1891

Þjóðólfur, 11. sept 1891, 43. árg., 42. tbl., forsíða:

Ölvesárbrúin.
Eins og til stóð, var Ölvesárbrúin vígð á þriðjudaginn var. Þrátt fyrir allmikla rigningu þá um daginn hafði til vígslunnar safnast mikill manngrúi úr nálægum héruðum, Árnes- og Rangárvallasýslum, Kjósar-og Gullbringusýslu, Reykjavík og enda víðar að. Brúin var opin til kl. 11 um daginn; þeir sem komu eftir þann tíma vestan að ánni, voru því ferjaðir austur yfir, því austanmegin árinnar fór vígslan fram. Brúin var skreytt fánum og blæjum á báða bóga.
Klukkan rúmlega 2 safnaðist manngrúinn að brúnni, en upp á brúarsporðinn að austanverðu gekk landshöfðingi, frú hans, Tr. Gunnarsson og nokkrir fleiri, svo sem nokkrir embættismenn og heldri manna frúr, þingmenn, hornleikendur og söngmenn. Vígsluathöfnin byrjaði síðan með því, að sungin var uppi á brúarsporðinum með nýju lagi eftir kaupmann Helga Helgason þessi,

Brúardrápa
eftir landritara Hannes Hafstein.
Þunga sigursöngva
söng hér elfan löngum,
byst fann skemmtan besta
banna ferðir manna.
Annan söng nú ýtar vaskir kveði,
upp skal hefja róm með von og gleði
Nú er móðan ekki einvöld lengur,
einvald hennar binda traustar spengur.

Hátt á bökkum bröttum
byggðir eru og tryggðir
synir stáls og steina
sterkir mjög að verki;
standa á bergi studdir magni´og prýði,
strengja sér á herðum gjörva smíði,
tengja sveit við sveit, þótt aldan undir
ófær brjótist fram um klett og grundir.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´ í barmi
mest er mann-verk treystum
móðurjarðar góðu.
Tjáir ei við hrepptan hag að búa,
hér á foldu þarf svo margt að brúa:
jökulár á landi og í lundu-
lognhyl margan bæði´ í sál og grundu.
Sannar afrek unnið:
andinn sigrar vanda;
tengja traustir strengir
tvístrað láðið áður.
Tengjum þannig tvístruð öfl og megin.
Trausti, dáð og framkvæmd greiðum veginn.
Heilar vinni hendur jafnt og andi.
Hefjum brúargjörð á andans landi.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´ í barmi.-
Vilji, von og elja
vinnu saman inni.
Þá mun rísa brú til betri tíða,
brú til vonarlanda frónskra lýða,
brú til frelsis, brú til mennta-hæða,
brú til mannfélagsins æðstu gæða.

Heill sé hug og snilli,
heill sé ráði' og dáðum.
Heill sé lönd og anda,
heiður um foldu breiðist.
Líti sól hver sæmd og nýjar tryggðir,
sveipi gæfan fósturjarðar byggðir.
Blessist framkvæmd, blómgist sviti lýða.
Brúin rísi fram til nýrra tíða.

Ræða landshöfðingja.
Þegar búið var að syngja brúardrápuna hélt landshöfðingi ræðu. Hann talaði fyrst um, hve hátíðlegt tækifæri það væri, sem safnað hefði þangað öllum þeim mannfjölda, sem þar var saman kominn, þar sem nú ætti að opna til almennings nota Ölvesárbrúna, sem væri mesta samgöngumannvirki, sem unnið hefði verið hér á landi síðan landið byggðist, fór þar næst nokkrum orðum um, að samgöngutorfærur landsins væru hinn mesti slagbrandur fyrir framförum þess. Þetta hefði fyrsta löggjafandi alþingi kannast við og álitið eitt af því nauðsynlegasta fyrir landið að bæta samgöngur þess; það hefði því veitt allmikið fé til strandferða og vegabóta. En allir hlutar landsins gætu eigi notað strandferðirnar. Á allri strandlengjunni frá Reykjanesi austur fyrir Lónsheiði væri hafnaleysið því til fyrirstöðu, að þar gætu verið gufuskipaferðir; samgöngur þar því eingöngu á landi; því brýn nauðsyn að allir leggist á eitt að bæta samgöngur á þessu svæði.
Ef maður væri kominn í björtu veðri upp á Ingólfsfjall, sem væri hér á bak við héraðið, blasti við manni eigi aðeins hið stærsta, heldur einnig hið frjósamasta sléttlendi landsins. Útlendir jarðfræðingar kölluðu það Geysis-dalinn og kenndu oss, að það hefði þúsundum ára áður en landið byggðist verið fjörður eða flói, sem gengið hefði inn í landið, með smáeyjum, sem nú væru fellin upp af undirlendinu, t. d. Brúfell, Mosfell, Hestfjall, Vörðufell o. s. frv. Þegar þetta væri borið saman við það, sem var, er forfeður vorir settust hér að, og það sem nú er, gæti maður tekið undir með skáldinu, sem kvað
"gat ei nema guð og eldur
gert svo dýrðlegt furðuverk".
Þar sem áður var flói, þar sáu forfeður vorir
"Um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám"
og þeirra mestar Þjórsá og Ölvesá.
Á þessu undirlendi búa nú um 10.000 manna. Útlendingar fullyrtu, að ef allt þetta svæði væri yrkt, eins og best mætti, þá gætu búið þar allir íbúar landsins, 70.000, það væri um 1.000 á ferhyrningsmílunni, og væri það ekki margt, eftir því sem gerðist víðast í útlöndum. En til þess þyrfti margt að breytast, meðal annars brýr að koma á árnar og akvegir eftir héraðinu, vegirnir yrðu að laga sig eftir brúnum, brýrnar yrðu að koma fyrst, vegirnir mundu þá fljótt koma. - Eftir það rakti hann sögu brúarmálsins, er vér sleppum hér, en drepum á síðar í blaðinu.
Þar næst þakkaði landsh. fyrir hönd landsstjórnarinnar öllum, sem að því hafa stutt að fá þessu mikilverða mannvirki framgengt: fjárveitingarvaldinu, bæði alþingi, hlutaðeigandi sýslunefndum og amtsráði Suðuramtsins; alþingismönnum, sem barist hafa fyrir því, hinum útlendu og innlendu smiðum, og öðrum, er að fyrirtækinu hafa unnið, og síðast en ekki síst aðalframkvæmdarmanninum Tryggva Gunnarssyni og fór mörgum lofsorðum um framkomu hans við þetta fyrirtæki, og kvað hann með því hafa reist sér þann minnisvarða, er lengi mundi halda minningu hans á lofti.
Síðan minntist hann á hringinn Draupni sem hafði þá náttúru, að níundu hverja nótt drupu af honum 8 hringir jafnhöfgir og óskaði, að á líkan hátt drypi af þessari brú innan skamms álíka margar brýr yfir þær ár landsins, er valda mestum farartálma.
Eftir að fór hann nokkrum blessunar- og bænarorðum um brúna og framtíð þjóðarinnar og lýsti að lyktum yfir að brúin væri opin og heimil til umferðar hverjum sem vildi.
Prósessían.
Þegar landshöfðingi hafði lokið ræðu sinni, gengu menn í prósessíu yfir brúna. Fór hornleikendaflokkur Helga kaupmanns Helgasonar fyrir og lék á horn. Þá kom landshöfðingi, frú hans, Tr. Gunnarsson og síðan hver af öðrum. Fjórir menn tóku að sér að telja þá, sem færu yfir brúna, og voru þeir rúmlega 1500 að tölu; tilætlunin var, að allir, sem viðstaddir voru, gengu í prósessíunni yfir brúna, en það varð þó ekki. Margir voru, sem eigi gerðu það, og giskuðu menn á, að þeir hefðu verið að minnsta kosti 200 til 300, og sumir héldu enda, að þeir hefðu verið fleiri, svo að það má fullyrða, að alls hafi verið viðstaddir um 1800 manna.
Lýsing á brúnni.
Brúin er hengibrú, sem hangir neðan í snúrum, margþættum og digrum járnstrengjum, sem þandir eru yfir ána, þrír á hvora hlið. Járnstrengir þessir hvíla á stöplum beggja megin árinnar; eru þeir að neðan hlaðnir úr grjóti og múraðir, en ofan á grjótstöplunum eru 11½ al. háir járnstöplar eða stólpagrindur, og á þeim hvíla uppihaldsstrengirnir. Að vestanverðu er hamar, sem hærra ber á en að austanverðu; vestan megin er grjótstöpullinn því lægri um 2 áln. á hæð, að lengd 12 áln. og breidd 6 álnir. Austan megin er grjótstöpullinn 9½ al. á hæð, 14 álnir á lengd og 6 álnir á breidd. 60 álnir á landi upp frá þeim stöpli er annar grjótstöpull, 8 ál. á hæð og stór um sig, hlaðinn eða öllu heldur steyptur utan um akkeri, sem endarnir á uppihaldsstrengjunum eru festir í. Að vestanverðu eru tveir sams konar grjótstöplar steyptir utan um akkerin þeim megin. Úr uppihaldsstrengjunum ganga niður í brúarkjálkanna, sem eru úr járni, eru járnslár margar og yfir þær er lagt gólfið úr plönkum; gólfið er hið eina, sem er úr tré, en að öðru leyti er öll brúin úr járni. Járnið í henni vegur um 100.000 pund, en í gólfið þurftu 100 tylftir af plönkum, og 72 tré. Brúin á að geta borið 144.000 pd.
Ölvesá er 112 álnir á breidd, þar sem brúin er; stöplarnir sem uppihaldsstrengirnir hvíla á, eru ekki fast fram á árbakkanum, að austanverðu 3 álnir frá brúninni; auk þess heldur brúin áfram af þeim stöpli austanmegin árinnar 60 álnir frá honum á land upp yfir á akkeraklettinn; er það gjört, af því að áin flæðir þar oft langt á land upp og mundi því oft verða ófært að brúnni þeim megin, ef brúin næði eigi nema rétt yfir ána, eða ef trébrú væri höfð þar yfir bakkann, mundi áin brjóta hana af. Alls er hengibrúin þannig 180 álnir danskar. Auk þess er um 20 álna löng trébrú austur af henni. Brúin er 4 álnir á breidd; beggja megin er 2 álna hátt handrið úr járni. Hengibrúin er öll máluð rauð, en trébrúin austur af hvítmáluð. Frá brúnni eru 20 álnir niður að vatninu og veltur áin þar fram jökullituð og ægileg. Var ekki trútt um, að sumum ógaði við að ganga yfir brúna og líta niður í grængolandi hyldýpið, og það því fremur, sem brúin dúar undi fæti og sveigist til hliðanna, ef hvasst er, en þennan hliðarslátt á að taka af henni með hliðarstrengjum, sem eiga að koma að ári og veittar voru til 3.000 kr. á þinginu í sumar.
Kostnaðurinn o. fl.
60.000 kr. hafa verið lagðar til brúarinnar, þar af 40.000 kr. sem beinn styrkur úr landssjóði og 20.000 kr. sömuleiðis úr landssjóði sem lán til sýslufélaga Árnes- og Rangárvallasýslu og jafnaðarsjóðs Suðuramtsins, er þau eiga að endurborga á 45 árum. Fyrir þessar 60.000 kr. tók kaupstjóri Tryggvi Gunnarsson að sér að koma upp brúnni; aðrir buðust ekki til þess fyrir svo lítið. Ef allt hefði gengið eftir óskum og engin óhöpp komið fyrir, hefði hann vel staðið sig við það. En ýms atvik og örðugleikar við þetta fyrirtæki hafa valdið því, að hann hefur haft af því nokkurn skaða, hve mikinn er oss ekki kunnugt.
Brúin er smíðuð í Englandi og flutt hingað til lands alsmíðuð í sættri og smærri stykkjum. Járnið í brúna varð nokkrum þúsundum króna dýrara, en ef það hefði verið keypt svo sem hálfu ári áður, og mun það hafa verið drætti eða seinlæti frá stjórnarinnar hálfu að kenna, að járnið varð eigi keypt, er það var í lægra verði. Brúin kom á gufuskipi frá Englandi í fyrra sumar og átti það að leggja hana af sér á Eyrarbakka, en þá leyfði eigi veður skipinu að leggjast þar að, svo að það varð að flytja hana til Reykjavíkur; varð því að leigja skip með hana austur á Eyrarbakka, sem var mikill kostnaðarauki. Í vetur var svo brúnni ekið frá Eyrarbakka að brúarstæðinu, og gekk það allt vel. Í fyrra sumar var Tryggvi Gunnarsson alllengi með nokkra menn við brúarstæðið að hlaða stöplana beggja megin árinnar. En í sumar hafa með Tryggva Gunnarssyni verið til þess að koma henni á ána tveir útlendir ingeniörar, annar danskur, Riperda að nafni, til umsjónar frá stjórnarinnar hálfu, en hinn enskur, Vaughan að nafni, ásamt 6 enskum verkamönnum, sem allir komu hingað snemma í júní og fóru ásamt Vaughan aftur með Lauru seint í f. m., en Riperda er hér enn.
Öllum, sem til þekkja, kemur saman um, að Tr. Gunnarsson hafði látið sér einkar annt um, að þetta verk yrði vel af hendi leyst, brúin sem tryggust og rammbyggilegust. Hann hefur og sýnt það með blaðagreinum sínum um brúarvörð, að honum er annt um, að brúin mætti ekki illri meðferð og að hún endist sem lengst. Ætti það, þótt enginn verði brúarvörðurinn, með öðru fleiru að vera mönnum áminning um að ríða eigi hart yfir brúna, skemma hana ekki og fara að öðru leyti sem gætilegast með hana, enda ætti slíkt að vera hverjum manni ljúft af sjálfsdáðum, er þeir athuga, hversu nytsamleg brúin er og hve mikið hún hefur kostað.
Vegurinn að brúnni.
Alfaravegurinn austur hefur hingað til legið annarstaðar að Ölvesá en þar sem brúin er nú komin á hana. Þess vegna varð að leggja veg að brúnni að vestanverðu; hefur verið byrjað á því í sumar; vagnvegur góður er kominn kippkorn frá Ingólfsfjalli áleiðis að brúnni, og verður þeim vegi lokið að ári; til þeirrar vegagjörðar voru veittar 5.000 kr. með fjáraukalögum á þinginu í sumar.
Um 20 ár
hefur þetta brúarmál verið á dagskrá heima í héraði og á alþingi. Fyrir 20 árum hér um bil var í Árnes- og Rangárvallasýslum farið að hreyfa því að koma brúm á Þjórsá og Ölvesá. Á sýslufundi að Stórólfshvoli 21. maí 1872 kom séra Hannes heitinn Stephensen fram með uppástungu um það; var þá kosin 9 manna nefnd til þess að greiða fyrir málinu; var alþingismaður Sighvatur Árnason formaður nefndarinnar (sjá skýrslu hans um þetta í Þjóðólfi 8. febr. 1873). Nefnd þessi stofnaði til samskota, til þess að minnsta kosti að standast kostnað við að fá útlendan ingeniör til að skoða brúarstæðin. Nefndin fékk því til leiðar komið, að stjórnin sendi hingað ingeniör danskan, Vindfeldt Hansen, til þess að skoða brúarstæðin. Brúarstæði á Þjórsá taldi hann best miðja vega milli bæjanna Urriðafoss og Þjótanda, en á Ölvesá rétt fyrir ofan Selfoss, þar sem brúin nú er komin, og áætlaði kostnaðinn við Ölvesárbrúna 80.000 kr., en Þjórsárbrúna 88.000 kr. Sjóðurinn, sem safnast hafði, gekk til kostnaðarins við skoðunargjörðina.
Inn á þing komst málið 1877, þá komu fram bænarskrár um að þingið legði 168 þús. kr. til að byggja báðar brýrnar. En þá var það fellt á þinginu. Á þingi 1879 komu enn bænarskrár til þingsins um að fá 100.000 kr. til beggja brúnna sem vaxtalaust lán, er skyldi endurborgast á 40 árum af sýslusjóðum fjögra næstu sýslnanna og bæjarsjóði Reykjavíkur. Þetta varð að lögum á þinginu. En þá kom stjórnin með lagasynjunar-vöndinn til að hirta Íslendinga með, sem vildu byggja brýr fyrir sína eigin peninga, og synjaði því lögunum staðfestingar. Á þingi 1883 var farið fram á 80.000 kr. fjárveitingu til Ölvesárbrúarinnar, en Þjórsárbrúin ekki nefnd, en það var fellt á því þingi. Á þingi 1885 varð heldur ekki neitt ágengt En á þingi 1887 voru samþykkt lög um Ölvesárbrúna, og með þeim veittar fjárupphæðir þær, sem áður eru nefndar. Stjórnin staðfesti lögin ekki fyr en 3. maí 1889 og gerði í s. m. samninginn við Tryggva Gunnarsson, sem síðan tók til óspilltra málanna og hefur nú komið brúnni á Ölvesá, eins og áður er frá skýrt.
Fyrirtæki þetta hefur þannig átt erfitt uppdráttar, eins og oft á sér stað, þótt um nauðsynjafyrirtæki sé að ræða; þau verða flest, áður en þeim verður framgengt, að ganga í gegn um margs konar mótmæla. En það er ekki vert að æðrast yfir slíku, heldur gleðjast yfir, að þetta fyrirtæki er til lykta leitt, og samfagna héraðsbúum þeim, sem þess eiga helst að njóta, og þeim mönnum, sem mest hafa fyrir því barist.


Þjóðólfur, 11. sept 1891, 43. árg., 42. tbl., forsíða:

Ölvesárbrúin.
Eins og til stóð, var Ölvesárbrúin vígð á þriðjudaginn var. Þrátt fyrir allmikla rigningu þá um daginn hafði til vígslunnar safnast mikill manngrúi úr nálægum héruðum, Árnes- og Rangárvallasýslum, Kjósar-og Gullbringusýslu, Reykjavík og enda víðar að. Brúin var opin til kl. 11 um daginn; þeir sem komu eftir þann tíma vestan að ánni, voru því ferjaðir austur yfir, því austanmegin árinnar fór vígslan fram. Brúin var skreytt fánum og blæjum á báða bóga.
Klukkan rúmlega 2 safnaðist manngrúinn að brúnni, en upp á brúarsporðinn að austanverðu gekk landshöfðingi, frú hans, Tr. Gunnarsson og nokkrir fleiri, svo sem nokkrir embættismenn og heldri manna frúr, þingmenn, hornleikendur og söngmenn. Vígsluathöfnin byrjaði síðan með því, að sungin var uppi á brúarsporðinum með nýju lagi eftir kaupmann Helga Helgason þessi,

Brúardrápa
eftir landritara Hannes Hafstein.
Þunga sigursöngva
söng hér elfan löngum,
byst fann skemmtan besta
banna ferðir manna.
Annan söng nú ýtar vaskir kveði,
upp skal hefja róm með von og gleði
Nú er móðan ekki einvöld lengur,
einvald hennar binda traustar spengur.

Hátt á bökkum bröttum
byggðir eru og tryggðir
synir stáls og steina
sterkir mjög að verki;
standa á bergi studdir magni´og prýði,
strengja sér á herðum gjörva smíði,
tengja sveit við sveit, þótt aldan undir
ófær brjótist fram um klett og grundir.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´ í barmi
mest er mann-verk treystum
móðurjarðar góðu.
Tjáir ei við hrepptan hag að búa,
hér á foldu þarf svo margt að brúa:
jökulár á landi og í lundu-
lognhyl margan bæði´ í sál og grundu.
Sannar afrek unnið:
andinn sigrar vanda;
tengja traustir strengir
tvístrað láðið áður.
Tengjum þannig tvístruð öfl og megin.
Trausti, dáð og framkvæmd greiðum veginn.
Heilar vinni hendur jafnt og andi.
Hefjum brúargjörð á andans landi.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´ í barmi.-
Vilji, von og elja
vinnu saman inni.
Þá mun rísa brú til betri tíða,
brú til vonarlanda frónskra lýða,
brú til frelsis, brú til mennta-hæða,
brú til mannfélagsins æðstu gæða.

Heill sé hug og snilli,
heill sé ráði' og dáðum.
Heill sé lönd og anda,
heiður um foldu breiðist.
Líti sól hver sæmd og nýjar tryggðir,
sveipi gæfan fósturjarðar byggðir.
Blessist framkvæmd, blómgist sviti lýða.
Brúin rísi fram til nýrra tíða.

Ræða landshöfðingja.
Þegar búið var að syngja brúardrápuna hélt landshöfðingi ræðu. Hann talaði fyrst um, hve hátíðlegt tækifæri það væri, sem safnað hefði þangað öllum þeim mannfjölda, sem þar var saman kominn, þar sem nú ætti að opna til almennings nota Ölvesárbrúna, sem væri mesta samgöngumannvirki, sem unnið hefði verið hér á landi síðan landið byggðist, fór þar næst nokkrum orðum um, að samgöngutorfærur landsins væru hinn mesti slagbrandur fyrir framförum þess. Þetta hefði fyrsta löggjafandi alþingi kannast við og álitið eitt af því nauðsynlegasta fyrir landið að bæta samgöngur þess; það hefði því veitt allmikið fé til strandferða og vegabóta. En allir hlutar landsins gætu eigi notað strandferðirnar. Á allri strandlengjunni frá Reykjanesi austur fyrir Lónsheiði væri hafnaleysið því til fyrirstöðu, að þar gætu verið gufuskipaferðir; samgöngur þar því eingöngu á landi; því brýn nauðsyn að allir leggist á eitt að bæta samgöngur á þessu svæði.
Ef maður væri kominn í björtu veðri upp á Ingólfsfjall, sem væri hér á bak við héraðið, blasti við manni eigi aðeins hið stærsta, heldur einnig hið frjósamasta sléttlendi landsins. Útlendir jarðfræðingar kölluðu það Geysis-dalinn og kenndu oss, að það hefði þúsundum ára áður en landið byggðist verið fjörður eða flói, sem gengið hefði inn í landið, með smáeyjum, sem nú væru fellin upp af undirlendinu, t. d. Brúfell, Mosfell, Hestfjall, Vörðufell o. s. frv. Þegar þetta væri borið saman við það, sem var, er forfeður vorir settust hér að, og það sem nú er, gæti maður tekið undir með skáldinu, sem kvað
"gat ei nema guð og eldur
gert svo dýrðlegt furðuverk".
Þar sem áður var flói, þar sáu forfeður vorir
"Um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám"
og þeirra mestar Þjórsá og Ölvesá.
Á þessu undirlendi búa nú um 10.000 manna. Útlendingar fullyrtu, að ef allt þetta svæði væri yrkt, eins og best mætti, þá gætu búið þar allir íbúar landsins, 70.000, það væri um 1.000 á ferhyrningsmílunni, og væri það ekki margt, eftir því sem gerðist víðast í útlöndum. En til þess þyrfti margt að breytast, meðal annars brýr að koma á árnar og akvegir eftir héraðinu, vegirnir yrðu að laga sig eftir brúnum, brýrnar yrðu að koma fyrst, vegirnir mundu þá fljótt koma. - Eftir það rakti hann sögu brúarmálsins, er vér sleppum hér, en drepum á síðar í blaðinu.
Þar næst þakkaði landsh. fyrir hönd landsstjórnarinnar öllum, sem að því hafa stutt að fá þessu mikilverða mannvirki framgengt: fjárveitingarvaldinu, bæði alþingi, hlutaðeigandi sýslunefndum og amtsráði Suðuramtsins; alþingismönnum, sem barist hafa fyrir því, hinum útlendu og innlendu smiðum, og öðrum, er að fyrirtækinu hafa unnið, og síðast en ekki síst aðalframkvæmdarmanninum Tryggva Gunnarssyni og fór mörgum lofsorðum um framkomu hans við þetta fyrirtæki, og kvað hann með því hafa reist sér þann minnisvarða, er lengi mundi halda minningu hans á lofti.
Síðan minntist hann á hringinn Draupni sem hafði þá náttúru, að níundu hverja nótt drupu af honum 8 hringir jafnhöfgir og óskaði, að á líkan hátt drypi af þessari brú innan skamms álíka margar brýr yfir þær ár landsins, er valda mestum farartálma.
Eftir að fór hann nokkrum blessunar- og bænarorðum um brúna og framtíð þjóðarinnar og lýsti að lyktum yfir að brúin væri opin og heimil til umferðar hverjum sem vildi.
Prósessían.
Þegar landshöfðingi hafði lokið ræðu sinni, gengu menn í prósessíu yfir brúna. Fór hornleikendaflokkur Helga kaupmanns Helgasonar fyrir og lék á horn. Þá kom landshöfðingi, frú hans, Tr. Gunnarsson og síðan hver af öðrum. Fjórir menn tóku að sér að telja þá, sem færu yfir brúna, og voru þeir rúmlega 1500 að tölu; tilætlunin var, að allir, sem viðstaddir voru, gengu í prósessíunni yfir brúna, en það varð þó ekki. Margir voru, sem eigi gerðu það, og giskuðu menn á, að þeir hefðu verið að minnsta kosti 200 til 300, og sumir héldu enda, að þeir hefðu verið fleiri, svo að það má fullyrða, að alls hafi verið viðstaddir um 1800 manna.
Lýsing á brúnni.
Brúin er hengibrú, sem hangir neðan í snúrum, margþættum og digrum járnstrengjum, sem þandir eru yfir ána, þrír á hvora hlið. Járnstrengir þessir hvíla á stöplum beggja megin árinnar; eru þeir að neðan hlaðnir úr grjóti og múraðir, en ofan á grjótstöplunum eru 11½ al. háir járnstöplar eða stólpagrindur, og á þeim hvíla uppihaldsstrengirnir. Að vestanverðu er hamar, sem hærra ber á en að austanverðu; vestan megin er grjótstöpullinn því lægri um 2 áln. á hæð, að lengd 12 áln. og breidd 6 álnir. Austan megin er grjótstöpullinn 9½ al. á hæð, 14 álnir á lengd og 6 álnir á breidd. 60 álnir á landi upp frá þeim stöpli er annar grjótstöpull, 8 ál. á hæð og stór um sig, hlaðinn eða öllu heldur steyptur utan um akkeri, sem endarnir á uppihaldsstrengjunum eru festir í. Að vestanverðu eru tveir sams konar grjótstöplar steyptir utan um akkerin þeim megin. Úr uppihaldsstrengjunum ganga niður í brúarkjálkanna, sem eru úr járni, eru járnslár margar og yfir þær er lagt gólfið úr plönkum; gólfið er hið eina, sem er úr tré, en að öðru leyti er öll brúin úr járni. Járnið í henni vegur um 100.000 pund, en í gólfið þurftu 100 tylftir af plönkum, og 72 tré. Brúin á að geta borið 144.000 pd.
Ölvesá er 112 álnir á breidd, þar sem brúin er; stöplarnir sem uppihaldsstrengirnir hvíla á, eru ekki fast fram á árbakkanum, að austanverðu 3 álnir frá brúninni; auk þess heldur brúin áfram af þeim stöpli austanmegin árinnar 60 álnir frá honum á land upp yfir á akkeraklettinn; er það gjört, af því að áin flæðir þar oft langt á land upp og mundi því oft verða ófært að brúnni þeim megin, ef brúin næði eigi nema rétt yfir ána, eða ef trébrú væri höfð þar yfir bakkann, mundi áin brjóta hana af. Alls er hengibrúin þannig 180 álnir danskar. Auk þess er um 20 álna löng trébrú austur af henni. Brúin er 4 álnir á breidd; beggja megin er 2 álna hátt handrið úr járni. Hengibrúin er öll máluð rauð, en trébrúin austur af hvítmáluð. Frá brúnni eru 20 álnir niður að vatninu og veltur áin þar fram jökullituð og ægileg. Var ekki trútt um, að sumum ógaði við að ganga yfir brúna og líta niður í grængolandi hyldýpið, og það því fremur, sem brúin dúar undi fæti og sveigist til hliðanna, ef hvasst er, en þennan hliðarslátt á að taka af henni með hliðarstrengjum, sem eiga að koma að ári og veittar voru til 3.000 kr. á þinginu í sumar.
Kostnaðurinn o. fl.
60.000 kr. hafa verið lagðar til brúarinnar, þar af 40.000 kr. sem beinn styrkur úr landssjóði og 20.000 kr. sömuleiðis úr landssjóði sem lán til sýslufélaga Árnes- og Rangárvallasýslu og jafnaðarsjóðs Suðuramtsins, er þau eiga að endurborga á 45 árum. Fyrir þessar 60.000 kr. tók kaupstjóri Tryggvi Gunnarsson að sér að koma upp brúnni; aðrir buðust ekki til þess fyrir svo lítið. Ef allt hefði gengið eftir óskum og engin óhöpp komið fyrir, hefði hann vel staðið sig við það. En ýms atvik og örðugleikar við þetta fyrirtæki hafa valdið því, að hann hefur haft af því nokkurn skaða, hve mikinn er oss ekki kunnugt.
Brúin er smíðuð í Englandi og flutt hingað til lands alsmíðuð í sættri og smærri stykkjum. Járnið í brúna varð nokkrum þúsundum króna dýrara, en ef það hefði verið keypt svo sem hálfu ári áður, og mun það hafa verið drætti eða seinlæti frá stjórnarinnar hálfu að kenna, að járnið varð eigi keypt, er það var í lægra verði. Brúin kom á gufuskipi frá Englandi í fyrra sumar og átti það að leggja hana af sér á Eyrarbakka, en þá leyfði eigi veður skipinu að leggjast þar að, svo að það varð að flytja hana til Reykjavíkur; varð því að leigja skip með hana austur á Eyrarbakka, sem var mikill kostnaðarauki. Í vetur var svo brúnni ekið frá Eyrarbakka að brúarstæðinu, og gekk það allt vel. Í fyrra sumar var Tryggvi Gunnarsson alllengi með nokkra menn við brúarstæðið að hlaða stöplana beggja megin árinnar. En í sumar hafa með Tryggva Gunnarssyni verið til þess að koma henni á ána tveir útlendir ingeniörar, annar danskur, Riperda að nafni, til umsjónar frá stjórnarinnar hálfu, en hinn enskur, Vaughan að nafni, ásamt 6 enskum verkamönnum, sem allir komu hingað snemma í júní og fóru ásamt Vaughan aftur með Lauru seint í f. m., en Riperda er hér enn.
Öllum, sem til þekkja, kemur saman um, að Tr. Gunnarsson hafði látið sér einkar annt um, að þetta verk yrði vel af hendi leyst, brúin sem tryggust og rammbyggilegust. Hann hefur og sýnt það með blaðagreinum sínum um brúarvörð, að honum er annt um, að brúin mætti ekki illri meðferð og að hún endist sem lengst. Ætti það, þótt enginn verði brúarvörðurinn, með öðru fleiru að vera mönnum áminning um að ríða eigi hart yfir brúna, skemma hana ekki og fara að öðru leyti sem gætilegast með hana, enda ætti slíkt að vera hverjum manni ljúft af sjálfsdáðum, er þeir athuga, hversu nytsamleg brúin er og hve mikið hún hefur kostað.
Vegurinn að brúnni.
Alfaravegurinn austur hefur hingað til legið annarstaðar að Ölvesá en þar sem brúin er nú komin á hana. Þess vegna varð að leggja veg að brúnni að vestanverðu; hefur verið byrjað á því í sumar; vagnvegur góður er kominn kippkorn frá Ingólfsfjalli áleiðis að brúnni, og verður þeim vegi lokið að ári; til þeirrar vegagjörðar voru veittar 5.000 kr. með fjáraukalögum á þinginu í sumar.
Um 20 ár
hefur þetta brúarmál verið á dagskrá heima í héraði og á alþingi. Fyrir 20 árum hér um bil var í Árnes- og Rangárvallasýslum farið að hreyfa því að koma brúm á Þjórsá og Ölvesá. Á sýslufundi að Stórólfshvoli 21. maí 1872 kom séra Hannes heitinn Stephensen fram með uppástungu um það; var þá kosin 9 manna nefnd til þess að greiða fyrir málinu; var alþingismaður Sighvatur Árnason formaður nefndarinnar (sjá skýrslu hans um þetta í Þjóðólfi 8. febr. 1873). Nefnd þessi stofnaði til samskota, til þess að minnsta kosti að standast kostnað við að fá útlendan ingeniör til að skoða brúarstæðin. Nefndin fékk því til leiðar komið, að stjórnin sendi hingað ingeniör danskan, Vindfeldt Hansen, til þess að skoða brúarstæðin. Brúarstæði á Þjórsá taldi hann best miðja vega milli bæjanna Urriðafoss og Þjótanda, en á Ölvesá rétt fyrir ofan Selfoss, þar sem brúin nú er komin, og áætlaði kostnaðinn við Ölvesárbrúna 80.000 kr., en Þjórsárbrúna 88.000 kr. Sjóðurinn, sem safnast hafði, gekk til kostnaðarins við skoðunargjörðina.
Inn á þing komst málið 1877, þá komu fram bænarskrár um að þingið legði 168 þús. kr. til að byggja báðar brýrnar. En þá var það fellt á þinginu. Á þingi 1879 komu enn bænarskrár til þingsins um að fá 100.000 kr. til beggja brúnna sem vaxtalaust lán, er skyldi endurborgast á 40 árum af sýslusjóðum fjögra næstu sýslnanna og bæjarsjóði Reykjavíkur. Þetta varð að lögum á þinginu. En þá kom stjórnin með lagasynjunar-vöndinn til að hirta Íslendinga með, sem vildu byggja brýr fyrir sína eigin peninga, og synjaði því lögunum staðfestingar. Á þingi 1883 var farið fram á 80.000 kr. fjárveitingu til Ölvesárbrúarinnar, en Þjórsárbrúin ekki nefnd, en það var fellt á því þingi. Á þingi 1885 varð heldur ekki neitt ágengt En á þingi 1887 voru samþykkt lög um Ölvesárbrúna, og með þeim veittar fjárupphæðir þær, sem áður eru nefndar. Stjórnin staðfesti lögin ekki fyr en 3. maí 1889 og gerði í s. m. samninginn við Tryggva Gunnarsson, sem síðan tók til óspilltra málanna og hefur nú komið brúnni á Ölvesá, eins og áður er frá skýrt.
Fyrirtæki þetta hefur þannig átt erfitt uppdráttar, eins og oft á sér stað, þótt um nauðsynjafyrirtæki sé að ræða; þau verða flest, áður en þeim verður framgengt, að ganga í gegn um margs konar mótmæla. En það er ekki vert að æðrast yfir slíku, heldur gleðjast yfir, að þetta fyrirtæki er til lykta leitt, og samfagna héraðsbúum þeim, sem þess eiga helst að njóta, og þeim mönnum, sem mest hafa fyrir því barist.