1901

Fjallkonan, 30. desember, 1901, 18. árg., 51. tbl., forsíða:

Samgöngufæri framtíðarinnar o.fl.
Blaðið Norðurl. bendir á það, að öll líkindi séu til, að járnbrautir muni aldrei tíðkast á Íslandi, heldur “mótorvagnar” þeir sem eru að verða algengir víða um lönd og getið hefur verið í þessu blaði fyrir nokkru. Þeir fara á sléttum vegi og þurfa engar járnbrautir. Þeir geta farið með all hröðum járnbrautahraða og geta farið upp meiri bratta en járnbrautavagnar. Og þá er það ekki minnstur kosturinn, að þeir verða miklu ódýrari. Það væri hér líklega ódýrast að hreyfivélin (“mótorinn”) væri hreyfður með steinolíu, eins og Norðurl. getur til.
Það þykir vert að vekja athygli landsmanna á þessu samgöngufæri, sem enginn efi er á að Íslendingum er ekki um megn að nota.
Stjórn og þing ætti að gera sem allra fyrst tilraunir í þá átt. Þó menn kunni að segja að hér séu nógar samgöngur, getur það ekki verið rétt álit. Það er að vísu svo, að samgöngurnar á sjó kringum strendur landsins eru nú tíðari; að þær eru miklu meiri en vöruflutningsþörfin heimtar, af því vöruflutningurinn til og frá landinu fer beina leið frá útlöndum á hinar ýmsu hafnir. En þetta er mjög óhaganlegt og dýrt fyrir verslunina; aðal vörustöðin á að vera í Reykjavík, og þangað ætti vörurnar að vera fluttar beint frá framleiðslulöndunum, en ekki eins og nú tíðkast mest megnis frá Kaupmannahöfn og svo nokkuð frá Englandi og Noregi. – Þetta er vonandi að lagist smám saman, og ef til vill vonum bráðara, ef betur færi að líta út með hafnargerð í Reykjavík t.d. við Skerjafjörð. – Mannflutningurinn kringum landið hefur stöðugt verið að aukast með fjölgun skipaferðanna, en nokkur breyting kynni að verða á því, ef meira jafnvægi kæmist á milli landbúnaðar og sjávarútgerðar og sveitavinnu og kaupstaðavinnu.
Þegar á þetta er litið, getum vér álitið, að samgöngurnar kringum landið séu nokkurn veginn nægilegar.
Þar á móti verður ekki sagt, að samgöngurnar við útlönd séu nægar, þar sem höfuðstaðurinn sjálfur verður að vera án reglulegra samgangna fulla tvo mánuði af árinu og mun slíkt ekki eiga sér stað í nokkru siðuðu landi. – Færeyingar hafa miklu betri samgöngur við útlönd en við, og eru þó mjög óánægðir með þær, en við þolum það orðalaust að vera útilokaðir frá heiminum svo að segja hálfan veturinn.
Samgöngurnar innanlands eru af alltaf örðugar eins og eðlilegt er, þar sem vegalengdir og strjálbyggð er svo mikil sem hér, og vegagerðir víða enn skammt á veg komnar, þó ekki hafi vantað að þingið hafi reynt að bæta úr því með sífelldum lagasetningum, sem gerðar hafa verið af vanhyggju og stöðugt hefur orðið að breyta. Með þessu ráðlagi hefur verið eytt tugum þúsunda á tugi þúsunda ofan til lítils gagns. Mesta meinið hefur verið, að við höfum ekki haft menn sem hafi haft vit eða þekkingu á að velja vegastefnurnar, og þó einstakir hyggnir menn hafi verið til, sem hafi séð betur en aðrir, hefur tillögum þeirra venjulega ekki verið sinnt (sbr. Mosfellsheiðarveginn o.fl.). Þingið hefur ekki átt kost á leiðbeiningum verkfróðra manna, og hafi stjórnin verið beðin um þess konar leiðbeiningar, hefur það kostað ærið fé. – Sýnist nú vera mál til komið, að farið sé að hugsa meira um ýmislegt verklegt nám heldur en að ala stöðugt upp á kostnað landsins fjölda af lögfræðingum, (ólæsilegt orð) og málfræðingum, sem landið hefur ekkert með að gera. Vér ættum ekki að vera að ala þá upp fyrir Dani eins og nú er farið að tíðkast. – Vér þurfum fyllilega að halda á öllum vorum mönnum sjálfir, en – vér kunnum ekki að ala þá upp. – Þingið vill ekki styrkja menn til að læra verklegt nám erlendis; það kom greinilega í ljós í sumar, þegar tveir efnilegir menn sóttu um lítilsháttar styrk til þess konar náms. Þeir voru báðir komnir nokkuð á veg í því, og höfðu fengið góð meðmæli, en þingið vildi ekki sinna þeim.
Við förum nú að hafa nóg af vegfræðingum, en ekki mun þó vanþörf á, að þeir sem ráða eiga vegalagningum reyndu að rýna dálítið fram í tímann, og hefðu það t.d. í huga, hvar líkindi væru fyrir mikilli framleiðslu, eða hvar helst væri útlit fyrir, að iðnaður gæti komið upp o.s.frv. og svo ætti líka að taka tillit til þess að samgöngufæri vor hljóta að breytast áður en langt um líður, og mundi sérstaklega verða tillit til þeirra samgöngufæra, sem nefnd eru í byrjun þessarar greinar.


Fjallkonan, 30. desember, 1901, 18. árg., 51. tbl., forsíða:

Samgöngufæri framtíðarinnar o.fl.
Blaðið Norðurl. bendir á það, að öll líkindi séu til, að járnbrautir muni aldrei tíðkast á Íslandi, heldur “mótorvagnar” þeir sem eru að verða algengir víða um lönd og getið hefur verið í þessu blaði fyrir nokkru. Þeir fara á sléttum vegi og þurfa engar járnbrautir. Þeir geta farið með all hröðum járnbrautahraða og geta farið upp meiri bratta en járnbrautavagnar. Og þá er það ekki minnstur kosturinn, að þeir verða miklu ódýrari. Það væri hér líklega ódýrast að hreyfivélin (“mótorinn”) væri hreyfður með steinolíu, eins og Norðurl. getur til.
Það þykir vert að vekja athygli landsmanna á þessu samgöngufæri, sem enginn efi er á að Íslendingum er ekki um megn að nota.
Stjórn og þing ætti að gera sem allra fyrst tilraunir í þá átt. Þó menn kunni að segja að hér séu nógar samgöngur, getur það ekki verið rétt álit. Það er að vísu svo, að samgöngurnar á sjó kringum strendur landsins eru nú tíðari; að þær eru miklu meiri en vöruflutningsþörfin heimtar, af því vöruflutningurinn til og frá landinu fer beina leið frá útlöndum á hinar ýmsu hafnir. En þetta er mjög óhaganlegt og dýrt fyrir verslunina; aðal vörustöðin á að vera í Reykjavík, og þangað ætti vörurnar að vera fluttar beint frá framleiðslulöndunum, en ekki eins og nú tíðkast mest megnis frá Kaupmannahöfn og svo nokkuð frá Englandi og Noregi. – Þetta er vonandi að lagist smám saman, og ef til vill vonum bráðara, ef betur færi að líta út með hafnargerð í Reykjavík t.d. við Skerjafjörð. – Mannflutningurinn kringum landið hefur stöðugt verið að aukast með fjölgun skipaferðanna, en nokkur breyting kynni að verða á því, ef meira jafnvægi kæmist á milli landbúnaðar og sjávarútgerðar og sveitavinnu og kaupstaðavinnu.
Þegar á þetta er litið, getum vér álitið, að samgöngurnar kringum landið séu nokkurn veginn nægilegar.
Þar á móti verður ekki sagt, að samgöngurnar við útlönd séu nægar, þar sem höfuðstaðurinn sjálfur verður að vera án reglulegra samgangna fulla tvo mánuði af árinu og mun slíkt ekki eiga sér stað í nokkru siðuðu landi. – Færeyingar hafa miklu betri samgöngur við útlönd en við, og eru þó mjög óánægðir með þær, en við þolum það orðalaust að vera útilokaðir frá heiminum svo að segja hálfan veturinn.
Samgöngurnar innanlands eru af alltaf örðugar eins og eðlilegt er, þar sem vegalengdir og strjálbyggð er svo mikil sem hér, og vegagerðir víða enn skammt á veg komnar, þó ekki hafi vantað að þingið hafi reynt að bæta úr því með sífelldum lagasetningum, sem gerðar hafa verið af vanhyggju og stöðugt hefur orðið að breyta. Með þessu ráðlagi hefur verið eytt tugum þúsunda á tugi þúsunda ofan til lítils gagns. Mesta meinið hefur verið, að við höfum ekki haft menn sem hafi haft vit eða þekkingu á að velja vegastefnurnar, og þó einstakir hyggnir menn hafi verið til, sem hafi séð betur en aðrir, hefur tillögum þeirra venjulega ekki verið sinnt (sbr. Mosfellsheiðarveginn o.fl.). Þingið hefur ekki átt kost á leiðbeiningum verkfróðra manna, og hafi stjórnin verið beðin um þess konar leiðbeiningar, hefur það kostað ærið fé. – Sýnist nú vera mál til komið, að farið sé að hugsa meira um ýmislegt verklegt nám heldur en að ala stöðugt upp á kostnað landsins fjölda af lögfræðingum, (ólæsilegt orð) og málfræðingum, sem landið hefur ekkert með að gera. Vér ættum ekki að vera að ala þá upp fyrir Dani eins og nú er farið að tíðkast. – Vér þurfum fyllilega að halda á öllum vorum mönnum sjálfir, en – vér kunnum ekki að ala þá upp. – Þingið vill ekki styrkja menn til að læra verklegt nám erlendis; það kom greinilega í ljós í sumar, þegar tveir efnilegir menn sóttu um lítilsháttar styrk til þess konar náms. Þeir voru báðir komnir nokkuð á veg í því, og höfðu fengið góð meðmæli, en þingið vildi ekki sinna þeim.
Við förum nú að hafa nóg af vegfræðingum, en ekki mun þó vanþörf á, að þeir sem ráða eiga vegalagningum reyndu að rýna dálítið fram í tímann, og hefðu það t.d. í huga, hvar líkindi væru fyrir mikilli framleiðslu, eða hvar helst væri útlit fyrir, að iðnaður gæti komið upp o.s.frv. og svo ætti líka að taka tillit til þess að samgöngufæri vor hljóta að breytast áður en langt um líður, og mundi sérstaklega verða tillit til þeirra samgöngufæra, sem nefnd eru í byrjun þessarar greinar.