1880

Þjóðólfur, 11. sept. 1880, 32. árg., 24. tbl., bls. 94:

Brúa-málið. Eitt af lögum þeim, frá síðasta þingi voru, sem ekki náðu staðfestingu konungs fyrir þá sök að ráðherrann treystist ekki til að veita þeim meðmæli sitt, eru lögin um brúargjörð á Þjórsá og Ölfusá. Af því vér höfum áður í Þjóðólfi látið þá hugmynd í ljósi, að hafa mundi mega ferjur (dragferjur) á stórám þessum í stað brúa – ferjur, sem kostuðu lítið en dugað gætu eins og brýr, þann tíma ársins, sem vötn eru auð og íslaus, enda mest yfirferð yfir þær – þá setjum vér hér fylgjandi grein séra Jóns Bjarnasonar, eftir Ísafold: “Herra ritstjóri! Frá því fyrst að farið var opinberlega að hreyfa nauðsyninni á því, að brúa ýmsar af stóránum hér á Íslandi, hefir mér sýnst mjög vafasamt, hvort þau fyrirtæki myndu nokkurn tíma getað borgað sig. Og með tilliti til brúargjörðarinnar fyrirhuguðu á Þjórsá og Ölfusá, sýnist mér þetta nú orðið meira en vafasamt. Ég get ekki með nokkru móti skilið, að landið, eða fólkið í þeim héruðum, sem yfir þessar ár á að sækja, geti haft svo mikil not af brúnum yfir þær, sem svari hinum stórmikla kostnaði við smíði þeirra. En hvort sem mér nú sýnist rétt í þessu eða ekki, þá leyfi ég mér að benda á, hvernig greiða mætti með mjög litlum kostnaði úr örðuleik þeim, sem á því er að komast yfir ár þær, er þegar voru nefndar, og þá líka margar aðrar hér á landi. Það er með því að hafa á þeim dragferjur. En dragferja er eins konar flatbátur, aflangur timburfleki eða fljótandi bryggja, sem dregin er landa á milli á streng, er festur er niður beggja megin árinnar. Á strengnum er hert og slakað eftir því sem þarf með vindu, sem niður er sett við annan enda hans. Strengurinn er festur í þá hlið ferjunnar, sem snýr upp í móti straumi, og aftrar því þannig, að ferjuna hreki ofan eftir ánni, en ferjan er hægt og jafnt dregin yfir ána eftir strengnum. Ferjan getur verið svo stór eða lítil sem nauðsynlegt er á þeim eða þeim stað. En þar sem umferð er nokkuð mikil, þó ekki sé nema lítinn hluta sumarsins, eins og yfir Þjórsá og Ölfusá, þar þarf ferjan að vera svo stór, að hún í einu geti tekið allt að því tíu klyfjaða hesta. Og ef vel væri búið um landtökuna beggja megin árinnar, eins og þyrfti að vera, þá mætti ferja heila lest í einu yfir um, án þess klyfjarnar væru teknar af hestunum, og gætu lestamenn þannig komist yfir um ána nálega án allrar tafar. Auðvitað er, að einhver viss ferjumaður verður að vera við hverja ferju, og þarf hann náttúrlega að hafa húskofa yfir sig, annaðhvort á ferjunni sjálfri eða þá öðrum hvorum árbakkanum. Slíkar dragferjur á stóránum 1) hér á landi myndi um sumartímann gjöra alveg sama gagn eins og brýr, og í raun réttri miklu meira gagn, því ferjurnar, sem kosta svo lítið, mætti hæglega setja allstaðar þar á árnar, þar sem nokkur veruleg yfirferð þyrfti að vera; og enginn hugsar víst hærra, þó að brúargjörða-tillögunni væri fram fylgt, en að fá eina brú á hverja stórá. Um vetrartímann yrði ferjum náttúrlega ekki komið við, en vöruflutningar og ferðalög manna á vetrardag yfir árnar hér á landi hlyti líka ávallt að verða minni en svo, að gjörandi væri að brúa árnar þeirra vegna. Ég vil geta þess, að menn hafa dragferjur á ánum í Ameríku allstaðar þar sem auðsætt er að brýr borgi sig ekki. Sama er víða í öðrum löndum. – Englendingur einn, sem er orðinn heimagangur hér á Íslandi hefir fullyrt, að koma megi upp eins mörgum dragferjum og við þarf á Þjórsá og Ölfusá fyrir minna verð en kosta myndi flutningur frá sjó á efninu á hinni fyrirhugðu brú á aðra ána. Og þessu get ég vel trúað. 1). Flestar árnar í Skaftafellssýslu eru svo lagðar, að þær verða hvorki brúaðar, né heldur verður þar komið við dragferjum. Rvík í ágúst 1880. Jón Bjarnason. Þjóðólfur, 22. sept. 1880, 32. árg., 25. tbl., forsíða: Árnesingur skrifar m.a. um nauðsyn þess að vegir séu vel skipulagðir og þeir helstu brúaðir. Bréfkafli frá Árnesingi. Mikið þykir mér menn gjöra oss sveitabændum rangt, sem halda því fram, að búnaður sé í afturför hjá oss, en þessum mönnum er að því leyti vorkunn, að þeir eru sjálfir ókunnir en byggja allt á skýrslum, sem allir vita að ekkert er að marka. ¿.. ¿¿Það sem mér, og óefað mörgum fleirum, þó sárnar mest er það, hve mikinn tíma og kostnað vér verðum að leggja í sölurnar fyrir þessi mjög óhollu viðskipti. Árnessýsla er ein hin hægasta í landinu til aðdrátta og þó kostar það bónda úr miðri sýslu 6 kr. að ná að sér klyfjum á einn hest úr Reykjavík. Á Eyrarbakka, sem er miklu nær, er sjaldnast betra að fara, því versluninni þar þóknast að haga því svo, að bændur séu í efa um hvort betra sé að heimsækja hana eða fara suður og svona munu smákauptúnin víðar gjöra þar sem líkt stendur á. Bændur sem nokkuð eru megnandi eyða því frá 120 kr. til 200 kr. í tóma aðdrætti. Þegar menn bæði líta á þetta og svo verslunarástandið er varla láandi þó við raulum: “Sá hefur best úr býtum, sem búið getur að sínu einn”, álítum allt hollt heima og forðumst sem mest alla verslun og viðskipti, sem þó eru hin helsta auðsuppspretta allra annarra siðaðra þjóða, og meðan engin bót fæst ráðin á þessu skil ég ekki að búskapur vor geti náð nokkrum verulegum blóma. Hin besta hvöt fyrir bóndann til að auka búsafrakstur sinn og langtum betri en öll þessi offur og verðlauna veitingar, sem nú er farið að tíðka, er hægur og notalegur markaður, en þessa hvöt vantar oss Íslendinga með öllu. Vegir þeir sem gjörðir hafa verið hin síðari árin ráða litla sem enga bót á þessu, og er ég viss um að arðurinn af þeim, svarar ekki nærri til kostnaðarins við þá. Meðan bændur þurfa sama hrossa-fjölda og sama ógrynni af áhöldum til aðdrátta sinna og hingað til hefur verið, tel ég litla bót ráðna á þessum miklu vandræðum vorum. Með öðrum orðum, vér þurfum vagnvegi og einkum brúaðar ár, en þessu hefur hvorugu verið gefinn gaumur hingað til; brúagjörðinni yfir Þjórsá og Ölfusá, sem sýslubúar beiddu um í einu hljóði, var dauflega tekið af þinginu, en líklega alveg traðkað af stjórninni. Væri brú komin á Ölfusá væri það meiri léttir fyrir oss Árnesinga við aðdrætti vora frá Reykjavík og vöruflutning vorn þangað en þó leiðin væri stytt um Hellisheiði, og enginn efi er á því að brúin væri oss sveitamönnum langtum hentugri og arðmeiri og öll sú vegabót sem nú er gjörð úr Reykjavík og austur að ánni; en það er ekki von þeir skilji þetta, sem aldrei koma á bak eða fara í neina ferð til annars en til að leika sér. Það sem að minni hyggju mest mælir með brúnum, ekki einungis á Þjórsá og Ölfusá, heldur yfir allar þær ár, sem fjölfarin verslunargata eða þjóðleið liggur yfir, er það, að vegirnir eru ómögulegir án brúnna, en það álít ég lífsspursmál fyrir oss Íslendinga, og að því ætti að hafa í fyrirrúmi fyrir flestum ef ekki öllum nauðsynjum vorum. Með brúnum fengju vegirnir fastari stefnu og fækkuðu svo vegagjörðin yrði yfir höfuð langtum hægri viðfangs. Nú liggja vegirnir á ringulreið hingað og þangað: hreppavegir mætast ekki nærri alténd á hreppamótum og sýsluvegir drukkna í ánum á löggildum ferjustöðum: aðalvegir Árnesinga, sem fjöldi Rangæinga líka fer, til hins eina kauptúns í sýslunni er ýmist drepinn eða vakinn upp aftur og er ekki við góðu að búast meðan slíkt gengur. Sýslunefnd vor Árnesinga á annars litlar þakkir skilið fyrir umráð sín yfir og eftirlit sitt með vegunum, en það er nú ekki tiltökumál, því hún hefur hingað til hvorki þótt stórvirk né vandvirk. Flest af því fáa, sem hún hefur gjört, lýsir að mínu viti ófrelsisanda og næstum ófyrirgefanlegu ráðríki, sem miðar til alls annars en vekja menn til fjörs og framfara. Ef vagnvegir kæmust á mundu menn hafa mjög margt gott af því. Þá mundi hrossafjöldinn hverfa en í hans stað koma arðberandi fénaður, nautgripir og sauðir. Vagna mundu menn þá nota við heyflutning og önnur bústörf, sem væri mikill áhalda og verka sparnaður, og þegar vagnar væru orðnir almennir til sveita, sem ekki mundi langt að bíða ef vegina vantaði ekki, væri fyrst von um verulegar umbætur á byggingum vorum, því þá fyrst væri vinnandi að draga efni til steinbygginga, sem einar mundu reynast varanlegar og vel hafandi. Í hið minnsta í rigningunum á suðurlandi. En það ætlast til að bændur kaupi vagna og við hafi þá til heimilis þarfa, meðan þeir geta ekki notað þá til ferðalaga, er kostnaðarins vegna ofvaxið, og ber eigi heldur hálfan arð hvað þá meira. Eitt af því, sem ég skil ekki af aðgjörðum þingsins og hinnar nýju stjórnar, er hinn mikli áhugi sem lagður er á fjallvegina og tilkostnaðinn til þeirra. Margir af þeim vegum og allir, sem ekki eru verslunargata, en það eru fæstir þeirra, eru svo að segja óþarfir, og missa þýðingu sína að því skapi sem siglingar umhverfis landið aukast, sem óskandi er að verði meir og meir. Vegir yfir mjög marga fjallgarða hjá oss verða aðeins notaðir 3-4 mánuði á árinu einmitt þá sem siglingar eru fjörugastar hjá oss, og að kosta stórfé til slíkra vega einungis vegna pósta eða lausríðandi manna er, eins og ástand vort er enn, grátlegt ef það er ekki hlægilegt; og að tvístra þannig efnum þeim sem ætluð eru til vegagjörðar verður aðeins til þess að allt verður sem hálfverk, jafnvel óunnið. Öll sú vinna og öll þau efni sem nú eru ætluð til hreppavega, sýsluvega og fjallvega, ættu að notast einungis til þess að gjöra góða verslunar-vegi því á þeim ríður öllu fremur. Þann ókost hefur vegagjörð vor líka, að hún er fengin í hendur mönnum, sem aldrei hafa vegi séð og enga hugmynd hafa um að leggja þá þar, sem hentugast er, þeir eru líka sumir (kambavegurinn á Hellisheiði og líklega fleiri) lagðir þannig, að ekki er auðið að breyta þeim í vagnvegi þó menn vildu, sýnir þetta best framsýni og hyggindi hinna ráðandi í þessu efni. Eða er það álit þessara manna að vér getum ekki átt svo góða framtíð í vændum að ferðast á vagni, en eigum um aldur og æfi að hengja alla nauðsyn vora um þvert bak á drógum vorum. Daufar eru horfurnar á þúsund ára öldinni nýju.


Þjóðólfur, 11. sept. 1880, 32. árg., 24. tbl., bls. 94:

Brúa-málið. Eitt af lögum þeim, frá síðasta þingi voru, sem ekki náðu staðfestingu konungs fyrir þá sök að ráðherrann treystist ekki til að veita þeim meðmæli sitt, eru lögin um brúargjörð á Þjórsá og Ölfusá. Af því vér höfum áður í Þjóðólfi látið þá hugmynd í ljósi, að hafa mundi mega ferjur (dragferjur) á stórám þessum í stað brúa – ferjur, sem kostuðu lítið en dugað gætu eins og brýr, þann tíma ársins, sem vötn eru auð og íslaus, enda mest yfirferð yfir þær – þá setjum vér hér fylgjandi grein séra Jóns Bjarnasonar, eftir Ísafold: “Herra ritstjóri! Frá því fyrst að farið var opinberlega að hreyfa nauðsyninni á því, að brúa ýmsar af stóránum hér á Íslandi, hefir mér sýnst mjög vafasamt, hvort þau fyrirtæki myndu nokkurn tíma getað borgað sig. Og með tilliti til brúargjörðarinnar fyrirhuguðu á Þjórsá og Ölfusá, sýnist mér þetta nú orðið meira en vafasamt. Ég get ekki með nokkru móti skilið, að landið, eða fólkið í þeim héruðum, sem yfir þessar ár á að sækja, geti haft svo mikil not af brúnum yfir þær, sem svari hinum stórmikla kostnaði við smíði þeirra. En hvort sem mér nú sýnist rétt í þessu eða ekki, þá leyfi ég mér að benda á, hvernig greiða mætti með mjög litlum kostnaði úr örðuleik þeim, sem á því er að komast yfir ár þær, er þegar voru nefndar, og þá líka margar aðrar hér á landi. Það er með því að hafa á þeim dragferjur. En dragferja er eins konar flatbátur, aflangur timburfleki eða fljótandi bryggja, sem dregin er landa á milli á streng, er festur er niður beggja megin árinnar. Á strengnum er hert og slakað eftir því sem þarf með vindu, sem niður er sett við annan enda hans. Strengurinn er festur í þá hlið ferjunnar, sem snýr upp í móti straumi, og aftrar því þannig, að ferjuna hreki ofan eftir ánni, en ferjan er hægt og jafnt dregin yfir ána eftir strengnum. Ferjan getur verið svo stór eða lítil sem nauðsynlegt er á þeim eða þeim stað. En þar sem umferð er nokkuð mikil, þó ekki sé nema lítinn hluta sumarsins, eins og yfir Þjórsá og Ölfusá, þar þarf ferjan að vera svo stór, að hún í einu geti tekið allt að því tíu klyfjaða hesta. Og ef vel væri búið um landtökuna beggja megin árinnar, eins og þyrfti að vera, þá mætti ferja heila lest í einu yfir um, án þess klyfjarnar væru teknar af hestunum, og gætu lestamenn þannig komist yfir um ána nálega án allrar tafar. Auðvitað er, að einhver viss ferjumaður verður að vera við hverja ferju, og þarf hann náttúrlega að hafa húskofa yfir sig, annaðhvort á ferjunni sjálfri eða þá öðrum hvorum árbakkanum. Slíkar dragferjur á stóránum 1) hér á landi myndi um sumartímann gjöra alveg sama gagn eins og brýr, og í raun réttri miklu meira gagn, því ferjurnar, sem kosta svo lítið, mætti hæglega setja allstaðar þar á árnar, þar sem nokkur veruleg yfirferð þyrfti að vera; og enginn hugsar víst hærra, þó að brúargjörða-tillögunni væri fram fylgt, en að fá eina brú á hverja stórá. Um vetrartímann yrði ferjum náttúrlega ekki komið við, en vöruflutningar og ferðalög manna á vetrardag yfir árnar hér á landi hlyti líka ávallt að verða minni en svo, að gjörandi væri að brúa árnar þeirra vegna. Ég vil geta þess, að menn hafa dragferjur á ánum í Ameríku allstaðar þar sem auðsætt er að brýr borgi sig ekki. Sama er víða í öðrum löndum. – Englendingur einn, sem er orðinn heimagangur hér á Íslandi hefir fullyrt, að koma megi upp eins mörgum dragferjum og við þarf á Þjórsá og Ölfusá fyrir minna verð en kosta myndi flutningur frá sjó á efninu á hinni fyrirhugðu brú á aðra ána. Og þessu get ég vel trúað. 1). Flestar árnar í Skaftafellssýslu eru svo lagðar, að þær verða hvorki brúaðar, né heldur verður þar komið við dragferjum. Rvík í ágúst 1880. Jón Bjarnason. Þjóðólfur, 22. sept. 1880, 32. árg., 25. tbl., forsíða: Árnesingur skrifar m.a. um nauðsyn þess að vegir séu vel skipulagðir og þeir helstu brúaðir. Bréfkafli frá Árnesingi. Mikið þykir mér menn gjöra oss sveitabændum rangt, sem halda því fram, að búnaður sé í afturför hjá oss, en þessum mönnum er að því leyti vorkunn, að þeir eru sjálfir ókunnir en byggja allt á skýrslum, sem allir vita að ekkert er að marka. ¿.. ¿¿Það sem mér, og óefað mörgum fleirum, þó sárnar mest er það, hve mikinn tíma og kostnað vér verðum að leggja í sölurnar fyrir þessi mjög óhollu viðskipti. Árnessýsla er ein hin hægasta í landinu til aðdrátta og þó kostar það bónda úr miðri sýslu 6 kr. að ná að sér klyfjum á einn hest úr Reykjavík. Á Eyrarbakka, sem er miklu nær, er sjaldnast betra að fara, því versluninni þar þóknast að haga því svo, að bændur séu í efa um hvort betra sé að heimsækja hana eða fara suður og svona munu smákauptúnin víðar gjöra þar sem líkt stendur á. Bændur sem nokkuð eru megnandi eyða því frá 120 kr. til 200 kr. í tóma aðdrætti. Þegar menn bæði líta á þetta og svo verslunarástandið er varla láandi þó við raulum: “Sá hefur best úr býtum, sem búið getur að sínu einn”, álítum allt hollt heima og forðumst sem mest alla verslun og viðskipti, sem þó eru hin helsta auðsuppspretta allra annarra siðaðra þjóða, og meðan engin bót fæst ráðin á þessu skil ég ekki að búskapur vor geti náð nokkrum verulegum blóma. Hin besta hvöt fyrir bóndann til að auka búsafrakstur sinn og langtum betri en öll þessi offur og verðlauna veitingar, sem nú er farið að tíðka, er hægur og notalegur markaður, en þessa hvöt vantar oss Íslendinga með öllu. Vegir þeir sem gjörðir hafa verið hin síðari árin ráða litla sem enga bót á þessu, og er ég viss um að arðurinn af þeim, svarar ekki nærri til kostnaðarins við þá. Meðan bændur þurfa sama hrossa-fjölda og sama ógrynni af áhöldum til aðdrátta sinna og hingað til hefur verið, tel ég litla bót ráðna á þessum miklu vandræðum vorum. Með öðrum orðum, vér þurfum vagnvegi og einkum brúaðar ár, en þessu hefur hvorugu verið gefinn gaumur hingað til; brúagjörðinni yfir Þjórsá og Ölfusá, sem sýslubúar beiddu um í einu hljóði, var dauflega tekið af þinginu, en líklega alveg traðkað af stjórninni. Væri brú komin á Ölfusá væri það meiri léttir fyrir oss Árnesinga við aðdrætti vora frá Reykjavík og vöruflutning vorn þangað en þó leiðin væri stytt um Hellisheiði, og enginn efi er á því að brúin væri oss sveitamönnum langtum hentugri og arðmeiri og öll sú vegabót sem nú er gjörð úr Reykjavík og austur að ánni; en það er ekki von þeir skilji þetta, sem aldrei koma á bak eða fara í neina ferð til annars en til að leika sér. Það sem að minni hyggju mest mælir með brúnum, ekki einungis á Þjórsá og Ölfusá, heldur yfir allar þær ár, sem fjölfarin verslunargata eða þjóðleið liggur yfir, er það, að vegirnir eru ómögulegir án brúnna, en það álít ég lífsspursmál fyrir oss Íslendinga, og að því ætti að hafa í fyrirrúmi fyrir flestum ef ekki öllum nauðsynjum vorum. Með brúnum fengju vegirnir fastari stefnu og fækkuðu svo vegagjörðin yrði yfir höfuð langtum hægri viðfangs. Nú liggja vegirnir á ringulreið hingað og þangað: hreppavegir mætast ekki nærri alténd á hreppamótum og sýsluvegir drukkna í ánum á löggildum ferjustöðum: aðalvegir Árnesinga, sem fjöldi Rangæinga líka fer, til hins eina kauptúns í sýslunni er ýmist drepinn eða vakinn upp aftur og er ekki við góðu að búast meðan slíkt gengur. Sýslunefnd vor Árnesinga á annars litlar þakkir skilið fyrir umráð sín yfir og eftirlit sitt með vegunum, en það er nú ekki tiltökumál, því hún hefur hingað til hvorki þótt stórvirk né vandvirk. Flest af því fáa, sem hún hefur gjört, lýsir að mínu viti ófrelsisanda og næstum ófyrirgefanlegu ráðríki, sem miðar til alls annars en vekja menn til fjörs og framfara. Ef vagnvegir kæmust á mundu menn hafa mjög margt gott af því. Þá mundi hrossafjöldinn hverfa en í hans stað koma arðberandi fénaður, nautgripir og sauðir. Vagna mundu menn þá nota við heyflutning og önnur bústörf, sem væri mikill áhalda og verka sparnaður, og þegar vagnar væru orðnir almennir til sveita, sem ekki mundi langt að bíða ef vegina vantaði ekki, væri fyrst von um verulegar umbætur á byggingum vorum, því þá fyrst væri vinnandi að draga efni til steinbygginga, sem einar mundu reynast varanlegar og vel hafandi. Í hið minnsta í rigningunum á suðurlandi. En það ætlast til að bændur kaupi vagna og við hafi þá til heimilis þarfa, meðan þeir geta ekki notað þá til ferðalaga, er kostnaðarins vegna ofvaxið, og ber eigi heldur hálfan arð hvað þá meira. Eitt af því, sem ég skil ekki af aðgjörðum þingsins og hinnar nýju stjórnar, er hinn mikli áhugi sem lagður er á fjallvegina og tilkostnaðinn til þeirra. Margir af þeim vegum og allir, sem ekki eru verslunargata, en það eru fæstir þeirra, eru svo að segja óþarfir, og missa þýðingu sína að því skapi sem siglingar umhverfis landið aukast, sem óskandi er að verði meir og meir. Vegir yfir mjög marga fjallgarða hjá oss verða aðeins notaðir 3-4 mánuði á árinu einmitt þá sem siglingar eru fjörugastar hjá oss, og að kosta stórfé til slíkra vega einungis vegna pósta eða lausríðandi manna er, eins og ástand vort er enn, grátlegt ef það er ekki hlægilegt; og að tvístra þannig efnum þeim sem ætluð eru til vegagjörðar verður aðeins til þess að allt verður sem hálfverk, jafnvel óunnið. Öll sú vinna og öll þau efni sem nú eru ætluð til hreppavega, sýsluvega og fjallvega, ættu að notast einungis til þess að gjöra góða verslunar-vegi því á þeim ríður öllu fremur. Þann ókost hefur vegagjörð vor líka, að hún er fengin í hendur mönnum, sem aldrei hafa vegi séð og enga hugmynd hafa um að leggja þá þar, sem hentugast er, þeir eru líka sumir (kambavegurinn á Hellisheiði og líklega fleiri) lagðir þannig, að ekki er auðið að breyta þeim í vagnvegi þó menn vildu, sýnir þetta best framsýni og hyggindi hinna ráðandi í þessu efni. Eða er það álit þessara manna að vér getum ekki átt svo góða framtíð í vændum að ferðast á vagni, en eigum um aldur og æfi að hengja alla nauðsyn vora um þvert bak á drógum vorum. Daufar eru horfurnar á þúsund ára öldinni nýju.