1891

Austri, 30. sept 1891, 1. árg., 6. tbl., bls. 22:

Sameinaður sýslufundur.
Úr báðum Múlasýslum verður haldinn á Egilsstöðum 8. þ.m. og á þar að ræða þrjú mál, er varða Austurumdæmið mikils: nefnil. vegagjörð á Seyðisfjarðarheiði, gufubátaferðir á Austfjörðum og flutning höfuðpóststöðvanna frá Höfða. Skulum vér leyfa oss, að fara nokkrum orðum um þessi mikilsvarðandi málefni.
Það er, hvað hina fyrirhuguðu vegagjörð á Seyðisfjarðarheiði snertir, mjög heppilegt, að landsstjórnin mundi þó loksins eftir því, að Austurland þyrfti vegabóta við ekki síður en hinir fjórðungar landsins, því hingað til hefir það mjög farið þeirra á mis og verið stórum haft útundan og að olnbogabarni, hvað vegabætur áhrærir, að minnsta kosti á móts við Suður- og Norðurland, því á allri póstleiðinni að norðan og hingað á Seyðisfjörð hafa engar vegabætur verið gjörðar hér eystra, svo að nokkru sé teljandi, ekki einu sinni á hinum fjölfarnasta þjóð- og póstvegi landsins, hinni illræmdu Seyðisfjarðarheiði, sem er fjallvegur milli tveggja sýslna að langstærsta kaupstað þessa landsfjórðungs; en það munu nálægt tíu ár síðan byrjað var á póstveginum yfir Vaðlaheiði og Öxnadalsheiði, sem nú er fyrir löngu lokið við, og er þó Seyðisfjarðarheiði miklu lengri og verri yfirferðar en þær, enda hefir margur mátt á því kenna og orðið oft að manntjóni.
Þegar nú á loks að byrja á því nauðsynjaverki að leggja veg yfir heiðina, þá ætti það ekki að lenda í káki einu, eins og vegagjörðin á Vestdalsheiði, þar sem mörgum hundruðum króna var eitt til einskis, heldur ætti nú að leggja góðan upphækkaðan veg yfir alla heiðina, sem gæti verið til frambúðar og sjá svo um að vegurinn upp á heiðina beggja megin yrði miklu betur sniðskorinn en nú á sér stað. Til vegarins yfir Vaðlaheiði, sem þó er meira en helmingi styttri, mun hafa farið nálægt 10.000 kr. Og þá þyrfti sjálfsagt 20.000 kr. til þess að gjöra góðan og vel varðaðan veg yfir Seyðisfjarðarheiði. Væri þeim peningum nokkru betur varið á svo fjölförnum þjóðvegi sem Fjarðarheiði er, en e. 15.000 kr. til vegar á norðurhluta Grímstunguheiðar, sem mest er farinn af kaupafólki og gangnamönnum. Austlendingar hafa réttláta og fulla heimting á því, að hinn fjölfarnasti þjóðvegur þeirra og aðalviðskipta- og kaupstaðarleið verði nú loksins gjörð svo, að það verði ekki lengur lífsháski fyrir menn og skepnur að fara hana. Vegna vetrarferðanna þyrfti og sæluhús á heiðinni. Með því mundi margt mannslíf sparast.
Hvað gufubátsferðunum hér á Austfjörðum viðvíkur mun það öllum ljóst, að þær hljóta að efla betri og auðveldari samgöngur, og létta vöruflutninga, greiða fyrir öllum viðskiptum manna í milli á þessum landsfjórðungi, efla sjávarútveginn, með því yrði miklu hægra að ná beitu þangað sem hana vantaði o. m. fl. svo það væri vissulega tilvinnandi fyrir sýslufélög landsfjórðungs þessa, að styðja svo gott mál með hæfilegum fjárframlögum. - En vér viljum innilega óska, að hinir háttvirtu fundarmenn verði þess minnugir, að Norðurþingeyjarsýsla heyrir nú líka Austuramtinu til samkvæmt yfirlýstum vilja sýslunefndarinnar; en Norðurþingeyjarsýsla er sá hluti landsins, sem einna harðast er leikinn, með því að þar í sýslu koma strandferðaskipin hvergi við, og eru þar þó allgóðar sumarhafnir, bæði Þórshöfn og Raufarhöfn, en sýslan sjálf mjög afskekkt, víðlend og víða vondir fjallvegir, en víðast landgæði og sveitir góðar, sem mundu taka hinum mestu framförum við betri samgöngur. Það má því heita lífsspursmál fyrir Norðurþingeyinga að verða aðnjótandi að gufubátsferðum og mundi líka hagnaður fyrir hina hluta amtsins að geta skipst vörum á við þá. Teljum vér víst, að sú sýsla mundi eigi skorast undan að leggja til þeirra að sínum hluta, því það hyggjum vér mjög svo óvíst að reiða sig nokkuð á að saman gangi með erlendum félögum nálægt þeirri ferðaáætlun Alþingis er hér fer að framan, þar eð alþingi hafði ekki vit á að ganga að tilboði O. Wathne.
Það er auðséð að Austurskaptafellssýsla lægi eðlilegast við gufubátaferðum hér frá Austfjörðum, og er það ein ástæðan af þeim mörgu fyrir sameiningu hennar við Austuramtið, sem vonandi er að umboðsstjórnin verði ekki andstæð til lengdar gegn marg auglýstum vilja Austurskaftfellinga og á móti hagsmunum sýslunnar og fornri fjórðungaskipun landsins, er þótti hagfelld þá er hagur landsins stóð með mestum blóma.
Þriðja málið, er liggur fyrir þessum sameiginlega sýslufundi, er flutningur aðalpóststöðvanna hér austanlands frá Höfða.
Finnst oss þá góðar og gildar ástæður mæla með að flytja þær hingað á Seyðisfjörð, sem er langfjölmennasta kauptún á Austurlandi, rekur langmesta verslun og önnur viðskipti við uppsveitir og hefir hinar greiðustu og flestu samgöngur við útlönd af öllum kaupstöðum landsins. Hið núverandi fyrirkomulag er alveg óhafandi, því hálfan hluta ársins, og það einmitt þann hlutann, er öll viðskipti manna eru mest, á vorin og sumrin, fer sunnanpósturinn ekki lengra en að Höfða, en ekki er svo mikið sem aukapóstur sendur á Seyðisfjörð. Verða því bréfin að bíða norðanpósts vikunum saman á Höfða til þess að komast til skila hingað, eða menn fá þau þaðan ábyrgðarlaus og á skotspæni og geta átt á hættu að tapa þeim peningum og peningavirði, án þess að eiga tilkall til skaðabóta. En að öðrum kosti verður að kosta mann gagngjört héðan eftir bréfunum við hverja sunnanpóstskomu, vor og sumar, nær þingmannaleið héðan upp að Höfða; og senda mann héðan sömu leið, ef menn þurfa að koma bréfum og sendingum á sunnanpóstinn. Er vonandi allir skynberandi menn sjái, hve afleitt og ranglátt hið núverandi fyrirkomulag er og leggist á eitt til að bæta úr því með að flytja aðalpóststöðvarnar frá Höfða og hingað á Seyðisfjörð.
Aukapósturinn til Vopnafjarðar ætti og að ganga héðan upp yfir Vesturdalsheiði yfir Eiða og Bót og sömu leið til Vopnafjarðar og verið hefur. Það stendur líkt á með hann og sunnanpóstinn. Ef menn þurfa að koma bréfi á hann, þá þarf að senda með það gagngjört að Höfða, því hann fer strax þaðan eftir komu norðanpóstsins. Að láta aukapóstinn til Vopnafjarðar fara héðan væri og mikill hagnaður fyrir allan norðurhluta þessarar sýslu og Þingeyinga, þar sem strandferðaskipin koma miklu sjaldnar við, bæði á Vopnafirði og Húsavík en hér, þar sem líka má á sumrum heita nær því daglegar samgöngur við útlönd, sem ekki geta komið þessum héruðum að notum, er aukapóststöðvarnar eru nær þingmannaleið frá viðkomustað skipanna langt upp í sveit!!!
Þó að aðalpóststöðvarnar væru fluttar hingað og aukapósturinn til Vopnafjarðar legði upp héðan, þá væri víst óhjákvæmilegt, að hafa póstafgreiðslustað á Völlunum til afgreiðslu aukapóstanna upp í Fljótsdal og að Hjaltastað, sem ætti líka að ganga niður í Borgarfjörð, og svo virðist nægja að hafa aukapóst til Eskifjarðar og suðurfjarðanna.
Með því fyrirkomulagi, er vér höfum leyft oss að stinga hér upp á sparaðist póstsjóðnum líka töluvert fé, með því að hafa aðeins bréfhirðing á Eskifirði og losast við biðpeninga norðanpóstsins á Höfða á meðan hann bíður þar eftir sunnanpósti, sem nú er orðinn stöðugur útgjaldaliður, en alþýða fengi miklu hagkvæmari póstleiðir og betri samgöngur hér austanlands. Það virðist örðugt að neita því, að það sé ranglátt að menn þurfi að senda 2 hraðboða héðan við hverja póstferð til að taka og flytja frímerkt bréf til og frá Höfða á sunnanpóstinn, og aðra tvo til þess að hafa gagn af Vopnafjarðarpóstinum. En það getur orðið ómetanlegt tjón að því, að útlend bréf, er hingað koma með gufuskipunum, liggi hér lengi. Og loks finnst oss það nær pósthneyksli, að sýslumaðurinn í Norðurmúlasýslu geti ekki staðið í neinu reglulegu póstsambandi við nær helming af sýslu sinni fyrir þetta fráleita fyrirkomulag, heldur verður hann sem aðrir að senda gagngjört upp á eigin kostnað með frímerkt embættisbréf sín að Höfða! Þetta mun vera eins dæmi hér á landi, að sýslumaður þurfi að senda nær þingmannaleið fyrir ærna peninga til þess að koma embættisbréfum sínum ekki einungis á aðalpóstinn, heldur líka á sjálfan aukapóst sýslunnar!! Finnst oss sem þetta kóróni hið óhagkvæma núverandi fyrirkomulag með aðalpóststöðvarnar upp í Héraði og aukapóst þaðan til Vopnafjarðar.


Austri, 30. sept 1891, 1. árg., 6. tbl., bls. 22:

Sameinaður sýslufundur.
Úr báðum Múlasýslum verður haldinn á Egilsstöðum 8. þ.m. og á þar að ræða þrjú mál, er varða Austurumdæmið mikils: nefnil. vegagjörð á Seyðisfjarðarheiði, gufubátaferðir á Austfjörðum og flutning höfuðpóststöðvanna frá Höfða. Skulum vér leyfa oss, að fara nokkrum orðum um þessi mikilsvarðandi málefni.
Það er, hvað hina fyrirhuguðu vegagjörð á Seyðisfjarðarheiði snertir, mjög heppilegt, að landsstjórnin mundi þó loksins eftir því, að Austurland þyrfti vegabóta við ekki síður en hinir fjórðungar landsins, því hingað til hefir það mjög farið þeirra á mis og verið stórum haft útundan og að olnbogabarni, hvað vegabætur áhrærir, að minnsta kosti á móts við Suður- og Norðurland, því á allri póstleiðinni að norðan og hingað á Seyðisfjörð hafa engar vegabætur verið gjörðar hér eystra, svo að nokkru sé teljandi, ekki einu sinni á hinum fjölfarnasta þjóð- og póstvegi landsins, hinni illræmdu Seyðisfjarðarheiði, sem er fjallvegur milli tveggja sýslna að langstærsta kaupstað þessa landsfjórðungs; en það munu nálægt tíu ár síðan byrjað var á póstveginum yfir Vaðlaheiði og Öxnadalsheiði, sem nú er fyrir löngu lokið við, og er þó Seyðisfjarðarheiði miklu lengri og verri yfirferðar en þær, enda hefir margur mátt á því kenna og orðið oft að manntjóni.
Þegar nú á loks að byrja á því nauðsynjaverki að leggja veg yfir heiðina, þá ætti það ekki að lenda í káki einu, eins og vegagjörðin á Vestdalsheiði, þar sem mörgum hundruðum króna var eitt til einskis, heldur ætti nú að leggja góðan upphækkaðan veg yfir alla heiðina, sem gæti verið til frambúðar og sjá svo um að vegurinn upp á heiðina beggja megin yrði miklu betur sniðskorinn en nú á sér stað. Til vegarins yfir Vaðlaheiði, sem þó er meira en helmingi styttri, mun hafa farið nálægt 10.000 kr. Og þá þyrfti sjálfsagt 20.000 kr. til þess að gjöra góðan og vel varðaðan veg yfir Seyðisfjarðarheiði. Væri þeim peningum nokkru betur varið á svo fjölförnum þjóðvegi sem Fjarðarheiði er, en e. 15.000 kr. til vegar á norðurhluta Grímstunguheiðar, sem mest er farinn af kaupafólki og gangnamönnum. Austlendingar hafa réttláta og fulla heimting á því, að hinn fjölfarnasti þjóðvegur þeirra og aðalviðskipta- og kaupstaðarleið verði nú loksins gjörð svo, að það verði ekki lengur lífsháski fyrir menn og skepnur að fara hana. Vegna vetrarferðanna þyrfti og sæluhús á heiðinni. Með því mundi margt mannslíf sparast.
Hvað gufubátsferðunum hér á Austfjörðum viðvíkur mun það öllum ljóst, að þær hljóta að efla betri og auðveldari samgöngur, og létta vöruflutninga, greiða fyrir öllum viðskiptum manna í milli á þessum landsfjórðungi, efla sjávarútveginn, með því yrði miklu hægra að ná beitu þangað sem hana vantaði o. m. fl. svo það væri vissulega tilvinnandi fyrir sýslufélög landsfjórðungs þessa, að styðja svo gott mál með hæfilegum fjárframlögum. - En vér viljum innilega óska, að hinir háttvirtu fundarmenn verði þess minnugir, að Norðurþingeyjarsýsla heyrir nú líka Austuramtinu til samkvæmt yfirlýstum vilja sýslunefndarinnar; en Norðurþingeyjarsýsla er sá hluti landsins, sem einna harðast er leikinn, með því að þar í sýslu koma strandferðaskipin hvergi við, og eru þar þó allgóðar sumarhafnir, bæði Þórshöfn og Raufarhöfn, en sýslan sjálf mjög afskekkt, víðlend og víða vondir fjallvegir, en víðast landgæði og sveitir góðar, sem mundu taka hinum mestu framförum við betri samgöngur. Það má því heita lífsspursmál fyrir Norðurþingeyinga að verða aðnjótandi að gufubátsferðum og mundi líka hagnaður fyrir hina hluta amtsins að geta skipst vörum á við þá. Teljum vér víst, að sú sýsla mundi eigi skorast undan að leggja til þeirra að sínum hluta, því það hyggjum vér mjög svo óvíst að reiða sig nokkuð á að saman gangi með erlendum félögum nálægt þeirri ferðaáætlun Alþingis er hér fer að framan, þar eð alþingi hafði ekki vit á að ganga að tilboði O. Wathne.
Það er auðséð að Austurskaptafellssýsla lægi eðlilegast við gufubátaferðum hér frá Austfjörðum, og er það ein ástæðan af þeim mörgu fyrir sameiningu hennar við Austuramtið, sem vonandi er að umboðsstjórnin verði ekki andstæð til lengdar gegn marg auglýstum vilja Austurskaftfellinga og á móti hagsmunum sýslunnar og fornri fjórðungaskipun landsins, er þótti hagfelld þá er hagur landsins stóð með mestum blóma.
Þriðja málið, er liggur fyrir þessum sameiginlega sýslufundi, er flutningur aðalpóststöðvanna hér austanlands frá Höfða.
Finnst oss þá góðar og gildar ástæður mæla með að flytja þær hingað á Seyðisfjörð, sem er langfjölmennasta kauptún á Austurlandi, rekur langmesta verslun og önnur viðskipti við uppsveitir og hefir hinar greiðustu og flestu samgöngur við útlönd af öllum kaupstöðum landsins. Hið núverandi fyrirkomulag er alveg óhafandi, því hálfan hluta ársins, og það einmitt þann hlutann, er öll viðskipti manna eru mest, á vorin og sumrin, fer sunnanpósturinn ekki lengra en að Höfða, en ekki er svo mikið sem aukapóstur sendur á Seyðisfjörð. Verða því bréfin að bíða norðanpósts vikunum saman á Höfða til þess að komast til skila hingað, eða menn fá þau þaðan ábyrgðarlaus og á skotspæni og geta átt á hættu að tapa þeim peningum og peningavirði, án þess að eiga tilkall til skaðabóta. En að öðrum kosti verður að kosta mann gagngjört héðan eftir bréfunum við hverja sunnanpóstskomu, vor og sumar, nær þingmannaleið héðan upp að Höfða; og senda mann héðan sömu leið, ef menn þurfa að koma bréfum og sendingum á sunnanpóstinn. Er vonandi allir skynberandi menn sjái, hve afleitt og ranglátt hið núverandi fyrirkomulag er og leggist á eitt til að bæta úr því með að flytja aðalpóststöðvarnar frá Höfða og hingað á Seyðisfjörð.
Aukapósturinn til Vopnafjarðar ætti og að ganga héðan upp yfir Vesturdalsheiði yfir Eiða og Bót og sömu leið til Vopnafjarðar og verið hefur. Það stendur líkt á með hann og sunnanpóstinn. Ef menn þurfa að koma bréfi á hann, þá þarf að senda með það gagngjört að Höfða, því hann fer strax þaðan eftir komu norðanpóstsins. Að láta aukapóstinn til Vopnafjarðar fara héðan væri og mikill hagnaður fyrir allan norðurhluta þessarar sýslu og Þingeyinga, þar sem strandferðaskipin koma miklu sjaldnar við, bæði á Vopnafirði og Húsavík en hér, þar sem líka má á sumrum heita nær því daglegar samgöngur við útlönd, sem ekki geta komið þessum héruðum að notum, er aukapóststöðvarnar eru nær þingmannaleið frá viðkomustað skipanna langt upp í sveit!!!
Þó að aðalpóststöðvarnar væru fluttar hingað og aukapósturinn til Vopnafjarðar legði upp héðan, þá væri víst óhjákvæmilegt, að hafa póstafgreiðslustað á Völlunum til afgreiðslu aukapóstanna upp í Fljótsdal og að Hjaltastað, sem ætti líka að ganga niður í Borgarfjörð, og svo virðist nægja að hafa aukapóst til Eskifjarðar og suðurfjarðanna.
Með því fyrirkomulagi, er vér höfum leyft oss að stinga hér upp á sparaðist póstsjóðnum líka töluvert fé, með því að hafa aðeins bréfhirðing á Eskifirði og losast við biðpeninga norðanpóstsins á Höfða á meðan hann bíður þar eftir sunnanpósti, sem nú er orðinn stöðugur útgjaldaliður, en alþýða fengi miklu hagkvæmari póstleiðir og betri samgöngur hér austanlands. Það virðist örðugt að neita því, að það sé ranglátt að menn þurfi að senda 2 hraðboða héðan við hverja póstferð til að taka og flytja frímerkt bréf til og frá Höfða á sunnanpóstinn, og aðra tvo til þess að hafa gagn af Vopnafjarðarpóstinum. En það getur orðið ómetanlegt tjón að því, að útlend bréf, er hingað koma með gufuskipunum, liggi hér lengi. Og loks finnst oss það nær pósthneyksli, að sýslumaðurinn í Norðurmúlasýslu geti ekki staðið í neinu reglulegu póstsambandi við nær helming af sýslu sinni fyrir þetta fráleita fyrirkomulag, heldur verður hann sem aðrir að senda gagngjört upp á eigin kostnað með frímerkt embættisbréf sín að Höfða! Þetta mun vera eins dæmi hér á landi, að sýslumaður þurfi að senda nær þingmannaleið fyrir ærna peninga til þess að koma embættisbréfum sínum ekki einungis á aðalpóstinn, heldur líka á sjálfan aukapóst sýslunnar!! Finnst oss sem þetta kóróni hið óhagkvæma núverandi fyrirkomulag með aðalpóststöðvarnar upp í Héraði og aukapóst þaðan til Vopnafjarðar.