1900

Ísafold, 3. nóvember, 1900, 27. árg., 67. tbl., bls. 266:

Vegagerð á Mýrum.
Hr. Erlendur Zakaríasson er nýlega heim kominn frá sumar-vegasmíð sinni, sem unnin hefur í þetta sinn verið á Mýrum, upphaf Stykkishólmsvegarins fyrirhugaða frá Borgarnesi. Hann hefur komist í þetta sinn vestur að Urriðaá, 11 rastir eða nál. 1 1/2 mílu. Kafli þessi var versta ófæra, fen og foræði, og mikið af keldum; þurfti þar margar rennur, stórar og dýrar. En ofaníburður nógur nærri. Er nú þessi spotti alveg fullgerður, héraðsbúum til mikillar gleði; það eru meira en lítil viðbrigði fyrir þá, eftir ófæruna, sem þar var áður. Undir veginn þurfti að taka slægjuland dálítið frá 4 jörðum, Borg, Litlu-Brekku, Ánabrekku og Langárfossi, og voru eigendur og umráðamenn þeirra mjög vægir í endurgjaldskröfum, ólíkt því sem við hefur brunnið annarsstaðar – fáir staðist freistinguna til að rista sem breiðastan þvenginn af landsjóðshúðinni. Vegurinn var lagður um túnið á Borg, en ekkert tekið fyrir annað en girðing beggja vegna kostuð af landssjóði (200 kr.).
Kostað hefur vegarkafli þessi rúmar 20.000 kr. og er það nokkuð minna þó en áætlað hafði verið. Um sláttinn unnu að honum 40-50 manna, en 50-60 fyrir og eftir, allt að helmingi innanhéraðsmenn, en hitt vanir vegavinnumenn hér sunnan að. Kaupgjald það sama og áður, 2 3/4 – 3 kr. um sláttinn, en að vorinu nokkuð minna; unglingar 2 kr. Hestleiga 60 a. á dag.


Ísafold, 3. nóvember, 1900, 27. árg., 67. tbl., bls. 266:

Vegagerð á Mýrum.
Hr. Erlendur Zakaríasson er nýlega heim kominn frá sumar-vegasmíð sinni, sem unnin hefur í þetta sinn verið á Mýrum, upphaf Stykkishólmsvegarins fyrirhugaða frá Borgarnesi. Hann hefur komist í þetta sinn vestur að Urriðaá, 11 rastir eða nál. 1 1/2 mílu. Kafli þessi var versta ófæra, fen og foræði, og mikið af keldum; þurfti þar margar rennur, stórar og dýrar. En ofaníburður nógur nærri. Er nú þessi spotti alveg fullgerður, héraðsbúum til mikillar gleði; það eru meira en lítil viðbrigði fyrir þá, eftir ófæruna, sem þar var áður. Undir veginn þurfti að taka slægjuland dálítið frá 4 jörðum, Borg, Litlu-Brekku, Ánabrekku og Langárfossi, og voru eigendur og umráðamenn þeirra mjög vægir í endurgjaldskröfum, ólíkt því sem við hefur brunnið annarsstaðar – fáir staðist freistinguna til að rista sem breiðastan þvenginn af landsjóðshúðinni. Vegurinn var lagður um túnið á Borg, en ekkert tekið fyrir annað en girðing beggja vegna kostuð af landssjóði (200 kr.).
Kostað hefur vegarkafli þessi rúmar 20.000 kr. og er það nokkuð minna þó en áætlað hafði verið. Um sláttinn unnu að honum 40-50 manna, en 50-60 fyrir og eftir, allt að helmingi innanhéraðsmenn, en hitt vanir vegavinnumenn hér sunnan að. Kaupgjald það sama og áður, 2 3/4 – 3 kr. um sláttinn, en að vorinu nokkuð minna; unglingar 2 kr. Hestleiga 60 a. á dag.