1885

Ísafold, 4. feb. 1885, 12. árg., 6. tbl., bls. 23.:

Hvítárbrú.
Það sést meðal annars á vorum merku fornritum, að forfeður vorir hér á landi; kunnu ýmislegt í verknaði, sem stórvirki mátti heita. Þeir byggðu t. d. haffærandi skip og stórhýsi heima hjá sér, þó ekki væru þau af steini gjör. Að gjöra brýr á stór vatnsföll, hefir verið nokkuð algengt, og því segir Grágás Kb. Bl. 130: “Smiðar þeir er hus gera or avströnom viðe. Bruar vm ar þær eða votn er net næmir fiscar ganga i eða gera buðir a alþingi. Þeir eigo cost at taca daga cavp vm engi verk”. Hér er verið að tala um “heimilisföng”, og hafa þessir menn rétt fram yfir aðra, og mega vera lausir á sumrum og taka kaup, en Grágás tekur þó hart á lausamennsku, og það varðaði við lög, að hafa ekki vist. Það sést fyllilega á Sturlungu, að brú hefir verið á Hvítá í Borgarfirði, sem líklega var af mönnum gjörð. Eins og kunnugt er, var sættafundurinn lagður við “Hvítárbrú” milli Kolbeins unga og Gissurar Þorvaldssonar og Órækju, út af vígi Snorra Sturlusonar; þar voru biskupar báðir og ábóti og Sturla Þórðarson og fl. (Sturl. Oxford I. Bl. 404-406); hér er brúin svo oft nefnd, og brúarsporðarnir, að ekki er um að villast. Þegar ég var á rannsóknarferð í sumar í Borgarfirði (þessi ferð viðkemur meira eða minna rannsókn í 8 merkum sögum) gerði ég mér far um að ganga úr skugga um, hvar Hvítárbrú hefði verið; en þetta liggur í augum uppi, þegar á staðinn er komið og borið saman við orð sögunnar.
Ég fór frá Reykjaholti 13. sept. og fyrst út að Skáney. Þaðan yfir hálsinn, og út og niður að Hurðarbaki, sem stendur að sunnanverðu við Hvítá. Skammt upp frá ánni, undan Hurðarbaki eða litlu neðar í stefnu heitir nú Kláffoss á Hvítá. Bjarni bóndi fylgdi mér þangað. Þar ganga klappir út í ána beggja megin, hvor á móti annarri. Klöppin að sunnanverðu er lengri, og nær langt út í ána, en er lægri en sú að norðanverðu. Áin fellur á þessum stað í þrengslum og eru þar klettar niðri í. Myndast þar af nokkur hallandi foss, fyrir neðan einkanlega slær áin sér mjög út aftur, og er þar ákaflega breið, á milli klappanna hefir verið mælt með færi þegar áin var lögð ísi, og eru það 17 álnir. Hér er því frá náttúrunnar hendi eitt hið hentugasta brúarstæði; er það því víst, að Hvítárbrú, sem Sturl. Talar um, hefir verið hér. Af orðum sögunnar er það líka nær ákveðið, því Gissur sem kom að sunnan, var með flokk sinn að Hurðarbaki, sem er næsti bær að sunnanverðu við ána, sem fyrr segir, en Órækja, sem að vestan kom, reið í Síðumúla um kvöldið, sem er næsti bær fyrir ofan Síðumúlaveggi, en þeir eru nær því beint á móti Hurðarbaki fyrir norðan ána upp frá Kláffossi. Í Síðumúla hafa þeir Órækja fremur verið, af því þar var meiri bær og betri gistingarstaður, og þó allskammt. Kolbeinn reið í Reykholt og Sturla, sem var í gísling, og með þeim 2 menn, má vera að hann hafi átt þangað erindi. Daginn eftir riðu þeir allir aftur til brúar, biskupar gengu á milli og ábóti, vildi Órækja jafnvel að þeir Kolbeinn fyndust á brúnni, en hún var mjó, Gissur lést ekki vilja á hana ganga, loksins fengu þeir Órækju til að ganga suður yfir brúna, gekk hann með sveit manna, en Svarthöfði fór ekki lengra en að brúarsporði, en þegar Órækja vék upp frá brúnni, hlupu þeir Gissur fyrir brúarsporðinn með allan flokkinn, og var þá enginn kostur að fara yfir ána vestur eða suður, eins og sagan nefnir það; hér er því allt skýrt ákveðið. Þar sem Órækja ætlaðist til að þeir Kolbeinn og Gissur og hann mættust á brúnni, ásamt nokkrir menn með hverjum, sem hlutu að vera vottar við sættina, og þá fleiri er hér áttu hlut að, þá hefir þó brú þessi ekki verið svo allmjó; þeir hafa þó þurft töluvert rúm allir saman.
Hér var á síðari tímum hafður kláfur á ánni, og þar af er nafnið komið, sem síðan hefir haldist; en ekki hefir hann verið í þeirra manna tíð sem nú lifa. En til merkis eru sýndarholur, sem klappaðar hafa verið ofan í bergið og settir þar í járnbútar eða krókar til að festa í kaðlana. Ég sá 2 holur að sunnanverðu, er mannaverk sýndur á; að norðanverðu kom ég ekki, því ekki verður þar komist yfir ána. Ég sá og í einum stað votta fyrir fornum götum, sem lágu þvert á ánni að sunnan frá. Það er enn eitt, sem ræður úrslitum þessa máls: hvergi á þessum svæði er nokkurt brúarstæði á Hvítá nema á Kláffossi; til að sannfærast hér um, reið ég niður með ánni að sunnan allt niður að ármótum, þar sem Reykjadalsá kemur í Hvítá. Þar eru allstaðar melbakkar að ánni og flá melaborð, og áin breið, hvergi klappir eða þrengsli; sama er að segja upp frá Kláffossi og allt upp að Bjarnafossi, sem nú er kallaður í daglegu tali Barnafoss; þar er hvergi brúarstæði á ánni; það mun vera um ½ þingmannaleið. Upp á Bjarnafossi er og gott brúarstæði; áin fellur þar í gljúfrum. Þar var brú á 11. öld, (sjá Heiðarvígas.bl. 359); en munnmæli eru, að það hafi verið steinbogi, og er til um það saga. Má og vel vera, því Músa-Bölverkur “veitti Hvítá í gegn um ásinn”, að Landn. Segir, bl. 67. Ég skal enn geta þess, að Brúarreykir er næsti bær fyrir neðan Síðumúlaveggi, og þó eigi allskammt niður með Hvítá. Það er líklegt, að þeir séu kenndir við Hvítárbrú.
Nú hafa Borgfirðingar tekið sig saman og ætla að brúa Hvítá, að því er ég heyrði. Það er manndómsfyrirtæki og þarfaverk. Ef þeir hafa brúna á Kláffossi, getur hún orðið notið af langferðamönnum, hvort heldur þeir fara Bröttubrekku eða Holtavörðuheiði. Þegar ekki er nema um eina brú að ræða á allri Hvítá, þá er þessi staður sá langhentugasti að því leyti, að það er nær í miðju héraðinu. Eru því líkindi til, að landstjórnin mundi vilja styrkja þetta þarflega fyrirtæki.
Sigurður Vigfússon.


Ísafold, 4. feb. 1885, 12. árg., 6. tbl., bls. 23.:

Hvítárbrú.
Það sést meðal annars á vorum merku fornritum, að forfeður vorir hér á landi; kunnu ýmislegt í verknaði, sem stórvirki mátti heita. Þeir byggðu t. d. haffærandi skip og stórhýsi heima hjá sér, þó ekki væru þau af steini gjör. Að gjöra brýr á stór vatnsföll, hefir verið nokkuð algengt, og því segir Grágás Kb. Bl. 130: “Smiðar þeir er hus gera or avströnom viðe. Bruar vm ar þær eða votn er net næmir fiscar ganga i eða gera buðir a alþingi. Þeir eigo cost at taca daga cavp vm engi verk”. Hér er verið að tala um “heimilisföng”, og hafa þessir menn rétt fram yfir aðra, og mega vera lausir á sumrum og taka kaup, en Grágás tekur þó hart á lausamennsku, og það varðaði við lög, að hafa ekki vist. Það sést fyllilega á Sturlungu, að brú hefir verið á Hvítá í Borgarfirði, sem líklega var af mönnum gjörð. Eins og kunnugt er, var sættafundurinn lagður við “Hvítárbrú” milli Kolbeins unga og Gissurar Þorvaldssonar og Órækju, út af vígi Snorra Sturlusonar; þar voru biskupar báðir og ábóti og Sturla Þórðarson og fl. (Sturl. Oxford I. Bl. 404-406); hér er brúin svo oft nefnd, og brúarsporðarnir, að ekki er um að villast. Þegar ég var á rannsóknarferð í sumar í Borgarfirði (þessi ferð viðkemur meira eða minna rannsókn í 8 merkum sögum) gerði ég mér far um að ganga úr skugga um, hvar Hvítárbrú hefði verið; en þetta liggur í augum uppi, þegar á staðinn er komið og borið saman við orð sögunnar.
Ég fór frá Reykjaholti 13. sept. og fyrst út að Skáney. Þaðan yfir hálsinn, og út og niður að Hurðarbaki, sem stendur að sunnanverðu við Hvítá. Skammt upp frá ánni, undan Hurðarbaki eða litlu neðar í stefnu heitir nú Kláffoss á Hvítá. Bjarni bóndi fylgdi mér þangað. Þar ganga klappir út í ána beggja megin, hvor á móti annarri. Klöppin að sunnanverðu er lengri, og nær langt út í ána, en er lægri en sú að norðanverðu. Áin fellur á þessum stað í þrengslum og eru þar klettar niðri í. Myndast þar af nokkur hallandi foss, fyrir neðan einkanlega slær áin sér mjög út aftur, og er þar ákaflega breið, á milli klappanna hefir verið mælt með færi þegar áin var lögð ísi, og eru það 17 álnir. Hér er því frá náttúrunnar hendi eitt hið hentugasta brúarstæði; er það því víst, að Hvítárbrú, sem Sturl. Talar um, hefir verið hér. Af orðum sögunnar er það líka nær ákveðið, því Gissur sem kom að sunnan, var með flokk sinn að Hurðarbaki, sem er næsti bær að sunnanverðu við ána, sem fyrr segir, en Órækja, sem að vestan kom, reið í Síðumúla um kvöldið, sem er næsti bær fyrir ofan Síðumúlaveggi, en þeir eru nær því beint á móti Hurðarbaki fyrir norðan ána upp frá Kláffossi. Í Síðumúla hafa þeir Órækja fremur verið, af því þar var meiri bær og betri gistingarstaður, og þó allskammt. Kolbeinn reið í Reykholt og Sturla, sem var í gísling, og með þeim 2 menn, má vera að hann hafi átt þangað erindi. Daginn eftir riðu þeir allir aftur til brúar, biskupar gengu á milli og ábóti, vildi Órækja jafnvel að þeir Kolbeinn fyndust á brúnni, en hún var mjó, Gissur lést ekki vilja á hana ganga, loksins fengu þeir Órækju til að ganga suður yfir brúna, gekk hann með sveit manna, en Svarthöfði fór ekki lengra en að brúarsporði, en þegar Órækja vék upp frá brúnni, hlupu þeir Gissur fyrir brúarsporðinn með allan flokkinn, og var þá enginn kostur að fara yfir ána vestur eða suður, eins og sagan nefnir það; hér er því allt skýrt ákveðið. Þar sem Órækja ætlaðist til að þeir Kolbeinn og Gissur og hann mættust á brúnni, ásamt nokkrir menn með hverjum, sem hlutu að vera vottar við sættina, og þá fleiri er hér áttu hlut að, þá hefir þó brú þessi ekki verið svo allmjó; þeir hafa þó þurft töluvert rúm allir saman.
Hér var á síðari tímum hafður kláfur á ánni, og þar af er nafnið komið, sem síðan hefir haldist; en ekki hefir hann verið í þeirra manna tíð sem nú lifa. En til merkis eru sýndarholur, sem klappaðar hafa verið ofan í bergið og settir þar í járnbútar eða krókar til að festa í kaðlana. Ég sá 2 holur að sunnanverðu, er mannaverk sýndur á; að norðanverðu kom ég ekki, því ekki verður þar komist yfir ána. Ég sá og í einum stað votta fyrir fornum götum, sem lágu þvert á ánni að sunnan frá. Það er enn eitt, sem ræður úrslitum þessa máls: hvergi á þessum svæði er nokkurt brúarstæði á Hvítá nema á Kláffossi; til að sannfærast hér um, reið ég niður með ánni að sunnan allt niður að ármótum, þar sem Reykjadalsá kemur í Hvítá. Þar eru allstaðar melbakkar að ánni og flá melaborð, og áin breið, hvergi klappir eða þrengsli; sama er að segja upp frá Kláffossi og allt upp að Bjarnafossi, sem nú er kallaður í daglegu tali Barnafoss; þar er hvergi brúarstæði á ánni; það mun vera um ½ þingmannaleið. Upp á Bjarnafossi er og gott brúarstæði; áin fellur þar í gljúfrum. Þar var brú á 11. öld, (sjá Heiðarvígas.bl. 359); en munnmæli eru, að það hafi verið steinbogi, og er til um það saga. Má og vel vera, því Músa-Bölverkur “veitti Hvítá í gegn um ásinn”, að Landn. Segir, bl. 67. Ég skal enn geta þess, að Brúarreykir er næsti bær fyrir neðan Síðumúlaveggi, og þó eigi allskammt niður með Hvítá. Það er líklegt, að þeir séu kenndir við Hvítárbrú.
Nú hafa Borgfirðingar tekið sig saman og ætla að brúa Hvítá, að því er ég heyrði. Það er manndómsfyrirtæki og þarfaverk. Ef þeir hafa brúna á Kláffossi, getur hún orðið notið af langferðamönnum, hvort heldur þeir fara Bröttubrekku eða Holtavörðuheiði. Þegar ekki er nema um eina brú að ræða á allri Hvítá, þá er þessi staður sá langhentugasti að því leyti, að það er nær í miðju héraðinu. Eru því líkindi til, að landstjórnin mundi vilja styrkja þetta þarflega fyrirtæki.
Sigurður Vigfússon.