1884

Ísafold, 5. nóv. 1884, 11. árg., 44. tbl., forsíða:

Vegabætur og vegabótafé.
I.
Það var vissulega vel hugsað og vel til fallið, að Alþingi lét það vera sitt eitt hið fyrsta verk, er það fékk fjárráðin í hendur að búa til ný vegalög og betri en þau sem áður voru, og að veita þegar allríflegan styrk úr landssjóði til vegabóta.
Styrkur þessi var fyrst 15.000 kr. um allt fjárlagatímabilið, 1876-77, síðan 15.000 á ári árin 1878 og 1879, en upp frá því 20.000 kr. á ári. Hefir þannig verið veitt til vegabóta alls 165.000 kr., síðan 1876, og mun vera búið að verja af því framundir hálft annað hundrað þúsund krónum.
Oss sem nú erum uppi, virðist þetta fjárframlag dáindis-ríflegt, svo litlu sem af er að taka.
Getur og vel verið, að niðjar vorir að mannsaldri liðnum eða síðar, sem hafa vegabótaféð ef til vill tífalt á við þetta, - að þeir munu ekki fást svo mikið um, hvað vér höfum verið smátækir.
En það er annað, sem þeim mun finnast til um, og það er meðferðin á vegabótafénu fyrstu árin framan af.
Það verður óskemmtilegur dómur. Vér getum farið nokkuð nærri um aðalatriði hans.
Það var sök sér, munu þeir segja, þótt fjárframlagið væri ekki meira en þetta fyrstu búskaparárin, hefði fénu verið vel og skynsamlega varið. En það var öðru nær. Stjórn og framkvæmd vegabótastarfanna var frámunalega ráðleysisleg.
Það var kunnáttuleysið, sem mest bagaði. Forfeður vorir kunnu hvorki að leggja niður fyrir sér, hvar best væri að hafa veginn eða hvernig hann ætti að vera lagaður, né heldur höfðu þeir vit á, úr hvaða efni vegurinn átti að vera eða hvernig saman settur.
Þá tók hitt út yfir, að það var algengt, að hafa til vegavinnu liðléttinga, er ekki gátu fengið annað að gera, og kunnu ekki hót til verka. Menn höfðu naumast hugmynd um það í þá daga hér á landi, að vegavinna er iðn, sem nema þarf eins og hvað annað, eins og t.d. smíðar.
Það er eins og þeir hafi ekki haft neitt veður af því, að vankunnáttan gerir eigi einungis verkið hálfu ver af hendi leyst, og margoft ónýtt, heldur jafnvel það af því, sem nýtilegt er, hálfu dýrara, af því að sá sem verkið kann og er vanur því, afkastar helmingi meiru en viðvaningurinn; er því aldrei gerður sá munur á kaupgjaldi fákunnandi liðléttings og velkunnandi verkamanns, að liðléttingurinn verði ekki miklu dýrari.
Af verkstjórninni kunna gamlir menn sögur, sem er bæði illt og broslegt að heyra. Skammt frá sjálfum höfuðstaðnum, undir handarjaðrinum á yfirstjórn landsins, stóð í mörg ár fyrir vegagjörð maður, sem flestir, er til þekktu, voru forviða á, að hafður skyldi vera til þess. Enginn einstakur maður mundi hafa látið sér detta í hug að setja hann fyrir verksmiðju, ef því hefði verið að skipta, eða yfir höfuð að láta hann standa fyrir yfirgripsmiklum verkum. Hann réð sér verkamenn með þeim kjörum, að hann legði þeim sjálfur til fæði, fyrir tiltekinn part af kaupinu og hann ekki lítinn; en hvernig fæðið var úti látið, um það var hann alvaldur. Nærri má geta, að ekki hafi valist til hans verkamenn af betri endanum. Auðvitað ekki aðrir en þeir, sem ekki áttu annars úrkosti. Svo var fæðið svo úti látið, að þessir vesalingar höfðu ekki hálft vinnufjör við það. Svo var skipt um þetta lið að miklu leyti á hverju ári; fáa fýsti aftur í vistina.
Með þessu liðið var nú vinnan unnin, og með því samboðinni ráðheild. Meðal annars var t. a. m. varla borið við að flytja ofaníburð í veg öðruvísi en á svokölluðum handbörum. Með þeim þurfti 2 menn til þess að flytja svo sem fjórða part af því sem einn maður gat haft á hjólbörum með gamla laginu, sem nú er orðið mjög sjaldséð, af því að það er svo óhentugt.
Allir hristu höfuðið yfir þessu ráðlagi. En þar við lenti lengi vel. Oft töluðu menn reyndar um sín á milli, að þetta væri hrapaleg brúkun á landsfé. En hins vegar var almenningi raunar ekki svo mjög sárt um þennan svo kallaða landssjóð; það eimdi eftir af hugsunarhættinum frá því fyrir fjárhagsaðskilnaðinn við Danmörku; af því að Danir héldu ranglega fé fyrir oss, þótti jafnvel fremd að því að sækja sem fastast fé í þeirra hendur; því var það lengi fram eftir, að það þótti lítil sök að hafa af landssjóði, og af óvananum við hið nýja stjórnarfyrirkomulag var almenningi miður hugfast, að það var að taka úr vara þjóðarinnar að taka úr landssjóði. Í annan stað höfðu forfeður vorir í raun og veru miklu meiri undirgefnisanda og lotningu fyrir “háyfirvöldunum” (svo nefndum) og öllum þeirra verkum heldur en nú gerist, þótt þeir töluðu oft í aðra átt. Þessi háyfirvöld áttu að vita allt og gera allt. Það var svo fáum öðrum til að dreifa til nokkurs hlutar; og þó að þessir embættismenn kynnu ekki annað en meira eða minna í lögum, og höfðu ekki öðru vanist en skrifstofustörfum – þetta var á hinni annáluðu skriffinnskuöld-, og ekki annað séð af heiminum, en Kaupmannahöfn og nokkuð af Íslandi, þá var trúin hjá almenningi og hugsunarhátturinn sá, er lýsir sér í hinum danska málshætti; “þeim guð gefur embætti veitir hann líka vit”. Fór þá oft, eins og gerðist, að embættismennirnir leiddust sjálfir á sömu trú á endanum, og héldu sig meira en vaxna margs konar störfum, er allir vita nú að þarf sérstaka kunnáttu til, sérstakt nám, allt eins yfirgripsmikið og vandasamt eins og þeirra embættisnám.
Eitt af þessum störfum var nú að ráða og segja fyrir um vegagjörð. Það sem engum kemur nú til hugar hér á landi og engum kom þá til hugar í öðrum löndum að trúa öðrum fyrir en mannvirkjameisturum (ingenieurs), það létu forfeður vorir lögfræðinga sína gjöra, ýmist eina saman eða með ráði einhverra þeim jafnsnjallra.
Ágætt sýnishorn af þeirri ráðsmennsku er hin alræmdi Svínahraunsvegur, sömuleiðis örskammt frá höfuðstað landsins. Vegur þessi var fyrst og fremst lagður yfir þvert hraunið, í stað þess að hafa hann þar sem hann er nú, að mestu fyrir norðan það eða yfir Norðurvelli, sem var miklu fyrirhafnarminna og meira en tilvinnandi fyrir ekki meiri krók; því þar sem hraun eru fyrir, er í lengstu lög betri krókur en kelda. Vegurinn var lagður þvert yfir hraunið, en þó engan veginn beint, heldur með stórum hlykk, svo stórum, að nam fullum fimmta hluta allrar vegalengdarinnar yfir hraunið. Þó kastar tólfunum, þegar vér heyrum, hvernig vegurinn var gerður. Hann var hafður allur upphækkaður, hér um bil jafnt hvort heldur voru hæðir eða lautir, hleðsla hans var þannig gerð, að grjótinu var aðeins hróflað saman, en hvergi raðað eða eiginlega hlaðið. Ofan í þessa urð var síðan hrúgað mold og efst strokið yfir með sandi. Þetta leit dável út þegar vegurinn var nýgerður. En sem nærri má geta skolaði rigningin moldinni burtu mjög bráðlega og var þá eftir ber urðin, er allar skepnur forðuðust meira en hraunið sjálft.

Nú er að vita, hvað þessi snilldarlega vegargjörð kostaði. Svínahraunsvegurinn var allur rúm 3000 faðmar, að áðurnefndum 600 faðma hlykk meðtöldum, eða ¾ míla, og kostaði nær 14.000 kr. eða meira en 4 ½ kr. faðmurinn.
Þetta var nú hinn upphaflegi kostnaður. Eftir 2-3 vetur var nauðugur einn kostur að fara að gera við veginn allan saman. Það var gert fyrst með þeim hætti að bera ofan í hann aftur, því var haldið áfram í tvö sumur, með miklum mannafla, og lokið við á þeim tíma hér um bil 2/3 af allri vegalengdinni eða tæplega það. Það kostaði um 4.500 kr.
Þegar svo langt var komið, uppgötvuðu menn, að vegurinn mundi litlu bættari, og sáu þá að eigi mundi annað stoða en að rífa upp alla hina eldri hleðslu, ef hleðslu skyldi kalla, og flórleggja allt saman, og bera síðan möl þar á ofan.
Á þessu var byrjað þriðja sumarið, sumarið 1884, flórlagður þá hér um bil ¼ hluti vegarins, og borið ofan í þann kaflann að nokkru leyti. Það kostaði 3.500 kr.
Taldist þá svo til, að viðlíka áframhaldi mundi þessi hin nýja umbót á veginum öllum kosta heldur meira en minna en hin upphaflega vegargjörð.
Og vegurinn þá allur fullgjörður, þessir ¾ hlutir úr mílu, langt yfir 30.000 kr., eða svo sem 10-12 kr. faðmurinn.
Fór þá að renna á menn tvær grímur.
II.
Af ýmsum ástæðum er ekki hægt að tilfæra hér nema kafla og kafla úr þessu yfirliti yfir vegabótaframkvæmdirnar fyrstu búskaparár landsins, er vér hugsum oss niðja vora höfunda að. Einn kaflinn mundi t.d. líklega verða hér um bil á þessa leið: -
Eftir nokkur ár fór alþingi að ympra á því, hvort ekki mundi ráð að reyna að fá til landsins vegfróðan mann frá útlöndum til þess að standa hér fyrir vegagjörð, þótt ekki væri nema eitt sumar rétt til reynslu. Það stundi þessu upp með hálfum hug, því það vissi ekki hvernig stjórnin kynni að taka þess konar nýbreytni, sem óvíst var að dæmi fyndist til í dönskum tilskipunum frá síðari árum. Þingmenn höfðu lesið það um Pétur mikla t.d., að þegar hann tók fyrir sig að koma þjóð sinni á framfarabraut annarra Norðurálfuþjóða, þá var það hans fyrsta verk að útvega sér menn frá öðrum löndum, er betur kunnu en Rússar, til að segja þeim til og stýra ýmsum framfaratilraunum þar í landi. Þingmenn höfðu meira að segja veður af, að á líkan hátt mundu flestar framfarir annarra þjóða yfir höfuð komnar að upphafi, jafnvel Dana sjálfra líka, og ímynduðu sér að Íslendingum væri ekki vandara um en þeim, né heldur hitt, að þeir þyrftu þess síður við en aðrir. Eftir vorum hugsunarhætti, þeirra er nú erum uppi – segja niðjar vorir enn fremur -, hefði það verið sjálfsagður hlutur, að stjórnin sjálf, framkvæmdastjórinn, hefði upptökin að þess konar framfaraviðleitni. En hugsunarhátturinn var annar í gamla daga. Menn voru af gömlum vana löngu hættir að hugsa sér stjórnina öðruvísi en eins og dauðan hlut, er ekki hreyfði sig til nokkurs hlutar af sjálfsdáðum. Hún var eins og maskína, er þótti góðra gjalda vert að skilaði aftur út um annan endann því sem látið var inn um hinn, ekki eftir tvær mínútur, eins og slátrunar- og matreiðsluvélin, heldur eftir misseri og þaðan af lengri tíma. Frekara var eigi til ætlast að jafnaði, og sjálf þóttist stjórnin hafa meira en leyst hendur sínar með slíkum skilum. Það var jafnvel eigi fínt að gera meira, og það sem ekki er “fínt”, það er dauðadæmt.
Nema hvernig fór um uppástunguna um vegfræðinginn?
Það fór svo, að fyrst leiddi stjórnin málið hjá sér svo lengi sem hægt var, og svaraði síðan, þegar hún var búin að eyða vegabótafénu um það fjárhagstímabil til annars,, að það yrði nú að bíða í þetta sinn, af því að nú vantaði fé til þess. Stjórninni var svo tungutöm þessi setning frá þeim tímum, að hún ein hafði fjárráðin í höndum.
Til þess nú að þessu yrði ekki við barið oftar, tiltók þingið í næstu fjárlögum ákveðna upphæð til að útvega fyrir útlendan vegfræðing, 2.500 kr. hvort árið 1884 og 1885. Óvíst er hvort þetta hefði samt sem áður haft nokkurn árangur, hefði ekki einn mikils metinn og framtakssamur þingmaður tekið að sér að vera í útvegum um manninn fyrir stjórnarinnar hönd. Hann fékk manninn, og hann vel valinn, þar, sem sjálfsagt var að fá hann, vegna líkra landshátta, en það var í Noregi. Hafði einu sinni áður komið til landsins útlendur verkfræðingur, til að rannsaka brúarstæði á Þjórsá og Ölfusá, en hann varð endilega að vera danskur, og afleiðingin var sú, að verið var síðan í hálfan mannsaldur að þrátta um það, vort tiltækilegt væri að brúa árnar eða ekki, og hvar ætti að hafa brýrnar, í stað þess, að hefði sá, sem þetta rannsakaði fyrstu, verið maður verklega kunnugur viðlíka ám og líku landslagi, mundi hann hafa getað skorið úr þessu máli til fullnustu þegar í stað og þar með gjört enda á allri þrætu.
Hinn norski vegfræðingur kom, vorið 1884. En landsstjórnin var sjálfri sér lík. Hún hafði þá eigi haft hina minnstu fyrirhyggju til að hagnýta sér hann að neinu ráði. Þar sem hans þurfti helst við, og hægast var að ná til hans og nema af honum, gat hann ekki komist að, af því að þar voru hinir innlendu vegagjörðasnillingar fastráðnir fyrir og þurftu að afla sér fjár og frama eitt sumarið enn. Niðurstaðan varð þá sú, að hann var sendur út á landshorn og látinn dunda þar við lítinn vegarspotta, með fáeinum hræðum, er, voru fengnar að föngum til, sinn maðurinn hvern daginn, þegar þeir höfðu ekki annað að stunda, og sem ekki skyldu hinn útlenda mann. Í stað þess að fá honum valið lið, svo margt, sem efni leyfðu, saman safnað úr öllum landsins fjórðungum, til þess að leiðbeiningin yrði sem best notuð og kunnáttan dreifðist sem allra víðast undir eins, eftir því sem kostur var á.
Hinum norska vegfræðing – hann hét Hovdenak – bæði blöskraði og sárnaði þessi ráðsmennska svo mjög, að hann vildi eigi gefa kost á sér oftar hingað til lands til slíkra hluta. Hann var ötull maður, vel að sér og samviskusamur, og undi því mjög illa, að för hans hafði borið hálfu minni ávöxt en til var ætlast, þótt öðrum væri um að kenna.
Fjarri fór því samt sem áður, að för hans yrði árangurslaus. Þessir vegaspottar, sem hann gerði, báru langt af því, sem sést hafði áður hér á landi. Þeir voru lausir við óþarfa-hlykki og mishæðir, með velgjörðum rennum á báðar hliðar. Voru því hálfu greiðfærari fyrir það og vörðust miklu betur skemmdum. En það sem mest var í varið, var það, að þessi fyrsti norski vegfræðingur, er hér vann að vegagjörð, tók fyrir sig þegar í upphafi að hafa vegina eigi brattari en svo, og þannig gerða að öðru leyti, að vel mætti koma þar við vagni. Áður hafði lítið verið hugsað um að forðast miklar brekkur. Menn vorkenndu ekki mikið lungunum í skepnunum. Og að hugsa til að hafa hér vagnvegi, þótti þá slíkt stórræði, að það væri eigi takandi í mál. Því hefir orðið að gera að nýju nær alla vegi, sem lagðir voru hér á landi fyrstu 10-12 árin framan af.
III.
Áður en Hovdenak kom til sögunnar, hafði það menn frekast vita engum dottið í hug að nota hallamæli við vegagjörðir. Og svo var heimskan rík og hugsunarleysið, að þegar ferðamenn sáu hina miklu sneiðinga, sem Hovdenak bjó til upp Vestdalsheiði fyrir austan, þá formæltu þeir slíkri vitleysu í sand og ösku, að lengja svona veginn um helming eða meir. En það fór af, þegar þeir sáu, að hinn nýi vegur hans var jafn fljótfarinn og sá gamli, með því að það mátti skeiðríða hann upp og ofan, en munurinn sá, að á gamla veginum var hesturinn kominn að spreng af mæði, þegar upp kom, en blés ekki nös eftir nýja veginn. ---
- Þessi tilraun til að skoða sjálfan sig í skuggsjá ókominnar aldar mætti vera tilefni að vakna við og breyta til batnaðar ráðlagi voru í þessu efni.
Vér vonum fyrst og fremst, að nú verði ráð í tíma tekið með vegfræðing næsta sumar, bæði að ráða hann í tíma, fá honum nógu mikið og haganlegt verkefni, og sér í lagi gerðar í tíma ráðstafanir til að hann fái þá verkamenn, úr ýmsum landsfjórðungum, er numið geti af honum svo sem kostur er á. Síðan veitti ekki af að halda áfram með útlenda vegfræðinga að staðaldri, þangað til einhverjir innlendir væru orðnir þeim jafnsnjallir og gætu tekið við af þeim; mundi ráð að þingið styddi efnilega menn til þeirra hluta. Þetta fákænsku-kák, er hingað til hefir átt sér stað, einkum á Suðurlandi – það mun hafa verið talsvert skárra í öðrum landsfjórðungum, - má með engu móti líðast framar; það er óhæfileg fjársóun.
En um vegabæturnar sjálfar er það að segja, að einsætt er að snúa sem skjótast við blaðinu og hætta að leggja fjárgötur og hrossatroðninga, en hafa það reglulega vagnvegi, það lítið sem gert er af nýjum vegum, og þá auðvitað helst í byggð, þar sem þéttbýlast er. Láta sér að öðru leyti nægja að ryðja hina gömlu vegi svo, að þeir séu ekki alveg ófærir, eða viðlíka færir og þeir hafa lengst af verið.
Þetta mun þykja mikið í munni. En hvaða forsjálni eða framsýni er það, að vita fyrir víst, að hér hljóta að komst á vagnvegir með tímanum, ef landið leggst ekki í eyði von bráðar, og halda samt áfram að eyða stórfé í vegagjörðir, sem þá eru ónýtar? Eða hafa menn hins vegar gjört sér glögga grein fyrir, hve ómetanleg hlunnindi er að vagnvegum? Auk margvíslegra þæginda er það bæði mikill vinnusparnaður og sér ílagi stórkostlegur hestahaldssparnaður. Fækkun hrossa á heyjum og högum um helming, eða jafnvel miklu meir, greiðir götu fyrir fjölgun annars penings að svo miklum mun, að það má vera þungur vegabótaskattur, sem vegur til nokkurra muna upp á móti þeim gróða. Hins vegar stoðar ekki að láta koma hik á sig fyrir það, þótt ekki sé að hugsa til að fá vagnvegi um allt land á fáum árum. Það hlýtur að standa mjög lengi á því, hvort sem byrjað er á því fyrr eða síðar; en því lengur sem vér látum dragast að byrja á því, því lengra á það í land. Vér verðum að hafa þolinmæði og sýna þrek og sjálfsafneitun í þessu sem öðrum meiri háttar framkvæmdum, sem eiga að vera til frambúðar. Vér megum ekki setja það fyrir oss, þótt fæstir, sem nú lifa, geti átt von á að njóta til nokkurrar hlítar ávaxtanna af þessum framkvæmdum, eða þótt þær komi misjafnt niður á ýmsa landsins parta. Þjóðfélagið tekur jafnt fyrir alda sem óborna; því á allt, sem það framkvæmir, að vera eigi síður gert ókomnum kynslóðum til hagsældar. Þá fyrst er þjóð komin á óyggjandi framfarabraut, er slík fyrirhyggja fyrir ókomnum kynslóðum og þar af leiðandi sjálfsafneitun lýsir sér í öllum hennar framkvæmdum. Því menningarmeiri sem þjóðin er, því framsýnni er hún; Skrælinginn hugsar eigi fyrir morgundeginum.
Að hugsa hærra en að koma hér á vagnvegum og þar til heyrandi brúm yfir vatnsföll er að smíða sér loftkastala. Járnbrautir geta aldrei orðið almennar hér á landi; landið getur ekki orðið svo þéttbýlt, að svo dýrir vegir svari kostnaði, nema ef til vill á stöku stað og af sérstökum ástæðum. En lánist það sæmilega, sem nú er farið að reyna annarsstaðar, að koma við gufuvögnum á einföldum akvegum, án járnbrautar, þá verður það vort hjálpræði. Þá mundi oss eigi þess iðra, að vér hefðum varið vegabótafé voru í vagnvegi.


Ísafold, 5. nóv. 1884, 11. árg., 44. tbl., forsíða:

Vegabætur og vegabótafé.
I.
Það var vissulega vel hugsað og vel til fallið, að Alþingi lét það vera sitt eitt hið fyrsta verk, er það fékk fjárráðin í hendur að búa til ný vegalög og betri en þau sem áður voru, og að veita þegar allríflegan styrk úr landssjóði til vegabóta.
Styrkur þessi var fyrst 15.000 kr. um allt fjárlagatímabilið, 1876-77, síðan 15.000 á ári árin 1878 og 1879, en upp frá því 20.000 kr. á ári. Hefir þannig verið veitt til vegabóta alls 165.000 kr., síðan 1876, og mun vera búið að verja af því framundir hálft annað hundrað þúsund krónum.
Oss sem nú erum uppi, virðist þetta fjárframlag dáindis-ríflegt, svo litlu sem af er að taka.
Getur og vel verið, að niðjar vorir að mannsaldri liðnum eða síðar, sem hafa vegabótaféð ef til vill tífalt á við þetta, - að þeir munu ekki fást svo mikið um, hvað vér höfum verið smátækir.
En það er annað, sem þeim mun finnast til um, og það er meðferðin á vegabótafénu fyrstu árin framan af.
Það verður óskemmtilegur dómur. Vér getum farið nokkuð nærri um aðalatriði hans.
Það var sök sér, munu þeir segja, þótt fjárframlagið væri ekki meira en þetta fyrstu búskaparárin, hefði fénu verið vel og skynsamlega varið. En það var öðru nær. Stjórn og framkvæmd vegabótastarfanna var frámunalega ráðleysisleg.
Það var kunnáttuleysið, sem mest bagaði. Forfeður vorir kunnu hvorki að leggja niður fyrir sér, hvar best væri að hafa veginn eða hvernig hann ætti að vera lagaður, né heldur höfðu þeir vit á, úr hvaða efni vegurinn átti að vera eða hvernig saman settur.
Þá tók hitt út yfir, að það var algengt, að hafa til vegavinnu liðléttinga, er ekki gátu fengið annað að gera, og kunnu ekki hót til verka. Menn höfðu naumast hugmynd um það í þá daga hér á landi, að vegavinna er iðn, sem nema þarf eins og hvað annað, eins og t.d. smíðar.
Það er eins og þeir hafi ekki haft neitt veður af því, að vankunnáttan gerir eigi einungis verkið hálfu ver af hendi leyst, og margoft ónýtt, heldur jafnvel það af því, sem nýtilegt er, hálfu dýrara, af því að sá sem verkið kann og er vanur því, afkastar helmingi meiru en viðvaningurinn; er því aldrei gerður sá munur á kaupgjaldi fákunnandi liðléttings og velkunnandi verkamanns, að liðléttingurinn verði ekki miklu dýrari.
Af verkstjórninni kunna gamlir menn sögur, sem er bæði illt og broslegt að heyra. Skammt frá sjálfum höfuðstaðnum, undir handarjaðrinum á yfirstjórn landsins, stóð í mörg ár fyrir vegagjörð maður, sem flestir, er til þekktu, voru forviða á, að hafður skyldi vera til þess. Enginn einstakur maður mundi hafa látið sér detta í hug að setja hann fyrir verksmiðju, ef því hefði verið að skipta, eða yfir höfuð að láta hann standa fyrir yfirgripsmiklum verkum. Hann réð sér verkamenn með þeim kjörum, að hann legði þeim sjálfur til fæði, fyrir tiltekinn part af kaupinu og hann ekki lítinn; en hvernig fæðið var úti látið, um það var hann alvaldur. Nærri má geta, að ekki hafi valist til hans verkamenn af betri endanum. Auðvitað ekki aðrir en þeir, sem ekki áttu annars úrkosti. Svo var fæðið svo úti látið, að þessir vesalingar höfðu ekki hálft vinnufjör við það. Svo var skipt um þetta lið að miklu leyti á hverju ári; fáa fýsti aftur í vistina.
Með þessu liðið var nú vinnan unnin, og með því samboðinni ráðheild. Meðal annars var t. a. m. varla borið við að flytja ofaníburð í veg öðruvísi en á svokölluðum handbörum. Með þeim þurfti 2 menn til þess að flytja svo sem fjórða part af því sem einn maður gat haft á hjólbörum með gamla laginu, sem nú er orðið mjög sjaldséð, af því að það er svo óhentugt.
Allir hristu höfuðið yfir þessu ráðlagi. En þar við lenti lengi vel. Oft töluðu menn reyndar um sín á milli, að þetta væri hrapaleg brúkun á landsfé. En hins vegar var almenningi raunar ekki svo mjög sárt um þennan svo kallaða landssjóð; það eimdi eftir af hugsunarhættinum frá því fyrir fjárhagsaðskilnaðinn við Danmörku; af því að Danir héldu ranglega fé fyrir oss, þótti jafnvel fremd að því að sækja sem fastast fé í þeirra hendur; því var það lengi fram eftir, að það þótti lítil sök að hafa af landssjóði, og af óvananum við hið nýja stjórnarfyrirkomulag var almenningi miður hugfast, að það var að taka úr vara þjóðarinnar að taka úr landssjóði. Í annan stað höfðu forfeður vorir í raun og veru miklu meiri undirgefnisanda og lotningu fyrir “háyfirvöldunum” (svo nefndum) og öllum þeirra verkum heldur en nú gerist, þótt þeir töluðu oft í aðra átt. Þessi háyfirvöld áttu að vita allt og gera allt. Það var svo fáum öðrum til að dreifa til nokkurs hlutar; og þó að þessir embættismenn kynnu ekki annað en meira eða minna í lögum, og höfðu ekki öðru vanist en skrifstofustörfum – þetta var á hinni annáluðu skriffinnskuöld-, og ekki annað séð af heiminum, en Kaupmannahöfn og nokkuð af Íslandi, þá var trúin hjá almenningi og hugsunarhátturinn sá, er lýsir sér í hinum danska málshætti; “þeim guð gefur embætti veitir hann líka vit”. Fór þá oft, eins og gerðist, að embættismennirnir leiddust sjálfir á sömu trú á endanum, og héldu sig meira en vaxna margs konar störfum, er allir vita nú að þarf sérstaka kunnáttu til, sérstakt nám, allt eins yfirgripsmikið og vandasamt eins og þeirra embættisnám.
Eitt af þessum störfum var nú að ráða og segja fyrir um vegagjörð. Það sem engum kemur nú til hugar hér á landi og engum kom þá til hugar í öðrum löndum að trúa öðrum fyrir en mannvirkjameisturum (ingenieurs), það létu forfeður vorir lögfræðinga sína gjöra, ýmist eina saman eða með ráði einhverra þeim jafnsnjallra.
Ágætt sýnishorn af þeirri ráðsmennsku er hin alræmdi Svínahraunsvegur, sömuleiðis örskammt frá höfuðstað landsins. Vegur þessi var fyrst og fremst lagður yfir þvert hraunið, í stað þess að hafa hann þar sem hann er nú, að mestu fyrir norðan það eða yfir Norðurvelli, sem var miklu fyrirhafnarminna og meira en tilvinnandi fyrir ekki meiri krók; því þar sem hraun eru fyrir, er í lengstu lög betri krókur en kelda. Vegurinn var lagður þvert yfir hraunið, en þó engan veginn beint, heldur með stórum hlykk, svo stórum, að nam fullum fimmta hluta allrar vegalengdarinnar yfir hraunið. Þó kastar tólfunum, þegar vér heyrum, hvernig vegurinn var gerður. Hann var hafður allur upphækkaður, hér um bil jafnt hvort heldur voru hæðir eða lautir, hleðsla hans var þannig gerð, að grjótinu var aðeins hróflað saman, en hvergi raðað eða eiginlega hlaðið. Ofan í þessa urð var síðan hrúgað mold og efst strokið yfir með sandi. Þetta leit dável út þegar vegurinn var nýgerður. En sem nærri má geta skolaði rigningin moldinni burtu mjög bráðlega og var þá eftir ber urðin, er allar skepnur forðuðust meira en hraunið sjálft.

Nú er að vita, hvað þessi snilldarlega vegargjörð kostaði. Svínahraunsvegurinn var allur rúm 3000 faðmar, að áðurnefndum 600 faðma hlykk meðtöldum, eða ¾ míla, og kostaði nær 14.000 kr. eða meira en 4 ½ kr. faðmurinn.
Þetta var nú hinn upphaflegi kostnaður. Eftir 2-3 vetur var nauðugur einn kostur að fara að gera við veginn allan saman. Það var gert fyrst með þeim hætti að bera ofan í hann aftur, því var haldið áfram í tvö sumur, með miklum mannafla, og lokið við á þeim tíma hér um bil 2/3 af allri vegalengdinni eða tæplega það. Það kostaði um 4.500 kr.
Þegar svo langt var komið, uppgötvuðu menn, að vegurinn mundi litlu bættari, og sáu þá að eigi mundi annað stoða en að rífa upp alla hina eldri hleðslu, ef hleðslu skyldi kalla, og flórleggja allt saman, og bera síðan möl þar á ofan.
Á þessu var byrjað þriðja sumarið, sumarið 1884, flórlagður þá hér um bil ¼ hluti vegarins, og borið ofan í þann kaflann að nokkru leyti. Það kostaði 3.500 kr.
Taldist þá svo til, að viðlíka áframhaldi mundi þessi hin nýja umbót á veginum öllum kosta heldur meira en minna en hin upphaflega vegargjörð.
Og vegurinn þá allur fullgjörður, þessir ¾ hlutir úr mílu, langt yfir 30.000 kr., eða svo sem 10-12 kr. faðmurinn.
Fór þá að renna á menn tvær grímur.
II.
Af ýmsum ástæðum er ekki hægt að tilfæra hér nema kafla og kafla úr þessu yfirliti yfir vegabótaframkvæmdirnar fyrstu búskaparár landsins, er vér hugsum oss niðja vora höfunda að. Einn kaflinn mundi t.d. líklega verða hér um bil á þessa leið: -
Eftir nokkur ár fór alþingi að ympra á því, hvort ekki mundi ráð að reyna að fá til landsins vegfróðan mann frá útlöndum til þess að standa hér fyrir vegagjörð, þótt ekki væri nema eitt sumar rétt til reynslu. Það stundi þessu upp með hálfum hug, því það vissi ekki hvernig stjórnin kynni að taka þess konar nýbreytni, sem óvíst var að dæmi fyndist til í dönskum tilskipunum frá síðari árum. Þingmenn höfðu lesið það um Pétur mikla t.d., að þegar hann tók fyrir sig að koma þjóð sinni á framfarabraut annarra Norðurálfuþjóða, þá var það hans fyrsta verk að útvega sér menn frá öðrum löndum, er betur kunnu en Rússar, til að segja þeim til og stýra ýmsum framfaratilraunum þar í landi. Þingmenn höfðu meira að segja veður af, að á líkan hátt mundu flestar framfarir annarra þjóða yfir höfuð komnar að upphafi, jafnvel Dana sjálfra líka, og ímynduðu sér að Íslendingum væri ekki vandara um en þeim, né heldur hitt, að þeir þyrftu þess síður við en aðrir. Eftir vorum hugsunarhætti, þeirra er nú erum uppi – segja niðjar vorir enn fremur -, hefði það verið sjálfsagður hlutur, að stjórnin sjálf, framkvæmdastjórinn, hefði upptökin að þess konar framfaraviðleitni. En hugsunarhátturinn var annar í gamla daga. Menn voru af gömlum vana löngu hættir að hugsa sér stjórnina öðruvísi en eins og dauðan hlut, er ekki hreyfði sig til nokkurs hlutar af sjálfsdáðum. Hún var eins og maskína, er þótti góðra gjalda vert að skilaði aftur út um annan endann því sem látið var inn um hinn, ekki eftir tvær mínútur, eins og slátrunar- og matreiðsluvélin, heldur eftir misseri og þaðan af lengri tíma. Frekara var eigi til ætlast að jafnaði, og sjálf þóttist stjórnin hafa meira en leyst hendur sínar með slíkum skilum. Það var jafnvel eigi fínt að gera meira, og það sem ekki er “fínt”, það er dauðadæmt.
Nema hvernig fór um uppástunguna um vegfræðinginn?
Það fór svo, að fyrst leiddi stjórnin málið hjá sér svo lengi sem hægt var, og svaraði síðan, þegar hún var búin að eyða vegabótafénu um það fjárhagstímabil til annars,, að það yrði nú að bíða í þetta sinn, af því að nú vantaði fé til þess. Stjórninni var svo tungutöm þessi setning frá þeim tímum, að hún ein hafði fjárráðin í höndum.
Til þess nú að þessu yrði ekki við barið oftar, tiltók þingið í næstu fjárlögum ákveðna upphæð til að útvega fyrir útlendan vegfræðing, 2.500 kr. hvort árið 1884 og 1885. Óvíst er hvort þetta hefði samt sem áður haft nokkurn árangur, hefði ekki einn mikils metinn og framtakssamur þingmaður tekið að sér að vera í útvegum um manninn fyrir stjórnarinnar hönd. Hann fékk manninn, og hann vel valinn, þar, sem sjálfsagt var að fá hann, vegna líkra landshátta, en það var í Noregi. Hafði einu sinni áður komið til landsins útlendur verkfræðingur, til að rannsaka brúarstæði á Þjórsá og Ölfusá, en hann varð endilega að vera danskur, og afleiðingin var sú, að verið var síðan í hálfan mannsaldur að þrátta um það, vort tiltækilegt væri að brúa árnar eða ekki, og hvar ætti að hafa brýrnar, í stað þess, að hefði sá, sem þetta rannsakaði fyrstu, verið maður verklega kunnugur viðlíka ám og líku landslagi, mundi hann hafa getað skorið úr þessu máli til fullnustu þegar í stað og þar með gjört enda á allri þrætu.
Hinn norski vegfræðingur kom, vorið 1884. En landsstjórnin var sjálfri sér lík. Hún hafði þá eigi haft hina minnstu fyrirhyggju til að hagnýta sér hann að neinu ráði. Þar sem hans þurfti helst við, og hægast var að ná til hans og nema af honum, gat hann ekki komist að, af því að þar voru hinir innlendu vegagjörðasnillingar fastráðnir fyrir og þurftu að afla sér fjár og frama eitt sumarið enn. Niðurstaðan varð þá sú, að hann var sendur út á landshorn og látinn dunda þar við lítinn vegarspotta, með fáeinum hræðum, er, voru fengnar að föngum til, sinn maðurinn hvern daginn, þegar þeir höfðu ekki annað að stunda, og sem ekki skyldu hinn útlenda mann. Í stað þess að fá honum valið lið, svo margt, sem efni leyfðu, saman safnað úr öllum landsins fjórðungum, til þess að leiðbeiningin yrði sem best notuð og kunnáttan dreifðist sem allra víðast undir eins, eftir því sem kostur var á.
Hinum norska vegfræðing – hann hét Hovdenak – bæði blöskraði og sárnaði þessi ráðsmennska svo mjög, að hann vildi eigi gefa kost á sér oftar hingað til lands til slíkra hluta. Hann var ötull maður, vel að sér og samviskusamur, og undi því mjög illa, að för hans hafði borið hálfu minni ávöxt en til var ætlast, þótt öðrum væri um að kenna.
Fjarri fór því samt sem áður, að för hans yrði árangurslaus. Þessir vegaspottar, sem hann gerði, báru langt af því, sem sést hafði áður hér á landi. Þeir voru lausir við óþarfa-hlykki og mishæðir, með velgjörðum rennum á báðar hliðar. Voru því hálfu greiðfærari fyrir það og vörðust miklu betur skemmdum. En það sem mest var í varið, var það, að þessi fyrsti norski vegfræðingur, er hér vann að vegagjörð, tók fyrir sig þegar í upphafi að hafa vegina eigi brattari en svo, og þannig gerða að öðru leyti, að vel mætti koma þar við vagni. Áður hafði lítið verið hugsað um að forðast miklar brekkur. Menn vorkenndu ekki mikið lungunum í skepnunum. Og að hugsa til að hafa hér vagnvegi, þótti þá slíkt stórræði, að það væri eigi takandi í mál. Því hefir orðið að gera að nýju nær alla vegi, sem lagðir voru hér á landi fyrstu 10-12 árin framan af.
III.
Áður en Hovdenak kom til sögunnar, hafði það menn frekast vita engum dottið í hug að nota hallamæli við vegagjörðir. Og svo var heimskan rík og hugsunarleysið, að þegar ferðamenn sáu hina miklu sneiðinga, sem Hovdenak bjó til upp Vestdalsheiði fyrir austan, þá formæltu þeir slíkri vitleysu í sand og ösku, að lengja svona veginn um helming eða meir. En það fór af, þegar þeir sáu, að hinn nýi vegur hans var jafn fljótfarinn og sá gamli, með því að það mátti skeiðríða hann upp og ofan, en munurinn sá, að á gamla veginum var hesturinn kominn að spreng af mæði, þegar upp kom, en blés ekki nös eftir nýja veginn. ---
- Þessi tilraun til að skoða sjálfan sig í skuggsjá ókominnar aldar mætti vera tilefni að vakna við og breyta til batnaðar ráðlagi voru í þessu efni.
Vér vonum fyrst og fremst, að nú verði ráð í tíma tekið með vegfræðing næsta sumar, bæði að ráða hann í tíma, fá honum nógu mikið og haganlegt verkefni, og sér í lagi gerðar í tíma ráðstafanir til að hann fái þá verkamenn, úr ýmsum landsfjórðungum, er numið geti af honum svo sem kostur er á. Síðan veitti ekki af að halda áfram með útlenda vegfræðinga að staðaldri, þangað til einhverjir innlendir væru orðnir þeim jafnsnjallir og gætu tekið við af þeim; mundi ráð að þingið styddi efnilega menn til þeirra hluta. Þetta fákænsku-kák, er hingað til hefir átt sér stað, einkum á Suðurlandi – það mun hafa verið talsvert skárra í öðrum landsfjórðungum, - má með engu móti líðast framar; það er óhæfileg fjársóun.
En um vegabæturnar sjálfar er það að segja, að einsætt er að snúa sem skjótast við blaðinu og hætta að leggja fjárgötur og hrossatroðninga, en hafa það reglulega vagnvegi, það lítið sem gert er af nýjum vegum, og þá auðvitað helst í byggð, þar sem þéttbýlast er. Láta sér að öðru leyti nægja að ryðja hina gömlu vegi svo, að þeir séu ekki alveg ófærir, eða viðlíka færir og þeir hafa lengst af verið.
Þetta mun þykja mikið í munni. En hvaða forsjálni eða framsýni er það, að vita fyrir víst, að hér hljóta að komst á vagnvegir með tímanum, ef landið leggst ekki í eyði von bráðar, og halda samt áfram að eyða stórfé í vegagjörðir, sem þá eru ónýtar? Eða hafa menn hins vegar gjört sér glögga grein fyrir, hve ómetanleg hlunnindi er að vagnvegum? Auk margvíslegra þæginda er það bæði mikill vinnusparnaður og sér ílagi stórkostlegur hestahaldssparnaður. Fækkun hrossa á heyjum og högum um helming, eða jafnvel miklu meir, greiðir götu fyrir fjölgun annars penings að svo miklum mun, að það má vera þungur vegabótaskattur, sem vegur til nokkurra muna upp á móti þeim gróða. Hins vegar stoðar ekki að láta koma hik á sig fyrir það, þótt ekki sé að hugsa til að fá vagnvegi um allt land á fáum árum. Það hlýtur að standa mjög lengi á því, hvort sem byrjað er á því fyrr eða síðar; en því lengur sem vér látum dragast að byrja á því, því lengra á það í land. Vér verðum að hafa þolinmæði og sýna þrek og sjálfsafneitun í þessu sem öðrum meiri háttar framkvæmdum, sem eiga að vera til frambúðar. Vér megum ekki setja það fyrir oss, þótt fæstir, sem nú lifa, geti átt von á að njóta til nokkurrar hlítar ávaxtanna af þessum framkvæmdum, eða þótt þær komi misjafnt niður á ýmsa landsins parta. Þjóðfélagið tekur jafnt fyrir alda sem óborna; því á allt, sem það framkvæmir, að vera eigi síður gert ókomnum kynslóðum til hagsældar. Þá fyrst er þjóð komin á óyggjandi framfarabraut, er slík fyrirhyggja fyrir ókomnum kynslóðum og þar af leiðandi sjálfsafneitun lýsir sér í öllum hennar framkvæmdum. Því menningarmeiri sem þjóðin er, því framsýnni er hún; Skrælinginn hugsar eigi fyrir morgundeginum.
Að hugsa hærra en að koma hér á vagnvegum og þar til heyrandi brúm yfir vatnsföll er að smíða sér loftkastala. Járnbrautir geta aldrei orðið almennar hér á landi; landið getur ekki orðið svo þéttbýlt, að svo dýrir vegir svari kostnaði, nema ef til vill á stöku stað og af sérstökum ástæðum. En lánist það sæmilega, sem nú er farið að reyna annarsstaðar, að koma við gufuvögnum á einföldum akvegum, án járnbrautar, þá verður það vort hjálpræði. Þá mundi oss eigi þess iðra, að vér hefðum varið vegabótafé voru í vagnvegi.