Tilkynning um færð og ástand

Umferðarþjónusta - Tilkynning - 11.10.2017

11.10.2017 14:00


Framkvæmdir á Hellisheiði

Í dag miðvikudaginn 11. október verður unnið við viðgerðir á ytri akrein milli Lögbergsbrekku og Bláfjallaafleggjara. Þrengt verður að umferð við vinnusvæðin og umferð stýrt framhjá ef þarf á meðan framkvæmdum stendur. Vinnan fer fram frá kl. 14:00 og fram eftir degi.

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Vinnusvæðin eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.

Reykjanesbraut, nýtt hringtorg við Þjóðbraut

Miðvikudaginn 11. október og fimmtudaginn 12. október verður unnið við malbikun á nýju hringtorgi við Þjóðbraut. Umferð verður beint um hjáleiðir framhjá vinnusvæðinu.

Framkvæmdir á Krýsuvíkurvegi 

Unnið er við mislæg vegamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar í Hafnarfirði. Umferð fer á kafla um hjáleið á Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar. Leyfður umferðarhraði þar er 50 km/klst. Vegna sprenginga þarf að stöðva umferð á Reykjanesbraut í stutta stund, allt að þrisvar sinnum á dag.

Hálendisvegir

Færð á hálendisvegum hefur spillst og hafa margir þeirra orðið ófærir. Við bendum vegfarendum á að fylgjast vel með færðarkortinu og veðurspá ef þeir ætla inn á hálendið.

Vaðlaheiðarvegur

Vaðlaheiðarvegur 832 er opinn að hluta, þ.e. 12 km kafli upp úr Eyjafirði en vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng í Fnjóskadal er ekki hægt að láta umferð fara um vinnusvæðið við Skóga. Því er veginum lokað við Ytra Nesgil og öll umferð upp úr Fnjóskadal er bönnuð.