1893

Þjóðólfur, 20. jan. 1893, 45. árg., 3. tbl., forsíða:

Um veginn frá Reykjavík til Geysis.
Blöðin hafa lítilsháttar drepið á, hve gott væri að geta hænt útlenda ferðamenn hingað, og það er víst, að þeir flytja mikla peninga inn í landið, en það þarf að gera eitthvað í þá átt, að þeir vilji koma hingað, og álít ég þá hið fyrsta: að þeir geti átt kost á að ferðast á góðum vegum, því að væru þeir góðir, væri fremur vegur að reisa gistihús með fram þeim.
Sá vegur, sem ég helst ætla að tala um og fjölfarnastur er af útlendingum, er Geysisvegurinn (frá Rvík til Geysis). Hann er allt annað en góður, að undantekinni Mosfellsheiði. Yfir hana er lagður vegur en mjög er ofaníburðurinn grýttur austantil á henni, því það væri mesta þörf á að ryðja hann, en að öðru leyti er vegurinn ágætur. Frá Mosfellsheiði er allgóður vegur austur að Skálabrekkuás, en frá honum og austur á Laugarvatnsvelli er að heita má ófær vegur, einkum þegar bleytur eru. Vegurinn liggur yfir hraun með einlægum klifum og dældum á milli, sem standa fullar af vatni eftir hverja skúr, og þar að auki eru þær mjög holóttar. Ég ímynda mér, að útlendingum þyki ekki mjög fallegt að sjá, þegar aumingja hestarnir eru að festa fæturna í þeim, svo að liggur við slysum, því Íslendingum, sem er þó ekki hrósað fyrir of góða meðferð á hestum, þykir það æði ljótt.
Gjábakkastíg getur enginn talið færan veg, þó það verði að nota hann, og miklu gæti hann verið hægari, ef vegurinn væri lagður á snið upp í hann, en ekki beint upp, eins og hann er nú. Af Laugarvatnsvöllum og austur að Skillandsá í Laugardal er allgóður vegur, að minnsta kosti þá er þurrkar eru; en frá Skillandsá og austur að Brúará, en mjög leiður vegur. Það er brú á Brúará, en mjög ófullkomin, því það liggur víst nærri, að hún sé landinu til ósóma. Þar sem brúin er, er áin breið, og fellur bæði fram af björgum, og einnig að miðjunni ofan í gjá, og brúin er einungis yfir gjána. Út að gjánni eða brúnni er vatnið á milli knés og kviðar, og mjög straumhart og ef nokkur vöxtur er í henni þá er hún ófær. Brúarstæði er gott á henni litlu neðar og hefur vegfræðingur Erl. Zakkaríasson skoðað það, og ætlað á, að brú þar mundi kosta kring um 1.200 kr. Frá Brúará og til Geysis er dágóður vegur.
Ef þessi vegur (frá Rvík til Geysis) væri gerður góður, þá fyrst væri hugsandi að reisa gistihús við Geysi og væri það til, þá mundu færri útlendingar fara áður en þeir sæju Geysi gjósa, og engir fyr en þeir væru búnir að sjá Strokk gjósa, sem þeir hafa þó gert; en mjög spillir það líklega fyrir áliti þessara merkilegu hvera, þegar útlendingarnir koma heim til sín og segjast alls ekki hafa séð Strokk gjósa; þeir hefðu ekki getað beðið eftir gosi úr honum, af því ekkert gistihús væri við hann.
En hvaðan eiga peningar að koma til að gera þennan veg góðan og til að brúa Brúará, sem alls ekki má dragast, því flaki sá, sem er á henni er farinn að verða fúinn. Sýslan, munu sumir segja, á að kosta þennan veg, því hann er sýsluvegur, en það er sama sem að segja: hann á aldrei að verða góður, því hún leggur ekki fram meiri peninga en að eins til að kasta steinum úr götunni við og við.
Ætli þessi vegur fengist ekki gerður að þjóðvegi með aukalögum við þau vegalög sem nú eru, eða þá með því að endurskoða þau frá rótum? Meðan hann er sýsluvegur, verður hann aldrei gerður góður.

1/1 1893.
Vér erum hinum háttv. höf. samdóma um, að nauðsyn beri til, að veita útlendingum, sem hingað koma, meiri þægindi en verið hefur. Auðvitað getum vér ekki lagt jafnmikið í sölurnar fyrir þá, eins og Norðmenn hafa gert á síðari árum, er hafa reist fjölda gistihúsa hingað og þangað eingöngu í þarfir ferðamanna. En vegina er oss ekki vorkunn á að bæta svo, að þeir verði þolanlegir, og ekki mundi það heldur frágangssök, að stofna gistihús við Geysi. Það mundi auka allmjög aðsóknina þangað, og ferðamenn mundu þá dvelja lengur við hverina en ella. Þetta málefni er þess vert, að því sé gaumur gefinn, enda mun því verða hreyft rækilegar áður en langt um líður.
- Að því er snertir brúna á Brúará, getur verið umtalsmál, hvort ekki væri haganlegra að hafa hana neðar á ánni, og leggja veginn til Geysis austur Hellisheiði og Grímsnes. Á það verður nánar minnst í næsta blaði.
Ritstj.


Þjóðólfur, 20. jan. 1893, 45. árg., 3. tbl., forsíða:

Um veginn frá Reykjavík til Geysis.
Blöðin hafa lítilsháttar drepið á, hve gott væri að geta hænt útlenda ferðamenn hingað, og það er víst, að þeir flytja mikla peninga inn í landið, en það þarf að gera eitthvað í þá átt, að þeir vilji koma hingað, og álít ég þá hið fyrsta: að þeir geti átt kost á að ferðast á góðum vegum, því að væru þeir góðir, væri fremur vegur að reisa gistihús með fram þeim.
Sá vegur, sem ég helst ætla að tala um og fjölfarnastur er af útlendingum, er Geysisvegurinn (frá Rvík til Geysis). Hann er allt annað en góður, að undantekinni Mosfellsheiði. Yfir hana er lagður vegur en mjög er ofaníburðurinn grýttur austantil á henni, því það væri mesta þörf á að ryðja hann, en að öðru leyti er vegurinn ágætur. Frá Mosfellsheiði er allgóður vegur austur að Skálabrekkuás, en frá honum og austur á Laugarvatnsvelli er að heita má ófær vegur, einkum þegar bleytur eru. Vegurinn liggur yfir hraun með einlægum klifum og dældum á milli, sem standa fullar af vatni eftir hverja skúr, og þar að auki eru þær mjög holóttar. Ég ímynda mér, að útlendingum þyki ekki mjög fallegt að sjá, þegar aumingja hestarnir eru að festa fæturna í þeim, svo að liggur við slysum, því Íslendingum, sem er þó ekki hrósað fyrir of góða meðferð á hestum, þykir það æði ljótt.
Gjábakkastíg getur enginn talið færan veg, þó það verði að nota hann, og miklu gæti hann verið hægari, ef vegurinn væri lagður á snið upp í hann, en ekki beint upp, eins og hann er nú. Af Laugarvatnsvöllum og austur að Skillandsá í Laugardal er allgóður vegur, að minnsta kosti þá er þurrkar eru; en frá Skillandsá og austur að Brúará, en mjög leiður vegur. Það er brú á Brúará, en mjög ófullkomin, því það liggur víst nærri, að hún sé landinu til ósóma. Þar sem brúin er, er áin breið, og fellur bæði fram af björgum, og einnig að miðjunni ofan í gjá, og brúin er einungis yfir gjána. Út að gjánni eða brúnni er vatnið á milli knés og kviðar, og mjög straumhart og ef nokkur vöxtur er í henni þá er hún ófær. Brúarstæði er gott á henni litlu neðar og hefur vegfræðingur Erl. Zakkaríasson skoðað það, og ætlað á, að brú þar mundi kosta kring um 1.200 kr. Frá Brúará og til Geysis er dágóður vegur.
Ef þessi vegur (frá Rvík til Geysis) væri gerður góður, þá fyrst væri hugsandi að reisa gistihús við Geysi og væri það til, þá mundu færri útlendingar fara áður en þeir sæju Geysi gjósa, og engir fyr en þeir væru búnir að sjá Strokk gjósa, sem þeir hafa þó gert; en mjög spillir það líklega fyrir áliti þessara merkilegu hvera, þegar útlendingarnir koma heim til sín og segjast alls ekki hafa séð Strokk gjósa; þeir hefðu ekki getað beðið eftir gosi úr honum, af því ekkert gistihús væri við hann.
En hvaðan eiga peningar að koma til að gera þennan veg góðan og til að brúa Brúará, sem alls ekki má dragast, því flaki sá, sem er á henni er farinn að verða fúinn. Sýslan, munu sumir segja, á að kosta þennan veg, því hann er sýsluvegur, en það er sama sem að segja: hann á aldrei að verða góður, því hún leggur ekki fram meiri peninga en að eins til að kasta steinum úr götunni við og við.
Ætli þessi vegur fengist ekki gerður að þjóðvegi með aukalögum við þau vegalög sem nú eru, eða þá með því að endurskoða þau frá rótum? Meðan hann er sýsluvegur, verður hann aldrei gerður góður.

1/1 1893.
Vér erum hinum háttv. höf. samdóma um, að nauðsyn beri til, að veita útlendingum, sem hingað koma, meiri þægindi en verið hefur. Auðvitað getum vér ekki lagt jafnmikið í sölurnar fyrir þá, eins og Norðmenn hafa gert á síðari árum, er hafa reist fjölda gistihúsa hingað og þangað eingöngu í þarfir ferðamanna. En vegina er oss ekki vorkunn á að bæta svo, að þeir verði þolanlegir, og ekki mundi það heldur frágangssök, að stofna gistihús við Geysi. Það mundi auka allmjög aðsóknina þangað, og ferðamenn mundu þá dvelja lengur við hverina en ella. Þetta málefni er þess vert, að því sé gaumur gefinn, enda mun því verða hreyft rækilegar áður en langt um líður.
- Að því er snertir brúna á Brúará, getur verið umtalsmál, hvort ekki væri haganlegra að hafa hana neðar á ánni, og leggja veginn til Geysis austur Hellisheiði og Grímsnes. Á það verður nánar minnst í næsta blaði.
Ritstj.