Matsskýrslur
  • Suðurlandsvegur -

Tvöföldun Suðurlandsvegar frá Hveragerði og austur fyrir Selfoss

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum

16.6.2010

Skipulagsstofnun hefur gefið álit sitt um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 m.s.b. Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að áhrif tvöföldunar Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss hafi óhjákvæmilega í för með sér talsverðar breytingar á hljóðvist og ásýnd svæðisins auk þess sem áhrif á gróður og fugla verða talsvert neikvæð af veglínu 1, en áhrif á jarðmyndanir verða ekki veruleg, hvorki af veglínu 1 eða veglínu 2. Stofnunin telur að veglína 1 muni ekki hafa veruleg áhrif á menningarminjar en veglína 2 kunni að hafa talsverð áhrif. Skipulagsstofnun telur að sjónræn áhrif veglínu 2 og áhrif á gróður, fugla og útivist verði neikvæðari en af veglínu 1, en ákveðin óvissa ríki um hversu mikil þau kunni að vera.

Eitt af markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum er að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmda. Í því ljósi bendir Skipulagsstofnun framkvæmdaraðila og leyfisveitendum á að með því að taka ákvörðun um þann valkost sem hefur síður neikvæð umhverfisáhrif og fallast á tillögur stofnunarinnar um skilyrði fyrir framkvæmdinni sé komið til móts við fyrrgreint markmið laganna.

Skipulagsstofnun telur að við leyfisveitingar þurfi að setja eftirfarandi skilyrði fyrir framkvæmdinni og byggja á rökstuðningi í niðurstöðukafla álitsins.

1. Vegagerðin leggi fram samhliða beiðni um framkvæmdaleyfi áætlun um vöktun umferðarþróunar um Suðurlandsveg. Í áætluninni sé jafnframt tryggt að viðkomandi sveitarstjórnum verði kynntar reglulega niðurstöður vöktunarinnar og gerð grein fyrir því tímanlega hvenær umferð nálgist þau mörk að grípa þurfi til aðgerða til að koma í veg fyrir að hljóðstig fari viðmiðunarmörk reglugerðar um hávaða.

2. Vegagerðin leggi fram samhliða beiðni um framkvæmdaleyfi greinargerð og samninga um það votlendissvæði sem ætlunin er að endurheimta á móti því sem tapast, helst í nágrenni framkvæmdarinnar.

3. Vegagerðin leggi fram samhliða beiðni um framkvæmdaleyfi vöktunaráætlun, í samráði við fuglafræðinga, þar sem vakta skal áflug fugla á fyrirhugaða brú yfir Ölfusá. Í áætluninni sé tilgreint í hverju vöktunin felist og sett skilgreind viðmið um hvenær ástæða þyki til að grípa til mögulegra mótvægisaðgerða í samráði við Umhverfisstofnun.

Álit Skipulagsstofnunar

Tvöföldun frá Hveragerði og austur fyrir Selfoss - Endanleg matsskýrsla