Umferðarþjónusta - Tilkynning - 22.6.2017

Ingibjörg Daníelsdóttir 2017-06-22 20:23

Frá veðurfræðingi

Í fyrramálið hvessir af norðaustri, sérstaklega austan- og suðaustanlands.  Frá því á milli kl. 06 og 09 er staðbundið  reiknað með hviðum allt að 35 m/s frá Suðursveit, um Hornafjörð og Lón. Eins vestar við Fagurhólsmýri og Kvísker með hviður um 30 m/s.  Betra skjól verður líklega á Skeiðarársandi og vestan við Öræfajökul.  

Hjólreiðakeppnin WOW Cyclothon

Nú stendur yfir hjólreiðakeppnin WOW Cyclothon þar sem hjólað er réttsælis hringinn í kringum landið.  Hjólað er að mestu á Hringveginum en þó er farið um Öxi og á Suðurlandi verður farið frá Selfossi niður í Ölfus og svo  um Suðurstrandarveg og Krýsuvíkurveg til Hafnarfjarðar. - Mikilvægt er að vegfarendur sýni sérstaka aðgát og tillitsemi meðan svo margt hjólafólk er á ferðinni.

Malbikun á Höfuðborgarsvæðinu

Á fimmtudagskvöld og nótt 22.-23. júní er stefnt að því að malbika beygjuakreinar á Hafnarfjarðarvegi, við gatnamót Engidals. Báðum akreinum verður lokað á meðan, það verður sett upp hjáleið og má búast við umferðartöfum frá kl. 18:30 til kl. 02:00.

Á morgun  er stefnt á að malbika báðar akreinar á Reykjavíkurvegi, frá gatnamótum Engidals að Stakkahrauni. Báðum akreinum verður lokað á meðan, það verður sett upp hjáleið og má búast við umferðartöfum frá kl. 09:00 til kl. 16:00.

Einnig er stefnt á að malbika hringtorg við Nónhæð. Arnarnesvegur verður lokaður til vesturs, sett verður upp hjáleið og má búast við umferðartöfum frá kl. 12:00 til kl. 18:00.

Vaðlaheiðarvegur

Vaðlaheiðarvegur 832 hefur verið opnaður að hluta, þ.e. 12 km kafli upp úr Eyjafirði en vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng í Fnjóskadal er ekki hægt að láta umferð fara um vinnusvæðið við Skóga, því er veginum lokað við Ytra Nesgil. Öll umferð upp úr Fnjóskadal er því bönnuð.

Framkvæmdir á Reykjanesbraut og Krýsuvíkurvegi

Unnið er við mislæg vegamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar í Hafnarfirði. Umferð fer á kafla um hjáleið á Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar. Leyfður umferðarhraði þar er 50 km/klst. Vegna vinnu við sprengingar á framkvæmdasvæðinu þarf að stöðva umferð á Reykjanesbraut í skamman tíma, allt að þrisvar sinnum á dag.

Krýsuvíkurvegi hefur verið lokað tímabundið, milli Rauðhellu og hringtorgs við Hraunhellu / Hringhellu. Merkt hjáleið er um Rauðhellu og Hringhellu á meðan lokun Krýsuvíkurvegar varir (u.þ.b. til 24 júní).

Einnig er verið að byggja nýtt hringtorg á  Krýsuvíkurvegi (42), en um er að ræða gatnatengingar að Dofrahellu og Ásvallabraut (Klukkutorg).  Í upphafi verður unnið meðfram Krýsuvíkurvegi (42) og síðar í sumar verður umferð færð yfir á hjáleið við hlið framkvæmdasvæðis. Gert er ráð fyrir að hringtorgið verði tekið í notkun 1. september 2017. - Vegfarendur eru beðnir að sýna aðgát og virða umferðarmerkingar við vinnusvæðin.

Umferðartafir á Hringvegi

Vegna endurbóta á Hringvegi í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu er umferðarhraði takmarkaður við 50 km/klst á framkvæmdasvæðinu fram í miðjan júlí. Þrengt er að umferð og má búast við lítilsháttar umferðartöfum á meðan framkvæmdir standa yfir. - Vegfarendur eru beðnir um að virða hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðið þar sem menn og tæki eru við vinnu á og við akbrautina.

Búast má við umtalsverðum umferðartöfum á brúnni á Jökulsá í Lóni, um 20-30 mín í senn, milli kl 07.00 – 19.00  fram til 15. júlí vegna framkvæmda.