1900

Ísafold, 28. apríl, 27. árg, 24. tbl., bls. 94:

Vegabætur og brúasmíði.
Af því að ég er sá, sem hef staðið fyrir smíði á brúm þeim, er gerðar eru að umtalsefni í grein með þessari fyrirsögn í 14. tbl. Ísafoldar eftir Guttorm Jónsson í Hjarðarholti, þá finn ég mér skylt að minnast lítils háttar á skoðanir hans, þar eð mér finnst þær geta orðið villandi fyrir þá, sem ekki eru kunnugir, eða fyrir þá sem kynnu að takast á hendur að smíða brýr, en geta ekki aflað sér nægrar þekkingar áður.
Hann telur það galla á brúnni yfir Haukadalsá, að sperrurnar liggi ekki á þrepi, þar sem þær koma að stöplunum, og ráðleggur að tengja endann á þeim með járnum við brúartrén. Þetta er óþarfi, því að flestum mun skiljast það, að allar brýr leiti helst niður um miðjuna, en til að varna því, og til þess að brúin geti borið þunga, eru sperrurnar reistar við hlið brúarinnar, sem spyrnast í efri endann; þar liggja á þeim uppihöld úr sterkum járnstöngum, sem ná niður úr tré, er lagt er þvert undir brúna. Sperrum þessum er fest við aðal brúartrén með mjög sterkum skrúfuðum járnteinum nálægt stöplunum; nú þegar þunginn á brúnni liggur á efri enda sperranna, þá er auðskilið að spyrniaflið verður beint út frá brúnni, af því að þær eru festar nálægt neðri enda við aðal brúartrén, sem liggja ofan á stöplunum; beri svo til, að brúin svigni niður um miðjuna meira en til er ætlast, þá er auðskilið, að neðri endi sperrunnar vill leita út og upp á við, en ekki niður á við. Það er og því til fyrirstöðu, að sperran leiti niður með stöplunum, að þeir hallast frá brúnni um sem svarar 1 á móti 10; er því bilið milli þeirra þeim mun styttra að neðan en ofan.
Þá minnist höf. á brúna yfir Hvítá í Borgarfirði á Kláffossi og telur það galla, að neðri endi á sperrunum nær lítið eitt inn í stöplana.
Orsök þess að ég hafði það svo, var helst sú, að mannvirkjafræðingur Siverson, sem mældi fyrst brúarstæðið á Kláffossi og gerði uppdrætti af stöplum og vatnsopum, er áin átti að fara í genum, vildi láta brýrnar vera 2, aðra styttri sunnan við Kláffoss, sem hefði oftast verið á þurru, nema þegar vöxtur kæmi í ána. Eftir þessum mælingum og uppdráttum bað herra landshöfðinginn mig að gera uppdrætti og áætlanir af brúm. Uppdrættir þeir eru enn til. En rétt áður en ég átti að panta efni í brúna, varð sú breyting á, að afráðið var, að hafa aðeins eina brú, en nokkru lengri heldur en stærri brúin átti að vera eftir áætlun Siversons.
Þegar ég kom svo upp eftir um sumarið með brú þessa (sem ég smíðaði í Reykjavík), hitti ég Bjarna bónda á Hurðarbaki, og sýndi hann mér, hvað áin hefði farið hátt í miklum vatnavöxtum; virtist mér þá´, að fyrirstaðan á vatninu væri orðin mikil, bæði af brúarstöplum og vegarhleðslu að brúnni, þar sem hann sagði að áin hefði farið yfir; réð ég þá af að festa sem best sperrurnar í stöplana, til þess að varna því að brúin skekktist eða færi af, þótt nokkur vatnsþungi legðist á hana. Þessi aðferð var þó ekki ný, því bæði hafði ég séð slíkan útbúnað á brúm erlendis, þar sem ég veitti því eftirtekt, og sömuleiðis á brú, er Hovdenak lét gera hér á landi. Og ég sé ekki eftir því, að ég hafði það svona; því svo fór á öðru ári, eftir að brúin var lögð, að vatnsopið reyndist of lítið. Hvítá óx þá svo, að hún óð yfir báða brúarsporða og ruddi burt vegarhleðslunni einmitt þar, sem hún hafði farið yfir um áður. Hefði ég ekki fest brúnni á þennan hátt, að láta sperruendana ná 4 þumlunga inn í stöplana, - og var svo gætilega frá því gengið, að sperrugötin í stöplunum voru látin flá niður á við, til þess að vatn stæði ekki í þeim við trésendann, og endarnir huldir asfaltpappa, - þá hefði brúin eflaust farið af, þegar svona mikill og straumharður vatnsþungi lagðist á hana, og orðið alveg ónýt.
Ef nú yrði áður en langt um líður lögð brú við syðri enda þessarar brúar, og tekin burt vegarhleðsla sú, er tálmar vatninu að komast þar áfram, þá mætti ef þess er þörf, taka burt þá fáu þumlunga af sperrunum, sem nú standa inn í stöplana, fylla holuna með steini og láta sperrurnar þá ná aðeins að stöplunum.
Reykjavík í aprílm. 1900.
Helgi Helgason


Ísafold, 28. apríl, 27. árg, 24. tbl., bls. 94:

Vegabætur og brúasmíði.
Af því að ég er sá, sem hef staðið fyrir smíði á brúm þeim, er gerðar eru að umtalsefni í grein með þessari fyrirsögn í 14. tbl. Ísafoldar eftir Guttorm Jónsson í Hjarðarholti, þá finn ég mér skylt að minnast lítils háttar á skoðanir hans, þar eð mér finnst þær geta orðið villandi fyrir þá, sem ekki eru kunnugir, eða fyrir þá sem kynnu að takast á hendur að smíða brýr, en geta ekki aflað sér nægrar þekkingar áður.
Hann telur það galla á brúnni yfir Haukadalsá, að sperrurnar liggi ekki á þrepi, þar sem þær koma að stöplunum, og ráðleggur að tengja endann á þeim með járnum við brúartrén. Þetta er óþarfi, því að flestum mun skiljast það, að allar brýr leiti helst niður um miðjuna, en til að varna því, og til þess að brúin geti borið þunga, eru sperrurnar reistar við hlið brúarinnar, sem spyrnast í efri endann; þar liggja á þeim uppihöld úr sterkum járnstöngum, sem ná niður úr tré, er lagt er þvert undir brúna. Sperrum þessum er fest við aðal brúartrén með mjög sterkum skrúfuðum járnteinum nálægt stöplunum; nú þegar þunginn á brúnni liggur á efri enda sperranna, þá er auðskilið að spyrniaflið verður beint út frá brúnni, af því að þær eru festar nálægt neðri enda við aðal brúartrén, sem liggja ofan á stöplunum; beri svo til, að brúin svigni niður um miðjuna meira en til er ætlast, þá er auðskilið, að neðri endi sperrunnar vill leita út og upp á við, en ekki niður á við. Það er og því til fyrirstöðu, að sperran leiti niður með stöplunum, að þeir hallast frá brúnni um sem svarar 1 á móti 10; er því bilið milli þeirra þeim mun styttra að neðan en ofan.
Þá minnist höf. á brúna yfir Hvítá í Borgarfirði á Kláffossi og telur það galla, að neðri endi á sperrunum nær lítið eitt inn í stöplana.
Orsök þess að ég hafði það svo, var helst sú, að mannvirkjafræðingur Siverson, sem mældi fyrst brúarstæðið á Kláffossi og gerði uppdrætti af stöplum og vatnsopum, er áin átti að fara í genum, vildi láta brýrnar vera 2, aðra styttri sunnan við Kláffoss, sem hefði oftast verið á þurru, nema þegar vöxtur kæmi í ána. Eftir þessum mælingum og uppdráttum bað herra landshöfðinginn mig að gera uppdrætti og áætlanir af brúm. Uppdrættir þeir eru enn til. En rétt áður en ég átti að panta efni í brúna, varð sú breyting á, að afráðið var, að hafa aðeins eina brú, en nokkru lengri heldur en stærri brúin átti að vera eftir áætlun Siversons.
Þegar ég kom svo upp eftir um sumarið með brú þessa (sem ég smíðaði í Reykjavík), hitti ég Bjarna bónda á Hurðarbaki, og sýndi hann mér, hvað áin hefði farið hátt í miklum vatnavöxtum; virtist mér þá´, að fyrirstaðan á vatninu væri orðin mikil, bæði af brúarstöplum og vegarhleðslu að brúnni, þar sem hann sagði að áin hefði farið yfir; réð ég þá af að festa sem best sperrurnar í stöplana, til þess að varna því að brúin skekktist eða færi af, þótt nokkur vatnsþungi legðist á hana. Þessi aðferð var þó ekki ný, því bæði hafði ég séð slíkan útbúnað á brúm erlendis, þar sem ég veitti því eftirtekt, og sömuleiðis á brú, er Hovdenak lét gera hér á landi. Og ég sé ekki eftir því, að ég hafði það svona; því svo fór á öðru ári, eftir að brúin var lögð, að vatnsopið reyndist of lítið. Hvítá óx þá svo, að hún óð yfir báða brúarsporða og ruddi burt vegarhleðslunni einmitt þar, sem hún hafði farið yfir um áður. Hefði ég ekki fest brúnni á þennan hátt, að láta sperruendana ná 4 þumlunga inn í stöplana, - og var svo gætilega frá því gengið, að sperrugötin í stöplunum voru látin flá niður á við, til þess að vatn stæði ekki í þeim við trésendann, og endarnir huldir asfaltpappa, - þá hefði brúin eflaust farið af, þegar svona mikill og straumharður vatnsþungi lagðist á hana, og orðið alveg ónýt.
Ef nú yrði áður en langt um líður lögð brú við syðri enda þessarar brúar, og tekin burt vegarhleðsla sú, er tálmar vatninu að komast þar áfram, þá mætti ef þess er þörf, taka burt þá fáu þumlunga af sperrunum, sem nú standa inn í stöplana, fylla holuna með steini og láta sperrurnar þá ná aðeins að stöplunum.
Reykjavík í aprílm. 1900.
Helgi Helgason