Tilkynning um færð og ástand

Umferðarþjónusta - Tilkynning - 13.10.2017

13.10.2017 12:32

Lokun á Hvalfjarðargöngum

Hvalfjarðargöng verða lokuð fyrir umferð í þrjár nætur í næstu viku (42. viku) vegna viðhalds og hreingerningar.

Lokað verður aðfaranætur þriðjudags 17., miðvikudags 18. og fimmtudags 19. október frá miðnætti til kl. 6 að morgni.

Það er árlegur viðburður í rekstri ganganna að loka þeim í nokkrar nætur að vori og hausti af þessu tilefni. Lokun nú er því hefðbundin ráðstöfun og beðist er velvirðingar á óþægindum sem hún kann að valda.


Framkvæmdir

Í dag föstudaginn 13. október má búast við 15 til 30 mín. töfum eftir hádegi vegna framkvæmda á Hringvegi í Berufirði.

Unnið verður við viðgerðarvinnu á Reykjanesbraut, á milli Keflavíkur og Hafnafjarðar föstudaginn 13.október frá kl 10.00 og fram eftir degi. Þrengt verður að umferð við vinnusvæðin og umferð stýrt framhjá ef þarf á meðan framkvæmdum stendur.

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Vinnusvæðin eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.

Framkvæmdir á Krýsuvíkurvegi 

Unnið er við mislæg vegamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar í Hafnarfirði. Umferð fer á kafla um hjáleið á Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar. Leyfður umferðarhraði þar er 50 km/klst. Vegna sprenginga þarf að stöðva umferð á Reykjanesbraut í stutta stund, allt að þrisvar sinnum á dag.

Hálendisvegir

Færð á hálendisvegum hefur spillst og hafa margir þeirra orðið ófærir. Við bendum vegfarendum á að fylgjast vel með færðarkortinu og veðurspá ef þeir ætla inn á hálendið.

Vaðlaheiðarvegur

Vaðlaheiðarvegur 832 er opinn að hluta, þ.e. 12 km kafli upp úr Eyjafirði en vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng í Fnjóskadal er ekki hægt að láta umferð fara um vinnusvæðið við Skóga. Því er veginum lokað við Ytra Nesgil og öll umferð upp úr Fnjóskadal er bönnuð.