Matsskýrslur
  • Vestfjarðavegur yfirlit veglínur

Vestfjarðavegur (60), milli Bjarkalundar og Skálaness - Matsskýrsla

28.2.2017

Vegagerðin hefur lagt fram matsskýrslu fyrir Vestfjarðaveg milli Bjarkalundar og Skálaness, sem unnin er á grundvelli frummatsskýrslu. Framkvæmdin ber heitið Vestfjarðavegur (60), milli Bjarkalundar og Skálaness í Reykhólahreppi.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir framkomnum athugasemdum og umsögnum við frummatsskýrslu og tekin afstaða til þeirra. Þann 16. febrúar 2017 sendi Vegagerðin matsskýrslu til yfirlestrar Skipulagsstofnunar og hafa framlögð gögn verið yfirfarin. Skipulagsstofnun hefur móttekið matsskýrsluna í samræmi við 11. gr. laga nr. 106/2000 m.s.br. um mat á umhverfisáhrifum.

Innan fjögurra vikna frá því að Skipulagsstofnun tekur á móti matsskýrslu skal stofnunin gefa rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Í áliti Skipulagsstofnunar skal gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess. Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu. Álits Skipulagsstofnunar er að vænta í síðasta lagi 27. mars 2017.

Þegar álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir skal það kynnt umhverfisráðherra, framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og öðrum umsagnaraðilum, svo og þeim sem gert hafa athugasemdir við frummatsskýrslu á kynningartíma. Almenningur skal eiga greiðan aðgang að áliti Skipulagsstofnunar og matsskýrslu og skal stofnunin auglýsa í dagblaði sem gefið er út á landsvísu að álitið og matsskýrslan liggi fyrir.