar, úti um landið, eru alls 51 verkfræðingar undir vegameistara, svo að verkfræðingar, sem að eins fást við vegagerðir og vegamál og launaðir eru af ríkinu, eru 57. Nú eru Norðmenn um 2 milljónir, svo einn vegaverkfræðingur kemur á hverja 35 þús. landsmanna. Eftir því ættum vér að hafa að minnsta kosti 2 verkfræðinga til vegagerðar. En svo er þess gætandi, hve miklu strjálbyggðara þetta land er en Noregur og hve miklu erfiðari ferðalögin eru hér. Hlutfallið verður þá allt annað, ef flatarmálið er lagt til grundvallar. Noregur er um 6000 ferh.mílur, og hefur því allt að því einn verkfræðing á hverja 100 ferh.mílur. Eftir því ættu að vera á Íslandi 18 verkfræðingar við vegagerðir. Vitanlega næði það engri átt. En ekki er sú tilgáta ósennileg, að eftir ein 30-40 ár verði kominn einn verkfræðingur í hvern landsfjórðung, og að þessir 4 verkfræðingar standi undir vegameistara, sem hefði skrifstofu sína í Reykjavík.
Yrði nú skrifstofa sett á stofn hér, með t.d. einum iðnfræðilega menntuðum aðstoðarmanni og einum skrifara, þá ætti fyrirkomulagið að vera á þann veg, að öll vegamál, er að einhverju leyti kæmi landssjóði við, væru send vegameistara, sem veitti skrifstofunni forstöðu. Hann ætti svo að láta undirbúa málin, fá umsagnir hlutaðeigenda, láta mæla vegarstæði o.s.frv., og senda svo tillögur sínar til landshöfðingja. Vegameistari ætti auðvitað að ráða verkstjóra, sjá um allar framkvæmdir á vegagerðum og öðru, er að þeim lýtur, og bera ábyrgð á. Hann gerði verkstjórum starf þeirra, ljóst og gæi þeim fyrirskipanir um, hvernig ætti að leggja vegina. Þá ætti að aldrei að geta komið fyrir, að menn færu að deilda um vegastefnur um það leyti, sem byrja ætti á vegunum; slíkt ætti að vera svo vel undirbúið að rætt, að fullráðið væri hvar vegina ætti að leggja áður en tekið er til starfa við vegagerðina. En einn aðalagnúinn á því fyrirkomulagi, sem nú er, er einmitt sá, að málin eru ekki nægilega undirbúin og rædd af réttum hlutaðeigendum.
Þá ætti heldur ekki að vera neitt bætt við óráðvandilegri meðferð vegafjársins af hendi verkstjóranna. Vegamálaskrifstofan yrði að hafa gott eftirlit með mannaráðningum ekki síður en, öðru og fjárgreiðslum öllum, og láta gera sem greinilegust eyðublöð fyrir útborganir. Vel virðist og til fallið, að skrifstofan ávísaði sýslumönnum í þeirri sýslu, þar sem vegavinnan færi fram, fjárhæðir til útborgunar verkstjórunum, eftir því sem þeir þyrftu á að halda. Þá mætti komast hjá því, að þeir hefðu mikla peninga undir höndum í einu. Verkstjórar gætu komið til sýslumanna einu sinni eða tvisvar í mánuði, sýnt þeim þá reikninga, sem þeir þyrftu að borga, og fengið peninga til þess. Svo ættu þeir að sýna sýslumanni reikningana kvittaða, þegar þeir kæmu næst.
Af kostnaðaratriðinu er það að segja, að auðvitað yrði þetta kostnaðarauki í orði kveðnu; en í raun og veru yrði það sjálfsagt ágóði fyrir landið. Kostnaðaraukinn mundi nema um 4.000 kr. á ári, ef aðstoðarmaður með iðnfræðilegri menntun yrði skipaður, þ.e. 2.500 kr. handa aðstoðarmanni og 1.500 kr. til skrifstofuhalds. Yrði þar á móti enginn aðstoðarmaður skipaður, en vegamálaskrifstofa samt stofnuð, mundi þurfa til hennar um 1.500 kr. árlega og annar væri kostnaðaraukinn þá ekki.


Fjallkonan, 7. maí, 1901, 18. árg., 18. tbl., bls. 3:
Það hefur að sjálfsögðu þótt nokkuð fréttnæmt að frétt birtist í erlendu blaði af íslenskum vegaframkvæmdum.

Lagarfljótsbrúin og Fagradalsvegur.
Bational-tíðindin dönsku segja frá Lagarfljótsbrúarmálinu og Fagradalsveginum, sem hér fer á eftir:
Það hefur verið sagt, að ekki gæti verið akvegur um Fagradal, en nú er það sannað af reynslunni. Það var byrjað að flytja brúarefnið í ágúst 1900 og lokið við það 20. mars í vor. Hafa þannig verið flutt 200 tonn af stórviðum og stálbjálkum yfir 30 feta löngum og 1400 pund á þyngd. Vegalengdin er 6 mílur. Verslunarstjóri Tuliniusar á Eskifirði Jón Arnesen stóð fyrir flutningunum. Í apríl átti að senda hingað menn frá Danmörku til þess að fara að vinna að brúargerðinni.
Gert er ráð fyrir að brúin verði algerð þetta ár og verður þá byrjað á Fagradalsveginum.


Þjóðólfur, 17. maí, 1901, 53. árg., 24. tbl., forsíða:
Á þingmálafundi Árnesinga voru gerðar nokkrar samþykktir varðandi vegamál.

Þingmálafundir Árnesinga.
_
3. Samgöngumál. a) Brú á Sogið. Fundurinn skorar á Alþingi, að veita fé úr landssjóði til brúargerðar á Soginu samkvæmt tillögu sýslunefndar. Jafnframt lýsti fundurinn megnri óánægju sinni yfir því, að engin skýrsla liggi enn fyrir frá verkfræðingi landsins um kostnað við brúna, þrátt fyrir ítrekaðar bænir héraðsbúa og skorar á verkfræðing, að láta uppi álit sitt hér að lútandi svo tímanlega, að áætlunin verði lögð fyrir næsta þing. Samþ. í einu hljóði.
b) Fundurinn skorar á Alþingi, að hlutast til um, að betra eftirlit verði haft á því, hvernig fé því er varið, sem lagt er til vegagerða og endurbóta á vegum. Samþ. í einu hljóði.
c) Fundurinn lýsti yfir því, að hann teldi sýslunni algjörlega ofvaxið að taka að sér viðhald á landssjóðsvegum í sýslunni.
d) Fundurinn skorar á þingið, að gefa upp lánið til brúnna á Þjórsá og Ölfusá og landssjóður taki að sér umsjón þeirra.
e) Fundurinn skorar á Alþingi, að akvegur verði lagður sem fyrst frá Kögunarhól að Ölfusárbrúnni.


Ísafold, 19. maí, 1901, 28. árg., 31. tbl., forsíða:
Á þingmálafundum Árnesinga var samþykktur vænn óskalisti um samgöngumál.

Þingmálafundir Árnesinga.
_ Þar næst var um samgöngumál samþykkt, að biðja um fé úr landssjóði til brúar á Sogið; að haft verði betra eftirlit með brúkun vegafjár; að sýslan telji sér ofvaxið viðhald á landsjóðsvegum í sýslunni; að gefin séu upp lánin til brúnna á Þjórsá og Ölfusá; að lagður verði sem fyrst akvegur frá Köguðarhól að Ölfusárbrúnni; að greitt verði fyrir samgöngum á sjó samkvæmt tillögum sýslunefnda.


Þjóðólfur, 4. júní, 1901, 53. árg., 27. tbl., bls. 107:
Ölfusingur skrifar hér um veginn með Ingólfsfjalli og finnst hann hafa verið lagður á óheppilegum stað.

Vegurinn með Ingólfsfjalli.
Vegurinn frá Kögunarhól austur með Ingólfsfjalli og niður að Ölfusárbrú, hefur verið lagður á afar óþægilegum stað; fyrst með byrjun hefur hann haft óþarfa kostnað í för með sér, sem leiðir af því, að á honum er stór bugða, sem alls ekki þurfti að vera, ef hann hefði legið neðar; svo kemur hinn óbeini kostnaður: þegar hlána tekur úr fjallinu á vorin, koma skriður og vatnsflóð ofan úr því, sem vinnur veginum meira og minna tjóni á hverju ári, svo í hann falla stór skörð og ofaníburður ést úr, enda hefur þurft að ryðja hann á þessu svæði endilöngu á hverju vori og oft að endurbæta á annan hátt á því stóra kafla, svo þetta hér að framan talið hefur æði mikinn kostnað í för með sér, sem getur með tímanum dregið út drjúga peninga, ef ekki er aðgert hið bráðasta.
Því er nú bráðnauðsynlegt að breyta vegastefnu þessari; afleggja þennan gamla veg með fjallinu, en taka upp annan nýjan spölkorn neðar, nefnilega beina línu úr hinu svokallaða Fossnesi, hér skammt fyrir utan brúna, sunnanhallt við Laugahólana, norðantil við Þórustaði, og í efri endann á Kögunarhól, þar ætti hann svo að koma á gamla veginn aftur.
Þessi stefna er miklu styttri, munar að lengdinni til allt að þriðjungi; vegurinn á þessu svæði stæði miklu betur; þó halli yrði töluverður á aðra hlið hans, þá ættu rennur að vera þess þéttari; ofaníburður held ég sé á þessu svæði góður. Sérstaklega þyrfti eina brú á þessu svæði, sem brú gæti kallast, það er á gilið fyrir ofan og austan Árbæ, það getur orðið nokkuð mikið stundum á veturna.
Mörgum, sem eftir veginum hafa farið út með fjallinu, hefur þótt það æði kynlegt, að hann skyldi ekki við byrjun vera lagður þessa síðargreindu stefnu; hafa sumir í því efni kennt því um, að það hafi verið ábúendunum á Árbæ að kenna, en ef svo hefur verið, þá lýsir það miður viðkunnanlegum hugsunarhætti, en slík sérplægni held ég stæði ekki í veginum nú. – Eftir því sem ég hef lauslega frétt, var máli þessu hreyft á þingmálafundinum að Selfossi 14. þ.m. (eða einum af þessum þremur, því mikils þótti Árnesingum við þurfa). Þar var ég ekki, sökum þess, að ég var á ferð, eins og margir aðrir góðir menn (en sýslunefndin í samráði við annan þingmanninn hagaði því svo viturlega að halda fundina um þann óheppilegasta tíma, sem orðið gat). Samt hef ég heyrt, að fundurinn hafi skorað á þingið að fá veg sem fyrst yfir þetta svæði, og vonumst vér til svo góðs af 1. þingmanni okkar og öðrum skynsömum þingmönnum, að þeir taki þetta mál til alvarlegrar íhugunar á næsta þingi, því það er áhugamál margra ferðamanna og betri manna hér í Árnessýslu, og það ætti að vera áhugamál þjóðarfulltrúanna fyrir landsjóðs hönd, því ef sama kákið helst áfram við þennan gamla veg, og ekki fenginn nýr í hans stað, þá verður landssjóður að blæða marga peninga fyrir einn.
Ritað 15. maí 1901.
Ölfusingur.


Þjóðólfur, 7. júní 1901, 53. árg., 28. tbl., bls. 110:
Sæluhúsið á Kolviðarhóli gengdi lengi mikilvægu hlutverki í samgöngumálum Sunnlendinga. Í þessari grein er rakin saga sæluhússins sem er mjög áhugaverð.

Draugakofinn gamli á Norðurvöllum til forna
og Sæluhúsið á Kolviðarhóli nú
I.
Því verður með engu móti neitað, að óviðjafnanlegur mundur er á því að vera á ferð nú austan yfir Hellisheiði, eða fyrir og um 1830. Í þá daga þóttist ekki fært að fara suður yfir “heiði” á vetrum, nema mestu ferðagörpum; fóru þeir þá helst lausagangandi, eða riðu 2-3 saman, völdu mjög færð og veður, og helst að vel stæði á með tunglsbirtu. Helstu ferðamenn í þá daga eða nokkru síðar voru Sigurður Hinriksson á Hjalla í Ölfusi, og úr Flóa eða austan yfir Ölfusá, Þorsteinn bóndi Jónsson á Björk, síðar á Moshól; fór hann þá aðallega með 1-2 hesta í taumi fyrir Thorgrímsen heitinn kaupmann á Eyrarbakka. Nokkru áður var það Jón Símonarson bóni í Óseyrarnesi, sem mikið orð hafði á sér fyrir suðurferðir á vetrum, enda var hann hraustmenni hið mesta, en samt sem áður er í frásögum fært, að hann hafði legið úti samtals 11 nætur sína í hvert skipti; í 3 nætur lá hann úti með Nikulási bónda í Stokkseyrarseli – bar þá Jón 8 fjórðunga, en Nikulás 5. Þessar nætur héldu þeir í grjótkofanum á fjallinu. – Ferðir þessar fór hann fyrir Lambertsen kaupmann á Eyrarbakka. Þegar þetta var, var ekkert skýli fyrir ferðamenn á leiðinni milli Vorsabæjar í Ölfusi og Helliskots (nú Elliðakot) í Mosfellssveit. Eins og geta má nærri, var jafnlöng leið á fjallvegi eða um 35 km afarhættuleg, ef ill veður kom upp á . Vitanlega voru vörðunar á Hellisheiði til vegavísis yfir hana, en þegar niður fyrir hana kom gránaði gamanið, því þá var það Húsmúlinn, sem farið var með, og þaðan stefnt á Lyklafell – en á milli múlans og fellsins er langur vegur og misjafn.
Brátt fór það að koma í ljós, að óhjákvæmilegt var að byggja eitthvað skýli milli byggða sem hægt væri að leita sér hælis í, ef út af bæri með veður o.fl. Því var það fyrir dugnað Gísla Eyjólfssonar bónda á Kröggólfsstöðum í Ölfusi, að ráðist var í að byggja dálítinn húskofa við tjörn eina á Norðurvöllunum; eru rústir þær undan Húsmúlatánni; þarna þótti vel til haga komið, og svo var þarna vatn nærri, enda kofinn á miðri leið hér um bil. Við kofa þennan, þótt lítilfjörlegur þætti, lágu ferðamenn á haustum, eða þegar þeir urðu naumt fyrir á vetrum. Legurúmið í kofa þessum var upphækkaður moldarbálkur í öðrum enda, tyrfður þó, – í hinum endanum gátu 3-4 hestar staðið inni.
Ekki verður þess dulist, að þjóðtrú manna á þeim tímum var svo háttað, að í meira lagi þótti bera á reimleikum í kofa þessum, og það jafnvel þó fleiri væru saman; svo mjög bar á því upp á síðkastið, að enginn eirði, eða að minnsta kosti fáir, sem lögðu út í að sofa þar af; þetta spillti mjög fyrir, að kofinn kæmi að tilætluðum notum, sem mikil voru þó.
Nálægt 1842 var það aðallega séra Jón Matthíasson í Arnarbæli og bændurnir Sæmundur Steindórsson í Auðsholti í Ölfusi og Jón bóndi Jónsson á Elliðavatni, sem gengust fyrir, að skýli fyrir ferðamenn yrði reist á Kolviðarhóli, er þótt fyrir marga hluta sakir hentugt húsnæði. Undir byggingu hins fyrsta sæluhúss þar flýtti það mjög fyrir, að nokkru áður urðu úti vestan við heiðina 2 menn austan úr Hvolssókn í Rangárvallasýslu; fóru þeir suður um vetur og var annar þeirra að fá sér giftingarleyfi; – út af fráfalli þeirra höfðu spunnist ýmsar umræður.
Hið nýja sæluhús var byggt úr timbri að mestu, efri hluti veggja úr timbri og sömuleiðis þak; loft var í húsinu og lítill 4 rúðu gluggi á framstafni, innar við gluggann var stór rúmstæði með meldýnu í. Flet þetta rúmaði 4-6 menn; 1 borð lítið var þar og gangur upp á loftið var í innri enda og hleri yfir stigagati. – Fremur lagðist sá orðrómur á, að ekki yrði öllum svefnsamt þar um nætur, og mun sú trú hafa fylgt húsi þessu svo lengi sem það stóð þar; eru til ýmsar sagnir um það. Húsið var 5 álna breitt, 9 á lengd og 3 álnir undir loft. Helst voru það Ölfusingar, sem efni lögðu til hússins, enda nokkrir menn syðra. Því fylgdi mjög stór meldýna, sem ætluð var yfir botninn í rúmfletinu, 2 skóflur og 1 fata og vandlega hafði verið frá öllu gengið. Brátt kom í ljós, þó skýli þetta væri hið mesta ferðabót, og oft hreinasta lífakker manna og hesta, að þrælsnátttúra misviturra þorpara og óknyttaseggja lét skýli þetta ekki vera í friði; meldýnan var smáskorin í sundur og síðast algerlega tekin, skóflurnar teknar eða faldar, hurðin brotin af hjörunum og margt fleira óþokkastrikið var gert við hús þetta. Vitanlega var reynt til af ýmsum sómamönnum sýslunnar að halda húsinu í sem bestu standi, og kvað kaupmaður G. Thorgrímsen á Eyrarbakka hafa látið sér mjög annt um, að allar viðgerðir á húsinu væru sem bestar.
Nú leið og beið, ferðamenn svömluðu með lestir sínar yfir gamla Svínahraun, án þess að neinar umbættur væru gerðar á húsinu á Kolviðarhóli eða veginum í Svínahrauni. Það ber víst öllum saman um, að verri og ógeðslegri veg en veginn yfir hraunið var ekki hægt að fá, einkanlega, ef eitthvað var að veðri.

Draugakofinn gamli á Norðurvöllum til forna
og Sæluhúsið á Kolviðarhóli nú
II.
Árið 1876 var steinhús á Kolviðarhóli reist; það var byggt upp af samskotum úr Árnes- og Rangárvallasýslum, og eitthvað létu Gullbringusýslubúar af hendi rakna til þessa fyrirtækis. Fyrir framkvæmdum á þessu stóðu þeir G. Thorgrímsen á Eyrarbakka, Magnús Stephensen yfirdómari, nú landshöfðingi, og sér Jens Pálsson, nú prestur að Görðum. Hús þetta er að stærð 10X10. Bæta átti það úr ýmsum óþægindum, sem áður voru, og gerði það enda; innréttað var það niðri þannig, að það var þiljað sundur í kross, en upp í tvennt. Strax sáu menn eftir bygginguna á húsinu, að ófært var að hafa það íbúðarlaust, því óðar var allt lauslegt, ofnar og hurðir brotið og bramlað. – Húsið var því auglýst til leigu veturinn 1877, og þá um voru flutti þangað sem fyrsti ábúandinn á Kolviðarhóli, Ebenezer Guðmundsson gullsmiður á Eyrarbakka; bjó þar í hálft annað ár; átti hann þarna við ýmsa örðugleika að stríða, vegleysur á báðar hendur, og enga styrk fékk hann af almannafé, sem honum mun þó upphaflega hafa verið lofað. Geta má þess og, að til örðugleika mátti telja, að þá varð að sækja vatn upp í Sleggjubeinsdal, mun sú vegalengd nema 7-800 faðma. Þá var það að ráðist var í að grafa brunn þann, sem enn er fyrir norðan “Hólinn” en eitthvað var veitt af fé til þess frá því opinbera. Íbúðin á Kolviðarhóli varð enn á borðstólum 1879 og um vorið 1880 fluttist Ólafur Árnason bókbindari af Eyrarbakka þangað, og dvaldi hann þar með mestu herkjum í tvö ár; fékk hann þó nokkurn opinberan styrk; t.d. ókeypis kol og steinolíu. Eftir för Ólafs af “Hólnum”, stóð húsið í nokkra mánuði autt; leit þá helst út fyrir, að það mundi ekki ganga út til íbúðar, sem þó ekki varð, því vorið 1883 flutti þangað búferlum Jón Jónsson bóndi á Stærribæ í Grímsnesi. Einhvern opinberar styrk vildi hann fá til að laga þar til o.fl., en hvernig sem það nú var, þóttust stjórnendur “Hólsins” komast inn á eitthvert aðgengilegra tilboð frá trésmið Sigurbirni Guðleifssyni á Lækjarbotnum, er varð til þess, að Jóni á Kolviðarhól var sagt upp íbúðinni í húsinu; flutti Sigurbjörn því þangað 1884, en Jón byggði bæ handa sér nokkru neðar í brekkunni. – Með því að Jón varð strax vinsæll meðal ferðamanna og naut meir hylli þeirra en sambýlismaður hans, og Sigurbirni geðjast lítt “Hóls-vistin” flutti hann þá burtu aftur eftir 13 mánaðar veru. Fékk Jón þá á ný bygginguna fyrir húsinu, fór hann þegar að laga þar til og byggja upp. Hann reif niður bæ sinn og flutti þangað, sem gamla sæluhúsið stóð, en úr því byggði hann aftur hesthús, er tók 12 hesta; annað hesthús byggði hann árið eftir, það rúmaði 10 hesta. Hjall, smiðju og heyhlöðu reisti hann líka, og tók hlaðan um 100 hesta; dálítinn´ túnblett girti hann af og byrjaði að rækta hann. Þegar svona var komið þótti Kolviðarhóll gamli vera búinn að taka allmiklum stakkaskiptum til bóta. Umferð á þessum tíma fór mjög vaxandi, því þá koma vegirnir aðallega til sögunnar. – Kolviðarhólshjónunum þótt mjög vel takast að gera gesti sína ánægða, enda þótt við marga örðugleika væri að búa. Í sambandi við hýsingu þá, sem nú var komin þarna, má geta þess, að bæði fékkst nokkuð til hennar úr sýslusjóði Árnessýslu og sömuleiðis úr jafnarsjóði suður-amtsins, er keypti bæ Jóns o.fl., er það vorið 1895 afhenti landsstjórninni, og taldi henni skylt, að standa straum af húsinu ásamt með veginum. Styrkveitingar þessar mæltust vel fyrir , og þóttu koma niður á réttum stað. –

Draugakofinn gamli á Norðurvöllum til forna
og Sæluhúsið á Kolviðarhóli nú
III.
(Síðasti kafli)

Árið 1893 tók hinn núverandi sæluhúsvörður Guðni Þorbergsson, tengdasonur Jóns Jónssonar fyrirrennara sín, Kolviðarhól, og um haustið 1892 fékk hann sér, samkvæmt lögum um rétt til að taka upp nýbýli 24/1 1776, útmælt, allmikið land, er liggur í spildu kringum húsmúlann sunnan og vestan, en að austan upp í Reykjafell og norður fyrir Sleggjubeinsdal. Engjablettinn við húsmúlann hefur Guðni afgirt að mestu með 400 faðma lögnum grjótgarði og 7-800 faðma löngum skurði, sem bæði er notaður sem áveituskurður og varnarskurður, skurðir þessir eru að meðaltali 9 fet á breidd og ull 2 á dýpt. Túnstæði allmikið er þegar búið að afgirða með 3-420 faðma löngum garði, og er þegar búið að slétta í því fulla 250 faðma; af landi þessu fær nú ábúandinn um 270 hesta. Þetta mega nú heita allmiklar umbætur á landi, sem ekkert gaf af sér áður, þá varð að afla heyjanna upp á fjalli á hinum svo nefndu Skarðsmýrum. Þó heyskaparhorfur séu þannig nú, þarf mjög mikið að kaupa að af heyjum, því fénaður er þarna furðu mikill, eins og erfitt er þó með hann. Í sumar voru þar 8 nautgripir og 13 áburðarhross, og nálægt helmingi af hvoru mun hafa verið á heyjum þarna í vetur, hitt í fóðrum. Um 15-20 manns hefur Guðni nú á búi sínu, má það mikið heita, 2 vagna hefur hann fengið sér til léttis við flutninga. – úr því minnst hefur verið á byggingar fyrirrennara Guðna, er rétt að taka hans verk með líka. Eins og áður er ávikið tók landshöfðingi fyrir hönd landssjóðs við húsinu 1895 og frá þeim tíma hafa tillögur hans lagt góða hönd í bagga með byggingu og viðhaldi á húsunum á Kolviðarhóli, fyrst með því, að láta byggja skúr við vesturenda steinhússins og koma hann í stað gamla bæjarins, enda og með því að leggja til járn á þak á eitthvað af hesthúsunum o.fl. en þó síðast og ekki síst, fyrir það, að ráðist var í að byggja upp nýtt og allvel vandað timburhús járnvarið 10X10 á stærð, við steinhúsið gamla, sem allt er gliðnað og af göflum gengið, og var enginn manna íbúð með seinasta þó í því væri búið. Nýja húsið er innréttað hátt og lágt og vel gengið frá flestu; kjallari er undir því öllu, þiljaður í 4 hólf, grjótið í kjallaranum og aðra vinnu við hana lagði Guðni til, gegn því að mega hafa þar búslóð sína. Gamla steinhúsið keypti hann eftir mati, fyrir nálægt 350 kr., eru þar nú smíðaklefi, snæðingaherbergi fyrir almenning, svefnklefar o.fl. Í nýja húsinu eru 2 svefnherbergi, 1-2 í skúrnum. Í húsinu er og lagleg gestastofa, nú mun vera til góð sængurrúm fyrir 12 manns, og önnur ringari fyrir 16, þessa gestatölu er hægt að hýsa án þess að hreyft sé við heimilisfólkinu. Hesthús og fjós eru nú undir einu þaki, hesthúsunum skipt ísundur; þau taka nú til samans um 30 hesta, en fjósið um 10 nautgripi. Hlöður eru stækkaðar svo, að nú taka þær um 4-500 hesta.
Mikið er það ánægjulegt nú orði að líta heim eða koma heima á fjallabýli þetta, og sjá allar þær umbætur, er þarna hafa orðið á tiltölulega fáum árum, eins er það ekki síður gleðilegt íhugunarefni fyrir aðkomumenn, að Kolviðarhólshjónin yngri ekki síður en hin njóta mjög almennrar vinsældar, bæði hjá æðri sem lægri. Allt hreinlæti og umgengni bæði út og inni virðist í góðu lagi og vel við hæfi alla almennings.
Af öllu því sem nú hefur verið minnst á, sést að bráðnauðsynlegt var að húsgisting á þessum fjölfarna stað yrði viðunanleg, útlendingar eru farnir að gista þarna og fer straumur þeirra sívaxandi. Má því nærri geta, hvert gleðiefni það hefði verið fyrir Hólbúann áður að þurfa að hola þeim niður innan um misjafnlega fyrir kallað lestarmenn, ekki hefði það orðið til að sýna betri hliðina á fjárveitingarvaldinu, að þurfa að segja að þetta væri eina byggða sæluhúsið á landinu, sem það ætti hlut í, en sem betur fer sýnist nú komin sæmileg tillög frá þess hendi. Framfari þessar, sem þannig hafa orðið á Kolviðarhóls ábúðinni eru vafalaust ekki hvað síst því að þakka, að nýbýlisréttur og útmæling fékkst á landinu. Stríðlaust átti það samt ekki að ganga, því Ölfusingar spyrntu allmargir á móti nýbýlisrétti Guðna, og töldu það rýra afréttarland sitt, en sem betur fór létu þeir undna síga – enda munu menn þeir, er mest stóðu á móti, hafa álitið land þetta fremur eiga að nafninu, en að notin væru ein mikil af því. – Á stöðvum þessum var vitanlega griðland stóðhrossa sunnan frá sjó, og áfangastaður ferðamann hesta – allt þetta virðist komast jafnvel af eftir sem áður. – Þó allt þetta hafi nú fallið, eins og það átti að vera eða því sem næst, er þó eitt, sem angrar Kolviðahólsbúann, sem aðra mæta menn, er út í slíkt bugar, það er hin leiðinlega hverfsins náttúra hinna og annarra ómerkilegra flökkudýra í mannsmynd, sem oft og einatt eru að hafa í frammi hinar og þessar brellur við húsið, eða áhöld húsbúans, að ógleymdum þeim mikilsháttar bresti, að grípa þar ýmislegt, sem heimilinu tilheyrir. Sem betur fer eiga hér næsta fáir hlut að máli, en þetta ætti alls ekki að koma fyrir nú orðið. – Þess er líka mikillega óskandi, að sæluhús á fjallvegum, sem ætluð eru almenningi til skýlis, ættu betri meðförum að sæta en hús þetta á Kolviðarhóli átti fyrst. Samt dettur manni í hug, sem sér Vatnasæluhúsið og sæluhúsið á Mosfellsheiði nú, að nokkuð eigi þeir einstaklingar í land til góða siðgæðis og menningar, sem spillt hafa þaki og veggjum þeirra, einkum því fyrr nefnda; þetta þarf bráðlega að lagast, ef þjóðin á ekki að fá vansa af háttarlagi aumingja þessara. – Þó piltar þessir geti dulist og sloppið hjá lagarefsingu, þá er þó til önnur hefnd, hefnd, sem kemur oft fram af ófyrirsjáanlegum atvikum; gæti því svo farið að einhverjir fordjörfungaröndum þessum verði að leita sér skjóls í húsum þessum eða annar staðar; er kynni þá að minna þá óþægilega á, brotna glugga eða hjaralausu hurðina. – Alls þessa eru dæmi, og er hverjum manni óskaði að varast þau. –
Ritað í apríl 1901 S. J.


Austri, 8. júní, 1901, 11. árg., 21. tbl., forsíða:
Enn er deilt um hvort Fjarðarheiði eða Fagridalur sé heppilegri fyrir akbrautina frá Fljótsdalshéraði til sjávar og hér svarar Jón Bergsson grein í Bjarka (9. tbl.).

Sjávargata Fljótsdalshéraðs
Í 9. tbl. “Bjarka” þ.á. ritar einhver Skuggasveinn, er nefnir sig Hörð, grein með yfirskriftinni “Sjávargata Fljótsdalshérað”.
Það lýtur út fyrir að Hörður þessi ætli sér að slá smiðshöggin á að úrskurða hvar akbraut skuli liggja frá Héraði til sjávar, þar sem hann þykist fær um, vegna afstöðu bústaðar síns, að dæma hlutdrægnilaust um málið, og er svo glöggskyggn, að hann þarf ekkert stækkunargler, svo vegfróður, að hann getur reiknað allan kostnað upp á krónu, svo gagnkunnugur fjallvegunum, að hann þekkir alla kosti og ókosti, og svo úrræðagóður, að þegar fokið er í öll skjól, þá hamast hann með snjóplógnum.
Hörður byrjar á að lýsa mjög fagurlega nauðsyn á vegasambandi frá sveitum til sjávar, og hve lýsandi og lamandi áhrif strjálbýli og vegleysur hafi á allan okkar framfaraviðleitni, og verður sá sannleikur aldrei nógsamlega útmálaður. Megum við Héraðsbúar vera þakklátir öllum, sem setja sig inn í erfiðleika þá, sem við höfum við að búa hvað aðflutninga snertir og vilja stuðla að því að úr þeim sé bætt, en óþökk ættum við að gjalda hverjum þeim, sem vill gjörast “Þrándur” í götu og hefta allar framkvæmdir í því máli.
Hörður tekur það fram að eigi hafi sjaldnar verið minnst á vegastæði þetta, en vegastæði, sem flestir geti orðið ásáttir um sé ófundið enn, þrátt fyrir það þó vegalögin frá 13. apríl 94 taki af öll tvímæli í því efni og ákveði að braut skuli leggja um Fagradal til Reyðarfjarðar. En hverjir hafa mest þráttað um þetta vegastæði? Eru það ekki einmitt þeir, sem minnst kemur þetta mál við nefnil. Fjarðamenn? Sem af mesta kappi berjast fyrir að akbraut verði lög hver til síns fjarðar af þeirri eigingjörnu ástæðu að ná til viðskipta okkar Héraðsbúa, án tillits til þess hvað okkur kemur að mestu notum, sem vegurinn er gerður fyrir.
Ég þykist eins og Hörður vera nokkuð kunnugur báðum fjallvegunum, Fagradal og Fjarðarheiði, án þess nokkurn tíma að hafa skoðað þá í stækkunargleri, mér hefur gefist tækifæri að kynnast þeim á annan hátt, og getur mér aldrei blandast hugur, um að það sé Fagridalur, en enginn annar fjallvegur, sem geti komið til greina sem akbrautarstæði fyrir okkur Héraðsbúa, þrátt fyrir það þó hann sé talsvert lengri en Fjarðarheiði, og þrátt fyrir það, þó ég hefði margfalt heldur kosið Fjarðarheiði, hefðu sömu skilyrði verið fyrir því, að hún gæti komið okkur að fullum notum, en því miður er ekki því að fagna. Án þess að ég ætli mér að leggja dóm á það hvor vegurinn yrði dýrari, þá get ég ekki betur séð en að nægilegt efni sé í veg á Fagradal, að ofníburð mætti víðast fá góðan og eftir dalnum sjálfum mjög þægilegt að gera veg, því mikið af dalnum eru harðvellis-grundir, sem einmitt sýna og sanna, að það er ekki mikið um aurskriður á honum. Það, sem sérstaklega mælir með Fagradal sem akbrautarstæði, er, að hann rennur svo fljótt á vorin, getur verið alrunninn þegar Fjarðarheiði er bráðófær, sem oft kemur fyrir að er fram í júlí. En það er í maí og júní sem við þyrftum að flytja að okkur vörurnar til þess að missa ekki dýrmætasta tíma ársins, heyskapartímann, til flutninganna, þótt við höfum mátt sætta okkur við það hingað til. Þá er annað atriði, sem máske hefur mesta þýðingu, að Fagridalur er svo brattlítill, að merkjanlegur bratti yrði ekki nema á örstuttum vegi, en aftur á móti yrði svo langdreginn bratti á Fjarðarheiði, að engir hestar entust til að draga upp á móti brekku líklega allt að því að máske fullkomlega 3 klst. meira en helmingurinn af þeim þunga, sem hægt er að aka á sléttum vegi, eða vegi með mjög stuttum bratta. Það er því sannfæring mín að hver hestur gæti dregið allt að því helmingi meiri þunga yfir Fagradal en Fjarðarheiði og þegar öllu væri á botninn hvolft ekki á lengir tíma, því vegurinn yrði þeim mun óerfiðari sem hann yrði lengri.
Aðal-ókostir Fjarðarheiða eru langdregin bratti, svo snjóþyngsli, og hvað seint leysir snjó af henni á vorin, svo við gætum að öllu jafnaði ekki notað hana nema um háheyskapartímann, nema hlaðinn væri svo hár vegur, að hann næði upp úr öllum vanalegum snjó, og til þess þyrfti hann að vera fjarska hár, því komið hefur fyrir, að nokkrar vörðunar, sem eru þó 4-6 al. á hæð, hafa verið í kafi í miðjum júní. Hörður gerir mjög lítið úr brattanum, segir að það þurfi nokkrar sneiðingar beggja vegna. Maður gæti næstum ímyndað sér, að eftir þessari lýsingu, að hann hefði aldrei farið yfir Fjarðarheiði, eða þá alls ekki athugað brattanum á henni, því það dylst víst engum manni, að til þess að fá þar hæfilega brattalítinn veg þyrftu ótal sneiðingar. Hann álítur viðhaldskostnað lítinn. En hvernig hefur sá vegur staðið sig sem gerður hefur verið á heiðinni? Hann hefur víst ekki farið yfir Gúlinn milli Stafanna í fyrra sumar – þar var þó einu sinni góður vegur – og hann hefur heldur ekki tekið eftir hvernig þær vegabætur hafa haldið sér, sem gerðar hafa verið á norðurbrúninni. Hann segir oft snjógrunnt á vetrum á Fjarðarheiði, og lestarferðir algengar vetur og sumar yfir hana. Það er auðvitað satt, að lestarferðir eru algengar yfir heiðina á sumrin, en sjaldnar á vetrum fyrr en hjarn kemur á útmánuðum, og er það þó oft neyðarúrræði, og menn og skepnur hafa oft komist þar í hann krappann. Hefði Hörður verið lestamaður á Héraði og haft nokkra tilfinningu fyrir meðferðinni á skepnunum, er mér grunsamt um að lýsing hefði verið á annan veg en að snjógrunnt væri að jafnaði á heiðinni.
En þá kastar fyrst tólfunum þegar Hörður segir: að sú mótbára sé ekki mikilsvirði, þó snjó leysi seinna af Fjarðarheiði en Fagradal, því ef brautin geti ekki orðið fær nema í alauðu, þá sé líklega réttat að hugsa ekkert um hana. Hvað þýðir að byggja braut, hafði það enga þýðingu að hún sé upp úr snjónum? Er þá nokkuð verra að aka á snjó sem engin braut er undir? Svo segir Hörður; “brautin hlýtur einmitt að vera fær bæði vetur og sumar nema í aftöku snjóum”. Ég þekki ekki enn þann vetur, sem brautin myndi ekki vera mest öll undir snjó allan vegurinn nema hún væri nær því jafn há vörðunum og sumsstaðar hærri.
Og ennfremur segir Hörður: lítill snjór sakar ekkert, leggi driftir að mun á brautina, þarf að ryðja hana með snjóplóg áður flutningskerrur farar um. Ég tek það aftur fram, að það lítur út fyrir að Hörður sé mjög ókunnugur Fjarðarheiði á vetrardag. Honum skilst ekki að þar geti lagt nema driftir, sem auðvelt sé að sópa burt með snjóplógi hvenær sem vera skal. En hverjir eiga svo að sópa? Á hver að sópa fyrir sig, eða ætlar Hörður að sópa fyrir alla? Ef hver ætti að sópa eða ryðja fyrir sig, er ég hræddur um að sú kaupstaðarferð gæti orðið nokkuð dýr, og þó Hörður vildi gera það er hætt við að hann gerði það ekki oft fyrri ekki neitt. Ég hygg hann þyrfti að vera vel haldinn af þeirri atvinnu. Aðferð Norðmanna með sleða ofan á hjólgrindum sleppi ég að minnast á, því ég hygg hún eigi jafnlangt í land hjá okkur eins og snjóplógurinn, sérstaklega upp á háfjöllum.
Ef akbraut kæmist á, álít ég að menn ættu sem minnst að brúka vetrarferðir yfir fjöllin, því þær hafa verið og munu verða hættulegar og hafa kostað margt mannslíf auk hrakninga og erfiðis fyrir menn og hesta.
Þá er sumt ótalið sem mest mælir með braut fyrir Fjarðarheiði hjá Herði: “Seyðisfjörður, stærsti og besti kaupstaður austanlands, þar er sjúkrahús, lyfjabúð, bókasafn Austuramtsins, 2 prentsmiðjur, pöntunarfélag og álitlegur markaður fyrir afurðir uppsveitamanna o.s.frv.” Þetta er nú reyndar allt mikið í munni, ef það gæti haft nokkur áhrif á aðflutninga okkar Héraðsmanna eða létt undir þá, en það getur mér ekki skilist. Pöntunarfélagið eigum við Héraðsmann og getum flutt það hvert sem við viljum, en fyrir meðvitundina um, að hitt allt sem upptalið er sé á Seyðisfirði – og enda þótt maður bætti dýraverndunarfélaginu við – vildi ég ekki leggja svo mikið í sölurnar, að kafa ófærð og snjó, ef kostur væri á öðrum betra vegil
Eins og ég hef tekið fram, er það Fagridalur einn, sem getur komið okkur að fullum notum með akbraut, en aldri Fjarðarheiði; hún gæti ekki orðið okkur að hálfum notum af þeim ástæðum sem ég hef tekið fram.
Að Noðurmýlingar séu á móti akbraut yfir Fagradal, því mótmæli ég – þeir sem annars nokkra akbraut vilja hafa. – Ég hef talað við svo marga málsmetandi menn, sem alveg eru á sömu skoðun og ég í því máli.
Ritað í maí 1902
Jón Bergsson


Austri, 8. júní, 1901, 11. árg., 21. tbl., forsíða:
Hér er kvartað yfir því að Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur vilji helst enga hafa í vinnu nema Sunnlendinga og sé það fyrirkomulag óhafandi bæði fyrir landssjóð og Austlendinga.

Vegavinna
Það hefur verið unnið töluvert að vegum hér á Austurlandi undanfarin ári, og hafa það verið mest Sunnlendingar, er unnið hafa að vegagerðinni; þó hafa nokkrir Austlendingar hingað til fengið þar vinnu, þar til í ár, að vegabótastjórarnir hafa neitað flestum Austfirðingum um vinnu og það þó þeir hefðu verið með þeim áður, og reynst vel og vegabótastjórarnir bera það fyrir að, vegfræðingur landsins, Sigurður Thoroddsen, vilji helst enga hafa í vinnunni nema Sunnlendinga.
Þetta fyrirkomulag virðist oss óhafandi, bæði fyrir landsjóð og oss Austlendinga.
Landssjóður tapar á því, að launa mönnunum miklu lengur að sunnan, og svo mun hann borga eitthvað af ferðakostnaðinum.
En vér Austlendingar virðumst að standa næstir atvinnunni í okkar eigin landsfjórðungi. Það væri fróðlegt að reyna það, hvernig Sunnlendingar tækju því, ef teknir væru menn nær eingöngu héðan að austan til þess að vinna að vegabótum hjá þeim. Og vér fáum ekki séð, að Sunnlendingum beri nokkur forgangsréttur til vegabótavinnu í öðrum landsfjórðungum. Og svo er nauðsynlegt að aðrir venjist og læri þá vinnu en Sunnlendingar einir, svo að kunnátta sú geti komið öðrum landsmönnum að notum við vegalagningu á sýslu- og hreppavegum.
Sýslunefnd Norður-Múlasýslu lagði í vetur töluvert fé til vegagerða hér í fjörðunum, er Bjarni gullsmiður Sigurðsson hefur tekið að sér að láta vinna, og mun hann vel kjörinn til þess starfa, enda hefur hann undanfarin ár unnið að vegagerðum með Magnúsi Vigfússyni. En til allrar óhamingju hafði eigi verið séð fyrir að hafa til nein vegabótaverkfæri, svo hætt er við að vinnan geti varla gengið eins greitt og hefðu þau verið í góðu lagi. Er það sorglegt hugsunarleysi af þeim, sem um það áttu að sjá í tæka tíð.


Þjóðólfur, 14. júní, 1901, 53. árg., 29. tbl., bls. 114:
Sigurður Thoroddsen svarar hér gagnrýni þingmálafundar Árnesinga og útskýrir hvers vegna ekki hafi verið gerðar nákvæmar áætlanir um brú á Sogið.

Brú á Sogið.
Í Þjóðólfi, 24. tölublaði þ.á., er skýrt frá því að á þingmálafundi Árnesinga, sem nýlega var haldinn á Selfossi, hafi meðal annars verið samþykkt áskorun til Alþingis “um að veita fé úr landssjóði til brúargerðar á Soginu, samkvæmt tillögu sýslunefndar. Jafnframt lýsti fundurinn megnri óánægju sinni yfir því, að engin skýrsla liggi enn fyrir frá verkfræðingi landsins um kostnað við brúna, þrátt fyrir ítrekaðar bænir héraðsbúa og skorar á verkfræðing að láta uppi álit sitt hér að lútandi svo tímanlega, að áætlunin verði lögð fyrir næsta þing”.
Þar eð ég verð að álíta, að fundarmenn hefðu ekki samþykkt slíka óánægju yfirlýsingu, ef þeir hefðu kynnt sér nægilega þetta mál, sem þeir voru að fjalla um – og getur maður ekki með sanngirni krafist þess af opinberum fundi, áður en hann fer að ráðast á einstaka menn? – verð ég að skýra þeim frá málavöxtum.
Samkvæmt áskorun landshöfðingja fór ég síðasta þingsumar – í ágúst – austur að skoða brúarstæði á Ytri-Rangá og Soginu; ég mældi bæði brúarstæðin og sendi landshöfðingja eftir nokkra daga teikningu og kostnaðaráætlun af brú yfir Rangá, en gat þess jafnframt í bréfi mínu, að ég hefði mælt brúarstæði á Soginu hjá Alviðri, og myndi eftir lauslega áætlun, hengibrú (ca. 60 álnir á lengd) þar kosta um 15.000 kr., en ég áliti að umferðin þar væri eigi svo mikil, að forsvaranlegt væri að leggja út í svo mikinn kostnað til brúargerðar, einkanlega þar sem brúarstæðið væri svo hentugur staður fyrir dragferju, því að þar legði fljótið mjög sjaldan og mætti því notast við ferjuna mestan hluta árs; þessi dragferja áleit ég að myndi nægja fyrst um sinn, þangað til umferðin yrði svo mikil, að þörf þætti á brú; dragferjan myndi kosta svo lítið, 2-3000 kr. eftir útbúnaði og gæðum, að sýslunni myndi ei ofvaxið að koma henni á.
Ég hafði mjög nauman tíma þá – hafði brugðið mér snöggvast til þessara mælinga frá Örnólfsdalsbrúnni, sem ég var þá að koma á – og þess vegna sendi ég ekki teikningu né sundurliðaða áætlun yfir brúna, enda áleit ég, að það myndi ei vera til mikils að koma með fjárbeiðni til þingsins, þegar mín tillaga hlaut að vera sú, að ekki yrði sett brú á Sogið fyrst um sinn.
Síðan hef ég ei heyrt neitt um þetta mál og hef ei fengið neina áskorun frá landshöfðingja um það, að koma með sundurliðaða áætlun, svo ég hef staðið í þeirri meiningu, að sýslubúar væru hættir við brúarhugmyndina og væru farnir að undirbúa dragferju.
Auðvitað skipti ég mér ekkert af þessari fundarsamþykkt undir þessu ókurteisisformi, en ekki veit ég, hvað ég hefði gert, ef þeir hefðu “privat” snúið sér til mín. – Nú verða þeir, ef þeir vilja halda þessu máli áfram, að snúa sér til landshöfðingja og það er þá undir því komið, hvort honum finnst ástæða til þess að gerð verði sundurliðuð áætlun yfir brúargerðina.
Möðruvöllum 29. maí 1901.
Sig. Thoroddsen.
* * *
Athgr. Það var í sjálfu sér gott að fá þessa skilagrein frá verkfræðingnum. Af henni sést, að ekki hefur verið gerð enn nein sundurliðuð áætlun um brúargerð þessa á Soginu eða um kostnaðinn við brú þessa, og hafa þó Árnesingar oftar en einu sinni farið þess á leit. Brúarinnar er full þörf á þessum stað, því að 2 fjölmennustu hreppar sýslunnar, sem inniluktir eru af óbrúaðir sundvötnum, Grímsnes- og Biskupstungnahreppar, mundu almennt nota brú þessa, bæði niður á Eyrarbakka og hingað til Reykjavíkur. Að vísu væri dragferja betri en ekki í bráð, en úr því að fyrr eða síðar verður óhjákvæmilegt að byggja hengibrú þarna yfir Sogið, virðist lítil ástæða að káka við dragferju fyrst, enda munu sýslubúar heldur vilja vinna til að bíða um stund, til að fá þar reglulega hengibrú, heldur en að fara að kosta þar dragferju til bráðabirgða. Hitt er annað mál, hvað þeir neyðast til að gera, ef þingið vill ekkert sinna réttmætum óskum þeirra og enginn verkfræðingur fæst til að semja áætlun um kostnaðinn, eða verður látinn gera það, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur héraðsbúa. Vonandi skýrir landshöfðingi frá því á þingi, hvers vegna þetta hefur farist fyrir til þessa.
Ritstj.


Þjóðólfur, 23. júní, 1901, 53. árg., 37. tbl., bls. 147:
Frumvarp á Alþingi um Brúargerð á Jökulsá í Axarfirði.

Alþingi.
_
Brúargerð á Jökulsá í Axarfirði frá Pétri Jónssyni (að verja til hennar allt að 50.000 kr. úr landssjóði).


Þjóðólfur, 28. júní, 1901, 53. árg., 32. tbl., bls. 124:
Á þingmálafundum í Borgarfjarðarsýslu var ályktað um vegamál.

Þingmálafundir í Borgarfjarðarsýslu.
_
8. Að veitt sé fé til að halda áfram vegagerðinni frá Akranesi upp eftir héraðinu og Laxá brúuð.
9. Að veitt sé fé til brúar á Grímsá á aðalpóstleið (hjá Fossatúni).
10. Óskað bóta á veginum yfir Uxahryggi (milli Borgarfj. og Árness).

Þjóðólfur, 9. júlí, 1901, 53. árg., 34. tbl., bls. 134:
Hér er sagt frá vígslu hinnar nýju hengibrúar yfir Hörgá, sem þykir hið mesta mannvirki og hefur verið á fjórða ár í byggingu.

Hörgár-brúin.
Hinn 22. júní var ný hengibrú úr járni, yfir Hörgá á Staðarhyl, fyrir framan og neðan Möðruvelli, vígð. Til brúar þessarar veitti þingið 1897 7.500 krónur móti því, að sýslubúar legðu annað eins fram, og hefur brú þessi þannig verið á fjórða ár í smíðum, sem orsakast af ýmsum óhöppum, sem fyrir hafa komið, enda hefur hún orðið talsvert dýrari en ráð var fyrir gert, undir 19.000 kr. Brúin er 78 álnir á lengd og 4 ál. á breidd og að öðru leyti mjög svipuð öðrum járn-hengibrúm, sem komnar eru upp. Sigurður Thoroddsen hefur verið aðalverkstjóri við hana og undir honum Páll barnakennari Jónsson á Akureyri, sem er mjög verkhygginn maður. Af hálfu sýslunefndarinnar í Eyjafjarðarsýslu hafa þeir Stefán kennari Stefánsson á Möðruvöllum og Klemens sýslumaður Jónsson haft aðalframkvæmdina.
Vígsludagurinn varð fyrst ákveðinn 3 dögum á undan, og aldamótahátíð Þingeyinga var haldinn á Ljósavatni daginn áður, og dró þetta hvorttveggja úr aðsókn, og mættu þó á 6. hundrað manns við vígsluna. Klemens sýslumaður Jónsson hélt aðaræðuna, og því næst hélt Stefán kennari Stefánsson ræðu fyrir verkamönnunum. Fleiri ræður voru haldnar á eftir og kvæði sungin, og fór allt mjög vel og reglulega fram.
Eyfirðingum þykir þetta góð samgöngubót, enda hafa þeir lagt mikið gjald á sig til að koma brúnni upp. Nú vantar aðeins veg að henni, en þar sem póstvegurinn, sem liggur um Möðruvelli, er bæði ófullkominn og afarkrókóttur, þá vænta þeir, að nýr vegur verði bráðlega lagður frá Akureyri beint frá Kræklingahlíð að brúnni og þaðan fram að Þelamörk, eins og leið liggur nú vestur yfir heiði.
S.


Þjóðólfur, 9. júlí, 1901, 53. árg., 34. tbl., bls. 134:
Á þingmálafundi Sunnmýlinga voru vegamál talin þau mikilvægustu.

Þingmálafundur Sunnmýlinga.
_
Eftirfarandi tillögur voru ræddar og samþykktar:
. Samgöngumál:
. Fundurinn skorar á báða þingm. sína að gera allt, sem í þeirra valdi stendur til, að fé verði lagt úr landsjóði á þessu þingi til akbrautarlagningar um Fagradal, sem fundurinn skoðar eitt fyrsta lífs- og framfaraskilyrði Fljótsdalshéraðs. Akbraut yfir Fjarðarheiði er fundurinn algert mótfallinn og vill heldur bíða betri tíma í akbrautarmálinu, en að lagt verði fé til akbrautar yfir hana.
. Fundurinn skorar á þingið að hlutast til um, að Selfljótsós verði mældur upp til uppsiglingar fyrir strandbátana.
. Fundurinn skorar á þingið, að breyta vegalögunum í þá átt, að þeim hluta sýsluvegagjaldsins, sem lagður er til póstvega, verði hér eftir ráðstafað af sýslunefnd.
. Fundurinn skorar á þingið, að veita fé til brúargerðar á Grímsá, að minnsta kosti til jafns við sýslufélög.


Þjóðólfur, 12., 19. júlí og 3. ágúst, 1901, 53. árg., 35., 36. og 39. tbl.:
Hér skrifar Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur langa grein um sakamálarannsóknina gegn Einari Finnssyni vegaverkstjóra, en Sigurður varð einmitt til að hleypa því máli af stað.

Sakamálsrannsóknin gegn Einari Finnssyni.
Ég hef lengi ætlað mér að skýra almenningi frá sakamálarannsókn þeirri, er hafin var gegn Einari Finnssyni útaf kæri minni gegn honum 16. desemb. 1899, en mér hefur satt að segja þótt það mál allt svo ljótt og leiðinlegt, að ég hef kynokað mér við að vera að hreyfa við því, en hinsvegar hef ég ekki getað varðið það fyrir samvisku minni að láta kæfa slíkt mál niður eða drepa það með þögninni, og þar sem ég nú nýlega hef stigið hið fyrsta spor í þá áttina að leiða þetta mál fram í ljósið, með því í vetur, þegar ég var í Kaupmannahöfn, að skýra íslenska ráðuneytinu – bæði munnlega og skriflega – frá því og meðferð þess, álít ég tíma til kominn að láta einnig almenning fá nokkra hugmynd um það. – Þetta sem ég hér segi verður því að miklu leyti samhljóða bréfi mínu til ráðuneytisins. –
Í desembermánuði 1899 fékk ég vitneskju um það, að nefndur verkstjóri hefði borgað mörgum verkamönnum, við vegamönnum í Holtunum og Svínahrauni sumarið 1899, minna kaup en stóð á kaupskránum, tveir af verkamönnum (Ólafur Oddsson og Guðmundur Magnússon) sögðu mér, að það væri í almæli meðal verkamanna, að margir þeirra væru “gerðir út” af verkstjóra, bróður hans Högna og mági hans Ólafi Péturssyni, þannig að þeir fengju minna kaup útborgað en stæð á kaupskránum – er landsjóður borgaði eftir – og mismuninum, ágóðanum stingju svo þessir þrír menn í sinn eigin vasa; Ólafur Oddsson var sjálfur einn í þeirra tölu, er minna kaup fengu en á stóð, hann fékk að eins 2 kr. á dag – eins og hann var ráðinn upp á, en stóð á kaupskránum með 2,80 kr.; mismuninn fékk hann þó útborgaðan hjá E. F., er hann kvartaði um þetta á landshöfðingjaskrifstofunni. –
Nú fór ég að rannsaka kaupskránar, sem ég hafði undir höndum og spyrja um dagsverkatölu verkamanna, og varð þá var við, að margir verkamannanna stóðu með fleiri dagsverk á skránum, en þeir í raun og veru höfðu unnið og fengið borgun fyrir; ennfremur var altalað, að einn verkamaður (Sig. Daníelsson), sem hafði leigt landssjóð til vegavinnunar 14 hesta um sumarið, hafði að eins fengið 35 kr. fyrir hvern hest, en eftir kvittuðum reikningunum átti hann að hafa fengið um 65 kr. fyrir hestinn (það verður um 400 kr. munur á þessum eina pósti).
Ég kærði á E.F. skriflega fyrir bæjarfógetanum fyrir sviksamlega meðferð á vegafénu “sér og sínu skyldfólki í hag” og fyrir fölsun á vegareikningunum og færði sem ástæðu fyrir grun mínum frásagnir hinna tveggja áðurnefndu verkamanna, meðala annars skýrði ég frá því, að annar þeirra (G.M.) stæði fast á því, að hann hefði aðeins unnið í 92 daga, en á kaupskránum, sem ég afhenti bæjarfógeta, stóð 121 dagsverk, ennfremur, að bæði þessi vitni mín sögðu að dagsverkatalan, kaupgjaldið og peningaupphæðin, hefðu staðið skrifuð með blýanti á skránum, þegar þeir kvittuðu, enda sást það greinilega á þeim, að skrifað hafði verið með blýandi fyrst, en svo viskað út og skrifað með feitu letri ofan í. – Ég nefndi einnig frásögn vottana um það, að margir af hestunum sérstaklega þessir 14, sem áður voru nefndir og svo eitthvað af hestum verkstjórans hefðu verið svo margir og illa útlítandi, að varla hefði verið hægt að brúka þá framan af. –
Þetta virðast mér nu vera fremur þung ákæra og ég gat ekki hugsað mér annað en verkstjórinn yrði strax tekinn fastur, þar sem hann var kærður fyrir svo stórkostleg fársvik og svo sterkur grunur lá á honum, enda eru mörg dæmi til þess, að menn hafa verið settir í gæsluvarðhald fyrir minni sakir, já, það er óhætt að segja, að slíkt sé einsdæmi, ef menn ekki eru teknir fastir í líkum tilfellum; það hlýtur og að vera hverjum manni skiljanlegt, að illt muni vera að rannsaka svona lagað mál, ef ákærði hefur fullt frelsi og leyfi til þess að vera sig saman við þau vitni, sem yfirheyrð eru eða kunna að verða; ég hef heyrt marga lögfræðinga segja, að það væri yfir höfuð að tala ómögulegt að rannsaka þannig löguð mál til hlítar, nema gæsluvarðhald væri viðhaft.
Og sérstaklega var ástæða til varðhalds í þessu máli, þar sem svo á stóð, að rannsóknin varð að mestu leyti – eða því nær eingöngu – að byggjast á yfirheyrslu verkamanna þeirra, er höfðu verið í vegavinnu hjá ákærða og hann hafði gefið atvinnu; þetta voru því allt hans undirmenn; verkstjórinn hefur voðalegt vald yfir þeim; þeir eru honum alveg háðir með tilliti til vegavinnu framvegis; þeir hugsa sem svo, sérstaklega þegar hann er ei tekinn fastur, að þetta sé ekki svo hættulegt fyrir hann, það verði ef til vill ekkert úr þessu máli og hann verði verkstjóri áfram eða þá að minnsta kosti hans hægri hönd við vegagerðirnar, mágur hans Ól. Pétursson – sem og varð – og þá er skiljanlegt, að þeir hugsi sig tvisvar sinnum um, áður en þeir fara að bera nokkuð gegn honum; að minnst kosti er það sterk freisting yfir þá að þegja um mest af því, sem þeir vita. – Einnig virtist í þessu tilfelli sérstök ástæða til húsrannsóknar til þess að sjá uppteiknaðir, reikningsskjöl og – bækur verkstjóra, hvort það stæði heima við kaupskránar; en til þess þurfti auðvitað gæsluvarðhald. –
En bæjarfógeta hefur virst þetta nokkuð á annan veg; honum virtist engin ástæða til gæsluvarðhalds; mönnum úti í frá þótti þetta því undarlegra, sem menn þekktu ekki bæjarfógetann að því, að hann væri sérlega smeikur við að taka menn fasta; menn mundu, að það var ekki svo ýkjalangt síðan, að hann hafði látið taka Sig. Júl. Jóhannesson fastan – á götunni – og gera strax húsrannsókn hjá honum; og hvað hafði svo Sig. Júl. Jóh. gert? Hann hafði verið beðinn fyrir að senda 2-300 kr. upp á Mýrar, en þeir peningar voru ekki komnir til skila og einhverjar vöflur á honum með það, hvernig hann hefði sent þá. Við skulum bera þetta tvennt saman. E. F. er grunaður sterklega um stórkostlega fjársvik og fölsun á vegareikningum; Sig. J. um, ef till vill, að hafa brúkað peninga, sem hann átti að senda. Vitnin, sem þarf að yfirheyra í fyrra málinu, eru mjög svo háð ákærða; í seinna málinu þarf engan að yfirheyra, nema ákærða sjálfan og, ef til vill, 1 eða 2 aðra, sem ákærði getur genginn áhrif haft á. – Í fyrra málinu sýnist afarnauðsynlegt, til þess að komast að sannleikanum, að rannsaka skjöl og reikninga verkstjóra, í seinna málinu er ef til vill nokkur þörf á því, en þó ekki nálægt því eins brýnt og í hinu; samt er Sig. J. strax tekinn fastur og gerð húsrannsókn hjá honum, en Einar F. látinn ganga frí og frjáls, svo að hann hefði vel getað notað tækifærið til þess að hafa áhrif á og rugla vitnin með leyfilegu og óleyfilegu móti. – Er þetta réttvísi? Það skilja fáir. –
Vikutíma eða svo, eftir kæru mína, fór ég til fógeta til þess að spyrja um það, hvort nokkuð hefði komið fram í prófunum – þau voru leynileg – sem studdi grun minn, en bæjarfógeti virtist fremur verja verkstjóra og sagði, að það liti út fyrir að vera aðeins vond reikningsfærsla hjá manninum og óaðgæsla, hann væri auðsjáanlega enginn reikningsmaður, og varaði mig jafnvel við því að fara of freklega út í þetta mál, því að það gæti litið út eins og ég væri að ofsækja manninn af tómu hatri. –
Þegar ég nú sá, að þessir fyrstu kærupunktar, sem ég áleit að myndu vera nægilegir til þess að málið yrði ítarlega rannsakað, ekki hrifu, og það leit út fyrir, að rannsóknardómarinn aðeins tæki fyrir þau atriði sem ég hafði bent á, en reyndi ekki að grennslast eftir meiru, fór ég að rannsaka kaupskrárnar betur og fann margt fleira áhugavert, sem ég tilkynnti bæjarfógeta, og sem ég vil ekki þreyta menn með því að telja upp hér, – en það hafði lítið upp á sig. –
Loks sá ég mig knúin til um veturinn að takast ferð á hendur austur í Holt, þar sem margir af verkamönnum áttu heima, til þess að safna fleiri gögnum og upplýsingum í málinu, þegar ég sá að bæjarfógeti gerði engar ráðstafanir til þess að þessir menn yrðu yfirheyrðir. – Þar kom hið sama í ljós; margir verkamannanna höfðu fengið minna kaup en á stóð á kaupskránum, aðrir sögðust hafa unnið færri daga en skrárnar tiltöku. – Þegar ég kom aftur til Reykjavíkur og hafði fyrir rétti skýrt frá þessum nýju upplýsingum, fékk bæjarfógeti skipun frá amtmanni um að láta hlutaðeigandi sýslumenn yfirheyra þessa verkamenn. – En þá bregður svo undarlega við, að um sama leyti og sýslumennirnir fá tilmæli um það að yfirheyra vitnin fær verkstjórinn leyfi til að fara austur í Árnes- og Rangárvallasýslur – og leyfi hlýtur hann að hafa fengið, því að bæjarfógeti var búinn að segja honum fyrir rétti, að hann mætti ekki fara úr bænum án leyfis – og verkstjórinn er kominn austur að Rangá deginum áður en sýslumaður Rangvellinga fær bréfið frá fógeta; verkstjórinn hefði því vel getað verið búinn að hafa tal af öllum verkamönnunum þar eystra, áður en nokkur próf byrjuðu, og almenningur hlaut að skilja það svo, að meining með ferðalagi verkstjórans væri að tala dálítið við vitnin fyrst. –
Sigurður Thoroddsen.
Sakamálsrannsóknin gegn
Einari Finnssyni
II.
Þegar meðferð málsins var þannig og rannsókn þess svona léleg, getur maður vel hugsað sér, að það hafi ekki sannast sérlega mikið. – Þegar vinnudagarnir vor of margir á kaupskránum eða peningaupphæðin þar ekki var hin sama og verkamennirnir höfðu fengið útborgað, þá var það eins óaðgæsla og vangá frá verkstjórans hálfu og reikningsfærsla hans – sögðu menn – var mjög léleg og ruglingsleg. –
Nokkrir verkamanna, sem voru grunaðir um að hafa fengið minna kaup en stóð á kaupskránum, sögðu fyrir rétti, að þeir hefðu fengið allt, sem þeir hefðu átt að fá; þannig sagði eitt vitnið (Sig. Ámundsson), sem grunaður var um að hafa fengið aðeins 2 kr. í kaup hjá verkstjóra, að hann hefði fengi 3 kr. á dag, eins og stóð á skránum; annar verkamaður (B. Bj.) bar reyndar fyrir rétti, að Sig. Ám. hefði sagt sér, að hann hefði fengið aðeins 2 kr., en Sig. Ásm. sagðist ekki reka minni til þess; 2 önnur vitni (Ól. Odds. og G. Magn.) sóru það, að bróðir verkstjóra (Högni) hefði sagt sér, að Sig. Ám. hefði aðeins fengið 2 kr. í kaup, en Högni sagðist ei muna það; loks sór Ól. Oddss., að verkstjóri sjálfur hefði sagt sér, að Sig. Ám. fengi aðeins 2 kr., en verkstjóri sagði það ósatt, aðhann hefði talað slíkt. – Þessi mismunandi framburður var nokkuð undarlegur og svo var að sjá, sem einhver þessara 6 hlyti að segja ósatt fyrir rétti, en bæjarfógeti lét nægja þetta og fór ekki að rekast meira í því; ekki skiptir hann sér heldur mikið af því, þótt eitt vitnið (B. Bj.) segði, að það hefði heyrt annan verkamann (Ögmund á Hurðarbaki) segja, að Sig. Ám. hefði aðeins 2 kr. á dag; bæjarfógetinn var ekki að hafa fyrir því að láta yfirheyra Ögmund um slíkt, þótt það virðast hafa verið áríðandi til þess að reyna að komast fyrir sannleikann.
Ennfremur sagði maðurinn með 14 hestana (Sig. Dan.), að hann hefði fengið 65 kr. fyrir hvern hest, en hann varð að játa það, að hann hefði sagt mörgum áður, að hann fengi aðeins 35 kr. fyrir hestinn, en það hafði hann aðeins sagt til þess að bændur þar í sýslu ekki skyldu öfunda sig of mjög af sínu happi. – Annars eru þau eitthvað einkennileg viðskiptin þeirra, verkstjórans og Sig. Dan.; verkstjóranum hefur auðsjáanlega litist vel á þann mann; auk þess sem hann fær hjá honum þessa 14 hesta í vinnuna, felur hann honum að ráða 4 menn til hennar, en allir þessir 4 menn fengu aðeins 2 kr. í kaup (eða minna), en stóðu með 2,75-2,80 kr. á skránum. Verkstjóri segir, að Sig. Dan. og annar verkamaður – sem varð veikur – hafi haft ágóðann af þessum mönnum, nema af einum manninum, þar tók verkstjórinn sjálfur gróðann, og fyrir þetta eina atriði var hann dæmdur af undirdómaranum í 14 daga einfalt fangelsi og málskostnað. –
Þrátt fyrir hina lélegu rannsókn sannaðist það þó um fleiri, að þeir höfðu fengið minna kaup en stóð á kaupskránum, en þá var það annað hvort bróðir verkstjórans (H.F.) eða mágur (Ól. Pj.), sem höfðu haft gott af því. – Þar að auki höfðu náttúrlega verkstjórinn, mágur hans og bræður vinnumenn sína í vegavinnunni með háu kaup. –
Sem dæmi þess, hve ósparir þeir hafa verið á fé landsins, mágarnir E. F og Ól. Pj., má nefna vetrarvinnuna við grjótflutning að Steinslækjarbrúnni í Holtunum; það var veturinn 1898 frá okt. til des. – Verkstjórinn átti að sjá um þetta starf og hann setti til þess 4 menn, mág sinn Ól. Pj. með kaupið 4,20 á dag, bróður sinn Högna með 3,70 á dag, vinnmann bróður síns annars með 2,80 og fjórða mann, Jónas Jónsson með 2,75: þetta varð landsjóður að borga fyrir utan verkstjóri sjálfum 4,50 á dag; þetta virtust nokkuð hádaglaun um háveturinn við svo vandalausa vinnu, því að auðvitað hefur verið hægt að fá nóga menn fyrir 2 kr. á dag og einn með 2,50-3,00 til þess að hafa eftirliti með verkinu, enda gerði ég athugasemd við þetta til landshöfðingja, þegar ég sá reikninginn en E. F. svaraði engu nema ósvífnisorðum um mig. – Þetta svar sá ég fyrst nýlega, einungis af tilviljun, – og við það var látið sitja og reikningurinn ávísaður. – En svo uppgötvast það seinna, að 4. maðurinn Jónas Jónsson, sem átti að hafa 2,75 á dag, fékk í raun og veru aðeins 1 kr. um daginn; Ól. Pét., sem nú er orðinn eftirmaður Einars sem verkstjóri, hefur ráðið manninn fyrir þetta og svo stungið mismuninum í sinn eigin vasa, og auðvitað vissi E. F. vel um þá ráðningu, því að hann borgaði honum nokkuð af þessu kaupi, svo að líklega hafa þeir eitthvað verið saman um þetta. –
Sig. Thoroddsen
Sakamálsrannsóknin gegn
Einari Finnssyni
III.
(Síðasti kafli)
Þótt koma mætti með ótal dæmi, er köstuðu nokkuð einkennilegu ljósi fyrir rannsóknina við undirréttinn í þessu máli, vil ég að þessu sinni láta mér nægja að koma með tvö:
Annað er þannig; Einn verkamaðurinn (Guðm. M.) hafði unnið í rétta 92 daga, en á kaupskránum stóð hann með 121 dagsverk. Það voru tvær kaupskrár fyrir allt sumarið, nefnilega 1 kaupskrá fyrir vinnuna í Holtunum og þar stóð G.M. með 88 dagsverk, og ein kaupskrá fyrir vinnuna í Svínahrauni og þar stóð hann með 33 dagsverk, til samans 121 dagsv., það var þannig 29 dagsverkum of mikið hjá G. M. – Verkstjórinn segir nú, að það sé ritvilla 88 dagsverk, það hafi átt að standa 58, og G. M. hafi hlotið að vinna aðeins 91 dagsverk en ekki 92, því að þá kemur það rétt út; 58+33=91.

Dags-
Nöfn: v.tala á dag verður Kvittun
Guðm. Magnúss 88,00 2,60 228,80 G. Magnúss
(58) (2,60) (150,80)

Verkstjóri segist nefnilega fyrst hafa skrifað kaupskárnar með blýanti, bæði dagsverkatölu, daglaun og kaupgjalds upphæðina, og verkamenn hafi kvittað á skrána ritaða með blýanti. – Þá hefur eftir því staðið á skránni 150 kr. 80, eins og verkamaðurinn (G. M.) fékk útborgað; – en svo segir verkstjóri, að í ógáti hafi skrifast 88 í stað 58, þegar ritað var ofan í blýantsskriftina með bleki; þetta tekur dómarinn fyrir góða og gilda vöru, en ekki dettur honum í hug að spyrja, hvernig jafnframt því að 58 breytast í 88, 150,80 fara í ógáti að breytast í 288,80, því að það sýnist næsta undarlegt.
Hitt dæmið er þannig; Einn verkamaður (Grímur Ásgr.) stóð á Svínahrauns-kaupskránni með 41 dagsverk, en það komst upp, að hann hefur alls eigi unnið þar eitt dagsverk og hefur auðvitað heldur eigi fengið neina borgun fyrir vinnu þar. — Verkstjóri getur eigi borið annað fyrir sig, en að hann sé ófullkominn í reikningsfærslu, og hann getur eigi gefið aðra skýringu á þessu en þá, að hann hafi í ógáti og hugsunarleysi “fært inn dagsverk og kaup hjá Grími, eins og hjá manninum næst fyrir ofan” á kaupskránni. Bæjarfógeta virðist þessi skýring ekki ósennileg, þar á móti sýnist yfirréttinum þessi viðbára næsta ólíkleg, enda er ómögulegt að hugsa sér annað, en að verkstjóri, þegar hann færir inn dagsverkin í kaupskránar, skrifi þau upp úr einhverjum blöðum eða bók, en ekki bara í blindni; svo hefur Grímur, og sá sem næst er á undan, alls eigi sama kaup; Grímur hafði 2,75 en hinn 2,80 um daginn; hvers vegna skrifaði hann þá ekki í ógáti 2,80 hjá Grími, úr því hann skrifaði sömu dagsverkatöluna hjá hinum? –
Það er hálf undarlegt að heyra alltaf þá viðbáru, að E. F. sé ekki svo fullkominn í reikningsfærslu sem skyldi, en svo er samt mest að athuga við síðasta ársreikninga hans, en miklu færri vitleysur í fyrri ára reikningum. Það er því svo að sjá sem þessi verkstjóri sé ólíkur öðrum mönnum í því, að honum getur ekki farið fram við æfinguna, nei, honum hrífer aftur og verður því verri og verri í reikningsfærslu, sem hann fær meiri æfingu og reynslu í einni
Einnig er það hálfundarlegt, þegar ákærði segir, að hann hafi skrifað vinnudaga verkamannana upp á laus blöð – sem hann svo samdi kaupskrárnar eftir – og hann sé búinn að glata, því að fyrst og fremst er enginn sá verkstjóri til – það ég veit – svo aumur, að hann ekki skrifi vinnudagana í bækur eða strikaðar kompur, og svo veit ég það, að E. F. pantaði fyrir landsjóð árið 1894 frá Noregi 4 prentaðar daglaunabækur í sterku leðurbandi – eins og þær tíðkast við vegagerðirnar í Noregi – og af þessum bókum fékk hann eina og 3 aðrir verkstjórar hinar; nú eru þessi 3 verkstjórar ekki enn búnir að skrifa út sínar bækur, og svo veit ég það, að E.F. hefur nýlega pantað frá Noregi daglaunabók fyrir annan verkstjóra, svo að hann hefur átt góðan aðgang að því að útvega sér bók, ef hann hefur verið búinn með hina; og svo er það hálfótrúlegt, að hann skuli byrja á því að skrifa vinnudagana inn í bók og gera það í nokkur ár, en hætta því svo skyndilega og fara að skrifa á laus blöð, sem hann kastar svo í burtu, eða því skyldi hann gera það? –
Ekki hefur bæjarfógeti grennslast mikið eftir þessu atriði, hann virðist taka allt trúanlegt sem E. F. segir. –
Eins og menn vita dæmdi yfirrétturinn í þessu máli 7. nóv. f. á og komst að sömu niðurstöðu, hvað hegninguna snertir, en gat þess jafnframt, að málið væri fyrir undirrétti eigi rannsakað svo vel sem skyldi, en hann vildi þó eigi vísa málinu heim aftur vegna þess, að hann hélt að ný rannsókn, svo seint, yrði árangurslaus. –
Til hæstaréttar var málinu eigi áfrýjað. –
Talsvert meira mætti segja um þetta mál, en það getur beðið betri tíma. –
Mörðuvöllum í Hörgárdal 18. júní 1901
Sig. Thoroddsen.


Þjóðólfur, 12. júlí, 1901, 53. árg., 35. tbl., bls. 140:
Snæfellingar hafa áhuga á því að haldið verði áfram vegalagningunni frá Borgarnesi í Stykkishólm.

Á þingmálafundi Snæfellinga – samþykktar ályktanir.
_
7. Samgöngumál: “Fundurinn skorar á Alþingi að leggja fram nokkurt fé á næsta fjárhagstímabili hingað í sýslu til framhalds veginum úr Borgarnesi til Stykkishólms_


Þjóðólfur, 19. júlí, 1901, 53. árg., 36. tbl., forsíða:
Lagt er fram frumvarp á Alþingi um brúargerð á Ytri-Rangá.

Alþingi.
_
Brúargerð á Ytri-Rangá (25.000 kr. úr landssjóði gegn 7.000 kr. tillagi úr sýslusjóði) frá þingmönnum Rangæinga.


Ísafold, 20. júlí, 1901, 28. árg., 49. tbl., bls 195:
Hér svarar Magnús Torfason þingmaður kollega sínum og ritstjóra Þjóðólfs, en þessir þingmenn Sunnlendinga virðast hafa orðið ósáttir á þingi um frumvarp þess efnis að kostnaði við brýrnar á Ölfusá og Þjórsá skyldi létt af Sunnlendingum og fært á landssjóð.

Brúarmálin og eftirgjöf láns.
Að níða náungann.
Ritstjóra Þjóðólfs hefur í dag þóknast að kasta að mér fáeinum orðum, eins og oftar.
Sakir kjósenda minna og þess annars, að framkoma hans í þessu máli er mun óheppilegri en búist var við, jafnvel af honum, tel ég mér skylt að svara ritstjóranum fáeinum orðum, enda þótt ég hingað til hef gengið fram hjá hnútum blaðsins í minn garð með algerri fyrirlitningu.
Samkvæmt áskorun úr Árnes- og Rangárvallasýslum bárum vér þingmenn þeirra upp frumvarp um að létta kostnaði við gæslu Ölfus og Þjórsárbrúa af sýslunum og leggja hann á landssjóð. Nefnd var kosin í málið og öðlaðist ritstjórinn ekki þá virðingu að komast í hana. Þetta sárnaði honum í meira lagi, og til þess að svala reiði sinni lýsir hann því við framhald 1. umræðu yfir, að hann geti vel fallið frá þessu frumvarpi, sem hafði að geyma þá kröfuna, er helst hafði fylgi í þingdeildinni. Rétt á eftir veltir hann sér með þeim fítonsanda yfir þingmann Rvíkinga, að það – eins og einn orðheppinn þingmaður komst að orði – talaði á honum hver tuska, fyrir þá ofurmeinhægu athugasemd, að hann (Tr.G.) gæti ekki gefið þessu frumvarpi atkvæði sitt, en vildi í þess stað styðja verkleg framfarafyrirtæki Árnesinga.
Mér gat ekki annað en sárnað þessi framkoma þingmannsins, gat þess með hægð, að mig hefði furðað á, að hann skyldi hlaupa undan merkjum í fyrsta áhugamáli kjósenda sinna, um leið og ég benti á, að við misjöfnu hefði mátt búast við af honum, þar sem hans fyrsta verk á þingi hefði verið að berjast fyrir launahækkun eins sýslumanns, þvert ofan í allt talið í Þjóðólfi um þá hálaunuðu.
Úr því ég á annað borð tók mér penna í hönd, virðist mér rétt að geta þess til leiðbeiningar fyrir kjósendur ritstjórans, að það er nú komið á daginn, að ræður hans í þessu máli verða allt öðruvísi í þingtíðindum en í þingsalnum, og er því lítið mark á þeim að taka.
Það er alls ekki meining mín með þessum orðum að kasta rýrð á 1. þingmann Árnesinga og er mér ljúft að viðurkenna að hann gerir allt fyrir kjördæmi sitt, sem hann með sinni skynsemi orkar; en vinsamleg bending mín er það til hans, að annaðhvort er fyrir hann að hafa sig minna frammi, eða fara að eins og góðu börnin og spyrja hana mömmu sína um, hvað hann eigi að segja.
18. júlí 1901
Magnús Torfason


Ísafold, 24. júlí, 1901, 28. árg., 50. tbl., forsíða:
Sigurður Thoroddsen verkfræðingur hefur látið hætta við lagningu Lagarfljótsbrúarinnar þar eð staurarnir í undirstöður reyndust allir of stuttir.

Lagarfljótsbrúin.
Sigurður Thoroddsen verkfræðingur hefur látið hætta við lagningu hennar. Staurarnir reyndust allir of stuttir, þurftu að rekast miklu lengra niður en Barth, norski verkfræðingurinn, hafði sagt fyrir um, og lengd þeirra ekki svo mikil, að unnt sé að reka þá nógu langt. Búið var að reka niður um helming þeirra og allt það verk verður sjálfsagt ónýtt og staurarnir með. Auk þess eru áhöldin, sem notuð eru, ekki svo að unnt sé að reka niður með þeim nógu langa staura. Enn fremur höfðu smiðirnir verið í einhverjum vafa um, hvar ætti að leggja brúna og kenna það ónákvæmum uppdráttum Barths. Smiðirnir voru komnir til Eskifjarðar, þegar síðast fréttist, áleiðis til Kaupmannahafnar.


Ísafold, 24. júlí, 1901, 28. árg., 50. tbl., bls 198:
Framkvæmdum hefur verið hætt þetta sumar við svifferjuna á Lagarfljóti hjá Steinsvaði þar eð ekki reyndist nóg grjót við hendina.

Svifferjan
á Lagarfljóti hjá Steinsvaði, sem landssjóður lætur gera, er í jafn góðum höndum sem Lagarfljótsbrúin, enda hefur sama félag í Khöfn tekið hana að sér. Við hana hefur líka orðið að hætta á þessu sumri. Treyst hafði verið á, að þar væri nóg grjót við hendina, en svo var ekki, nema þá að steinninn sé steyptur, sem þykir of dýrt, og illkleift eða ókleift að flytja að grjót nema í akfæri á vetrum.


Ísafold, 24. júlí, 1901, 28. árg., 50. tbl., bls. 199:
Hér er sagt frá nýrri brú á Brúará sem svo sannarlega væri tímabær, því gamla brúin (ef brú skyldi kalla) var orðin 40-50 ára gömul og stórhættuleg.

Brúará brúuð.
Ný brú er nú lögð á Brúará í Biskupstungum á Steinbogagljúfrinu, svo sem 50 föðmum fyrir neðan gömlu brúna, ef brú skyldi kalla (á sprungunni í miðri ánni).
Brú þessa hina nýju, sem er úr tré, hefur smíðað hr. kaupm. H. Helgason í Reykjavík, og flutt hana austur og lagt hana á ána. Hún er vel traust og öll járnvarin, 25 álna löng og 4 1/2 al. á breidd, en 9 álna hæð frá henni niður að vatni.
Yfir hana fór nýlega 14 hesta lest alklyfjuð, og var ekkert lát á.
Brúin er gerð á landssjóðs kostnað, með því að vegurinn milli Þingvalla og Geysis er landssjóðsvegur.
Kostnaðarreikningur ófullger enn. Hann verður mikill að tiltölu, vegna afar örðugs flutnings. Sumstaðar urðu menn að bera máttarviðina; hestum varð eigi við komið. Um hesta varð og að skipta 4 sinnum á klukkustund, þar sem örðugast var yfirferðar; annars hefðu þeir ekkert enst.
Gamla brúin litla yfir hraunsprunguna í miðjum árfarveginum er þar með úr sögunni. Þar var tími til kominn. Það var sveitin, Biskupstungnahreppur, er hana hafði smíða látið. Hún var orðin 30-40 ára, og farin að fúna, þótt í vatni lægi nær alla tíð. Handrið var eftir henni beggja vegna til skamms tíma, en nú horfið fyrir nokkrum árum og því ærið glæfralegt að fara hana, er áin var mikil og alldjúpt var á brúnni. Enda hrapaði í fyrra hestur út af henni alklyfjaður niður í gljúfrið og hefur ekkert af honum sést síðan.


Ísafold, 31. júlí, 1901, 28. árg., 52. tbl., bls 207:
Hér er merkileg frétt um nefndarálit fjárlaganefndar Alþingis hvað varðar vegamál, en þar er bæði að finna yfirlit um hvernig vegafé hafi skipst milli sýsla undanfarin 10 ár, svo og tillögur fyrir næsta fjárhagstímabil (2 ár).

Landsvegabætur.
Fjárlaganefndin hefur samið og sett í nefndarálit sitt eftirfarandi fróðlega skýrslu um, hvernig varið hefur verið vegafé landsins (til flutningabrauta, þjóðvega og fjallvega) um síðustu 10 ár undanfarin eftir sýslum, þ.e. hvað komið hefur á hverja sýslu:
Sýslur: Kr.
Árness 193.800
Gullbringu- og Kjósar 96.160
Mýra 65.200
Eyjafjarðar 50.600
Húnavatns 38.700
Dala 36.900
Rangárvalla 33.900
Skagafjarðar 32.100
Borgarfjarðar 31.000
Norður-Múla 30.500
Skaftafells 20.130
Suður-Múla 16.100
Stranda 12.800
Suður-Þingeyjar 10.300
Barðastrandar 6.900
Snæfellsnes 2.000
Norður-Þingeyjar 1.100
Ísafjarðar 700

Auk þess eru hér ótaldar ýmsar fjárveitingar til brúa, er veittar hafa verið með sérstökum lögum – segir nefndin.
Fjárlagaálit neðri deildar er nú nýprentað, lengra en dæmi munu til áður.
Hér munu talin nokkur meiri háttar atriði úr því.
Flutningarbrautir. Nefndin segir ókleift að eiga neitt við nýjar flutningabrautir á næsta fjárhagstímabili; leggur aðeins til að lokið sé við eyfirsku brautina (12-14.000 kr); hitt, um 12.000 hvort árið gangi til viðhalds á eldri akbrautum.
Þjóðvegir. Þær 100.000 kr., sem til þeirra eru ætlaðar á fjárhagstímabilinu leggur nefndin til að skiptist þannig:
Til framhalds Borgarnesveginum, frá Urriðaá að Hítará, 25.000 kr.
Til brúar á Skaftá 7.000, gegn því að sýslan leggi til það er á vantar.
Til vegagerðar á Hrútafjarðarhálsi og Miðfjarðarhálsi 12.000 kr.
Þá gangi 10.000 kr. til viðhalds og vegabóta í suðuramtinu og vesturamtinu; 20.000 til vegabóta í Múlasýslum (þar af 8-10.000 á Fjarðarheiði).
Viðhald vega. Nefndin segir, að viðhaldskostnaður við flutningabrautir og þjóðvegi sé orðinn svo gífurlegur, að brátt virðist að því reka, að allt það fé, sem landssjóði er fært að leggja fram til vegabóta á hverju fjárhagstímabili, gangi eingöngu til viðhalds, svo að engu verði varið til nýrra vegagerða. Er því verið að hugsa um að leggja viðhaldið á sýslurnar, með nýjum lögum, enda eðlilegt, segir hún, að þau héruðin, þar sem mestu er varið af fé landssjóðs til vegabóta, leggi að tiltölu meira fram til viðhalds á vegum sínum.
Sýsluvegir. Nefndin vill bæta inn í nýjum gjaldalið, “tillagi til sýsluvega rúmlega 15.000 um fjárhagstímabilið, og ánafnar þar af 5.000 til Breiðadalsheiðar gegn jafnmiklu frá sýslubúum, og annað eins og með sömu skilyrðum til Hellisheiðar m.m. í N-Múlasýslu; þá eiga Skagfirðingar að fá 300 kr. hvort árið til dragferjuhalds á Héraðsvötnum, í (ólæsilegt orð) þess, hve ötulir þeir hafa verið að koma upp brúm í sínu héraði og lagt á sig hátt gjald til samgöngubóta, 12 aura nú á hvert lausafjárhundrað og hvern verkfæran mann.
Til að brúa ósinn í Bolungarvík leggur nefndin með 2.000 kr. fjárveitingu gegn jafnmiklu frá héraðsbúum.
Hörgárbrúin kostaði 4.000 kr. meira en til stóð, eða 19.000 kr., vegna ýmissa óhappa, og vill nefndin hlaupa þar undir bagga með 2.500 kr.


Fjallkonan, 2. ágúst, 1901, 18. árg., 30. tbl., forsíða:
Hér segir Fjallkonan frá tillögum fjárveitinganefndar. Þess skal getið að í fljótu bragði virðist þeim ekki bera alveg saman við fréttir annarra blaða.

Tillögur fjárlaganefndarinnar.
_
Nefndin vill að þeim 4.000 kr., sem gert er ráð fyrir að veita á fjárhagstímabilinu til flutningabrauta, sé varið svo miklu sem þarf af 28.000 kr. fyrra árið til flutningabrautar í Eyjafirði, en hinu til viðhalds á eldri flutningabrautum.
Þeim 100.000 kr., sem áætlaðar eru til þjóðvega á fjárhagstímabilinu, vill nefndin verja þannig:
Til þess að halda áfram veginum vestur Mýrar frá Urriðaá til Hítarár 25.000 kr. , til brúargerðar á Skaftá, gegn því að sýslan leggi til það sem á vantar 7.000 kr., til vegagerðar á Hrútafjarðar- og Miðfjarðarhálsi 12.000 kr., til viðhalds og vegabóta í Suður- og Vesturamtinu 16.000 kr., til vegabóta í Norðuramtinu 20.000 kr., til vegabóta í Múlasýslunum (þar af 8-10.000 kr. til vegagerðar á Fjarðarheiði) 20.000 kr.
_
Til vegagerðar á Breiðdalsheiði vestra og Hellisheiði eystra skal af tillagi til sýsluvega varið 2.500 kr. til hvorrar heiðar á ári gegn jafnmiklum styrk frá hlutaðeigandi héruðum, 300 kr. ársstyrkur til viðhalds dragferju á Héraðsvötnum og 2.500 kr. viðbótarstyrkur til Hörgárbrúar (áður veittar 7.500 kr.).
Enn fremur vill nefndin veita af sama fé 2.000 kr. til brúar á Ósinn í Bolungarvík.


Ísafold, 3. ágúst, 1901, 28. árg., 53. tbl., forsíða:
Í eldhúsdagsumræðum á þingi er deilt á stjórnvöld m.a. fyrir vegabótamálin.

“Eldhúsdagurinn”.
Aðfinnslur við stjórnina.
_ Valtýr Guðmundsson (frmsm): Eftirlitsleysið er mikið af landsstjórnarinnar hálfu. Í gær kom það fram í umræðunni um holdsveikraspítalann, að þar hefur óþarflega miklu fé verið eytt. Sama er að segja um vegabótamálið. Stjórnin undirbýr það ekki nægilega undir hvert þing, og það leiðir til mikilla aukafjárveitinga. Nýlega hefur verið fyrir dómstólunum mál gegn einum vegabótaverkstjóra, sem sýnir áþreifanlega, að þörf er á nákvæmara eftirliti, t.d. að hærra er borgað fyrir vinnu hesta o.s.frv. en þörf er á. Ræðum. brýnir fastlega fyrir landsstjórninni að skerpa eftirlitið í þeirri grein.
_ Landshöfðingi:_ Um vegabótamálin er það að segja, að lengi má sjá á eftir, að ekki hafi allt verið sem best fyrirhugað. Áætlanir verður að gera tveim árum fyrirfram og á þeim tíma geta komið nýjar þarfir, sem ekki verða fyrir séðar. Um mál það, sem fyrir dómstólunum hefur verið, er það að segja, að af dóminum geta menn sannfærst um, að ekki var nema í einstökum tilfellum of mikið borgað; stundum var borgað of lítið, svo landssjóður hefur ekki orðið fyrir miklum halla. Þess konar misfellur sjást ekki, fyrr en endurskoðun fer fram. En hún er líka næg trygging fyrir, að landssjóði verði ekki fært annað til útgjalda en rétt er.
_ Einar Jónsson: Fréttir hafa borist af því, að hætta hafi orðið við lagningu Lagarfljótsbrúarinnar og svifferjunnar á Lagarfljóti. Biður landsh. um skýrslur og samninga um þessi fyrirtæki.
Landshöfðingi getur ekki orðið við þeim tilmælum með því að skjölin væru eystra hjá verkfræðingi landsins.
Skúli Thoroddsen: _ Eitt atriði í ræðu landshöfðingja var vegabótamál landsins. Megn óánægja er út af því með þjóðinni, ríkur grunur um mjög miklar misfellur. Móti einum verkstjóra hefur verið höfðað sakamál. Landsyfirréttur sá sig knúðan að lýsa yfir því, að rannsóknardómarinn hefði farið svo að ráði sínu, að frekari eftirgrennslan sé gagnslaus. Landssjóður hefur um mörg ár verið látinn borga meira fyrir ýmislegt, sem til vegabóta þarf, en hæfilegt er. Þetta er svo alvarlegt, að í málið hefði átt að skipa konungl. rannsóknardómara, en í stað þess hefur allt verið gert til að þagga málið niður, af því að það er hneykslismál fyrir landsstjórnina. Von er að þjóðina taki sárt, ef illa er farið með vegabótaféð, jafn mikið og hún leggur þar á sig.


Þjóðólfur, 3. ágúst, 1901, 53. árg., 39. tbl., bls. 155:
Efri deild Alþingis skipar nefnd til að íhuga samgöngumál landsins.

Alþingi.
Samgöngumál. Nefnd var skipuð í e.d. til að íhuga samgöngumál landsins: Sigurður Jensson, Guðjón Guðlaugsson og Ólafur Ólafsson.


Ísafold, 28. ágúst, 1901, 28. árg., 60. tbl., bls 239:
Í þessari frétt er sagt frá fjárlögunum fyrir tímabilið 1902 – 1903 hvað varðar vegamál.

Fjárlögin.
Rúm 1 1/2 millj. eru tekjurnar áætlaðar um næsta fjárhagstímabil, árin 1902 og 1903, í fjárlögum þeim er hið nýafstaðna þing hefur samþykkt og afgreitt. En útgjöld rúmlega 130 þús. kr. meiri. Sá halli gengur á viðlagasjóð.
Hér verða taldar ýmsar fjárveitingar, nýjar, eða þá svo merkilegar, að almenningi þykir fróðleikur í.
Flutningabrautir. Til þeirra, akvega samkvæmt vegalögum frá 1894, eru ætlaðar alls 48 þús. kr. um fjárhagstímabilið, og því fé skipt þannig niður:
fram Eyjafjörð 12 þús.
um Fagradal 6 þús.
upp Borgarfjörð 6 þús.
til viðhalds flutningsbrauta 24 þús.
Þjóðvegir. Þá eru ætlaðar til þjóðvega, annarra en flutningabrauta, samtals 92 þús. kr., er skiptast þannig:
a) framhald Mýrarvegarins frá Urriðaá að Hítará 20 þús.
b) vegur við Stykkishólm 5 þús.
c) vegagerð á Hrútafjarðarhálsi 10 þús.
d) vegagerð á Fjarðarheiði (N-Múl) 6 þús.
e) vegagerð á Mýrum í Austurskaftafs. 3 þús.
f) vegagerð í Hrútafirði 2 þús.
g) brú á Skaftá (gegn 1000 kr. frá sýslunni) 7 þús.
h) vegabætur og vegaviðhald í N-múlasýslu 4 þús., S-múla 4 þús., í N-amti 18 þús., í Suður og Vesturamti 13 þús., samtals 39 þús.
Annað vegafé. Þar eru ætlaðar til fjallvega, er landssjóður kostar að öllu leyti 10 þús. kr. alls, og styrkur veittur til sýsluvega, rúm 15 þús. alls, þar á meðal til Breiðadalsheiðar 5 þús. (gegn 2 1/2 þús. frá sýslunum), til Brekknaheiðar í N-múl. 5 þús (gegn 2 1/2 þús. frá sýslunni), til dragferjuhalds á Héraðsvötnum 600 kr. (300 hvort árið), viðbótarstyrkur til brúargerðar á Hörgá 2 1/2 þús., til að brúa ósinn í Bolungarvík 2 þús. gegn jafnmiklu frá héraðsmönnum.


Þjóðólfur, 30. ágúst, 1901, 53. árg., 34. tbl., bls. 170:
Hér eru taldar nokkrar nýjar fjárveitingar á fjárlögum 1902-1903.

Fjárlögin 1902-1903.
_
Til flutningabrauta alls 48.000 kr., þar af 12.000 kr. til flutningabrautar í Eyjafirði, 6000 kr. til flutningabrautar á Fagradal, 6000 kr. til flutningabrautar upp Borgarfjörð, og 24.000 kr. til viðhalds flutningabrautar.
92.000 kr. til þjóðvega, er þannig skiptist niður: 2.000 kr. til þess að halda áfram veginum vestur Mýrar frá Urriðaá að Hítará, 7.000 kr. til brúargerðar á Skaftá gegn því að sýslan leggi til 1.000 kr., 10.000 kr. til vegagerðar á Hrútafjarðarhálsi, 6.000 kr. til vegagerðar á Fjarðarheiði í Múlasýslu, 3.000 kr. til vegagerðar á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu, 5.000 kr. til vegagerðar við Stykkishólm, 2.000 kr. til vegagerðar í Hrútafirði, 4.000 kr. til vegabóta og viðhalds í Suður-Múlasýslu, 18.000 kr. til vegagerðar og viðhalds í Norðuramtinu, 13.000 kr. til vegabóta og viðhalds í Suður og Vesturamtinu.
Til sýsluvega alls 15.100 kr. þar af 5.000 kr. til vegagerðar á Breiðadalsheiði frá Seljalandsósi í Skutilsfirði að Neðri-Breiðadal í Önundarfirði gegn því að sýslufélögin leggi til 2.500 kr., er skiptist niður á bæði árin, 5.000 kr. til vegagerðar á sýsluveginum frá Fossvöllum norður á Brekknaheiði í Norður-Múlasýslu, gegn því að sýslufélagið leggi til 3.500 kr., er skiptist niður á bæði árin, 300 kr. hvert ár til dragferjuhalds á Héraðsvötnum í Skagafirði, 2.500 kr. viðbótarstyrkur til brúargerðar yfir Ósinn í Bolungarvík.

Fjallkonan, 8. september, 1901, 18. árg., 33. tbl., bls. 3:
Hér segir frá Fjárlögunum 1902-1903. Ólíkt öðrum blöðum, setur Fjallkonan út á fjárveitingar til flutningabrauta.

Fjárlögin 1902-1903.
_
Til flutningabrauta eru áætlaðar 48.000 kr. og gegnir það furðu, að þingið skuli fleygja út stórfé í þessar flutningabrautir, sem eru að kalla ekkert notaðar og óvíst er að sumar verði nokkurntíma að verulegu gagni, því ef farið yrði að nota náttúruöflin í stað hestaflsins, mundu sumar þessar brautir verða lagðar öðruvísi. Eyfirðingum eru ætlaðar 19 þús. Fagradal 6.000, Borgfirðingum (ólæsileg nokkur orð).
Þjóðvegum eru ætlaðar 92.000 kr. (Mýravegurinn 20 þús., vegur við Stykkishólm 5 þús., vegur á Hrútafjarðarhálsi 10 þús., á Fjarðarheiði 6 þús., í Hornafirði 3 þús., ennfremur í N-Múlasýslu 4 þús., S-Múlasýslu 4 þús., í N-amti 18 þús., í Suður- og Vesturamti 13 þús., til brúar á Skaftá (sýslan leggi til 1.000) 7 þús., alls 39 þús.
Til fjallvega 10 þús. og til sýsluvega 15 þús. Þar af til Breiðdalsheiðar (vestra) 5 þús. (sýslurnar leggi til 2 1/2 þús.) til vegar úr Jökulsárhlíð (N-M) norður á Brekknaheiði 5 þús. (sýslan leggi til 2 1/2 þús.) til dragferju á Héraðsvötnum 600, til brúarinnar á Hörgá 2 1/2 þús., til brúar yfir Bolungarvíkurós 2 þús., héraðsmenn leggi jafnt til.

Fjallkonan, 8. september, 1901, 18. árg., 33. tbl., bls. 2:
Hér er sagt frá nokkrum frumvörpum um vegamál sem voru felld eða óútrædd.

Lög frá Alþingi.
Fallið hafa þessi lagafrumvörp frá þingmönnum:
8. Frv. um viðhald og gæslu brúnna á Ölfusá og Þjórsá.
12. Frv. um helmings uppgjöf lánsins til brúargerðar á Ölfusá.
15. Frv. um brúargerð á Jökulsá í Öxarfirði.
Óútrædd frumvörp:
5. Frv. um fjölgun þjóðvega.
7. Frv. um brúargerð á Ytri-Rangá.


Austri, 23. september 1901, 11. árg., 35. tbl., forsíða:
Hér skrifar séra Magnús Bl. Jónsson í Vallarnesi langt svar við frétt í Bjarka um þingmálafund að Höfða og vegbrautarmálið. Er enn og aftur verið að bera saman Fagradal og Fjarðarheiði.

Fagridalur, – Akbraut – Æsing
eftir séra Magnús Bl. Jónsson í Vallarnesi
Í 24. tbl. “Bjarka” 25. júní þ.á er flutt fregn af þingmálafundi að Höfða í vor, og honum gefin sú aðaleinkunn, að allt hafi gengið þar öfugt við það, sem við hefði mátt búast að við það, sem Bjarki álítur æskilegt vera. Ég ætla ekki að deila um þetta við Bjarka, því að ég lái ekki honum, fremur en öðrum þó hann haldi fram Sinni skoðun á almennum málum, meðan það aðeins er gert með hógværð og stillingu og með virðingu fyrir sannfæringu annarra manna, sem aðra kunna að hafa. – Þess vegna hef ég og þagað við fregn þessari og einkunn þeirri sem blaðið gefur fundinum, ef ekki hefði, eftir að sagt er að fundurinn vilji fá akbraut á Fagradal en ekki á Fjarðarheiði, verið bætt við þessari athugasemd: “Akbrautarsamþykktin nær engri átt. Þar sem annað eins er samþykkt nú, eftir að nákvæmar mælingar hafa farið fram á báðum fjallvegunum, þar ræður æsingin ein, en öll skynsemi og umhugsun er þar rekin á afrétt.” – Við þessari athugasemd kann ég ekki við að þegja, sérstaklega fyrir það, að “Bjarki” og máske fleiri, kynnu að skilja þögnina svo, að fundarmenn frá Höfða hefðu engu hér til að svara.
Það væri auðvelt að vinna skoðunum sínum sigur, ef ekki þyrfti meira til en að lýsa því yfir, að æsing ein, en hvorki skynsemi né umhugsun réði hjá andmælendum sínum. Og í þessu máli vill svo til, að málinu um lagningu akbrautar um Fagradal hefur fyrri verið hreyft á þingmálafundi að Höfða en í vor. Sumarið 1893 var þar skorað á þingmenn Suður-Múlasýslu að koma því til leiðar á þingi það sumar að akbraut yrði lögleidd á Fagradal. Tókust þeir þetta á hendur og fluttu málið á þingi og fyrir það er flutningsbraut lögtekin á Fagradal með veglögnum frá 13. apríl 1894. Í þetta skipti gat þó víst ekki æsingin ein ráðið á þingmálafundinum á Höfða, þar sem engin rödd hafði heyrst til þess tíma um nokkurn akveg til Héraðs, og þá eigi heldur yfir Fjarðarheiði. Ósk þessari réði eingöngu þörf Héraðsins til þess að losna við hinn erfiða og dýra lestaflutning sumar og vetur. Síðan liggur akbrautarmálið niðri í 6 ár, eða þangað til 1899, að farið er að hreyfa því hér í sýslu, fyrst í viðræðum manna, að akbrautarlögin ein nægi eigi, heldur þurfi sem fyrst að fá fé til framkvæmda, til að leggja akbrautina. Þá – og þá fyrst – fara að heyrast raddir af Seyðisfirði um Fjarðarheiði. Og síðan hefur þessu Fjarðarheiðarmáli verið haldi fram með æ meira kappi og stutt með mögulegum og ómögulegum rökum og í sumum blaðagreinum með fjarstæðum og lokleysum, (talað um sjóplóga og því um líkt). Þetta nægir til að sýna að akbraut á Fagradal var fyrir löngu eigi aðeins hugsuð af oss Héraðsmönnum, heldur og lögleidd, áður en Seyðfirðinga dreymi fyrir nokkurri akbraut. – Þeir taka upp hugmynda til láns og fara svo að keppa við okkur um vegarstæðið. – Ef annars nokkru staðar er að tala um æsing í þessu máli, þá hygg ég að þetta nægi til að sýna hvar hún á heima.
Þó ætla ég ekki að nefna það æsing heldur eins konar dugnað í barátunni fyrir tilverunni, þetta hversu Seyðisfjörður er leikinn í að henda á lofti og reyna að verða fyrri til að hagnýta fyrir sig hugmyndir annarra manna. Sem dæmi um það er spítalamálið (hafið á Eskifirði) akbrautarmálið (hafið á Héraði) og nú síðast klæðaverksmiðjumálið (hafi á Eyjafirði). Og hvernig gengið hefur verið að þessum málum; sýnir, að mennirnir eru bæði dugnaðar og kappsemin og hafa þar á ofan, líklega oftast nær, skynsemina í heimahögum, – sem raunar allt saman – út af fyrir sig – getur verið allrar virðingar vert.
Það á alls ekkert skylt við æsing að vér Héraðsmenn viljum hafa akbrautina, þar sem hún þegar er ákveðin, á Fagradal. Það er byggt á þeirri sannfæringu vorri frá fyrstu, að dalur þessi sé hið eina akvegarstæði milli Héraðs og sjávar, sem að notum geti komið, og þessi sannfæring styðst við staðlega (locala) þekkingu vetur og sumar. Oss dettur ekki í hug að rengja verkfræðinginn, eða halda, að ekki megi leggja akveg á Fjarðarheiði. Það má líklega mjög víða, ef það eitt er tekið til greina. En Héraðsmönnum er ekki um það að gera að fá einhvern akveg, heldur akveg, sem getur fullnægt þeim þörfum vorum, sem hafa komið oss út í þetta akbrautarmál. – Það, sem vér aftur byggjum á full not akbrautar um Fagradal, en lítil eða engin um Fjarðarheiði, er þetta aðallega:
. Tíminn sem aka má eftir auðum vegi um Fagradal er minnst 2/5 lengir og því miklu meiri trygging fyrir að nægilegt vörumagn verði flutt yfir sumarið.
. Vegurinn er brattalaus nema stuttur spölur, þar af leiðir, að allt það þriðjungi meira má flytja á hverjum vagni með sama útbúnaði, og flutningur þar af leiðandi, þriðjungi ódýrari. Þetta hefur sérlega mikla þýðingu, af því að hið eina sem hætt er við að gæti staðið í vegi fyrir notkun akbrautar, er að almenningur sæi í flutningskostnaðinn, og þá því fremur sem hann væri hærri.
. Á Fagradal er alls staðar graslendi og það óþrotlegt og gott, meðfram veginum, svo að alls staðar má hafa skiptistöðvar, og á hestum hvar sem vill, en Fjarðarheiði er ekki annað en hraun og hrjóstur, sannkölluð eyðimörk.
Þeir sem upphaflega hrundu akbrautarmálinu af staða, hafa aldrei hugsað sér, að akbraut yrði notuð að vetri til, og því ekki gert ráð fyrir að nota þyrfti snjóplóga og önnur slík áhöld. Aftur er eðlilegt að formælendur Fjarðarheiðar finni þörf á slíku þar sem óhugsanlegt er, að hinn skammi tími, sem vegur þar er auður, gæti fullnægt flutningaþörfinni, nema með allt of stórkostlegum útbúnaði (fjölda vagna og hesta, sem svo hefðu allt of stutta atvinnu, til að bera sig, með hæfilegu flutningsgjaldi). En þegar 4-6 álna háar vörður eru venjulega á kafi í sjó á Fjarðarheiði fram á sumar, sem þó eru hlaðnar á hæstu holtinu, þá er annað hvort; að akbrautin yrði að vera vel upphleypt í dýpstu dældum, eða þá að snjóplógurinn þyrfti að rista djúpt.
Ástæðan fyrir því, að þingmálafundurinn á Höfða vildi ekki þiggja akbrautina yfir Fjarðarheiði, ef hún fengist ekki á Fagradal, heldur láta málið bíða betri tíða, voru:
. að akbrautin á Fjarðarheiði kæmi ekki að notum fyrir snjódýpt, fyrir of stuttan notkunartíma árlega á brautinni og fyrir erfiðari akstur og of hátt flutningsgjald;
. að þegar akbraut væri komin á Fjarðarheiði og reynsla sýndi, að hún væri ekki notuð til vagnflutnings, enda þótt orsakir þess væri ekki aðeins hinar fyrrgreindu, – þá mundi verða langt að bíða þess, að önnur akbraut yrði lög við hliðina á henni yfir Fagradal.
Fundurinn taldi nauðsynlegt, að annað sporið í þessu máli yrði rétt stigið, en ekki öfugt.
Hverja ástæðu höfum vér nú, Héraðsmenn, til að æskja akbrautar? Þessu er að nokkru leyti svarað í upphafi greinar þessara. Lestaflutningurinn hefði 3 aðalókosti:
. að hann fer illa bæði með menn og hesta, sér í lagi vetrarferðirnar, yfir einn hinn versta fjallveg hér austanlands.
. að hann er afardýr, bæði fyrir það að hestahald er hér dýrt, og það, hve langur tími gengur til hans, mest um aðal bjargræðistímann, vorið og sumarið.
. að bændur mega ekki missa þann vinnukraft sem í flutningana gengur og hljóta oft þeirra vegna að vanrækja nauðsynjastörf. Getur sá óbeini skaði oft orðið miklu meiri en hinn beini kostnaður
Og þó er þetta ekki aðalástæðan til að æskja akbrautar til Héraðs. Aðalástæðan er sú, að við þurfum að fá vörur fluttar til Héraðsins, sem nú er ekki hugsanlegt að verði fluttar, fyrir vantandi vinnukraft, hesta og manna, enda ókleyfan kostnað með slíkum flutningsgöngum sem nú tíðkast. Lífsskilyrði Héraðsins í framtíðinni er aukin og bætt jarðrækt, bæði töðu og matjurta, en til þess þarf áburð. Eini vegurinn til að auka hann er að fá annað eldsneyti en áburðinn (sauðataðið), en það getur ekki orðið á annan veg en að fá akbraut frá sjó til Héraðs, svo flutt verði kol til eldsneytis. Þetta er þýðingarmeira atriði en kannski virðist í fljótu bragði. Ég tel sama að brenna áburði og að brenna töðu, og hún er sannarlega dýr eldiviður.
Það er aðgætandi, að hér lifa menn eingöngu á landbúnaði, og þess vega er grasræktin aðalfóturinn undir lífi og velmegun allra alþýðu hér. – Önnur varan er timbur. Það er óséð, hversu mjög hinn erfiði og dýri lestaflutningur á timbri stendur fyrir verulegum húsabótum hér á Héraði og hver áhrif það hefur aftur á heilsu og vellíðan manna.
Hér um má segja, að úr þessum þörfum sé bætt með akveg, eins og þó hann liggi á þessum staðnum sem hinum, en því neitum við, sem eigum að njóta vegarins og nota hann. Við Héraðsmenn getum alls eigi látið oss í léttu rúmi liggja hvort hann liggur þar, sem hann kemur að fullum notum eða sáralitlum eða alls engum. Ef við fáum ekki veginn, þar sem við höfum hans not, þá er oss engin þága í að peningum landssjóðs sé varið í gagnlausan veg og þannig kastað í sjóinn. Við eru þver á móti andstæðir því, bæði sem gjaldendur og meðeigendur landssjóðs, að fé hans sé kastað burtu í ónytju fyrirtæki.
En hvað getur Seyðfirðingum gengið til að vilja eyðileggja þetta nauðsynjamál Héraðsins? Líklega sannfæring um, að vegur sé betur á kominn á Fjarðarheiði en Fagradal. – Það er að minnsta kosti ólíklegt að það séu einungis viðskiptin við Héraðið, sem þeir sú að halda í. til þess er þetta allt of mikið velferðarmál fyrir Héraðið að kaupstaðarpólitík ætti að komast þar að. Héraðið mun og enn vera allmiklum mun mannfleira en Seyðisfjörður, og því hörð aðgöngu sú kenning, að Héraðið eigi aðeins að vera til fyrir Seyðisfjörð. Að minnst kosti dettur mér ekki í hug að ætlast til, að Seyðisfjörður, enda þótt minni sé, ætti aðeins að vera til, til þess að þjóna þörf Héraðsins.
Og hverjir hafa nú eðlilegastan atkvæðisrétt um það, hvar akbrautin eigi að liggja? Svar: Þeir sem hún er lögð fyrir. Sé hún lögð fyrir Seyðisfjörð, þá er sjálfsaft að leggja hana þar sem hún álítur sig hafa hennar best not. Sé hún lögð fyrir Hérað, á þess atkvæði á sama hátt að gilda. En fyrir hvern eða hverja verður hún lögð ef til kemur? Svar: Fyrir þá sem flutningarnir hafa hvílt á. Og þá mun koma upp hlutur Héraðsmanna, því ég veit ekki til að Seyðisfjörður hafi neitt haft af því að segja, hvað það er, að ná öllum lífsnauðsynjum sínum yfir Fjarðarheiði.
Ég skal ótilkvaddur játa það, að mér og líklega flestum Héraðsmönnum væri eins kært, eða jafnvel kærara, að Fagridalur hefði legið til Seyðisfjarðar, vegna þess að viðskiptabönd Héraðsins liggja nú flest þangað. En hinu neita ég, að þetta eigi geti ráðið því, hvar akbrautin liggi. Ég efast ekki um, að einhver þiggi Héraðsverslunina, þó hann eigi að leggja vörurnar upp á Reyðarfirði, og ég vil jafnvel halda, að sumir hinna ötulu kaupmanna á Seyðisfirði mundu ekki horfa í að byggja þar skúr yfir vörurnar til Héraðsins, þegar farið yrði að bjóða upp verslun, sem næmi 11/2-2 hundr. þúsunda. – En hvað sem því liði, þá er það hin besta meðmæling með Héraðsversluninni, hversu sárt Seyðisfiðri er um hana. Aðrir kaupmenn mundu ímynda sér að eitthvað væri í það varið, er Seyðfirðingar halda svo fast í.
Annars liggur hinn fyrirhugaði Fagradalsvegur að góðir höfn og það er aðalskilyrðið. Það hefur sjaldan staðið á því, að fá einhvern til að versla, þar sem vörumagnið er fyrir.
Ég hef í þessum línum sett skoðanir mínar fram sem gildandi fyrir allt Héraðið. Að vísu hefur heyrst að sumir á Úthéraði hafi mælt með akbraut yfir Fjarðarheiði, en ég veit ekki hvernig því víkur við, ef satt er. Eigi akbraut að koma að notum hljóta vörur Héraðsins að afhendast frá upplagshúsi við annan hvorn enda Lagarfjótsbrúarinnar (meðan ekki kemur föst verslun þar), hvort sem nú kaupmaðurinn annast flutninginn eða Héraðið semdi um hann við sérstakan mann eða menn. Og mér er óskiljanlegt, að verra sé að taka vörur sínar þar, þó þær hafi komið eftir akbraut um Fagradal, en um Fjarðarheiði. Ég hef annars sjálfur heyrt þá skoðun hjá einum manni á Úthéraði, að akbraut, hvort sem væri yfir Fagradal eða Fjarðarheiði, væri eigi fyrir Úthérað. En á meðan ekki fæst uppsigling á Selfljótsós, sem ég, vegna Úthéraðsmanna vildi óska að sem fyrst yrði (því ekki erum við Upp-héraðsmann bættari, þó Úthéraðið sé í sömu fordæmingunni með aðflutning sem við), þá sé ég ekki betur en að þeim væri stór hagur að akbraut. Þá gætu þeir á vetrum flutt mesta eða alla þungavöru sína frá brúnni og heim í hlöð sína á sleðum, eftir akbraut þerri sem frost og snjór leggja á hverjum vetri um allt Úthérað. Og ólíkt væri það því, að brjótast með hesta í færu og ófæru yfir Vestdalsheiði um hávetur, eins og nú á sér stað.
Þetta er nú orðið lengra mál en ég vildi, og þó margt síður útfært og ógreinilegra en orðið hefði, ef ég hefði ekki óttast rúmleysi í blaðinu. En mér þótti réttar að sýna almenningi, að það hefði ekki verið æsingin eintóm, heldur dálítil um hugsun með fram, sem réði ályktun þingmálafundarins á Höfða í akvegarmálinu í vor.
Ég hefði svarað athugasemd Bjarka fyrr, en fékk, því miður, ekki þetta 24. tölublað fyrr en í gærkvöldi.
14. ágúst 1901
Þessi vel rökstudda ritgerð er tekin hér í Austra eftir beiðni höfundarins, svo hún verði alþýðu kunn, þar eð Austri hefur margfalt fleiri kaupendur en Bjarki, enda hefur hún þeirri sömu skoðun fram og ritstjóri Austra hefur oft látið í ljós hér í blaðinu.
Ritstj.


Ísafold, 5. október, 1901, 28. árg., 66. tbl., bls 262:
Í fréttabréfi frá Eskifirði er lýst ótta við að efnið í Lagarfljótsbrúna lendi í fljótinu í vetur.
Fréttabréf úr Suður-Múlasýslu (Eskif.) 28. sept.

_ Illt þykir mönnum að vita hvernig komið er með Lagarfljótsbrúna, og eru menn hræddir um, að stólparnir og járnin kunni að lenda í fljótinu í vetur, ef nokkuð reynir á af ís eða straumi, með því að staurarnir standa ósamtengdir í fljótinu með járnunum ofan á; og hart að vita landsins fé vera þannig komið.


Ísafold, 9. nóvember, 1901, 28. árg., 72. tbl., bls 287:
Tryggvi Gunnarsson reiddist þegar hann var ekki endurkosinn í veganefnd Reykjavíkur.

Veganefndin.
Bæjarstjórn Reykjavíkur kaus í fyrradag nýja veganefnd (sbr. síðasta fund). Hún endurkaus þá Sigurð Thoroddsen og Guðmund Björnsson; 3. maður í nefndinni varð Magnús Benjamínsson, í stað Tr. Gunnarssonar áður, er ekkert atkvæði fékk nú. Því reiddist hann svo, að hann kvaðst segja sig “hér með” úr bæjarstjórninni (sem var lögleysa) og rauk af fundi.


Ísafold, 28. desember, 1901, 28. árg., 81. tbl., forsíða:
Í fréttabréfi úr Dölum birtist m.a. gagnrýni á sýslumann Dalamanna fyrir sum afskipti hans af vegamálum og sérstaklega brúargerð. Virðist hann hafa verið fremur framkvæmdasamur en kannski ekki að sama skapi góður brúarsmiður.

Úr Dölum vestan.
_ Sumarið 1899 sótti sýslumaður um styrk úr landssjóði til brúargerðar á Laxá í Laxárdal á sýsluvegi, án þess að honum hafði verið falið það á hendur á sýslufundi. Veitti Alþingi til þess 1700 kr. á móti 2/3 frá sýslunni. Næsta vor fór hann fram á, að sýslunefndin veitti fé til brúarinnar, og samþykkti hún þá að veita 1700 kr. úr sýslusjóði, en hitt átti að fást á annan hátt (með samskotum etc.). Svo er sagt, að aldrei væri þessi fjárveiting borin undir atkvæði á sýslufundinum og engin ályktun var gerð um framkvæmd verksins, en sýslumaður fann sér skylt að taka að sér umsjón þess. Lét hann í fyrra byrja á að hlaða brúarstöplana, en eigi var því lokið fyrr en í haust, eftir að frost voru komin. Efnið í sjálfa brúna kom snemma síðastliðið sumar, og lá síðan ósnert í Búðardal til hausts. Væntu menn að sýslumaður léti byrja á brúarsmíðinni, er hann kom heim af þingi, en eigi varð af því. Var fyrst byrjað á verkinu, er vika var liðin af nóvember. Yfirsmiður við brúna var Vilhjálmur Ingvarsson frá Bæ í Hrútafirði og hafði hann með sér 2 menn að norðan, en sýslumaður átti að leggja til aðra 2 smiði, samkvæmt skriflegum samningi, er gerður var um verkið, en þeir menn komu aldrei. Tíð var fyrst hagstæð, meðan á brúarsmíðinni stóð; gerði frost svo hörð, að ís lagði á Laxá. En er svo langt var komið verkinu, að búið var að reisa smíðapalla milli stólpanna, til að standa á, og renna máttarviðunum eftir, og búið að koma stærstu trjánum út á pallana og langt komið að festa þá saman, þá brá til þíðu og braut þá áin pallana, en brúin féll í ána og brotnaði, svo hætta varð við verkið; verður nú Laxá brúarlaus í vetur.
Sumir kenna nú hirðuleysi sýslumanns um, að svona fór; þykir sem honum hefði eigi verið vorkunn að láta smíða brúna fyrr, eða að minnsta kosti hraða smíðinni meir en gert var, eftir að byrjað var, og á meðan góð var tíð. Óhætt er að fullyrða, að ekki hefði svona farið, hefði hann staðið við samninginn að sínu leyti og lagt til 2 smiði; brúin þá komin á, áður en áin ruddi sig. Er nú hætt við, að nokkur kurr verði út af þessu, eigi síður en út af brúargerðinni á Tungu í Miðdölum, sem sýslumaður hefur líka staðið fyrir. Sú brú er á þjóðvegi og kostuð að nokkru úr landssjóði. Til að smíða brúna fékk hann mann, sem óvanur var brúarsmíðum, og gerði hann hana eftir fyrirsögn sýslumanns sjálfs. Nú eru rúm 3 ár síðan byrjað var á brúarstöplunum og meira en 2 ár síðan byrjað var á trésmíðinni, en þó er henni eigi lokið enn, en einn máttarviður í brúnni brotinn, svo naumast mun hættulaust að fara um hana með hesta.
Hvort nokkur ber ábyrgð á því, hvernig komið er, er mér ókunnugt um, en hitt veit ég, að sagt er, að sýslumaður sé búinn að fá fé það, er veitt var til brúarinnar, landssjóðsféð jafnvel líka; en ekki veit ég, hvort satt er.
Vegagerð hefur sýslumaður látið byrja á í haust suður frá Búðardal, og (ólæsileg tvö orð) á annað hundrað faðma langur (ólæsileg nokkur orð) þó aldrei mölborinn og má því heita ófær orðinn. En það þykir markverðast við vegabætur þessar, að til þeirra kvað ekki vera veitt neitt fé úr sýslusjóði eða annarsstaðar af opinberu fé, og eru þær því líklega gerðar á kostnað sýslumanns. Það mun ósatt vera, að kostnaðurinn við veginn fyrir sunnan Laxá hafi staðið á sýslusjóðsreikningum síðastliðið vor. Sá reikningur var aldrei fenginn í hendur endurskoðanda sýslusjóðsreikninganna til yfirlits, heldur fékk sýslumaður annan sýslunefndarmann til að endurskoða hann og bar reikninginn að sögn aldrei undir atkvæði á sýslufundi, og ekki komst hann í hendur amtsráðsins á amtráðsfundinum. Um veginn suður frá Búðardal hefur sýslumaður að vísu sagt (sjálfsagt í gamni) að hann ætlaði að telja hann með á Laxárbrúarreikningnum, því brúin sjálf mundi ekki kosta 5.100 kr., og yrði hann því að grípa til þessa ráðs, til að ná í 1700 kr. úr landssjóði, en hitt er þó trúlegra, að hann annaðhvort borgi kostnaðinn sjálfur, eða reyni að fá hann borinn upp á annan hátt og með betri ráðum.
Hvort sem sýslumaður á það nú skilið eða ekki, þá er það þó víst, að margur nöldrar ofan í barm sér yfir öllu þessu; en hærra kemst það heldur ekki. Menn vita að eftirlitið heyrir yfirboðurum til; en svo eru þeir þagmælskir og umburðarlyndir, að ekki er hætt við að hátt sé kallað um það, þótt smábrestir sjáist á embættisfærslunni stöku sinnum, svo sem að sýslumaðurinn gleymi að halda manntalsþing á tilsettum degi og komi fyrst einum degi síðar og safni þá að sér nokkrum mönnum til að votta, að þing hafi verið sett, eins og altalað er að gerst hafi vorið 1900 í Saurbæjarhreppi. En vorkunn er Suðurdalamönnum, þótt þeir vilji ekki una við neitt minna en búsettan ráðgjafa til að líta eftir í landinu, og fylgi því Birgi sýslumanni við kosninguna í vor komandi, ef það er satt, að þeir séu fulltrúa um, að enginn óski heitara eftir búsettum ráðgjafa og betra eftirliti en hann. Prestur þeirra kvað líka vera mjög fylgjandi sýslumanni til kosninga (eftir sögn sýslum. sjálfs), en hlýtur fyrir skop og ákúrur hjá honum á bak. – Laun heimsins eru vanþakklæti.
Búðadal, 3.des. 1901
Jón Jónasson


Fjallkonan, 30. desember, 1901, 18. árg., 51. tbl., forsíða:
Hér spáir ritstjóri blaðsins í mögulegar breytingar á farartækjum hér á landi og nefnir “mótorvagna” sem álitlegan kost. Þá hugleiðir hann einnig stöðu samgöngumála og hvernig ætti að haga þeim með tilliti til framtíðarinnar.

Samgöngufæri framtíðarinnar o.fl.
Blaðið Norðurl. bendir á það, að öll líkindi séu til, að járnbrautir muni aldrei tíðkast á Íslandi, heldur “mótorvagnar” þeir sem eru að verða algengir víða um lönd og getið hefur verið í þessu blaði fyrir nokkru. Þeir fara á sléttum vegi og þurfa engar járnbrautir. Þeir geta farið með all hröðum járnbrautahraða og geta farið upp meiri bratta en járnbrautavagnar. Og þá er það ekki minnstur kosturinn, að þeir verða miklu ódýrari. Það væri hér líklega ódýrast að hreyfivélin (“mótorinn”) væri hreyfður með steinolíu, eins og Norðurl. getur til.
Það þykir vert að vekja athygli landsmanna á þessu samgöngufæri, sem enginn efi er á að Íslendingum er ekki um megn að nota.
Stjórn og þing ætti að gera sem allra fyrst tilraunir í þá átt. Þó menn kunni að segja að hér séu nógar samgöngur, getur það ekki verið rétt álit. Það er að vísu svo, að samgöngurnar á sjó kringum strendur landsins eru nú tíðari; að þær eru miklu meiri en vöruflutningsþörfin heimtar, af því vöruflutningurinn til og frá landinu fer beina leið frá útlöndum á hinar ýmsu hafnir. En þetta er mjög óhaganlegt og dýrt fyrir verslunina; aðal vörustöðin á að vera í Reykjavík, og þangað ætti vörurnar að vera fluttar beint frá framleiðslulöndunum, en ekki eins og nú tíðkast mest megnis frá Kaupmannahöfn og svo nokkuð frá Englandi og Noregi. – Þetta er vonandi að lagist smám saman, og ef til vill vonum bráðara, ef betur færi að líta út með hafnargerð í Reykjavík t.d. við Skerjafjörð. – Mannflutningurinn kringum landið hefur stöðugt verið að aukast með fjölgun skipaferðanna, en nokkur breyting kynni að verða á því, ef meira jafnvægi kæmist á milli landbúnaðar og sjávarútgerðar og sveitavinnu og kaupstaðavinnu.
Þegar á þetta er litið, getum vér álitið, að samgöngurnar kringum landið séu nokkurn veginn nægilegar.
Þar á móti verður ekki sagt, að samgöngurnar við útlönd séu nægar, þar sem höfuðstaðurinn sjálfur verður að vera án reglulegra samgangna fulla tvo mánuði af árinu og mun slíkt ekki eiga sér stað í nokkru siðuðu landi. – Færeyingar hafa miklu betri samgöngur við útlönd en við, og eru þó mjög óánægðir með þær, en við þolum það orðalaust að vera útilokaðir frá heiminum svo að segja hálfan veturinn.
Samgöngurnar innanlands eru af alltaf örðugar eins og eðlilegt er, þar sem vegalengdir og strjálbyggð er svo mikil sem hér, og vegagerðir víða enn skammt á veg komnar, þó ekki hafi vantað að þingið hafi reynt að bæta úr því með sífelldum lagasetningum, sem gerðar hafa verið af vanhyggju og stöðugt hefur orðið að breyta. Með þessu ráðlagi hefur verið eytt tugum þúsunda á tugi þúsunda ofan til lítils gagns. Mesta meinið hefur verið, að við höfum ekki haft menn sem hafi haft vit eða þekkingu á að velja vegastefnurnar, og þó einstakir hyggnir menn hafi verið til, sem hafi séð betur en aðrir, hefur tillögum þeirra venjulega ekki verið sinnt (sbr. Mosfellsheiðarveginn o.fl.). Þingið hefur ekki átt kost á leiðbeiningum verkfróðra manna, og hafi stjórnin verið beðin um þess konar leiðbeiningar, hefur það kostað ærið fé. – Sýnist nú vera mál til komið, að farið sé að hugsa meira um ýmislegt verklegt nám heldur en að ala stöðugt upp á kostnað landsins fjölda af lögfræðingum, (ólæsilegt orð) og málfræðingum, sem landið hefur ekkert með að gera. Vér ættum ekki að vera að ala þá upp fyrir Dani eins og nú er farið að tíðkast. – Vér þurfum fyllilega að halda á öllum vorum mönnum sjálfir, en – vér kunnum ekki að ala þá upp. – Þingið vill ekki styrkja menn til að læra verklegt nám erlendis; það kom greinilega í ljós í sumar, þegar tveir efnilegir menn sóttu um lítilsháttar styrk til þess konar náms. Þeir voru báðir komnir nokkuð á veg í því, og höfðu fengið góð meðmæli, en þingið vildi ekki sinna þeim.
Við förum nú að hafa nóg af vegfræðingum, en ekki mun þó vanþörf á, að þeir sem ráða eiga vegalagningum reyndu að rýna dálítið fram í tímann, og hefðu það t.d. í huga, hvar líkindi væru fyrir mikilli framleiðslu, eða hvar helst væri útlit fyrir, að iðnaður gæti komið upp o.s.frv. og svo ætti líka að taka tillit til þess að samgöngufæri vor hljóta að breytast áður en langt um líður, og mundi sérstaklega verða tillit til þeirra samgöngufæra, sem nefnd eru í byrjun þessarar greinar.


Fjallkonan, 30. desember, 1901, 18. árg., 51. tbl., forsíða:
Hér segir frá mælingu Erlendar Zakaríassonar vegaverkstjóri á fyrirhuguðum vegi milli Mýra og Stykkishólms, og geta áhugasamir séð að hve miklu leyti þessar aldargamla mæling verkstjórans eigi við um veginn eins og hann er í dag.

Stykkishólmsvegurinn.
Hr. Erlendur Zakaríasson vegfræðingur hefur nú í haust mælt veg þann sem leggja á milli Mýra og Stykkishólms, þ.e. framhald af Mýraveginum, sem lagður hefur verið undanfarin ár og gert er rað fyrir að halda áfram á næsta sumri, og Stykkishólmsvegurinn, sem alþingismaður Snæfellinga barðist fyrir á síðasta þingi.
Vegur þessi verður ærið kostnaðarsamur eftir mælingum og áætlunum vegfræðingsins. Hann gerir áætlun um að vegurinn frá Stykkishólmi og suður yfir Kerlingarskarð að Hjarðarfelli muni kosta hér um bil 13 1/2 þús. kr. Þaðan gerir hann ráð fyrir að vegurinn liggi yfir Hjarðarfellsflóa og að Laxá fyrir ofan Stóruþúfu, þaðan að Svínhól, um Hofmannaflöt, yfir Haffjarðará og Eldborgarhraun að Görðum og kostar 31 1/2 þús. kr. Þaðan vill hann leggja veginn suður hjá Barnaborgarhrauni og yfir Hítará hjá Brúarfossi; þaðan að Álftá, rétt fyrir norðan bæinn Álftá, svo að ánni Veitu fyrir neðan Álftartungu, og ofan með Urriðaá að vaðinu á henni, þar sem Mýravegurinn, sem í fyrra var lagður, kemur að henni að sunnanverðu. Þessi vegur gerir hann ráð um að kosti með brú á Hítará og Veitu 43 þús. kr. Eftir þessari áætlun þá kostar þessi vesturhluti vegarins (frá Urriðaá að Stykkishólmi) 88 þús. kr.
Þeir sem búa á Mýrunum neðanverðum vilja fá veginn lagðan aðra leið milli Barnaborgarhrauns og Urriðaár. Þeir vilja láta leggja hann niður að Krossholti og að Hítará hjá Skiphyl.
En vegfræðingurinn telur þá vegarstefnu ótæka vegna þess, að vegurinn yrði með því móti talsvert lengri og miklu dýrari, og viðhaldskostnaður þar á ofan miklu meiri. “Byggðin er að vísu þéttust með sjónum; en þeir sem þar búa nota mest sjóleiðina til vöruflutninga”.
Þennan veg er ráðgert að leggja að sumri að einhverju leyti.