1900

Austri, 19. og 27. mars, 1900, 10. árg., 9. og 10. tbl., forsíða og bls. 36:

Ekki er allt gull sem glóir.
Þegar ég hafði lesið bréf herra Barths í 21. tbl. “Bjarka” (27. maí, 1989, bls. 82), varð mér ósjálfrátt að orði: “ekki er allt gull sem glóir”.
Þegar herra Barth var hér á ferðinni í þeim erindagerðum að mæla og ákveða brúarstæði á stórám hér á landi, fullyrti hann, þegar hann var búinn að mæla brúarstæði á Jökulsá í Axarfirði, að enginn vafi væri á því að brú kæmi á hana, enda virtist ekki, eftir því sem þá leit út fyrir, að því væri neitt til fyrirstöðu. Aftur á móti bar hann það fram, að lítil líkindi væru til að brú kæmist á Lagarfljót, sökum þess, að ekki fengist nógu tryggilegur grundvöllur (klöpp) fyrir tréstólpa að standa á, og fór hann mjög skynsömum orðum um það. Svo koma tillögur hans aftur, eins og gamalt máltak segir, sem “skollinn úr sauðarleggnum” manni á óvart, þvert á móti því sem hann talaði sjálfur við menn hér áður en hann fór. “Á Lagarfljóti” segir hann í bréfinu “hef ég lagt það til að brúarstæði yrði valið hjá Egilsstöðum.” Það er nú gott og blessað; en ferju vill hann láta setja á fljótið við Steinsvað, og eftir því sem mér skilst á þessi ferja að vera svifferja, sem straumur á að bera til beggja landa svo menn geti ferjað sig sjálfir; ég skil það ekki vel, enda er ég nokkuð ókunnugur svoleiðis svifferju sem straumur flytji til beggja landa; og í líkingu við svona lagaða svifferju vill herra Barth að menn komi sér upp ferju á Jökulsá í Axarfirði, þegar næg þekking sé komin fyrir því, hvað hinni ferjunni sé ábótavant.
Það er nú dálítið öðru máli að gegna með svifferju á Jökulsá eða Lagarfljóti, því þótt svifferja yrði búin svo vel út á Lagarfljót, að henni væri ekkert ábótavant, þá er alls engin reynsla fengin fyrir því, að svifferja stæði stundinni lengur á Jökulsá í Axarfirði, því Jökulsá og Lagarfljót eru mjög ólík, fyrst hvað straumhraða snertir, annað breyting árinnar og þriðja landtöku. Jökulsá í Axarfirði er mjög straumhörð og þar af leiðandi straumþunginn svo mikill, að hún er óferjandi þegar jökulsvextir eru í henni, það falla á henni stórar holskeflur hvítfossandi líkt og brim við sjávarströnd, svo ferjan er óverjandi hvað góð aðgæsla og stjórn sem höfð er, sömuleiðis er hún svo fljót að breyta sér þegar hún er í vexti, að hún gengur stundum upp mörg fet á einni klukkustund á ferjustaðnum. Landslagið er þannig lagað, að austanverðu árinnar eru klappir og klettaklungur og eru þar aðeins þrjár lendingar og þær næsta knappar, verður því ferjumaður að hafa nákvæmar gætur og sérstaka varúð ef vel á að fara og það þótt áin sé lítil; að vestanverðu er malarkambur með kastmöl og stórgrýti innanum, að vísu er þar fríari lending , en þó mun þurfa þar stakrar varúðar að gæta þegar áin er mikil, flóir hún þá upp um klappirnar og malarkambinn með voðalegu fossfalli og mun þá fáum þykja hún fýsileg til yfirferðar; og þrátt fyrir þetta dettur herra Barth í hug að láta á hana svifferju. Það hlýtur að vera fyrir ókunnugleika, að öðrum kosti mætti álíta það af verkfróðum manni gjörræði; að láta svifferju á Jökulsá, þannig lagaða, að menn ferji sig sjálfir, væri hlægileg fáviska, þar ekki er annað fyrirsjáanlegt, þegar Jökulsá er í vexti, en að annaðhvort mundi strengurinn, sem liggur á milli landa, slitna eða ferjan gangi undir strauminn, nema hún yrði á stærð við dekkbát, og strengurinn að því skapi sterkur, en þá myndi líka vera ofverk eins eða tveggja manna að draga ferjuna landa á milli, hvernig útbúnaður sem væri. En setjum nú svo, að allt þetta lukkaðist, þá væri ekki allt búið fyrir það, því óðar og ferjan nálgaðist austurlandið færi hún í spón á klöppunum þegar áin væri mikil, nema strengurinn væri svo vel strengdur, sem vart mundi verða nema með gufuafli, að hann gæfi alls ekkert eftir, svo ferjan gæti farið beina línu yfir landa á milli, en þá yrði strengurinn líka margar álnir fyrir ofan yfirborð vatnsins þegar áin er lítil, en hvar er þá ferjan!!?
Af þessu má glöggt sjá, að það væri hlægileg fáviska að ætla sér að láta svifferju á Jökulsá, þannig lagaða að menn ferjuðu sig sjálfir. Þeir mundu skilja ferjuna eftir þar sem þá bæri að landi í það skipti, til dæmis þegar áin væri mikil, væri það annað hvort í klöppunum eða á malarkambinum, og væri það gefin sök, að hún væri upp á skraufþurru landi þegar næsti vegfarandi kæmi, ef áin væri að fjara, enda er ég viss um, að engum íslenskum manni með fulla skynsemi mundi hafa dottið slík vitleysa í hug sem tillaga herra Barths í þessu efni, það er að segja ef hann hefði þekkt Jökulsá og séð svifferjur á ám. Ætti nú aftur að vera ákveðinn ferjumaður við svifferju á Jökulsá og hún væri í líkingu við aðrar svifferjur, þá mundi honum naumast detta í hug að hafa hana á ánni meira en tvo mánuði ár hvert í frekasta lagi. Í sumar til dæmis, hefði ekki verið hugsanlegt að láta svifferju á Jökulsá fyrr en undir göngur, svo hefði orðið að vera búið að taka hana af aftur hálfum mánuði fyrir vetur sökum frosta.
Hver er þá vinningurinn? Enginn, ekkert annað en kostnaður að láta ferjuna á og taka hana af aftur. Það er að vísu, að áin er sjaldan geng hér á ferjustaðnum á vetrum, en það safnast að henni svo háar skarir að eigi er hægt að brúka nema lítinn pramma þegar bráð nauðsyn krefur, en samt með því þó að stofna lífi í hættu, því dæmi eru til að skarir hafa orðið níu álna hár og urðu þær þó eigi mældar fyrr en eftir nokkra þýðu; það er því ekki von að nokkur maður sem ekki þekkir Jökulsá geti haft hugmynd um hve voðalegur farartálmi hún er fyrir vegfarendur. Ég hefði sjálfur ekki trúað, hve breytileg hún er og hættuleg yfirferðar, ef ég hefði ekki dvalið í grennd við hana um undanfarinn tíma og fengið allar þær upplýsingar sem hægt var.
Þótt nú herra Barth væri ókunnugur Jökulsá í Axarfirði, hefði hann samt átt að fá dálitla þekkingu á henni, þegar honum var sagt og sýndar breytingar hennar og hann var búinn að mæla hraða vatnsins, þótt aðferð mælinga hans væri að vísu nokkuð hlægileg, en það segir gamall málsháttur, að það sé betra að veifa röngu tré en öngu, og svo mátti segja um verkfæri herra Barths, en samt tókst honum nú aldrei að mæla dýpið, þótt verkfróður væri, var hann það að auki rétt kominn í ána með verkamenn sína af vanhugsaðri fyrirskipan, því slík mælingaraðferð sem hann brúkaði við Jökulsá, hefði verið ófyrirgefanleg af verkfróðum manni.
Ef herra Barth hefði þá með einu orði minnst á svifferju á Jökulsá, þá hefði honum strax verið sýnt fram á ómöguleika þess, en það var öðru máli að gegna, þá hugsaði hann ekki um annað en brú og það helst steinboga eftir því sem hann sagði sjálfur, og það var víst eindregin sannfæring hans, en þá hefur hann náttúrulega ekki verið búinn að athuga nógu vel fólksfjölda uppdráttinn, sem sýnir fram á hve strjálbyggt sé, og þar af leiðandi umferðin svo lítil yfir ána, að brúin yrði alltof íburðarmikil.
Fólksfæðin og umferðarleysi yfir ána virðist nú helst standa í veginum fyrir fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá eftir því sem herra Barth álítur, en þar eð ég er hræddur um að það sé hugmyndasmíði eitt en engin sönnun. Þó virðist mér naumast takandi til greina, þetta hafði þingið voru heldur aldrei dottið í hug að athuga, þótt það notaði flest þau meðul sem komu í bága við brúargerð á Jökulsá, allt þangað til í sumar, þá þagnaði það alveg, líklega af þeirri ástæðu, að það hefur álitið þessa uppgötvun herra Barths með umferðarleysi yfir ána sökum fólksfæðinnar alveg fullgilda, og nú væri umræðum um brúargerð á Jökulsá alveg lokið, en það mun fara á aðra leið; þingmenn vorir munu brátt komast að þeirri niðurstöðu á næsta þingi að sækjendur þessa máls eru eigi fallnir á bak aftur þótt árangur hafi verið lítill að þessu, en nú er fyrst risin almenn óánægja, og er hún í meira lagi, yfir þessari mótspyrnu gagnvart brúnni á Jökulsá, sem öll hefur verið byggð á svo óskiljanlegan hátt, að það er naumast hægt að gera sér grein fyrir hvernig á því stendur, eða það er að minnsta kosti ekki sjáanlegt að hún sé byggð á neinum grundvelli t.d. þar sem haldið er fram öðru brúarstæði á ánni miklu betra, billegra og heppilegra, heldur en því sem ákveðið var, auðvitað tóm ósannindi, bara til að villa mönnum sjónir og tefja fyrir fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá; til þess að ganga nú úr skugga um þetta, ákveður þingið að fá skuli verkfróðan mann frá Noregi til þess að skera úr þessu vandasama máli, þrátt fyrir það þó það hefði nú verkfræðing sem búinn var að mæla og ákveða það eina brúarstæði sem heppilegt var á ánni, þetta er nokkuð eftirtektarvert, en sleppum nú því; nú kemur þessi norski verkfræðingur, herra Barth, hann gerir auðvitað ekkert annað en það sem verkfræðingur landsins var búinn að gera, er alveg á sömu skoðun og finnur enga ástæðu fyrir því að staðið sé á móti fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá, telur hann engan vafa að féð verði veitt á næsta þingi; við þessa ályktun herra Barths urðu menn næsta glaðir og bjuggust við miklum framkvæmdum frá næsta þingi í þessu efni; en svo kemur, eins og ég hef áður tekið fram, þessi nýja uppgötvun herra Barths með umferðarleysi yfir ána og þar af leiðandi þessi kynlegi snúningur í höfðinu á honum, sem gerði menn svo óánægða, að varla þarf að búast við að Norður-Þingeyingar hlífi næsta þingmanni sínum, ef hann ekki heldur fastlega með brúargerð á Jökulsá og starfar kappsamlega í því efni; mun því að öllum líkindum hreinn og beinn óþarfi fyrir þann mann að bjóða sig fram fyrir þingmann hér í sýslu sem eigi hefur sjálfkrafa komist að þeirri niðurstöðu, hve afar nauðsynlegt það sé að greiða samgöngur með því að brúa þetta voðalega vatnsfall, því enginn efi er á því að þetta er ekkert annað en hugarburður hjá herra Barth að umferð sé svo lítil yfir Jökulsá í Axarfirði, eða getur hann gefið nokkra skýrslu yfir það hve margir fara yfir Jökulsá í Axarfirði, að undanskildum þeim sem fara beina leið frá Akureyri til Seyðisfjarðar; enda er umferð yfir Jökulsá í Axarfirði allt árið þegar hún er fær; má því nærri geta hve langferðamönnum er þægilegt að bíða dögum saman við ána þegar hún er ófær, og leggja svo líf sitt og skepna sinna í hættu undireins og hún er slarkandi, mér getur heldur naumast dottið til hugar annað en mönnum hljóti að renna til rifja, þegar þeir sjá hestana koma af sundi úr þessum vatnsföllum, hríðskjálfandi og gaddfrosna á vetrardag, eða örmagna af þreytu, nær því búna að gefa frá sér þrótt á sumardag; hér er því varla hugsanlegt að þing vort hugsi sig um eitt augnablik, að framleggja nægilegt fé til brúargerðar á Jökulsá við fyrsta tækifæri, enda mundi mörgum þykja því mislagðar hendur, þá er það leggur fram stórfé til lítt þarfra akvega t.d. eins og vegarins fram Eyjafjörð, en svo skyldi það þverneita, að veita fé til brúargerðar á eitthvert mesta vatnsfall landsins.
Þótt mikið sé búið að gera í þá áttina að brúa stórár hér á landi, þá er þó talsvert eftir, og dugar því eigi að hætta í hálfu kafi, sannast þá eigi hið fornkveðna “hálfnað er verk þá hafið er”, ef ekki er tafarlaust haldið áfram að brúa allar stórár á landinu jafnótt og fé leyfir, þangað til það er búið. Í þetta skipti ætla ég ekki að fara meira út í þetta efni, en síðar hef ég ásett mér, ef þörf gerist, að sýna fram á, hvort ekki mætti byggja laglega brú fyrir fé það sem veitt hefur verið af þingi voru í ýmsar áttir án þess að landið hafi haft hin minnstu not af.
Ritað í desember 1899.
G.Th.


Austri, 19. og 27. mars, 1900, 10. árg., 9. og 10. tbl., forsíða og bls. 36:

Ekki er allt gull sem glóir.
Þegar ég hafði lesið bréf herra Barths í 21. tbl. “Bjarka” (27. maí, 1989, bls. 82), varð mér ósjálfrátt að orði: “ekki er allt gull sem glóir”.
Þegar herra Barth var hér á ferðinni í þeim erindagerðum að mæla og ákveða brúarstæði á stórám hér á landi, fullyrti hann, þegar hann var búinn að mæla brúarstæði á Jökulsá í Axarfirði, að enginn vafi væri á því að brú kæmi á hana, enda virtist ekki, eftir því sem þá leit út fyrir, að því væri neitt til fyrirstöðu. Aftur á móti bar hann það fram, að lítil líkindi væru til að brú kæmist á Lagarfljót, sökum þess, að ekki fengist nógu tryggilegur grundvöllur (klöpp) fyrir tréstólpa að standa á, og fór hann mjög skynsömum orðum um það. Svo koma tillögur hans aftur, eins og gamalt máltak segir, sem “skollinn úr sauðarleggnum” manni á óvart, þvert á móti því sem hann talaði sjálfur við menn hér áður en hann fór. “Á Lagarfljóti” segir hann í bréfinu “hef ég lagt það til að brúarstæði yrði valið hjá Egilsstöðum.” Það er nú gott og blessað; en ferju vill hann láta setja á fljótið við Steinsvað, og eftir því sem mér skilst á þessi ferja að vera svifferja, sem straumur á að bera til beggja landa svo menn geti ferjað sig sjálfir; ég skil það ekki vel, enda er ég nokkuð ókunnugur svoleiðis svifferju sem straumur flytji til beggja landa; og í líkingu við svona lagaða svifferju vill herra Barth að menn komi sér upp ferju á Jökulsá í Axarfirði, þegar næg þekking sé komin fyrir því, hvað hinni ferjunni sé ábótavant.
Það er nú dálítið öðru máli að gegna með svifferju á Jökulsá eða Lagarfljóti, því þótt svifferja yrði búin svo vel út á Lagarfljót, að henni væri ekkert ábótavant, þá er alls engin reynsla fengin fyrir því, að svifferja stæði stundinni lengur á Jökulsá í Axarfirði, því Jökulsá og Lagarfljót eru mjög ólík, fyrst hvað straumhraða snertir, annað breyting árinnar og þriðja landtöku. Jökulsá í Axarfirði er mjög straumhörð og þar af leiðandi straumþunginn svo mikill, að hún er óferjandi þegar jökulsvextir eru í henni, það falla á henni stórar holskeflur hvítfossandi líkt og brim við sjávarströnd, svo ferjan er óverjandi hvað góð aðgæsla og stjórn sem höfð er, sömuleiðis er hún svo fljót að breyta sér þegar hún er í vexti, að hún gengur stundum upp mörg fet á einni klukkustund á ferjustaðnum. Landslagið er þannig lagað, að austanverðu árinnar eru klappir og klettaklungur og eru þar aðeins þrjár lendingar og þær næsta knappar, verður því ferjumaður að hafa nákvæmar gætur og sérstaka varúð ef vel á að fara og það þótt áin sé lítil; að vestanverðu er malarkambur með kastmöl og stórgrýti innanum, að vísu er þar fríari lending , en þó mun þurfa þar stakrar varúðar að gæta þegar áin er mikil, flóir hún þá upp um klappirnar og malarkambinn með voðalegu fossfalli og mun þá fáum þykja hún fýsileg til yfirferðar; og þrátt fyrir þetta dettur herra Barth í hug að láta á hana svifferju. Það hlýtur að vera fyrir ókunnugleika, að öðrum kosti mætti álíta það af verkfróðum manni gjörræði; að láta svifferju á Jökulsá, þannig lagaða, að menn ferji sig sjálfir, væri hlægileg fáviska, þar ekki er annað fyrirsjáanlegt, þegar Jökulsá er í vexti, en að annaðhvort mundi strengurinn, sem liggur á milli landa, slitna eða ferjan gangi undir strauminn, nema hún yrði á stærð við dekkbát, og strengurinn að því skapi sterkur, en þá myndi líka vera ofverk eins eða tveggja manna að draga ferjuna landa á milli, hvernig útbúnaður sem væri. En setjum nú svo, að allt þetta lukkaðist, þá væri ekki allt búið fyrir það, því óðar og ferjan nálgaðist austurlandið færi hún í spón á klöppunum þegar áin væri mikil, nema strengurinn væri svo vel strengdur, sem vart mundi verða nema með gufuafli, að hann gæfi alls ekkert eftir, svo ferjan gæti farið beina línu yfir landa á milli, en þá yrði strengurinn líka margar álnir fyrir ofan yfirborð vatnsins þegar áin er lítil, en hvar er þá ferjan!!?
Af þessu má glöggt sjá, að það væri hlægileg fáviska að ætla sér að láta svifferju á Jökulsá, þannig lagaða að menn ferjuðu sig sjálfir. Þeir mundu skilja ferjuna eftir þar sem þá bæri að landi í það skipti, til dæmis þegar áin væri mikil, væri það annað hvort í klöppunum eða á malarkambinum, og væri það gefin sök, að hún væri upp á skraufþurru landi þegar næsti vegfarandi kæmi, ef áin væri að fjara, enda er ég viss um, að engum íslenskum manni með fulla skynsemi mundi hafa dottið slík vitleysa í hug sem tillaga herra Barths í þessu efni, það er að segja ef hann hefði þekkt Jökulsá og séð svifferjur á ám. Ætti nú aftur að vera ákveðinn ferjumaður við svifferju á Jökulsá og hún væri í líkingu við aðrar svifferjur, þá mundi honum naumast detta í hug að hafa hana á ánni meira en tvo mánuði ár hvert í frekasta lagi. Í sumar til dæmis, hefði ekki verið hugsanlegt að láta svifferju á Jökulsá fyrr en undir göngur, svo hefði orðið að vera búið að taka hana af aftur hálfum mánuði fyrir vetur sökum frosta.
Hver er þá vinningurinn? Enginn, ekkert annað en kostnaður að láta ferjuna á og taka hana af aftur. Það er að vísu, að áin er sjaldan geng hér á ferjustaðnum á vetrum, en það safnast að henni svo háar skarir að eigi er hægt að brúka nema lítinn pramma þegar bráð nauðsyn krefur, en samt með því þó að stofna lífi í hættu, því dæmi eru til að skarir hafa orðið níu álna hár og urðu þær þó eigi mældar fyrr en eftir nokkra þýðu; það er því ekki von að nokkur maður sem ekki þekkir Jökulsá geti haft hugmynd um hve voðalegur farartálmi hún er fyrir vegfarendur. Ég hefði sjálfur ekki trúað, hve breytileg hún er og hættuleg yfirferðar, ef ég hefði ekki dvalið í grennd við hana um undanfarinn tíma og fengið allar þær upplýsingar sem hægt var.
Þótt nú herra Barth væri ókunnugur Jökulsá í Axarfirði, hefði hann samt átt að fá dálitla þekkingu á henni, þegar honum var sagt og sýndar breytingar hennar og hann var búinn að mæla hraða vatnsins, þótt aðferð mælinga hans væri að vísu nokkuð hlægileg, en það segir gamall málsháttur, að það sé betra að veifa röngu tré en öngu, og svo mátti segja um verkfæri herra Barths, en samt tókst honum nú aldrei að mæla dýpið, þótt verkfróður væri, var hann það að auki rétt kominn í ána með verkamenn sína af vanhugsaðri fyrirskipan, því slík mælingaraðferð sem hann brúkaði við Jökulsá, hefði verið ófyrirgefanleg af verkfróðum manni.
Ef herra Barth hefði þá með einu orði minnst á svifferju á Jökulsá, þá hefði honum strax verið sýnt fram á ómöguleika þess, en það var öðru máli að gegna, þá hugsaði hann ekki um annað en brú og það helst steinboga eftir því sem hann sagði sjálfur, og það var víst eindregin sannfæring hans, en þá hefur hann náttúrulega ekki verið búinn að athuga nógu vel fólksfjölda uppdráttinn, sem sýnir fram á hve strjálbyggt sé, og þar af leiðandi umferðin svo lítil yfir ána, að brúin yrði alltof íburðarmikil.
Fólksfæðin og umferðarleysi yfir ána virðist nú helst standa í veginum fyrir fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá eftir því sem herra Barth álítur, en þar eð ég er hræddur um að það sé hugmyndasmíði eitt en engin sönnun. Þó virðist mér naumast takandi til greina, þetta hafði þingið voru heldur aldrei dottið í hug að athuga, þótt það notaði flest þau meðul sem komu í bága við brúargerð á Jökulsá, allt þangað til í sumar, þá þagnaði það alveg, líklega af þeirri ástæðu, að það hefur álitið þessa uppgötvun herra Barths með umferðarleysi yfir ána sökum fólksfæðinnar alveg fullgilda, og nú væri umræðum um brúargerð á Jökulsá alveg lokið, en það mun fara á aðra leið; þingmenn vorir munu brátt komast að þeirri niðurstöðu á næsta þingi að sækjendur þessa máls eru eigi fallnir á bak aftur þótt árangur hafi verið lítill að þessu, en nú er fyrst risin almenn óánægja, og er hún í meira lagi, yfir þessari mótspyrnu gagnvart brúnni á Jökulsá, sem öll hefur verið byggð á svo óskiljanlegan hátt, að það er naumast hægt að gera sér grein fyrir hvernig á því stendur, eða það er að minnsta kosti ekki sjáanlegt að hún sé byggð á neinum grundvelli t.d. þar sem haldið er fram öðru brúarstæði á ánni miklu betra, billegra og heppilegra, heldur en því sem ákveðið var, auðvitað tóm ósannindi, bara til að villa mönnum sjónir og tefja fyrir fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá; til þess að ganga nú úr skugga um þetta, ákveður þingið að fá skuli verkfróðan mann frá Noregi til þess að skera úr þessu vandasama máli, þrátt fyrir það þó það hefði nú verkfræðing sem búinn var að mæla og ákveða það eina brúarstæði sem heppilegt var á ánni, þetta er nokkuð eftirtektarvert, en sleppum nú því; nú kemur þessi norski verkfræðingur, herra Barth, hann gerir auðvitað ekkert annað en það sem verkfræðingur landsins var búinn að gera, er alveg á sömu skoðun og finnur enga ástæðu fyrir því að staðið sé á móti fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá, telur hann engan vafa að féð verði veitt á næsta þingi; við þessa ályktun herra Barths urðu menn næsta glaðir og bjuggust við miklum framkvæmdum frá næsta þingi í þessu efni; en svo kemur, eins og ég hef áður tekið fram, þessi nýja uppgötvun herra Barths með umferðarleysi yfir ána og þar af leiðandi þessi kynlegi snúningur í höfðinu á honum, sem gerði menn svo óánægða, að varla þarf að búast við að Norður-Þingeyingar hlífi næsta þingmanni sínum, ef hann ekki heldur fastlega með brúargerð á Jökulsá og starfar kappsamlega í því efni; mun því að öllum líkindum hreinn og beinn óþarfi fyrir þann mann að bjóða sig fram fyrir þingmann hér í sýslu sem eigi hefur sjálfkrafa komist að þeirri niðurstöðu, hve afar nauðsynlegt það sé að greiða samgöngur með því að brúa þetta voðalega vatnsfall, því enginn efi er á því að þetta er ekkert annað en hugarburður hjá herra Barth að umferð sé svo lítil yfir Jökulsá í Axarfirði, eða getur hann gefið nokkra skýrslu yfir það hve margir fara yfir Jökulsá í Axarfirði, að undanskildum þeim sem fara beina leið frá Akureyri til Seyðisfjarðar; enda er umferð yfir Jökulsá í Axarfirði allt árið þegar hún er fær; má því nærri geta hve langferðamönnum er þægilegt að bíða dögum saman við ána þegar hún er ófær, og leggja svo líf sitt og skepna sinna í hættu undireins og hún er slarkandi, mér getur heldur naumast dottið til hugar annað en mönnum hljóti að renna til rifja, þegar þeir sjá hestana koma af sundi úr þessum vatnsföllum, hríðskjálfandi og gaddfrosna á vetrardag, eða örmagna af þreytu, nær því búna að gefa frá sér þrótt á sumardag; hér er því varla hugsanlegt að þing vort hugsi sig um eitt augnablik, að framleggja nægilegt fé til brúargerðar á Jökulsá við fyrsta tækifæri, enda mundi mörgum þykja því mislagðar hendur, þá er það leggur fram stórfé til lítt þarfra akvega t.d. eins og vegarins fram Eyjafjörð, en svo skyldi það þverneita, að veita fé til brúargerðar á eitthvert mesta vatnsfall landsins.
Þótt mikið sé búið að gera í þá áttina að brúa stórár hér á landi, þá er þó talsvert eftir, og dugar því eigi að hætta í hálfu kafi, sannast þá eigi hið fornkveðna “hálfnað er verk þá hafið er”, ef ekki er tafarlaust haldið áfram að brúa allar stórár á landinu jafnótt og fé leyfir, þangað til það er búið. Í þetta skipti ætla ég ekki að fara meira út í þetta efni, en síðar hef ég ásett mér, ef þörf gerist, að sýna fram á, hvort ekki mætti byggja laglega brú fyrir fé það sem veitt hefur verið af þingi voru í ýmsar áttir án þess að landið hafi haft hin minnstu not af.
Ritað í desember 1899.
G.Th.