1891

Ísafold, 5. ágúst 1891, 18. árg., 62. tbl., forsíða:

Ofurlítil ádrepa.
Svo langt er þá komið áleiðis, að alþingismaður Þorlákur Guðmundsson álítur brúargæslu nauðsynlega; fleiri vantrúaðir munu koma á eftir; að eins þyki honum að ég risti "lengjuna breiða"; hann vill hafa hana "mjóa", en þá á hann eftir að sýna almenningi, hve stór breiddarmunurinn er.
Líklega setur landshöfðingi reglur fyrir gæslunni á Ölvesárbrúnni - ef gæslan annars verður nokkur -, hvort heldur bændurna á Selfossi, eða reglulegur brúarvörður verður fenginn til að gæta hennar. Þar verður sjálfsagt gert að skyldu að gæta brúarinnar fyrir ryði og fúa, sem framast er unnt, og enn fremur verja hana fyrir skeytingarlausri og skaðlegri umferð vegfarenda m.fl. m.fl. Ég hef áður sagt, að það er fullkomlega eins nauðsynlegt að verja hengibrýr fyrir óþarfa hristingi, eins og að mála járnið og tjarga tréð.
Hve mikið vilja nú bændurnir á Selfossi hafa fyrir daglegt eftirlit á brúnni, samkvæmt þessum skilmálum? Og fyrir hve mikið vill reglulegur brúarvörður taka að sér þennan starfa? Sá sem annaðhvort hefir greiðasölu eða handverk við hliðina sér til framfærslu. Hvort hefir landið meiri trygging fyrir dyggilegri gæslu, þegar sá maður lítur eftir brúnni, sem stöðugt getur verið við brúarsporðinn, eður ef bændur verða settir til þess, sem þurfa að vera á engjum og í ferðalagi, og að öðru leyti sinna búi sínu?
Tryggingin er augljós, að mér virðist; en hve mikill munur er á kostnaðinum, er ekki hægt að sanna, fyr en vissa er fengin fyrir því, hversu mikið bændurnir á Selfossi vilja hafa fyrir það, að taka að sér þetta starf, og svo landshöfðingi á hina hliðina hefir auglýst, að hæfur maður geti fengið þessa stöðu fyrir ákveðin laun.
Þegar þetta er fengið, er hægt að meta breiddarmuninn á "lengjunum", en um leið þarf að gæta þess, hvort verðmunurinn samsvarar gæðamuninum.
Fyrir mitt leyti er ég sannfærður um, að hr. alþm. Þ. G. hefir gjört kjósendum sínum og öðrum landsmönnum fremur óleik en gagn með andófi sínu gegn því, að þeir, sem nota stórbrýr, greiði fyrir slit, gæslu og skemmdir á þeim. Ef þingið fylgir nú hans skoðunum og leggur á landssjóð kostnaðinn við gæslu og viðhald á Ölvesárbrúnni, þá verður að mæla á sama mælikvarða fyrir aðrar brýr, sem komnar eru og koma munu, og er þá ekki ólíklegt, að dragast muni nokkur ár, sem nauðsynlegt er að brúa sem fyrst. En ef þingið þar á móti hlífir landssjóði við þessum gæslu- og viðhaldskostnaði, þá er þess að gæta, að þingið hefir ekki veitt nema 40.000 kr. til brúarinnar, en 20.000 hafa nokkur nálæg héruð lagt til þess frá sér gegn endurborgun á láni þessu til landssjóðs; er því sjálfsagt, að kostnaði við gæslu og viðhald verður jafnað annaðhvort að öllu leyti eða að þriðjungi að minnsta kosti á nefnd héruð, ef brúargjald verður ekki tekið.
Þegar svo er búið að leggja brú á Þjórsá, með sömu kjörum og Ölvesárbrúna, með 20.000 kr. tillagi frá sömu héruðum, svo íbúar þeirra þurfa að endurborga 40.000 kr. lán fyrir báðar brýrnar, og gæslu og viðhald að auki, þá getur svo farið, þegar fram líða stundir, að einhverjir þeirra fari að kveinka sér og þakka hr. Þ. G. fyrir frammistöðuna og segja: "Það var eigi svo vitlaust, sem hann Tryggvi sagði; ég held réttast sé, að við losum okkur við nokkuð af þessum miklu gjöldum, og látum þá borga, sem slíta og skemma brúna okkar".
Það er skaði, að margir eru nærsýnir, en ekki fjarsýnir; ekki segi ég, að hr. Þ. G. sé þar á meðal, en eigi veitti af góðum augnlækni í sumum málum, sem meðhöndluð eru hér á landi núna.
Ég hef skrifað svo mikið um þetta brúarmál, að sumum lesendum þessa blaðs er ef til vill farið að leiðast; en það hef ég gert vegna þess, að blöðin flytja mörg mál, sem eru ómerkilegri en samgöngu- og brúarmál Íslands, sama árið sem afhent verður til almennra afnota stærsta brúin, er smíðuð verður á Íslandi á þessari 19. öld, líklega.
Alþm. Þ. G. hefir sagt, að þingið ætti að veita fé af landssjóði til að leggja allar brýr, sem lagðar verða, og þar á eftir að halda þeim við til gefins afnota, og hann hefir enda stungið árinni svo djúpt, að landssjóður ætti að greiða ferjutoll yfir ár á póstvegum. En þingið virðist til þessa tíma hafa haft gagnstæða skoðun. Hvað verður hér eftir, er óráðin gáta.
Fyrsta brúin af þeim stærri, sem lögð hefir verið næstl. 20 ár, var gefin af "prívat" manni; önnur brúin var lögð yfir Jökulsá á Jökuldal með sjóði þeim, er gamla brúin átti; þriðja brúin, sú er lögð var yfir Skjálfandafljót, var gerð fyrir 20.000 kr. lán, sem alþingi veitti af landssjóði, á kostnað nálægra héraða; fjórða brúin, sem nú er verið að leggja yfir Ölvesá, er að þriðjungi gerð á kostnað nálægra héraða, og tvo þriðjunga hefir landssjóður lagt til, af því fyrirtækið var svo stórt, að nefndum héruðum var það ofvaxið. Smábrýr hafa verið lagðar í Skagafirði, Eyjafirði, Þingeyjarsýslu og víðar með samskotum og sýslutillagi.
Allt þetta sýnir, að þingið hefir ekki til þessa tíma álitið sér skylt eða fært að veita fé til að brúa ár, svo ef það heldur áfram sömu stefnu, að styðja það að eins með lánum, og fjárstyrk einu sinni fyrir allt, þegar gjöra á stórbrýr, þá verður það jafnframt að hlutast til um, að fé fáist til að standast kostnaðinn við gæslu og viðhald brúnna, og enn fremur, hvernig gæslunni skuli hagað.
Sá er gallinn á því, ef sú stefna verður tekin, að fela gæsluna þeim manni, er næst býr brúnum, að oft getur staðið svo á, að bæir séu eigi í nálægð, eður þeir, er næst búa, séu manna ófærastir til að sjá um sitt og annarra fé.
Herra Þ. G. sér, að ég hef skrifað almennt um þetta mál í þetta sinn, og ekki svarað grein hans í Ísaf. XVIII. 55. Þar með er ekki sagt, að ég lítilsvirði grein hans eða þyki hún ekki góð; ef til vill væri það ofsagt, að hún væri nokkuð lin undir fæti, þegar á er reynt.
Brúin er jafnbreið og uppdráttur sá var, er lá fyrir þinginu, þegar það veitti 40.000 kr. til brúargerðarinnar, en sumum er betur gefið að sjá eftir á heldur en á undan. Handriðin eru á sömu hæð sem almennt er á brúm erlendis; en það er nú ef til vill, eitt af þessum skaðlegu útlendu skoðunum, þar sem ég er að vitna til þess, sem aðrar þjóðir gera, en ég álít, að í verklegum efnum séum við Íslendingar langt á eftir öðrum þjóðum, og megum þakka fyrir að læra af þeim.
Í júlímán. 1891.
Tr. Gunnarsson.


Ísafold, 5. ágúst 1891, 18. árg., 62. tbl., forsíða:

Ofurlítil ádrepa.
Svo langt er þá komið áleiðis, að alþingismaður Þorlákur Guðmundsson álítur brúargæslu nauðsynlega; fleiri vantrúaðir munu koma á eftir; að eins þyki honum að ég risti "lengjuna breiða"; hann vill hafa hana "mjóa", en þá á hann eftir að sýna almenningi, hve stór breiddarmunurinn er.
Líklega setur landshöfðingi reglur fyrir gæslunni á Ölvesárbrúnni - ef gæslan annars verður nokkur -, hvort heldur bændurna á Selfossi, eða reglulegur brúarvörður verður fenginn til að gæta hennar. Þar verður sjálfsagt gert að skyldu að gæta brúarinnar fyrir ryði og fúa, sem framast er unnt, og enn fremur verja hana fyrir skeytingarlausri og skaðlegri umferð vegfarenda m.fl. m.fl. Ég hef áður sagt, að það er fullkomlega eins nauðsynlegt að verja hengibrýr fyrir óþarfa hristingi, eins og að mála járnið og tjarga tréð.
Hve mikið vilja nú bændurnir á Selfossi hafa fyrir daglegt eftirlit á brúnni, samkvæmt þessum skilmálum? Og fyrir hve mikið vill reglulegur brúarvörður taka að sér þennan starfa? Sá sem annaðhvort hefir greiðasölu eða handverk við hliðina sér til framfærslu. Hvort hefir landið meiri trygging fyrir dyggilegri gæslu, þegar sá maður lítur eftir brúnni, sem stöðugt getur verið við brúarsporðinn, eður ef bændur verða settir til þess, sem þurfa að vera á engjum og í ferðalagi, og að öðru leyti sinna búi sínu?
Tryggingin er augljós, að mér virðist; en hve mikill munur er á kostnaðinum, er ekki hægt að sanna, fyr en vissa er fengin fyrir því, hversu mikið bændurnir á Selfossi vilja hafa fyrir það, að taka að sér þetta starf, og svo landshöfðingi á hina hliðina hefir auglýst, að hæfur maður geti fengið þessa stöðu fyrir ákveðin laun.
Þegar þetta er fengið, er hægt að meta breiddarmuninn á "lengjunum", en um leið þarf að gæta þess, hvort verðmunurinn samsvarar gæðamuninum.
Fyrir mitt leyti er ég sannfærður um, að hr. alþm. Þ. G. hefir gjört kjósendum sínum og öðrum landsmönnum fremur óleik en gagn með andófi sínu gegn því, að þeir, sem nota stórbrýr, greiði fyrir slit, gæslu og skemmdir á þeim. Ef þingið fylgir nú hans skoðunum og leggur á landssjóð kostnaðinn við gæslu og viðhald á Ölvesárbrúnni, þá verður að mæla á sama mælikvarða fyrir aðrar brýr, sem komnar eru og koma munu, og er þá ekki ólíklegt, að dragast muni nokkur ár, sem nauðsynlegt er að brúa sem fyrst. En ef þingið þar á móti hlífir landssjóði við þessum gæslu- og viðhaldskostnaði, þá er þess að gæta, að þingið hefir ekki veitt nema 40.000 kr. til brúarinnar, en 20.000 hafa nokkur nálæg héruð lagt til þess frá sér gegn endurborgun á láni þessu til landssjóðs; er því sjálfsagt, að kostnaði við gæslu og viðhald verður jafnað annaðhvort að öllu leyti eða að þriðjungi að minnsta kosti á nefnd héruð, ef brúargjald verður ekki tekið.
Þegar svo er búið að leggja brú á Þjórsá, með sömu kjörum og Ölvesárbrúna, með 20.000 kr. tillagi frá sömu héruðum, svo íbúar þeirra þurfa að endurborga 40.000 kr. lán fyrir báðar brýrnar, og gæslu og viðhald að auki, þá getur svo farið, þegar fram líða stundir, að einhverjir þeirra fari að kveinka sér og þakka hr. Þ. G. fyrir frammistöðuna og segja: "Það var eigi svo vitlaust, sem hann Tryggvi sagði; ég held réttast sé, að við losum okkur við nokkuð af þessum miklu gjöldum, og látum þá borga, sem slíta og skemma brúna okkar".
Það er skaði, að margir eru nærsýnir, en ekki fjarsýnir; ekki segi ég, að hr. Þ. G. sé þar á meðal, en eigi veitti af góðum augnlækni í sumum málum, sem meðhöndluð eru hér á landi núna.
Ég hef skrifað svo mikið um þetta brúarmál, að sumum lesendum þessa blaðs er ef til vill farið að leiðast; en það hef ég gert vegna þess, að blöðin flytja mörg mál, sem eru ómerkilegri en samgöngu- og brúarmál Íslands, sama árið sem afhent verður til almennra afnota stærsta brúin, er smíðuð verður á Íslandi á þessari 19. öld, líklega.
Alþm. Þ. G. hefir sagt, að þingið ætti að veita fé af landssjóði til að leggja allar brýr, sem lagðar verða, og þar á eftir að halda þeim við til gefins afnota, og hann hefir enda stungið árinni svo djúpt, að landssjóður ætti að greiða ferjutoll yfir ár á póstvegum. En þingið virðist til þessa tíma hafa haft gagnstæða skoðun. Hvað verður hér eftir, er óráðin gáta.
Fyrsta brúin af þeim stærri, sem lögð hefir verið næstl. 20 ár, var gefin af "prívat" manni; önnur brúin var lögð yfir Jökulsá á Jökuldal með sjóði þeim, er gamla brúin átti; þriðja brúin, sú er lögð var yfir Skjálfandafljót, var gerð fyrir 20.000 kr. lán, sem alþingi veitti af landssjóði, á kostnað nálægra héraða; fjórða brúin, sem nú er verið að leggja yfir Ölvesá, er að þriðjungi gerð á kostnað nálægra héraða, og tvo þriðjunga hefir landssjóður lagt til, af því fyrirtækið var svo stórt, að nefndum héruðum var það ofvaxið. Smábrýr hafa verið lagðar í Skagafirði, Eyjafirði, Þingeyjarsýslu og víðar með samskotum og sýslutillagi.
Allt þetta sýnir, að þingið hefir ekki til þessa tíma álitið sér skylt eða fært að veita fé til að brúa ár, svo ef það heldur áfram sömu stefnu, að styðja það að eins með lánum, og fjárstyrk einu sinni fyrir allt, þegar gjöra á stórbrýr, þá verður það jafnframt að hlutast til um, að fé fáist til að standast kostnaðinn við gæslu og viðhald brúnna, og enn fremur, hvernig gæslunni skuli hagað.
Sá er gallinn á því, ef sú stefna verður tekin, að fela gæsluna þeim manni, er næst býr brúnum, að oft getur staðið svo á, að bæir séu eigi í nálægð, eður þeir, er næst búa, séu manna ófærastir til að sjá um sitt og annarra fé.
Herra Þ. G. sér, að ég hef skrifað almennt um þetta mál í þetta sinn, og ekki svarað grein hans í Ísaf. XVIII. 55. Þar með er ekki sagt, að ég lítilsvirði grein hans eða þyki hún ekki góð; ef til vill væri það ofsagt, að hún væri nokkuð lin undir fæti, þegar á er reynt.
Brúin er jafnbreið og uppdráttur sá var, er lá fyrir þinginu, þegar það veitti 40.000 kr. til brúargerðarinnar, en sumum er betur gefið að sjá eftir á heldur en á undan. Handriðin eru á sömu hæð sem almennt er á brúm erlendis; en það er nú ef til vill, eitt af þessum skaðlegu útlendu skoðunum, þar sem ég er að vitna til þess, sem aðrar þjóðir gera, en ég álít, að í verklegum efnum séum við Íslendingar langt á eftir öðrum þjóðum, og megum þakka fyrir að læra af þeim.
Í júlímán. 1891.
Tr. Gunnarsson.